Hæstiréttur íslands
Mál nr. 455/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Slit
- Fjármálafyrirtæki
- Ógilding samnings
|
|
Fimmtudaginn 23. ágúst 2012. |
|
Nr. 455/2012.
|
Alnus ehf. (Tómas Jónsson hrl.) gegn Glitni hf. (Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál. Slit. Fjármálafyrirtæki. Ógilding samnings.
A ehf. og G hf. höfðu áttu í umfangsmiklu viðskiptastambandi um nokkurra ára skeið. Á árinu 2007 lánaði G hf., A ehf. fjármuni m.a. í tengslum við verðbréfaviðskipti og kaup A ehf. á afleiðutengdum skuldabréfum. Með yfirlýsingu árið 2008 lýsti A ehf. yfir riftun á kaupum á framangreindum skuldabréfum ásamt undirliggjandi lánasamningi. Með samningi sama ár komust A ehf. og G hf. að samkomulagi um uppgjör vegna fjárfestinga A ehf. Í málinu hélt A ehf. því fram að umrætt samkomulag væri ógilt og krafði G hf. um skaðabætur. Taldi A ehf. að kröfur sínar mætti rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanna G hf. sem hlutafélagið bæri ábyrgð á samkvæmt reglum skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð. A ehf. lýsti kröfum sínum í slitabú G hf. en slitastjórn félagsins hafnaði kröfunum og var sú ákvörðun borin undir dómstóla. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna í Hæstarétti kom fram, að ekki væri hægt að fallast á með A ehf. að samkomulagið sem aðilarnir gerðu um uppgjör vegna kaupa á afleiðutengdum skuldabréfum væri ógilt með vísan til 29., 33 eða 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, né að ógilda ætti samningsuppgjörið sökum forsendubrests. Þá var ekki fallist á það með A ehf. að G hf. hefði synjað honum með ólögmætum hætti um sölu á valrétti og útgreiðslu innlána. Að þessari niðurstöðu fenginni var skuldajafnaðarkröfu A ehf. jafnframt hafnað.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 21. júní 2012, en Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2012, þar sem hafnað var kröfum sóknaraðila við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að eftirtaldar kröfur hans verði teknar til greina við slit varnaraðila: Í fyrsta lagi að krafa að fjárhæð 564.957.326 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 18.369.999 krónum frá 30. maí 2008 til 7. júlí sama ár, af 94.739.524 krónum frá þeim degi til 5. ágúst sama ár, af 129.282.856 krónum frá þeim degi til 11. september sama ár, af 424.174.205 krónum frá þeim degi til 11. nóvember 2008 en af 553.457.061 krónu frá þeim degi til 22. apríl 2009 verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Jafnframt að krafa sóknaraðila um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 564.957.326 krónum frá 22. apríl 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991. Í öðru lagi að krafa að fjárhæð 160.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. september 2008 til 20. ágúst 2009 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Jafnframt að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila að fjárhæð 4.349.096 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Í þriðja lagi að krafa að fjárhæð 74.750.000 krónur með vöxtum samkvæmt. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. maí 2008 til 22. apríl 2009 verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Jafnframt að krafa sóknaraðila um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 74.750.000 krónum frá 22. apríl 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991. Í fjórða lagi að krafa að fjárhæð 668.780.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. september 2008 til 22. apríl 2009 verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Jafnframt að krafa sóknaraðila um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 668.780.000 krónum frá 22. apríl 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði að hann geti dregið skuld sína við varnaraðila frá kröfum sínum á hendur honum samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að kröfur sóknaraðila verði lækkaðar. Jafnframt krefst hann þess til vara að önnur krafa sóknaraðila verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 og að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að ofangreindar kröfur séu tækar til skuldajöfnuðar samkvæmt 1. mgr. 100. gr. nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Þar sem varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms af sinni hálfu kemur krafa hans um hækkun málskostnaðar í héraði ekki til álita.
Með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Alnus ehf., greiði varnaraðila, Glitni hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2012.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 6. maí 2011. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð þann 11. maí sl.
Sóknaraðili er Alnus ehf., Kringlunni 7, Reykjavík, en varnaraðili er Glitnir hf. Sóltúni 26, Reykjavík.
Sóknaraðili gerir eftirfarandi dómkröfur:
Í fyrsta lagi að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila, merkt nr. CL20091127-5883 í kröfuskrá, að fjárhæð 564.957.326 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 18.369.999 krónum frá 30. maí 2008 til 7. júlí 2008, af 94.739.524 krónum frá 7. júlí 2008 til 5. ágúst 2008, af 129.282.856 krónum frá 5. ágúst 2008 til 11. september 2008, af 424.174.205 krónum frá 11. september 2008 til 11. nóvember 2008 og af 553.457.061 krónum frá 11. nóvember 2008 til 22. apríl 2009, verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Jafnframt að krafa sóknaraðila um dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af fjárhæðinni frá 22. apríl 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem eftirstæð krafa skv. 114. gr. laga nr. 21/1991.
Í öðru lagi að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila, merkt nr. CL20091127-5869 í kröfuskrá, að fjárhæð 160.000.000 krónur með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. september 2008 til 20. ágúst 2009 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Jafnframt að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila að fjárhæð 4.349.096 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Í þriðja lagi að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila, merkt nr. CL20091127-5875 í kröfuskrá, að fjárhæð 74.750.000 krónur með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. maí 2008 til 22. apríl 2009 verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 . Jafnframt að krafa sóknaraðila um dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af fjárhæðinni frá 22. apríl 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem eftirstæð krafa skv. 114. gr. laga nr. 21/1991.
Í fjórða lagi að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila, merkt nr. CL20091127-5913 í kröfuskrá, að fjárhæð 668.780.000 krónur með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. september 2008 til 22. apríl 2009 verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Jafnframt að krafa sóknaraðila um dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af fjárhæðinni frá 22. apríl 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem eftirstæð krafa skv. 114. gr. laga nr. 21/1991.
Í fimmta lagi að viðurkennt verði að sóknaraðili geti dregið skuld sína við varnaraðila frá kröfum sínum á hendur honum samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991.
Þá krefst sóknaraðili öllum tilvikum málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar hans að hafna þeim fjórum kröfum sóknaraðila sem fyrst eru taldar hér að framan.
Til vara krefst varnaraðili þess að kröfurnar verði lækkaðar að fjárhæð og að krafa merkt í kröfuskrá nr. CL20091127-5869 verði þá viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991.
Í öllum tilvikum krefst varnaraðili þess að kröfum sóknaraðila, um að viðurkennt verði að ofangreindar kröfur séu tækar til skuldajöfnunar samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991, verði hafnað.
Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.
I
Eins og að framan greinir er mál þetta ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila en samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd.
Varnaraðila var 24. nóvember 2008 veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Með lögum nr. 44/2009, sem breytti nokkrum ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, var varnaraðili tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði 12. maí sama ár slitastjórn sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur varnaraðila. Hún gaf út innköllun til skuldheimtumanna félagsins 26. maí 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 26. nóvember sama ár. Í samræmi við ákvæði 102. gr. laga nr. 161/2002 eins og greininni var breytt með lögum nr. 44/2009 fer að meginstefnu um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki sem er til slitameðferðar eftir ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sóknaraðili lýsti þeim kröfum sem að ofan eru raktar innan kröfulýsingarfrests en slitastjórn varnaraðila hafnaði þeim. Mótmælti sóknaraðili þeirri afstöðu innan lögboðinna tímamarka. Voru haldnir fundir til að reyna að jafna ágreining aðila en án árangurs og var málinu í kjölfarið vísað til úrlausnar dómsins í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991.
Um frekari lýsingu málsatvika, að því er varðar grundvöll þeirra krafna sem sóknaraðili hefur uppi í málinu, vísast til endursagnar úr greinargerðum aðila í eftirfarandi köflum, en verulega ber á milli frásagnar þeirra um einstök atriði.
II
Í greinargerð sóknaraðila í málinu kemur fram að félagið, sem áður hét Sturla Snorrason ehf., sé eignarhaldsfélag. Félagið hafi verið stofnað árið 2001, einkum í þeim tilgangi að halda utan um hlutabréfaeign eigenda sinna í Húsasmiðjunni hf. Varnaraðili hafi verið aðalviðskiptabanki sóknaraðila og hafi verðbréfaviðskipti aðila verið umfangsmikil. Varnaraðili hafi jafnframt haft með höndum fjárstýringu fyrir sóknaraðila og hafi veitt honum ráðgjöf í gegnum svonefnda einkabankaþjónustu sína. Varnaraðili hafi skilgreint einkabankaþjónustu sína svo að um víðtæka sérfræðiþjónustu væri að ræða sem væri sérstaklega sniðin að þörfum efnameiri viðskiptavina sem vildu aðstoð sérfræðinga við ávöxtun fjármuna. Það væri þjónusta sem hentaði þeim sem hefðu ekki tíma eða aðstöðu til að meta og greina fjárfestingartækifæri á markaðnum. Í upphafi viðskipta aðila hafi verið gerður staðlaður samningur um einkabankaþjónustuna en aðilar hafi ekki samið um þjónustu bankans að öðru leyti.
Með lánssamningi dags. 27. febrúar 2007 hafi varnaraðili veitt sóknaraðila lán að fjárhæð 4.410.000.000 krónur. Tilgangur þess hafi verið fjármögnun verðbréfaviðskipta sóknaraðila, sbr. það sem segir í 1. gr. samningsins:
„Ráðstafa skal láninu til uppgreiðslu eldri lána Alnusar ehf. og RedSquare Invest ehf. hjá Glitni banka hf. og til fjárfestinga, allt í tengslum við Einkabankaþjónustu Glitnis banka hf. (útibú 580).“
Í samræmi við þetta hafi sóknaraðili gert upp lán RedSquare Invest, tengds félags, hjá varnaraðila að fjárhæð 4.028.221.553 krónur og eldra lán sitt að fjárhæð 426.505.615 krónur eins og lánssamningurinn hafi kveðið á um. Sóknaraðili hafi til þessa greitt 3.577.745.215 krónur inn á lánssamninginn þar af 489.505.911 krónur í vexti og 267.469.893 krónur í verðbætur. Lánssamningur þessi hafi þýðingu í málinu þar sem hann hafi falið í sér aðalskuldbindingu sóknaraðila gagnvart varnaraðila.
Kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila megi rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanna varnaraðila sem varnaraðili beri ábyrgð á samkvæmt reglum skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð. Háttsemin, sem jafnframt sé stórlega ámælisverð, hafi valdið sóknaraðila umtalsverðu fjártjóni. Varnaraðili hafi selt sóknaraðila verðbréf sem hafi ekki verið í samræmi við sölulýsingu þeirra, hafi beitt hann ólögmætri nauðung til að gera samkomulag um uppgjör skaðabóta, hafi synjað sóknaraðila um sölu á valrétti og útgreiðslu innlána, og hafi meðhöndlað langtímalán sóknaraðila með skaðlegum hætti og komið í veg fyrir að sóknaraðili gæti stutt við fjárfestingar sínar.
Við munnlegan málflutning af hálfu sóknaraðili kom fram að með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 þá hafi Íslandsbanki hf. tekið við öllum kröfum samkvæmt framangreindum lánssamningi sóknaraðila við varnaraðila. Sé markmið málareksturs sóknaraðila gegn varnaraðila einkum sá að eignast kröfur sem séu nýtanlegar til að skuldajafna gegn kröfum Íslandsbanka hf. Þannig að hægt sé að halda rekstri sóknaraðila áfram.
Varðandi kröfu sína vegna afleiðutengdra skuldabréfa kveður sóknaraðili í greinargerð sinni að í maí 2007 hafi starfsmaður í einkabankaþjónustu varnaraðila, Soffía Gunnarsdóttir, viðskiptastjóri, ráðlagt forsvarsmönnum sóknaraðila að kaupa svokölluð fjármögnuð afleiðutengd skuldabréf. Á fundi sem sóknaraðili hafi átt með viðskiptastjóranum á þessum tíma hafi hann fullyrt að kaup á afleiðutengdum skuldabréfum væru betri kostur en gerð framvirkra samninga með undirliggjandi hlutabréf. Ástæðan væri sú að eigandi skuldabréfanna væri varinn fyrir lækkun á undirliggjandi hlutabréfum umfram 5%.
Samkvæmt kynningarblaði varnaraðila frá því í maí 2007, sem merkt hafi verið sem trúnaðarmál, hafi fjárfestum gefist kostur á að kaupa skuldabréf tengd hlutabréfaverði í varnaraðila og Straumi-Burðarás Fjárfestingarbanka hf.
Í kynningarblaðinu hafi sagt að höfuðstóll bréfanna væri höfuðstólstryggður að 95% og að þátttaka í hækkun væri að 120%. Jafnframt hafi sagt að bréfin yrðu skráð í kauphöll. Kveður sóknaraðili að skráning sé mikilvægur þáttur í meðferð fjármálagerninga og auki möguleika eiganda þeirra á að eiga viðskipti með þau, auk þess sem hún auki fjárfestavernd vegna þeirra upplýsinga sem sé skilyrði að liggi fyrir vegna skráningarinnar, sbr. reglugerð nr. 245/2006 um opinbera skráningu verðbréfa í kauphöll. Með kynningarblaðinu hafi fylgt blað með lagalegum fyrirvörum þar sem varnaraðili hafi firrt sig ábyrgð vegna kynningarinnar. Kæmi til viðskipta um skuldabréfin yrði gerður sérstakur samningur. Varnaraðili hafi látið sóknaraðila í té fleiri kynningar á sömu nótum, um kaup á skuldabréfum útgefnum af SPRON hf. og Sparisjóðabankanum hf., en afrit umræddra gagna liggi fyrir í málinu sem fylgiskjöl kröfulýsingar.
Á grundvelli þeirra upplýsinga og forsendna sem komið hafi fram í kynningunum og að áeggjan viðskiptastjóra varnaraðila hafi sóknaraðili fest kaup á skuldabréfunum. Asi varnaraðila hafi verið slíkur að engir samningar hafi verið gerðir um kaup sóknaraðila þrátt fyrir að varnaraðili hefði boðað að það yrði gert og sóknaraðili gengið út frá því. Fjármögnunarkjörin og lengd fjármögnunar hafi ekki verið kynnt.
Í byrjun september 2007 hafi viðskiptastjórinn lagt til frekari kaup á afleiðutengdum skuldabréfum tengdum hlutabréfaverði í Kaupþingi banka hf. Hafi viðskiptastjórinn lagt til fjárhæð viðskiptanna og hafi gefið í skyn að skuldsett kaup á slíkum samningum væru mun betri en framvirkir samningar um undirliggjandi hlutabréf þar sem tryggingarþörfin væri lægri, eða 6% í stað 20%. Sóknaraðili yrði þannig varinn fyrir lækkun undirliggjandi hlutabréfa umfram 5% vörnina sem skuldabréfið fæli í sér. Forsvarsmenn sóknaraðila hafi talið sig þurfa umhugsunarfrest til að geta tekið ígrundaða ákvörðun um kaupin. Viðskiptastjórinn hafi þá lagt hart að sóknaraðila að ganga frá kaupunum strax, ella kynni sóknaraðili að verða af þeim. Sóknaraðili hafi því afráðið að fara út í frekari skuldabréfakaup á grundvelli ráðgjafar viðskiptastjóra varnaraðila. Forsendur sóknaraðila fyrir frekari kaupum hafi verið að um þau giltu skilmálar fyrrnefndra kynningarblaða enda hafi starfsmenn varnaraðila ekki tekið annað fram, hvorki áður né við kaupin. Viðskiptastjórinn hafi heldur ekki upplýst forsvarsmenn sóknaraðila um að ýmsir skilmálar afleiðutengdra skuldabréfa sem hafi verið tengd hlutabréfaverði í Kaupþingi væru fábrugðnir skilmálum í þeim bréfum sem áður hafi verið kynnt. Forsvarmenn sóknaraðila hafi lagt traust sitt á starfsmenn varnaraðila enda hafi viðskiptasamband sóknaraðila og varnaraðila verið byggt upp með þeim hætti af hálfu varnaraðila í gegnum einkabankaþjónustu hans. Því trausti hafi varnaraðili brugðist.
Viðskipti sóknaraðila og varnaraðila um skuldabréf samkvæmt kynningarblöðunum (hér eftir nefnd skuldabréfin) hafi numið að nafnverði 1.000.000.000 krónur vegna kaupa á skuldabréfum í flokki ICB 08 0905; að nafnverði 325.000.000 krónur vegna kaupa á skuldabréfum í flokki SPR 07 2; að nafnverði 180.000.000 krónur vegna kaupa á skuldabréfum í flokki STRB 07 5; að nafnverði 150.000.000 krónur vegna kaupa á skuldabréfum í flokki STRB 07 4 og að nafnverði 90.000.000 krónur vegna kaupa á skuldabréfum í flokki LSS 08 0530. Hafi viðskiptin því samtals numið 1.745.000.000 krónum að nafnverði.
Eftir að framangreind viðskipti hafi verið um garð gengin hafi viðskiptastjóri varnaraðila ítrekað sent frá sér útreikninga á verðmæti skuldabréfanna sem staðfest hafi þann skilning sem sóknaraðili hafi haft eftir kynningu viðskiptastjórans á þeim, þ.e. að verðmæti þeirra tengdist beint hlutabréfaverði undirliggjandi hlutabréfa en höfuðstóllinn væri tryggður að 95%, kæmi til lækkunar hlutabréfa niður fyrir ákveðið gildi, sjá tölvupóstsamskipti í sem fyrir liggi í málinu. Þess hafi ekki verið getið með nokkrum hætti að verðmæti bréfanna reiknaðist út miðað við aðrar forsendur.
Annað hafi komið á daginn. Upplýsingarnar, sem varnaraðili hafi sett fram á kynningarblöðum sínum, auk annarra upplýsinga varnaraðila um bréfin, sem veittar hafi verið sóknaraðila áður en kaupin hafi farið fram, hafi verið rangar og/eða villandi. Hafi upplýsingarnar gefið skakka mynd af eðli skuldabréfanna og þeirri áhættu sem fylgt hafi kaupunum. Skuldabréfin hafi því verið gölluð fjármálavara þar sem þau hafi ekki fullnægt þeim kröfum sem af loforðum varnaraðila hafi leitt. Verði nú fjallað um í hverju vanefndir varnaraðila hafi falist og hvernig allar forsendur fyrir kaupum sóknaraðila hafi brostið.
Starfsmaður einkabankaþjónustu varnaraðila hafi fullyrt við forsvarsmenn sóknaraðila að skuldabréfin væru áhættuminni fjárfesting en framvirkir samningar um hlutabréf í sömu félögum og þau hafi verið tengd við. Ef verð hlutabréfa í félögunum hækkaði væri hagnaðarvon áþekk en tryggingarþörf væri á hinn bóginn mun minni en í tilviki framvirkra samninga.
Hið gagnstæða hafi hins vegar komið í ljós eftir kaupin; áhættan af fjárfestingu í skuldabréfunum hafi verið mun meiri og margslungnari en áhætta af gerð framvirkra samninga, sem bankinn hafi alla jafna gert við viðskiptavini sína, sem oftast hafi varðað auðseljanlegustu hlutabréfin í Kauphöll Íslands. Hafi því að jafnaði verið hægt að loka framvirkum samningum um viðkomandi hlutabréf án vandkvæða þar sem virkur markaður hafi verið um þau.
Eftirfarandi áhættuþættir hafi í raun fylgt kaupum sóknaraðila á skuldabréfunum en varnaraðili hafi í engu gert grein fyrir þeim, ekki í kynningu sinni, í samskiptum við forsvarsmenn sóknaraðila eða á annan hátt.
Mótaðilaáhætta útgefanda skuldabréfanna. Vaxtaáhætta skuldabréfanna, en markaðsvextir hafi verið breytilegir og markaðsvirði bréfanna reiknað af bankanum með tilliti til þess. Áhætta sem falist hafi í seljanleika bréfanna. Markaðsáhætta hlutabréfa í útgefendum skuldabréfanna. Áhætta sem falist hafi í vaxtamun milli skuldabréfanna og þeirrar fjármögnunarleiðar sem bankinn hafi boðið (vextir af fjármögnuninni hafi verið breytilegir) og auk þess hafi gengisáhætta verið fólgin í fjármögnun bréfanna.
Þessir áhættuþættir hafi fyrst komið í ljós eftir að sóknaraðili hafi sagt upp samningi um einkabankaþjónustu. Þá hafi sóknaraðili komist í bein samskipti við markaðsviðskiptadeild sóknaraðila. Þegar sóknaraðili hafi síðan ætlað að „loka samningunum“ í byrjun árs 2008 og selja skuldabréfin hafi það reynst ómögulegt og hafi sóknaraðili því setið uppi með mikið tap sem hafi stöðugt aukist. Þegar sóknaraðili hafi í kjölfarið gert tilraun til að takmarka það tap sem samningarnir hafi myndað hafi starfsmenn varnaraðila kallað á forsvarsmenn sóknaraðila til fundar til að tala þá ofan af því að loka stöðunni. Varnaraðili hafi lagt fram útreikninga sem sýnt hafi fram á að staða sóknaraðila myndi ekki versna yrði samningunum haldið opnum áfram. Síðar hafi komið í ljós að útreikningar þessir hafi verið bæði villandi og rangir.
Samkvæmt 5. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 hvíli sú skylda á fjármálafyrirtæki að veita viðskiptavinum greinargóðar upplýsingar m.a. um þá fjárfestingarkosti sem þeim standi til boða. Í ákvæðinu segi ennfremur að upplýsingar sem fjármálafyrirtæki veiti skuli vera skýrar, nægjanlegar og ekki villandi þannig að viðskiptavinir geti tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun. Sóknaraðili telji ljóst samkvæmt framansögðu að varnaraðili hafi brotið gegn ákvæðinu við upplýsingagjöf sína til sóknaraðila, sbr. 14. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.
Sú lýsing sem hafi verið sett fram á kynningarblöðum bankans um höfuðstólstryggingu hafi einnig verið röng. Í reynd hafi skuldabréfin verið samsettur gerningur. Annars vegar úr skuldabréfum sem hafi verið seld með afföllum. Hins vegar úr afleiðum þar sem undirliggjandi verðbréf hafi verið hlutabréf í útgefendum skuldabréfanna. Hafi hin endanlega „fjármálavara“ þannig í raun innihaldið annars vegar skuldabréf að 82-83% í upphafi en hins vegar afleiðu að 17-18%. Sá hluti vörunnar sem hafi innihaldið sjálf skuldabréfin hafi getað náð 95% upphaflegs höfuðstóls þá fyrst er samningstíminn hafi verið á enda, þ.e. á gjalddaga. Til viðbótar gæti mögulegt virði afleiðuhlutans bæst við en hins vegar hafi allur vaxtakostnaður vegna fjármögnunarinnar dregist frá.
Ávöxtun af skuldabréfunum hafi á hinn bóginn verið lægri en sem numið hafi þeim fjármögnunarkostnaði sem varnaraðili hafi boðið sóknaraðila vegna kaupanna. Hafi varnaraðili lánað sóknaraðila fyrir skuldabréfum sem gefið hafi neikvæðan vaxtamun auk þess sem varnaraðili hafi lánað fyrir afleiðum. Varnaraðila hafi borið að kynna sóknaraðila verðlagningu á sambærilegum vörum en sóknaraðili hefði aldrei farið út í kaupin hefði honum verið gerð grein fyrir þessum eiginleikum fjárfestingarinnar.
Við sölu bréfanna hafi þau verið kynnt sem fjármögnuð kaup á afleiðutengdum skuldabréfum. Fjármögnunin hafi því verið samhangandi sölunni á bréfunum enda hafi þau ekki verið keypt beint heldur hafi verið gerður framvirkur kaupsamningur um þau til skamms tíma í senn. Þetta fyrirkomulag hafi ekki verið kynnt sóknaraðila fyrr en löngu eftir að gengið hafi verið frá samningum um fjármögnun kaupanna. Á meðan sóknaraðili hafi verið í einkabankaþjónustu varnaraðila hafi hann ekki fengið afrit af þeim samningum. Þau gögn hafi hann ekki fengið í hendurnar fyrr en a.m.k. hálfu ári síðar þegar ársuppgjör sóknaraðila hafi verið unnið. Varnaraðili hafi því ekki upplýst um forsendur fjármögnunar að fyrra bragði eða áður en farið hafi verið út í fjárfestinguna. Tímalengd fjármögnunar skuldabréfa sem gefin hafi verið út af Icebank, flokkur ICB 08 0905, hafi t.a.m. verið einn mánuður í senn samanborið við sex mánaða fjármögnun annarra bréfa sem áður hafi verið kynnt. Viðskiptastjóri varnaraðila hafi látið þessa ógetið við kynningu á þeim bréfum.
Engin trygging hafi verið keypt af þriðja aðila og hafi sóknaraðili því borið áhættuna af því að skuldabréfið yrði greitt, þvert á það sem ráða hafi mátt af kynningarblöðum bankans. Skuldabréfin hafi þannig verið haldin annmörkum sem ekki hafi verið minnst á í kynningarblöðum bankans. Miklar verðsveiflur hafi getað orðið á þeim á samningstímanum og hafi kaupandi því borið mikla söluáhættu. Hafi það enda komið á daginn þegar bréfin hafi reynst óseljanleg. Héldi kaupandi skuldabréfanna þeim fram að gjalddaga hafi að auki legið fyrir að hann yrði af 5% upphaflegs höfuðstóls ásamt því að hann hafi borið aukið tap vegna fjármögnunarkostnaðar síns. Hafi sá kostur einnig verið slæmur.
Fyrirsvarsmenn sóknaraðila hafi leitað upplýsinga hjá Kauphöll Íslands um skuldabréfin undir lok samningstíma þeirra. Hafi kauphöllin upplýst í tölvupósti frá 7. apríl 2008 að enginn þeirra skuldabréfaflokka sem tengst hafi bréfunum hefði verið skráður, sjá fylgiskjal með kröfulýsingu. Upplýsingar sem varnaraðili hafi veitt sóknaraðila við kaupin þess efnis að bréfin væru skráð í kauphöll hafi því einnig verið rangar. Þurfi vart að taka fram að opinber skráning verðbréfa hafi mikil og bein áhrif á seljanleika þeirra.
Verðbréfin hafi síðar verið skráð í kauphöll, löngu eftir að samningar sóknaraðila við varnaraðila hafi verið gerðir. Hafi skráning þeirra fyrst farið fram eftir að sóknaraðili hafi rift samningum sínum við bankann þann 14. maí 2008, sbr. síðari umfjöllun.
Í þeirri lýsingu sem þá hafi verið útbúin og birt vegna skráningarinnar hafi komið fram ýmsir veigamiklir fyrirvarar sem ekki hafi verið að finna á fyrrnefndum kynningarblöðum sem varnaraðili hafi látið sóknaraðila í té. Hafi meðal annars verið tekið fram að höfuðstólstrygging hefði ekki verið keypt af þriðja aðila. Af hálfu varnaraðila hafi það því verið staðfest að fyrri yfirlýsing bankans um 95% höfuðstólstryggingu hafi beinlínis verið röng.
Samkvæmt framanröktu hafi stór hluti þeirra upplýsinga, sem varnaraðili hafi veitt sóknaraðila, áður en kaupin fóru fram, reynst rangur. Með villandi framsetningu á upplýsingunum hafi varnaraðili blekkt sóknaraðila. Hafi sú háttsemi m.a. verið andstæð 4., 9. og 2. mgr. 22. gr., sbr. 23. gr. þágildandi laga nr. 33/2003, en 5., 14., 18. og 2. mgr. 44. gr., sbr. 45. gr. núgildandi laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, auk reglugerða og reglna sem settar séu með stoð í fyrrgreindum lögum. Upplýsingarnar sem sóknaraðila hafi verið gefnar, er honum hafi verið boðin skuldabréfin til kaups, hafi því langt í frá uppfyllt þær kröfur sem séu gerðar til upplýsinga um verðbréf sem skuli skrá á skipulegan verðbréfamarkað. Fullnægjandi upplýsingar hafi fyrst verið gefnar rúmlega ári eftir að sóknaraðili hafi fest kaup á fyrstu skuldabréfunum, raunar þegar skammur tími hafi verið eftir fram að lokagjalddaga skuldabréfanna. Að auki hafi þær þóknanir sem varnaraðili hafi reiknað sér vegna viðskiptanna verið duldar. Sóknaraðili telji þær hafa verið langt umfram það sem eðlilegt geti talist í viðskiptum af þessum toga og skori því á varnaraðila að upplýsa um hverjar þær hafi verið.
Eftir kaup sóknaraðila á skuldabréfi í flokknum ICB 08 0905 hafi hann verið upplýstur um að það væri frábrugðið öðrum afleiðutengdum skuldabréfum þar sem mögulegt væri að lækka fjármagnskostnað með því að ganga inn í gjaldmiðlastýringu hjá varnaraðila. Sóknaraðili hafi ákveðið að fara að ráðum varnaraðila og hafi verið gerður gjaldmiðlaskiptasamningur 20. nóvember 2007 um helming undirliggjandi fjárhæðar í flokki ICB 08 0905 á eins til tveggja mánaða fresti. Skipt hafi verið á íslenskum krónum fyrir hlut í gjaldeyrissafni sem hafi verið stýrt af gjaldeyrisborði varnaraðila. Varnaraðili hafi hins vegar ekki hugað að taps- og áhættuþoli sóknaraðila heldur hafi sett sóknaraðila í pott með öðrum viðskiptavinum sínum. Sóknaraðili hafi ekki verið upplýstur um eðli gjaldmiðlastýringar varnaraðila fyrr en forsvarsmenn hans hafi farið að grennslast fyrir um hana í kjölfar mikils gengistaps á henni. Hafi gjaldmiðlastýring varnaraðila valdið því að tapið af skuldabréfaflokknum hafi orðið umtalsvert meira en ella hefði orðið. Varnaraðila hafi borið að stýra betur áhættu sóknaraðila sem hefði aldrei sett fjármunina í stýringu hjá varnaraðila hefði hann vitað um eðli viðskiptanna. Þá hafi varnaraðili reiknað sér þóknun af gjaldeyrisstýringunni þrátt fyrir að ákvæði gjaldeyrisstýringarsamningsins kvæði á um annað. Í 8. gr. samnings um stýringuna og viðauka I sé kveðið á um að „...við mat á árangri [sé] bæði tekið tillit til gengis- og vaxtamunar.“ Ávinningurinn af stýringunni hafi aftur á móti orðið neikvæður og hefði sóknaraðili því ekki átt að greiða árangurstengda þóknun fyrir hana. Hafi það falið í sér brot gegn 5. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti sem áskilji að fjármálafyrirtæki kunngeri viðskiptavinum sínum fyrirfram hvaða þóknun þau muni áskilja sér fyrir þjónustu sína, sjá 2. mgr. 14. gr. núgildandi laga nr. 108/2007 um sama efni.
Sóknaraðili hafi beðið umtalsvert fjártjón vegna vanefnda varnaraðila og hafi lýst yfir riftun á kaupunum þann 14. maí 2008. Í kjölfar yfirlýsingar sóknaraðila um riftun hafi samskipti hafist milli aðila um framhald viðskipta sóknaraðila við varnaraðila sem staðið hafi fram í byrjun september 2008. Einkenni þeirra hafi verið að varnaraðili hafi ítrekað beitt frestunum á ákvörðunum og hafi stöðugt sett fram ný skilyrði til að viðskiptum yrði fram haldið. Bent sé á að sóknaraðili hafi átt mikla fjárhagslega hagsmuni undir varnaraðila og umfang viðskiptanna hafi verið verulegt. Þegar hafi verið tekið að hrikta í stoðum fjármálakerfis landsins um sumarið 2008 og tilraunir forsvarsmanna sóknaraðila þá til að flytja viðskiptin hafi reynst árangurslausar. Því hafi það verið mat forsvarsmanna sóknaraðila að torvelt væri að sækja fjármálaþjónustu til annarra fjármálastofnana og eina leiðin til að stýra sóknaraðila í gegnum ólguna á fjármálamarkaði hafi verið að ná samkomulagi við varnaraðila. Samskiptum þessum hafi lokið með samkomulagi undirrituðu þann 11. september 2008. Þess beri að geta að yfirlögfræðingur varnaraðila, Hörður Felix Harðarson, sem undirritað hafi samkomulagið fyrir hans hönd, hafi aðeins nokkrum dögum síðar setið fundi fyrir hönd varnaraðila í Seðlabanka Íslands, þar sem alvarleg staða varnaraðila hafi verið rædd og hafi þeim samskiptum lokið með aðgerðum af hálfu Seðlabankans. Varnaraðili hafi á þessum tíma verið upplýstur um alvarlega stöðu sína en sóknaraðili hefði ekki lagt frekari fjármuni undir hefði hann haft sömu vitneskju um stöðu varnaraðila.
Í samkomulaginu hafi verið kveðið á um uppgjör aðila vegna fjárfestinga sóknaraðila í skuldabréfunum. Samkomulagið hafi nánar tiltekið verið um eftirfarandi atriði
Að sóknaraðili seldi varnaraðila hlutdeildarskírteini sín í Sjóði 9 hjá varnaraðila, þá að verðmæti 142.911.724 krónur.
Að sóknaraðili tæki lán hjá varnaraðila að fjárhæð 175.000.000 krónur sem bættist við og bæri sömu kjör og önnur langtímalán sóknaraðila hjá varnaraðila.
Að sóknaraðili handveðsetti varnaraðila 30,61% hlut í bresku félagi, Metrobet Ltd., sem tryggingu vegna langtímaláns en varnaraðili hafi metið hlutinn á 3.500.000 bresk pund.
Að sóknaraðili greiddi 160.000.000 krónur inn á vörslureikning sem handveðsettur hafi verið varnaraðila.
Að þessum skilyrðum uppfylltum hafi varnaraðili samþykkt að taka á sig lítinn hluta þess taps sem sóknaraðili hafi orðið fyrir vegna skuldabréfakaupanna. Tap vegna skuldabréfakaupanna komi fram í eftirgreindri töflu:
|
Útgefandi |
Auðkenni |
Söludags. |
Hækkun |
Nafnvirði |
Tap |
|
Icebank |
ICB 08 0905 |
11.9.2007 |
120% KAUP |
1.000 mkr |
‐424.174.205 |
|
SPRON |
SPR 07 02 |
07.07.07 |
120% STRB |
325 mkr |
‐76.369.525 |
|
LSS |
LSS 08 0530 |
31.5.2007 |
120% GLB |
90 mkr |
‐18.369.999 |
|
Straumur |
STRB 07 04 / 05 |
5.6.2007 |
120% GLB |
330 mkr 1 |
‐34.543.332 |
|
Samtals |
|
|
|
1.745 mkr |
‐553.457.061 |
|
|
|
|
|
|
|
|
1 150mkr STBR 07 4 og 180mkr STRB 07 5 |
|
|
|||
Lokauppgjör varnaraðila við sóknaraðila hafi verið með eftirfarandi hætti:
|
Bókunardags |
Númer fylgiskjals |
Númer bankar. |
Lýsing |
Upphæð |
|
29.8.2008 |
081288 |
400 |
FD80519 Peningamarkaðsinnlán til Glitnis |
49.422.396,00 |
|
4.9.2008 |
080398 |
400 |
Árangurstengd þóknun |
-4.942.240,00 |
|
11.9.2008 |
081290 |
400 |
Sjóður 9 |
140.407.309,00 |
|
11.9.2008 |
081305 |
400 |
Glitnir Banki hf |
175.000.000,00 |
|
12.9.2008 |
080410 |
400 |
FS08072911/STELL |
-359.887.465,00 |
Samkvæmt uppgjörinu hafi heildartap vegna skuldabréfakaupanna numið 553.457.061 krónu. Sóknaraðili hafi greitt varnaraðila 489.170.321 krónu en varnaraðili hafi tekið á sig tap að fjárhæð 64.286.740 krónur. Jafnframt hafi varnaraðili samþykkt framlengingu til 30. júní 2009 á heimild sóknaraðila til að halda tryggingarþekju sinni í 120% að lágmarki, en hann hafi þegar notið þeirrar heimildar til 31. október 2008, sbr. samning aðila 7. maí 2008. Við gerð samkomulagsins hafi tryggingarþekja sóknaraðila farið úr 123,3% í 138%, eða langt yfir lágmarksþekju.
Í fyrstu drögum að samkomulagi hafi varnaraðili lagt það til að forsvarsmenn sóknaraðila yrðu bundnir trúnaði um þau ágreiningsmál sem upp hafi komið og samið hafi verið um þeirra á milli. Hafi varnaraðili lagt það til að forsvarsmennirnir yrðu persónulega ábyrgir fyrir greiðslu 90 milljóna króna kæmust upplýsingar um ágreiningsmálin til dómstóla, yfirvalda eða fjölmiðla, fyrir þeirra tilstuðlan. Sagði þannig í 8. gr. í tillögu varnaraðila:
„Sátt aðila samkvæmt samkomulagi þessu nær m.a. til höfðunar dómsmála, kvartana, kærumála og annarra erinda til stjórnvalda og umfjöllunar á opinberum vettvangi, þ.m.t. í fjölmiðlum og á internetinu. Þá fellur Mósa ehf. frá öllum kröfum sínum á hendur Glitni.“
Að ósk varnaraðila hafi ákvæði 9. gr. átt að hljóða þannig:
„Samningur þessi er trúnaðarmál. Brjóti Alnus, Mósa eða stjórnendur félaganna gegn ákvæðum 8. eða 9. gr. öðlast Glitnir óskipta kröfu um skaðabætur að fjárhæð kr. 90.000.000 á hendur þeim.“
Varnaraðili hafi þannig viljað koma í veg fyrir að aðrir, s.s. eftirlitsaðilar, fengju vitneskju um skuldabréfakaupin og samkomulagið við bankann. Augljóst hafi verið að varnaraðili hafi eftir því sem frekast hafi verið unnt viljað að ekki yrði upplýst um efni og galla upphaflegra samninga sóknaraðila við bankann, eða efni samkomulagsins, þrátt fyrir skyldu varnaraðila að lögum til þess að upplýsa yfirvöld og eftirlitsaðila um athæfi sitt og starfsemi.
Þegar umrætt samningsuppkast hafi borist sóknaraðila hafi framkvæmdastjóri sóknaraðila gert alvarlegar athugasemdir við efni uppkastsins, einkum skaðabótaskyldu vegna trúnaðarbrots. Í kjölfarið hafi Lárus Welding, þáverandi forsvarsmaður varnaraðila, hringt í framkvæmdastjóra sóknaraðila að næturlagi til að árétta að varnaraðili gerði sérstakan áskilnað um skaðabæturnar ella teldi hann varnaraðila ekkert fá út úr samningi við sóknaraðila.
Forsvarsmenn sóknaraðila hafi ekki viljað fallast á þessar kröfur varnaraðila. Í endanlegri útfærslu samkomulagsins segi:
„Sátt aðila samkvæmt samkomulagi þessu nær m.a. til höfðunar dómsmála, kvartana, kærumála og annarra erinda til stjórnvalda og umfjöllunar á opinberum vettvangi, þ.m.t. í fjölmiðlum og á internetinu. Aðilum að samningi þessum er óheimilt að upplýsa um efni þessa samnings eða þau ágreiningsmál sem upp hafa komið milli aðila.“
Samkvæmt þeim samningum sem verið hafi í gildi milli aðila, hafi sóknaraðila hins vegar ekki borið að leggja til frekari tryggingar vegna lána sinna, enda hafi tryggingarþekja hans þá þegar verið yfir umsömdum viðmiðunum. Hafi því engin þörf verið á að handveðsetja bankanum 160.000.000 krónur eins og kveðið hafi verið á um í samkomulaginu, enda hafi tryggingarþekjan farið úr 123% upp í 138% við gerð samkomulagsins, sem áður segi.
Sóknaraðili hafi alfarið verið upp á varnaraðila kominn þegar samkomulagið hafi verið undirritað, vegna láns hans hjá bankanum og annarra skuldbindinga. Augljós aðstöðumunur hafi verið á samningsaðilum við undirritun samkomulagsins, en varnaraðili hafi haft það í hendi sér hvort framangreint langtímalán sóknaraðila yrði gjaldfellt og gengið að eignum hans í kjölfarið. Á fundi í maí 2008 hafi varnaraðili boðað að það yrði gert ef sóknaraðili gerði eftirlitsaðilum viðvart um viðskiptahætti varnaraðila. Varnaraðili hafi því blandað óskyldum eigin hagsmunum inn í uppgjör við sóknaraðila. Með því hafi varnaraðili brotið gegn ákvæðum 8. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti sem kveði á um að fjármálafyrirtæki skuli ekki blanda saman hagsmunum sem rekist á.
Varnaraðili hafi hins vegar boðið sóknaraðila að fresta gjaldfellingu langtímalánsins gegn undirritun samkomulagsins. Hafi sóknaraðila á þeim tíma verið nauðugur einn sá kostur að ganga að samkomulaginu. Þannig hafi varnaraðili nýtt sér bága stöðu sóknaraðila og hafi hindrað hann í að leita atbeina dómstóla til að sækja rétt sinn eða vekja athygli eftirlitsaðila og fjölmiðla á viðskiptaháttum varnaraðila. Sömuleiðis sjáist glöggt af samkomulaginu að varnaraðili hafi bætt stöðu sína á kostnað sóknaraðila.
Áður en til framanrakinna atvika hafi komið hafi sóknaraðili og tengdir aðilar verið viðskiptavinir einkabankaþjónustu varnaraðila árum saman. Varnaraðili hafi farið með umsjá allra fjárfestinga sóknaraðila og hafi einnig stýrt fjármunum tengdra aðila. Í júní 2008 hafi sóknaraðila og tengdum aðilum hins vegar orðið ljóst að varnaraðili hafi ekki unnið eftir lögum nr. 108/2007 um fjármálafyrirtæki; varnaraðili hafi virt eigin hagsmuni framar hagsmunum sóknaraðila sem hafi valdið því að sóknaraðila hafi ekki verið tryggð lögbundin besta framkvæmd skv. 18. gr. laganna, sbr. 7. þátt reglugerðar nr. 995/2007 um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja.
Varnaraðili hafi gjörþekkt stöðu sóknaraðila og tengdra aðila. Hafi varnaraðili nýtt sér þá vitneskju í eigin þágu og gegn sóknaraðila. Varnaraðili hafi t.a.m. neitað að afhenda tengdum félögum eignir nema sóknaraðili skrifaði undir samkomulagið. Varnaraðili hafi jafnframt krafist þess að eignir tengdra aðila yrðu settar til tryggingar langtímaláni sóknaraðila þrátt fyrir að þess væri ekki þörf vegna samkomulags um 120% tryggingarþekju. Hafi varnaraðili þannig beitt forsvarsmenn sóknaraðila ólögmætri nauðung og hafi blandað saman óskyldum hagsmunum. Sé það gróft brot á trúnaðarskyldu varnaraðila, sem fái m.a. stoð í 4. þætti reglugerðar nr. 995/2007, sbr. II. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Sóknaraðili hafi sætt afarkostum og hafi látið varnaraðila í té verulega fjármuni og fjárhagsleg réttindi gegn eftirgjöf varnaraðila á réttindum sem hann hafi ekki notið. Sóknaraðili byggi á því að varnaraðili hafi beitt sig ólögmætri nauðung í skilningi 29. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Samkvæmt ákvæðinu séu löggerningar eigi skuldbindandi fyrir þann sem neyddur sé með ólögmætum hætti til að gera löggerning.
Af málsatvikum sé enn fremur ljóst að ógildingarreglur 33. og 36. gr. sömu laga girði fyrir að varnaraðili geti borið samkomulagið fyrir sig. Því til rökstuðnings sé einnig vísað til eftirfarandi umfjöllunar um önnur viðskipti aðila en aðstaða sóknaraðila hafi verið bágborin, þegar umrætt samkomulag hafi verið undirritað, sökum annarra ólögmætra athafna varnaraðila.
Sóknaraðili hafi meðal annars skrifað undir samkomulagið í ljósi þess að hann hafi verið með langtímalán hjá varnaraðila. Varnaraðili hafi gert veðkall vegna lánsins í þeim tilgangi að koma í veg fyrir riftun sóknaraðila á skuldabréfakaupunum. Skuldabréfakaupin og langtímalánin hafi verið aðskildir gerningar en sóknaraðila hafi verið nauðugur sá kostur að semja við varnaraðila til að komast hjá því að varnaraðili krefðist gjaldþrotaskipta á búi sóknaraðila, sem hefði orðið raunin hefði varnaraðili gjaldfellt langtímalán sóknaraðila.
Samkvæmt öllu framansögðu hafi sala skuldabréfanna verið ólögmæt frá upphafi og samkomulag aðila um uppgjör ógilt. Tjón sóknaraðila vegna kaupanna nemi samtals 553.457.061 krónu og sundurliðist sú fjárhæð með eftirfarandi hætti:
1. Þann 30. maí 2008 hafi verið uppgjörsdagur kaupa á bréfum útgefnum af Lánasjóði Sveitarfélaga ohf. með auðkennið LSS 08 0530 og hafi tap vegna þeirra numið 18.369.999 krónum.
2. Þann 7. júlí 2008 hafi verið uppgjörsdagur kaupa á bréfum útgefnum af Spron hf. með auðkennið SPR 07 2 og hafi tap vegna þeirra numið samtals 76.369.525 krónum.
3. Þann 5. ágúst 2008 hafi verið uppgjörsdagur kaupa á bréfum útgefnum af Straumi-Burðarás fjárfestingarbanka hf. með auðkennið STRB 07 4 og hafi tap sóknaraðila numið 34.543.332 krónum.
4. Óuppgert tap sóknaraðila er að fjárhæð 424.174.205, sbr. útreikning í samkomulagi aðila frá 11. september 2008.
Alls nemi því tjón sóknaraðila 553.457.061 krónu. Sóknaraðili krefjist vaxta frá þeim degi er hann hafi keypt skuldabréfin en þá hafi hin bótaskyldu atvik orðið og skaðabótakrafa sóknaraðila stofnast. Sóknaraðili krefjist skaðabótavaxta skv. 1. mgr. 8. gr. l. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi af hverri kröfu fyrir sig fram til viðmiðunardags slita, 22. apríl 2009. Njóti þessi krafa stöðu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991. Jafnframt krefjist sóknaraðili þess að dráttarvextir af fjárhæðinni frá 22. apríl 2009 og til greiðsludags verði viðurkenndir sem eftirstæð krafa skv. 114. gr. laga nr. 21/1991.
Þá geri sóknaraðili einnig kröfu um greiðslu lögmannskostnaðar að fjárhæð 11.500.265 krónur sem hann hafi þurft að leggja út í vegna deilna sinna við varnaraðila fyrir 22. apríl 2009, og að krafan njóti stöðu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991.
Varðandi aðra dómkröfu sína um innstæðu kveður sóknaraðili um að ræða fjármuni sem hann hafi sett í formi lausafjár inn á vörslureikning nr. 39000 sem hafi verið handveðsettur varnaraðila í samræmi við samkomulagið frá 11. september 2008. Hafi fjármunirnir átt að vera til tryggingar langtímalánssamningnum dags. 27. febrúar 2007 að fjárhæð 4.410.000.000 kr. þar sem varnaraðili hafi verið lánveitandi og sóknaraðili lántakandi.
Sóknaraðili byggi kröfuna á því að þar sem framangreint samkomulag aðila sé ógilt þá beri varnaraðila að endurgreiða honum þá fjármuni sem lagðir hafi verið inn á reikning nr. 39000.
Í lánssamningi sóknaraðila við varnaraðila dags. 27. febrúar 2007 sé kveðið á um að verðmæti þeirra verðbréfa sem hafi verið sett að veði til tryggingar á lánunum skuli á hverjum tíma nema a.m.k. 150% af uppreiknuðum eftirstöðvum lánsins. Viðauki hafi verið gerður við lánasamninginn þann 7. maí 2008 þar sem samið hafi verið um heimild til að fara niður í allt að 120% tryggingarþekju til 31. október 2008.
Þrátt fyrir það hafi varnaraðili krafist þess að sóknaraðili greiddi 160.000.000 krónur inn á vörslureikning nr. 39000 til frekari tryggingar langtímaláninu sem leitt hafi til þess að tryggingarþekja sóknaraðila hafi farið úr 123,3% í 138%.
Varnaraðili hafi blandað langtímaláni sóknaraðila og tryggingum fyrir því inn í deilur sóknaraðila og varnaraðila um hin fjármögnuðu afleiðutengdu skuldabréf, þvert á ákvæði 8. gr. laga nr. 108/2007. Sóknaraðili krefjist þess því að viðurkennt verði að krafa að fjárhæð 160.000.000 krónur njóti forgangs við slit varnaraðila. Auk þess sé krafist vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. september 2008, þegar fjárhæðin hafi verið greidd, og til 20. ágúst 2009 þegar mánuður hafi verið liðinn frá því að ógildi samkomulagsins hafi verið lýst yfir og varnaraðili krafinn um greiðsluna. Sóknaraðili krefjist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig sé krafist lögmannskostnaðar sem til hafi stofnast fyrir 22. apríl 2009 að fjárhæð 4.349.096 króna.
Kröfunni sé lýst sem forgangskröfu skv. 112. gr. l. nr. 21/1991 sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, þar sem um innistæðu á vörslureikningi sé að ræða.
Varðandi þriðju dómkröfu sína kveður sóknaraðili að 23. mars 2008 hafi hann gert valréttarsamning við varnaraðila um hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Hafi kaupverðið verið 74.750.000 krónur. Sóknaraðili hafi selt hlutabréf í Kaupþingi banka hf. til að fjármagna kaupin. Rétturinn hafi hvorki verið handveðsettur varnaraðila né þriðja aðila og hafi því átt að vera frjáls til ráðstöfunar. Um tveimur mánuðum eftir kaupin á valréttinum, í maí s.á., hafi sóknaraðili óskað eftir því við varnaraðila að hann annaðist sölu á valréttinum. Hafi sóknaraðili fengið tilboð frá varnaraðila en þegar hafi komið að því að ganga frá kaupunum hafi starfsmaður varnaraðila skyndilega upplýst að lögfræðingur bankans heimilaði ekki viðskiptin. Sóknaraðili hafi óskað eftir skýringum á þessu og hafi fengið þann 1. júlí 2008 tölvupóst frá öðrum lögfræðingi varnaraðila þar sem segi að valrétturinn sé ekki veðsettur en hins vegar séu skilmálar skýrir um skuldajöfnunarrétt bankans milli einstakra viðskipta sama viðskiptamanns ef einn sé í tapi en annar í plús.
Á þessum tímapunkti hafi sóknaraðili verið búinn að rifta kaupum á fjármögnuðu afleiðutengdu skuldabréfunum og aðilar hafi átt í viðræðum um gerð samkomulags sem hafi og verið gert 11. september 2008. Í samkomulaginu hafi varnaraðili lýst því yfir að valrétturinn væri óveðsettur og að sóknaraðila væri frjálst að ráðstafa honum að eigin vild.
Valrétturinn hafi því átt að standa sóknaraðila laus til ráðstöfunar allan tímann. Sú staðreynd að varnaraðili hafi synjað sóknaraðila um sölu valréttarins, á þeim tíma sem sóknaraðili hafi óskað eftir að selja hann í maí 2008, hafi valdið sóknaraðila fjártjóni enda hafi valrétturinn orðið verðlaus stuttu eftir að samkomulagið hafi verið gert þann 11. september 2008. Tjón sóknaraðila sé öll fjárhæð valréttarins 74.750.000 krónur.
Sóknaraðili krefjist þess að krafa að þeirri fjárhæð verði viðurkennd ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. maí 2008 þegar sóknaraðili hafi óskað eftir sölu til viðmiðunardags slita, 22. apríl 2009. Jafnframt krefjist sóknaraðili þess að dráttarvextir af fjárhæðinni frá 22. apríl 2009 og til greiðsludags verði viðurkenndir sem eftirstæð krafa skv. 114. gr. laga nr. 21/1991.
Varðandi fjórðu dómkröfu sína kveður sóknaraðili hana vera vegna skaðabótaskyldrar háttsemi varnaraðila. Í samkomulaginu 11. september 2008 hafi verið kveðið á um að hlutur sóknaraðila í félaginu Metrobet Racing Limited (hér eftir nefnt Metrobet), yrði handveðsettur varnaraðila sem trygging fyrir langtímaláni sóknaraðila hjá varnaraðila. Metrobet sé breskt félag sem sóknaraðili hafi átt hlut í og reki veðbankastarfsemi í London og nágrenni, á alls 26 stöðum. Í október sama ár hafi fyrirsvarsmaður sóknaraðila farið fram á það við varnaraðila að um 85.000.000 90.000.000 krónum af þeim 160.000.000 króna sem handveðsettar hafi verið varnaraðila, yrði varið í hlutafjáraukningu félagsins Metrobet. Tilgangur hlutafjáraukningarinnar hafi verið að forða félaginu frá greiðsluþroti en viðskiptabanki Metrobet, Lloyds TSB, hafi ókyrrst mjög við fall íslensku bankana og hafi gjaldfellt lán félagsins. Við gjaldfellingu lánanna án hlutafjáraukningarinnar að kröfu Lloyds TSB hafi hlutur sóknaraðila í félaginu orðið verðlaus. Í samkomulaginu frá 11. september 2008 hafi komið fram að varnaraðili hafi metið hlut sóknaraðila í Metrobet á um 3.500.000 bresk pund.
Varnaraðili hafi hins vegar synjað sóknaraðila um að fá fé afhent í þessum tilgangi. Varnaraðili hafi sýnt af sér tómlæti gagnvart þeirri stöðu sem upp hafi verið komin hjá Metrobet þrátt fyrir að sóknaraðili upplýsti varnaraðila ítrekað um í hvað stefndi yrði ekki brugðist við.
Afleiðing synjunarinnar hafi orðið sú að sóknaraðili hafi ekki getað varið eign sína í félaginu og sé fjárfesting hans nú glötuð. Metrobet hafi í júní 2009 verið selt stjórnendum félagsins og hafi þeir fært inn í reksturinn það fjármagn sem sóknaraðila hafi verið synjað um af varnaraðila að leggja til. Metrobet hafi nú í nýju félagi meira en helmingað fyrri skuldsetningu sína með samkomulagi við viðskiptabanka sinn en sóknaraðili hafi hins vegar tapað eignarhlut sínum í félaginu.
Hefði sóknaraðili ekki gengist undir samkomulagið við varnaraðila frá 11. september 2008 hefði hann haft næga fjármuni til að færa inn í Metrobet og verja þannig fjárfestingu sína, en aðgerðir varnaraðila hafi komið í veg fyrir það og hafi orðið þess valdandi að sóknaraðili hafi tapað henni að fullu. Um þetta vísist til yfirlýsingar Nigel Smith dags. 10. október 2011 sem liggi fyrir í málinu. Á þeim tíma sem varnaraðili hafi hafnað því að afhenda sóknaraðila 85.000.000 - 90.000.000 krónur af fjármunum sínum hafi sóknaraðili verið með um 900 milljónir króna í lausafé hjá varnaraðila.
Forsendur sóknaraðila fyrir undirritun samkomulagsins 11. september 2008 hafi verið þær að viðskiptasambandi hans við varnaraðila yrði haldið í eðlilegu horfi, enda hafi varnaraðili gert því skóna að féllist sóknaraðili ekki á samkomulagið yrði langtímalán hans gjaldfellt. Þessar forsendur fyrir samkomulaginu hafi brostið m.a. þegar sóknaraðila hafi verið meinað að fá afhentan lítinn hluta af lausafé sínu til að verja dýrmæta eign sína. Þannig hafi mun meiri hagsmunum verið fórnað fyrir minni en bein afleiðing neitunar varnaraðila hafi verið sú að fjárfestingin, sem varnaraðili hafi sjálfur verðmetið að fjárhæð 3.500.000 breskra punda, hafi glatast.
Tjón sóknaraðila sé að lágmarki sú fjárhæð sem varnaraðili sjálfur hafi talið verðmæti hlutanna nema. Öll skilyrði skaðabótaábyrgðar varnaraðila séu uppfyllt. Varnaraðili hafi meinað sóknaraðila með ólögmætum hætti að verja eign sína en á þeim tíma sem um ræði hafi tryggingarþekja sóknaraðila verið rúmlega 3% yfir umsömdu hlutfalli tryggingarþekju, eða 123,3%. Varnaraðili hafi því verið í órétti er hann hafi neitað sóknaraðila um afhendingu fjármunanna.
Sóknaraðili byggi einnig á því að varnaraðili hafi brotið gegn 1. og 2. mgr. 8. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti þegar lánastjóri varnaraðila hafi hvatt sóknaraðila ítrekað til þess að afla frekari fjármuna frá einum eiganda sóknaraðila til þess að styðja við fjárfestinguna í Metrobet, í stað þess að nota veðsetta fjármuni sóknaraðila. Hinn umræddi eigandi hafi einnig verið í einkabankaþjónustu varnaraðila. Lánastjóranum hafi verið falið að yfirfæra eignir þess félags sem verið hafi sóknaraðila óviðkomandi og hafi varnaraðili því brotið „kínamúra“. Við undirritun samkomulagsins 11. september 2008 hafi sóknaraðili millifært inn á vörslureikning 160.000.000 krónur sem engin þörf hafi verið á vegna veðstöðu og hafi sóknaraðili ætlað að nýta þá fjármuni til að bjarga eign sinni í Metrobet enda hafi verið nægt laust fé á reikningum sóknaraðila hjá varnaraðila.
Slíkar upplýsingar hefðu með réttu ekki átt að vera lánastjóranum kunnar og þaðan af síður að nýtast varnaraðila í þeim tilgangi sem lánastjórinn hafi hvatt til.
Samkvæmt öllu framansögðu geri sóknaraðili þá kröfu að viðurkennd verði krafa að fjárhæð 3.500.000 bresk pund eða 668.780.000 krónur á skráðu sölugengi á viðmiðunardegi slita, 22. apríl 2009, vegna þess fjártjóns sem sóknaraðili hafi orðið fyrir vegna aðgerða varnaraðila. Krafist sé vaxta af fjárhæðinni skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. september 2008, er tjónið hafi orðið, til viðmiðunardags slita 22. apríl 2009. Jafnframt sé krafist viðurkenningar á kröfu vegna lögmannskostnaðar sem fallið hafi til fyrir 22. apríl 2009. Auk þess sé þess krafist að krafa sóknaraðila um dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af fjárhæðinni frá 22. apríl 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem eftirstæð krafa skv. 114. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili kveður kröfu sína um skuldajafnaðarrétt byggja á 100. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefjist þess að hann geti dregið kröfur sínar frá skuld sinni við varnaraðila að því leyti sem þær hafi orðið til þegar meira en þrír mánuðir hafi verið til frestdags. Frestdagur varnaraðila sé miðaður við gildistöku laga nr. 129/2008, þ.e. 14. nóvember 2008. Skilyrði skuldajafnaðar sé því fullnægt að því er varði dómkröfur nr. 1 og 3. Ekki sé þörf á viðurkenningu skuldajafnaðarréttar vegna forgangskrafna.
Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008 hafi Íslandsbanki hf. tekið við tilteknum réttindum og skyldum Glitnis banka hf. Í 13. lið ákvörðunarinnar sé hins vegar tekið fram að framsal kröfuréttinda samkvæmt ákvörðuninni svipti ekki skuldara rétti til skuldajafnaðar sem hann eigi gagnvart varnaraðila. Sóknaraðili hafi því lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um skuldajafnaðarrétt sinn gagnvart varnaraðila.
Sóknaraðili kveður framangreindar kröfur sínar byggðar á meginreglum kröfu- og samningaréttarins um efndir og skuldbindingargildi samninga. Þá sé jafnframt byggt á lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og þágildandi lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki að því er varði skyldur varnaraðila sem fjármálafyrirtækis gagnvart sóknaraðila. Krafa sóknaraðila um dráttarvexti sé byggð á III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa sóknaraðila um málskostnað byggi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá sé gerð krafa um 25,5% virðisaukaskatt á dæmdan málskostnað. Sóknaraðili þessa máls sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsyn að fá skattinn dæmdan úr hendi varnaraðila. Að öðru leyti sé um lagarök vísað til fyrri umfjöllunar um málsástæður.
III
Í greinargerð varnaraðila kemur fram að sóknaraðili hafi átt í umfangsmiklum viðskiptum við varnaraðila um árabil. Varnaraðili hafi verið í hlutverki ráðgjafa, umboðsmanns og viðskiptamanns á því tímabili og viðskiptin verið af ýmsum toga.
Varnaraðili hafi veitt sóknaraðila lán að fjárhæð 4.410.000.000 kr. þann 27. febrúar 2007 til að greiða upp eldri lán og til frekari fjármögnunar verðbréfaviðskipta sóknaraðila. Sóknaraðili hafi byrjað fjárfestingar í svokölluðum fjármögnuðum afleiðutengdum skuldabréfum með aðstoð varnaraðila á vormánuðum ársins 2007. Í kröfulýsingu sóknaraðila frá 25. nóvember vegna kröfu auðkenndrar sem CL20091127-5883, hafi sóknaraðili m.a. lýst kröfu vegna fjárfestingar í nánar tilgreindum afleiðutengdum skuldabréfum en einnig eftirstöðva sem hafi verið gerðar upp í samkomulagi sóknar- og varnaraðila þann 11. september 2008.
Eins og fram komi í greinargerð sóknaraðila hafi hann keypt skuldabréf útgefin af Straumi-Burðarás Fjárfestingabanka hf. með ávöxtun tengdri hlutabréfaverði Glitnis. Kröfuhafi hafi einnig keypt bréf útgefin af Icebank hf., Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. og Lánasjóði sveitarfélaga ohf. Um hafi verið að ræða útgáfu ICB 08 09050905 þar sem skuldabréfið sé á hendur Icebank hf. með afleiðuhluta í Kaupþingi banka hf., útgáfu SPR 07 2 þar sem skuldabréfið sé á hendur Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. með afleiðuhluta í Straumi Burðarás Fjárfestingabanka hf., útgáfu STRB 07 4 þar sem skuldabréfið sé á hendur Straumi Burðarás Fjárfestingabanka hf. með afleiðuhluta í varnaraðila, útgáfu STRB 07 5 þar sem skuldabréfið sé á hendur Straumi Burðarás Fjárfestingabanka hf. með afleiðuhluta í varnaraðila og útgáfu LSS 08 0530 þar sem skuldabréfið sé á hendur Lánasjóði Sveitarfélaga ohf. með afleiðuhluta í varnaraðila en sóknaraðili hafi fengið senda kynningu á bréfunum sem og útskýringar frá viðskiptastjóra varnaraðila, Soffíu Gunnarsdóttur.
Í byrjun árs 2008 hafi tekið að halla undan fæti á fjármálamarkaði og undirliggjandi tryggingar fyrir langtímaláni sóknaraðila hafi lækkað að verðgildi. Það hafi leitt til þess að sóknaraðili hafi endurtekið farið niður fyrir þau tryggingarhlutföll sem ákveðin hafi verið í lánssamningi aðila (veðköll heimil ef trygginar færu niður fyrir 130%) og hafi farið svo að mörkin hafi tímabundið verið lækkuð niður í 120% á meðan sóknaraðili aflaði sér frekari trygginga. Varnaraðili hafi með því verið að koma vel til móts við sóknaraðila þar sem honum hafi verið heimilað að taka út „allar liquid eignir“ hjá varnaraðila án þess að draga úr hlutabréfaáhættunni og á sama tíma hafi óskráðar eignir verið metnar „í botn“.
Í byrjun árs 2008 hafi sóknaraðili viljað selja hin afleiðutengdu skuldabréf en varnaraðili hafi ráðið sóknaraðila frá því enda hafi það verið mat varnaraðila að það væri óskynsamleg ráðstöfun enda hafi sóknaraðila verið tryggð 95% greiðsla skuldabréfanna við gjalddaga.
Umræddir fimm samningar um afleiðutengd skuldabréf hafi verið skráðir í Kauphöll Íslands í maí til júlí 2008.
Sóknaraðili hafi lýst yfir riftun kaupanna þann 14. maí 2008 með bréfi til varnaraðila en þar hafi verið lýst yfir riftun á fimm samningum, einum með útgáfudegi 31. maí 2007, tveimur með útgáfudegi 5. júní 2007, einum með útgáfudegi 11. júní og einum með útgáfudegi 6. september 2007. Jafnframt hafi verið lýst yfir riftun á lánasamningum sem hafi verið gerðir í tengslum við kaupin. Ástæða riftunarinnar hafi verið sögð sú að „greiðsla af hendi Glitnis [væri] gölluð“.
Varnaraðili hafi rætt kröfur sóknaraðila innanhúss og hafi það verið mat þeirra starfsmanna sem komið hafi að þessum samningum að kröfur sóknaraðila væru haldlausar eins og sjáist af tölvupósti frá 19. janúar 2008 sem liggi fyrir í málinu.
Skrifað hafi verið undir samkomulag 11. september 2008 til að koma til móts við kröfur sóknaraðila. Með því hafi ekki verið fallist á málatilbúnað hans heldur hafi verið um að ræða leið til að leysa málið. Samkomulagið hafi verið ívilnandi fyrir sóknaraðila en það hafi verið gert þar sem það hafi verið mat starfsmanna varnaraðila að hagkvæmara væri að leysa málið í samningum og með eftirgjöf hluta krafna heldur en með frekari deilum, fjölmiðlaumfjöllun og málaferlum.
Varnaraðili kveðst í greinargerð sinni hafna öllum málsástæðum sóknaraðila hvað varði allar hans dómkröfur. Þá kveðst varnaraðili hafna öllum vaxta- og dráttarvaxtakröfum eins og þær séu fram settar.
Kveður varnaraðili að málatilbúnaður sóknaraðila byggi meira og minna á því að hann hafi litla sem enga reynslu af viðskiptum með fjármálagerninga. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila virðist hann ekki þekkja til almennra grundvallaratriða afleiðutengdra skuldabréfa, hvað felist í gjaldmiðlastýringu, hvaða áhrif á verðmæti skráning á markað hafi og hvaða grunnreglur gildi um réttindi og skyldur fjárfesta og fjármálastofnana. Varnaraðili mótmæli þessum málatilbúnaði enda verði sá málatilbúnaður að teljast afar hæpinn í ljósi reynslu og stöðu sóknaraðila eins og nánar greini hér síðar.
Sóknaraðili, sem áður hafi heitið Sturla Snorrason ehf., sé eignarhaldsfélag sem hafi verið stofnað árið 2001 upphaflega til að halda utan um hlutabréfaeign eigenda sinna í Húsasmiðjunni hf. en sá hlutur hafi verið seldur um sumarið 2002. Síðar hafi félagið farið út í frekari fjárfestingar á hinum ýmsu fjármálagerningum. Á þeim tíma sem hér sé til skoðunar hafi stjórn sóknaraðila samanstaðið af Sturlu Snorrasyni og dóttur hans Hlíf Sturludóttur, en framkvæmdastjóri hafi verið Jónas Gauti Friðþjófsson. Í samskiptum við varnaraðila hafi Jónas Gauti og Hlíf Sturludóttir aðallega verið í forsvari.
Sóknaraðili hafi verið umfangsmikill fjárfestir í íslensku atvinnulífi. Hann hafi verið umsvifamikill um árabil og stundað víðtæk viðskipti við varnaraðila vegna fjárfestinga sinna. Tilgangur félagsins hafi á þeim tíma sem atvik hafi gerst verið „kaup og viðskipti með hlutabréf, hluti í félögum, önnur verðbréf og hvers kyns önnur fjárhagsleg verðmæti“. Félagið hafi fengið sent bréf frá varnaraðila, 26. október 2007 þar sem fram hafi komið að varnaraðili hafi flokkað sóknaraðila sem fagfjárfesti. Jónas Gauti Friðþjófsson, annar forsvarsmanna sóknaraðila, hafi tekið hæfispróf (e. suitability test) 2. nóvember 2007 á heimabankavef varnaraðila þar sem hann hafi fengið einkunnina 4,83, en um hafi verið að ræða hæfispróf vegna ráðgjafar sem sagt hafi til um í hversu áhættusömum vörum viðkomandi gæti fjárfest, en hæsta einkunn hafi verið 5. Hæfisprófið hafi gefið varnaraðila upplýsingar um vitneskju sóknaraðila og hvaða vörum hann gæti fjárfest í en einkunn Jónasar hafi gefið til kynna að sóknaraðili mætti fjárfesta í flóknum fjármálagerningum. Jafnframt hafi sami starfsmaður sóknaraðila merkt við að markmið fjárfestinga væri að auka fjárfestingar til langs tíma og þar með gætu sveiflur í safni verið miklar. Viðskipti þau sem hér sé þó um deilt hafi aðallega gerst fyrir gildistöku laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Jónas Gauti Friðþjófsson, annar forsvarsmanna sóknaraðila, sé menntaður í viðskiptum frá þýskalandi í hagverkfræði og hafi lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Hann hafi starfað hjá Glitni í þrjú ár í greiningardeild en þar á undan í fjögur ár við greiningu hjá Landsbankanum. Jónas hafi verið virkur í umræðu um fjármál á opinberum vettvangi og hafi oft verið leitað til hans af hálfu fjölmiðla vegna þekkingar hans á fjármálamörkuðum, m.a. hafi hann haldið framsöguerindi á opinberum fundum o.fl. Í störfum sínum hjá Glitni hafi Jónas m.a. komið að vinnu við afleiðutengd skuldabréf. Telji varnaraðili því yfir allan vafa hafið að Jónas hafi vitað eða mátt vita hvað fælist í slíkum gerningum.
Hlíf Sturludóttir, forsvarsmaður og stjórnarmaður sóknaraðila, sé viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu úr Edinborgarháskóla. Áður hafi hún starfað hjá Verðbréfamarkaði Íslandsbanka og hafi komið að útgáfu bókar um hlutabréf og eignastýringu. Þá hafi Hlíf verið varamaður í stjórn Glitnis banka hf. frá 1. apríl 2006 til 1. janúar 2008. Hlíf hafi því verið vel kunnug fjármálamörkuðum enda hafi hún setið lengi í stjórn sóknaraðila og þar með tekið þátt eða komið að þeim viðskiptum sem sóknaraðili hafi átt þátt í. Telji varnaraðili einnig yfir allan vafa hafið að Hlíf hafi vitað eða mátt vita hvað fælist í afleiðutengdum skuldabréfum.
Miðað við umfang þeirra viðskipta sem sóknaraðili hafi átt með afleiðutengd skuldabréf verði einnig að teljast hæpið að hann hafi ekki leitað sér ýtarlegri upplýsinga um gerningana ef skilningur hans hafi verið jafn lítill á þeim og hann láti í veðri vaka, en um hafi verið að ræða fjárfestingu samtals að fjárhæð 1.745.000.000 krónur.
Að því er varði fyrstu dómkröfu sóknaraðila vegna afleiðutengdra skuldabréfa kveðst varnaraðili hafna því að viðskiptastjóri hafi í maí 2007 staðhæft að afleiðutengd skuldabréf, skuldsett eða óskuldsett, væru betri kostur en gerð framvirkra samninga. Eðli máls samkvæmt hafi viðskiptastjóri ekki getað fullyrt um að ein fjármálaafurð væri einfaldlega betri en önnur enda sé það ekki hægt þar sem þær hafi allar sína kosti og galla.
Varnaraðili hafi ekki vitað hverjar forsendur sóknaraðila hafi verið fyrir kaupunum aðrar en að reyna að hagnast á þeim eins og hefðbundið sé í viðskiptum. Sóknaraðila hafi verið kynntur gerningurinn af hálfu viðskiptastjóra varnaraðila, bæði munnlega og með afriti kynningar, en fyrsta kynning sem sóknaraðili hafi fengið hafi verið frá maí 2007 varðandi fjármagnað afleiðutengt skuldabréf, þar sem skuldabréfahlutinn hafi verið í Straumi en afleiðuhlutinn hafi verið tengdur hlutabréfaverði Glitnis.
Sóknaraðili haldi því fram að hann hafi skilið lýsingu bréfanna þannig að höfuðstóllinn væri 95% tengdur verðmæti á undirliggjandi hlutabréfum og höfuðstóllinn væri tryggður að 95% ef kæmi til lækkunar hlutabréfa niður fyrir ákveðið gildi. Þessu til stuðnings vísi sóknaraðili til dómskjala 17-19. Varnaraðili telji ómögulegt að sóknaraðili, sem reyndur fjárfestir og vel kunnugur þessum gerningum, gæti misskilið jafn hrapalega hvað bréfin hafi falið í sér.
Því sé mótmælt sem ósönnuðu að sóknaraðili hafi ekki fengið þær upplýsingar um bréfin sem honum hafi verið þörf á til að meta hvort hann teldi umræddan fjárfestingakost henta sér.
Sóknaraðili hafi haldið því fram að um miklar vanefndir varnaraðila hafi verið að ræða með því að hann hafi gefið rangar og villandi upplýsingar. Verði leitast við að svara þeim í sambærilegri kaflaskiptingu og sóknaraðili leggi upp með í greinargerð sinni.
Ekki liggi fyrir hvort varnaraðili hafi staðhæft að umræddur samningur fæli í sér minni áhættu en framvirkur samningur og sé því mótmælt sem ósönnuðu. Hins vegar verði að líta til þess að þau afleiðutengdu skuldabréf sem hér séu til skoðunar séu almennt áhættulítil þar sem fjárfesti sé tryggð 90-95% af verðmæti fjárfestingarinnar við gjalddaga svo lengi sem skuldabréfið greiðist ekki vegna hefðbundinnar vanskilaáhættu skuldabréfa, t.d. vegna gjaldþrots skuldara. Sóknaraðili hafi átt að gera sér grein fyrir muninum á báðum þessum gerningum og geta metið þá sjálfstætt burtséð frá upplýsingum varnaraðila. Sé því þar af leiðandi hafnað að varnaraðili hafi farið gegn 5. gr. laga nr. 30/2003. Varnaraðili hafi aflað sér upplýsinga frá sóknaraðila um þekkingu hans. Það hafi verið gert bæði með almennri skoðun á viðskiptasögu og reynslu starfsmanna sóknaraðila en einnig með því að forsvarsmaður sóknaraðila hafi svarað spurningum vegna fyrirtækisins og hafi gengist undir hæfnispróf. Þar að auki sé 5. gr. laganna almennt ákvæði um að fjármálafyrirtæki skuli hafa vitneskju um þekkingu viðskiptavinar og markmið fjárfestinga. Hér sé hins vegar deilt um hvort ráðgjöf sem varnaraðili hafi átt að hafa veitt sóknaraðila hafi verið röng eður ei.
Starfsmenn varnaraðila hafi boðað sóknaraðila á fund til að gera honum grein fyrir því að skynsamlegast væri að bíða með sölu á bréfunum. Engar annarlegir hvatir hafi verið til staðar hjá varnaraðila. Það eina sem varnaraðili hafi haft í huga hafi verið að upplýsa sóknaraðila um hvað væri skynsamlegast að hans mati enda hafi „strúktúrarnir“ verið lagðir upp til að halda þeim fram á gjalddaga. Sóknaraðili hafi svo átt lokaákvörðun eins og hefðbundið sé í viðskiptum sem þessum.
Varnaraðili kveðst hafna því að samsetning skuldabréfanna hafi verið önnur en samkvæmt lýsingu. Í lýsingu hafi verið lýst meginatriðum bréfanna en lýsingin hafi tekið mið af því að hún hafi aðeins verið ætluð þeim sem væru kunnugir fjármálamörkuðum.
Lýsing sóknaraðila á bréfunum sé að meginstefnu rétt. Þau hafi verið samsettur gerningur skuldabréfs og afleiðu eins og nafnið beri réttilega með sér, sem hafi innihaldið annars vegar skuldabréf selt með afföllum að u.þ.b. 82-83% og hins vegar afleiðu að u.þ.b. 17-18% en skuldabréfahluti bréfsins hafi getað náð 95% af upphaflegum höfuðstól við gjalddaga. Úrslitaatriði um hvort yrði hagnaður eða tap af samningnum hafi því aðallega ráðist af því hvernig afleiðuhluta bréfanna reiddi af, að gefnum almennum áhættuþáttum skuldabréfa.
Afleiðutengd skuldabréf (e. structured product/note) hafi verið við líði á alþjóðlegum fjármálamörkuðum frá 1980. Þau séu ávallt í formi tveggja eða fleiri gerninga sem hafi verið settir saman í einn þar sem meginhluti bréfsins sé í formi fjármálagernings sem sé tryggari en hefðbundin hlutabréf, t.d. skuldabréf eða víxill, og því að meginstefnu til aðeins háð almennri áhættu þess að skuldari geti ekki greitt. Síðari hlutinn sé svo að jafnaði í formi áhættusamari fjármálagernings/fjármálagerninga sem geti gefið af sér tap eða mikinn hagnað. Þekkt tegund afleiðutengds skuldabréfs sé að skuldabréfahlutinn sé seldur með afföllum í upphafi sem þýði að búið sé að núvirða vexti þá sem ættu að greiðast á tímabilinu til gjalddaga. Dæmi um þetta sé að fyrirtæki lofi að borga t.d. 100 kr. eftir 2 ár. Þá séu vextir þeir sem falla ættu á tímabilinu núvirtir í upphafi og því kosti bréfið t.d. 82 kr. en kostnaðurinn fari eftir væntu vaxtastigi á viðkomandi svæði. Í dæminu ætti því fjárfestir 18 krónur til að nota til kaupa á afleiðu en fjármálafyrirtæki sjái oft um milligöngu um viðskiptin eða beint í eigin nafni.
Þegar afleiðutengd skuldabréf séu seld sé almennt viðurkennt að þegar talað sé um höfuðstólstryggingu þá sé átt við þá fjárhæð sem fjárfestir fái fyrir skuldabréfahlutann við gjalddaga bréfsins, t.d. 95%. Með því sé ekki átt við að fjárfestir geti svo öruggt sé selt bréfið fyrir gjalddaga á 95% enda komi fram í pósti frá viðskiptastjóra varnaraðila að „strúktúrarnir“ væru lagðir upp til að halda þeim fram á gjalddaga. Á gjalddaga fái hann því 95% af fjárfestingunni svo lengi sem skuldari skuldabréfsins hafi ekki orðið gjaldþrota eða aðrar ástæður leiði ekki til að skuldabréf séu ekki greidd. Með því að tiltaka höfuðstólstryggingu sé því aðeins átt við að fjárfestingin sé háð hefðbundnum áhættuþáttum skuldabréfa en slíkt sé almennt þekkt í fræðunum. Þetta ætti sóknaraðila að vera ljóst enda reyndur á fjármálamörkuðum. Viðskiptastjóri varnaraðila hafi verið vel meðvitaður um þekkingu starfsmanna sóknaraðila, enda hafi Hlíf Sturludóttir og Jónas Gauti Friðþjófsson verið fyrrum starfsmenn Glitnis um árabil. Þá hafi Jónas komið að hugmyndavinnu við afleiðutengd skuldabréf er hann hafi starfað hjá varnaraðila. Því sé jafnframt hafnað sem sóknaraðili gefi í skyn að höfuðstólstrygging hafi átt að vera keypt af þriðja aðila enda segi það hvergi í kynningu þeirri sem birt hafi verið sóknaraðila. Ef ætlunin hefði verið að kaupa slíka tryggingu hefði sú fjárhæð sem ætluð hafi verið til fjárfestingar í afleiðu verið mun lægri ef einhver og því óvíst hvort um tækan fjárfestingakost hefði verið að ræða.
Í lýsingu þeirri sem gerð hafi verið vegna bréfanna sé meginatriðum lýst. Þar sé allt rétt sem komi fram nema í lýsingu frá september 2007 varðandi skuldabréf útgefin af Icebank, með ávöxtun tengda hlutabréfaverði Kaupþings, komi fram að bréfin séu skráð, undir kaflanum „Skuldabréfið“, en hins vegar segi í samantekt vinstra megin á blaðinu undir kaflanum „Helstu upplýsingar“ að „bréfin verða skráð“. Í kynningu frá maí 2007 þar sem útgefandi hafi verið Straumur með ávöxtun tengda hlutabréfaverði Glitnis hafi komið fram að „Bréfin verða skráð“. Það sama komi fram í kynningu frá júní 2007 þar sem útgefandi hafi verið Spron með ávöxtun tengda hlutabréfaverði í Straumi. Þess vegna sé því hafnað að upplýsingarnar hafi verið rangar. Um hafi verið að ræða einföld mistök sem auðveldlega hefði verið hægt að leiðrétta og sóknaraðili hafi mátt segja sér sjálfur. Sóknaraðili hafi getað kannað hvort bréf útgefin af Icebank hafi verið skráð ef það hafi verið forsenda fyrir kaupum hans eða einfaldlega upplýst varnaraðila um þá forsendu sem hefði þá getað leiðrétt misskilninginn.
Þó bréfin hafi ekki verið skráð fyrr en seinna þá telji varnaraðili það ekki hafa nein teljandi áhrif á kaupin. Í fyrsta lagi sé það vegna þess að almennt sé ætlast til að kaupandi afleiðutengdra skuldabréfa haldi þeim sjálfur til gjalddaga þar sem sala þeirra eigi sér að jafnaði stað með meiri afföllum en það sem kaupandi geti átt von á við gjalddaga, sjálfri höfuðstólstryggingunni. Þess vegna hafi varnaraðili m.a. ráðlagt sóknaraðila að halda bréfunum. Í öðru lagi sé það vegna þess að útgefendur bréfanna hafi allir verið með skráða flokka í Kauphöll Íslands og hafi því þá þegar uppfyllt skilyrði og upplýsingaskyldu Kauphallarinnar. Í þriðja lagi þar sem seljandi geti selt bréfin þó þau séu ekki skráð í Kauphöll ef vilji hans standi til þess. Þá sé rétt að fram komi að það sé ekki rétt sem sóknaraðili staðhæfi að verðmæti bréfa sé meira við að þau séu skráð í Kauphöll.
Í lýsingu þeirri sem gerð hafi verið vegna skráningar bréfanna í Kauphöll Íslands hafi verið um ítarlegri upplýsingar að ræða og útskýringar vegna bréfanna. Þar hafi verið útskýrt nánar hvað fælist í höfuðstólstryggingu og fleiri þáttum bréfsins, enda hafi fleiri aðilar getað fjárfest í þeim við skráninguna. Því sé alfarið hafnað að þar hafi varnaraðili staðfest að fyrri yfirlýsing bankans um 95% höfuðstólstryggingu hafi verið röng enda sé erfitt að sjá hvar slíkt komi fram í lýsingunum.
Sóknaraðila hafi engin þörf verið á að fá lán hjá varnaraðila fyrir hinum afleiðutengdu skuldabréfum enda hafi sagt í kynningunni að boðið væri upp á fjármögnun á skuldabréfinu. Sóknaraðili hafi tekið ákvörðun um að fá lán fyrir fjárfestingunni og sé ekki hægt að láta varnaraðila bera þá áhættu. Ávöxtun af skuldabréfunum hafi eðlilega verið lægri heldur en fjármögnunarkostnaður bréfanna enda væri afar óeðlilegt ef varnaraðili lánaði viðskiptavinum sínum fjármuni á lægri vöxtum en hann fengi sjálfur. Fyrir þá fjárfesta sem fengið hafi lánað fyrir skuldabréfunum hafi afleiðuhlutinn þurft að hækka meira en ella til að ná fram hagnaði af samningnum.
Varnaraðili hafni því alfarið að hann hafi gefið rangar upplýsingar eins og sóknaraðili haldi fram og að slík háttsemi sé andstæð tilgreindum ákvæðum þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti og lögum 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Varnaraðili sjái ekki hvaða þýðingu það hefur fyrir málið að reikna sérstaklega út hverjar þóknanir varnaraðili hafi fengið fyrir viðskiptin, eins og sóknaraðili skori á hann um.
Þá sé því alfarið hafnað að greiðsla varnaraðila hafi verið gölluð, bæði í skilningi laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, svo og í skilningi almennra reglna kröfuréttar. Um kaup sóknaraðila gildi meginregla kröfuréttar og laga nr. 50/2000 um varúðarskyldu kaupanda. Kaupandi beri skyldu til að kanna hið keypta og leita sér fanga ef hann telur eitthvað óljóst. Samkvæmt 20. gr. laga nr. 50/2000 geti kaupandi ekki komið fram með kröfu vegna galla ef um sé að ræða atvik sem hann hafi vitað eða mátt vita um þegar kaupin hafi átt sér stað en sóknaraðili hafi mátt vita um hvers lags gerninga hafi verið að ræða.
Um gjaldmiðlastýringu vegna skuldabréfaflokks ICB 08 0905 kveður varnaraðili að sóknaraðili sem umfangsmikill fjárfestir og vel kunnugur starfsemi varnaraðila geti ekki haldið því fram að hann hafi verið óupplýstur um „eðli gjaldmiðlastýringar“ varnaraðila. Þá skýri sóknaraðili í engum efnum frekar hvaða þættir í gjaldmiðlastýringu það hafi verið sem hafi valdið tapi hjá honum annað en að setja fram almenna staðhæfingu um að varnaraðili hefði átt að gera betur. Þá bendi varnaraðili á að samkvæmt 5. gr. samnings aðila um gjaldmiðlastýringu beri varnaraðili ekki ábyrgð á gengislækkun fjármálagerninga eða gjaldmiðla, né heldur tapi á samningum sem gerðir hafi verið fyrir hönd viðskiptavinar eða því að markmið gjaldmiðlastýringar náist ekki.
Sóknaraðili staðhæfi að varnaraðili hafi tekið sér þóknanir vegna samnings um gjaldmiðlastýringu án þess að rökstyðja það frekar. Hann láti þó standa að varnaraðili hafi reiknað sér þóknanir þrátt fyrir að ákvæði 8. gr. samnings um gjaldmiðlastýringu heimili það ekki. Varnaraðili bendi á að samkvæmt 7. gr. samnings um gjaldmiðlastýringu skuli viðskiptavinur greiða allar almennar þóknanir sem falli til vegna samningsins, s.s. þóknanir til fjármálafyrirtækja vegna viðskipta og þess háttar sem ekki falli undir almennan skrifstofukostnað. Varnaraðili eigi erfitt með að sjá hver tilgangur þessa kafla greinargerðar sóknaraðila sé enda sé ekki gerð nein krafa í tengslum við þessa umfjöllun eða slíkt rökstutt. Þá sé ekki að sjá að snert sé á þessum sjónarmiðum í kröfulýsingu til varnaraðila sem barst 25. og 26. nóvember 2009.
Með samkomulagi frá 11. september 2008 hafi farið fram uppgjör milli sóknar- og varnaraðila vegna viðskipta með afleiðutengd skuldabréf. Þar komi fram að tap sóknaraðila af fjárfestingum þeirra fimm afleiðutengdu skuldabréfa væri 553.457.061 króna. Af því tapi hafi þegar verið greitt 129.282.856 krónur. Eftir standi því óuppgert „tap“ að fjárhæð 424.174.205 krónur. Í 2. gr. samningsins komi fram að samkomulag sé með aðilum um að fullnaðaruppgjör sóknaraðila og varnaraðila af fjárfestingu skv. 1. gr. verði með þeim hætti að sóknaraðili selji handveðsett hlutdeildarskírteini í Sjóði 9 að verðmæti c.a. 142.911.724 krónur, sóknaraðili taki lán hjá varnaraðila að fjárhæð 175.000.000 krónur og bætist fjárhæðin við langtímalán sóknaraðila hjá varnaraðila. Það sem eftir standi af tapinu þegar það verði endanlega reiknað út beri varnaraðili og greiði bankinn þá fjárhæð. Þá segi að með þessu fullnaðaruppgjöri eigi varnaraðili engar kröfur á sóknaraðila í tengslum við viðskipti félagsins með framangreind fjármögnuð afleiðutengd skuldabréf.
Uppgjör þetta skyldi fara fram þegar sóknaraðili hefði efnt skuldbindingar sínar samkvæmt samkomulaginu um handveðsetningu eignarhlutar í Metrobet Racing Limited og greitt 160.000.000 krónur í formi lausafjár inn á vörslureikning sinn nr. 39000 skv. 4. gr. en sá reikningur hafi einnig verið handveðsettur varnaraðila.
Samkvæmt samkomulaginu frá 11. september 2008 hafi varnaraðili því fallið frá kröfu á hendur sóknaraðila að fjárhæð 106.262.481 krónur. Það skuli ítrekað að með því samkomulagi hafi ekki með neinum hætti verið fallist á bótaskyldu vegna fyrri viðskipta. Um hafi verið að ræða ákvörðun byggða á viðskiptalegum forsendum. Í 6. gr. samningsins komi fram að í tengslum við viðskipti sóknar- og varnaraðila með framangreind fjármögnuð afleiðutengd skuldabréf eigi aðilar engar frekari kröfur hvor á hendur öðrum og staðfesti aðilar með samkomulaginu að þeir muni ekki gera frekari kröfur vegna viðskiptanna. Þá hafi aðilar lýst því yfir að engin frekari ágreiningsmál væru til staðar milli þeirra.
Varnaraðili hafi á sínum tíma talið kröfur sóknaraðila til skaðabóta afar hæpnar ef ekki haldslausar með öllu. Hins vegar hafi það verið mat varnaraðila miðað við þá erfiðu tíma sem hafi verið á mörkuðum að það væri hagkvæmara að leysa málið án þess að það færi fyrir dómstóla og í kjölfarið fjölmiðla. Það hefði getað leitt til vantrausts og fleiri málsókna og slíkt hafi ekki verið talið þjóna hagsmunum varnaraðila á þeim tíma. Það hafi því á engan hátt verið þannig að varnaraðili hafi á einn eða annan hátt fallist á bótaskyldu. Fallist hafi verið á að semja í málinu til að leysa það fljótt og örugglega og hafi engum þeim sem komið hafi að gerð samkomulagsins dulist að um hafi verið að ræða ívilnandi ráðstöfun fyrir sóknaraðila.
Það sé ekki rétt sem fram komi í greinargerð varnaraðila að tap það sem varnaraðili hafi tekið á sig vegna samkomulagsins hafi verið 62.286.740 krónur. Varnaraðili hafni þeim útreikningum sóknaraðila. Sóknaraðili tiltaki sem hluta af greiðslu til varnaraðila samkvæmt samkomulaginu peningamarkaðsinnlán að fjárhæð 49.422.396 krónur til varnaraðila, dagsett 29. ágúst 2008, en í engu hafi verið snert á slíku í samkomulaginu enda sé það jafnan ekki hluti af greiðslu að gera lánssamning eða leggja inn innstæðu í eigin nafni.
Sóknaraðili kveðst hafna fullyrðingum um hótanir af hálfu starfsmanna varnaraðila á fundi í maí 2008 og kveður þær ósannaðar.
Því sé jafnframt hafnað sem ósönnuðu að varnaraðili hafi boðið að fresta gjaldfellingu langtímalánsins gegn undirritun samkomulagsins og þar með hafi sóknaraðila verið nauðugur sá kostur að ganga að samkomulaginu. Enda þótt sýnt væri fram á slíkt þá verði að telja varnaraðila það heimilt þar sem fyrir því hafi verið samningsákvæði. M.a. í 11. gr. samnings um langtímalánið frá 28. febrúar 2007. Varnaraðili hafi því haft skýra heimild til að gjaldfella samninga aðila og hafi honum verið frjálst að nýta þá heimild að vild og eftir atvikum með því að bjóða viðskiptamanni sínum að ganga til samninga gegn því að hann nýtti ekki samningsbundna heimild sína til gjaldfellingar.
Af framangreindu sé ljóst að 8. gr. laga nr. 108/2007 eigi ekki við enda aðeins um að ræða almennt ákvæði um að fjármálafyrirtæki skuli greina og gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að hagsmunaárekstrar skaði hagsmuni viðskiptavina.
Samkomulagið frá 11. september 2008 hafi verið ívilnandi fyrir sóknaraðila á kostnað varnaraðila. Það segi beinlínis í samkomulaginu að varnaraðili taki á sig hluta af tapi sóknaraðila og það hafi jafnframt verið skoðun þeirra sem komið hafi að samkomulaginu fyrir hönd varnaraðila. Því sé þar af leiðandi alfarið hafnað að varnaraðili hafi bætt stöðu sína á kostnað sóknaraðila með samkomulaginu þar sem það sé ekki aðeins rangt heldur hafi því verið öfugt farið.
Í greinargerð sóknaraðila sé því haldið fram að varnaraðili hafi neitað að afhenda tengdum félögum eignir nema sóknaraðili skrifaði undir samkomulagið frá 11. september. Sé því hafnað sem ósönnuðu.
Að öllu framansögðu telji varnaraðili engan veginn sýnt fram á að hann hafi beitt sóknaraðila ólögmætri nauðung enda sé það ekki rétt og haldlaust að einhverjar af ógildingarreglum laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eigi við í málinu.
Því sé jafnframt hafnað að kröfur vegna hinna afleiðutengdu skuldabréfa sem í málinu séu gerðar komist að þar sem búið hafi verið að semja um uppgjör þeirra í samkomulagi aðila frá 11. september 2008 en nánar tiltekið segi í 6. gr. samningsins að „Í tengslum við viðskipti Alnusar og Glitnis með framangreind fjármögnuð afleiðutengd skuldabréf eiga aðilar engar frekari kröfur á hendur hvor öðrum og staðfesta aðilar með samkomulagi þessu að þeir muni ekki gera frekari kröfur á hendur hvor öðrum vegna ofangreindra viðskipta. Samningsaðilar lýsa því yfir að engin frekari ágreiningsmál séu til staðar milli þeirra“ en í 1. gr. hafi hin „framangreindu fjármögnuðu afleiðutengdu skuldabréf“ verið nefnd, en það séu þau hin sömu og gerðar séu kröfur um í þessu máli. Því sé eina leiðin fyrir sóknaraðila að koma að kröfum vegna umdeildra afleiðutengdra skuldabréfa ef samkomulagið frá 11. september 2008 verði talið ógilt en því hafni varnaraðili alfarið enda haldlaus krafa eins og nánar hafi verið lýst.
Þá geri sóknaraðili kröfu um greiðslu 160.000.000 króna auk vaxta og að krafan njóti forgangs skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Byggi sóknaraðili kröfuna á því að þar sem samkomulag aðila frá 11. september 2008 sé ógilt þá sé trygging sú sem sóknaraðila hafi borið að greiða inn á vörslureikning nr. 39000 að fjárhæð 160.000.000 krónur samkvæmt 4. gr. samningsins afturkallanleg.
Varnaraðili hafni því að samkomulagið frá 11. september 2008 sé ógilt eins og nánar sé rökstutt hér að framan og þar með kveður hann kröfuna haldslausa.
Þó tryggingarhlutfall lánssamningsins frá 27. febrúar 2008 hafi verið lækkað niður í 120% og með samkomulaginu frá 11. september hafi hlutfallið farið upp í 123%, burtséð frá þeirri tryggingu sem hér sé rætt um, þá verði ekki séð hvernig það sé andstætt 8. gr. laga nr. 108/2007. Varnaraðili hafi haft ástæður fyrir því að krefja sóknaraðila um tryggingar vegna lánsins þannig að þær væru hærri en rétt yfir 120% enda hafi varnaraðili verið meira og minna í sambandi við sóknaraðila á árinu til að kalla eftir veðum hjá honum vegna þess að tryggingar hans hafi síendurtekið farið niður fyrir skilgreind mörk. Verðmæti hlutabréfa og annarra eigna hafi farið ört lækkandi á mörkuðum og því hafi verið full ástæða fyrir varnaraðila að kalla eftir ríkari tryggingum svo hann þyrfti ekki að halda uppi þeirri viðskiptavakt á varnaraðila sem hann hafi þurft allt árið. Það hafi verið hluti af uppgjörssamkomulaginu og verði það seint talið langt seilst af hálfu varnaraðila að biðja um tryggingar á þessu stóra láni sóknaraðila m.v. eftirgjöf þá sem varnaraðili hafi gengist undir með samkomulaginu, enda um fullkomlega eðlileg viðskipti að ræða.
Að öðru leyti sé vísað til sjónarmiða hér að ofan hvað varði sjónarmið sóknaraðila um að varnaraðili hafi „blandað langtímaláni sóknaraðila og tryggingum fyrir því inn í deilur sóknaraðila og varnaraðila um hin fjármögnuðu afleiðutengdu skuldabréf,“
Verði talið að samningur sé ógildanlegur þá fallist varnaraðili ekki á að kröfur sóknaraðila séu innstæðukröfur. Krafan sé skaðabótakrafa og geti þannig ekki talist uppfylla skilyrði 112. gr. laga nr. 21/1991.
Kröfu sóknaraðila um lögmannskostnað að fjárhæð 4.349.096 krónur sé hafnað. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á grundvöll þessarar kröfu. Ekki hafi verið sýnt fram á réttmæti og lögmæti þess að láta varnaraðila bera kostnað sem sóknaraðili hafi stofnað til og krafist sé að njóti stöðu í réttindaröð sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Engin gögn hafi til að mynda verið lögð fram sem sýni hvernig fjárhæð umrædds kostnaðar sé fengin eða hvenær til hans hafi verið stofnað.
Að því er varði þriðju dómkröfu sóknaraðila vegna valréttar kveður varnaraðili að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að honum hafi verið synjað um sölu á valréttinum. Í tilvísuðum samskiptum við starfsmenn varnaraðila í kröfulýsingu sóknaraðila sé aðeins um að ræða fyrirspurnir til varnaraðila um hvort valrétturinn sé veðsettur eður ei.
Þótt sóknaraðila hafi verið synjað um notkun valréttarins þá hafi slíkt verið heimilt á grundvelli skilmála valréttarsamningsins en þar segi undir kaflanum „Almennir skilmálar:“ að auk þeirra skilmála sem fram komi í samningnum þá gildi um viðskiptin almennir skilmálar varnaraðila vegna markaðsviðskipta. Sóknaraðili hafi skrifað undir almenna skilmála vegna markaðsviðskipta þann 21. mars 2005 en þar komi skýrt fram í 4. gr. heimild varnaraðila til skuldajafnaðar milli einstakra samninga sóknaraðila en óumdeilt sé að þau skilyrði hafi verið uppfyllt á þeim tíma.
Samkvæmt 4. gr. skilmálanna hafi varnaraðili haft fullan rétt á að synja um sölu valréttarins á meðan staða sóknaraðila hafi verið neikvæð. En þetta hafi verið staðfest í tölvupósti frá Herði Felix Harðarsyni starfsmanni varnaraðila til Jónasar Gauta Friðþjófssonar starfsmanns sóknaraðila þann 1. júlí 2008 þar sem hafi sagt: „Búinn að fá nánari upplýsingar og það mun vera rétt að það er engin veðsetning fyrir hendi. Hins vegar eru skilmálar skýrir um skuldajöfnunarrétt bankans milli einstakra viðskipta sama viðskiptamanns ef einn er í tapi en annar í plús. Af þessum sökum kom það til tals milli Haraldar og Guðmundar á sínum tíma að það væri rétt að ráðstafa ekki valréttinum á meðan verið er að loka gatinu með samkomulaginu. Sú staða er óbreytt“
Í samkomulaginu frá 11. september 2008 komi fram í 4. gr. að varnaraðili lýsi því þar með yfir að valrétturinn væri óveðsettur og að sóknaraðila væri frjálst að ráðstafa valréttinum að eigin vild. Með því hafi í engu verið staðhæft um ráðstöfunarrétt sóknaraðila fyrir gerð samkomulagsins eins og sóknaraðili telji yfirlýsinguna bera með sér heldur hafi þvert á móti verið um að ræða sérstaka yfirlýsingu og samningsákvæði sem heimilað hafi sóknaraðila ráðstöfun á valréttinum frá og með þeim tímapunkti. Frá 11. september 2008 hafi sóknaraðila því verið heimilt að selja valréttinn en hann hafi ekki orðið verðlaus fyrr en hlutabréf í Kaupþingi hafi fallið í byrjun október, eða rúmlega 20 dögum seinna. Því hafi sóknaraðili haft nægan tíma til að selja valréttinn ef honum hefði hugnast svo en það hafi hann þó ekki kosið að gera. Varnaraðili geti ekki borið ábyrgð á þeirri ákvörðun sóknaraðila.
Varnaraðili geri varakröfu um lækkun skaðabóta ef fallist verði á bótaskyldu þar sem sóknaraðili hafi ekki takmarkað tjón sitt með sölu þegar honum hafi verið það heimilt.
Að því er varði fjórðu dómkröfu sóknaraðila vegna ætlaðrar skaðbótaskyldrar háttsemi varnaraðila kveður varnaraðili að í október árið 2008 hafi fyrirsvarsmaður sóknaraðila farið fram á það við varnaraðila að um 85.000.000-90.000.000 krónum af þeim 160.000.000 krónum sem handveðsettar hafi verið varnaraðila, yrði varið í hlutafjáraukningu félagsins Metrobet. Byggi sóknaraðili kröfu sína á því að þar sem varnaraðili hafi synjað sóknaraðila um beiðni hans þá beri hann ábyrgð á því að hlutafé sóknaraðila í Metrobet hafi orðið verðlaust.
Sóknaraðili byggi kröfu sína jafnframt á því að hefði hann ekki gengist undir samkomulagið frá 11. september þá hefði hann haft fjármuni til að færa inn í félagið og „verja þannig fjárfestingu sína.“
Þar að auki byggi sóknaraðili á því að varnaraðili hafi brotið gegn 1. og 2. mgr. 8. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti þegar lánastjóri varnaraðila hafi „hvatt sóknaraðila ítrekað til þess að afla frekari fjármuna frá einum eiganda sóknaraðila til þess að styðja við fjárfestinguna í Metrobet, í stað þess að nota veðsetta fjármuni sóknaraðila.“
Varnaraðili kveðst hafna öllum þessum málsástæðum sóknaraðila og telur þær haldlausar. Sóknaraðili eigi enga þá kröfu á varnaraðila að honum hafi borið skylda til að lána honum fyrir þessari fjárfestingu eða öðru því sem sóknaraðila hafi dottið í hug. Samkomulagið frá 11. september 2008 sé ekki ógilt og vísist til fyrri umfjöllunar þar um. Þá megi benda á að hér sé sóknaraðili að gera kröfu sem sé afleidd af samkomulagi frá 11. september um handveðsetningu á fjármunum, en gerð sé krafa um sömu fjármuni í dómkröfu nr. 2 um innstæðu. Þá geti varnaraðili með engu móti séð að hann hafi brotið „kínamúra“ með því að ráðleggja sóknaraðila að sækja sér fé til fjárfestingarinnar frá öðrum aðilum en sjálfum sér og sé því hafnað að slíkar málsástæður hafi einhver tengsl við kröfur þær sem hér séu gerðar.
Varnaraðili kveðst hafna framkominni kröfu sóknaraðila um skuldajöfnun þar sem hún sé vanreifuð, en ekki komi fram gagnvart hvaða kröfum sóknaraðili vilji skuldajafna. Í kröfulýsingu sóknaraðila varðandi kröfu merkta nr. CL20091127-5883 komi fram að kröfuhafi áskilji sér allan rétt til að skuldajafna framangreindri kröfu við kröfur Íslandsbanka hf. á hendur sér. Ekki verði því betur séð en að skuldajöfnuninni sé beint að röngum aðila enda hafi varnaraðili enga hagsmuni af viðurkenningu hennar og krefjist þess að henni verði hafnað.
Varnaraðili kveðst og byggja á því að sönnunarbyrðin um að kröfur sóknaraðila séu fyrir hendi hvíli á sóknaraðila. Vísist um þetta m.a. til þeirrar meginreglu sem búi að baki ákvæði 117. gr. laga nr. 21/1991, þ.e. varðandi form og efni kröfulýsingar og sönnunargagna sem kröfur séu studdar við. Þau gögn sem sóknaraðili hafi lagt fram kröfum sínum til stuðnings sýni að mati varnaraðila ekki fram á að kröfurnar eigi rétt á sér.
Jafnframt vísist til þess að sönnunarbyrði um eðli kröfunnar og stöðu í skuldaröð hvíli óumdeilt á sóknaraðila.
Varnaraðili byggi jafnframt á þeirri almennu sönnunarreglu íslensks réttar, að sá, sem telji samning sér óskuldbindandi verði að sýna fram á að þær aðstæður og/eða atvik séu fyrir hendi sem leiði til slíkrar niðurstöðu. Að mata varnaraðila hafi ekki verið sýnt fram á slíkt.
Til stuðnings kröfum sínum kveðst varnaraðili vísa til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti (brottfallin), laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, reglugerðar nr. 995/2007, meginreglna samninga- og kröfuréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga, skuldbindingargildi samninga og samningsfrelsi og almennra reglna skaðabótaréttar um skilyrði skaðabótaábyrgðar. Kröfu um málskostnað byggi varnaraðili á 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991. Að auki sé vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt þar sem varnaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og þurfi því að taka tillit til skyldu hans til greiðslu virðisaukaskatts á málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar.
IV
Eins og ráða má af því sem af framan greinir hafa málsaðilar átt í umfangsmiklu viðskiptasambandi um nokkurra ára skeið. Er því lýst hér að framan að meginskuldbinding sóknaraðila gagnvart varnaraðila hafi verið lán upphaflega að fjárhæð 4.410.000.000 krónur sem tekið var snemma árs 2007. Liggur fyrir í málinu skriflegur lánssamningur aðila vegna þess láns.
Frá því í maí 2007 til september sama ár keypti sóknaraðili þau afleiðutengdu skuldabréf sem ítarlega er fjallað um hér að framan þegar málatilbúnaði aðila er lýst og nam heildarkaupverð þeirra 1.745.000.000 króna og munu kaupin hafa verið fjármögnuð með lánsfé frá varnaraðila. Kom fram með skýrum hætti við aðalmeðferð málsins að umrædd kaup voru kynnt fyrir Hlíf Sturludóttir, fyrirsvarsmanni sóknaraðila og að hún hafi veitt samþykki sitt fyrir þeim. Eins og nánar er lýst hér að framan var um nokkur tilvik að ræða á nefndu tímabili, síðast 6. september 2007 þegar keypt voru skuldabréf fyrir 1.000.000.000 krónur. Af hálfu varnaraðila var það Soffía Gunnarsdóttir, viðskiptastjóri, sem kynnti umrædda fjármálagerninga fyrir Hlíf, en Soffía var á þeim tíma umsjónarmaður einkabankabankaþjónustu varnaraðila gagnvart sóknaraðila. Byggir sóknaraðili á því að umrædd skuldabréf hafi verið gölluð vara m.a. vegna þess að kynning á skilmálum þeirra gagnvart sóknaraðila hafi verið ófullnægjandi þannig að í bága fari við nánar tilgreind ákvæði laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti sem þá giltu. Kveðst sóknaraðili hafa orðið fyrir umtalsverðu tjóni vegna þessa. Síðari hluta septembermánaðar 2007 hætti sóknaraðili að nýta einkabankaþjónustu varnaraðila í kjölfar þess að ráða til starfa Jónas Gauta Friðþjófsson og mun hafa verið ætlunin að hann tæki við því hlutverki sem einkabankaþjónustan hafði haft með höndum gagnvart sóknaraðila.
Þann 14. maí 2008 lýsti sóknaraðili yfir riftun á kaupum á framangreindum skuldabréfum ásamt undirliggjandi lánssamningum. Urðu í kjölfarið viðræður milli aðila sem lauk með gerð samkomulags 11. september 2008, sem nánar er lýst hér að framan. Sóknaraðili byggir á því að umrætt samkomulag sé ógilt gagnvart honum og vísar um það til 29., 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga. Þá vísar hann einnig til þess að forsendur umrædds samkomulags hafi brostið af nánar greindum ástæðum. Varnaraðili byggir á gildi samkomulagsins og hafnar því að skilyrði séu til ógildingar þess, eða að forsendur hafi brostið.
Ekki er um það deilt að umrætt samkomulag hafi verið undirritað af aðilum sem hafi verið bærir til að skuldbinda sóknaraðila. Samkomulagi þessu er nánar lýst hér að framan frá sjónarhóli hvors aðila fyrir sig. Með því voru leiddar til lykta deilur aðila um uppgjör vegna kaupa á þeim afleiðutengdu skuldabréfum sem að framan er lýst, þar með talið uppgjör vegna fjármögnunar þeirra. Kemur fram í samkomulaginu að heildartap vegna skuldabréfanna nemi 553.457.061 krónu en sóknaraðili hafi þegar greitt af því tapi 129.282.856 krónur. Með samkomulaginu voru eftirstöðvar tapsins gerðar upp með þeim hætti að seld voru handveðsett hlutdeildarskírteini í sjóði 9, sem í samkomulaginu voru sögð að verðmæti um það bil 142.911.724 krónur og varnaraðili veitti sóknaraðila lán að fjárhæð 175.000.000 krónur á sömu kjörum og fyrrnefnt lán að fjárhæð 4.410.000.0000 krónur og skyldi umrædd lánsfjárhæð bætast við það lán. Þá var kveðið á um að varnaraðili bæri eftirstöðvar tapsins og ætti engar frekari kröfur á hendur sóknaraðila vegna umræddra hlutabréfaviðskipta. Með einfaldri samlagningu má sjá að sóknaraðili hefur þá borið vegna viðskiptanna tap að fjárhæð 447.194.580 krónur og miðað við að heildartap hafi verið að fjárhæð 553.457.061 króna eins og að ofan greinir bar varnaraðili tap að fjárhæð 106.262.481 króna. Fullyrðingar sóknaraðila um að varnaraðili hafi tekið á sig tap sem numið hafi að mun lægri fjárhæð eru ekki nægilega rökstuddar til að taka megi þær til greina. Í umræddu samkomulagi eru einnig ákvæði um að sóknaraðila beri að greiða 160.000.000 krónur í reiðufé inn á handveðsettan vörslureikning hjá varnaraðila og einnig setja að handveði hlutafé sitt í breska félaginu Metrobet Racing Limited en verðmæti hins veðsetta eignarhlutar er metið í samningnum að fjárhæð 3.500.000 bresk pund.
Sóknaraðili byggir á að framangreint samkomulag hafi komist á vegna ólögmætrar nauðungar af hálfu varnaraðila og einnig að verulega halli þar á sóknaraðila. Fyrir framangreindum fullyrðingum ber sóknaraðili sönnunarbyrði. Af gögnum málsins sem og framburði starfsamanna varnaraðila verður ekki annað séð en að varnaraðili hafi við samningsgerðina gætt hagsmuna sinna sem stór lánveitandi sóknaraðila og þykir ekki sýnt að hann hafi í þeim samningaviðræðum beitt öðrum aðferðum en hefðbundnar eru af því tilefni og er því hafnað að sú framganga starfsmanna varnaraðila við samningsgerðina sem fyrirsvarsmenn sóknaraðila greina frá, að því marki sem þær frásagnir geta talist sannaðar, lýsi ólögmætri háttsemi. Er ekki fallist á að sýnt sé að átt hafi sér stað „blöndun hagsmuna“ með þeim hætti að áhrif geti haft á niðurstöðu málsins. Þá liggur ekkert það fyrir í máli þessu sem rennir stoðum undir það að fjárhagslegir erfiðleikar sem sóknaraðili átti við að stríða á umræddum tíma hafi komið til vegna ólögmætra aðgerða varnaraðila. Verður framburður fyrirsvarsmanna sóknaraðila heldur ekki skilinn á annan veg en þann að verðfall hafi orðið á hlutabréfum á markaði á umræddum tíma. Hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á það með nægilega skýrum hætti að varnaraðili hafi beitt veðköllum umfram þær heimildir sem hann hafði samkvæmt lánssamningi aðila. Liggur því ekki fyrir í málinu sönnun þess að varnaraðili hafi beitt sóknaraðila ólögmætri nauðung við gerð samkomulagsins þannig að ógilda megi samning aðila með vísan til 29. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga. Þá verður ekki talið að sóknaraðili hafi sýnt nægilega fram á að með samningnum hafi hann gefið eftir ríkari réttindi en sanngjarnt geti talist eða fyrir hendi séu aðrar þær forsendur að óheiðarlegt geti talist af hálfu varnaraðila að bera samninginn fyrir sig. Eru því ekki efni til að fallast á með sóknaraðila að ógilda beri samninginn með vísan til 33. gr. laga nr. 7/1936. Sóknaraðili vísar einnig til 36. gr. laga nr. 7/1936 til stuðnings röksemdum sínum um að ógilda beri umræddan samning. Hér að framan er samkomulaginu ítarlega lýst eins og það horfir við hvorum aðila fyrir sig. Það er mat dómsins að í umræddu samkomulagi felist gagnkvæm eftirgjöf réttinda og að sóknaraðila hafi ekki tekist sönnun þess að hann hafi þar gefið eftir umfram það sem sanngjarnt geti talist, eða á hann hafi þar hallað umfram varnaraðila. Þá verður ekki talið að sóknaraðila hafi tekist sönnun þess að þau afleiðutengdu skuldabréf sem hann festi kaup á hafi verið svo gölluð fjármálavara að ógilda beri samkomulag aðila um uppgjör af þeim sökum. Verður hér að mati dómsins að hafa í huga að þó sóknaraðili lýsi því í löngu máli hverjir þeir áhættuþættir umræddra skuldabréfa hafi verið sem hann hafi ekki verið upplýstur um getur hann þess í engu hvernig umrædd áhætta birtist í því tapi sem varð á umræddum viðskiptum. Fyrir liggur að hlutabréfaverð féll verulega á umræddu tímabili og er nærtækt að telja að tap á viðskiptunum megi rekja til þess. Þá er engin grein gerð fyrir því hver hluti tapsins á rætur að rekja til kostnaðar við fjármögnun. Hefur sóknaraðili að þessu leyti ekki rennt nægilegum stoðum undir fullyrðingar sínar um ætlaða galla á nefndri fjármálavöru til að unnt sé að komast að niðurstöðu um umfang þess galla. Þá hefur sóknaraðili heldur ekki lagt fram nægilegar upplýsingar til að unnt væri að leggja mat á fullyrðingar hans um að umrædd skuldabréf séu áhættumeiri fjárfesting en framvirkir samningar en af hans hálfu er á því byggt að viðskiptastjóri varnaraðila hafi ranglega fullyrt að svo væri. Með vísan til alls þess sem að framan greinir hefur sóknaraðili ekki fært fram fullnægjandi rök eða sönnunargögn til að unnt sé að fallast á að ógilda beri samning hans og varnaraðila með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Þá er það niðurstaða dómsins að þær forsendur sem að framan eru raktar leiði einnig til þess að ekki er unnt að fallast á að veruleg forsenda hafi brostið fyrir samkomulaginu og það teljist óskuldbindandi af þeim sökum. Hafa enda ekki verið færð fram fullnægjandi rök fyrir grundvelli þess að svo gæti talist. Vísar sóknaraðili einkum til þess að það hafi verið veruleg forsenda fyrir samkomulaginu af hans hálfu að viðskiptasamband aðila héldi áfram, en það hafi ekki gengið eftir. Er málsástæða sóknaraðila í þessu veru haldlaus þar sem fyrir liggur samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila sjálfs að hann hafi verið að reyna að flytja viðskipti sín annað á þessum tíma og verður ekki annað ráðið en að varnaraðili hafi gert sér grein fyrir því. Á grundvelli þess sem hér að framan er rakið liggur fyrir að í gildi er samkomulag aðila um uppgjör vegna viðskipta með afleiðutengd skuldabréf sem sóknaraðili er bundinn við.
Verður þegar af þeim ástæðum sem að framan er fjallað um að hafna kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á rétti til greiðslu úr slitabúi varnaraðila að fjárhæð 564.957.326 krónur, sem og þeim kröfum sem hann hefur uppi og leiða af henni, en krafan hefur númerið CL20091127-5883 í kröfuskrá varnaraðila.
Í öðru lagi gerir sóknaraðili kröfu um viðurkenningu á rétti til að fá greidda innstæðu að fjárhæð 160.000.000 krónur, ásamt nánar greindum vöxtum og kostnaði. Fyrir liggur að umræddir peningar voru lagðir inn á handveðsettan vörslureikning hjá varnaraðila sem veð undir lánssamning málsaðila en í margnefndu samkomulagi aðila var mælt fyrir um þessa veðsetningu en einnig að lántaka samkvæmt samkomulaginu bættist við lán samkvæmt eldri lánssamningi og þar með einnig veðið. Ekki er nægilega upplýst hver veðstaða er á umræddu láni til að fallast megi á kröfuna. Var einnig komist að þeirri niðurstöðu hér að framan að umrætt samkomulag aðila væri gilt. Þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar eru ekki efni til að fallast á nefnda kröfu eða fylgikröfur hennar, en krafan hefur númerið CL-20091127-5869 í kröfuskrá varnaraðila.
Í þriðja lagi gerir sóknaraðili kröfu um viðurkenningu á rétti til greiðslu að fjárhæð 74.750.000 krónur, ásamt nánar greindum vöxtum, en það sé fjártjón hans vegna þess að varnaraðili hafi ranglega meinað honum að selja valréttarsamning um hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Hafi hann óskað eftir sölu valréttarins 1. júlí 2008 en verið hafnað með tölvupósti frá starfsmanni varnaraðila. Í þeim pósti hafi komið fram að valrétturinn væri ekki veðsettur en hins vegar séu skilmálar skýrir um skuldajöfnunarrétt bankans milli einstakra viðskipta sama viðskiptamanns, ef einn sé í tapi en annar í plús. Sóknaraðili kveður að þar sem fram komi í samkomulagi aðila frá 11. september að umræddur valréttarsamningur sé óveðsettur og sóknaraðila til frjálsrar ráðstöfunar að þá hafi hann ávallt verið það og varnaraðili hafi því með ólögmætum hætti hindrað sig við að selja umrædd réttindi en þau hafi skömmu síðar orðið verðlaus. Fallist er á með varnaraðila að umræddur tölvupóstur verður ekki talinn fela í sér ólögmæta neitun á ráðstöfun umrædds valréttarsamnings, enda upplýsingarnar í samræmi við ákvæði viðskiptaskilmála sem óumdeilt er að voru í gildi milli aðila. Kemur enda ekkert fram um að sóknaraðili hafi átt í frekari samskiptum vegna sölu á umræddum valrétti. Þá verður og að fallast á með varnaraðila að af því ákvæði í samkomulagi aðila er mælir fyrir um ráðstöfunarrétt á valréttarsamningnum verður ekki dregin ályktun um heimildir til að ráðstafa honum fyrir gerð samkomulagsins. Þá liggur ekki fyrir verðmat á umræddum samningi þann 11. september 2008, en ekki verður talið að sú staðreynd að umræddur valréttarsamningur varð verðlaus í byrjun októbermánaðar við fall Kaupþings banka hf. verði talin sök varnaraðila. Þegar af framangreindum ástæðum verður nefndri kröfu sóknaraðila sem og fylgikröfum hennar hafnað, en krafan ber númerið CL20091127-5875 í kröfuskrá varnaraðila.
Í fjórða lagi krefst sóknaraðili viðurkenningar á rétti sínum til greiðslu 668.780.000 króna, ásamt nánar greindum vöxtum, vegna þess að eignarhlutur hans í breska félaginu Metrobet Racing Limited varð að hans sögn verðlaus. Kveðst sóknaraðili hafi farið þess á leit við varnaraðila í októbermánuði 2008 að fá að nýta 85-90 milljónir króna af handveðsettu lausafé sínu til að styrkja félagið. Þessu hafi varnaraðili hafnað en það hafi leitt til þess að eignarhlutur sóknaraðila hafi orðið verðlaus. Fallist er á með varnaraðila að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að á varnaraðila hafi hvílt skylda að lögum til að leysa umrædda fjármuni úr veðböndum til að nýta mætti þá í þessu skyni. Fullyrðingar sóknaraðila um að veðþekja samkvæmt lánssamningi aðila hafi á umræddu tímabili verið yfir umsömdum lágmarksmörkum eru ekki studdar fullnægjandi gögnum, enda verður að hafa í huga að ekki væri sjálfgefið þó svo hefði verið að á varnaraðila hefði hvílt skylda til að aflétta veði af einhverjum verðmætum. Þá verður einnig að líta til þess að sóknaraðili hefur ekki með fullnægjandi hætti rennt stoðum undir þær fullyrðingar sínar að framlagning umræddra fjármuna hefði varið eignarhlut hans. Liggja ekki fyrir fullnægjandi gögn í málinu varðandi rekstur og verðmæti umrædds félags til að það gæti talist sannað að framlagning umræddra fjármuna hefði forðað því tjóni sem sóknaraðili kveðst hafa orðið fyrir. Þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar verður umræddri kröfu, ásamt fylgikröfum hennar, hafnað, en krafan hefur númerið CL-20091127-5913 í kröfuskrá varnaraðila.
Þegar af þeirri ástæðu að kröfur sóknaraðila hafa að engu leyti verið teknar til greina eru ekki skilyrði til fjalla um kröfu hans um viðurkenningu á heimild til skuldajafnaðar.
Í ljósi framangreindra málsúrslita verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn með þeirri fjárhæð sem greinir í dómsorði. Hefur við þá ákvörðun verið tekið mið af umfangi málsins, útlögðum kostnaði varnaraðila og einnig hefur verið tekið tillit til skyldu hans til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Framangreindum kröfum sóknaraðila, Alnusar ehf., á hendur varnaraðila Glitni hf. er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 850.000 krónur í málskostnað.
Halldór Björnsson