Hæstiréttur íslands

Mál nr. 156/2005


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Hegningarauki
  • Ítrekun
  • Vanaafbrotamaður


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. janúar 2006.

Nr. 156/2005.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Einari Snæbirni Eyjólfssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Þjófnaður. Hegningarauki. Ítrekun. Vanaafbrotamaður.

E var með dómi héraðsdóms sakfelldur fyrir þjófnað með því að hafa stolið þremur DVD-diskasöfnum úr verslun. Öryggisvörður bar að E hafi gengið út um öryggishlið verslunarinnar með varninginn innanklæða, en snúið við inn í verslunina er þjófavarnarkerfi fór í gang. Þá bar hann að E hafi viðurkennt þjófnaðinn og var það einnig skráð í frumskýrslu lögreglu. E neitaði sök fyrir dómi og kvaðst eingöngu hafa gengið áleiðis að öryggishliðinu en farið of nærri. Framburður lögreglumannanna um játningu E í þeirra viðurvist hafði ekki sönnunargildi í málinu og naut því ekki annarra sönnunargagna um ætlaðan þjófnað E en framburðar öryggisvarðar. Gegn neitun E og með hliðsjón af 1. mgr. 48. gr. laga um meðferð opinberra mála var ósannað að E hafi gerst sekur um þjófnaðinn og var hann því sýknaður af þeim sakargiftum. Þá voru E einnig gefin að sök tvö önnur þjófnaðarbrot, þar á meðal að hafa stolið nánar tilgreindri fartölvu ásamt gögnum og fylgihlutum, að áætluðu verðmæti hátt í 10 milljónir króna. Var það talið langt umfram það sem venjulegt geti talist um muni af þessu tagi. Ekki naut þó annarra gagna í málinu um verðmæti varningsins en lista sem fylgdi bótakröfu vegna þjófnaðarins, sem E hafði mótmælt sem of hárri. Var því talið óupplýst hvert var verðmæti þess sem E tók þátt í að stela umrætt sinn og var við ákvörðun refsingar miðað við að það hafi verið miklum mun lægra en áætlað var í ákæru. Var refsing E ákveðin fangelsi í átta mánuði með vísan til 71. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 11. apríl 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu að því er varðar dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2005, en þyngingar á samanlagðri refsingu samkvæmt honum og dómi Héraðsdóms Reykjaness 24. sama mánaðar.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds samkvæmt dómi 11. febrúar 2005, en til vara að refsing samkvæmt þeim dómi verði milduð. Þá krefst hann þess að refsing samkvæmt dómi 24. sama mánaðar verði milduð.

I.

Með ákæru 2. nóvember 2004 var ákærða gefið að sök að hafa laugardaginn 25. september 2004 stolið þremur DVD-diskasöfnum úr versluninni A, samtals að verðmæti 14.697 krónur. Var brotið talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með áðurnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var ákærði sakfelldur fyrir þessa háttsemi. Málavöxtum er réttilega lýst í héraðsdómi að öðru leyti en því að aðeins annar lögreglumannanna minntist þess í yfirheyrslu fyrir dómi að hafa séð ætlað þýfi á vettvangi. Eins og fram kemur í héraðsdómi bar öryggisvörður verslunarinnar fyrir dómi að ákærði hafi gengið gegnum öryggishlið verslunarinnar með varninginn innanklæða, en snúið við er þjófavarnarkerfi fór í gang og farið aftur inn í verslunina. Sagði hann að þjófavörn hafi verið farin af einu diskasafninu, á öðru hafi hún verið farin af að hluta og átt hafi verið við umbúðirnar á því þriðja. Þá bar hann jafnframt að ákærði hafi viðurkennt á vettvangi að hafa ætlað að taka diskana ófrjálsri hendi. Í frumskýrslu lögreglu, sem kom á vettvang að beiðni öryggisvarðar, er skráð að ákærði hafi viðurkennt þjófnaðinn. Báðir lögreglumennirnir komu fyrir dóm og staðfestu að ákærði hafi viðurkennt brotið á staðnum. Fyrir dómi hefur ákærði neitað sök. Hann kveðst ekki hafa gengið út um öryggishlið verslunarinnar með diskana, heldur farið áleiðis að hliðinu í þeim tilgangi að ræða við félaga sinn, er staðið hafi fyrir utan verslunina, en farið of nærri þjófavarnarkerfinu. Hann hafi gengið til baka inn í verslunina þegar viðvörunarhljóð heyrðust úr kerfinu. Þá kannaðist hann hvorki við að hafa haft diskana innanklæða né að hafa tekið þjófavörn af vörunni.

Ákærði hefur sem fyrr segir neitað sakargiftum fyrir dómi, en framburður lögreglumannanna um játningu hans í þeirra viðurvist á vettvangi hefur ekki sönnunargildi í málinu. Í því nýtur ekki annarra sönnunargagna um ætlaðan þjófnað hans en framburðar öryggisvarðar. Gegn neitun ákærða og með hliðsjón af 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er ósannað að hann hafi gerst sekur um þessa háttsemi. Verður hann því sýknaður af sakargiftum sem fjallað er um í ákæru 2. nóvember 2004. 

II.

Með ákæru 6. janúar 2005 voru ákærða gefin að sök tvö þjófnaðarbrot. Annars vegar var hann sakaður um að hafa 29. mars 2004 í félagi við X og Y stolið nánar tilgreindri fartölvu ásamt gögnum og fylgihlutum að áætluðu verðmæti 9.343.800 krónur, úr bifreið sem stóð við C. Hins vegar var honum gefið að sök að hafa 22. ágúst 2004 ásamt áðurnefndum X stolið ýmsum nánar tilgreindum verðmætum, samtals að áætluðu verðmæti 1.250.000 krónur. Ákærði játaði sakargiftir og var farið með málið sem játningarmál samkvæmt 125. gr laga nr. 19/1991 og það dæmt í Héraðsdómi Reykjaness 24. febrúar 2005. Ákærði hafnaði hins vegar að greiða skaðabótakröfu sem gerð var vegna þjófnaðarins 29. mars 2004 þar sem hann taldi kröfuna of háa, og órökstudda, en hún var meðal annars á því reist að verðmæti tölvunnar hafi numið 9.343.800 krónum. Kröfunni var vísað frá dómi og er hún ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti.

Eins og fyrr segir hefur ákærði játað að hafa stolið umræddri fartölvu „ásamt gögnum og fylgihlutum“. Verðmæti tölvunnar ásamt fylgihlutum og gögnum, þar á meðal forrita og fjölda ljósmynda, sem eigandi hennar kvað hana hafa haft að geyma og ekki komust til skila, er í ákæru áætlað hátt í 10 milljónir króna, sem er langt umfram það sem venjulegt getur talist um muni af þessu tagi. Þrátt fyrir það nýtur ekki annarra gagna í málinu en lista sem fylgdi bótakröfunni. Er því óupplýst hvert var verðmæti þess sem ákærði tók þátt í að stela umrætt sinn. Verður því við það miðað að það hafi verið að miklum mun lægra en áætlað er í ákæru. 

III.

Brot ákærða 29. mars 2004 var framið áður en hann var dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness 6. maí 2004 í 15 mánaða fangelsi, en sú niðurstaða var staðfest með dómi Hæstaréttar 20. janúar 2005 í máli nr. 241/2004. Verður honum því ákveðinn hegningarauki fyrir þetta brot samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar var þjófnaðarbrotið 22. ágúst 2004 framið eftir uppsögu héraðsdómsins 6. maí 2004 og hefur sá dómur því ítrekunaráhrif á það brot samkvæmt 71. gr. laganna. Við ákvörðun refsingar ákærða verður að taka mið af því að andlag þjófnaðarins 29. mars 2004 verður sem fyrr segir að telja að miklum mun minna verðgildi en áætlað er í ákæru. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms Héraðsdóms Reykjaness 24. febrúar 2005 er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði.

Ákærði verður dæmdur til að greiða helming sakarkostaðar í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um málskostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins í dómsorði greinir. Hinn helming sakarkostnaðar skal greiða úr ríkissjóði.

Dómsorð:

Ákærði, Einar Snæbjörn Eyjólfsson, sæti fangelsi í átta mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði vegna dóms Héraðsdóms Reykjaness 24. febrúar 2005, 62.250 krónur, sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns.

Allur sakarkostnaður í héraði vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2005, 68.475 krónur, greiðist úr ríkissjóði. 

Ákærði greiði helming sakarkostnaðar fyrir Hæstarétti, 133.377 krónur, þar með talin helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur, en hinn helmingur sakarkostnaðar, 133.377 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

                                                                                                                 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 31. janúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 2. nóvember 2004 á hendur Einari Snæbirni Eyjólfs­syni, kt. 060674-2999, Jörfabakka 18, Reykjavík, fyrir þjófnað með því að hafa laugardaginn 25. september 2004 í versluninni A, stolið 3 DVD-diskasöfnum, samtals að verðmæti 14.697 krónur.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af refsikröfu ákærufvalds og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

Laugardaginn 25. september 2004 var óskað aðstoðar lögreglunnar í Reykjavík að versluninni  A. Í skýrslu lögreglu kemur fram að ákærði hafi verið hjá öryggisverði og að hann hafi verið kærður fyrir þjófnað á þrem DVD diskasöfnum. Hafi öryggisvörðurinn gefið þær upplýsingar að þjófavarnakerfi hafi farið í gang er ákærði hafi farið í gegnum öryggishlið á leið út úr versluninni. Ákærði hafi við hljóðið snúið við og gengið aftur inn í verslunina, þar sem afskipti hafi verið höfð af honum. Ákærði hafi verið með DVD diskasöfnin framan á sér undir úlpu og hafi verið búið að rífa þjófavörn af hluta diskanna. Er tekið fram í skýrslu lögreglu að ákærða hafi verið gerð grein fyrir réttarstöðu sinni og hafi hann viðurkennt þjófnaðinn fyrir lögreglu. Ekki hafi hann verið með fjármuni eða greiðslukort meðferðis. 

Fyrir dómi hefur ákærði neitað sök. Hefur hann greint frá því að umrætt sinn hafi hann verið í verslun A m.a. að skoðað fatnað og DVD diska og verið með diskasöfn í hendi er hann hafi farið áleiðis að öryggishliðið verslunarinnar í þeim tilgangi að ræða við félaga sinn er hafi verið fyrir utan verslunina. Ákærði hafi farið of nærri þjófavarnarkerfinu, sem í því hafi gefið frá sér viðvörunarhljóð. Við svo búið hafi ákærði gengið aftur inn í verslunina. Þá hafi öryggisvörður komið að ákærða og borið við að hann teldi ákærða hafa ætlað að stela diskasöfnunum. Því hafi ákærði neitað. Öryggisvörðurinn hafi hringt á lögreglu sem komið hafi á staðinn. Ekki kvaðst ákærði kannast við að hafa viðurkennt þjófnað á diskunum fyrir lögreglu. Þá kvaðst hann ekki heldur kannast við að hafa tekið þjófavörn af vörunni. Þá kvað ákærði ekki rétt er fram hafi komið hjá öryggisverði að ákærði hafi verið með diskasöfnin undir úlpu er þjófavarnakerfið hafi farið í gang.

Fyrir dóminn kom B, öryggisvörður hjá Securitas. Kvaðst vitnið hafa veitt ákærða athygli þar sem hann hafi verið á leið út úr verslun A. Hafi ákærði haldið um jakka sinn eins og hann væri að hlífa einhverju eða fela. Er ákærði hafi gengið í gegnum öryggishlið verslunarinnar hafi þjófavarnarkerfið farið í gang. Hafi ákærði þá snúið við og gengið rakleitt inn í verslunina. Hafi öryggisvörðurinn gengið að ákærða, sem hafi umsvifalaust rétt honum 3 DVD diskasöfn. Hafi vitnið farið með ákærða afsíðis og kallað til annan öryggisvörð og lögreglu. Jafnframt hafi vitnið nálgast kvittun úr afgreiðslukassa verslunarinnar, eins og jafnan sé gert við slíkar aðstæður, til að verðmæti varningsins lægi frammi. Ákærði hafi viðurkennt fyrir vitninu að hafa ætlað að stela umræddum varningi. Gat vitnið þess að átt hafi verið við þjófavörn á einhverjum diskana, en augljóslega hafi verið reynt að rífa hana af.

Lögreglumennirnir Arndís Sveinsdóttir og Kristján Helgi Þráinsson sinntu kalli öryggisvarðarins B. Báru þau að ákærði hafi verið hjá öryggisverði er þau hafi komið í verslunina. DVD diskasöfn hafi legið þar á borði og hafi verið búið að rífa þjófavörn af einhverjum diskum. Tóku vitnin fram að ákærða hafi í upphafi verið gerð grein fyrir réttarstöðu sinni sem sakborningi í opinberu máli. Ákærði hafi í þeirra viðurvist viðurkennt að hafa ætlað að stela umræddum diskasöfnum. Hafi hann lýst því að hann hafi sett umrædd söfn á sig innanklæða. Þjófavarnakerfi verslunar­innar hafi farið í gang er hann hafi ætlað út úr versluninni og hafi hann þá umsvifa­laust snúið við og farið aftur inn í verslunina. Hafi ákærði ekki verið með fjármuni á sér. Tóku vitnin fram að í tilvikum sem þessum væri varningur sá er um ræddi ekki haldlagður, heldur væri honum þegar komið í hendur starfsmanni verslunarinnar. 

 Með vísan til framburðar öryggisvarðarins B og lögreglu­mannanna Arndísar Sveinsdóttur og Kristjáns Helga Þráinssonar er fram komið að ákærði hafi verið á leið út úr verslun A umrætt sinn með 3 DVD diskasöfn meðferðis, er þjófavarnarkerfi verslunarinnar fór af stað. Þó svo ekki liggi fyrir myndir úr öryggismyndavélakerfi verslunarinnar verður því slegið föstu, að ákærði hafi verið kominn í gegnum öryggishlið verslunarinnar þegar svo var komið. Viðbárum hans um að hann hafi verið að ræða við kunningja sinn er staðið hafi fyrir utan verslunina og að hann hafi gengið of nærri útgangi í því skyni er hafnað, en ákærði upplýsti ekki lögreglu eða öryggisvörð um þessi atriði á vettvangi. Verður við það miðað að ákærði hafi umrætt sinn ætlað að slá eign sinni á diskasöfnin. Með verknaði sínum hefur ákærði fullframið brot gegn 244. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði er fæddur 1974. Á hann að baki talsverðan sakaferil, allt frá árinu 1992, en um er að ræða 13 refsidóma, 2 viðurlagaákvarðanir og 10 sáttir. Er hér sérstaklega tiltekið að 6. maí 2004 var ákærði dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir brot gegn ákvæðum laga nr. 19/1940, þ. á m. 244. gr. Þeim dómi áfrýjaði ákærði til Hæsta­réttar Íslands, sem með dómi 20. janúar 2005 staðfesti 15 mánaða fangelsisrefsingu ákærða. Þá var ákærði 10. maí 2004 dæmdur fyrir brot gegn 244. gr., en ekki gerð refsing það sinn þar sem um hegningarauka við refsidóminn frá 6. maí var að ræða. Brot ákærða í þessu máli er framið eftir uppsögu framangreindra héraðsdóma og kemur því ekki til þess að ákvæðum 78. gr. laga nr. 19/1940 verði við komið. Til þess er að líta að ákærði á að baki langan sakaferil að því er varðar brot gegn 244. gr. laga nr. 19/1940, en þau brot hafa ítrekunaráhrif í þessu máli, sbr. 255. gr. laganna.  Með hliðsjón af því er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 4 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, svo sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Ólafsdóttir fulltrúi lögreglu­stjórans í Reykjavík.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Einar Snæbjörn Eyjólfsson, sæti fangelsi í 4 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 55.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 24. febrúar 2005.

             Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Hafnarfirði, útgefinni 6. janúar 2005 á hendur ákærðu X, kt. [...], Einari Snæbirni Eyjólfssyni, kt. 060674-2999, Suðurbraut 14, Hafnarfirði, Y, kt. [...] og Z, kt. [...], fyrir brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga, laga um ávana- og fíkniefni, vopnalaga og umferðarlaga.

I. (lm. 37-2004-334)

“Gegn ákærða X fyrir brot gegn umferðarlögum með því að hafa mánudaginn 2. febrúar 2004, um kl. 15:15, ekið bifreiðinni JH-[...] móts við Borgarholtsbraut 22, Kópavogi, án þess að hafa ökuskírteini sitt meðferðis.

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

II. (lm. 34-2004-576)

Gegn ákærða X fyrir brot gegn umferðarlögum með því að hafa þriðjudaginn 10. febrúar 2004, um kl. 12:11, ekið bifreiðinni ZY-[...] norður Grindavíkurveg, Grindavík, á 109 km hraða á klukkustund, að teknu tilliti til vikmarka, þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km á klukkustund.

Telst háttsemi þessi varða við 2. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

III. (lm. 34-2004-714)

Gegn ákærða X fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa föstudaginn 27. febrúar 2004, haft í vörslum sínum 2 kannabisplöntur er ákærði var að rækta á dvalarstað sínum við F, Grindavík en lögreglan fann plönturnar við húsleit á ofangreindum dvalarstað ákærða.

Telst háttsemi þessi varða við 2.,  sbr. 4.,  sbr. 4. gr. a.,  sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985, sbr. lög nr. 10/1997, sbr. lög nr. 68/2001, sbr. reglugerð um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001. 

IV. (lm. 34-2004-1235)

Gegn X fyrir brot gegn umferðarlögum með því að hafa mánudaginn 22. mars 2004 um kl. 13:35, ekið bifreiðinni AK-[...]  norður Víkurbraut, Grindavík, án þess að hafa ökuskírteini sitt meðferðis og fyrir að hafa öryggisbelti ekki spennt við aksturinn.

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr. 71. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

V. (lm. 34-2004-1250)

Gegn ákærða X fyrir brot gegn umferðarlögum með því að hafa þriðjudaginn 23. mars 2004 um kl. 12:24, ekið bifreiðinni AK-[...] vestur Reykjanesbraut, Hafnarfirði, án þess að hafa ökuskírteini sitt meðferðis.

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 48. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

VI. (lm. 36-2004-1457)

Gegn ákærðu Einari Snæbirni, X og Y fyrir þjófnað með því að hafa mánudaginn 29. mars 2004, um kl. 18:46, stolið fartölvu af gerðinni Emachines M5105 ásamt gögnum og  fylgihlutum úr bifreiðinni FR-[...] er stóð í bifreiðastæði við verslunina 10/11, Melabraut 29, Hafnarfirði, samtals að áætluðu verðmæti kr. 9.343.800.

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu gerir Jóhannes Albert Sævarsson, hrl. f.h. I, kt. 210169-3859, skaðabótakröfu á hendur ákærðu að fjárhæð kr. 10.965.798.

VII. (lm. 36-2004-1457)

Gegn ákærða Z fyrir hilmingu af gáleysi með því að hafa mánudagskvöldið 29. mars 2004 tekið við fartölvu af ákærðu, sbr. ákærulið VI og geymt hana á heimili sínu að J, þar sem lögregla lagði hald á hana, en ákærði mátti gera sér grein fyrir því að um þýfi væri að ræða. 

Telst háttsemi þessi varða við 263. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

VIII. (lm. 33-2004-1301)

Gegn ákærðu Y fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa miðvikudaginn 7. apríl 2004, um kl. 16:02, haft í vörslum sínum í fangelsinu á Litla-Hrauni, Eyrabakka, þar sem hún var heimsóknargestur, 0,52 gr. af hassi er kom úr veski ákærðu og fangavörður lagði hald á. 

Telst háttsemi þessi varða við 2. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 sbr. lög nr.  60/1980, sbr. lög nr. 13/1985, sbr. lög nr. 10/1997, sbr. lög nr. 68/2001.

IX. (lm. 37-2004-2736)

Gegn ákærða X fyrir brot gegn umferðarlögum með því að hafa aðfararnótt þriðjudagsins 29. júní 2004, um kl. 01:25, ekið bifreiðinni JÞ-[...] suður Reykjanesbraut, Kópavogi, á 98 km hraða á klukkustund, að teknu tilliti tili vikmarka, þar sem leyfður hámarkshraði er 70 km á klukkustund og án þess að hafa ökuskírteini sitt meðferðis.

Telst háttsemi þessi varða við 1. sbr. 3. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

X. (lm. 36-2004-3294)

Gegn ákærða X fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa aðfararnótt (sic) miðvikudagsins 30. júní 2004, um kl. 03:22, á Holtavegi við Efstasund í Reykjavík, haft í vörslum sínum 0,34 gr. af amfetamíni í vindlingaöskju er lögregla fann við leit í nærbrók ákærða og lagði hald á.

Telst háttsemi þessi varða við 2. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985, sbr. lög nr. 10/1997, sbr. lög nr. 68/2001, sbr. reglugerðir nr. 233/2001, 248/2002 og 848/2002.

XI. (lm. 36-2004-6093)

Gegn ákærða X fyrir hlutdeild í þjófnaði og hilmingu með því að hafa aðfararnótt (sic) sunnudagsins 1. ágúst 2004 veitt Þ, kt. [...], og Æ, kt. [...], liðsinni sitt með því að hafa sótt Þ í skólann L, á bifreið sinni eftir að Þ og Æ höfðu brotist þar inn, og aðstoðað nefndan Þ við að bera varning úr innbrotinu í bifreið sína og farið með hann að heimili sínu M, síðan sótt Æ á Essó bensínstöð í Engihjalla, Kópavogi, eftir að Æ hafði brotist inn í N, og tekið þaðan verðmæti ófrjálsri hendi, og farið með hann að áðurgreindu heimili sínu þar sem varningurinn var tekinn upp og ákærði X hélt eftir Play station leikjatölvu ásamt öðrum verðmætum sem honum var kunnugt um að væru þýfi.

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 244. gr. sbr. 22. gr. og 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XII. (lm. 36-2004-4030)

Gegn ákærðu X og Einari Snæbirni fyrir þjófnað með því að hafa aðfararnótt (sic) sunnudagsins 22. ágúst 2004 farið í tvígang í heimildarleysi inn í búslóðageymslu í eigu KB banka við O, og tekið þaðan ófrjálsri hendi vatnslitamálverk eftir S. Hallmarsson ´86, olíumálverk eftir Gústav Geir ´83, olíumálverk eftir Jón Jónsson ´77, 28” sjónvarp af gerðinni Sony, 15” sjónvarp af gerðinni Sharp, CD drif úr PC tölvu, tréstyttu, tréveggskraut, viðarkassa með golfkylfu, leðurhulstur með naglaklippum og naglaskærum, silfur og brons minnispening, 2 karlmannsúr, 2 kvenmannsúr, gsm síma af gerðinni Nokia 5110, bréfahníf, Kalhua áfengisflösku, gler blómavasa, skartgripi, rafmagnssnúrur með USB tengi, 3 myndbandsspólur, DVD myndasafn með Bítlunum, 5 DVD myndir og 2 fartölvur af gerðinni Hewlett Pacard XE2, samtals að áætluðu verðmæti 1.250.000.

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XIII. (lm. 36-2004-4030)

Gegn ákærða Z fyrir hilmingu af gáleysi með því að hafa sunnudagsmorguninn 22. ágúst 2004 tekið við þýfi af ákærðu X og Einari Snæbirni sbr. ákærulið XI og geymt það í bílskúr sem hann hafði á leigu við J, en ákærði mátti gera sér grein fyrir því að um þýfi væri að ræða.

Telst háttsemi þessi varða við 263. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XIV. (lm. 10-2004-20370)

Gegn ákærða X fyrir brot gegn umferðarlögum með því að hafa aðfararnótt (sic) laugardagsins 28. ágúst 2004, um kl. 03:35, ekið bifreiðinni HÖ-[...] suður Frakkastíg að Hverfisgötu í Reykjavík gegn einstefnu.

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 5. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

XV. (lm. 36-04-4187)

Gegn ákærða X fyrir brot gegn umferðarlögum með því að hafa sunnudaginn 29. ágúst 2004, um kl. 14:25, ekið bifreiðinni ZY-[...] frá Reykjanesbraut og austur Flatahraun í Hafnarfirði án þess að hafa öryggisbelti spennt.

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 71. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

XVI. (lm. 36-2004-4364)

Gegn ákærðu X og Y fyrir þjófnað með því að hafa laugardaginn 4. september 2004, um kl. 21:45, tekið ófrjálsri hendi SS púrtvínslegið lambafillet, SS grand orange lambakjöt og Ali svínakótilettur úr verslun 11/11 við Q, samtals að verðmæti kr. 4.062.

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlga nr. 19/1940.

Í málinu gerir R fh. S hf., kt. [...], skaðabótakröfu á hendur ákærðu að fjárhæð kr. 4.062 ásamt vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi en síðan dráttarvaxta skv. III kafla vaxtalaga til greiðsludags.

XVII. (lm. 36-2004-4478)

Gegn ákærða Z fyrir brot gegn vopnalögum með því að hafa fimmtudaginn 9. september 2004, um kl. 16:40, haft í vörslum sínum rafmagnsbyssu af gerðinni Gymsic er lögreglan fann í læstum skáp í svefnherbergi við húsleit á heimili ákærða við J.

Telst háttsemi þessi varða við c. lið 2. mgr. 30. gr. sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998, sbr. lög nr. 82/1998.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar.

Þá er þess jafnframt krafist að 2 kannabisplöntur sbr. ákærulið III, 0,52 gr. af hassi sbr. ákærulið VIII og 0,32 gr. af amfetamíni sbr. ákærulið X er lögreglan lagði hald á við rannsókn málanna verði gerð upptæk skv. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997 og nr. 68/2001 og 2. mgr. 14. gr reglugerðar nr. 233/2001 sbr. reglugerð nr. 248/2002 og að rafmagnsbyssa sbr. ákærulið XVI er lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins verði gerð upptæk skv. 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.”

             Í þinghaldi þann 15. febrúar óskað sækjandi eftir að leiðrétta ákæruna með vísan til 1. mgr. 118. gr. laga um meðferð opinberra mála og krefst þess að ákærða X verði gert að sæta upptöku á 0,34 g af amfetamíni í stað 0,32 g eins og krafist er í ákærukjali. Ennfremur er leiðrétt tilvísun varðandi kröfu um upptöku á rafmangsbyssu, en þar er ranglega vísað til XVI. ákærulið en hið rétta er að vísa á til XVII. ákæruliðs.

             Ennfremur lýsti sækjandi því yfir í sama þinghaldi að ákæruvaldið félli frá að ákæra X um hlutdeild í þjófnaði í XI. lið ákæru og ákærir hann einungis fyrir hilmingu. Hlutdeild í þjófnaði í XI. lið ákæru kemur því ekki til frekari skoðunar í máli þessu.

     Í þinghaldi 21. þessa mánaðar klauf dómari frá málinu þátt Z samkvæmt heimild í 24. gr. laga um meðferð opinberra mála, á þeirri forsendu að fyrir liggur játning allra ákærðu nema ákærða Z og því ekkert því til fyrirstöðu að kveðinn verði upp dómur í málum þeirra. Mál ákærða Z verður framvegis rekið undir málanúmerinu S-237/2005, en hann hefur neitað sök.

     Ákærði X gerir þá kröfu að hann verði dæmdur til vægustu  refsingar sem lög leyfa. Komi til refsingar, þá verði hún ákvörðuð sem hegningarauki við dóm Hæstaréttar nr. 241/2004. Þá er þess krafist að skaðabótakrafa I verði vísað frá dómi. Ennfremur krefst hann hæfilegra málsvarnar­þóknunar að mati dómsins handa skipuðum verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl. svo og að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

Ákærði Einar Snæbjörn krefst aðallega að honum verði ekki gerð sérstök refsing í máli þessu. Komi til refsingar, þá verði hún ákvörðuð sem hegningarauki við dóm Hæstaréttar nr. 241/2004, uppkveðnum 20. janúar 2005. Þá er þess krafist að skaðabótakrafa I, verði vísað frá dómi. Að lokum er þess krafist að allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð. Verjandi ákærða Einars Snæbjörns, Kristján Stefánsson, hrl., krefst hæfilegra málsvarnarþóknunar sem greiðist úr ríkis­sjóði.

     Ákærða Y krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.  Verjandi ákærðu Y, Hilmar Ingimundarson, hrl., krefst hæfilegra málsvarnarvarnarþóknunar sem greiðist úr ríkissjóði auk annars sakarkostnaðar.

Niðurstaða.

Um ákærulið I – Ætlað umferðalagabrot 2. febrúar 2004.

Með skýlausri játningu ákærða X sem samrýmist öðrum gögnum málsins, telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og varðar við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Um ákærulið II – Ætlað umferðalagabrot 10. febrúar 2004.

Með skýlausri játningu ákærða X sem samrýmist öðrum gögnum málsins, telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og varðar við 2. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.

Um ákærulið III – Ætlað brot gegn ávana- og fíkniefnalögum 27. febrúar 2004.

Með skýlausri játningu ákærða X sem samrýmist öðrum gögnum málsins, telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er þar réttilega færð til refsiákvæða.

Um ákærulið IV – Ætlað brot gegn umferðarlögum 22. mars 2004.

Með skýlausri játningu ákærða X sem samrýmist öðrum gögnum málsins, telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og varðar við 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr. 71. gr., umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Um ákærulið V – Ætlað brot gegn umferðarlögum 23. mars 2004.

Með skýlausri játningu ákærða X sem samrýmist öðrum gögnum málsins, telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og varðar við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Um ákærulið VI ­- Ætlað þjófnaðarbrot 29. mars 2004.

Með skýlausum játningum ákærðu Einars Snæbjörns og X, sem sam­rýmast öðrum gögnum málsins, telst sannað að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök og varðar við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Um ákærulið VIII – Ætlað brot gegn ávana- og fíkniefnalögum 7. apríl 2004.

Með skýlausri játningu ákærðu Y sem samrýmist öðrum gögnum málsins, telst sannað að ákærða hafi gerst sek um þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru og er þar réttilega færð til refsiákvæða.

Um ákærulið IX – Ætlað brot gegn umferðarlögum 29. júní 2004.

Með skýlausri játningu ákærða X sem samrýmist öðrum gögnum málsins, telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og varðar við 1. sbr. 3. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.

Um ákærulið X – Ætlað brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni 30. júní 2004.

Með skýlausri játningu ákærða X sem samrýmist öðrum gögnum málsins, telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er þar réttilega færð til refsiákvæða.

Um ákærulið XI – Ætlað hlutdeildarbrot að þjófnaði og hilmingu 22. ágúst 2004.

Með skýlausri játningu ákærða X sem samrýmist öðrum gögnum málsins, telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um hilmingu með því að hafa aðfara­nótt sunnudagsins 1. ágúst 2004 veitt Þ, kt. [...], og Æ, kt. [...], liðsinni sitt með því að hafa sótt Þ í skólann L, á bifreið sinni eftir að Þ og Æ höfðu brotist þar inn og aðstoðað nefndan Þ við að bera varning úr innbrotinu í bifreið sína og farið með hann að heimili sínu, M, síðan sótt Æ á Essó bensínstöð í Engihjalla, Kópavogi, eftir að Æ hafði brotist inn í N, og tekið þaðan verðmæti ófrjálsri hendi, og farið með hann að áðurgreindu heimili sínu þar sem varningurinn var tekinn upp og ákærði X hélt eftir Playstation leikjatölvu ásamt öðrum verðmætum sem honum var kunnugt um að væru þýfi.

Varðar háttsemi ákærða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Um ákærulið XII –  Ætlað þjófnaðarbrot 22. ágúst 2004.

Með skýlausri játningu ákærðu Einars Snæbjörns og X sem sam­rýmist rannsóknargögnum málsins, telst sannað að þeir hafi gerst sekir um þjófnað með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 22. ágúst 2004 farið í tvígang í heimildar­leysi inn í búslóðageymslu í eigu KB banka við O og tekið þaðan ófrjálsri hendi vatnslitamálverk eftir S. Hallmarsson ´86, olíumálverk eftir Gústav Geir ´83, olíumálverk eftir Jón Jónsson ´77, 28” sjónvarp af gerðinni Sony, 15” sjónvarp af gerðinni Sharp, CD drif úr PC tölvu, tréstyttu, tréveggskraut, viðarkassa með golfkylfu, leðurhulstur með naglaklippum og naglaskærum, silfur og brons minnis­pening, 2 karlmannsúr, 2 kvennmannsúr, gsm síma af gerðinni Noka 5110, bréfahníf, Kalhúa áfengisflösku, gler blómavasa, skartgripi, rafmagnssnúrur með USB tengi, 3, myndbandsspólur, DVD myndasafn með Bítlunum, 5 DVD myndir og 2 fartölvur af gerðinni Hewlett Pacard XE2, samtals að áætluðu verðmæti 1.250.000 krónur.

Varðar háttsemi ákærðu við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Um ákærulið XIV – Ætlað umferðalagabrot 28. ágúst 2004.

Með skýlausri játningu ákærða X sem samrýmist öðrum gögnum málsins, telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og varðar við 1. mgr. 5. gr.,  sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.

Um ákærulið XV – Ætlað umferðalagabrot 29. ágúst 2004.

Með skýlausri játningu ákærða X sem samrýmist öðrum gögnum málsins, telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og varðar við 1. mgr. 71. gr.,  sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.

Um ákærulið XVI – Ætlað þjófnaðarbrot 4. september  2004.

Með skýlausri játningu ákærða X og Y sem samrýmist öðrum gögnum málsins, telst sannað að ákærðu hafi gerst sek um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru og varðar við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga.

             Ákvörðun refsingar.

Ákærði X

             Ákærði X hefur frá árinu 1994 hlotið 15 dóma fyrir umferðarlaga,  hegningarlaga og fíkniefnabrota. Síðast var ákærða gert að sæta refsivist með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 20. janúar síðastliðinn, sem staðfesti dóm undirréttar á 12 mánaða fangelsi. Þá hefur hann 11 sinnum á sama tímabili gengist undir sektar­greiðslur vegna fíkniefna-, umferðar- og skotvopnalagabrota, síðast 21. október 2004 fyrir fíkniefnabrot.

             Brot ákærða sem hann er nú sakfelldur fyrir eru framin á tímabilinu 2. febrúar 2004 til 4. september 2004, áður en dómur Hæstaréttar frá 20. janúar síðastliðnum er kveðinn upp. Ber því að ákveða ákærða hegningarauka eftir 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Dómur á hendur báðum ákærðu, X og Einari Snæbirni frá 27. september 2002 hefur ítrekunaráhrif samkvæmt 71. gr. almennra hegningarlaga á þjófnaðarbrot samkvæmt VI., XII. XVI. lið ákæru og hilmingu í XI. lið ákæru, sem sakfellt er fyrir í þessu máli. Dómar 14. september 1998, 13. október 2000, 27. október 2001 og 27. september 2002 svo og sátt frá 20. febrúar 2001 hafa ítrekunaráhrif gagnvart þeim fíkniefnabrotum sem ákærði X er sakfelldur fyrir í máli þessu. Við ákvörðun refsingar nú ber í ljósi sakarferils hans að líta til 72. gr. almennra hegningarlaga og 255. gr. almennra hegningarlaga, en ákærði er vana­afbrotamaður. Verður hún tiltekin í samræmi við ákvæði 77. gr. þeirra laga.  Auðgunarbrot ákærða fremur hann með fleirum, sem horfir til refsiþyngingar sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.

             Á hitt er að líta að ákærði hefur játað greiðlega brot sín og horfir það honum til refsilækkunar skv. 9. tl. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga. Er hún samkvæmt framansögðu hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði. Ákærði greiði jafnframt 137.500 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu en sæti ella 24 daga fangelsi.

             Ákærði Einar Snæbjörn

Ákærði Einar Snæbjörn á langan sakarferil að baki. Frá árinu 1993 hefur hann hlotið 13 dóma vegna hegningarlagabrota, umferðarlagabrota og fíkniefnabrota. Síðast var ákærða gert að sæta refsivist með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 20. janúar síðastliðinn, sem staðfesti dóm undirréttar á 15 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. gr. 259. gr., 1. mgr. 257. gr., 244., 248., 244., sbr. 20., 1. mgr. 245. gr. alm. hgl., 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr.  Ákærði var sviptur ökurétti í 1 mánuð.  Þann 10. maí 2004 hlaut hann dóm, sem var hegningarauki við dóm uppkveðinn 6. maí 2004 sem áður var minnst á og var áfrýjað til Hæstaréttar. Þá hefur hann á þessu tímabili gengist undir 12 sektargreiðslur vegna umferðar-, fíkniefna- og hegningarlagabrota, þar af fjórar sama daginn 6. apríl 2001. Síðasta sáttin var gerð 25. mars 2004, þar sem hann gekkst undir 100.000 króna sekt fyrir akstur sviptur ökurétti. 

Brot ákærða sem hann er nú sakfelldur fyrir eru framin annars vegar 29. mars 2004 og hins vegar 22. ágúst 2004, áður en dómur Hæstaréttar frá 20. janúar síðastliðinn er kveðinn upp. Ber því að ákveða ákærða hegningarauka eftir 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jafnframt hefur dómurinn frá 27. september 2002 ítrekunaráhrif á þjófnaðarbrot í VI. og XII. lið ákæru sem sakfellt er fyrir í þessu máli, sbr. 71. gr. laganna. Ákærði er vanaafbrotamaður, sem margsinnis hefur verið dæmdur fyrir ýmis auðgunarbrot. Verður refsing hans því einnig ákveðin með vísan til 72. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga og hún tiltekin í samræmi við ákvæði 77. gr. þeirra laga. Í báðum tilvikum voru brotin framin með fleirum sem horfir til refsiþyngingar skv. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.

 Á hitt er að líta að ákærði hefur játað greiðlega brot sín og horfir það honum til refsilækkunar skv. 9. tl. 1. mgr. 74. gr almennra hegningarlaga. Er hún samkvæmt framansögðu hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.

             Ákærða Y

Ákærða Y hlaut 8 mánaða fangelsisdóm 6. maí 2004, þar sem fullnustu refsingar var skilorðsbundin í þrjú ár, fyrir ýmis konar auðgunarbrot. Með þeim brotum hafði hún rofið 6 mánaða fangelsisdóm þar sem fullnustu refsingar var skilorðsbundin í þrjú ár frá 27. desember 2002, fyrir hilmingu, skjalafals, tilraun til fjársvika og fíkiefnabrots. Þá gekkst hún undir sektargreiðslu með sátt hjá lögreglu­stjóra 14. febrúar 2003 vegna fíkniefnabrots. Þá hefur hún þrívegis sætt sektarrefsingu fyrir umferðarlagabrot, síðast  í apríl 2001.  

Brot ákærðu sem framið var 7. apríl 2004, sem hún er nú sakfelld fyrir var framið áður en dómur gekk 6. maí 2004. Ber því að ákveða ákærðu hegningarauka eftir 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Með þjófnarbroti sem hún framdi 4. september síðastliðinn rauf hún skilorð framangreinds dóms frá 6. maí 2004. Verður refsing nú ákveðin í einu lagi vegna allra brotanna, sbr. 60 gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Dómar frá 27. september 2002 og 6. maí 2004 hafa ítrekunaráhrif samkvæmt 71. gr. almennra hegningarlaga vegna brots ákærðu er hún framdi 4. september síðastliðinn og hún er ákærð fyrir í XVI. lið ákæru.

Auðgunarbrotið var framið með fleirum sem horfir til refsiþyngingar, skv. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga svo og 255. gr. almennra hegningarlaga.

Á hitt er að líta að ákærða hefur játað greiðlega brot sín og horfir það henni til refsilækkunar skv. 9. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Er hún samkvæmt framansögðu hæfilega ákveðin 9 mánaða fangelsi. Ákærða hefur tvisvar notið þess að fullnustu refsingar hefur verið frestað skilorðsbundið að öllu leyti. En ákærða hefur ekki skipast við og þykir því ekki tækt að skilorðsbinda refsingu að öllu leyti nú. Eftir atvikum þykir þó rétt að gefa ákærðu enn eitt tækifæri, þar sem brot ákærðu nú er ekki stórfellt og er ákveðið að fresta skuli fullnustu 8 mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá dómsbirtingu að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærðu er ennfremur gert að greiða 28.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu, en sæta ella fangelsi í 6 daga.

             Sakarkostnaður.

             Ákærði X skal greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 50.000 krónur. Þá verður ákærða jafnframt gert að greiða kostnað vegna rannsóknar tæknideildar lögreglu á plöntum sem gerðar voru upptækar 27. febrúar 2004 samkvæmt III. ákærulið og fíkniefni sem gert var upptækt 30. júní 2004 samkvæmt X. ákærulið.

             Ákærði Einar Snæbjörn skal greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar, hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 50.000 krónur.

             Ákærða Y skal greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 50.000 krónur. Þá verður ákærðu jafnframt gert að greiða kostnað vegna rannsóknar tæknideildar lög­reglu á fíkniefni sem gert var upptækt 7. apríl síðastliðinn samkvæmt VIII. ákærulið.

             Upptaka.

Ákærði X skal sæta upptöku á 2 kannabisplöntum er lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins þann 27. febrúar 2004 og 0,34 g af amfetamíni sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins þann 30. júní 2004 með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997 og nr. 68/2001 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 sbr. reglugerð nr. 248/2002.

Ákærðu Y er gert að sæta upptöku á 0,52 g af hassi sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins 7. apríl 2004, með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997 og nr. 68/2001 og 2. mgr. 14. gr reglugerðar nr. 233/2001 sbr. reglugerð nr. 248/2002.

             Bótakröfur.

             Jóhannes Albert Sævarsson, hrl. hefur með bréfi dagsettu 13. apríl 2004 haft uppi bótakröfu fyrir hönd I, kt. [...], á hendur ákærðu X og Einar Snæbirni vegna innbrots í bifreiðina FR-[...], 29. mars 2004. Bótakrafa  sundurliðast með eftirfarandi hætti:

Beint fjártjón                                                  kr.                       9.343.800

Miskabætur                                                                1.000.000

Málskostnaður                                                                          621.998

Samtals                                                                     10.965.798

             Í bréfinu er greint frá að sundurliðun brotaþola á fjárkröfu sé meðfylgjandi, en þegar hann hafði endurheimt fartölvuna hafi komið í ljós að gríðarlegt magn gagna, skjala, mynda og forrita hafði verið þurrkað út úr tölvunni. Um hafi verið að ræða dýr forrit og teikningar og myndir sem gríðarleg vinna hafi legið að baki. Áskilinn sé jafnframt réttur til þess að leggja fram við aðalmeðferð frekari gögn til stuðnings kröfu um bætt fjártjón.

             Miskabótakrafan sé studd þeim rökum að auk fjártjóns hafi brotaþoli orðið fyrir tilfinningalegu tjóni, þar sem við töku tölvunar hafi ókjör mynda sem brotaþoli hafi tekið af frumburði sínum, allt árið 2003 og fram til mars 2004 horfið. Þessi tilfinningalegu verðmæti séu nú horfin með öllu. Því sé höfð uppi krafa um greiðslu miskabóta.

             Brotaþoli fylgdi kröfunni ekki frekar eftir fyrir dómi, en lögmanni hans var tilkynnt um þingfestingu málsins.

     Ákærðu hafa mótmælt kröfunni sem of hárri og vanreifaðri og krefjast þess að henni verði vísað frá dómi.

Bótakrafan er ekki studd öðrum gögnum en fullyrðingu I um áætlað verðmæti hinna stolnu muna, sem hann metur á 9.343.800 krónur. Gegn mótmælum ákærðu þykir krafan vanreifuð og ber því að vísa henni frá dómi.

             Í málinu gerir R f.h. S hf., kt. 711298-2239, skaða­bótakröfu á hendur ákærðu X og Y að fjárhæð 4.062 krónur ásamt vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi en síðan dráttarvaxta skv. III kafla vaxtalaga til greiðsludags. Ákærðu hafa viðurkennt bótaskyldu og samþykkt að greiða. Eru þau dæmd til þess að greiða ofangreinda bótakröfu óskipt.

             Annar sakarkostnaður greiða ákærðu óskipt.

Ólöf Pétursdóttir dómstjóri kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

             Ákærði X sæti fangelsi í 9 mánuði.

             Ákærði X greiði 137.500 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu en sæti ella 24 daga fangelsi.

             Ákærði Einar Snæbjörn Eyjólfsson sæti fangelsi í 6 mánuði.

             Ákærða Y sæti fangelsi í 9 mánuði. Fresta skal fullnustu 8 mánuðum af refsingunni og hún falla niður að liðnum þremur árum frá dómsbirtingu, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

             Ákærða Y greiði 28.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu en sæti ella fangelsi í 6 daga.

             Ákærði X sæti upptöku á 2 kannabisplöntum og 0,34 g af amfetamíni sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins þann 27. febrúar og 30. júní 2004.

             Ákærða Y sæti upptöku á 0,52 g af hassi sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins 7. apríl 2004.

             Ákærði X greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur. Þá verður ákærða jafnframt gert að greiða kostnað vegna rannsóknar tæknideildar lögreglu á plöntum sem gerðar voru upptækar 27. febrúar 2004 samkvæmt III. ákærulið og fíkniefni sem gert var upptækt 30. júní 2004 samkvæmt X. ákærulið.

             Ákærði Einar Snæbjörn greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda sín, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

             Ákærða Y greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur. Þá verður ákærðu jafnframt gert að greiða kostnað vegna rannsóknar tæknideildar lögreglu á fíkniefni sem gert var upptækt 7. apríl síðastliðinn samkvæmt VIII. ákærulið.

             Annan sakarkostnað greiða ákærðu óskipt.

             Skaðabótakröfu Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., f.h. I að fjárhæð 10.965.798 krónur er vísað frá dómi.

             Ákærðu X og Y greiði R f.h. S hf., kt. 711298-2239, 4.062 krónur ásamt vöxtum skv. 7. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. september 2004 til 13. september 2004, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 til greiðsludags.

 

 

                            

.