Hæstiréttur íslands

Mál nr. 674/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögbann
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                                                                              

Föstudaginn 13. janúar 2012.

Nr. 674/2011.

 

Héðinshöfði ehf.

(Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.)

gegn

Laxnesbúinu ehf.

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

 

Kærumál. Lögbann. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun máls frá Hæstarétti.

 

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu L ehf. um að sýslumaður skyldi leggja lögbann við því að H ehf. seldi, veðsetti eða leigði jörðina Laxnes 2 í Mosfellsbæ og þrjár landspildur í landi jarðarinnar, en sýslumaður hafði áður synjað um það. Hæstiréttur vísaði til þess að samkvæmt gögnum sem lögð voru fyrir réttinn hefði sýslumaður tekið á ný fyrir kröfu L ehf. um lögbann og lagt það á sama dag og hinn kærði úrskurður var upp kveðinn. Þá segir meðal annars í dómi Hæstaréttar að gerðarbeiðandi gæti krafist úrlausnar héraðsdómara um ákvörðun sýslumanns um synjun lögbanns, sbr. 1. mgr. 33. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., og með gagnályktun frá því ákvæði yrði sú ákvörðun sýslumanns að leggja lögbann við athöfn ekki borin undir dóm. Á hinn bóginn væri ekki girt fyrir í 1. mgr. 35. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, að úrskurði héraðsdóms, þar sem tekin hefði verið til greina krafa gerðarbeiðanda um að lögbann yrði lagt á, yrði skotið til Hæstaréttar. Kæra frestaði því þó almennt ekki að svo væri gert, sbr. 3. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989. Þar sem lögbannið hefði þegar verið lagt á skorti H ehf. lögvarða hagsmuni af því að hinn kærði úrskurður kæmi til endurskoðunar. Var málinu því vísað frá réttinum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. desember 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2011, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sýslumaður skuli leggja lögbann við því að sóknaraðili selji, veðsetji eða leigi jörðina Laxnes 2 í Mosfellsbæ, með fastanúmerið 208-2135 og landnúmerið 123695. Ennfremur þrjár landspildur í landi jarðarinnar, með fastanúmerið 208-5023 og landnúmerið 125588, fastanúmerið 208-5024 og landnúmerið 125589 og fastanúmerið 208-5025 og landnúmerið 125592. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi þannig að hafnað verði kröfu varnaraðila um lögbann við áðurgreindum athöfnum. Til vara krefst sóknaraðili þess, verði fallist á kröfu varnaraðila um lögbann, að honum verði gert að setja tryggingu að fjárhæð 70.000.000 krónur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Hinn 24. ágúst 2011 hafnaði sýslumaðurinn í Reykjavík kröfu varnaraðila um að leggja lögbann við því að sóknaraðili selji, veðsetji, leigi eða nýti jörðina Laxnes 2 í Mosfellsbæ og þrjár framangreindar landspildur í landi hennar. Eins og að framan greinir var með hinum kærða úrskurði fallist á kröfu sóknaraðila um að lögbann skyldi lagt á, þó að því undanskildu að ekki þóttu efni til að leggja lögbann við nýtingu landsins.

Samkvæmt gögnum sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt tók sýslumaðurinn í Reykjavík 6. desember 2011 fyrir á ný kröfu varnaraðila um lögbann. Við þá fyrirtöku var meðal annars bókað: „Lögmaður gerðarbeiðanda ítrekar kröfu sína um að lögbann verði lagt á í samræmi við framlagðan [úrskurð] héraðsdóms. Lögmaður gerðarþola gerir ekki athugasemdir við að lögbann verði lagt á í samræmi við [úrskurð] héraðsdóms. Lögmaður gerðarþola lýsir því yfir að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur hafi verið kærður til Hæstaréttar. Með vísan til [úrskurðar] Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. nóvember 2011 ... leggur sýslumaðurinn í Reykjavík nú lögbann við því að gerðarþoli, Héðinshöfði ehf., selji, veðsetji eða leigi jörðina Laxnes 2, Mosfellsbæ, með fastanúmerið 208-2135 og landnúmerið 123695 og þrjár landspildur, eina með fastanúmerið 208-5023 og landnúmerið 125588, aðra með fastanúmerið 208-5024 og landnúmerið 125589, og þá þriðju með fastanúmerið 208-5025 og landnúmerið 125592 í landi Laxness 2, Mosfellsbæ. Mættum er kynnt efni þessarar bókunar sem ekki er gerð athugasemd við.“ Varnaraðili fékk útgefna réttarstefnu 12. desember 2011 í máli til staðfestingar lögbanninu, jafnframt því sem hann gerði þar kröfur á hendur sóknaraðila um ógildingu fjögurra tilgreindra löggerninga.

Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 31/1990 getur gerðarbeiðandi krafist úrlausnar héraðsdómara um ákvörðun sýslumanns um synjun lögbanns. Með gagnályktun frá því ákvæði verður sú ákvörðun sýslumanns að leggja lögbann við athöfn ekki borin undir dóm. Á hinn bóginn er ekki girt fyrir í 1. mgr. 35. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989, að úrskurði héraðsdómara, þar sem tekin hefur verið til greina krafa gerðarbeiðanda um að lögbann verði lagt á, verði skotið til Hæstaréttar, sbr. dóm Hæstaréttar 20. september 2010 í máli nr. 528/2010. Kæra frestar því þó almennt ekki að svo verði gert, sbr. 3. mgr. 91. gr. síðarnefndu laganna.

Samkvæmt framansögðu hefur hið umþrætta lögbann þegar verið lagt á. Af þeim sökum hefur sóknaraðili ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að úrskurður héraðsdóms komi til endurskoðunar, en á gildi lögbannsins mun reyna í máli því sem varnaraðili hefur höfðað til staðfestingar lögbanninu eftir reglum VI. kafla laga nr. 31/1990. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, Héðinshöfði ehf., greiði varnaraðila, Laxnesbúinu ehf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2011.

Þetta mál, sem var tekið til úrskurðar 27. október sl., barst dóminum 19. september 2011. Það er höfðað af Laxnesbúi ehf. á hendur Héðinshöfða ehf.

Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir Sýslumanninn í Reykjavík, í lög­banns­máli nr. L-24/2011, að leggja lögbann við því, að Héðinshöfði ehf., selji, veð­setji, leigi eða nýti jörðina Laxnes 2, Mosfellsbæ, með fastanúmerið 208-2135 og land­númerið 123695 og þrjár landspildur, eina með fastanúmerið 208-5023 og land­númerið 125588, aðra með fasta­númerið 208-5024 og landnúmerið 125589, og þá þriðju með fastanúmerið 208-5025 og landnúmerið 125592 í landi Laxness 2, Mosfellsbæ.

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu út hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði sú ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, dags. 24. ágúst 2011, að hafna kröfu sóknaraðila um lögbann.

Varnaraðili krefst þess til vara, verði fallist á kröfu sóknaraðila, að honum verði gert að leggja fram tryggingu að fjárhæð 70.000.000 kr.

Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu.

Málsatvik frá sjónarhóli sóknaraðila

Sóknaraðili segir málavexti þá, að með kaupsamningi, 27. janúar 2006, hafi Héðins­höfði ehf., kt. 580180-0439, selt Mostri ehf., kt. 490905-1700, 70% hluta­fjár í Laxnesbúinu ehf., kt. 631090-2069, á 201.600.000 krónur. Eftir söluna hafi hlut­hafar Lax­nes­búsins ehf. verið tveir, Héðinshöfði ehf. sem átti 30% og Mostur ehf. sem átti 70% hluta­fjár.

Sama dag og þessi kaupsamningur var gerður hafi félögin tvö gert með sér hlut­hafa­samkomulag. Í því sé meðal annars ákvæði um að í stjórn félagsins skuli vera þrír menn, tveir tilnefndir af Mostri ehf. og einn til­nefndur af Héðins­höfða ehf. Jafn­framt eigi að vera þrír menn í varastjórn tilnefndir á sama hátt. Ný stjórn hafi verið kjörin í samræmi við hlut­hafa­sam­komu­lagið og tilkynning send fyrirtækjaskrá ásamt fund­ar­gerð.

Eina eign Laxnesbúsins ehf. hafi verið jörðin Laxnes 2, Mosfellsbæ og þrjár spildur úr landi jarðarinnar. Hafi eignir félagsins verið metnar á 550.633.461 kr. í árs­reikn­ingi félagsins árið 2008.

Eigendaskipti hafi orðið að öllu hlutafé í Mostri ehf. snemma árs 2009 þegar Háskólinn á Bifröst hafi keypt allt hlutaféð af Nýsi ehf. Þeir stjórnarmenn, sem hafi setið í stjórn Laxnesbúsins ehf. fyrir hönd Mosturs ehf., hafi sagt sig úr stjórn í kjölfar þess að allt hlutafé í Mostri ehf. var selt Háskólanum á Bifröst.

Skömmu eftir afsögn stjórnarmanna í Laxnesbúinu ehf. hafi Jón Baldvins­son, sem hafi setið í stjórn Laxnesbúsins ehf. fyrir hönd Héðinshöfða ehf., tilkynnt fyrir­tækja­skrá ríkis­skattstjóra nýja stjórn í félaginu. Tilkynningin sé dag­sett 26. mars 2009 og þar greint frá því að á fundi í félaginu, sama dag, hafi Jón Bald­vins­son verið kjör­inn stjórn­ar­formaður og Gerður Jónsdóttir og Ríkharður Rík­harðs­son kjörin með­stjórn­endur. Varamenn hafi verið kjörnar Signý Jóhanns­dóttir og Helen S. Færseth. Allt þetta fólk hafi undirritað tilkynningu til fyrir­tækja­skrár. For­svars­menn Mosturs ehf., stjórnendur Háskólans á Bifröst, hafi aldrei verið boðaðir til þessa hlut­hafa­fundar og hafi hann því verið ólögmætur með öllu og sú stjórn, sem var kjörin, umboðs­laus. Í bréfi Björns L. Bergssonar hrl., lögmanns Háskólans á Bifröst, dags. 29. mars 2011, komi fram að á þeim tíma sem Háskólinn á Bifröst átti allt hlutafé í Mostri ehf., hafi fyrir­svarsmenn skólans aldrei verið boðaðir til hlut­hafa­funda í Laxnesbúinu ehf, hvorki aðal­funda né annarra funda.

Hinn 6. apríl 2009 hafi hin nýtilkynnta stjórn í Laxnesbúinu ehf. afsalað öllum eignum félagsins til Héðinshöfða ehf., félags í eigu Jóns Baldvinssonar, án endur­gjalds. Hafi það verið gert með tveimur afsölum. Í öðru þeirra sé afsalað eignarhluta Lax­nes­búsins ehf. í jörðinni Laxnesi 2, Mosfellsbæ, með fastanúmer 208-2135 og land­númer 123695 og í hinu sé afsalað þremur landspildum í landi Laxness 2, einni með fasta­númer 208-5023 og landnúmer 125588, annarri með fastanúmer 208-5024 og land­númer 125589 og þeirri þriðju með fastanúmer 208-5025 og landnúmer 125592. Þessu til viðbótar hafi Héðinshöfði ehf., 7. apríl 2009, veitt Jóni Baldvinssyni for­kaups­rétt að eign­unum og að honum frágengnum hafi Ríkharður Ríkharðsson átt að fá for­kaups­rétt við sölu eignanna. Enn fremur hafi sjávarútvegs- og land­búnaðar­ráðu­neytið, að beiðni Héðinshöfða ehf., staðfest land­skipti jarðarinnar Laxness 2, með yfir­lýsingu, 23. mars 2011.

Að kröfu Mosturs ehf., eiganda 70% eignarhluta í Laxnesbúinu ehf., hafi efna­hags- og viðskiptaráðherra, 10. nóvember 2010, falið Þórarni Viðari Þórarins­syni hrl., að halda hluthafafund í Laxnesbúinu ehf. sem opinberum lögmanni á grund­velli laga um einkahlutafélög, sbr. 62. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Fund­inn, 3. febrúar 2011, hafi sótt, fyrir hönd Mosturs ehf., Þórarinn Jónasson, sem full­trúi Laxness ehf., kt. 520503-2850, sem hafi eignast allt hlutafé Mosturs ehf. með samn­ingi við Háskólann á Bifröst, og með honum Jón Gunnar Zoëga hrl. og Haukur Hilmar Þórar­ins­son. Fyrir hönd Héðinshöfða ehf. hafi sótt fundinn Jón Bald­vins­son og með honum Ágúst Þórhalls­son hdl. Jón hafi lagt fram bókun þar sem hann hafi ekki talið Mostur ehf. löglegan eiganda að 70% hlutafjár í Laxnesbúinu ehf. Þórarinn Viðar Þórarinsson hrl. hafi úrskurðað að fundur­inn hefði verið löglega boð­aður og að rétti­lega væri mætt fyrir hönd hluthafa félagsins. Að svo búnu hafi Jón Bald­vins­son og Ágúst Þórhallsson hdl. vikið af fundi. Þá hafi verið gengið til stjórnar­kjörs í félaginu og kjörnir í stjórn þess: Jón Gunnar Zoëga hrl., Þórarinn Jónasson, og Haukur Hilmar Þórarinsson en til vara hafi verið kjörin Örn Ingólfs­son og Þórunn Lára Þórar­ins­dóttir.

Nýkjörin stjórn Laxnesbúsins ehf. telji allar gjörðir þeirrar stjórnar er kjörin var og tilkynnt 26. mars 2009, ólögmætar með öllu. Ekki hafi verið boðað til hlut­hafa­fundar í félaginu heldur hafi Jón Baldvinsson ákveðið upp á sitt eindæmi að skrá hlut­hafa­fund og skipta um stjórn í félaginu. Þessar gjörðir hans séu gróft brot gegn því hlut­hafa­sam­komu­lagi sem hafi verið í gildi og ákvæðum laga um einka­hluta­félög nr. 138/1994, en honum hafi borið samkvæmt 2. mgr. 40. gr., sbr. og 62. og 63 gr., að sjá til þess að kjörnir væru nýir stjórnar­menn í félaginu, boða til hlut­hafa­fundar í því skyni og fara eftir sam­þykktum félagsins við boðun til fundarins en Jón Bald­vins­son hafi verið eini stjórnar­maður félagsins eftir úrsögn þeirra sem með honum sátu í stjórn þess fram að því að Háskólinn á Bifröst eignaðist allt hlutafé í Mostri ehf. Þá séu ólög­mætar þær aðgerðir hans að afsala Héðins­höfða ehf., án endur­gjalds, þeim eignum sem Laxnes­búið ehf. átti. Hann, sem eigandi Héðinshöfða ehf., hafi ekki getað tekið þátt í afgreiðslu máls­ins, sbr. 51. gr. laga nr. 138/1994 um einka­hlutafélög. Þá telji sókn­ar­aðili þessar aðgerðir hans til þess gerðar að skaða Mostur ehf. sem eigi 70% hluta­fjár í Laxnes­búinu ehf., en með afsali eignanna, hafi verið ráðstafað, án endur­gjalds, eignum sem metnar voru á 550 milljónir króna í árs­reikningi félagsins. Muni stjórn Laxnesbúsins ehf. kæra þá, sem að þessu stóðu, fyrir brot gegn almennum hegn­ingar­lögum nr. 19/1940.

Laxnesbúið ehf. muni höfða dómsmál á hendur Héðinshöfða ehf., Jóni Bald­vins­syni og Ríkharði Ríkharðssyni til ógildingar á eftirtöldum afsölum og yfir­lýs­ingum sem þinglýst hafi verið á þær eignir sem afsalað var til Héðinshöfða ehf.

1.         Afsal dags. 6. apríl 2009 frá Laxnesbúinu ehf. til Héðinshöfða ehf., kt. 580180-0439, á eignarhluta í jörðinni Laxnesi 2, Mos­fells­bæ, með fastanúmer 208-2135 og land­númer 123695. Afsalið hafi verið móttekið til þing­­lýsingar 6. apríl 2009 og innfært 7. apríl 2009, merkt nr. 411-T-003489/2009.

2.         Afsal dags. 6. apríl 2009 frá Laxnesbúinu ehf. til Héðinshöfða ehf., kt. 580180-0439, á þremur landspildum með fastanúmer 208-5023 og landnúmer 125588, fasta­númer 208-5024 og landnúmer 125589, og fastanúmer 208-5025 og land­númer 125592 í landi Laxness 2, Mosfellsbæ, ásamt öllu er þeim eign­ar­hlutum fylgir og fylgja ber, að engu undanskildu, þar með talið lóðarréttindum. Afsalið hafi verið mót­tekið til þinglýsingar 6. apríl 2009 og innfært 8. apríl 2009, merkt nr. 411-T-003490/2009.

3.         Yfirlýsingu, dags. 7. apríl 2009, móttekna til þinglýsingar, 5. maí 2009, merkta 411-T-004392, þar sem Héðinshöfði ehf. veiti Jóni Baldvinssyni for­kaups­rétt að eignum með fastanúmer 208-2135, 208-5023, 208-5024 og 208-5025 og að honum frágengnum Ríkharði Ríkharðssyni forkaupsrétt við hverja sölu á eign­unum.

4.         Yfirlýsingu, dags. 23. mars 2011, móttekna til þinglýsingar, 25. mars 2011, inn­færða 29. apríl 2011, merkt 411-U-002182, um skiptingu jarðarinnar Laxness 2 landnúmer 123695.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili telur afar brýnt að lagt verði lögbann við því að varnaraðili ráðstafi á einhvern hátt þeim eignum sem hann hafi komist yfir með ólögmætum aðferðum enda myndu slíkar ráðstafanir brjóta gegn lögvörðum rétti sóknaraðila. Varnar­aðili hafi orðið uppvís að mjög alvarlegum brotum gegn ákvæðum hluta­félaga­laga þar sem hann hafi ekki vílað fyrir sér að skipa einhliða stjórn í Laxnesbúinu ehf. þvert á ákvæði laga og hluthafasamkomulags og hafi svo afsalað einhliða öllum eignum Lax­nes­búsins ehf. til Héðinshöfða ehf. Þessi framkoma sýni að telja verði afar líklegt að hinum ólögmætu ráðstöfunum verði haldið áfram af hálfu varn­ar­aðila í því skyni að tryggja ólögmæta hagsmuni hans frekar. Þá sé vitað að varnaraðili hafi bæði reynt að selja og leigja þessar eignir og nýtt þær til beitar. Hafi hann meðal annars skipt upp jörðinni í þeim tilgangi. Af þessu sé ljóst að byrjuð sé eða yfir­vofandi sé athöfn varn­ar­aðila sem brjóti í bága við lögvarða hags­muni og rétt­indi sóknaraðila.

Með hliðsjón af framangreindu og gögnum málsins telji sóknaraðili öll skil­yrði 24. gr. laga nr. 31/1990 vera fyrir hendi og því beri að leggja lögbann við því að varn­ar­aðili ráðstafi eignunum á einhvern hátt enda sé hætta á því þar sem varnaraðili sé þing­lýstur eigandi eignanna á grundvelli ólögmætra afsala.

Ekkert í atburðarás málsins gefi tilefni til að trúa yfirlýsingum varnaraðila fyrir sýslu­manni um að hann muni ekki ráðstafa eignunum, heldur veiti ólög­mæti þeirra ráðstafana sem hann hafi þó staðið fyrir þvert á móti verulegar líkur fyrir frekari ráð­stöf­unum. Slíkar yfirlýsingar varnaraðila séu sóknaraðila haldlausar og geti ekki verið mál­efna­­legur grundvöllur fyrir því að hafna beiðni sóknaraðila.

Sóknaraðili telur einsýnt að réttindi og hagsmunir hans séu ekki nægjanlega tryggðir með réttarreglum um refsingar og skaðabætur, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Þau úrræði séu og verði tímafrek þar sem höfða þurfi skaða­bóta­mál og lög­regla þurfi að rann­saka ólögmætar athafnir áður en möguleg ákæra sé gefin út. Meðan á því standi geti varnaraðili hæglega gert ráðstafanir sem geti valdið sóknaraðila veru­legu tjóni. Fyrri hegðun varnaraðila sýni að í þeim efnum virðist engin tak­mörk gilda. Sú ákvörðun sýslumanns að hafna beiðni sóknaraðila sé því röng og þjóni ekki þeirri réttarvernd sem lögum um kyrr­setn­ingu, lögbann o.fl. sé ætlað að tryggja.

Eins og fram komi í endurriti úr gerðarbók Sýslumannsins í Reykjavík, dags. 24. ágúst sl., hafi sóknaraðili þegar lagt fram 2.500.000 krónur í tryggingu vegna lög­banns­beiðni sinnar, sem sýslumaður hafi metið fullnægjandi, skv. 16. gr. laga nr. 31/1990. Hafi sóknaraðili á allan hátt gætt að þeim formreglum sem um lögbanns­beiðni hans gilda.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili mótmælir því að það hafi verið ólögmætt að selja Héðinshöfða ehf. hinar umdeildu landspildur. Stjórn Laxnesbúsins ehf. hafi á þeim tíma verið réttilega kjörin og ekkert liggi fyrir um meint ólögmæti þeirra gern­inga annað en fullyrðingar sókn­ar­aðila. Lögleg stjórn hafi verið skipuð í Laxnesbúinu ehf. í apríl 2009. Hafi meiri­hluta hennar verið heimilt að selja Héðinshöfða ehf., landið enda hafi tveir stjórn­ar­menn þegar verið fyrir í stjórninni. Söluverð hafi verið töluvert hærra en verð­mat kröfuhafa Nýsis hf. frá árinu 2009 gerði ráð fyrir.

Málsaðila greini á um hver sé réttur eigandi hlutabréfa í Laxnesbúinu ehf. Samkvæmt hluthafasamkomulagi, frá 27. janúar 2006, hafi gamla Mostri ehf., kt. 490905-1700, borið að bjóða Héðinshöfða ehf. forkaupsrétt. Þetta hafi enn ekki verið gert. Mostur ehf. hafi nú kt. 661109-1220 og sé þar af leiðandi nýr eigandi að hluta­bréf­unum í Laxnesbúinu ehf., án þess að Héðinshöfða ehf., hafi nokkurn tíma verið boð­inn forkaupsréttur eins og hluthafasamkomulag kveði á um. Sóknar­aðili byggi þess vegna á því að Mostur ehf., kt. 661109-1220, sé ekki réttmætur eigandi hluta­bréf­anna, og sökum þess sé núverandi stjórn Laxnesbúsins ehf. ekki réttilega skipuð. Hún hafi hvorki umboð hluthafafundar til setu né uppfylli skilyrði fyrirliggjandi hlut­hafa­sam­komu­lags um samsetningu stjórnar með fulltrúum allra hluthafahópa. Varnaraðili hafi kært afskipti við­skipta- og efna­hags­ráðu­neytis af málinu og skipan stjórnar til fyrirtækjaskrár. Úrskurður hafi ekki enn verið kveðinn upp.

Varnaraðili byggir á því að skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1991 sé ekki fullnægt og því eigi sóknaraðili ekki rétt til að fá lögbann lagt á varnaraðila.

Varnaraðili telji sóknaraðila ekki hafa sannað eða gert senni­legt að athöfn brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, eins og 24. gr. áskilji. Hvíli aukin sönn­unar­byrði um þetta atriði á sóknaraðila. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins verði lög­bann aðeins lagt við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstakl­ings eða fyrir­svars­manns félags, sanni gerðarbeiðandi, eða geri sennilegt, að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfn­ina eða muni gera það, og að réttindi gerðarbeiðanda muni fara for­görðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau.

Með athöfn í skilningi ákvæðisins sé átt við virka aðgerð gerðarþola eða ástand sem sé afleiðing athafna hans. Sóknaraðili virðist í beiðni sinni búast við því að varn­ar­aðili selji, leigi eða nýti tilgreinda jörð og þrjár landspildur, án þess að færa með nokkru móti sönnur á það. Þannig hafi hann ekki sýnt með nokkrum hætti fram á að varnaraðili hafi boðið þessar fast­eignir til sölu og, eða leigu, eða að gerð samninga um slíka gerninga sé hafin, þrátt fyrir að í greinargerð sinni haldi hann því fram að „vitað sé“ að varnaraðili hafi reynt að selja og leigja eignirnar. Varnaraðili hafni því alfarið að landskipti á jörðinni séu einhvers konar sönnun um þessar meintu fyrirætlanir varn­ar­aðila. Þá liggi fyrir að eignirnar séu veðsettar langt umfram markaðsvirði, og erfitt sé eða ómögulegt fyrir varn­ar­aðila að selja eignirnar á meðan þær séu svo yfir­veð­settar. Loks hafi varnar­aðili lýst yfir því að hann hyggist ekki afsala, selja né leigja umræddar fasteignir á næstu misserum. Varnaraðili hafi lítið sem ekkert nýtt umræd­dar fasteignir undan­farin misseri, en hestaleiga, sem sé rekin meðal annars af einum stjórn­ar­manni sóknar­aðila, Þórarni Jónassyni, hafi, í óþökk varnaraðila sem land­eig­anda, nýtt fasteignirnar til haga­beitar fyrir allt að 70-80 hesta. Þessi nýting hafi hafist í fyrrahaust, en eftir afskipti lögreglu hafi verið látið af henni. Sams konar nýting undir beit hafi hafist í haust, án samþykkis varnaraðila. Hafi varnaraðili reynt að koma í veg fyrir þessi afnot, en enn sem komið er hafi honum ekki tekist að fá við­kom­andi aðila til að hætta að nýta fasteignina með þessum hætti. Varnaraðili byggi þó á því að jafn­vel þótt hann nýtti fasteignirnar með einhverju móti þá væri það ekki á neinn hátt skað­legt hags­munum sóknaraðila, í það minnsta ekki með þeim hætti að það rétt­læti að lögbann yrði lagt við nýtingunni.

Varnaraðili byggir jafnframt á því að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að lög­bann sé nauðsynlegt til að tryggja hagsmuni sóknaraðila, og að réttarreglur um refs­ingu eða skaðabætur tryggi hagsmuni sóknaraðila ekki nægjanlega. Hafi sóknar­aðili raunar ekki leitast við að tryggja hagsmuni sína með öðrum hætti, enda verði hvorki séð að hann hafi höfðað skaðabótamál gegn varnaraðila, né kært hann til lög­reglu fyrir refsi­verða háttsemi, né gert nokkuð annað það sem gæti orðið til þess að tryggja hags­muni hans. Beri sóknaraðila að leitast við að tryggja hagsmuni sína með öðrum leiðum sé það fært, enda hefði það veruleg áhrif á nýtingarmöguleika varnar­aðila á eignum sínum væri fallist á lögbannskröfu sóknaraðila.

Varnaraðili byggir kröfu sína einnig á því að hagsmunir hans séu miklum mun meiri en hagsmunir sóknaraðila af því að fá umkrafið lögbann. Einkum hafi sóknar­aðili nær enga hagsmuni af því að koma í veg fyrir nýtingu varnar­aðila á landinu með hefð­bundnum hætti.

Að auki byggir varnaraðili á því, vegna þessa, að í ljósi tómlætis sóknaraðila fram að þessu verði ekki fallist á að lögbann sé nauðsynlegt nú til að tryggja hagsmuni hans, en umræddum eignum hafi verið afsalað til varnaraðila í apríl 2009. Hafi sókn­ar­aðili frá þeim tíma ekkert aðhafst til að koma í veg fyrir leigu, sölu eða nýtingu jarð­anna, eða til að tryggja þau réttindi sem hann telji sig eiga að þessum eignum. Þannig hafi hann til að mynda ekki höfðað mál á hendur varnaraðila á þeim tíma sem sé liðinn frá afsali eignanna.

Varnaraðili hafnar því að atburðarás málsins beri á einhvern hátt með sér vís­bend­ingar um að þær yfirlýsingar varnaraðila að hann muni ekki ráðstafa eignunum séu rangar og haldlausar. Með setningu núgildandi laga um lögbann hafi aukin sönn­unar­byrði verið lögð á gerðarbeiðanda um að sanna eða gera sennilegt að athöfn brjóti eða muni brjóta gegn rétti hans, og dugi almennar vísanir sóknaraðila í atvik máls ekki sem sönnun í þeim skilningi, enda ekkert í málsatvikum sem bendi til yfirvofandi leigu og, eða sölu á eignunum.

Varakröfu sína byggir varnaraðili á þeirri málsástæðu að verði fallist á lög­banns­kröfu sóknaraðila sé nauðsynlegt að setja tryggingu að fjárhæð 70.000.000 króna til að tryggja að varnaraðili bíði ekki tjón af lögbanni vegna mögulegs greiðslu­falls sókn­ar­aðila, enda sé varnaraðili eigandi að lágmarki að 30% þess lands sem um sé deilt. Taki fjárhæð umkrafinnar tryggingar mið af verðmæti landsins, en eignir félags­­ins, það er umræddar jarðir, hafi í ársreikningi félagsins verjið metnar á 550.663.461 kr. á árinu 2008. Varnaraðili byggir kröfu sína um málflutningsþóknun á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Sóknaraðili, Laxnesbúið ehf., félag í eigu Héðinshöfða ehf. að einum þriðja og Mosturs ehf. að tveimur þriðju, höfðar þetta mál til þess að fá lögbann lagt við því, að Héðinshöfði ehf., selji, veð­setji, leigi eða nýti jörðina Laxnes 2, Mosfellsbæ, með fasta­númerið 208-2135 og land­númerið 123695 og þrjár land­spildur með fastanúmerið 208-5023 og land­númerið 125588, fasta­númerið 208-5024 og landnúmerið 125589, og fasta­númerið 208-5025 og landnúmerið 125592 í landi Laxness 2, Mosfellsbæ.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. má leggja lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn sanni gerðarbeiðandi eða geri senni­legt að sú athöfn sem krafist sé lögbanns við brjóti eða muni brjóta gegn lög­vörðum rétti hans.

Sóknaraðili átti landið að Laxnesi 2 og þær þrjár landspildur sem fyrri stjórn hans afsalaði til Héðinshöfða ehf. Hann hefur leitt líkur að því að ráðstöfun þessara eigna félagsins til Héðinshöfða ehf. kunni að hafa farið á svig við lög. Því verður fallist á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta verði landinu og spildunum ráð­stafað frekar.

Sóknaraðili krefst lögbanns við því að varnaraðili hagnýti sér samning sem komst á með afsali jarðarinnar og spildnanna til varnaraðila. Samkvæmt framlagðri yfir­lýsingu sjávarútvegs- og land­búnaðar­ráðu­neytisins stað­festi það, 23. mars 2011, land­skipti jarðarinnar Laxness 2 að beiðni varnaraðila, Héðins­höfða ehf. Að mati dóms­ins veitir þessi beiðni varnaraðila, um formlega skiptingu landsins, veru­legar líkur fyrir því að sá ásetningur sé mótaður hjá fyrirsvarsmanni sóknaraðila að hagnýta sér afsals­gerningana og ráð­stafa land­inu frekar.

Fyrirsvarsmaður varnaraðila varð ekki við þeirri áskorun sóknaraðila að koma fyrir dóm til að gefa skýrslu. Þess í stað lagði hann fram yfirlýsingu, dags. 20. október sl., þess efnis að varnar­aðili, Héðinshöfði ehf., hefði engin áform um að selja, veð­setja, eða leigja út jörðina Laxnes 2, Mosfellsbæ, og þrjár spildur úr landi jarðarinnar. Að mati dómsins veitir þessi yfirlýsing ekki neina tryggingu fyrir því að varnaraðila muni ekki snúast hugur og hann breyta áformum sínum. Því verður ekki talið að hún vegi þyngra en beiðni hans um formlega skiptingu landsins og hnekki þeim líkum fyrir yfir­vofandi ráð­stöfun, svo sem sölu, veðsetningu eða leigu, sem formleg lands­skipti veita. Því er fallist á það að ráðstöfun landsins og spildnanna vofi að óbreyttu yfir.

Að mati dómsins munu skaðabætur ekki augljóslega bæta hugsanlegt tjón sókn­ar­aðila að fullu fengi varnaraðili að ráðstafa eignunum að sinni vild. Hugsanlegar refs­ingar munu ekki heldur bæta tjón sóknaraðila. Jafnframt hefur sóknaraðili mun meiri hagsmuna að gæta af því að koma í veg fyrir frekari ráðstöfun landsins en varn­ar­aðili af því að fá að ráðstafa því.

Ekki er vitað hvenær núverandi stjórn sóknaraðila varð kunnugt um ráðstafanir fyrr­verandi stjórnar en ný stjórn var, eins og komið er fram, kjörin 3. febrúar 2011. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið samþykkti landskiptin 23. mars sama ár og sú yfirlýsing ráðuneytisins var færð í fasteignabók 29. apríl 2011. Í lög­bannsbeiðni, dags. 7. ágúst sl., lýsir sóknaraðili yfir að hann muni höfða dómsmál til rift­unar ráð­stöf­unar landsins til varnaraðila. Að mati dómsins hafa aðgerðir hans ekki tafist svo lengi að það geti haft þau áhrif að hafna beri kröfu hans.

Að mati dómsins hefur sóknaraðili gert sennilegt að frekari ráðstöfun landsins, svo sem með sölu, veðsetningu eða leigu, muni brjóta gegn rétti hans og að einhver slík ráðstöfun sé nægjanlega líkleg til þess að skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. teljist uppfyllt. Því verður fallist á þá kröfu sóknaraðila að lagt verði fyrir sýslumann að leggja lögbann við því að varn­ar­aðili ráðstafi landinu með sölu, leigu eða veðsetningu. Ekki þykir sér­stök þörf á að leggja lögbann við því að varnaraðili nýti landið þar til leyst hefur verið úr ágrein­ingi málsaðila um eignarrétt að því, enda er ekki annað komið fram en landið sé óskipulagt og óræktað.

Varnaraðili byggir varakröfu sína á þeirri málsástæðu að verði fallist á lög­banns­kröfu sóknaraðila sé nauðsynlegt að hann setji tryggingu að fjárhæð 70.000.000 króna til að tryggja að varnaraðili bíði ekki tjón af lögbanni vegna mögulegs greiðslu­falls sókn­ar­aðila, enda sé varnaraðili eigandi að lágmarki að 30% þess lands sem um sé deilt. Taki fjárhæð umkrafinnar tryggingar mið af verðmæti landsins, en eignir fél­ags­ins, jörðin og spildurnar þrjár, hafi í ársreikningi félagsins verið metnar á 550.663.461 kr. á árinu 2008.

Ekki er unnt að fallast á þá málsástæðu varnaraðila að verði afsals­gern­ing­unum rift þá sé hann eigandi 30% þess lands sem þeir taka til. Verði afsals­gern­ing­unum rift er landið aftur komið í 100% eigu sóknaraðila, Laxnesbúsins ehf. Varnar­aðili á 30% af hlutafé í félaginu Laxnesbúið ehf. en hann á ekki 30% af eigum Lax­nes­búsins ehf. fari svo að eigna­yfirfærslunni verði rift.

Framlögð gögn sýna að Landsbankinn á veð í eignunum og verður ekki annað ráðið en það sé til að tryggja skuld Mosturs ehf. við bankann en ekki skuld sóknar­aðila. Sóknaraðili hefur þegar sett 2.500.000 króna tryggingu fyrir hugsanlegu tjóni varn­ar­aðila af lögbanninu. Þegar litið er til málsatvika þykir ekki þörf á því að sóknar­aðili setji frekari tryggingar.

Sóknaraðili þykir því hafa sýnt fram á að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. að frátöldu því að nýting landsins er ekki talin valda sóknaraðila tjóni. Af þeim sökum verður fallist á kröfu hans eins og nánar greinir i dómsorði.

Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrr­setn­ingu, lögbann o.fl., verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila 300.000 kr. í málskostnað.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

ÚRSKURÐARORÐ:

Sýslumaðurinn í Reykjavík skal leggja lögbann við því að varnaraðili, Héðins­höfði ehf., selji, veð­setji eða leigi jörðina Laxnes 2, Mosfellsbæ, með fasta­númerið 208-2135 og land­númerið 123695 og þrjár landspildur, eina með fasta­númerið 208-5023 og land­númerið 125588, aðra með fasta­númerið 208-5024 og landnúmerið 125589, og þá þriðju með fastanúmerið 208-5025 og landnúmerið 125592 í landi Laxness 2, Mosfellsbæ.

Varnaraðili greiði sóknaraðila, Laxnesbúinu ehf., 300.000 kr. í málskostnað.