Hæstiréttur íslands

Mál nr. 661/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
  • Hjón


Þriðjudaginn 8

 

Þriðjudaginn 8. desember 2009.

Nr. 661/2009.

A og

B

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

gegn

C

(Árni Vilhjálmsson hrl.)

 

Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Hjón.

A og B kærðu úrskurð héraðsdóms um að hafna því að taka dánarbú D til opinberra skipta. Taldi héraðsdómur að D hafi verið í hjúskap með C og hún ætti því rétt á að fá búið framselt sér til einkaskipta. Í dómi Hæstaréttar kom fram að lagt hafi verið fram skjal með yfirskriftina Hjónavígsluvottorð á ensku og í íslenskri þýðingu. Á því segi að það sé byggt á staðfestu afriti opinberrar fjölskylduskrifstofu. Skorað hafi verið á C að leggja fram gögn sem hafi verið grundvöllur skráningarinnar. C hafi ekki orðið við því og ekki heldur skýrt með fullnægjandi hætti hvað standi því í vegi. Var því lagt til grundvallar í málinu að ekki hafi verið lögð fram fullnægjandi sönnun um að C og D hafi gengið í hjónaband. Var krafa A og B um að taka dánarbú D til opinberra skipta því tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 11. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dánarbú D, kt. [...], verði tekið til opinberra skipta. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að dánarbúið verði tekið til opinberra skipta. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði lést D 17. janúar 2008. Sóknaraðilar eru systursynir hans og telja þeir sig lögerfingja hans þar sem hann hafi ekki átt nákomnari skyldmenni þegar hann lést. Varnaraðili hefur hins vegar farið fram á leyfi til einkaskipta á dánarbúinu á þeim grundvelli að hún sé eftirlifandi ekkja hans, en þau hafi gengið í hjónaband í Japan 6. september 2004. Á það var fallist í hinum kærða úrskurði. Sóknaraðilar draga hins vegar í efa að til þessa hjúskapar hafi verið stofnað og reisa mál sitt á því að varnaraðili hafi ekki lagt fram gögn því til sönnunar.

Varnaraðili hefur lagt fram skjal dagsett 30. janúar 2008, útgefið af sendiráði Japans í Reykjavík, bæði á ensku og í íslenskri þýðingu löggilts skjalaþýðanda. Skjalið ber yfirskriftina Hjónavígsluvottorð og þar kemur fram að D og varnaraðili hafi gengið í hjónaband 6. september 2004 í Ota Ward, Tokyo Metropolis í Japan. Á skjalinu segir: „Þetta skírteini er byggt á staðfestu afriti opinberrar fjölskylduskrifstofu (Official Family Register), útgefið af yfirmanni Ota Ward, Tokyo Metropolis, hinn 21. janúar 2008.“ Sóknaraðilar benda hins vegar á að gögn sem hljóti að hafa verið grundvöllur nefndrar skráningar í persónuskrá varnaraðila hafi ekki verið lögð fram. Hafa þeir skorað á varnaraðila að leggja slík gögn fram í málinu en hann ekki orðið við því og heldur ekki skýrt með fullnægjandi hætti hvað standi því í vegi. Verður því lagt til grundvallar í málinu að ekki hafi verið færð fram fullnægjandi sönnun um að varnaraðili og hinn látni hafi gengið í hjónaband. Krafa sóknaraðila verður því tekin til greina.

Varnaraðili greiði sóknaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Tekin er til greina krafa sóknaraðila, A og B, um að dánarbú D verði tekið til opinberra skipta.

Varnaraðili, C, greiði sóknaraðilum sameiginlega 300.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2009.

Málið var tekið til úrskurðar 7. október s.l., en krafa um opinber skipti var móttekin 16. maí 2008. Úrskurður var áður kveðinn upp í málinu 26. maí 2008, en með dómi 25. júní 2008 í málinu nr. 339/2008 ómerkti Hæstiréttur þann úrskurð og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Sóknaraðilar, A, f. [...],[...], og B, f. [...],[...], krefjast þess að dánarbú D, kt. [...], verði tekið til opinberra skipta. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar.

Varnaraðili, C, f. [...],[...], krefst þess að kröfu um opinber skipti á dánarbúi D, verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar, auk virðisaukaskatts.

I.

D lést [...]. Í kröfu sóknaraðila um opinber skipti kemur fram að D hafi fæðst í Bandaríkjum Norður-Ameríku [...] og foreldrar hans verið E og F. Systir hans, G, sem sé látin, hafi eignast þrjú börn, skiptabeiðendur og dóttur sem sé látin. Dóttirin hafi verið barnlaus en látið eftir sig eiginmann. Skiptabeiðendur séu nánustu ættingjar D.

Með bréfi til sýslumannsins í Reykjavík, dagsettu 23. janúar 2008, hafi lögmaður skiptabeiðenda spurst fyrir um útgáfu dánarvottorðs, tilkynningu andláts og afhendingu staðfestingar sýslumanns á slíkri tilkynningu. Jafnframt hafi þess verið krafist að sýslumaður tæki eignir búsins í sína umsjón og að þær yrðu skrásettar, sbr. 16. og 17. gr. laga nr. 20, 1991. Erindið hafi verið ítrekað með bréfi, dagsettu 27. sama mánaðar. Með bréfi sýslumannsins í Reykjavík, dagsettu 1. apríl 2008, hafi kröfum skiptabeiðenda verið hafnað á þeim grundvelli að þeir væru ekki erfingjar D. Í ljósi þessarar afstöðu sýslumanns hafi verið óhjákvæmilegt fyrir skiptabeiðendur að krefjast opinberra skipta á dánarbúinu. Komið hafi fram í upplýsingum sýslumanns að fyrir hafi legið beiðni C, f. [...], um leyfi til einkaskipta. Hún hafi lagt fyrir sýslumann staðfestingu á að hún og D hafi verið í hjúskap, útgefna á ensku af sendiráði Japans á Íslandi 30. janúar 2008 og sé hún sögð grundvölluð á fjölskylduskráningu yfirvalda í Ota Ward í Tokyo í Japan. Um sé að ræða skráningu persónuupplýsinga um nefnda C. Komi þar fram að hún hafi gifst D 6. september 2004.

Af hálfu varnaraðila kemur fram að hún hafi fyrst kynnst hinum látna, D, árið 1973 í Japan. D, hafði þá ferðast til Japans, til þess að hitta félaga frá japanska skáksambandinu og hafi varnaraðila, sem þá var 28 ára gömul verið boðið að tefla við hann ásamt öðrum félaga í sambandinu. Í kjölfar þessa hafi tekist vinskapur milli varnaraðila og D og hafi þau haldið sambandi með bréfaskriftum, símtölum og heimsóknum. D hafi meðal annars boðið varnaraðila til Belgrad árið 1992 til þess að sjá leik hans við Spassky í Júgóslavíu og hafi kærleikar tekist á milli varnaraðila og D í þeirri ferð. Þann 28. janúar 2000 hafi D komið til Tokyo, Japan, flutt til varnaraðila og búið hjá henni frá þeim tíma, de facto í hjúskap í um fjögur ár. Á því tímabili hafi þau ferðast víða, jafnt innan sem utan Japans. Varnaraðila og D hafi verið í mun að halda einkalífi sínu frá öðrum, sérstaklega fjölmiðlum. Þann 13. júlí 2004 hafi D verið hnepptur í gæsluvarðhald á flugvelli í Japan á  leið til Filippseyja. Í lok sama mánaðar hafi nefnd um frelsun D verið sett á laggirnar, en tilgangur hennar hafi m.a. verið að komast hjá því að japönsk yfirvöld framseldu hann til Banda­ríkjanna. Við þessar erfiðu aðstæður hafi varnaraðili og D ákveðið að nauðsynlegt væri að þau opinberuðu samband sitt og gengju jafnframt í hjúskap.

Við undirbúning og framkvæmd hjúskaparstofnunar þeirra, hafi öll skjöl verið sett upp á japönsku og ensku, þannig að D skildi efni þeirra nákvæmlega. Þann 17. ágúst 2004 hafi varnaraðili farið með skjölin undirrituð til yfirvalda í Ota Ward til skráningar, en skráningunni verið hafnað á þeim grundvelli að D þyrfti að útvega frekari gögn frá bandaríska sendiráðinu. Þau gögn hafi ekki fengist. Þar sem unnt hafi verið að staðfesta hver D var með öðrum hætti, hafi borgar­yfirvöld fallist á skjöl þau sem lágu til grundvallar hjúskapnum með útgáfu vottorðs þann 6. september 2004 og skráningu í fjölskylduskrá varnaraðila. Hafi skjöl málsins þá öll verið send til japanska dómsmálaráðuneytisins. Við hafi tekið ítarleg skoðun japanskra yfirvalda á því hvort D og varnaraðili hefðu einungis gengið í hjúskap til þess að varna því að d yrði sendur úr landi, en slíkt sé ekki heimilt að japönskum lögum. Fulltrúar þarlendra yfirvalda hafi heimsótt D í gæsluvarðhald þann 5. nóvember 2004 og tekið viðtal við hann og varnaraðila í því skyni að ganga úr skugga um hvort hjúskapurinn stæðist. Dómsmálaráðherra Japans hafi staðfest skráningu hjúskaparins eftir skoðun gagna málsins þann 28. janúar 2005.

Með lögum frá 21. mars 2005 nr. 16/2005 hafi D verið veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Varnaraðili hafi fylgt D til Íslands þann 24. mars 2005 og hafi síðan, þau þrjú ár sem D átti heimili á Íslandi, komið yfir tuttugu sinnum til Íslands. Hafi þau átt í miklum samskiptum, jafnt í síma og með tölvupósti.

Þá kemur fram að ekki sé véfengt af hálfu varnaraðila að sóknaraðilar séu systursynir D, látins eiginmanns varnaraðila.

II.

Sóknaraðilar byggja kröfu sína um opinber skipti á fjölskyldutengslum við hinn látna, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Séu þeir nánustu skyldmenni hins látna og hafi hvorki varnaraðili né aðrir sýnt fram á að þeir eigi réttindi til arfs, sem gangi framar lögerfðaréttindum sóknaraðila. Sýslumaðurinn í Reykjavík hafi hafnað kröfu sóknaraðila um að krefjast opinberra skipta á grundvelli 3. mgr. 37. gr. nefndra laga og hafi sú afstaða sýslumanns byggst á því áliti hans að sóknaraðilar væru ekki erfingjar hins látna. Verði sóknaraðilar því að krefjast sjálfir opinberra skipta á grundvelli 1. mgr. 38. gr. laganna.

Varnaraðili hafi borið því við að hún hafi gengið í hjúskap með hinum látna 6. september 2004 og gangi réttindi hennar til arfs því framar réttindum sóknaraðila. Sóknaraðilar hafi véfengt þetta. Telji þeir að úr slíkum ágreiningi eigi að leysa eftir að bú D heitins hefur verið tekið til opinberra skipta en ekki áður, sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 20, 1991. Hætt sé við að synjun á kröfu sóknaraðila um opinber skipti geti í ljósi framangreindrar afstöðu sýslumanns leitt til réttarspjalla fyrir þá.

Eftir sem áður þykir rétt að fjalla nokkrum orðum um meintan hjúskap varnaraðila og hins látna, en sóknaraðilar mótmæla því að fyrir liggi sönnun þar að lútandi. Hafi varnaraðili til stuðnings fullyrðingum sínum um ætlaðan hjúskap sinn og D heitins vísað til skráningar í persónuskrá sinni í íbúaskrá í Ota Ward í Tokyo í Japan, sem sóknaraðilar létu þýða úr japönsku á íslensku. Komi þar fram að ætlað hjónaband varnaraðila og D hafi verið skráð í persónuskrá varnaraðila 28. janúar 2005 eða tæpum fimm mánuðum eftir að það á að hafa átt sér stað. Framlögð gögn um ætlaða hjúskaparstöðu varnaraðila byggist eingöngu á nefndri japanskri persónuskrá varnaraðila. Ekki sé því um afrit af hjúskaparvottorði að ræða. Þá hafi engin skýring fengist á drætti á skráningu hins ætlaða hjúskapar.

Að mati sóknaraðila sé ekki unnt að leggja framangreinda skráningu í persónuskrá varnaraðila til grundvallar um lögerfðaréttindi. Af hálfu varnaraðila hafi ekki verið lögð fram nein gögn, sem kynnu að hafa getað verið grundvöllur nefndrar skráningar. Liggi því ekkert fyrir um það á hvaða gögnum umrædd skráning í persónuskrá varnaraðila í íbúaskrá eigi að hafa byggst. Hafi varnaraðili því ekki sýnt nægilega fram á að hann hafi verið í hjúskap með hinum látna á dánardegi. Þá megi draga mjög í efa að hinn látni hafi skilið eða gert sér grein fyrir efni þeirra skjala á japönsku, sem hann hugsanlega hafi undirritað í tengslum við hinn meinta hjúskap.

Þá byggja sóknaraðilar á því að samkvæmt vottorði Þjóðskrár, dags. 5. júní 2008, sem liggur frammi í málinu, hafi hjúskaparstaða D heitins verið skráð ótilgreind og verið þannig til andláts hans. Bendi það til þess að hann hafi hvorki við öflun ríkisborgararéttar hér á landi í byrjun árs 2005 né síðar á þeim tæpum þremur árum, sem hann bjó hérlendis, talið sig vera í hjúskap við varnaraðila. Hafi sóknaraðilar  vitneskju um að varnaraðila hafi í engu verið getið í umsókn D um íslenskan ríkisborgararétt, svo sem væntanlega hefði verið ef hann hefði þá verið í fullgildum hjúskap með varnaraðila.

Sóknaraðilum sé ekki kunnugt um að hinn látni hafi nokkurn tíma gengið í hjúskap. Hafi hann margoft lýst því yfir við vini sína og velgjörðarmenn hérlendis eftir að hann hafði fengið íslenskan ríkisborgararétt og flust hingað að hann væri ókvæntur. Hafi hann getið þess ítrekað að varnaraðili væri vinkona hans, ekki unnusta og því síður eiginkona. Þá er því haldið fram af hálfu sóknaraðila að hinn látni og varnaraðili hafi aldrei haldið heimili saman.

Þá taka sóknaraðilar fram að D hafi verið ríkisfangslaus á þeim tíma, sem hinn ætlaði hjúskapur eigi að hafa átt sér stað, þar sem hann hafði verið sviptur bandarísku vegabréfi sínu árið 2003. Sé byggt á því að hann hafi af þeim sökum ekki getað gengið í hjúskap samkvæmt japönskum lögum. Þá telja sóknaraðilar að af fréttum fjölmiðla frá árinu 2004 verði ráðið að varnaraðili hafi haft í hyggju að giftast D til málamynda til að forða honum frá framsali til Bandaríkja Norður-Ameríku þar sem hans hefði beðið fangelsisvist vegna ætlaðra brota hans gegn þarlendum lögum. Japönsk yfirvöld hafi hins vegar ekki fallist á að um gilt hjónaband væri að ræða, m.a. sakir þess að D hafi ekki verið með gilt vegabréf.

Sóknaraðilar telji þannig að gögn þau, sem varnaraðili hafi lagt fram til stuðnings fullyrðingum sínum um hjúskap sinn og hins látna, séu með öllu ófullnægjandi og nægi ekki til að sýna fram á að réttur varnaraðila til arfs eftir D gangi framar lögerfðaréttindum sóknaraðila og verði ekki hjá því komist að fallast á kröfu sóknaraðila um opinber skipti á dánarbúi móðurbróður þeirra.

III.

Varnaraðili styður kröfur sínar við eftirfarandi málsástæður:

Sóknaraðilar telji að úr ágreiningi, um að réttindi sóknaraðila til arfs gangi framar réttindum varnaraðila, eigi að leysa eftir að bú D hefur verið tekið til opinberra skipta en ekki áður, sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 20/1991. Þessu er mótmælt af hálfu varnaraðila. Samkvæmt 42. gr. í IV. kafla laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum, er fjallar um upphaf opinberra skipta, skuli beina kröfu um opinber skipti skriflega til þess héraðsdómstóls sem lögsögu hafi í umdæmi þess sýslumanns sem skiptin eiga undir. Samkvæmt 43. gr. laganna beri dómara m.a. að ákveða stað og stund til þinghalds þar sem beiðnin verður tekin fyrir og tilkynna þeim sem hefur kröfuna uppi og þeim sem þar er greint að kunni að telja til arfs eftir þann látna með tryggum hætti. Í 3. mgr. 44. gr. áðurnefndra laga nr. 20/1991 komi skýrt fram að komi fram andmæli gegn kröfu um opinber skipti skuli farið með hana eftir 1. mgr. 120. gr. lagana. Telja verði að úrskurður Hæstaréttar í máli nr. 339/2008 styðji þessa niðurstöðu. Ákvæði 53. gr. laga nr. 20/1991, sem varði aðstæður eftir að krafa um opinber skipti hefur verið tekin til greina, eigi ekki við í máli þessu.

Sóknaraðilar byggi á því að varnaraðili hafi ekki sýnt nægilega fram á að hún hafi verið í hjúskap með hinum látna á dánardegi. Þessu er sérstaklega mótmælt af hálfu varnaraðila. Þegar til hjúskapar hafi verið stofnað í Japan, gefi skrifstofa viðkomandi umdæmis út svokallað móttökuvottorð, þ.e. vottorð um viðurkenningu á stofnun hjúskapar (e. „Certificate of Acceptance of Notification of Marriage“). Slík staðfesting hafi verið gefin út af hálfu japanskra yfirvalda í Ota-ku við skráningu hjúskapar varnaraðila og D, og liggi þessi vottorð ásamt íslenskri þýðingu frammi í málinu.

Hjúskapur í Japan sé einnig skráður í opinbera fjölskylduskrá (e. Official Family Register) viðkomandi japönskum ríkisborgurum. Fjölskylduskrá þessi hafi að geyma skráningu persónuupplýsinga um varnaraðila, ekki ólíkt því sem þjóðskrá hafi að geyma hér á landi. Í málinu liggi fyrir vottorð um varnaraðila úr fjölskylduskrá yfirvalda í umdæminu Ota-ku, í borginni Tokyo í Japan, útgefið þann 21. janúar 2008 og innsiglað af borgarstjóra Otaborgar. Samkvæmt vottorðinu hafi verið stofnað til hjúskapar varnaraðila og D þann 6. september 2004 og hjúskapurinn skráður þann 28. janúar 2005.

Sóknaraðilar hafi kallað eftir skýringu á ofangreindum drætti á skráningu hjúskaparins. Japönsk borgaryfirvöld hafi fallist á skjöl sem lágu til grundvallar hjúskapnum með vottorði, útgefnu þann 6. september 2004. Við hafi tekið skoðun japanskra yfirvalda á lögmæti hjúskaparins. Dómsmálaráðherra Japans hafi loks samþykkt skráningu hjúskaparins eftir skoðun gagna málsins þann 28. janúar 2005.

Sóknaraðilar hafi lagt fram hjónavígsluvottorð á ensku, frá japanska sendiráðinu, útg. 30. janúar 2008, sem sé grundvallað á skráningu hjúskapar í ofangreindri fjölskylduskrá eins og hún var þann 21. janúar 2008.

Sóknaraðilar haldi fram að draga megi í efa að hinn látni hafi skilið eða gert sér grein fyrir efni þeirra skjala á japönsku sem hann kunni að hafa undirritað í tengslum við hinn meinta hjúskap. Af hálfu varnaraðila er þessu mótmælt. Í fyrsta lagi hafi D verið þekktur fyrir ofurnákvæmni gagnvart því að undirrita ekki skjöl nema hann væri sannfærður um hvað þau þýddu og fullkomlega sáttur við efnislegt innihald þeirra. Þá hafi auk þess, við undirritun skjala er vörðuðu hjúskap D og varnaraðila, verið túlkur og vitni til staðar. Vísar varnaraðili í þessu sambandi til framlagðra skjala þar sem finna megi yfirlýsingar á ensku, undirritaðar af D, þar sem hann staðfesti hug sinn til þess að ganga í hjúskap með varnaraðila.

Sóknaraðilar haldi því fram að D hafi lýst því margoft yfir við vini sína og velgjörðarmenn hérlendis að hann væri ókvæntur. Varnaraðili mótmælir að það hafi nokkra þýðingu. Hinn látni hafi verið þekktur fyrir að ganga langt í að leyna aðra einkamálum sínum. Samband hans við varnaraðila hafi þar engin undantekning verið.

Sóknaraðilar haldi því fram að hinn látni hafi aldrei haldið heimili með varnaraðila. Er því mótmælt af hálfu varnaraðila. Árið 2000 hafi D flutt til varnaraðila og búið hjá honum frá þeim tíma í um fjögur ár. Eftir að hann flutti inn á heimili varnaraðila í Japan þurfti D þó að una því að fá einungis dvalarleyfi til nokkurra mánaða í senn eins og japönsk lög kveði á um. Hafi hann því orðið að bregða sér úr landi með reglulegu millibili, ýmist einn eða með varnaraðila. Eftir komu D til Íslands kom varnaraðili yfir 20 sinnum til hans á þeim tæpu þremur árum sem D lifði og dvaldi hér á Íslandi. Hafi hún þá að jafnaði dvalið í um 2 vikur og séð um öll þau mál sem hún var vön á heimili þeirra í Japan.

Fram hefur komið að hjúskaparstaða D hafi verið skráð óupplýst eða ótilgreind í þjóðskrá. Slík merking sé einungis notuð þegar um sé að ræða erlenda aðila sem ekki hafi upplýst um hjúskaparstöðu sína. Af þessu verður vitaskuld ekki dregin sú afstaða að D heitinn hafi ekki talið sig vera í hjúskap, líkt og sóknaraðilar haldi fram, enda sú fullyrðing með öllu órökstudd. Sóknaraðilar haldi jafnframt fram að hjúskapurinn hafi ekki verið tilgreindur í umsókn um ríkisborgararétt. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi ekki lagt fram nein gögn sem styðji þá fullyrðingu og sé hún með öllu órökstudd.

Þá hafi sóknaraðilar haldið fram að hinum látna hefði verið ókleift að ganga í hjúskap, er stofnað var til hans. Er þeirri fullyrðingu eindregið mótmælt, enda sé hún ekki studd neinum gögnum. Rétt sé að D hafi staðið í deilum við japönsk yfirvöld um gildistíma vegabréfs, þegar til hjúskapar hafi verið stofnað. Ástæður þess að vegabréf er skilyrði fyrir skráningu hjúskapar í Japan, séu þær að staðfesta  þurfi að viðkomandi sé sá sem hann segist vera. Í tilviki D vildi svo til að umrætt vegabréf varð, ásamt öðru, til þess að yfirvöld, m.a. í Japan, voru ekki í minnsta vafa um að D væri sá sem hann sagðist vera. Þar sem unnt hafi verið að staðfesta hver D var með öðrum hætti, hafi borgaryfirvöld fallist á skjöl þau sem lágu til grundvallar hjúskapnum með vottorði, eins og framlögð gögn sýni.

Þá er því mótmælt að varnaraðili hafi haft í hyggju að giftast D til málamynda. Sú fullyrðing sé órökstudd með öllu og ekki studd gögnum. Varnaraðili hafi kynnst hinum látna, D, fyrst árið 1973 í Japan, og áður hefur komið fram hvernig samband þeirra þróaðist. Af ótilgreindum fréttum fjölmiðla einum verði hvorki dregnar ályktanir um hug fólks, tilfinningar þess eða staðreyndir um það.

Varnaraðili vísar einkum til 1. mgr. 2. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og meginreglna hjúskapar- og erfðaréttar. Þá er vísað til laga um skipti á dánarbúum nr. 20/1991 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Til stuðnings kröfu um málskostnað vísast til XXI. kafla sömu laga.

IV.

Ágreiningur máls þessa lýtur fyrst og fremst að því hvort varnaraðili og hinn látni hafi verið í hjónabandi í skilningi íslenskra laga, við andlátið. Ef niðurstaðan verður að svo hafi verið ber að hafna kröfu um opinber skipti, enda á varnaraðili þá rétt á að fá búið framselt sér til einkaskipta samkvæmt reglum II. kafla laga nr. 20/1991 og að uppfylltum skilyrðum þeirra laga.

Varnaraðili byggir á því að hún hafi verið eiginkona hins látna, þau hafi gengið í hjónaband á árinu 2004, en búið saman frá árinu 2000, með þeim takmörkunum sem búseta þeirra hvors í sínu landi hafi haft í för með sér. Ýmis gögn liggja frammi í málinu, þessu til stuðnings.

Fyrst er þar að nefna skjal, dagsett 30. janúar 2008, útgefið af sendiráði Japans í Reykjavík, sem bæði liggur frammi á ensku og í íslenskri þýðingu löggilts skjala­þýðanda. Skjalið ber yfirskriftina Hjónavígsluvottorð og þar kemur fram að D og varnaraðili hafi gengið í hjónaband 6. september 2004 í Ota Ward, Tokyo Metropolis, Japan. Þá kemur fram að vottorðið sé byggt á staðfestu afriti opinberrar fjölskylduskráningar í Ota Ward, dagsettu 21. janúar 2008.

Þýðing á hinni opinberu fjölskylduskráningu sem nefnt vottorð mun byggjast á, er einnig meðal gagna málsins. Þar koma fram ýmsar upplýsingar um varnaraðila, svo sem um fæðingardag og –stað, foreldra hennar, tilkynningardag fæðingar, að hún sé fjórða dóttir og að hún sé eiginkona. Upplýsingar um maka koma þar einnig fram, dagsetning hjónavígslu og dagsetning á skráningu hennar.

Almennt verður að líta svo á að hjúskapur, sem löglega er stofnað til í öðrum löndum, hafi fullt gildi hér á landi. Ljóst er að ólíkar reglur eru varðandi stofnun og skráningu hjúskapar í hinum ýmsu löndum. Ekkert hefur þó komið fram í málinu sem véfengir að ofangreind vottorð um hjónaband varnaraðila og D séu í samræmi við raun­veruleikann, þ.e. að þau hafi gengið í hjónaband í Tokyo í Japan í september 2004. Verður því við úrlausn málsins byggt á því að þessi gögn séu rétt.

Helstu málsástæður sóknaraðila varðandi þetta eru þær að þar sem ekki hafi verið lögð fram gögn sem gætu verið grundvöllur skráningar í persónuskrá varnaraðila, verði hún ekki lögð til grundvallar um erfðarétt hennar. Þar af leiðandi hafi ekki verið nægilega sýnt fram á að hún hafi verið í hjúskap með hinum látna á dánardegi hans. Þá telja sóknaraðilar líklegt að tungumálaörðugleikar komi við sögu. Ekki verður séð að nauðsynlegt sé að gögn sem skráning í persónuskrá byggir á, liggi frammi, ekki frekar en að gögn sem vottorð úr Þjóðskrá byggist á þyrftu almennt að vera til staðar. Vottorð úr slíkum opinberum skrám hafa sjálfstætt sönnunargildi. Þá eru meðal gagna málsins skjöl á ensku sem D hefur undirritað, sem sýna fram á að hann hefur ætlað sér að ganga í hjónaband með varnaraðila.

Sú málsástæða sóknaraðila, að hjúskaparstaða hins látna hafi verið skráð ótilgreind í Þjóðskrá, gefur til kynna að ekki hafi verið veittar fullnægjandi upplýsingar um hjúskaparstöðu hans við skráningu, en verður ekki talin breyta því sem að ofan greinir um gilt hjónaband hans og varnaraðila. Þá verður ekki talið að óljósar upplýsingar um að hjónabands hafi ekki verið getið í umsókn um ríkisborgararétt skipti hér máli, enda stendur þar orð gegn orði, engin gögn liggja fyrir um þetta atriði og ólíklegt að það breytti niðurstöðu ef í ljós kæmi að hjónabands hefði ekki verið getið. Það sama á við um fullyrðingar sóknaraðila, að hinn látni hafi oft lýst því yfir að hann væri ekki kvæntur og um umfjöllun fjölmiðla þar sem kemur í einhverjum tilvikum fram að varnaraðili sé unnusta hins látna, m.a. eftir að til hjónabandsins var stofnað. Fullyrðingar um að hjúskaparstofnun hafi annars vegar verið ómöguleg, þar sem hinn látni hafi verið ríkisfangslaus og sviptur vegabréfi, og hins vegar að hjónabandið hafi verið til málamynda og japönsk yfirvöld ekki samþykkt það, teljast ósannaðar, enda ekki studdar gögnum og í andstöðu við áðurnefnd gögn um hjúskapinn, auk þess sem skýringar varnaraðila varðandi þessi atriði verða að teljast trúverðugar. Ekki er talin þörf á að fjalla um þá málsástæðu sóknaraðila að varnaraðili og hinn látni hafi aldrei búið saman. Þessu er mótmælt af hálfu varnaraðila og verður ekki talið skipta máli miðað við þá fyrirliggjandi niðurstöðu að um gilt hjónaband hafi verið að ræða við andlát.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og allra atvika málsins, verður það niðurstaða þess að hafnað verður kröfu sóknaraðila um að bú D verði tekið til opinberra skipta.

Sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað, sem með hliðsjón af málsúrslitum og með vísan til 3. mgr. 130. gr., þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kröfu A og B, um opinber skipti á dánarbúi D, er hafnað.

Sóknaraðilar greiði varnaraðila, C, 200.000 krónur í málskostnað.