Hæstiréttur íslands
Mál nr. 527/2012
Lykilorð
- Fjárdráttur
- Dómur
- Sönnunarmat
- Ómerking héraðsdóms
|
|
Miðvikudaginn 24. apríl 2013. |
|
Nr. 527/2012.
|
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn X (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Fjárdráttur. Dómur. Sönnunarmat. Ómerking héraðsdóms.
X var gefinn að sök fjárdráttur fyrir að hafa í starfi sínu hjá bankanum A hf. dregið sér í 18 nánar tilgreind skipti 50.403.890 krónur með því að millifæra söluandvirði verðbréfa, þar sem skuldari var ýmist D ehf. eða E ehf., af bankareikningum kaupenda bréfanna inn á eigin bankareikning. Fyrir héraðsdómi játaði X að hafa ráðstafað söluandvirðinu með þeim hætti sem í ákæru greindi inn á bankareikning hjá B hf. og nýtt féð í eigin þágu. X hélt því á hinn bóginn fram að um að hafi verið að ræða endurgreiðslu á lánum sem hún hafi veitt E ehf. með kaupum á tveimur víxlum. X var sýknuð í héraði. Taldi héraðsdómur að fyrrnefnd staðhæfing X styddist að nokkru við framburð F og G sem voru fyrirsvarsmenn E ehf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að frásögn X um lánveitingar til E hf. væru ekki studdar neinum gögnum og á henni væri slíkur ólíkindablær að sennilegt mætti telja að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi hafi verið röng svo að einhverju skipti um úrslit máls. Taldi Hæstiréttur því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og vísa því heim í hérað til meðferðar á ný.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. júlí 2012 og krefst þess að ákærða verði sakfelld samkvæmt ákæru og henni gerð refsing, en til vara að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Ákærða krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
I
Í máli þessu er ákærðu gefinn að sök fjárdráttur fyrir að hafa í starfi sínu hjá A banka hf., á tímabilinu 30. apríl 2004 til 24. janúar 2008, dregið sér í 18 nánar tilgreind skipti samtals 50.403.890 krónur með því að millifæra söluandvirði verðbréfa, þar sem skuldari var ýmist D ehf. eða E ehf., af bankareikningum kaupenda bréfanna inn á eigin bankareikning. Fyrir héraðsdómi játaði ákærða að hafa ráðstafað söluandvirðinu með þeim hætti sem í ákæru greinir inn á bankareikning hjá B hf., sem var sameiginlegur reikningur hennar og þáverandi eiginmanns hennar, og nýtt féð í eigin þágu.
Ákærða heldur því á hinn bóginn fram að hér hafi verið um ræða endurgreiðslu á lánum sem hún hafi veitt E ehf., annars vegar á árinu 1998 með kaupum á víxli að fjárhæð 10.000.000 krónur og hins vegar árið 2000 með kaupum á víxli að fjárhæð 15.000.000 krónur. Hafi félagið verið skuldari beggja víxlanna. Fyrir dómi kvaðst ákærða ekki hafa skýrt eigendum og fyrirsvarsmönnum félagsins, F og G, frá því þegar hún veitti félaginu umrædd lán, en það hafi hún gert síðar, „upp úr svona 2004, 5, 6“. Í vitnisburði þeirra F og G fyrir dómi kannaðist hvorugur þeirra við að ákærða hafi skýrt þeim frá að hún hafi veitt félaginu lán, hvorki fyrr né síðar. Ennfremur neituðu þeir því aðspurðir að hafa vitað til þess að ákærða hafi persónulega lánað fyrirtæki þeirra peninga.
Ekki liggja fyrir í málinu nein gögn sem benda til að ákærða hafi veitt E ehf. þau lán sem að framan greinir. Í skýrslu fyrir dómi kvaðst ákærða hafa greitt fyrri víxilinn með peningum sem sér hafi verið greiddir vegna skuldar við sölu á fyrirtæki og hafi hún geymt þá í skáp heima hjá sér. Ekki mundi ákærða hvort hún hafi greitt síðari víxilinn með reiðufé eða á annan hátt. Hún sagðist hafa skráð þessi viðskipti og haldið saman gögnum um þau, en gögnin hafi fyrir mistök farið forgörðum þegar hún lét af störfum hjá A banka hf. í mars 2009. Við athugun á bókhaldi E ehf. hafa ekki fundist upplýsingar um þær greiðslur sem ákærða kveðst hafa innt af hendi í þágu félagsins.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærða sýknuð af fyrrgreindum sakargiftum. Var sú niðurstaða á því reist að hún hafi staðfastlega haldið því fram að með því að ráðstafa söluandvirði verðbréfanna inn á eigin bankareikning hafi hún verið að fá endurgreidd áðurnefnd lán. Að því virtu og þar sem rannsókn málsins hafi ekki verið tæmandi, þar á meðal á því hvort fé vantaði í sjóði E ehf. og D ehf., hafi ekki verið komin fram sönnun þess að ákærða hafi gerst sek um fjárdrátt.
II
Samkvæmt 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er það refsivert ef maður tileinkar sér einhliða fjármuni, sem eru í vörslum hans en eru eign einhvers annars, enda sé það gert á ólögmætan hátt og í auðgunarskyni, sbr. 243. gr. laganna. Er nægilegt að viðhlítandi sönnur séu færðar á það af hálfu ákæruvaldsins, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að maður hafi gerst sekur um slíka háttsemi, þar á meðal að ásetningur hans hafi staðið til þess að einhver annar yrði fyrir fjártjóni, til þess að hann verði sakfelldur fyrir fjárdrátt. Á hinn bóginn þarf ekki að sanna hver eða hverjir hafi á endanum orðið fyrir tjóni af þeim sökum.
Í forsendum hins áfrýjaða dóms er komist svo að orði að bæði F og G „segjast vita núna að ákærða hafi lánað félögum þeirra. Hvenær þeir fengu vitneskju um þetta eða á hverju hún byggist er ekki ljóst.“ Síðar í dómsforsendunum segir að sú staðhæfing ákærðu að hún hafi með ráðstöfun söluandvirðis verðbréfanna inn á eigin bankareikning verið að endurgreiða lánin styðjist „að nokkru við vitnisburð þeirra F og G.“ Ekki verður séð að áðurgreind tilvitnun í framburð umræddra tveggja vitna eigi sér stoð í skýrslum þeirra fyrir héraðsdómi. Í samræmi við það virðist vera röng sú ályktun héraðsdóms að staðhæfing ákærðu styðjist að nokkru við vitnisburð þeirra.
Samkvæmt 2. mgr. 208 gr. laga nr. 88/2008 endurmetur Hæstiréttur ekki niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi. Frásögn ákærðu um lánveitingar til E ehf. er sem fyrr greinir ekki studd neinum gögnum og á henni slíkur ólíkindablær að sennilegt má telja að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi hafi verið röng svo að einhverju skipti um úrslit máls. Er því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og vísa því heim í hérað til meðferðar á ný, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar.
Ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíður nýs efnisdóms í málinu. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda ákærðu sem ákveðin er með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur ásamt meðferð málsins frá og með þinghaldi 1. júní 2012 og er málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný.
Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júlí 2012.
Mál þetta var höfðað með ákæru sérstaks saksóknara, dags. 17. febrúar 2012, á hendur X, kt. [...], [...], [...].
Ákærða er talin hafa gerst sek um
fjárdrátt, með því að hafa í starfi sínu við einkabankaþjónustu á eignastýringarsviði A banka hf., að [...] í Reykjavík, á tímabilinu 30. apríl 2004 til 24. janúar 2008, í eftirtalin 18 skipti dregið sér samtals 50.403.890 krónur, sem voru hluti söluandvirðis óskráðra verðbréfa, það er skuldabréfa og víxla, sem ákærða aðstoðaði seljendur við að gefa út, með því að millifæra söluandvirði verðbréfanna af bankareikningum kaupenda bréfanna inn á eigin bankareikning, nr. [...], og slá þannig eign sinni á það, í stað þess að ráðstafa því í þágu seljenda, svo sem nánar greinir:
1. Föstudaginn 30. apríl 2004, 3.965.492 krónur, af reikningi nr. [...], í eigu H, kt. [...], vegna kaupa hans á skuldabréfi nr. 53085/5244, að nafnverði 4.100.000 krónur, þar sem skuldari var D ehf., kt. [...], en ákærða hafði milligöngu um viðskiptin fyrir hönd kaupanda og seljanda 29. apríl sama ár.
2. Miðvikudaginn 2. júní 2004, 3.898.869 krónur, af reikningi nr. [...], í eigu I, kt. [...], vegna kaupa hans á skuldabréfi nr. 53086/52679, að nafnverði 4.325.000 krónur, þar sem skuldari var D ehf., kt. [...], en ákærða hafði milligöngu um viðskiptin fyrir hönd kaupanda og seljanda 1. júní sama ár.
3. Miðvikudaginn 2. júní 2004, 1.098.201 krónur, af reikningi nr. [...], í eigu J, kt. [...], vegna kaupa hans á skuldabréfi nr. 53087/52680, að nafnverði 1.100.000 krónur, þar sem skuldari var D ehf., kt. [...], en ákærða hafði milligöngu um viðskiptin fyrir hönd kaupanda og seljanda 1. júní sama ár.
4. Mánudaginn 8. nóvember 2004, 975.505 krónur, af reikningi nr. [...], í eigu K, kt. [...], vegna kaupa hennar á skuldabréfi nr. 52796, að nafnverði 1.000.000 krónur, þar sem skuldari var D ehf., kt. [...], en ákærða hafði milligöngu um viðskiptin fyrir hönd kaupanda og seljanda 5. nóvember sama ár.
5. Mánudaginn 29. nóvember 2004, 3.973.095 krónur, af reikningi nr. [...], í eigu J, kt. [...], vegna kaupa hans á skuldabréfi nr. 53093/52805, að nafnverði 4.000.000 krónur, þar sem skuldari var D ehf., kt. [...], en ákærða hafði milligöngu um viðskiptin fyrir hönd kaupanda og seljanda 26. nóvember sama ár.
6. Mánudaginn 4. apríl 2005, 4.704.060 krónur, af reikningi nr. [...], í eigu L, kt. [...], vegna kaupa hans á skuldabréfi nr. 53094/52912, að nafnverði 4.500.000 krónur, þar sem skuldari var D ehf., kt. [...], en ákærða hafði milligöngu um viðskiptin fyrir hönd kaupanda og seljanda 1. apríl sama ár.
7. Föstudaginn 3. júní 2005, 5.306.744 krónur, af reikningi nr. [...], í eigu M, kt. [...], vegna kaupa hennar á skuldabréfi nr. 53107/52953, að nafnverði 5.000.000 krónur, þar sem skuldari var E ehf., kt. [...], en ákærða hafði milligöngu um viðskiptin fyrir hönd kaupanda og seljanda 2. júní sama ár.
8. Miðvikudaginn 31. ágúst 2005, 2.197.738 krónur, af reikningi nr. 0329-26-457162, í eigu H, kt. [...], vegna kaupa hans á skuldabréfi nr. 53117/52984, að nafnverði 2.000.000 krónur, þar sem skuldari var E ehf., kt. [...], en ákærða hafði milligöngu um viðskiptin fyrir hönd kaupanda og seljanda 30. ágúst sama ár.
9. Föstudaginn 27. janúar 2006, 2.937.015 krónur, af reikningi nr. 0329-26-460490, í eigu M, kt. [...], vegna kaupa hennar á skuldabréfi nr. 53033, að nafnverði 3.135.000 krónur, þar sem skuldari var E ehf., kt. [...], en ákærða hafði milligöngu um viðskiptin fyrir hönd kaupanda og seljanda 26. janúar sama ár.
10. Miðvikudaginn 17. maí 2006, 4.860.035 krónur, af reikningi nr. 0329-26-460490, í eigu M, kt. [...], vegna kaupa hennar á skuldabréfi nr. 53134, að nafnverði 5.500.000 krónur, þar sem skuldari var D ehf., kt. [...], en ákærða hafði milligöngu um viðskiptin fyrir hönd kaupanda og seljanda 16. maí sama ár.
11. Þriðjudaginn 29. ágúst 2006, 2.323.022 krónur, af reikningi nr. 0329-26-446704, í eigu N kt. [...], vegna kaupa hans á víxli nr. 995640, að nafnverði 2.500.000 krónur, þar sem greiðandi var D ehf., kt. [...], en ákærða hafði milligöngu um viðskiptin fyrir hönd kaupanda og seljanda 28. ágúst sama ár.
12. Fimmtudaginn 2. nóvember 2006, 2.333.536 krónur, af reikningi nr. 0329-26-456998, í eigu L, kt. [...], vegna kaupa hans á skuldabréfi nr. 995658, að nafnverði 2.500.000 krónur, þar sem skuldari var D ehf., kt. [...], en ákærða hafði milligöngu um viðskiptin fyrir hönd kaupanda og seljanda 1. nóvember sama ár.
13. Miðvikudaginn 7. mars 2007, 2.835.747 krónur, af reikningi nr. 0329-26-457053, í eigu O, kt. [...], vegna kaupa hans á víxli nr. 995776, að nafnverði 3.000.000 krónur, þar sem greiðandi var D ehf., kt. [...], en ákærða hafði milligöngu um viðskiptin fyrir hönd kaupanda og seljanda 6. mars sama ár.
14. Þriðjudaginn 12. júní 2007, 1.393.694 krónur, af reikningi nr. 0329-26-446704, í eigu N kt. [...], vegna kaupa hans á víxli nr. 995792, að nafnverði 1.500.000 krónur, þar sem greiðandi var D ehf., kt. [...], en ákærða hafði milligöngu um viðskiptin fyrir hönd kaupanda og seljanda 11. júní sama ár.
15. Þriðjudaginn 31. júlí 2007, 1.384.190 krónur, af reikningi nr. [...], í eigu L, kt. [...], vegna kaupa hans á víxli nr. 995800, að nafnverði 1.500.000 krónur, þar sem greiðandi var D ehf., kt. [...], en ákærða hafði milligöngu um viðskiptin fyrir hönd kaupanda og seljanda 30. júlí sama ár.
16. Fimmtudaginn 23. ágúst 2007, 1.381.012 krónur, af reikningi nr. [...], í eigu J, kt. [...], vegna kaupa hans á víxli nr. 995804, að nafnverði 1.500.000 krónur, þar sem greiðandi var D ehf., kt. [...], en ákærða hafði milligöngu um viðskiptin fyrir hönd kaupanda og seljanda 22. ágúst sama ár.
17. Miðvikudaginn 24. október 2007, 2.918.110 krónur, af reikningi nr. [...], í eigu O, kt. [...], vegna kaupa hans á skuldabréfi nr. 995821, að nafnverði 3.000.000 krónur, þar sem skuldari var D ehf., kt. [...], en ákærða hafði milligöngu um viðskiptin fyrir hönd kaupanda og seljanda 23. október sama ár.
18. Fimmtudaginn 24. janúar 2008, 1.917.825 krónur, af reikningi nr. 0329-26-457053, í eigu O, kt. [...], vegna kaupa hans á skuldabréfi nr. 995844, að nafnverði 2.000.000 krónur, þar sem skuldari var D ehf., kt. [...], en ákærða hafði milligöngu um viðskiptin fyrir hönd kaupanda og seljanda 23. janúar sama ár.
Telst háttsemin varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærða krefst sýknu og verjandi hennar krefst málsvarnarlauna er greidd verði úr ríkissjóði.
Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 28. júní sl.
Rannsókn máls þessa hófst í kjölfar kæru skilanefndar A banka hf., sem barst lögreglu 28. júní 2009. Í inngangi bréfsins er grunur skilanefndarinnar skýrður: „ starfaði á eignastýringarsviði bankans við svokallaða einkabankaþjónustu, en veigamikill þáttur þjónustunnar felst í því að fjárfesta fyrir hönd viðskiptavina á grundvelli sérstaks þjónustusamnings. Í starfi sínu hafði [ákærða] þannig milligöngu um kaup og sölu verðbréfa. Eftir rannsókn innri endurskoðunar A banka hf. virðist sem [ákærða] hafi, í skjóli aðstöðu sinnar í bankanum, dregið sér fé með því að millifæra af vörslureikningum viðskiptamanna bankans yfir á eigin reikning. Eiga umræddar millifærslur rætur að rekja til þjónustu vegna viðskipta með óskráð skuldabréf og víxla.“
Í bréfinu er nánar rakið að ákærða hafi selt viðskiptavinum bankans skuldabréf útgefin af og víxla samþykkta m.a. af D ehf. og E ehf. Síðan hafi hún millifært greiðslur kaupendanna inn á sinn eigin reikning í öðrum banka, í stað þess að greiða útgefendum bréfanna andvirði þeirra. Í bréfinu eru rakin alls 22 tilvik. Raunar kom fram við meðferð málsins að umræddur reikningur var í B-banka og á nafni eiginmanns ákærðu og hennar sjálfrar. Kom nafn manns hennar þannig fram á kvittunum þegar millifært hafði verið.
E er verktakafyrirtæki sem þeir F og G reka. Mál þetta er sprottið af framkvæmdum er félag þetta stóð fyrir í [...] í Reykjavík. Síðar stofnuðu þeir F og G einkahlutafélagið D. Keypti það hluta af húseigninni og leigir út íbúðir.
Fyrir dómi sagði ákærða að lýsing ákæru væri rétt að öðru leyti en því, að hún hafi ekki verið að draga sér þetta fé, hún hafi tekið þetta til greiðslu á skuldum þessara félaga við sig.
Hún kvaðst fyrst hafa greitt víxil fyrir þessa aðila í ágúst 1998, sem þeir hafi ekki átt fyrir og hún ekki fundið neinn til að kaupa nýjan víxil til að greiða þann fyrri. Þetta hefðu verið 10.000.000 króna. Síðar hafi hún greitt fyrir þá annan víxil. Hún hafi ekki sagt þeim frá því strax að hún hefði lánað þeim, heldur látið eins og kröfuhafarnir hefðu samþykkt að framlengja víxillánin. Hafi alltaf verið gefnir út nýir víxlar. Hún kvaðst hafa reiknað sér 20% vexti fyrst, það hafi verið venjulegir vextir á þessum markaði á þessum tíma.
Seinna lánið kvaðst ákærða sennilega hafa veitt þeim í nóvember 2000. Hún hafi þá átt 15 milljónir og lánað E. Hún kvaðst ekki muna nákvæmlega aðdragandann, kannski hafi hún verið að borga víxla fyrir þá. Víxlarnir hafi svo verið framlengdir, greitt hafi verið inná, en nýr settur upp í afganginn.
Þessi frásögn ákærðu af byrjun þess að hún fór að blanda sínum eigin fjármálum saman við fjármál þessara viðskiptavina er nákvæmari í skýrslu hennar hjá lögreglu 30. ágúst 2011, en efnislega á sama veg.
Ákærða sagði að þeir G og F hefðu alltaf skrifað upp á framlengingar fyrir sig. Hún kvaðst ekki hafa viljað segja þeim frá því fyrst að hún hefði lánað þeim sjálf, en seinna hefði hún gert það.
Ákærða sagði að F og G hefðu fyrst komið til hennar þegar hún starfaði hjá P, en þá hafi þeir verið að byggja hús í [...]. Hún hafi þá fundið aðila sem vildi kaupa af þeim víxil. Seinna hafi þeir staðið fyrir stórum framkvæmdum [...] og fengið fyrirgreiðslu í gegnum sig. Víxlar sem þeir höfðu gefið út og samþykkt hefðu oft verið framlengdir.
Ákærða tók svo til orða að hún hefði átt féð sem hún lánaði þeim uppi í skáp, hún hefði ekki geymt það í banka. Hún hefði fengið þessa peninga þegar hún seldi fyrirtæki nokkrum árum áður. Hún sagði að þeir G og F hefðu orðið mjög nátengdir sér, hún hefði hugsað um þá eins og syni sína. Það hafi oft þurft að bjarga þeim úr vandræðum sem þeir hefðu ratað í.
Ákærða kvaðst hafa safnað öllum gögnum um þessi viðskipti í möppu, sem hefði glatast þegar hún tók dótið sitt er hún hætti hjá Q banka.
Meðal gagna málsins er ljósrit af víxli sem ákærða kvaðst hafa fundið heima hjá sér. Hann er gefinn út 20. febrúar 2001 af F, samþykktur af E til greiðslu 20. maí. Hann er að fjárhæð 15.600.000 krónur. Einungis framhlið víxilsins kemur fram á þessu ljósriti, en verjandi ákærðu sýndi frumrit hans í dóminum, en hann er framseldur eyðuframsali af útgefanda og ábektur af G. Á svuntu er skráð að víxill þessi sé framlenging á víxli að fjárhæð 14.743.535 krónur, dags. 20. nóvember 2000. Í reitinn Skilmálar á svuntunni er skrifað R.
Ákærða neitaði því aðspurð að hún hefði lagt inn á reikninginn í C-banka til að leyna því að hún ætti þarna í hlut.
Þá kom fram í skýrslu ákærðu að hún hefði ábyrgst munnlega bæði við S og T að hún sæi til þess að þeir fengju greitt, þegar lán fengist hjá Íbúðalánasjóði.
F gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann lýsti rekstri félaganna E og D stuttlega. Hann sagði að ákærða hefði séð um að fjármagna framkvæmdir fyrir þá, hún hafi nánast verið eins og fjármálastjóri hjá þeim. Hann kvaðst litla yfirsýn hafa haft yfir stöðuna og hann hefði ekki vitað hverjir hefðu keypt víxlana og skuldabréfin sem þeir gáfu út. Hann kvaðst ekki hafa vitað að ákærða hefði keypt eitthvað sjálf eða borgað eitthvað fyrir þá úr eigin vasa. Hann sagði að þeir hefðu oftar en einu sinni beðið um uppgjör, en ekki fengið. Hann kvaðst vita núna að ákærða hefði lánað þeim.
F kvaðst ekki vita til þess að félögin hefðu ofgreitt eitthvað.
Einhvern tímann hefði ákærða kallað þá heim til sín og beðið þá að breyta dagsetningu á víxli. Hún hefði sagt að annars myndi hún lenda í fangelsi. F kvaðst hafa haldið að þeir hefðu verið búnir að borga þennan víxil. Staðfesti hann að um hefði verið að ræða áðurnefndan víxil að fjárhæð 15.600.000 krónur.
G gaf einnig skýrslu. Hann bar á sama veg að þeir hefðu leitað til ákærðu til að útvega framkvæmdafé. Hann kvaðst ekki kannast við að ákærða hefði lánað þeim sjálf, en hann vissi heldur ekki hverjir hefðu keypt víxlana og skuldabréfin sem þeir gáfu út. Hann kvaðst ekki hafa tekið eftir því heldur að það vantaði fé inn í fyrirtækið.
G sagði að sennilega á árinu 2009 hefði ákærða beðið þá að framlengja víxil. Vísaði hann hér til margnefnds víxils að fjárhæð 15.600.000 krónur.
Þessi frásögn þeirra F og G var borin undir ákærðu og kvaðst hún aldrei hafa beðið þá að breyta dagsetningu á víxli, annars mundi hún ekki eftir þessu atviki.
F vísaði í framburði sínum til skýrslu sem U hrl. hefði skrifað fyrir þá. Tilefnið hefði verið innheimtubréf sem þeim hefði borist frá lögmannsstofu nokkurri fyrir hönd Q verðbréfavörslu. Innheimtubréf þetta liggur ekki frammi í málinu. Meginatriði í löngu svarbréfi lögmannsins er það að allar kröfurnar séu að fullu greiddar. Fyrir dómi sagði U að hann hefði farið í gegnum bókhald bæði E og D áður en hann skrifaði bréfið. Hann sagði að bankinn hefði ekki hreyft við innheimtu þessara krafna eftir þetta.
V rekur bókhaldsstofu og hefur annast bókhald E og D frá því á árinu 2006. Hann sagði að hann hefði leitað í eldri bókhaldsgögnum og hvorki fundið áðurnefndan víxil að fjárhæð 15.600.000 krónur, né víxil að fjárhæð 10.000.000 króna. Þeir hefðu annars fundið óslitna röð fylgiskjala fyrir umrædd ár. Þá hefðu þessar fjárhæðir ekki verið lagðar inn á bankareikning E. Aðspurður kvað V ekki neitt hafa komið fram sem benti til að félögin hefðu ofgreitt.
Þrír starfsmenn Q banka, A og tengdra fyrirtækja gáfu skýrslur við aðalmeðferð málsins. Ekki er ástæða til að rekja þessar skýrslur nákvæmlega. Fram kom hjá Þ, innri endurskoðanda, að starfsmenn ættu ekki að blanda sínum eigin fjármálum saman við fjármál viðskiptavina bankans. Hún sagði að einhverju sinni hefði verið gerð athugasemd um vinnulag ákærðu, en ákveðið hefði verið að bregðast ekki við þar sem hún aflaði bankanum mikilla tekna. Þá kom fram hjá Æ, sem starfaði í bakvinnslu hjá A, að eiginmaður ákærðu hefði verið skráður viðtakandi á greiðslum, en bankareikningurinn hefði verið á hans nafni.
Niðurstaða
Í máli þessu er ákært fyrir fjárdrátt, brot gegn 247. gr. almennra hegningarlaga. Ekki þarf því að skoða sérstaklega hvort ákærða hafi í starfi sínu brotið gegn starfsreglum sem vinnuveitandi hennar hefur sett henni. Það getur hins vegar haft áhrif við mat á sönnunargögnum og sök að ákærða fullyrðir að hún hafi blandað saman fjármunum sínum og viðskiptavina bankans, með því að kaupa fyrir eigin reikning verðbréf sem þessir viðskiptavinir gáfu út.
Ákærða játar að í ákæru sé rétt lýst 18 tilvikum þar sem söluandvirði verðbréfa sem E og D höfðu gefið út var lagt inn á bankareikning hennar í C-banka. Þá játar hún að þetta fé hafi þannig runnið til hennar.
Ákærða kveðst hafa keypt víxla og skuldabréf sem umrædd einkahlutafélög höfðu gefið út. Hún annaðist sölu þessara og fleiri bréfa og kveðst hafa byrjað á árinu 1998 að kaupa víxil af E, en andvirði hans hafi farið til greiðslu eldri víxils. Eigandi hans hefði ekki viljað framlengja. Hún hefði í því tilviki sagt þeim F og G að kröfuhafinn hefði samþykkt að framlengja víxilinn. Ákærða kveðst síðar hafa lánað þeim með sama hætti um 15.000.000 króna. Gögn um þessi viðskipti eru fátækleg, en rannsókn lögreglu hefur heldur ekki beinst sérstaklega að þessum atriðum. Þó hefur ákærða í höndum víxil sem svarar til síðastgreinds víxils. Er honum lýst hér að framan. Handhöfn ákærðu á þessum víxli er í sjálfu sér ekki bein sönnun þess að hún hafi átt hann sjálf, en öll verðbréf sem félögin gáfu út fóru um hendur ákærðu.
Þá styður það ekki fullyrðingar ákærðu að hún hefur ekki gert grein fyrir þessari verðbréfaeign sinni á skattframtölum. Þá er ekki augljóst hvaðan hún fékk fé til að lána með þessum hætti, en það hefur heldur ekki verið rannsakað sérstaklega.
Mál þetta var kært til lögreglu á árinu 2009. Var það skilanefnd A banka sem kærði. Að því er séð verður hafði skilanefndin ekki annað fyrir sér en þá staðreynd að greiðslur fyrir sölu verðbréfa höfðu runnið beint inn á reikning ákærðu. Skömmu áður en ákæra í málinu var gefin út lýsti slitastjórn bankans því yfir að skaðabótakrafa yrði ekki höfð uppi.
Eins og málið er lagt upp af hálfu ákæruvalds er byggt á því að ákærða hafi dregið sér rúmlega 50 milljónir króna frá fyrirtækjunum E og D. Rannsókn lögreglu hefur að því virðist ekki beinst sérstaklega að fjárhagsstöðu eða bókhaldi þessara félaga. Þannig verður ekki séð að reynt hafi verið að afla gagna um útgáfu félaganna á víxlum og skuldabréfum á tímabilinu sem fjárdrátturinn á að hafa staðið. Vissulega kom fram frá vitni sem færir bókhald félaganna að ekki sjáist í bankayfirlitum að með umræddum lánveitingum hafi verið lagt inn á reikning félaganna. Það getur hins vegar átt sér þá einföldu skýringu að lánið hafi verið veitt með því að greiða víxil fyrir E ehf., eins og ákærða heldur fram. Þá er ekki upplýst hvort unnt hefði verið að upplýsa málið frekar með nákvæmari rannsókn á bókhaldi félaganna.
Bæði F og G segjast vita núna að ákærða hafi lánað félögum þeirra. Hvenær þeir fengu vitneskju um þetta eða á hverju hún byggist er ekki ljóst. Hins vegar kemur fram hjá þeim báðum að þeir viti ekki til þess að eitthvað hafi verið ofgreitt. Þá virðist sem þeir hafi ekki gert neinar athugasemdir við bankann á þeim tíma sem fjárdrátturinn á að hafa staðið yfir.
Í málflutningi benti ákæruvaldið á að félögin hefðu verið krafin um mjög háar fjárhæðir með innheimtubréfi. Þetta bréf liggur ekki frammi og vitni bar að þeirri kröfu hefði ekki verið hreyft frekar, en nú eru liðin meira en þrjú ár frá því að innheimtubréfið var sent. Þetta bréf hefur því ekki neitt sönnunargildi hér.
Þá taldi ákæruvaldið að það leysti ákærðu ekki undan sök þótt hún hefði átt fjárkröfu á hendur félögunum. Á þetta er ekki unnt að fallast. Augljóst er að ákærðu hafði verið falið að annast sölu skuldaskjala og greiðslu. Er ekkert fram komið sem bendir til þess að hún hafi farið út fyrir heimildir sínar í þessu efni. Virðist blasa við að bréf, ýmist skuldabréf eða víxlar, hafi verið gefin út til að greiða aðrar kröfur.
Þegar öll framangreind atriði eru virt þá er augljóst að ákærða hefur látið leggja fé inn á reikning sinn, sem fékkst fyrir sölu verðbréfa er margnefnd félög gáfu út. Hún hefur staðfastlega haldið því fram að þarna hafi hún verið að fá endurgreitt lán, sem hún hafi veitt með því að kaupa af þeim verðbréf. Þetta styðst að nokkru við vitnisburð þeirra F og G. Þá hefur ekki farið fram nein rannsókn á því hvort fé vantar inn í sjóði félaganna. Bókhald þeirra virðist ekki hafa verið rannsakað nema að hluta til. Sönnunarbyrði hvílir að meginstefnu til á ákæruvaldinu og þar sem rannsókn málsins er ekki tæmandi, er ekki unnt að leggja eitthvað upp úr því að ákærða kveðst hafa glatað gögnum. Að öllu samanlögðu er ekki fram komin sönnun þess að ákærða hafi gerst sek um fjárdrátt. Verður hún því sýknuð af kröfum ákæruvalds.
Sakarkostnað ber að greiða úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns eru ákveðin með virðisaukaskatti 995.000 krónur. Er þá tekið tillit til vinnu hans á meðan málið var undir rannsókn hjá lögreglu.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Ákærða, X, er sýknuð af kröfum ákæruvalds.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, 995.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.