Hæstiréttur íslands
Mál nr. 301/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Haldlagning
|
Föstudaginn 21. maí 2010. |
|
|
Nr. 301/2010. |
Ríkislögreglustjórinn (Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn A ehf. (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Haldlagning.
Ákvörðun efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra um að haldleggja inneign A ehf. á bankareikningi í eigu félagsins, var staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. maí 2010 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2010 þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila um að leggja hald á inneign varnaraðila á bankareikningi nr. [...], að fjárhæð 92.150.336 krónur. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að felld verði úr gildi sú ákvörðun sóknaraðila frá 15. janúar 2010 að leggja hald á inneign hans á framangreindum reikningi hjá MP Banka hf. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í hinum kærða úrskurði kemur fram að ágreiningslaust sé að bankainnistæðan sem málið varðar sé til komin vegna þeirra atvika sem eru til rannsóknar hjá sóknaraðila og grein er gerð fyrir í úrskurðinum. Varnaraðili hefur ekki við meðferð málsins fyrir Hæstarétti gert athugasemd við þetta. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 er meðal annars heimilt að leggja hald á muni ef ætla megi að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt. Fallist verður á að þessu skilyrði sé fullnægt í málinu.
Ekki verður fallist á með varnaraðila að ummæli í bréfi sóknaraðila til MP banka 15. janúar 2010 séu með þeim hætti að áhrif eigi að hafa á niðurstöðu þessa máls.
Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2010.
Með kröfu, dags. 23. mars 2010 er barst héraðsdómi sama dag, krafðist sóknaraðili, A ehf., [...] kt. og heimilisfang, þess að felld verði úr gildi með úrskurði ákvörðun efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra frá 15. janúar 2010, að leggja hald á inneign félagsins, að fjárhæð 92.150.336 krónur, á bankareikningi hjá MP banka hf., nr. [...]. Þá krefst sóknaraðili þess að ríkissjóður greiði allan málskostnað af máli þessu.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Krafan var tekin til úrskurðar að loknum flutningi 29. apríl 2010.
Málavextir:
Þann 14. janúar 2010 barst embætti ríkislögreglustjóra bréf, dagsett 13. janúar s.á., frá O hrl., f.h. Arion banka hf., Glitnis banka hf. og Íslandsbanka með ósk um lögreglurannsókn á meintum brotum eigenda og/eða forsvarsmanna B ehf., vegna gruns um stórfelld fjársvik með því að hafa blekkt umbjóðendur lögmannsins til að aflétta veðkröfum á [...], Reykjavík, á grundvelli málamyndakaupsamnings, sem hafi hljóðað á umtalsvert lægra kaupverð en raunverulegur kaupsamningur um eignina gerði. Með þessu hafi meintir brotamenn valdið ofangreindum bönkum tjóni sem hafi numið um 300.000.000 króna og auðgast sjálfir að sama skapi um þá fjárhæð.
Daginn eftir, þann 15. janúar 2010, sendi ríkislögreglustjóri bréf til MP banka hf. þar sem greint er frá því að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rannsaki stórfelld fjársvik í tengslum við starfsemi A ehf. og tengdra aðila og að í þágu rannsóknar málsins hafi verið tekin ákvörðun um að haldleggja inneign félagsins á bankareikningi [...], fjárhæð kr. 92.150.336, hjá MP banka, til tryggingar upptöku ávinnings í mögulegu sakamáli á hendur fyrirsvarsmönnum félagsins og félaginu sjálfu, auk þess sem rökstuddur grunur sé um að fjárins hafi verið aflað með refsiverðri háttsemi sömu aðila. Um lagagrundvöll haldlagningar er vísað í 1. mgr. 68. gr., sbr. 69. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og VIII. kafla A almennra hegningarlaga og jafnframt sagt að ástæða sé til að ætla að fjármunum verði ella skotið undan.
Samkvæmt gögnum málsins var aðdragandinn að kæru lögmannsins og í framhaldi rannsóknar varnaraðila eftirfarandi:
Þann 2. desember 2009 gerði C lögmaður tilboð til B ehf. í fasteignina [...] f.h. [...] félagins, D, að fjárhæð 500.000.000 króna. Því tilboði var hafnað af veðhöfum, en fram hefur komið að veðkröfur bankanna þriggja, námu yfir einum milljarði króna.
Þann 11. desember 2009, afsalaði B ehf. fasteigninni [...] til félagsins E ehf. sem var í eigu F ehf., sem aftur var í eigu C og var því afsali þinglýst 14. desember 2009.
Þann 14. desember 2009 var gert nýtt kauptilboð í fasteignina [...] f.h. D, að fjárhæð 575.000.000 króna.
Þann 16. desember 2009 samþykktu veðhafar, með yfirlýsingu, að aflétta veðböndum gegn greiðslu alls kaupverðsins, að fjárhæð 575.000.000 krónur, á grundvelli ofangreinds kauptilboðs frá 14. desember 2009. Yfirlýsingin gilti til 21. desember, en greiða átti kaupverðið fyrir þann tíma.
Þann 17. desember 2009, var undirritaður kaupsamningur á E og G. Söluandvirði eignarinnar var 7.000.000 bandaríkjadalir eða sem nam um 875.000.000 króna.
Þann 21. desember 2009 var undirrituð önnur yfirlýsing frá veðhöfum, sem gilti til loka dags 31. desember 2009. Var yfirlýsingin efnislega samhljóða þeirri fyrri og gerð á grundvelli kauptilboðs, frá 14. desember 2009.
Þann 22. desember 2009, samþykkti dómsmálaráðherra kaup G á fasteigninni að [...], Reykjavík.
Þann 28. desember 2009 barst greiðsla til veðhafa, að fjárhæð 577.300.000 krónur með vöxtum, og barst greiðslan frá H.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila:
Sóknaraðili setur kröfu þessa fram á grundvelli 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 2.mgr. 102.gr sömu laga. Vísar hann til þess að í fyrrnefnda ákvæðinu sé kveðið á um að eigandi eða vörsluhafi munar sem lagt sé hald á geti, vilji hann ekki hlíta ákvörðun um haldlagningu, borið ágreiningsefnið undir dómara. Í síðarnefnda ákvæðinu segi að leggja megi fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda. Þá vísar sóknaraðili til þess að úrskurði dómara um hvort leggja megi hald á muni eða hvort því verði aflétt verði skotið til Hæstaréttar, sbr. g-lið 1.mgr. 192.gr. laganna.
Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili byggi haldlagningu sína á 68. gr., sbr. 69. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hann kveðst byggja kröfu sína á því að skilyrði 68.gr. laganna séu engan veginn uppfyllt í málinu. Ákvæðið lúti að haldlagningu í þágu rannsóknar, en bókað hafi verið við skýrslutöku af I að haldlagningin hafi verið gerð í því skyni tryggja upptöku ávinnings. Haldlagning sé aðgerð, sem venjulega fari fram á vettvangi brots eða við húsleit og hún sé gerð í rannsóknarskyni, en í þessu tilviki hafi hinir haldlögðu fjármunir verið geymdir inni á bankareikningi haldlagningarþola. Sóknaraðili kveðst byggja á því að varnaraðila hefði borið að fara þá leið að krefjast kyrrsetningar á umræddum fjármunum.
Um kyrrsetningu mögulegs ávinnings sé fjallað í 1. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008, sem hljóði svo: „Til tryggingar greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku ávinnings, sem aflað hefur verið með broti, getur lögregla krafist kyrrsetningar hjá sakborningi ef hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun.” Sóknaraðili segir að í þessu tilviki hafi ríkislögreglustjóra borið að fara þá leið við að tryggja upptöku hugsanlegs ávinnings að senda kyrrsetningarbeiðni til sýslumannsins í Reykjavík með sambærilegum hætti og gert hafi verið í máli því sem kom til dóms í Hæstarétti í máli nr. 73/2010.
Þá kveðst sóknaraðili einnig byggja kröfu sína á því að málsatvik í málinu séu nú svo vel upplýst að ekki sé til staðar rökstuddur grunur um fjársvik.
Í bréfi O hrl., dags. 13. janúar 2010, fyrir hönd bankanna séu þær sakir bornar á fyrirsvarsmenn B ehf. að þeir hafi blekkt veðhafa á [...] til að aflétta veðböndum sem námu rúmlega milljarði gegn 575.000.000 króna greiðslu á sama tíma og eignin var að seljast á 875.000.000 króna. Kauptilboð D frá 2. og 14. desember 2009, hafi einvörðungu verið sett fram til þess að blekkja bankana; aðeins hafi verið um málamyndagerninga að ræða. Þetta bréf hafi borist varnaraðila þann 14. janúar 2010. Strax daginn eftir hafi efnahagsbrotadeildin sent kröfu til Héraðsdóms Reykjavíkur um úrskurð um skyldu bankastofnana til afhendingar gagna og til upplýsingagjafar. Þessi kenning um málamyndagerninga hafi ratað athugasemdalaust beint í kröfugerðina og í úrskurð Héraðsdóms. Framburðir og gögn sem síðar hafi komið fram undir rekstri málsins hafi síðan heldur betur hrundið þessari kenningu. Sýnt hafi verið fram á með óvefengjanlegum hætti að tilboð félagsins D hafi verið raunveruleg og fjarstæðukennt sé að halda því fram að um eitthvað fjársvikasamsæri hafi verið að ræða. Vísist um það, m.a. í framburð C lögmanns, þar sem hann lýsi því að hann hafi verið að vinna að tilboði fyrir þetta sama félag í svokallaðan [...]reit, en félagið hafi gert í þá eign tilboð að fjárhæð 2 milljónir bandaríkjadollara. Eigendur þess húsnæðis hefðu hætt við að selja og C því verið beðinn um að finna annað húsnæði. Allt liggi þetta skjalfest fyrir í málinu. Í framhaldinu hafi C sýnt fyrirsvarsmanni D húsnæðið að [...] og hafi honum litist vel á. C greini frá því að hann hafi samið við fyrirvarsmenn B ehf. um að hann fengi 20.000.000 króna þóknun, yrði af sölu hússins. Hafi C lagt mikla vinnu í þetta söluferli og lýsi í skýrslu sinni samskiptum við veðhafana. Þann 22. eða 23. desember 2009, hafi svo að I tjáð honum að hann væri hættur við kaupin. Um þetta vísar sóknaraðili til bréfs J hrl., dags. 13. janúar 2010, sbr. bréf K Pvt Ltd, dags. 5. desember 2009, til Reserve Banka of India þar sem lagt sé fyrir bankann að millifæra 5-6 milljónir bandaríkjadala vegna þessara kaupa.
Þá kveðst sóknaraðili jafnframt byggja kröfu sína á því að O hrl., láti að því liggja í beiðni sinni um opinbera rannsókn að samningurinn sem komist hafi á milli D og B ehf. hafi ekki verið skuldbindandi. Þarna sé lögmaðurinn að vísa til 14.gr. tilboðsins, þar sem fram komi að seljandi geti, allt fram til þess tíma að kaupandi gangi frá greiðslum við bankana, horfið frá kaupunum. Sóknaraðili segir þetta ákvæði eiga sér eðlilegar skýringar, en eins og fram komi í framburði I hefðu margir aðilar falast eftir eigninni og gert tilboð í hana, sem þegar á hólminn hafi verið komið hafi lítið reynst vera á bak við. Boðin hefðu hljóðað upp á talsvert hærri upphæð heldur en D hafi boðið og hafi bankarnir verið vel upplýstir um það. Hafi fyrirsvarsmenn B ehf. haldið sem lengst í þá von að hærra verð fengist fyrir fasteignina en 575.000.000 krónur. Því byggi sóknaraðili á því að ákvæðið í 14.gr. tilboðsins frá D, sem bankarnir hafi samþykkt, sýni svo ekki verður um villst, að engin blekking hafi verið til staðar, en það sé frumforsenda þess að um fjársvik geti verið að ræða í skilningi hegningarlaga. Hefði vakað fyrir fyrirsvarsmönnum B ehf. að blekkja veðhafa, hefði verið hægur vandi að setja á svið ágreining milli kaupanda og seljanda eftir að greitt hefði verið til bankanna, rifta kaupum og selja síðan G, eða hreinlega nota D sem lepp til þess að selja fasteignina áfram [...] yfirvöldum. Þess í stað hafi allt verið uppi á yfirborðinu. Þegar bankarnir hafi fengið tilboðið til yfirferðar og samþykktar hafi sérfræðingar þeirra væntanlega séð viðkomandi samningsákvæði og þannig áttað sig á að B efh., sem seljandi, gæti dregið sig út úr kaupunum fengist fyrir eignina hærra verð. Virðist lögmaðurinn (O hrl.) bera starfsmönnum bankanna á brýn þau mistök að hafa ekki séð umrætt ákvæði, sem þó hafi verið viðblasandi og sambærilegt öðrum samningsákvæðum sem fyrirsvarsmenn B ehf. hafi sett í samninga sambærilegum þeim sem hér hafi verið gerður að þrætuepli. Staðreyndin sé einfaldlega sú að viðkomandi bankar, einkum Arion Banki, virðast hafa metið það sem ásættanlega niðurstöðu fyrir sitt leyti, að fá greiddar kr. 575.000.000 króna til þess að aflétta umræddum veðböndum. Sjálfir hafi þeir afþakkað boð um að yfirtaka eignina og ekki hafi þeir áskilið sér hærri greiðslur, kæmi til þess að B ehf. bakkaði út úr samningnum.
Þá kveður sóknaraðili, varnaraðila ekki hafa skilið hugsunina á bak við afsal á eigninni til E ehf. Virðisaukaskattskvöð, að fjárhæð um 100.000.000 króna, hafi hvílt á fasteigninni. Erlent félag geti, lögum samkvæmt, ekki yfirtekið slíka kvöð. Hafi því eignin verið færð yfir í sérstakt félag til þess að viðskiptin gætu náð fram að ganga. Hafi lögmaður D haft slíkt félag handbært, enda alþekkt að lögmenn og endurskoðendur eigi einkahlutafélög á lager fyrir umbjóðendur sína. Eignin hafi því verið færð yfir á þetta félag, E ehf., og eignarhald þess fært yfir til fyrirsvarsmanna B ehf., þá I og L. Gert hafi verið ráð fyrir að eignarhald á hlutum í E ehf. færðist yfir til kaupendanna þegar kaupin hefðu verið frágengin við D. Slíkt fyrirkomulag sé mjög algengt í viðskiptum með atvinnuhúsnæði; þ.e.a.s. að seld séu eignarhaldsfélög um fasteignirnar en ekki eignirnar sjálfar. Ferli þetta hafi verið sett af stað, til þess einmitt að fullnægja lagaskyldum, þó lögmaðurinn og varnaraðili hafi reynt að snúa því á haus.
Þá sé í margnefndu bréfi lögmannsins (O hrl.) gerð tilraun til að gera tortryggilegar í þessu samhengi greiðslur til C, D og M fasteignasala. Sóknaraðili segir greiðslur þessar hafi allar verið útskýrðar. Greiðslan til C sé söluþóknun vegna sölunnar til D. Þó kaupin hafi gengið til baka leysi það ekki B ehf. undan skyldu til að greiða honum söluþóknun. Greiðslan til D hafi verið bætur vegna óhagræðis og fyrirhafnar sem þeir hefðu haft af málinu. Greiðslan til M hafi verið söluþóknun vegna sölunnar til G.
Bæði í bréfi O hrl. og greinargerð varnaraðila sé málið fram sett sem svo að mismunur á kaupverði samkvæmt hinu samþykkta kauptilboði D að fjárhæð 575.000.000 króna og kaupsamningi við G að fjárhæð 875.000.000 króna eða 300.000.000 krónur hafi verið afrakstur ætlaðra fjársvika. Hefði lögmaðurinn og efnahagsbrotadeildin kynnt sér málið áður en þessum tölum hafi verið slengt fram, hefði fyrirhafnarlítið mátt sjá að mismunurinn hafi aðeins verið þriðjungurinn af þeirri fjárhæð eða 114.000.000 krónur.
Sóknaraðili fullyrðir það sé fjarri sanni, að kominn hafi verið á samningur milli B ehf. og G fyrir 17. desember 2009, þegar bankarnir samþykktu að aflétta veðböndum gegn greiðslu á 575.000.000 króna. Samningur hafi ekki komist á með þessum aðilum fyrr en skrifað hafi verið undir kaupsamninginn, þann 17. desember 2009. Þá hafi kínversk yfirvöld gert þann fyrirvara við kaupin að þau væru háð staðfestingu íslenskra yfirvalda. Bendir sóknaraðili á að í skýrslu M, fasteignasala, komi fram að að kaupin hafi í raun ekki verið komin á milli G og A ehf. fyrr en dómsmálaráðuneytið samþykkti kaupin þann 22. desember 2009.
Sóknaraðili segir að veðhafarnir hafi fallist á að aflétta umræddum veðböndum á [...], gegn 575.000.000 króna greiðslu. Í tilboðinu komi skýrt fram að seljendur áskilji sér rétt til þess að ganga út úr tilboðinu komi betra boð. Bankarnir hefðu því hæglega getað tryggt sér hærri greiðslu upp í veðböndin, með einfaldri yfirlýsingu, enda hafi það staðið bönkunum næst að gæta hagsmuna sinna. Bankarnir virðist hins vegar hafa fengið bakþanka eða áttað sig á því að þeir hefðu ekki staðið vaktina og því gripið til þess ráðs að kæra sóknaraðila máls þessa og nota þannig embætti ríkislögreglustjóra sem innheimtustofnun.
Þessu til viðbótar byggir sóknaraðili ógildingarkröfu sína á því að með ummælum sínum í bréfi til MP Banka hf. hafi saksóknari efnahagsbrota brotið gegn hlutlægnisreglu sakamálalaganna, þegar hann segi fullum fetum að rannsökuð séu stórfelld fjársvik í tengslum við starfsemi A ehf. Í sérstöku erindi til ríkissaksóknara hafi þess verið farið á leit að saksóknari efnahagsbrota verði látinn víkja sæti við rannsókn þessa máls og að nýr saksóknari verði skipaður ad hoc til að stýra rannsókninni.
Þá kveður sóknaraðili að málið sé byggt á algerri mistúlkun á fjársvikaákvæði hegningarlaga og þeim efnislegu takmörkunum sem ákvæðinu séu sett, m.a. með ólögmætisfyrirvara ákvæðisins, sem einn og sér myndi leiða til sýknu.
Málsástæður og lagarök varnaraðila:
i) Lagaheimild fyrir haldlagningu
Varnaraðili byggir kröfu sína, um að hafna beri öllum kröfum kæranda, á því að heimilt hafi verið að beita haldlagningu á grundvelli 1. mgr. 68. gr., sbr. 69. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og VII. kafla A. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um upptöku. Í 68. gr. sakamálalaga sé heimild til handa lögreglu að leggja hald á muni sem aflað hefur verið með refsiverðum hætti eða kunni að vera gerðir upptækir. Þá sé lögreglu heimilt, samkvæmt 1. mgr. 69. gr. sömu laga, að leggja hald á muni án dómsúrskurðar nema í þeim undantekningartilvikum sem séu tilgreind í 2. mgr. 69. gr.
Í tilviki því, sem hér um ræði, hafi andlag haldlagningarinnar verið innstæða á bankareikningi sóknaraðila hjá MP banka hf., að fjárhæð kr. 92.150.336. Grunur hafi leikið á um að fjármunanna hafi verið aflað með refsiverðum hætti og þeir kunni að verða gerðir upptækir. Að mati varnaraðila hafi verið hætta á því að bankainnstæðan færi forgörðum eða yrði skotið undan, ef hún yrði ekki haldlögð, og ætti því undantekningarákvæði 2. mgr. 69. gr. sakamálalaga um dómsúrskurð ekki við í þessu tilviki.
Varnaraðili byggir jafnframt á því að skilyrði kyrrsetningar samkvæmt 88. gr. sakamálalaga hafi einnig verið fyrir hendi, þ.e. að „hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun“. Þá vísar varnaraðili til dóms Hæstaréttar í máli nr. 73/2010, en í því máli hafi einnig verið um að ræða innstæðu á bankareikningi. Hæstiréttur hafi talið að við mat á ofangreindu skilyrði eigi einkum að líta til þess eðlis peningaeigna að hægt sé að færa innistæðu af bankareikningum á skömmum tíma og um hafi verið að ræða háar fjárhæðir. Varnaraðili telur að sömu sjónarmið eigi við um skilyrði haldlagningar.
Varnaraðili telur að túlkun sóknaraðila á haldlagningarákvæðum 1. mgr. 68. gr., sbr. 69. gr. sakamálalaga standist ekki. Rannsóknin beinist m.a. að því hvort innstæðunnar hafi verið aflað með refsiverðum hætti. Enn fremur telji varnaraðili að haldlagningarheimild 68. gr. geti jafnt átt við um innstæður á bankareikningi og lausafjármuni.
Til stuðnings, því að haldlagning á innstæðum á bankareikningum geti fallið undir heimildarákvæðið, vísar varnaraðili til athugasemda með frumvarpi til laga um meðferð sakamála. Um 1. mgr. 69. gr., sé tekið fram að almennt sé heimilt að leggja hald á muni án dómsúrskurðar, hvar sem þá sé að finna. Þá leggur varnaraðili áherslu á að skoða verði tilvísun til orðalagsins upptöku í 1. mgr. 68. gr. sakamálalaga, með hliðsjón af VII. kafla A. almennra hegningarlaga, um upptöku. Í þeim kafla sé meðal annars kveðið á um upptöku ávinnings af broti og að haldlagningarheimild 68. gr., sbr. 69. gr. sakamálalaga, eigi jafnframt við um upptöku ávinnings sem grunur leiki á um að hafi verið aflað með refsiverðum hætti. Samkvæmt þessu sé því hafnað af hálfu varnaraðila að honum hafi borið að krefjast kyrrsetningar á innstæðu bankareikningsins
Varnaraðili kveður þó, að skilyrði kyrrsetningar til tryggingar greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku ávinnings hafi þó einnig verið uppfyllt. Þrátt fyrir það hafi varnaraðili talið að við þær aðstæður sem hafi verið uppi í málinu að haldlagning væri betri kostur til að tryggja að fjármunirnir færu ekki forgörðum eða þeim skotið undan. Kyrrsetning fari eftir 88. gr. sakamálalaga, lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990 og lögum um aðför nr. 90/1989, og sé framkvæmd af sýslumanni eða löglærðum fulltrúum hans. Í ljósi þess hversu auðvelt sé að skjóta undan innstæðum á bankareikningum, t.d. með símtali eða í gegnum netbanka, hafi verið talið að meiri hætta væri á því við framkvæmd kyrrsetningar að fjármununum yrði komið undan. Framkvæmd kyrrsetningar geti tekið langan tíma og sé oft erfiðleikum bundin. Nefnir varnaraðili sem dæmi að ekki verði af kyrrsetningu nema viðkomandi hittist fyrir, í þeim tilvikum að honum hafi ekki verið tilkynnt fyrirfram um kyrrsetninguna. Erfitt geti reynst að ná á viðkomandi og hann fengið vitneskju um fyrirhugaða kyrrsetningu áður en til hennar kemur. Þá tekur varnaraðili fram að þrátt fyrir að framkvæmd kyrrsetningar sé í höndum sýslumanna, hafi þeir ekki aðstöðu til að loka eða læsa reikningum viðkomandi og þannig kyrrsett fjármunina. Af þeirri ástæðu geti enn fremur opnast möguleiki fyrir viðkomandi að koma fjármunum undan eftir framkvæmd kyrrsetningar, takist ekki að hafa samband við starfsmenn viðkomandi banka. Því geti verið heppilegra að haldleggja fjármuni, í þeim tilvikum að hætta sé talin á undanskoti, og hafi haldlagning verið talin æskilegri við þær aðstæður sem uppi voru í máli þessu.
ii) Rökstuddur grunur um meint fjársvik
Varnaraðili kveðst hafna þeirri málsástæðu sóknaraðila að ekki hafi verið til staðar rökstuddur grunur um fjársvik. Um það vísar varnaraðili til þeirra atvika málsins, að þann 14. desember 2009 hafi verið gert kauptilboð að fjárhæð kr. 575.000.000 krónur, f.h. félagsins D í fasteignina [...]. Þann 16. desember hafi veðhafar samþykkt að aflétta veðböndum á fasteigninni [...] á grundvelli ofangreinds kauptilboðs frá D að fjárhæð 575.000.000 krónur, gegn greiðslu söluandvirðisins, og hafi verið gerð yfirlýsing þess efnis. Samkvæmt ofangreindri yfirlýsingu var gildistími hennar afmarkaður til 21. desember 2009 og þar með gert skilyrði að kaupverðið myndi greiðast til veðhafa fyrir þann tíma. Einungis einum degi síðar, þann 17. desember 2009, hafi verið undirritaður kaupsamningur á milli E ehf. og G um sömu fasteign, þar sem söluandvirði eignarinnar hafi verið í kringum 875.000.000 krónur. Þá hafi, þann 21. desember 2009, verið undirrituð ný yfirlýsing af hálfu veðhafa sem hafði gildistíma til 31. desember s.á. og þar með hafi þeim verið gert kleift að greiða söluandvirðið fram til þessa dags, en þó með dráttarvöxtum frá 21. desember. Sú yfirlýsing hafi byggt, eins og fyrri yfirlýsingin, á kauptilboði D, dags. 14. desember 2009, en ekki á ofangreindum kaupsamningi frá 17. desember 2009.
Greiðsla til veðhafa hafi borist veðhöfum þann 28. desember 2009 að fjárhæð kr. 577.300.000 og hafi veðhafar talið að sú greiðsla væri byggð á kauptilboði frá félaginu D, þar sem þeir hafi ekki haft vitneskju um að sala eignarinnar hefði gengið til G fyrir mun hærra söluandvirði. Mismunur kaupverðsins og þess tilboðs sem var til grundvallar afléttingu veðbandanna hafi numið allt að 300.000.000 króna. Varnaraðili kveðst hafna því að ekki hafi verið tilefni til að rannsaka hvort veðhafar hafi verið blekktir, en því sé haldið fram í greinargerð kæranda að engin blekking hafi verið til staðar þar sem ákvæði hafi verið í kauptilboðinu um að seljandi gæti dregið sig úr kaupunum þar til að greiðsla kæmi til bankans, sbr. 14. gr. kauptilboðsins. Varnaraðili bendir á að áhvílandi veðbönd á fasteigninni hafi verið yfir milljarður króna og yfirlýsing veðhafa um afléttingu veðbanda hafi verið byggð á kauptilboði frá 14. desember 2009.
Þá segir varnaraðili það vera til marks um að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um refsivert brot að við rannsókn málsins hafi komið fram upplýsingar um að aðdragandi að kaupum G hafi hafist töluvert fyrr og megi þá meðal annars nefna að samskipti höfðu verið á milli fasteignasalans M og ráðuneyta í nóvember 2009 vegna kaupa G á [...]. Þar að auki segi í tölvupósti M til N, dags. 11. janúar 2010, að viðræður á milli aðila hefðu staðið um langt skeið þó ekki hafi legið fyrir fyrr en 17. desember að yrði af kaupunum. Varnaraðili telur ástæðu til að rannsaka þetta frekar.
Þá hafi komið fram að þeir aðilar sem komu að fyrri tilboðsgerð, f.h. D, hafi fengið greiddar háar fjárhæðir af söluandvirðinu.
Samkvæmt framangreindu hafi verið fyrir hendi rökstuddur grunur um refsiverðan verknað sem hafi gefið tilefni til frekari rannsókna og þeirrar ákvörðunar sem hafi leitt til haldlagningarinnar. Ákvörðun um hvort hefja skuli rannsókn sé í höndum lögreglu eða ákæruvalds þegar grunur leiki á um að refsivert brot hafi verið framið, sbr. 2. mgr. 52. gr. sakamálalaga. Markmið rannsóknar sé að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að meta hvort sækja skuli menn til saka, sbr. 1. mgr. 53. gr. sakamálalaga.
iii) Hlutlægni
Varnaraðili hafnar því alfarið að hann hafi brotið gegn hlutlægnisreglu sakamálalaganna, eins og haldið sé fram í greinargerð sóknaraðila. Í upphafi bréfs varnaraðila til MP banka hf., dags. 15. janúar 2010, þar sem mælt sé fyrir um haldlagningu á greindri bankainnstæðu félagsins, komi fram að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rannsaki nú stórfelld fjársvik. Telja verði að framangreind ummæli séu algjörlega slitin úr samhengi í greinargerð kæranda. Strax í kjölfar þeirra ummæla sé tekið skýrt fram í bréfinu að ákvörðunin sé tekin í þágu rannsóknar máls og haldlagningin sé til tryggingar upptöku ávinnings í mögulegu sakamáli á hendur fyrirsvarsmönnum félagsins og félaginu sjálfu. Þar að auki sé tekið fram að rökstuddur grunur sé um að fjárins hafi verið aflað með refsiverðri háttsemi umræddra aðila.
Í bréfi þessu sé tekið fram að um sé að ræða mögulegt sakamál og jafnframt að um sé að ræða rökstuddan grun um refsiverða háttsemi. Rannsókn málsins leiði síðan í ljós hvort tilefni verði til að sækja menn til saka en markmið rannsóknar sé að afla allra nauðsynlegra gagna til að ákæranda sé fært að meta slíkt, sbr. 1. mgr. 53. gr. sakamálalaga. Við rannsókn máls skuli meðal annars hafa uppi á munum, sem hald skuli leggja á, og sé það því eitt af þeim atriðum sem líta þurfi til við rannsókn máls.
Niðurstaða:
Ágreiningur í máli þessu snýst um hvort varnaraðila, ríkislögreglustjóra, hafi verið heimilt að lögum, að leggja hald á bankainnstæðu án dómsúrskurðar, í tengslum við rannsókn máls. Krefst sóknaraðili þess að ákvörðun varnaraðila þar að lútandi verði felld úr gildi með dómi.
Undir rekstri málsins gaf lögmaður sóknaraðila þá skýringu á aðild A ehf. að málinu að breytt hafi verið nafni einkahlutafélagsins E ehf. sem, eins og í atvikalýsingu greinir, tók við eignarhaldi B ehf. á fasteigninni [...].
Meginmálsástæða sóknaraðila er sú að fyrir hendi hafi verið skilyrði til kyrrsetningar bankainnstæðunnar, samkvæmt 1. mgr. 88. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, og að varnaraðila hafi borið að neyta þeirrar heimildar fremur en að leggja hald á innstæðuna. Sóknaraðili byggir á því að kyrrsetning sé vandaðari málsmeðferð, sem framkvæmd sé fyrir tilstuðlan sýslumanns, og hefði gefið sér tækifæri til varnar. Ágreiningslaust er með aðilum, að skilyrði til kyrrsetningar hafi verið fyrir hendi, en varnaraðili rökstyður að skilyrði haldlagningar, án dómsúrskurðar, hafi einnig verið fyrir hendi og að haldlagning sé tryggara úrræði með tilliti til hættu á undanskoti þeirrar eignar sem um ræði.
Hin umdeilda haldlagning á bankainnstæðu á nafni sóknaraðila, í vörslu MP banka hf., var gerð af þar til bæru lögregluembætti í tilefni af rannsókn brots sem varðað getur við 248. gr. almennra hegningarlaga. Í 68. gr. sakamálalaga er heimild til handa lögreglu að leggja hald á muni, m.a. ef ætla má að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að verða gerðir upptækir. Heimildin til kyrrsetningar, í 88. gr. sömu laga, er einnig sett í þágu rannsóknar sakamáls. Í athugasemdum, með ákvæðinu, í frumvarpi því sem síðar varð að lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008, segir að kyrrsetningu til tryggingar greiðslu sekta og annarra fjárkrafna í tengslum við sakamál, sé sjaldan beitt í framkvæmd vegna þess að oftast nær nægi að leggja hald á muni til að ná því markmiði, sem að er stefnt. Engu að hafi síður þótt rétt að láta það haldast áfram í lögum. Ágreiningslaust er að bankainnstæðan sem um ræðir sé til komin vegna þeirra atvika sem rannsökuð eru vegna gruns um stórfelld fjársvik. Þykir því fullnægt skilyrðum 1. mgr. 68. gr. sakamálalaga til haldlagningar fjármunanna.
Varnaraðili rannsakar meint stórfelld fjársvik. Sóknaraðili hefur byggt á því fyrir dómi að atvik málsins séu nú upplýst og því ekki tilefni til frekari rannsóknar málsins og því beri að fella niður haldlagninguna. Varnaraðili kveður aftur á móti að enn sé rík ástæða til áframhaldandi rannsóknar málsins.
Það á undir lögreglu en ekki héraðsdóm að meta hvort ástæða sé til rannsóknar sakamáls, samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 53. gr. Verður því þessi málsástæða ekki skoðuð frekar.
Þá krefst sóknaraðili þess að haldlagning fjármunanna verði ógilt á þeim grunni að varnaraðili hafi brotið hlutlægnireglu sakamálalaga með orðalagi sínu í bréfi til MP banka hf., 15. janúar 2010, þar sem segi í upphafsorðum að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rannsaki nú stórfelld fjársvik í tengslum við sóknaraðila. Í setninguna hafi vantað orðin „meint” eða „hugsanleg” fjársvik. Ekki verður fallist á það með sóknaraðila að umrætt bréf feli í sér ótímabæran eða ógrundaðan áfellisdóm yfir honum. Í bréfinu er tekið skýrt fram að haldlagning á inneign sóknaraðila hjá bankanum sé til tryggingar upptöku ávinnings í mögulegu sakamáli, auk þess sem rökstuddur grunur hafi verið um að fjárins hafi verið aflað með refsiverðri háttsemi sóknaraðila.
Samkvæmt framansögðu ber að hafna kröfu sóknaraðila um að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila frá 15. janúar 2010, að leggja hald á inneign sóknaraðila, að fjárhæð 92.150.336 krónur, á bankareikningi hjá MP banka hf., nr. [...] og verður haldlagningin því staðfest.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir héraðsdómi.
Úrskurðinn kvað upp Unnur Gunnarsdóttir, settur héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Staðfest er ákvörðun efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra um að leggja hald á inneign A ehf. á bankareikningi nr. [...], að fjárhæð 92.150.336 krónur.
Málskostnaður fellur niður.