Hæstiréttur íslands

Mál nr. 532/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Yfirmat


Miðvikudaginn 18

 

Miðvikudaginn 18. október 2006.

Nr. 532/2006.

Vátryggingafélag Íslands hf.

(Ólafur Lúther Einarsson hdl.)

gegn

Þórhildi Svövu Svavarsdóttur

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

 

Kærumál.Yfirmat.

Héraðsdómur hafnaði beiðni V hf. um að yfirmat færi fram um hvort orsakatengsl væru á milli óhapps, sem Þ hafði orðið fyrir, og líkamseinkenna hennar, en féllst á beiðnina að öðru leyti. Talið var að undirmatsgerð svaraði báðum þeim álitaefnum, sem V hf. bað um yfirmat á, og að matsbeiðnin hefði því verið í samræmi við 64. gr. laga nr. 91/1991. Var því fallist á að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn til að meta þau atriði, sem greindi í matsbeiðni V hf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. október 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2006, þar sem heimilað var að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn til að meta varanlega fjárhaglega örorku varnaraðila vegna slyss sem hún varð fyrir 8. september 2001. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að jafnframt verði  lagt fyrir matsmenn að meta hvort „orsakatengsl séu á milli umferðaróhappsins 8. september 2001 og þeirra líkamseinkenna sem matsþoli telur nú afleiðingu óhappsins.“ Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Matsbeiðandi getur krafist yfirmats á þeim atriðum sem áður hafa verið metin, samkvæmt 64. gr. laga nr. 91/1991. Í matsbeiðni varnaraðila 25. ágúst 2005 voru matmenn beðnir um að meta tímabundið atvinnutjón hennar, varanlegan miska, varanlega fjárhagslega örorku og þjáningatímabil, allt „vegna umferðarslyss 8. september 2001“. Loks var spurt um batahvörf. Í matsgerð fara matmennirnir ítarlega yfir heilsufar hennar strax eftir slys og einkenni við skoðun á matsfundi. Loks taka þeir í IX. kafla matsgerðarinnar almenna afstöðu til matsefna áður en þeir svara hverri matsspurningu fyrir sig. Í lok þessa kafla segir: „Matsmenn telja því að orsakasamband sé á milli slyssins og núverandi einkenna matsbeiðanda.“

Af framangreindu er ljóst, að undirmatsmenn fjölluðu sérstaklega um orsakatengsl á milli slyssins og líkamseinkenna matsbeiðanda. Í undirmatsgerð er þannig svarað báðum þeim álitaefnum sem sóknaraðili biður um yfirmat á og er matsbeiðni hans því í samræmi við 64. gr. laga nr. 91/1991. Verður því að taka til greina kröfu sóknaraðila um að yfirmatsmenn verði dómkvaddir til að leggja mat á þau atriði, sem greinir í matsbeiðni hans 27. júlí 2006.

Eins og atvikum er háttað þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Dómkvaddir skulu yfirmatsmenn til að meta þau atriði, sem greinir í matsbeiðni sóknaraðila, Vátryggingafélags Íslands hf., frá 27. júlí 2006.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2006.

 Málið barst dóminum 1. ágúst sl.  Það var þingfest 15. september sl. og tekið til úr­skurðar sama dag.

Matsbeiðandi er Vátryggingafélag Íslands hf.

Matsþoli er Þórhildur Svava Svavarsdóttir, Fossvegi 2, Selfossi.

Matsbeiðandi krefst þess í beiðni frá 27. júlí sl. sem ber yfirskriftina yfir­mats­beiðni “að dómkvaddir verði þrír sérfróðir og óvilhallir matsmenn, tveir læknar og einn lögfræðingur, til þess að meta hvort og þá að hvaða marki matsþoli hafi orðið fyrir líkamstjóni sem rekja megi til óhapps sem hann varð fyrir 8. september 2001 og nánar er vikið að í gögnum málsins.  Þess er óskað að matið verði framkvæmt á grund­velli skaðabótalaga nr. 50/1993.  Nánar tiltekið er óskað eftir mati á eftirfarandi atriðum:  1.  Hvort orsakatengsl séu á milli umferðaróhappsins 8. september 2001 og þeirra líkamseinkenna sem matsþoli telur nú afleiðingu óhappsins.  2.  Komist mats­menn að þeirri niðurstöðu að um orsakatengsl sé að ræða milli óhappsins 8. september 2001 og núverandi líkamseinkenna, óskast það metið hver sé varanleg fjárhagsleg ör­orka í skilningi 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna slyssins.”

Matsþoli mótmælir kröfu matsbeiðanda um að dómkvaddir verði þrír yfir­mats­menn.

II

Málavextir eru þeir að matsþoli slasaðist í umferðarslysi 8. september 2001.  Tveir læknar mátu heilsufar hennar sumarið 2005.  Hún sætti sig ekki við niðurstöðu þeirra og fékk dómkvadda tvo matsmenn í október sama ár til að gefa “skriflegt og rök­stutt álit um eftirfarandi:  1.  Hvert er tímabundið atvinnutjón matsbeiðanda, skv. 2. gr. skaðabótalaga?  2.  Hver er varanlegur miski matsbeiðanda, skv. 4. gr. skaða­bóta­laga?  3.  Hver er varanleg fjárhagsleg örorka matsbeiðanda, skv. 5. gr. skaðabótalaga?  4.  Hvert er þjáningartímabil matsbeiðanda skv. 3. gr. laga nr. 50/1993?  5.  Hvenær ekki var að vænta frekari bata hjá tjónþola, skv. 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga?” 

Matsmennirnir hafa skilað ódagsettri matsgerð þar sem þessum spurningum er svarað.

III

             Matsbeiðandi byggir á því að í undirmatinu hafi ekki verið spurt um hvort or­saka­tengsl séu á milli slyssins og heilsufars matsþola og sé nauðsynlegt að fá álit mats­manna á því atriði.  Þá er á því byggt að læknarnir tveir hafi talið að matsþoli hafi enga varanlega fjárhagslega örorku hlotið af völdum slyssins, en matsmennirnir meti hana 5 af hundraði. 

             Matsþoli byggir á því að samkvæmt 64. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála sé yfirmatsbeiðanda aðeins heimilt að óska þess að tekin verði til endur­mats þau atriði sem undirmatsmenn hafa áður metið.  Undirmatsmenn hafi ekki verið spurðir að því hvort orsakasamband sé á milli slyssins, sem matsþoli varð fyrir, og ástands hennar í dag.  Þeirri spurningu verði ekki fyrst svarað af yfirmatsmönnum.

IV

             Matsmennirnir voru beðnir um álit á því hver væri varanleg fjárhagsleg örorka mats­þola og mátu þeir hana.  Matsbeiðandi getur því krafist yfirmats um það atriði, sbr. 64. gr. einkamálalaga.  Það er hins vegar fyrst með yfirmatsbeiðninni í þessu máli sem beðið er um mat á því hvort orsakatengsl séu á milli umferðaróhappsins 8. september 2001 og þeirra líkamseinkenna sem matsþoli telur nú afleiðingu óhappsins.  Af nefndri grein einkamálalaganna verður sú ályktun dregin að matsbeiðandi geti ekki beðið um yfirmat á atriðum sem hafa ekki áður verið metin af matsmönnum.  Verður því ekki orðið við kröfu hans um dómkvaðningu yfirmatsmanna til að meta það atriði.

             Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

             Dómkveðja skal yfirmatsmenn til að meta hver sé varanleg fjárhagsleg örorka mats­þola, í skilningi 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, vegna slyssins 8. september 2001.