Hæstiréttur íslands
Mál nr. 463/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Sjálfræðissvipting
Reifun
|
|
Miðvikudaginn 3. ágúst 2011. |
|
Nr. 463/2011. |
A (Steinbergur Finnbogason hdl.) gegn B C D og E (Leifur Runólfsson hdl.) |
Kærumál. Sjálfræðissvipting.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að A yrði sviptur sjálfræði í 12 mánuði á grundvelli b. liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. júlí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. júlí 2011, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í eitt ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Í báðum tilvikum krefst hann þóknunar til skipaðs verjanda.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og að þóknun talsmanns þeirra greiðist úr ríkissjóði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun Steinbergs Finnbogasonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda sóknaraðila, og Leifs Runólfssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs talsmanns varnaraðila, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. júlí 2011.
Með beiðni sem barst dóminum í gær hafa sóknaraðilar [...] krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að fósturfaðir og faðir þeirra, [...] verði sviptur sjálfræði tímabundið í eitt ár samkvæmt b. lið 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Steinbergur Finnbogason héraðsdómslögmaður var skipaður verjandi varnaraðila samkvæmt 3. mgr. 10. lögræðislaga nr. 71/1997. Varnaraðili mótmælti því að sjálfræðissviptingarkrafan næði fram að ganga. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi vegna aðildarskorts, en fóstursonur hans hafi upphaflega gert kröfuna einn og börn hans bæst við kröfuna í dag. Þá hafi þau ekki búið með honum í nokkur ár og séu því ekki hæf til að gera kröfuna. Til vara krefst hann þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað, en til þrautavara að sjálfræðissviptingunni verði markaður eins stuttur tími og mögulegt sé, eða sex mánuðir.
Í beiðni sóknaraðila kemur fram að varnaraðili sé langt leiddur af áfengissýki og fylgikvillum hennar. Hann hafi ekkert innsæi um afleiðingar áframhaldandi lífernis. Ljóst sé að hann geti ekki verið einn á heimili. Honum virðist einungis takast að halda sér frá áfengi ef vakað sé yfir honum og hann hindraður í að ná sér í áfengi.
Læknir varnaraðila, X læknir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hafi gefið út samskiptaseðil 12. júlí sl. þar sem fram komi að varnaraðili sé langt leiddur af áfengissýki og fylgikvillum hennar. Þá sé staðfest í skjalinu að varnaraðili sé heilsutæpur og að hann sé aldeilis óhæfur til að sjá um sjálfan sig. Hann hafi búið hjá sóknaraðila [...] og fjölskyldu hans í 5-6 vikur, en sé nú búinn að koma sér þar úr húsi. Hann hafi fengið vistunarmat og í framhaldinu verið lagður inn á [...] í lok júní. Hann hafi strokið þaðan 11. júlí sl.
Beiðni þessi sé sett fram með vísan til b. liðar 4. gr. lögræðislaga, en varnaraðili sé ófær um að sinna sínum málum í núverandi ástandi að mati sóknaraðila. Talið sé að með tilliti til hagsmuna varnaraðila sé nauðsynlegt að hann verði sviptur sjálfræði tímabundið, sbr. 5. gr. lögræðislaga, í eitt ár frá uppkvaðningu úrskurðar dómsins. Varðandi aðild er vísað til a. og c. liða 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.
Í framlögðum samskiptaseðli X, sérfræðings í heimilislækningum, segir meðal annars að varnaraðili hafi langvarandi áfengis- og geðvandamál. Telur hann varnaraðila ekki færan til að sjá um sig sjálfan og sé þar mikilvægast að halda honum frá áfengi. Það sé frekar drastisk aðgerð að loka hann inni til æviloka, en hins vegar sé greinilegt að hann sé aldeilis óhæfur til að sjá um sig sjálfur og vísar hann í því sambandi til læknabréfs frá geðdeild Landspítala, bráðamóttöku, þar sem hann hafi verið í viðtali 2. júní sl.
Í framlögðu læknisvottorði Z læknis kemur fram að varnaraðili hafi verið fluttur til meðhöndlunar á Bráðamóttöku í Fossvogi 13. júlí sl. Hann hafi verið í mjög slæmu ástandi í kjölfar drykkju og vannæringar. Augljóst sé af fyrri sögu varnaraðila að hann hafi lítið sem ekkert innsæi í sjúkdómsástand sitt og geri sér enga grein fyrir vandamálum sínum. Vandamál hans hafi magnast svo öll upp vegna áfengishneigðar og hafi komið upp nokkur alvarleg atvik þegar varnaraðili hafi verið undir áhrifum áfengis. Því sé ljóst að varnaraðili þurfi sviptingu sjálfræðis til að hægt sé að tryggja öryggi hans og einnig að aðstoða við hans sjúkdómsástand. Varnaraðili þurfi bráðasviptingu þannig að hægt sé að koma honum í vistunarúrræði og tryggja vistun hans þar. Hann eigi vistunarpláss á [...] en ekki sé hægt að flytja hann þangað fyrr en gengið hafi við frá sviptingu sjálfræðis.
Y geðlæknir gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvað varnaraðila hafa langa sögu um alkóhólisma og hafa verið til meðferðar og eftirlits á geðsviði Landspítala. Hann hafi farið þaðan í vor til vistunar á [...] þar sem búið hafi verið að fullreyna öll meðferðarúrræði og ljóst að hann þyrfti að vera á stofnun þar sem væri hægt að fylgjast með honum og veita honum stuðning og þjónustu allan sólarhringinn. Hann hafi verulega minnisskerðingu, bæði vegna alkóhólsnotkunar og vegna heilaskaða af völdum súrefnisþurrðar eftir kolmónoxíðeitrun 2008. Hann þurfi mikla aðstoð við daglegt líf. Hann gleymi að næra sig og drekka, fari ekki í sturtu, gleymi eldavélinni í gangi o.s.frv. Hann hafi verið á flækingi síðustu daga og verið fluttur á slysadeild í fyrradag í slæmu ástandi, þurr, illa nærður og illa áttaður. Varnaraðili sé algerlega innsæislaus í sjúkdóm sinn og geri sér enga grein fyrir þeirri þjónustuþörf sem hann sé í. Z lýsti sig sammála mati Z læknis um nauðsyn sjálfræðissviptingar. Vistun til langs tíma væri nauðsynleg. Búið sé að fullreyna allar meðferðir, minnisþjálfun, lyfjameðferð o.s.frv. Þörf væri á að tryggja öryggi varnaraðila og næringu. Þá myndi heilabilun hans versna með áframhaldandi áfengisdrykkju og því nauðsynlegt að koma í veg fyrir hana. Hann teldi reyndar að svipting til eins árs, eins og talið hefði verið rétt að fara fram á, ekki þjóna langtíma hagsmunum varnaraðila, en afar ólíklegt væri að ástand hans væri einhverju betra eftir eitt ár og því væri í raun þörf á ótímabundinni sviptingu.
Varnaraðili kom fyrir dóminn og lýsti því að hann teldi sig geta séð um sig sjálfur. Hann væri mjög ósáttur við kröfuna og mótmælti henni harðlega. Honum liði illa á [...], einkum vegna þess að hann hefði átt erfitt með svefn vegna óhljóða í öðrum vistmönnum. Minni hans væri að koma til baka, hann fyndi mun á sér dags daglega. Hann sæi ekki að áfengisneysla sín væri vandamál, en ef börn hans vildu að hann hætti að drekka gæti hann gert það.
Krafa þessi var sett fram af fóstursyni varnaraðila með vísan til c. liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga í gær. Í dag var dóminum send ný beiðni þar sem börn varnaraðila voru einnig skráð sóknaraðilar, sbr. a. lið 2. mgr. 7. gr. Þar sem börn varnaraðila eru næst erfingjar hans að lögum þykja þau réttir aðilar að beiðni þessari. Þykir það ekki varða frávísun málsins þótt þau hafi ekki verið skráðir aðilar málsins frá upphafi. Þá hafa þau öll náð 18 ára aldri og þykja því bær til þess að setja kröfuna fram.
Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið telur dómurinn að sýnt hafi verið fram á að varnaraðili sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum sjálfur í skilningi b. liðar 4. gr. lögræðislaga. Verður varnaraðili því sviptur sjálfræði til að tryggja megi öryggi hans og að hann njóti viðeigandi meðferðar við sjúkdómi sínum. Í ljósi framlagðs læknisvottorðs og framburðar Y læknis verður svipting sjálfræðis miðuð við eitt ár, sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga, svo sem krafist er.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist allur kostnaður vegna málsins úr ríkissjóði þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Steinbergs Finnbogasonar héraðsdómslögmanns og skipaðs talsmanns sóknaraðila, Leifs Runólfssonar héraðsdómslögmanns, eins og segir í úrskurðarorði.
Barbara Björnsdóttir settur héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ
[...] er sviptur sjálfræði tímabundið í eitt ár frá uppkvaðningu úrskurðar þessa að telja.
Þóknun talsmanns sóknaraðila, Leifs Runólfssonar héraðsdómslögmanns, og þóknun verjanda varnaraðila, Steinbergs Finnbogasonar héraðsdómslögmanns, að fjárhæð 87.850 krónur til hvors um sig greiðist úr ríkissjóði og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.