Hæstiréttur íslands

Mál nr. 244/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þjófnaður
  • Ákæra
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Föstudaginn 23

 

Föstudaginn 23. júní 2000.

Nr. 244/2000.

Ákæruvaldið

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

Heiðari Erni Tryggvasyni

(Hallvarður Einvarðsson hrl.)

                                              

Kærumál. Þjófnaður. Ákæra. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Úrskurður héraðsdóms um frávísun máls, þar sem H var ákærður fyrir þjófnað, var staðfestur með vísan til forsendna. Komst héraðsdómari að þeirri niðurstöðu að verulegur vafi léki á því að verðmæti muna, sem H var ákærður fyrir þjófnað á, væri meira en 7.000 krónur og því væru ekki lagaskilyrði fyrir málshöfðun, sbr. 2. mgr. 256. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem var í gildi þegar ætlað brot var framið.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. júní 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2000, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður úr ríkissjóði.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Allur kostnaður af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda varnaraðila, Hallvarðs Einvarðssonar hæstaréttarlögmanns, 25.000 krónur.

 

 

 

Úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 16. júní, 2000

 

                Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 8. júní sl. er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 2. maí 2000 á hendur ákærða, Heiðari Erni Tryggvasyni, kt. 010484-2359, Háaleitisbraut 121, Reykjavík, „fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 6. febrúar 2000, stolið minniskubbi og tveimur geisladiskum með hugbúnaði, samtals að verðmæti 10.970 kr., í versluninni BT tölvur, Skeifunni 11 í Reykjavík.

                Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”   

                Málið var þingfest 17. maí s.l. og við það tækifæri játaði ákærði sök.  Var málinu frestað til 30. sama mánaðar þar sem verjandi fékk gögn málsins fyrst í hendur við þingfestingu. Í því þinghaldi kom fram krafa af hálfu skipaðs verjanda ákærða um að málinu yrði vísað frá dómi.  Ennfremur krafðist verjandi þess að hæfileg málsvarnarlaun yrðu greidd úr ríkissjóði. 

                Af hálfu ákæruvaldsins var þess krafist að frávísunarkröfu verjanda yrði hafnað og málið tekið til almennrar meðferðar.  Fór fram flutningur um frávísunarkröfuna og var hún tekin til úrskurðar 8. júní sl.

                Verjandi byggir frávísunarkröfu sína á því að lagaskilyrði fyrir málshöfðun gegn ákærða séu ekki fyrir hendi.  Byggir hann á 2. mgr. 256. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um það að ef tjón af broti samkvæmt 244. gr. s.l. nemi ekki yfir 7.000 kr. og engin sérstök atvik auki saknæmi þess og sökunautur hafi ekki áður gerst sekur um auðgunarbrot skuli mál eigi höfðað nema almenningshagsmunir krefjist þess.  Verjandi benti á að rannsókn á því hvort tjón hafi hlotist af háttsemi ákærða hafi verið ófullnægjandi.  Þar hafi einungis verið haft eftir verslunarstjóra að verðmæti hlutanna sé það sem tilgreint er í ákæru.  Megi ætla að verslunarstjóri eigi við útsöluverð þeirra en með tjóni í þessu sambandi sé átt við þann kostnað sem er við að afla sér viðkomandi hluta að nýju.  Þá hafi verslunin ekki orðið fyrir tjóni þar sem hlutirnir hafi komist til skila en í tilvitnaðri lagagrein sé talað um tjón en ekki verðmæti.  Minnti verjandi á að tilgangur lagaákvæðisins hefði verið sá að ekki yrði gert refsimál undir kringumstæðum sem þessum nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

                Af hálfu ákæruvaldsins er því haldið fram að fari andvirði þess sem hnuplað er yfir 7.000 kr. beri að ákæra fyrir brot.  Því var mótmælt að rannsókn málsins hefði verið áfátt og bent á að ákærði hefði neitað að gefa skýrslu fyrir lögreglu.

 

Niðurstaða

                Málshöfðunarregla 1. mgr. 256. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hljóðar svo: „Nú hefur eitthvert brot verið framið, sem varðar við 244.-250. gr., 253. gr. eða 254. gr., en einungis er um smáræði að tefla, og má þá, ef sökunautur hefur ekki áður verið dæmdur fyrir auðgunarbrot, færa refsingu niður í sektir, eða jafnvel láta hana falla að öllu leyti niður.”  Jafnframt sagði í 2. mgr. sömu lagagreinar að: „Ef tjón af brotinu nemur ekki yfir 7000 krónum og engin sérstök atvik auka saknæmi þess og sökunautur hefur ekki áður reynst sekur um auðgunarbrot skal mál eigi höfðað nema almenningshagsmunir krefjist þess.”  Þessi málsgrein var felld úr gildi 9. maí þessa árs með 8. gr. laga nr. 39/2000.  Ákærði framdi brot sitt 6. febrúar sl. en þá var umrædd lagagrein enn í gildi.  Samkvæmt 2. gr. almennra hegningarlaga skal dæma eftir nýrri lögum hafi refsilöggjöf breyst frá því að verknaður var framinn þar til dómur gengur en þó má ekki dæma refsingu nema heimild hafi verið til þess í lögum þegar verk var framið.  Verður því að taka til athugunar eins og hér stendur á hvort heimild hafi verið til að höfða mál til refsingar gegn ákærða, sbr. þágildandi 2. mgr. 256. gr. almennra hegningarlaga.

                 Það er álit dómsins að um fullframið brot sé að ræða þrátt fyrir það að BT tölvur hafi endurheimt hina stolnu muni og hefði verslunin orðið fyrir tjóni í skilningi ákvæðis 2. mgr. 256. gr.  Verðmæti munanna er samkvæmt ákæru 10.970 kr. en mununum er lýst þar sem tveimur geisladiskum með hugbúnaði og minniskubbi.  Fyrir liggur lögregluskýrsla frá 6. febrúar sl.  Þar er því lýst að ákærði hefði verið með tvo Playstation tölvuleiki og einn Playstation minniskubb innanklæða.  Athugast að nokkuð skortir á nákvæmni ákæru að því er varðar lýsingu á andlagi brotsins miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir í lögregluskýrslu.  Í skýrslunni eru leikirnir sagðir að verðmæti 4.490 kr. hvor og minniskubburinn að verðmæti 1.990 kr. eða samtals 10.970 kr.  Kemur ekki fram í skýrslunni hvort verðmæti er miðað við heildsölu- eða smásöluverð en eins og atvik eru verður að reikna með því að þar hafi verið um smásöluverð að ræða.  Þá er engin nánari lýsing á tölvuleikjunum hvorki heiti þeirra eða innihald að neinu leyti.  Verður að telja að rannsókninni hafi verið verulega ábótavant að þessu leyti.  Lagðar hafa verið fyrir dóminn upplýsingar frá innflytjanda Playstation tölvuleikja og aukahluta, sbr. dómskjöl nr. 7. og 8.  Samkvæmt þeim upplýsingum er smásöluverð minniskubba 1.499 kr. með virðisaukaskatti og smásöluverð tölvuleikja frá 999 kr. með virðisaukaskatti.  Þá liggur fyrir ljósrit af auglýsingu frá BT tölvum þar sem verð tölvuleikja er auglýst frá 1.990 kr., sbr. dómskjal nr. 5.  Af upplýsingum þessum má ráða að samanlagt smásöluverð þeirra muna sem hnuplað var getur verið frá 3.497 kr. og upp úr allt eftir því um hvaða tölvuleiki er að ræða.  Þessar upplýsingar og það að rannsókn málsins er áfátt um tjón af umræddu broti valda því að fyrir dóminum leikur verulegur vafi á því hvort verðmæti umræddra muna liggi yfir þeim 7.000 króna mörkum sem tilgreind voru í þágildandi 2. mgr. 256. gr. almennra hegningarlaga.  Þá liggur fyrir að ákærði er með hreinan sakaferil og hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að almenningshagsmunir krefjist málshöfðunar.  Þykir skilyrðum áðurnefndrar lagagreinar því fullnægt og er orðið við þeirri kröfu verjanda að vísa máli þessu frá dómi samkvæmt 1. mgr. 128. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Málsvarnarlaun Hallvarðs Einvarðssonar hrl. skipaðs verjanda ákærða kr. 35.000, skal greiddur úr ríkissjóði en ekki verður séð að annan sakarkostnað hafi leitt af máli þessu.

Úrskurðarorð:

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hallvarðs Einvarðssonar hrl., kr 35.000 greiðist úr ríkissjóði.