Hæstiréttur íslands

Mál nr. 623/2008


Lykilorð

  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Kærumál
  • Vanreifun


                                     

Þriðjudaginn 2. desember 2008.

Nr. 623/2008.

Landeigendur Reykjahlíðar ehf.

(Jónas A. Aðalsteinsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu og

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

Landsvirkjun

(Þórður Bogason hrl.)

 

Kærumál. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Landeigendur R kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem máli þeirra gegn íslenska ríkinu og L var vísað frá dómi sökum þess að  kröfugerðin þótti svo óljós í framsetningu að efnisdómur yrði ekki kveðinn upp um hana. Þótti framsetning kröfunnar brjóta í bága við d .lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2008, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast hvor fyrir sitt leyti að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða hvorum varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Landeigendur Reykjahlíðar ehf., greiði varnaraðilum, íslenska ríkinu og Landsvirkjun, hvorum  um sig 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2008.

I

Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 3. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Landeigendum Reykjahlíðar ehf., kt. 550402-3860, Lágmúla 5, Reykjavík, með stefnu birtri 16. janúar 2008, á hendur íslenzka ríkinu, kt. 650169-1079, Arnarhváli, Reykjavík, og Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndu verði gert að þola ógildingu á samningi eigenda jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi við stefnda, íslenzka ríkið, um jarðhitaréttindi í landi Reykjahlíðar o.fl. frá 18. marz 1971.  Til vara krefst stefnandi þess, að stefndu verði gert að þola, að samningi eigenda jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi við stefnda, íslenzka ríkið, frá 18. marz 1971 verði breytt á þá leið, að jarðhitaréttindi þau, sem stefnda, íslenzka ríkinu, eru „til frjálsra umráða og ráðstöfunar“ samkvæmt 1. gr. samningsins svari að afli aðeins til jarðhitaorku allt að 70 MW (megawöttum) til raforkuframleiðslu, en ekkert umfram það.  Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum að skaðlausu.

Dómkröfur stefnda, íslenzka ríkisins, eru þær, að stefndi verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda, og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.

Dómkröfur stefnda, Landsvirkjunar, eru þær, aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Til vara er þess krafizt, að stefndi verði sýknaður að svo stöddu.  Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

II

Málavextir

Málsatvik eru þau, eins og þeim er lýst í stefnu og eru að mestu óumdeild, að hinn 18. marz 1971 var undirritaður af hálfu eigenda jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu annars vegar og iðnaðarráðherra fyrir hönd íslenzka ríkisins hins vegar, samningur sá, sem mál þetta lýtur að.  Í honum var m.a. kveðið á um, að jarðhitaréttindi í landi Reykjahlíðar á jarðhitasvæði því, sem afmarkað var á viðfestum uppdrætti við Kröflu, Bjarnarflag og Námafjall, ásamt jarðahita þeim, sem þar er að finna, og aðstaða til mannvirkjagerðar til nýtingar hans, skyldu þaðan í frá vera ríkissjóði til „frjálsra umráða og ráðstöfunar“, eins og það var orðað í samningnum.  Þá var mælt fyrir um, að til endurgjalds á þeim verðmætum, sem ríkissjóður öðlaðist með samningum, skuldbatt ríkissjóður sig til að byggja á sinn kostnað nánar tilgreind mannvirki fyrir afhendingu á vatni frá varmaveitu í Bjarnarflagi handa byggðahverfunum við Reykjahlíð og Voga við Mývatn. Enn fremur skuldbatt ríkissjóður sig til að afhenda endurgjaldslaust nánar tilgreint vatnsmagn (20 lítra á sekúndu) úr safnþró, sem komið yrði upp í Bjarnarflagi.  Nánari skilgreining á endurgjaldsverðmætunum er að finna í samningnum.

Af hálfu eigenda Reykjahlíðar undirritaði samninginn Páll S. Pálsson hrl. samkvæmt umboði, en af hálfu ríkisins, Jóhann Hafstein iðnaðarráðherra, en einnig ritaði undir samninginn Magnús Jónsson fjármálaráðherra.  Sambærilegur samningur var, að því er Bjarnarflag og Námafjall varðar, gerður við landeigendur Voga við Mývatn 25. marz 1971 vegna jarðhitaréttinda þar á landssvæði í þeirra eigu.

Ýmis vandamál komu upp vegna hitaveitunnar, sem ríkið skuldbatt sig til að koma upp samkvæmt ofangreindum samningi frá 18. marz 1971, m.a. vegna útfellinga í aðveituæðum og dreifikerfi.  Greip ríkið til ýmissa ráðstafana til lagfæringa á þessu í þeim tilgangi að tryggja nothæft vatn.  Gaf ríkið út tvær yfirlýsingar í þessu sambandi, annars vegar 1. júlí 1975 og hins vegar 23. júní 1982, þar sem farið var yfir til hvaða úrbóta yrði gripið.

Árið 1975 hóf ríkið að reisa jarðgufuvirkjun í landi Reykjahlíðar á því svæði, sem samningurinn frá 1971 tók til, á grundvelli laga nr. 21/1974 um jarðgufuvirkjun við Kröflu eða við Námafjall í Suður-Þingeyjarsýslu. Munu rannsóknir á svæðinu hafa staðið yfir allt frá árinu 1963.

Umrædd virkjun fékk nafnið Kröfluvirkjum og var reist á árunum 1975 til 1977.  Keyptar voru tvær 30 MW vélasamstæður.  Fyrri vélin var gangsett árið 1977, og rafmagnsframleiðsla hófst þar árið 1978.

Hinn 26. júlí 1985 seldi ríkið Kröfuvirkjun, ásamt tilheyrandi mannvirkjum, til stefnda Landsvirkjunar, sbr. lög nr. 102/1985.  Samhliða var framseldur rétturinn til hagnýtingar á 70 MW af jarðhitaorku á Kröflusvæðinu til raforkuframleiðslu.  Um var að ræða rétt, sem ríkið hafði fengið til „frjálsra umráða og ráðstöfunar“ frá landeigendum Reykjahlíðar með samningnum 1971. 

Fyrstu rekstrarár Kröfluvirkjunar gekk illa að afla gufu, ekki síst vegna eldsumbrota, sem stóðu yfir á svæðinu í níu ár á tímabilinu 1975-1984.  Allt til ársins 1997 var aðeins önnur af tveimur 30 MW vélunum í rekstri.  Frá árinu 1999 hefur stöðin hins vegar verið rekin á fullum afköstum, 60 MW, og náð allt upp að 70 MW afköstum á ári.

Árið 1969 reisti Laxárvirkjun 3,2 MW gufuaflsstöð í Bjarnarflagi.  Boraðar voru sex vinnsluholur á árunum 1968-1970, m.a. vegna þeirrar stöðvar, en einnig vegna Kísiliðjunnar.  Með samningi ríkisins og Landsvirkjunar, dags. 17. september 1986, seldi ríkið eignir Jarðvarmaveitna ríkisins í Bjarnaflagi til Landsvirkjunar.

Umrætt svæði, sem samningurinn frá 18. marz 1971 nær til, er talið vera eitt af stærstu háhitasvæðum landsins.  Heildarflatarmál þess á yfirborði samkvæmt yfirborðsjarðhita- og viðnámsmælingum er um 30-35 ferkílómetrar, og eru um 90% þess aðgengileg til vinnslu.  Nýlegar áætlanir Orkustofnunar ætla, að afl svæðisins til raforkuvinnslu geti náð um 375 MW í 50 ár og samsvarandi orkugeta um 3000 GWst á ári.

Með lögum nr. 38/2002 um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfuvirkjunar veitti Alþingi iðnaðarráðherra heimild til að veita Landsvirkjun leyfi til að stækka Kröfluvirkjun í allt að 220 MW ásamt aðalorkuveitum.

Í marz 2006 var gerður rammasamningur milli íslenzka ríkisins og Landsvirkjunar um „afnot af jarðhitaréttindum innan jarðhitaréttindasvæðisins við Kröflu, Bjarnarflag og Námafjall“, þ.e. á svæði því, sem samningurinn frá 18. marz 1971 tekur til.  Í samningnum var m.a. vísað til laga nr. 38/2002 um heimild til stækkunar Kröfluvirkjunar, og fyrri laga, og ofangreindra samninga við landeigendur 1971 og milli Landsvirkjunar og ríkisins 1985 og 1986.  Tekið var fram í samningnum, að markmið ríkisins með honum væri að tryggja aukna nýtingu innlendra orkulinda, skynsamlega nýtingu auðlindarinnar, áframhaldandi uppbyggingu orkuiðnaðar á svæðinu og eðlilegt endurgjald fyrir auðlindina.  Tilgreint markmið Landsvirkjunar með samningnum var að geta haft tiltæka næga jarðhitaorku innan „jarðhitaréttindasvæðisins við Kröflu, Bjarnarflag og Námafjall til vinnslu allt að 350 MW til raforkuframleiðslu vegna hugsanlegrar aukinnar orkunotkunar á Norðausturlandi“, eins og fram kemur í samningnum.  Þá er þar að finna skilgreiningar á því, hvernig afgjald til ríkisins vegna nýtingar á jarðhitanum skyldi fundið og grundvallarviðmið í því sambandi, en um nánari útfærslu á fjárhæðum var vísað til viðauka við samninginn, sem gera skyldi í kjölfar útgáfu virkjunarleyfis samkvæmt 4. gr. raforkulaga nr. 65/2003, eða nýtingarleyfis samkvæmt 6. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Í nóvember 2005, áður en ofangreindur rammasamningur var gerður, gerðu stefndi Landsvirkjun og stefnandi, Landeigendur Reykjahlíðar ehf., með sér rammasamning um nýtingu jarðhita o.fl. á svokölluðu Sandbotnasvæði, í Hágöngum og Gjástykki, þ.e. utan þess svæðis, sem samningurinn við ríkið frá 18. marz 1971 náði til.  Samkvæmt gr. 1.7 í samningnum skal Landsvirkjun greiða árlega fasta fjárhæð, kr. 1.500.000, í umsýslugjald, allt til þess tíma, sem orkusala frá jarðhitavirkjun á viðkomandi svæðum hefst, en frá þeim tíma skal Landsvirkjun, sbr. gr. 2.3. í samningnum, greiða Landeigendum Reykjahlíðar ehf. fyrir þann jarðhita, sem Landsvirkjun er heimilaður nýtingarréttur á, afgjald á framleidda kílówattstund rafmagns (KWst) út á flutningsnet (royalty-greiðsla).  Skal greiðslan nema 1,7 aurum/kWst rafmagns án virðisaukaskatts.  Leiðrétt miðað við gengisvísitölu á stefnudegi (desember 2007) er greiðslan 1,97 aurar/kWst.  Sé sú tala sett inn í rammasamning íslenzka ríkisins og Landsvirkjunar frá marz 2006 megi nálgast það að verðmeta umrædd jarðhitaréttindi innan þess svæðis, sem samningurinn 1971 náði til.  Fyrir 375 MW reiknast árleg greiðsla til handhafa réttindanna samkvæmt því (orkugjald) nú kr. 59.100.000 (375.000 kW x 8.000 nýtingartími í klst. á ári x 0,0197 kr/kWst), sbr. gr. 2 og 4 í rammasamningnum milli Landsvirkjunar og ríkisins frá marz 2006.

Í júlí 2007 undirrituðu Hitaveita Suðurnesja, Landsvirkjun, Orkustofnun, Orkuveita Reykjavíkur og Alcoa Inc. síðan samning um Íslenzka djúpborunarverkefnið (e. The Iceland Deep Drilling Project).  Markmið samningsins er að halda áfram, frá fyrri samningi 7. apríl 2006, að kanna, hvort það sé fjárhagslega forsvaranlegt að nýta orku úr 4-5 kílómetra holum, sem gefa vökva, sem er 400 til 500 gráðu heitur.  Fara boranir fram á Kröflusvæðinu.  Ef niðurstöður borana í Kröflu verða hagstæðar, mun fyrsta orkuverið verða sett upp þar, sbr. gr. 3.3.6. í samningnum.  Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður á bilinu 3,5 til 4 milljarðar króna, sbr. viðauka 4 (Appendix 4) við samninginn. 

Stefnandi kveður, að samkvæmt rannsóknum vísindamanna geti djúpboranir leitt til jafnvel tífaldaðrar orku úr hverri holu, sbr. fyrirlestragögn Landsvirkjunar frá alþjóðlegri álráðstefnu í Reykjavík 12.-14. júní 2005.  Ef slíkt rættist, myndi afgjaldið af jarðhitaréttindunum við Kröflu margfaldast.

Þá kveður stefnandi liggja fyrir, að samningur sá, sem landeigendur Reykjahlíðar gerðu við ríkið árið 1971, sé á ýmsa vegu alfarið kominn úr takti við þann raunveruleika, sem nú blasi við í nýtingu jarðhitaauðlindar. Sé hann af þeim sökum og fjölmörgum öðrum bersýnilega ósanngjarn, auk þess sem forsendur hans hafi verið rangar og/eða hafi brostið.

Kveður stefnandi mál þetta höfðað til að fá samninginn ógiltan, en til vara breytt á tiltekinn hátt.  Það sé höfðað af Landeigendum Reykjahlíðar ehf., sem hafi til þess málsóknarumboð, dags. 20. október 2007, frá öllum þinglýstum eigendum jarðarinnar Reykjahlíðar.  Stefndi sé annars vegar íslenzka ríkið, sem viðsemjandi landeigenda Reykjahlíðar árið 1971, og hins vegar Landsvirkjun, sem „afnotahafi“ jarðhitaréttinda á svæðinu samkvæmt samningum við ríkið frá 1985 og 2006.

III

Málsástæður stefnanda

Aðalkrafa:

Stefnandi byggir kröfur sínar á því í aðalsök, að fyrir liggi í málinu og sé óumdeilt, að þinglýstir eigendur Reykjahlíðar, sem veitt hafi stefnanda málsóknarumboð í máli þessu, eigi umrætt jarðhitasvæði í Kröflu, Bjarnarflagi og Námafjalli beinum eignarrétti.  Svæðið sé talið vera eitt af stærstu háhitasvæðum landsins, 30-35 ferkílómetrar, og um 90% þess aðgengilegt til vinnslu.  Afl svæðisins til raforkuvinnslu sé gríðarlegt að mati Orkustofnunar, eða um 375 MW í 50 ár.

Krafa stefnanda lúti að því, að samningurinn frá 18. marz 1971, þar sem ákveðið hafi verið, að hin miklu jarðhitaréttindi á svæðinu skyldu vera stefnda, íslenzka ríkinu, til  „frjálsra umráða og ráðstöfunar“, verði ógiltur, enda hafi forsendur hans verið að mörgu leyti rangar og/eða brostið síðar, auk þess sem 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eins og henni hafi verið breytt með 6. gr. laga nr. 11/1986, leiði til sömu niðurstöðu.  Í því ákvæði sé mælt fyrir um, í 1. mgr., að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.  Samkvæmt 2. mgr. ákvæðis skuli, við mat samkvæmt 1. mgr., líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika, sem síðar komu til.

Í fyrsta lagi liggi fyrir, að atvik hafi breytzt gríðarlega frá 1971, að því er varði nýtingu jarðhita á því svæði, sem hann nái til, eins og rakið sé hér að ofan.  Þannig sé ljóst, að heildarafl svæðisins, 375 MW, sé umtalsvert meira en talið hafi verið áður.  Til dæmis hafi verið talið, í skýrslu Orkustofnunar um Kröflu – niðurstaða vinnsluborana 1975, horfur um gufuöflun, rúmum fjórum árum eftir að samningurinn 18. marz 1971 var gerður, að gufa í virkjanlegum borholum samsvaraði 25-36 MW.

 Þá liggi fyrir, að endurgjald það, sem ríkinu beri að inna af hendi samkvæmt samningnum, sé í engu samræmi við verðmæti jarðhitaréttindanna, sem hafi verið ríkinu til „frjálsra umráða og ráðstöfunar“ samkvæmt honum.  Ljóst sé, að verulegur munur sé þarna á og megi sjá þetta af því, sem rakið sé hér að ofan, við samanburð á þeim samningi, sem stefnandi gerði við Landsvirkjun í nóvember 2005 um nýtingu jarðhita o.fl. á svokölluðu Sandbotnasvæði, í Hágöngum og Gjástykki annars vegar, og rammasamningi milli íslenzka ríkisins og Landsvirkjunar, sem gerður var í marz 2006 um jarðhitasvæðið við Kröflu hins vegar.  Ljóst sé af þessum gögnum, að verðmæti jarðhitaréttindanna, sem samningurinn 18. marz 1971 náði til, sé gífurlegt, eins og að ofan sé rakið, eða sem svari til að minnsta kosti 59.100.000 króna greiðslu árlega, og geti margfaldazt, ef árangur verði af djúpborunum, í a.m.k. tæplega 600.000.000 króna greiðslu árlega.

Hér verði einnig að hafa í huga, að allt bendi til þess, að verðmæti vistvænna náttúruauðlinda sem þessara muni aukast verulega á komandi árum og áratugum.  Samningurinn, sem gerður hafi verið 1971, sé barn síns tíma í framangreindu ljósi.  Samningurinn hafi á þessum tíma í raun verið byggður á orkuþörf fyrir Kísiliðjuna, hitaveitu Reykjahlíðar og frekari rannsóknir á svæðinu, fremur en að þarna hefði verið ætlunin að byggja stóra virkjun, enda landeigendum ekki gert kunnugt um það fyrir undirritun samningsins.

Fyrir liggi, að endurgjaldið samkvæmt samningnum 1971 reynist brot af verðmæti jarðhitaréttindanna, sem afhent hafi verið, eins og þau birtist í framangreindum gögnum.  Endurgjaldið sé annars vegar í formi aðalæðar hitaveitu, sem ríkið hafi byggt, og hins vegar í formi 20 lítra á sekúndu af heitu vatni.  Endurgjaldið í formi heits vatns nýtist landeigendum á afar takmarkaðan hátt – sé eins konar gjaldeyrir, sem ekki sé hægt að nota – auk þess sem ákvæði í 4. gr. samningsins frá 1971 banni afhendingu eða sölu vatnsins til iðjurekstrar eða skyldrar starfsemi í samkeppni við vatn eða gufu frá jarðvarmaveitum ríkisins eða öðrum aðilum, sem ríkissjóður heimili framkvæmdir á framangreindu landi á lægra verði en þessir aðilar bjóði.  Af þessum sökum sé verðmæti endurgjaldsins lítið og í engu samræmi við hin miklu verðmæti jarðhitaréttindanna.  Þannig sé heildararður landeigenda Reykjahlíðar af hinu heita vatni í gegnum hitaveitu Skútustaðahrepps tæplega milljón á ári, þ.e. 924.541 króna á árinu 2006 og 1.008.663 krónur árið 2007, sem sé aðeins brotabrot af því, sem sé réttmætur arður landeigenda af jarðhitaauðlindinni við Kröflu. 

Með vísan til alls þess, sem rakið sé hér að framan, sé ljóst, að samningurinn frá 18. marz 1971 sé verulega ósanngjarn og verði að ógilda hann á þeim grundvelli, sbr. 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, sbr. lög nr. 11/1986, eða með vísan til rangra eða brostinna forsendna.

Þá verði jafnframt að líta til þess, að þegar samningurinn 18. marz 1971 var gerður, hafi menn staðið í nokkurri óvissu um það, hve langt niður í jörð réttur jarðeiganda til auðlinda næði, hvort heldur til jarðhita eða annars.  Talið hafi verið, að slíkur réttur næði e.t.v. aðeins um 100 metra niður, eða a.m.k. mætti takmarka hann bótalaust með þeim hætti, að hann næði aðeins svo langt niður.  Árið 1957 hafi verið lagt fram á Alþingi frumvarp ríkisstjórnarinnar til laga um jarðhita, þar sem mælt hafi verið fyrir um, að ríkið ætti allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita, sem lægi dýpra en 100 metra undir yfirborð jarðar.  Með frumvarpinu hafi fylgt álitsgerð Ólafs Jóhannessonar prófessors, sem hafi talið þessa takmörkun heimila að stjórnlögum.

Nú sé hins vegar ljóst, að réttur landeigenda til jarðhita nái jafnlangt niður og möguleg tækniþekking hverju sinni geri mönnum kleift að nýta hann, sbr. núgildandi 3. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og athugasemdir í frumvarpi til þeirra laga.  Í því sambandi sé rétt að benda á þann samning, sem að ofan geti, og Hitaveita Suðurnesja, Landsvirkjun, Orkustofnun, Orkuveita Reykjavíkur og Alcoa Inc. hafi undirritað í júlí 2007, um Íslenzka djúpborunarverkefnið (e. The Iceland Deep Drilling Project), sem lúti að könnun á nýtingu orku úr 4-5 kílómetra holum á Kröflusvæðinu, sem gefi vökva, sem sé 400 til 500 gráðu heitur.  Ljóst sé, að tækniþekkingu vindi fram um djúpboranir, en tækniþekking hafi verið skammt á veg komin árið 1971 og nýtingarmöguleikar á jarðhitanum á þeim tíma mjög takmarkaðir.  Í framangreindu samhengi sé ljóst, að samningurinn frá 1971 fái aldrei staðizt, hvort sem rangar eða brostnar forsendur valdi því, eða 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, sbr. lög nr. 11/1986.  Verði því að ógilda hann þegar af þessari ástæðu.

Þá hafi það enn fremur þýðingu í máli þessu, að með 12. gr. auðlindalaga nr. 57/1998 sé lagt bann við því, að undanskilja jarðhitaréttindi frá eignarlöndum, nema með sérstöku leyfi ráðherra.  Sambærilegt ákvæði hafi verið í 16. gr. orkulaga nr. 58/1967.  Það hafi verið nákvæmlega það, sem gert var með samningnum 1971, þegar ákveðið hafi verið, að jarðhitaréttindi, sem tilheyrðu eignarlandi Reykjahlíðar, hafi, með einhverjum hætti, verið framseld ríkinu til „frjálsra umráða og ráðstöfunar“.  Þau réttindi hafi að því leytinu til verið skilin frá eignarlandinu.  Ekki hafi heldur legið fyrir sérstakt leyfi ráðherra sem stjórnvalds, þegar samningurinn var gerður.  Með vísan til framangreinds ákvæðis hafi umræddur gerningur farið í bága við lög.  Ljóst sé af þeim sökum, að hann verði að ógilda.

Loks hafi staða aðila við samningsgerðina einnig haft áhrif við mat um það, hvort samninginn beri að ógilda.  Landeigendur hafi verið í þeirri stöðu að semja við ægivald ríkisins, sem ásælzt hafi jarðhitaréttindi þeirra, en hafi átt yfir höfði sér eignarnám að öðrum kosti, en það úrræði hafi m.a. verið fyrir hendi, þegar Kísiliðjan var byggð í Mývatnssveit, sbr. lög nr. 80/1966.  Þá hafi landeigendur ekkert verið upplýstir um til hvers nýta ætti jarðhitaréttindin, sem í ljós hafi komið nokkrum árum síðar, þegar hafin var bygging Kröfluvirkjunar, og ekki hafi þeir heldur verið upplýstir um, hvað væri verið að rannsaka á þeirra landi, eða um niðurstöður rannsókna á svæðinu, sem staðið höfðu yfir a.m.k. frá 1963.  Þá hafi ekkert endurskoðunarákvæði verið í samningnum, t.d. um endurskoðun hans eftir 25 ár, eins og eðlilegt og sanngjarnt hefði verið, miðað við þá takmörkuðu þekkingu, sem þá hafi verið á jarðhita og möguleikum á vinnslu hans.

Samkvæmt framangreindu beri að ógilda samning landeigenda Reykjahlíðar við ríkið frá 18. marz 1971 um jarðhitaréttindi á svæðinu með vísan til meginreglna samninga- og kröfuréttarins um rangar og brostnar forsendur, 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. lög nr. 11/1986, og lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins.

Varakrafa:

Verði ekki fallizt aðalkröfu stefnanda um, að samningurinn frá 18. marz 1971 verði ógiltur, sé  þess krafizt til vara, að honum verði breytt á þá leið, að jarðhitaréttindi þau, sem stefnda séu „til frjálsra umráða og ráðstöfunar“ samkvæmt 1. gr. hans, svari að afli aðeins til jarðhitaorku allt að 70 MW (megawöttum) til raforkuframleiðslu, en ekkert umfram það.

Um málsástæður og lagarök fyrir þessari kröfu vísist til þess, sem fram komi hér að ofan til stuðnings aðalkröfu, eftir því sem við eigi.

Sé þessum kosti stillt upp til vara og beri að taka til greina, ef ekki verði fallizt á aðalkröfu stefnanda.  Það að miða breytinguna við, að „til frjálsra umráða og ráðstöfunar“ samkvæmt 1. gr. samningsins sé jarðhitaorka, sem svari að afli til allt að 70 MW (megawöttum) til raforkuframleiðslu, en ekkert umfram það, sé eins konar millileið, sem sæki viðmið í samning ríkisins við Landsvirkjun frá 26. júlí 1985, þar sem ríkið hafi framselt Landsvirkjun fullan og ótakmarkaðan rétt til hagnýtingar á þeirri jarðhitaorku „sem finnast kann á Kröflusvæðinu og sem nú er óbreytt í umráðum ríkisins, að afli sem svarar allt að 70 MW, til raforkuframleiðslu“. Eðlilegt og sanngjarnt sé að breyta samningnum frá 1971 í þessa veru, ef ekki verði fallizt á aðalkröfu stefnanda um ógildingu hans.  Ljóst sé nú, að heildarafl svæðisins sé 375 MW, samkvæmt mælingum Orkustofnunar.  Með breytingu samningsins í þá veru, sem að framan greini, væri litið svo á, að landeigendur hefðu framselt ríkinu 18. marz 1971 jarðhitaorku, sem svari til 70 MW til raforkuframleiðslu, en að öll jarðhitaréttindi umfram það væru skilyrðislaus eign landeigenda Reykjahlíðar.

Um lagarök vísist m.a. til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. lög nr. 11/1986, meginreglna samninga- og kröfuréttarins um rangar og brostnar forsendur, lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og laga nr. 38/2002 um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfuvirkjunar.  Málskostnaðarkrafa stefnanda styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Um varnarþing vísist til 33. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda, íslenzka ríkisins

Stefndi byggir á því, að stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að um forsendubrest sé að ræða, hvað varðar efndir samningsins. Þvert á móti telji stefndi, að samningurinn hafi verið að fullu efndur í samræmi við efnisatriði hans, og að auki hafi stefndi gengið lengra, hvað varði efndir, en skýrt orðalag samningsins gefi til kynna.  Vísist hér til þeirra úrbóta, sem ríkissjóður hafi tekið að sér umfram það, sem getið sé um í samningnum og tilteknar séu í yfirlýsingum aðila frá árunum 1975 og 1982.

Hvað varði brostnar forsendur, sé almennt talið, að uppfylla beri þrjú skilyrði, svo unnt sé að bera þær ástæður fyrir sig.  Í fyrsta lagi verði viðkomandi forsenda að hafa verið ákvörðunarástæða fyrir loforðsgjafann.  Í öðru lagi þurfi loforðsmóttakandinn að hafa vitað eða mátt vita, að loforðið hafi verið gefið vegna forsendunnar.  Loks í þriðja lagi þurfi að vera sanngjarnara að leggja áhættuna af því, að forsendan bresti, á loforðsmóttakandann en loforðsgjafann.  Stefndi telji, að stefnandi hafi á engan hátt sýnt fram á, að framangreind skilyrði hafi verið uppfyllt.  Þvert á móti telji stefndi, að svo almenn tilvísun stefnanda til brostinna forsendna, án eðlilegs rökstuðnings, geti ekki á nokkurn hátt byggt rétt til handa honum.

Í málatilbúnaði stefnanda sé vísað til þess, að atvik hafi breytzt umtalsvert frá árinu 1971 að því er varði nýtingu jarðhita á því svæði, sem samningurinn nái til, og að heildarafl svæðisins sé meira en talið hafi verið áður.  Einnig telji stefnandi, að endurgjald það, sem ríkinu beri að inna af hendi samkvæmt samningnum, sé í engu samræmi við verðmæti jarðhitaréttindanna, sem afhent hafi verið ríkinu til frjálsra umráða og ráðstöfunar.  Hvað þessar kröfur varði, veki stefndi í fyrsta lagi athygli á, að samkvæmt samningnum sé hvergi kveðið á um einhvers konar magntakmarkanir á jarðhitanýtingu á svæðinu.  Þvert á móti sé ríkissjóði afsalað til frjálsra afnota og hagnýtingar jarðhitaréttindi á hinu afmarkaða, tilgreinda samningssvæði.  Í öðru lagi hafi viðsemjendur stefnda ekki hreyft andmælum, hvað varði efndir og endurgjald fyrr en fyrst árið 2003, og sé það slíkt tómlæti af hálfu stefnanda, að það eitt og sér komi í veg fyrir, að hægt sé að fallast á dómkröfur stefnanda.

Ljóst sé, að stefndi hafi, a.m.k. framan af, staðið einn undir þeim gríðarlega kostnaði við að nýta þau jarðhitaréttindi, sem áður voru ónýtt í iðrum jarðar, og að sama skapi hafi stefnandi ekki þurft að leggja til nokkurn kostnað vegna þessa en þess í stað notið reglulegs afgjalds.  Sé enn bent á, að sökum kostnaðarsamra úrbóta umfram skýrt orðalag samningsins, sem og vegna áhættutöku varðandi framtíðarnýtingu jarðhitans, hafi verulega hallað á stefnda, hvað varðar efndir samningsins.

Í málatilbúnaði stefnanda séu vangaveltur um, að verðmæti vistvænna náttúruauðlinda muni aukast verulega á komandi árum og áratugum.  Engin rök séu færð fram um þessar getgátur stefnanda.  Ljóst sé hins vegar, að erfitt sé að spá um verðmæti slíkra vistvænna náttúruauðlinda.  Að auki kunni verðmat á jarðhita að vera háð ýmsum ytri aðstæðum, svo sem kostnaði við framkvæmdir, flutningi á orku og aðgengi að jarðhita, svo dæmi séu tekin.

Stefnandi vísi til þess í stefnu, að þegar samningurinn var gerður árið 1971, hafi verið  nokkur óvissa um, hve langt niður í jörð réttur landeigenda til auðlinda næði. Vísi stefnandi einnig til frumvarps til laga um jarðhita, sem lagt var fram á Alþingi árið 1957, sem og álitsgerðar, sem fylgdi því frumvarpi.  Stefndi bendi á, að árið 1957 hafi verið í gildi lög um eignar- og notkunarrétt á jarðhita, nr. 98/1940, með síðari breytingum, þar sem í 1. gr. sagði orðrétt:

Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar á hverum og laugum (jarðhita), sem á henni eru, þó með takmörkunum þeim, sem lög þessi tilgreina.

Í tilvísuðu lagaákvæði sé viðurkennt, að jarðhiti sé að fullu í eigu landeigenda, þótt tiltekið sé, að nýting hans kunni að vera háð takmörkunum, sem kveðið væri á um í lögunum. Þær takmarkanir hafi hins vegar varðað sjálfbæra hagnýtingu jarðhitans sem og að nýting hans yrði sem best tryggð.  Hvergi hafi í lögunum verið kveðið á um takmörk eignarréttar varðandi dýpt eða annað eins.  Regla þessi hafi verið svo gott sem samhljóða tekin upp í orkulög, nr. 58/1967, þar sem sagði í 9. gr.:

Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar jarðhita úr landareigninni, þó með takmörkunum þeim, sem lög þessi tilgreina.

Af framangreindu sé því ljóst, að ekki hafi hvílt lagalegar takmarkanir á hagnýtingu jarðhitans, hvað dýpt hans varði.

Stefnandi vísi til og byggi á 13. gr. orkulaga nr. 58/1967, sbr. 12. gr. laga um rannsóknir og hagnýtingu á auðlindum úr jörðu nr. 57/1998, um að óheimilt sé að undanskilja jarðhitaréttindi frá eignarlöndum, nema með sérstöku leyfi ráðherra.  Í tilvitnaðri 13. gr. orkulaga sagði m.a.:

Landeigandi má ekki undanskilja landareign sinni jarðhitaréttindi, nema með sérstöku leyfi ráðherra.

Stefndi byggi á því, að með undirritun sinni, og um leið staðfestingu á efni samningsins, hafi iðnaðarráðherra, í þessu tilviki Júlíus Hafstein þáverandi iðnaðarráðherra, haft fullt stöðuumboð til að samþykkja umrætt framsal á jarðhitaréttindum.  Hafnað sé þeim rökum stefnanda, að iðnaðarráðherra hafi ekki haft sérstakt leyfi til að undanskilja umrædd jarðhitaréttindi.  Ekki hafi, í þágildandi ákvæði orkulaga frekar en í núgildandi lögum nr. 57/1998, verið kveðið á um formkröfur, sem ráðherra bæri að uppfylla varðandi þá athöfn að undanskilja jarðhitaréttindi frá landareign á grundvelli gildandi lagaákvæða.  Byggt sé á því, að undirritun samnings, þar sem jarðhitaréttindi séu framseld ríkinu til frjálsra afnota og hagnýtingar, feli í sér samþykki iðnaðarráðherra, sem undirritunaraðila, fyrir slíkum gerningi.

Stefnandi byggi á því að landeigendur Reykjahlíðar hafi á sínum tíma verið nauðbeygðir til þess að ganga til samninga, enda hafi þeir, að sögn stefnanda, átt yfir höfði sér eignarnám að öðrum kosti.  Af hálfu stefnda sé þessu alfarið mótmælt.  Einnig sé byggt á því, að ekki hafi verið sett inn ákvæði um endurskoðun samningsins.  Stefndi bendi á, að landeigendur hafi á sínum tíma haft fullan rétt á að óska eftir slíku endurskoðunarákvæði, en hafi augljóslega kosið að gera ekki við samningsgerðina.  Ljóst sé og, að þeir hafi notið lögmannsaðstoðar við samningsgerðina.  Jafnræði hafi því verið með samningsaðilum.

Framangreindar fullyrðingar og málsástæður stefnanda komi nú fyrst fram, tæpum fjórum áratugum frá undirritun samningsins.  Stefndi telji fullyrðingarnar í fyrsta lagi órökstuddar og ósannaðar getgátur.  Í öðru lagi komi þær fram of seint, og vísi stefndi hér til tómlætissjónarmiða og réttaráhrifa þeirra.  

Stefndi byggi sýknukröfu sína með öðru á því, að skuldbindingargildi samninga sé ein af grundvallarreglum íslenzks fjármunaréttar.  Í þeirri grundvallarreglu felist, að aðilum sé almennt heimilt að velja sér gagnaðila við samningsgerð, frelsi um efni löggerninga og frjálsræði til að ákvarða, hvort samningur skuli gerður, eða hvort látið skuli hjá líða að gera samning eða annan löggerning.  Eigi þessi regla sér rót í meginreglunni um, að samninga eða aðra löggerninga skuli efna.  Af reglu þessari leiði, að samningsaðili geti almennt ekki komið sér hjá því að efna samningsskyldur sínar, þó svo að þær megi telja ósanngjarnar í hans garð.  Sé þá haft í huga, að samningsaðilar hafi gengið óbundnir til samningsgerðar, af fúsum og frjálsum vilja.

Af framangreindu megi ráða, að meginregla samningsréttar sé að samninga skuli efna.  Ákvæði 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986,  sé undantekning frá þessari meginreglu.  Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 11/1986 sé tekinn af allur vafi um þetta, þar sem segi, að ákvæði 36. gr. sé í eðli sínu undantekningarregla, og dómstólum beri að fara mjög varlega við beitingu hennar.  Í greinargerðinni segi m.a.:

Regla [36.gr.] er í eðli sínu undantekningarregla.  Hún stendur andspænis þeim meginreglum íslenzks fjármunaréttar, sem áður er getið, um samningsfrelsið og skyldu manna til þess að efna gerða samninga.  Þess vegna er sérstök ástæða til þess að undirstrika það, að til þess er ætlast, að dómstólar fari mjög varlega í beitingu reglunnar.  Óhófleg beiting reglunnar væri mjög til þess fallin að skerða öryggi í viðskiptum og skapa réttaróvissu.

Grundvallarregla við lögskýringu, sem og skýringu á löggerningum, sé, að undantekningu skuli túlka þröngt.  Þannig verði 36. gr. sml. ekki beitt nema óyggjandi sönnun liggi fyrir um, að ákvæði greinarinnar eigi skýrlega við.  Stefndi telji, að stefnandi hafi ekki sýnt fram á með lagarökum, að samningurinn sé á nokkurn hátt þess eðlis, að ákvæði 36. gr. sml. taki til hans að hluta eða í heild.

Stefndi byggi á því, að ekki sé hægt að byggja á 36. gr. sml., sbr. lög nr. 11/1986, með afturvirkum hætti, eins og stefnandi virðist byggja á.  Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 11/1986 um breytingu á 36. gr. sml. sé að finna leiðbeiningar um, hvernig beita eigi reglunni, þ.e. um lagaskil, um samninga sem gerðir hafi verið fyrir gildistöku laganna.  Segi orðrétt í greinargerðinni m.a.:

Enginn vafi er á því, að reglunni verður ekki beitt um samninga, sem eru að fullu efndir við gildistöku [laganna], og að reglunni verður að fullu beitt um samninga sem stofnað er til eftir gildistöku [laganna]. 

Í þessu samhengi sé rétt að benda á, að samningurinn hafi verið að fullu efndur löngu fyrir gildistöku laga nr. 11/1986 og af þeirri ástæðu einni og sér taki ákvæði 36. gr. sml. ekki til samningsins.

Stefnandi styðji kröfugerð sína m.a. við lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins.  Samkvæmt lögmætisreglunni skuli stjórnvaldsákvarðanir vera í samræmi við lög og eiga sér viðhlítandi stoð í þeim.  Stefndi byggi á því, að samningur málsaðila hafi að fullu verið í samræmi við meginregluna um samningsfrelsi sem og ákvæði samningslaga.  Ekki hafi verið sýnt fram á, af hálfu stefnanda, að framkoma, samningsgerð eða efndir samningsins hafi gengið gegn almennum eða sértækum réttarheimildum.  Þar af leiðandi hafni stefndi því alfarið, að gengið hafi verið gegn þeim grundvallarsjónarmiðum stjórnsýslunnar, sem felist í lögmætisreglunni.  Telji stefndi því, að hvorki hafi verið brotið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins né öðrum skráðum eða óskráðum meginreglum þess réttar.

Stefndi krefjist sýknu af dómkröfum stefnanda og vísi til ofangreindra málsástæðna þar að lútandi.  Sýknumálsástæður stefnda eigi bæði við um aðal- og varakröfu stefnanda.

Forsendum varakröfu stefnanda sé aðallega mótmælt á þeim grundvelli, að ekkert samband sé milli samnings stefnda og landeigenda Reykjahlíðar 1971 annars vegar og samnings stefnda við Landsvirkjun frá 26. júlí 1985 hins vegar.  Sú viðmiðunartala, sem nefnd sé í síðari samningnum um raforkuframleiðslu, hafi ekkert sjálfstætt gildi í samskiptum stefnanda og stefnda, enda hafi samningur aðila frá 1971 kveðið á um frjálsan umráða- og ráðstöfunarrétt jarðhitaréttinda á landsvæðinu.  Í samningnum frá 1971 sé með öðrum orðum engin takmörkun á vinnslu nýtanlegrar jarðorku á því landsvæði, sem um hafi verið samið.  Stefndi hafi framselt tiltekna jarðhitaorku til Landsvirkjunar með samningnum 1985, en haldið sjálfur eftir nýtanlegum jarðhita umfram umsamið hámark.  Til þess hafi stefndi haft fullan rétt, en um leið hafi þetta fyrirkomulag engan sjálfstæðan rétt skapað til handa stefnanda.  Því sé alfarið mótmælt, að 36. gr. sml. heimili stefnanda að breyta samningnum frá 1971 til samræmis við kröfugerð stefnanda.  Engar forsendur séu til þess, að mati stefnda, og vísist með öðru til sýknumálsástæðna með aðalkröfu.  Í þessu samhengi sé enn byggt á, að stefnandi, eða umbjóðendur hans, hafi engar athugasemdir gert við samninginn frá 1971 fyrr en 2003.  Að mati stefnda sé þetta tómlæti, sem leiði til sýknu.

Málsástæður stefnda, Landsvirkjunar

Stefndi taki fram, að sýknumálsástæður eigi bæði við um aðal- og varakröfu stefnanda.

1.Framsal jarðhitaréttinda með samningi.

Óumdeilt sé í máli þessu, að jarðhitaréttindi í landi Reykjahlíðar á nánar afmörkuðu jarðhitaréttindasvæði, ásamt jarðhita þeim, sem þar sé að finna og aðstöðu til mannvirkjagerðar til nýtingar hans, hafi, af hálfu landeigenda, verið framseld ríkinu til frjálsra umráða og ráðstöfunar með 1. gr. samningsins frá 1971, sbr. dskj. nr. 7.  Séu þessi jarðhitaréttindi ótakmörkuð.  Orðalagið „til frjálsra umráða og ráðstöfunar“ verði ekki skilið á annan veg en samkvæmt orðanna hljóðan.  Íslenzka ríkið hafi, með samningnum, eitt orðið rétthafi og hafi verið frjálst að hagnýta sér réttindin sjálft eða fela það öðrum.  Enga takmörkun hafi verið að finna í samningnum á umráða- eða ráðstöfunarrétti ríkisins.

Jafnframt sé óumdeilt, að með samningi meðstefnda, íslenzka ríkisins, við stefnda, um kaup á Kröfluvirkjun árið 1985, hafi ríkið framselt hluta þessara jarðhitaréttinda, þ.e.a.s. nýtingu allt að 70 MW jarðhitaorku, til raforkuframleiðslu á Kröflusvæðinu.

Málsástæður stefnanda séu um margt vanreifaðar og beri hann hallann af því.  Til rökstuðnings aðalkröfu sé á bls. 5 í stefnu vísað öðrum þræði til rangra eða brostinna forsendna og hins vegar til 36. gr. samningalaga, nr. 7/1936.  Engin tilraun sé gerð til að greina á milli þessara þriggja ógildingarástæðna samningaréttarins og renni þær að mörgu leyti saman, þótt það hefði verið sérstaklega mikilvægt að greina þær að, þar sem 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, sbr. lög nr. 11/1986, hafi ekki öðlazt gildi fyrr en 15 árum eftir að samningurinn var gerður.  Af þeim sökum sé erfitt fyrir stefnda að átta sig á, á hvaða lagalegu forsendum stefnandi telji samninginn ógildan, eða frá hvaða tímamarki.

2.Forsendur við samningsgerð.

Reglan um samningsfrelsið sé ein af grundvallarreglum íslenzks fjármunaréttar, og ekki síður mikilvæg sé reglan um, að gerða samninga beri að halda – pacta sunt servanda.  Allar undantekningar frá reglunni um skuldbindingargildi samninga beri að skýra þröngt, og mikið þurfi til að koma, svo samningar verði taldir ógildir, eða efni þeirra breytt síðar, enda yrði öllu efnahagslífinu teflt í tvísýnu, ef ekki væri fylgt festu í þessum efnum.

Stefndi mótmælir því, að forsendur við samningsgerð hafi verið rangar eða brostið síðar.  Við samningsgerðina hafi landeigendur notið aðstoðar virts hæstaréttarlögmanns, en samningurinn frá 1971 á dskj. nr. 7 sé undirritaður af Páli S. Pálssyni hrl. fyrir hönd landeigenda.  Ekki verði því séð, að aðstöðumunur hafi verið með aðilum.  Samkvæmt gildandi lögum, þegar samningurinn 1971 var gerður, hafi landeigendur Reykjahlíðar farið með eignarráð jarðhitaréttindanna, eða a.m.k. hafi ekki verið bornar brigður á heimild þeirra til að ráðstafa réttindunum með samningi af hálfu viðsemjandans, íslenzka ríkisins.

Af gögnum málsins verði ekki annað ráðið en að forsendur samningsaðila árið 1971 hafi verið að fá endurgjaldið samkvæmt 3. tölul. samningsins greitt.  Óumdeilt sé, að íslenzka ríkið hafi greitt þá fjárhæð, sem samningurinn fjallaði um, og afhent heitt vatn í samræmi við samninginn.  Samkvæmt b-lið 3. tölul. samningsins hafi íslenzka ríkið undanskilið sig allri ábyrgð á eðli vatnsins, og viðhald og viðgerðir hafi átt að vera ríkissjóði óviðkomandi.  Vegna óánægju landeigenda með gæði vatnsins hafi íslenzka ríkið tekið á sig, umfram samningsskyldu sína, að endurbæta greiðsluna, sbr. yfirlýsingar frá 1975 og 1982 á dskj. nr. 12 og 14.  Eftir að þær úrbætur voru gerðar, geti ekki verið ágreiningur um, að íslenzka ríkið hafi reitt af hendi það, sem því bar að gera samkvæmt samningnum, og ríflega það.  Forsendur gagnaðila, landeigenda Reykjahlíðar, hafi því ekki getað verið rangar við samningsgerðina.  Af þessum sökum sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu, að forsendur hafi verið rangar við samningsgerðina, sem eigi að leiða af sér ógildi samningsins.

Stefndi mótmæli því jafnframt, að forsendur samningsins hafi brostið.  Samkvæmt meginreglum samninga- og kröfuréttar sé almennt viðurkennt, að til að forsendubrestur geti valdið ógildingu loforða og samninga, þurfi forsenda að hafa verið veruleg og jafnframt ákvörðunarástæða fyrir löggerningsgjafa.  Þar að auki þurfi gagnaðila að hafa verið forsendan ljós, eða að a.m.k. mátt vera hún ljós, þegar samningurinn var gerður.  Loks þurfi að teljast sanngjarnt, að áhættan af forsendubresti verði frekar lögð á loforðsmóttakandann.

Stefnandi hafi ekki fært sönnur að því, að hann hafi gert það að skilyrði fyrir samningsgerð, að ef stefnda íslenzka ríkinu, eða þeim sem síðar leiddi rétt sinn frá því, tækist að gera meiri verðmæti úr jarðhitaréttindunum en handhafi jarðhitaréttindanna sá fyrir á þeim tímapunkti, sem samningurinn var gerður, yrði samningurinn ógildur.  Þvert á móti sé ljóst, að samningsgreiðsla íslenzka ríkisins samkvæmt 3. tölul. samningsins á dskj. nr. 7 hljóti að hafa verið mjög verðmæt í hendi landeigenda Reykjahlíðar, enda hafi íslenzka ríkið tekizt á hendur alla áhættu og kostnað af rannsóknum og framkvæmdum á Kröflusvæðinu.  Þá þegar hafi legið fyrir, að rannsóknir og beizlun jarðhitaorkunnar væri mjög áhættusöm og dýr framkvæmd og mjög hæpið, að landeigendur Reykjahlíðar hefðu nokkurn tímann haft bolmagn til að ráðast í slíka framkvæmd.  Þá sé og ljóst, að sú skylda að greiða fyrir lagningu hitaveitulagna um langan veg og afhenda 20 l/sek af heitu vatni endurgjaldslaust um alla framtíð til landeigenda Reykjahlíðar, hljóti að hafa falið í sér mikil verðmæti og verið mikilvæg forsenda fyrir uppbyggingu í Reykjahlíð.  Sú uppbygging hafi verið mikið hagsmunamál landeigenda.

Stefndi mótmæli þeirri málsástæðu stefnanda, að óvissa hafi verið um réttindi landeiganda, þegar samningurinn var gerður árið 1971, þar sem frumvarp hafi verið lagt fram á Alþingi um, að jarðhitaréttindi öll tilheyrðu íslenzka ríkinu, sbr. dskj. nr. 4.  Hafi óvissa skapazt á árinu 1957 við framlagningu frumvarpsins, hafi þeirri óvissu verið eytt, þegar samningurinn var gerður, því með orkulögum, nr. 58/1967, hafi verið tekið af skarið með að jarðhitaréttindin tilheyrðu landeiganda, svo sem áður hafi verið í gildistíð laga nr. 98/1940.  Meta verði samninginn frá 1971 í ljósi gildandi laga, en ekki sé unnt að byggja réttaróvissu á þeim tíma á 14 ára gömlu lagafrumvarpi.  Löggjafinn hafi þá þegar verið búinn að eyða allri réttaróvissu, hafi hún nokkurn tíma verið til staðar.  Eftir að orkulög frá 1967 tóku gildi, hafi stefnandi mátt treysta því, að eignarréttindi hans, ef þau þá voru ótvírætt hans, væru varin af eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.  Ef ríkið hefði tekið þau með eignarnámi, hefði hann fengið fullar bætur fyrir.  Málsástæða þessi sé því haldlaus með öllu.

3.Ógilding á grundvelli 36. gr. samningalaga.

Stefnandi byggi málatilbúnað sinn á því, að ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. lög nr. 11/1986, eigi að leiða til þeirrar niðurstöðu, að samningur verði felldur úr gildi.  Stefndi mótmæli því alfarið, að ákvæði 36. gr. samningalaga geti átt við um það réttarsamband, sem hér um ræði.  Í fyrsta lagi hafi samningurinn verið gerður árið 1971, eða 15 árum áður en hið nýja ógildingarákvæði var lögfest.  Rétt sé að minna á, að um hafi verið að ræða verulega breytingu á viðteknum skoðunum í samninga- og kröfurétti, þegar 36. gr. laganna var lögfest.  Íslenzka ríkið hafi innt af hendi sína greiðslu í samræmi við samninginn, þ.e.a.s. með greiðslu fyrir lagningu hitaveitu og síðar með afhendingu tiltekins magns af heitu vatni.  Samningurinn hafi því í alla staði verið að fullu efndur, þegar hið nýja ákvæði 36. gr. sml. var lögfest.  Það sé meginreglna íslenzks réttar, að lög séu ekki afturvirk.  Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 11/1986, komi fram um 6. gr. frumvarpsins (36. gr. laganna), að reglunni yrði ekki beitt um samninga, sem væru að fullu efndir við gildistöku þeirra.  Meðstefndi, íslenzka ríkið, hafi löngu fyrir gildistöku laganna tekið við hinum afsöluðu jarðhitaréttindum, hafið hagnýtingu þeirra með miklum tilkostnaði og síðar framselt að hluta til stefnda Landsvirkjunar og endurgjald fyrir réttindin að fullu greidd.  Af þeim sökum sé því alfarið hafnað, að 36. gr. sml. geti átt við um löggerning þennan.

Ef, þrátt fyrir allt, talið yrði, að beita mætti 36. gr. sml. um löggerning þann, sem málið snúist um, hafi stefnandi, hvernig sem á málið sé litið, ekki fært fram sönnur þess, að skilyrði greinarinnar séu til staðar.  Árið 1971, þegar samningurinn var gerður, hafi legið til grundvallar ákveðnar tæknilegar forsendur.  Þá hafi ekki verið að fullu ljóst, hve mikla orku Kröflusvæðið gæti gefið af sér, eða hve miklu þyrfti að kosta til.  Áhættan hafi alfarið verið meðstefnda, íslenzka ríkisins.  Af málsgögnum sé og ljóst, að það sé ekki fyrr en árið 1999, sem virkjunin hafi farið að ganga sæmilega, en fram til þess tíma hafi verið lagt í gríðarlegan kostnað vegna rannsókna, án þess að þær hafi skilað arði.

Þegar stefndi Landsvirkjun keypti Kröfluvirkjun af meðstefnda, íslenzka ríkinu, árið 1985 fyrir 1.170 milljónir króna, hafi heildarskuldir virkjunarinnar verið 3207 milljónir króna, og hafi ríkissjóður orðið að taka að sér greiðslu 2037 milljóna króna, sbr. dskj. nr. 47.  Það sé því deginum ljósara, að Kröfluvirkjun hafi engan veginn uppfyllt viðskiptalegar forsendur, sem réttlætti þennan rekstur, hvað þá að landeigendur hefðu nokkurn tímann haft bolmagn til að reka slíka virkjun sjálfir.

Erfiðleikar við rekstur Kröfluvirkjunar og virkjun jarðhita við Kröflu birtist með skýrum hætti í samningi meðstefnda, íslenzka ríkisins, og stefnda Landsvirkjunar, sbr. dskj. nr. 15, því kaupandinn hafi ekki treyst sér til að kaupa virkjunina og yfirtaka reksturinn nema með ábyrgðarloforði íslenzka ríkisins um bætur, lækkun eða niðurfellingu söluverðs vegna óviðráðanlegra ytri atvika, sem almennt sé viðurkennt í samninga- og kröfurétti, að aðilar verði ekki látnir bera ábyrgð á, s.s. náttúruhamfarir eða eldsumbrot.  Það hafi sýnt sig, að áhættan var það mikil á svæðinu, að stefndi Landsvirkjun hafi ekki treyst sér til að taka að sér rekstur virkjunar og frekari fjárfestingar nema með ákveðinni baktryggingu.  Enda hafi komið á daginn, að landeigendur hafi ekki haft uppi kröfur um ógildingu eða breytingu á samningnum á því tímamarki, þrátt fyrir að framsal meðstefnda, íslenzka ríkisins, til stefnda Landsvirkjunar með samningi og eftirfarandi lagasetningu, hefði ekki síðar en þá átt að gefa þeim fullt tilefni til að bregðast við.

Stefndi mótmæli þeirri staðhæfingu, að endurgjald fyrir jarðhitaréttindin sé aðeins brot af verðmæti þeirra, „eins konar gjaldeyrir sem ekki er hægt að nýta“.  Meðstefndi, íslenzka ríkið, hafi greitt umsamið verð, lagningu hitaveitu um langan veg, auk tiltekins magns af heitu vatni um ókomna framtíð, án þess að landeigandi þyrfti að taka á sig neina áhættu af virkjun jarðhitans, eins og að framan hafi verið rakið.  Þá sé ekki annað í ljós leitt en að stefnandi hafi fengið greitt fyrir sölu á heitu vatni, sbr. dskj. nr. 39.

Þá sé sá galli á málatilbúnaði stefnanda, að krafizt sé ógildingar á samningi, sem til hafi verið stofnað fyrir 37 árum síðan.  Meðstefndi, íslenzka ríkið, og síðar stefndi Landsvirkjun hafi lagt í gríðarlegan kostnað við rannsóknir og þróun til að vinna jarðhitann, sem sé að finna á Kröflusvæðinu.  Ekki sé gerð grein fyrir því, frá hvaða tímamarki stefnandi telji, að ógilda beri samninginn, hvort það sé frá upphafi eða síðar.  Málsástæða stefnanda sé að þessu leyti verulega vanreifuð.

Ef fallizt yrði á ógildingu samningsins frá upphafi, yrði að fara fram uppgjör milli aðila, þar sem allir aðilar yrðu gerðir jafnsettir og ef enginn samningur hefði verið gerður. Þannig yrði að gera stefndu að skila landsvæði og jarðhitaréttindum til stefnanda, en stefnandi yrði jafnframt að endurgreiða stefndu allan þann kostnað, sem þeir hefðu haft af framkvæmd samningsins frá upphafi, þar með talið, án takmörkunar, fjárfestingar, kostnað við rannsóknir, byggingar og rekstur, afskriftir fasteigna, tækja og rannsóknarkostnaðar, auk endurgreiðslu á kostnaði við gerð hitaveitulagnar og endurbóta á henni og þegar afhentu heitu vatni frá upphafi.  Stefnandi hafi ekki lagt fram neinar tillögur að reikningslegu uppgjöri eða sýnt fram á greiðslugetu sína í því sambandi.  Af þeim sökum væri með öllu ómögulegt að taka kröfu hans um ógildingu samningsins frá upphafi til greina, auk þess sem ekki verði séð, hvaða hagsmunum það þjóni.  Í raun og veru hafi stefnandi með þessum málatilbúnaði sýnt, að kröfugerð hans byggist á afar takmörkuðum lagalegum forsendum. 

Þá sé og ljóst, að meðstefndi, íslenzka ríkið, hafi, í góðri trú og án mótmæla af hálfu landeigenda Reykjahlíðar, framselt stefnda Landsvirkjun með samningum árið 1985 nýtingu jarðhitaréttinda, sem stefndi Landsvirkjun hafi lagt í verulegan kostnað við að nýta.  Ef samningurinn frá 1971, sem mál þetta snýst um, yrði ógiltur, yrði að fara fram flókið uppgjör á milli stefnda Landsvirkjunar og meðstefnda, íslenzka ríkisins.  Fráleitt megi telja, að ógilding samningsins teldist að því leyti þjóna nokkrum lögmætum eða þjóðhagslega hagkvæmum tilgangi.

Stefnandi hafi heldur ekki rökstutt, frá hvaða tímamarki öðru bæri að ógilda samninginn, eða hvenær þau atvik verði, sem hann telji, að geri það að verkum, að 36. gr. sml. eigi við.  Allar hans kröfur séu ósannaðar, en í málinu eigi almennar sönnunarreglur við og því ljóst, að stefnandi beri sönnunarbyrðina.

Beri því þegar af þessum ástæðum að sýkna stefnda Landsvirkjun af öllum kröfum stefnanda um ógildingu samningsins.

4.Lögmætisregla stjórnsýsluréttarins.

Varðandi þá málsástæðu stefnanda, að samningurinn frá 1971 hafi verið ógildur, þar sem ekki væri uppfyllt lögmætisregla stjórnsýsluréttar, þ.e.a.s. að á hafi skort samþykki ráðherra fyrir að aðskilja jarðhitaréttindi frá jörðinni 1971., sbr. 13. gr. þágildandi orkulaga nr. 58/1967, bendi stefndi á, að samningurinn hafi verið undirritaður af þáverandi forsætis- og iðnaðarráðherra, Jóhanni Hafstein, og verði sú staðfesting hans að teljast nægileg á meðan lög áskilji ekki sérstakt form fyrir samþykki ráðherra.  Þessari málsástæðu sé því alfarið hafnað sem grundvelli fyrir ógildingu samningsins.

5.Tómlæti og hefðarréttur.

Landeigendum hafi gefizt ótal tækifæri til að gera athugasemdir við samninginn frá 1971 og hafi verið í lófa lagið að koma fram með mótmæli við nýtingu og ráðstöfun jarðhitaréttinda vegna Kröfluvirkjunar, hvenær sem var.  Engin andmæli landeigenda hafi komið fram, þegar aðilaskipti urðu að Kröfluvirkjun, hvorki árið 1979, þegar RARIK tók við rekstri hennar, né árið 1985, þegar stefndi Landsvirkjun keypti virkjunina af meðstefnda, íslenzka ríkinu.  Hafi stefnendur einhvern tímann átt rétt á að krefjast ógildingar eða endurskoðunar á samningi sínum við meðstefnda, íslenzka ríkið, hafi þeir að fullu og öllu glatað þeim rétti sínum sökum tómlætis, en það sé fyrst 32 árum eftir undirritun samningsins sem þeir geri athugasemdir við hann.  Stefndi byggi á því, að tómlæti stefnanda eitt og sér nægi til sýknu af öllum kröfum stefnanda.

Ef einhver vafi hefði verið um heimild meðstefnda, íslenzka ríkisins, til jarðhitaréttinda við Kröflu, hafi ríkið eigi síðar en 18. marz 1991 talizt hafa öðlast full eignarráð þessara fasteignaréttinda fyrir hefð, sbr. 2. gr. laga um hefð, nr. 46/1905, en þá hafi verið fullur 20 ára hefðartími liðinn, og ríkið hafi farið með jarðhitaréttindin sem sín eigin í góðri trú á grundvelli samningsins frá 1971 og framselt þau að hluta til þriðja aðila.

Samkvæmt framansögðu beri að sýkna stefnda Landsvirkjun af öllum kröfum stefnanda um ógildingu samnings milli landeigenda Reykjahlíðar og íslenzka ríkisins frá 1971.  Stefnandi hafi fengið samningsbundið endurgjald fyrir nýtingu þeirra landsréttinda, sem hann geri kröfu um og muni fá í framtíðinni.  Stefndi ítreki rétt sinn til nýtingar framangreindra jarðhitaréttinda á grundvelli samnings síns við ríkisstjórn Íslands, sbr. dskj. nr. 15.

Stefndi Landsvirkjun krefjist einnig sýknu af varakröfu stefnanda um, að heimild íslenzka ríkisins til jarðhitaréttinda samkvæmt 1. gr. samningsins frá 18. marz 1971 takmarkist við 70 MW (megavött) til raforkuframleiðslu, en ekkert umfram það.  Vísað sé til sömu málsástæðna og stefndi byggi á kröfu sína um sýknu af aðalkröfu stefnanda.

Varakröfunni sé mótmælt sem algerlega órökstuddri og ósannaðri.  Með 1. gr. samningsins frá 1971 hafi íslenzka ríkið fengið til frjálsra umráða og ráðstöfunar alla jarðhitaorku á því svæði, sem samningurinn náði til.  Engan fyrirvara eða takmörkun á framsali sé að finna í þeim samningi.  Íslenzka ríkinu hafi því verið rétt að framselja réttindi sín í heild eða að hluta.  Þótt íslenzka ríkið hafi ákveðið að framselja réttindi sín að hluta með samningi við Landsvirkjun árið 1985, veiti það stefnanda ekki rétt til að þrengja efni samningsins frá 1971 við það framsal.  Engin tengsl séu að öðru leyti á milli þessara tveggja samninga.  Sá skilningur verði ekki lagður í orðalag samningsins frá 1985, að í því felist, að íslenzka ríkið hafi talið orkulindirnar eingöngu hafa að geyma 70 MW afl við samningsgerðina, heldur hafi framsalið til Landsvirkjunar takmarkazt við 70 MW af þeirri orku, sem þar hafi verið að finna.  Þessi skýring stefnda miðist við samning hans við ríkið og staðreyndir, því ráða megi af lokamálslið 1. mgr. 3. gr. samningsins frá 1985 á dskj. nr. 15, að frekari orku hafi þá verið að finna á svæðinu, eins og rannsóknir hafi staðfest.

Sýkna að svo stöddu.

Verði ekki fallist á framangreindar sýknukröfur af aðal- og varakröfum stefnanda, krefst stefndi Landsvirkjun sýknu að svo stöddu, sbr. meginreglu 1. mgr. 26. gr. eml. nr. 91/1991.  Með setningu laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta nr. 58/1998, skuli óbyggðanefnd, samkvæmt 7. gr. laganna, kanna hvaða landsvæði teljist til þjóðlendu og úrskurða um, hver séu mörk þjóðlendu og eignarlanda.  Kröflusvæðið sé dæmigert afréttarland, sbr. skilgreiningu 1. gr. laga nr. 58/1998.  Aðalmeðferð í málinu hafi farið fram haustið 2007 og hafi nefndin nú til meðferðar kröfu fjármálaráðherra f.h. íslenzka ríkisins um það svæði, sem jarðhitaréttindin tilheyri.  Verði aðalkrafa fjármálaráðherra tekin til greina, sé ljóst, að Kröflusvæðið teljist þjóðlenda og tilheyri íslenzka ríkinu.  Fram til þess tíma að úrskurður óbyggðanefndar falli, geti landeigendur í Reykjahlíð ekki gert fyrirvaralausar kröfur um eignarréttindi á afréttum.  Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda að svo stöddu, með vísan til 1. mgr. 26. gr. eml.  Fyrirvari þessi sé áréttaður í 8. gr. rammasamnings stefnanda og stefnda Landsvirkjunar, sbr. dskj. nr. 26. 

Vísað sér til helztu lagaraka í umfjöllun um málsástæður.  Sérstaklega sé vísað til meginreglna eignarréttar og kröfuréttar, þ.m.t. samningaréttar, og meginreglna réttarfars.  Einnig sé vísað til laga nr. 46/1905, um hefð, vatnalaga nr. 15/1923, laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, laga nr. 21/1974, um jarðgufuvirkjun við Kröflu eða við Námafjall í Suður-Þingeyjarsýslu, laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, laga nr. 102/1985, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Kröfluvirkjun í Suður-Þingeyjarsýslu, laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en stefndi styðji málskostnaðarkröfu sína við XXI. kafla þeirra laga, laga nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlenda og afrétta, laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, laga nr. 38/2002, um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar, og til raforkulaga, nr. 65/2003,

IV

Forsendur og niðurstaða

Aðalkrafa stefnanda er sú, að stefndu verði gert að þola ógildingu umdeilds samnings en varakrafan lýtur að breytingu á samningnum.  Við aðalmeðferð fyrir dómi lýsti lögmaður stefnanda því yfir, vegna athugasemda í greinargerð stefnda Landsvirkjunar varðandi framsetningu kröfunnar, að hann telji, að ógilding samningsins taki gildi við uppkvaðningu dóms þar að lútandi, en hann haldi gildi sínu fram að því, enda sé búið að efna samninginn af hálfu stefndu fram til dómtökudags.  Gildistíma hans sé hins vegar ekki lokið og fari leigugreiðslur fram árlega í vatni, sem metið sé að andvirði kr. 1.000.000 á ári.  Dómari innti lögmann stefnanda sérstaklega eftir því, hvort framangreind skýring lögmannsins á kröfugerðinni feli í sér breytingu á henni, eins og hún sé fram sett í stefnu, en þar er ekki tiltekið frá hvaða tíma ógildingar sé krafizt í aðalsök eða frá hvaða tíma breyting á samningnum skuli taka gildi.  Lögmaðurinn neitaði því, að framangreind bókun feli í sér breytingu á kröfugerðinni.

Með vísan til framangreindrar yfirlýsingar lögmannsins fyrir dómi en jafnframt synjunar hans á því að skýra kröfugerðina í samræmi við yfirlýsinguna, sýnist kröfugerðin svo óljós í framsetningu, að efnisdómur verði ekki kveðinn upp um hana.  Þannig geti krafan ekki staðið óbreytt í dómsorði.  Þá er ekki ljóst, hvort stefnandi ætli dómara að meta frá hvaða tíma ógilding, eða eftir atvikum breyting samningsins taki gildi, verði kveðinn upp áfellisdómur í málinu.  Þykir framsetning kröfunnar með þessum hætti brjóta í bága við d- lið 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga nr. 91/1991, um skýra og glögga framsetningu.  Er því ekki hjá því komizt, að vísa málinu í heild sinni frá dómi ex officio.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 100.000 til handa hvorum um sig.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málinu er vísað frá dómi ex officio.

Stefnandi, Landeigendur Reykjahlíðar ehf., greiði hvorum stefndu, íslenzka ríkinu og Landsvirkjun hf., kr. 100.000 í málskostnað.