Hæstiréttur íslands
Mál nr. 533/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Föstudaginn 6. desember 2002. |
|
Nr. 533/2002. |
X(Björn L. Bergsson hrl.) gegn Reykjavíkurborg (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
X var svipt sjálfræði í sex mánuði á grundvelli a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. nóvember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. desember sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2002, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um sjálfræðissviptingu verði hafnað og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Málflutningsþóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Málflutningsþóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2002.
Með beiðni, 7. nóvember sl., hefur borgarlögmaður f. h. Félagsþjónustunnar í Reykjavík farið þess á leit að X verði svipt sjálfræði tímabundið í sex mánuði. Um aðild vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997. Af hálfu varnaraðila er kröfunni mótmælt.
[...].
Dómarinn álítur að varnaraðili sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms og að brýn nauðsyn sé til þess að svipta hana sjálfræði svo unnt sé að koma við hæfilegri læknismeðferð. Ber samkvæmt því og með skírskotun til a-liðar 4. gr. lögræðislaga að fallast á kröfu félagsþjónustunnar og ákveða að varnaraðili skuli vera svipt sjálfræði í 6 mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar þessa.
Málskostnað, þar með talda þóknun til talsmanns varnaraðila, Björns L. Bergssonar hrl., 55.000 krónur, ber að greiða úr ríkissjóði samkvæmt 17. gr. lögræðislaga.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, X, er svipt sjálfræði í sex mánuði.
Málskostnaður, þar með talin þóknun til talsmanns varnaraðila, Björns L. Bergssonar hrl., 55.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.