Hæstiréttur íslands
Mál nr. 137/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 24. apríl 2001. |
|
Nr. 137/2001. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Elín Vigdís Hallvarðsdóttir fulltrúi) gegn X (Magnús Björn Brynjólfsson hdl.) |
Kærumál. Nálgunarbann. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Z kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu lögreglustjórans í Reykjavík (L) um að X yrði gert að sæta nálgunarbanni. Fyrir Hæstarétti lét L málið ekki til sín taka. Með vísan til 1. mgr. 110. gr. b. laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, og 141. gr. laga nr. 19/1991 var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti, þar sem þeir menn, sem nálgunarbann er ætlað að vernda, hefðu ekki rétt lögum samkvæmt til að leita eftir því sjálfir. Gæti Z ekki átt aðild að málskoti sem þessu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Z skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. apríl 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta nálgunarbanni. Um kæruheimild vísar kærandi til 1. mgr. 142. gr., sbr. 141. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hann krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni þannig að honum verði bannað að koma á heimili kæranda, veita honum eftirför, heimsækja eða setja sig með öðru móti í samband við hann, aðallega í eitt ár en ella um skemmri tíma. Til vara krefst kærandi þess að hinn kærði úrskurður verði ómerktur.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt 1. mgr. 110. gr. b. laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, gerir lögregla kröfu um nálgunarbann. Hafa þeir menn, sem nálgunarbann er ætlað að vernda, ekki rétt lögum samkvæmt til að leita eftir því sjálfir. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi fór þess á leit við sóknaraðila að hann gerði kröfu um að varnaraðili sætti nálgunarbanni. Því hafnaði sóknaraðili 20. febrúar 2001, en með úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 21. mars sama árs var sú ákvörðun felld úr gildi og sóknaraðila gert að krefjast nálgunarbanns. Það gerði hann fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 5. apríl 2001. Hafnaði dómurinn þeirri kröfu með hinum kærða úrskurði.
Úrskurður héraðsdómara í máli þessu sætir kæru til Hæstaréttar samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Sóknaraðili og varnaraðili geta hins vegar einir kært slíkan úrskurð, en ekki kærandi, enda leiðir 141. gr. nefndra laga ekki til þess að kærandi geti átt aðild að málskoti sem þessu. Verður því sjálfkrafa að vísa málinu frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2001.
Hjá lögreglunni í Reykjavík hefur verið til rannsóknar mál sem varðar meinta tilraun X til manndráps eða líkamsárás, svo að varði við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en hann er grunaður um að hafa stungið Z með hnífi við veitingastaðinn Y [ . . . ] 5. janúar sl.
[ . . . ]
Réttargæslumaður Z fór þess á leit við embætti lögreglustjóra, að krafist yrði nálgunarbanns á X gagnvart skjólstæðingi hans. Embætti lögreglustjóra hafnaði þeirri kröfu. Réttargæslumaðurinn bar synjun lögreglustjóra undir Héraðsdóm Reykjavíkur, sem vísaði erindinu frá með þeim rökum, að slíkur ágreiningur verði ekki lagður fyrir dóminn á grundvelli 75. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Réttargæslumaðurinn bar synjun lögreglustjóra undir ríkissaksóknara, sem einnig vísaði henni frá með þeim rökum, að það væri ekki kæranlegt til ríkissaksóknara, en væri hins vegar kæranlegt til dómsmálaráðuneytisins. Réttargæslumaðurinn kærði þá synjun lögreglustjóra til ráðuneytisins.
Dómsmálaráðuneytið úrskurðaði, að ákvörðun lögreglustjóra um að hafna beiðni réttargæslumannsins um nálgunarbann skuli felld úr gildi, og hefur lagt fyrir lögreglustjóra að krefjast hins umbeðna nálgunarbanns. Vegna úrskurðar ráðuneytisins sé nálgunarbannskrafa þessi höfð uppi við dóminn.
Eins og að ofan greinir hófst rannsókn lögreglu vegna meints hnífstungumáls 5. janúar sl. Samkvæmt málaskrá lögreglu séu þeir X og Z hvorki kærendur né kærðir fyrir nein brot eftir það.
Krafa þessi um nálgunarbann er reist á 110. gr. a og 1. mgr. 110. gr. b, laga um meðferð opinberra mála, sbr. lög nr. 94/2000, þar sem rökstudd ástæða sé til að ætla að kærði muni raska friði Z.
Kærði, X, hefur mótmælt kröfunni.
Samkvæmt gögnum málsins neitar kærði sökum í framangreindu líkamsárásarmáli. Meðal gagnanna er samantekt lögreglunnar um mál þar sem kærði hefur komið við sögu lögreglunnar á árinu 1999. Málin varða líkamsárásir og hótanir [ . . . ]. Ýmist er það svo að kærði er kærandi eða þolandi. Í einu tilvikinu er það framangreindur Z, sem er kærður fyrir að stinga kærða með skærum. Öll virðast þessi mál hafa verið smávægileg og ekki gefið tilefni til málsóknar eða annarra aðgerða af hálfu lögreglu. Frá árinu 2000 hefur verið lögð fram ein lögregluskýrsla þar sem Z kærir kærða fyrir hótanir en ekki verður séð að hún hafi gefið lögreglu tilefni til aðgerða frekar en málin frá 1999.
Samkvæmt 110. gr. a laga um meðferð opinberra mála er heimilt að leggja nálgunarbann á mann ef rökstudd ástæða er til að ætla að hann muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess manns sem í hlut á. Gögn þau, sem lögð hafa verið fyrir dóminn, benda ekki til þess að ástæða sé til að ætla að kærði muni brjóta af sér gagnvart framangreindum manni eða raska friði hans. Skærur þeirra á milli áttu sér stað fyrir tveimur árum og ekkert virðist hafa gerst þeirra á milli eftir atvikið í janúar sl. en þar neitar kærði sökum, eins og rakið var. Með vísun til þessa verður kröfu lögreglustjóra hafnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um lagt verði nálgunarbann á X er hafnað.