Hæstiréttur íslands

Mál nr. 312/2006


Lykilorð

  • Aðild
  • Kröfugerð
  • Veðréttindi
  • Lögjöfnun
  • Málsástæða


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. desember 2006.

Nr. 312/2006.

Gunnlaugur Gestsson

(Valgeir Kristinsson hrl.)

gegn

Hákoni Hákonarsyni,

Kristínu Kristjánsdóttur,

Áslaugu Helgu Hálfdánardóttur og

Matthíasi Vilhjálmi Baldurssyni

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

 

Aðild. Kröfugerð. Veðréttur. Lögjöfnun. Málsástæður.

Við nauðungarsölu á helmings eignarhluta í tilgreindri fasteign í Kópavogi 5. febrúar 2004 lýstu samningsveðhafar fullri kröfufjárhæð samkvæmt heimildarbréfum sínum í þann eignarhluta hennar, þrátt fyrir að veðréttindi þeirra hefðu náð til fasteignarinnar í heild. Varð það til þess að G, sem átti aðfararveð í þeim helmingi eignarinnar sem seldur var, fékk ekki kröfu sína að fullu greidda af söluverði hans. Í málinu krafðist G viðurkenningar á rétti sínum til þess að ganga inn í veðrétt samningsveðhafanna í þeim helmingshluta fasteignarinnar, sem ekki var seldur, á grundvelli lögjöfnunar frá 2. mgr. 12. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Í dómi Hæstaréttar var talið að þau sjónarmið sem lægju til grundvallar nefndri lagagrein ættu jafnt við um rétt veðhafa sem byggði á aðfararveði og þess sem byggði veðrétt sinn á samningi. Í báðum tilvikum væri sama þörfin á að vernda veðhafann fyrir tilviljunarkenndum niðurstöðum af því hvernig fyrri veðhafar í eign, sem jafnframt ættu veðrétt í annarri eign, kysu að leita fullnustu fyrir sínum kröfum. Var því fallist á með G að skilyrði væru til að beita ákvæðinu með lögjöfnun um þann rétt sem hann leitaði viðurkenningar á. Samkvæmt því var krafa hans á hendur þinglýstum eigendum umræddrar fasteignar tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. júní 2006. Hann krefst þess í greinargerð til Hæstaréttar að stefndu verði gert að þola að fasteignin Roðasölum 20 í Kópavogi verði veðsett fyrir kröfu hans samkvæmt víxli útgefnum 7. september 2001 af stefnda Hákoni Hákonarsyni en samþykktum til greiðslu af Gunnari Jóhannssyni 11. mars 2002 í Sparisjóði Reykjavíkur. Gerir hann kröfu um að veðið verði til tryggingar kröfu að fjárhæð 3.158.924 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. febrúar 2004 til greiðsludags, að frádreginni greiðslu 10. febrúar 2005 að fjárhæð 184.104 krónur. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti gaf áfrýjandi þá skýringu á dómkröfu sinni að með henni leitaði hann viðurkenningar á að hann njóti, til tryggingar þeim hluta kröfu sinnar sem ekki fékkst greiddur af söluverði helmingshlutar fasteignarinnar Roðasalir 20 í Kópavogi við nauðungarsölu 5. febrúar 2004, réttar til að ganga inn í veðrétt sem fjórir tilgreindir veðhafar, sem úthlutun fengu á undan honum, nutu í hinum helmingi eignarinnar, en féll niður þegar þessir veðhafar fengu fullnustu krafna sinna af þeim eignarhelmingi sem seldur var nauðungarsölunni. Fjárhæð kröfu áfrýjanda sem viðurkenningin tekur til er tilgreind í kröfugerðinni að framan.

Krafan sem fram kemur í greinargerð áfrýjanda hljóðar um að umrædd fasteignin „verði veðsett“ fyrir kröfu hans. Með skýringunni hefur hann þrengt kröfuna í að vera viðurkenningarkrafa um þann rétt sem að framan greinir og var efnisþáttur í fyrri kröfu hans. Hefði þannig ekki verið unnt að leysa úr henni nema taka fyrst efnislega afstöðu til þess hvort hann nyti þess réttar sem viðurkenningin lýtur að. Af þessari ástæðu er fallist á að krafa áfrýjanda gangi til dóms samkvæmt þeirri skýringu sem hann hefur gefið á henni.

 Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verða stefndu, Hákon Hákonarson og Kristín Kristjánsdóttir, sýknuð af kröfu áfrýjanda.

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi lýstu samningsveðhafar við nauðungarsölu á helmingshluta í fasteigninni Roðasalir 20 í Kópavogi 5. febrúar 2004 fullri kröfufjárhæð samkvæmt heimildarbréfum sínum í þann eignarhluta hennar, þrátt fyrir að veðréttindi þeirra hafi náð til fasteignarinnar í heild. Varð það til þess að áfrýjandi, sem var uppboðsbeiðandi er átti aðfararveð í þeim helmingi eignarinnar sem seldur var, fékk ekki kröfu sína að fullu greidda af söluverði hans. Með málsókn sinni nú freistar áfrýjandi þess að fá dóm um viðurkenningu á rétti sínum til þess að ganga inn í veðrétt samningsveðhafanna í þeim helmingshluta fasteignarinnar, sem ekki var seldur, á grundvelli  lögjöfnunar frá 2. mgr. 12. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð.

Í  þessu lagaákvæði er að finna almenna reglu sem ætlað er að rétta hlut síðari samningsveðhafa í eign, þegar svo stendur á að veðhafi sem framar stendur í veðröð nýtir þann rétt sem greinir í 1. mgr. 12. gr. laganna og leitar fullnustu allrar kröfu sinnar í veðandlaginu, þó að hann njóti jafnframt veðtryggingar í annarri eign. Í athugasemdum við 2. mgr. 12. gr. sem fylgdu frumvarpi að lögunum segir meðal annars, að ætti val veðhafa samkvæmt 1. mgr. 12. gr. að ráða úrslitum um það, hver af fleiri eigendum eða fleiri veðþolum skuli að lokum bera byrðarnar af greiðslunni til veðhafa, mætti segja að tilviljun ein réði í þeim efnum. Reynt sé að koma í veg fyrir óheppilegar afleiðingar af valrétti kröfuhafa með því að mæla fyrir um reglur sem gilda skuli um eftirfarandi uppgjör.

Þau sjónarmið sem liggja til grundvallar 2. mgr. 12. gr. eiga jafnt við um rétt veðhafa sem byggir á aðfararveði og þess sem byggir veðrétt sinn á samningi. Í báðum tilvikum er sama þörfin á að vernda veðhafann fyrir tilviljunarkenndum niðurstöðum af því hvernig fyrri veðhafar í eign, sem jafnframt eiga veðrétt í annarri eign, kjósa að leita fullnustu fyrir sínum kröfum. Verður því fallist á með áfrýjanda að skilyrði séu til að beita ákvæðinu með lögjöfnun um þann rétt sem hann leitar viðurkenningar á. Samkvæmt þessu verður krafa hans á hendur þinglýstum eigendum umræddrar fasteignar, Áslaugu Helgu Hálfdánardóttur og Matthíasi Vilhjálmi Baldurssyni, tekin til greina á þann hátt sem í dómsorði greinir, en sérstök mótmæli þeirra við dráttarvaxtaþætti kröfugerðar áfrýjanda komu fyrst fram við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti og verður því ekki sinnt.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málskostnaður felldur niður fyrir báðum dómstigum.

Dómsorð:

Stefndu, Hákon Hákonarson og Kristín Kristjánsdóttir, eru sýkn af kröfu áfrýjanda, Gunnlaugs Gestssonar.

Viðurkennt er að áfrýjandi njóti gagnvart stefndu, Áslaugu Helgu Hálfdánardóttur og Matthíasi Vilhjálmi Baldurssyni, til tryggingar þeim hluta kröfu sinnar, sem ekki fékkst greiddur af söluverði helmingshlutar fasteignarinnar Roðasalir 20 í Kópavogi við nauðungarsölu 5. febrúar 2004, réttar til að ganga inn í veðrétt sem fjórir tilgreindir veðhafar, sem úthlutun fengu á undan honum, nutu í hinum helmingi eignarinnar en féll niður þegar þessir veðhafar fengu fullnustu krafna sinna af þeim eignarhelmingi sem seldur var. Krafan sem rétturinn tekur til nemur 3.158.924 krónum auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. febrúar 2004 til greiðsludags að frádreginni greiðslu 10. febrúar 2005 að fjárhæð 184.104 krónur.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 4. apríl 2006

Mál þetta, sem dómtekið var 31. mars sl., var höfðað 3. febrúar 2005.

Stefnandi er Gunnlaugur Gestsson, Hraunhvammi 2, Hafnarfirði.

Stefndu eru Hákon Hákonarson, Ólafsgeisla 1, Reykjavík, Kristín Kristjánsdóttir, Ólafsgeisla 1, Reykjavík, Áslaug Helga Hálfdánardóttir, Roðasölum 20, Kópavogi og Matthías Vilhjálmur Baldursson, Roðasölum 20, Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði gert að þola að þinglesinn eignarhluti Kristínar Kristjánsdóttur í fasteigninni Roðasölum 20 Kópavogi, sem er helmings eignarhluti, verði veðsettur fyrir kröfu stefnanda samkvæmt víxli útgefnum 7.9.2001 með gjalddaga 11.3.2002, útgefnum af stefnda Hákoni Hákonarsyni en samþykktum til greiðslu af Gunnari Jóhannssyni 11.3.2002 í Sparisjóði Reykjavíkur. Gerð er krafa til að veðið verði til tryggingar fjárhæð 3.158.924 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. febrúar 2004 til greiðsludags, að frádreginni greiðslu 184.104 krónur miðað við 10. febrúar 2005. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndu kröfðust þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en með úrskurði dómsins 28. september sl. var frávísunarkröfunni hrundið.

Stefndu krefjast nú öll sýknu af öllum kröfum stefnanda og jafnframt að stefnandi verði dæmdur til að greiðslu málskostnaðar.

Með úrskurði dómsins 16. júní sl. var kröfu stefnanda um að stefnu málsins yrði þinglýst hafnað. Með dómi Hæstaréttar Íslands 6. september 2005 var úrskurði héraðsdómara hnekkt og þinglýsing stefnu heimiluð.

I.

Helstu atvik eru þau að stefnandi gerði fjárnám í eignarhluta stefnda Hákonar í Roðasölum 20, Kópavogi á árinu 2002 samkvæmt víxli útgefnum 7.9.2001, með gjalddaga 11.3.2002, útgefnum af stefnda Hákoni Hákonarsyni, en samþykktum til greiðslu af Gunnari Jóhannssyni 11.3.2002 í Sparisjóði Reykjavíkur. Samkvæmt endurriti aðfarargerðarinnar nam krafan þá 2.481.269 krónum auk áfallandi vaxta og kostnaðar. Krafðist stefnandi síðan uppboðs á eignarhluta stefnda Hákonar, sem nam 50% í fasteigninni Roðasölum 20, Kópavogi. Hinn helmingur eignarinnar var þinglesin eign stefndu Kristínar, eiginkonu Hákonar. Nam krafan 2.881.774 krónum samkvæmt uppboðsbeiðni þann 26. ágúst 2003 en 3.158.924 krónum samkvæmt kröfulýsingu stefnanda þann 5. febrúar 2004 þegar eignin var seld nauðungarsölu.Við uppboðið lýstu allir veðhafar sem áttu veð í eignarhlutum beggja stefndu Hákonar og Kristínar eiginkonu hans kröfum sínum að fullu til greiðslu af uppboðsandvirðinu.

Með úthlutunargerð sýslumanns komu til úthlutunar 14.355.000 krónur og var samningsveðhöfum úthlutað að fullu lýstar kröfur þeirra þannig:

1. veðréttur. Íbúðalánasjóður                                                   9.282.695 krónur

2. veðréttur. Íslandsbanki hf.                                                   1.915.261 krónur

3. veðréttur. Lífeyrissjóðurinn Framsýn                                    1.654.785 krónur

4. veðréttur. KB banki hf.                                                             1.318.155 krónur.

Upp í lýsta kröfu stefnanda á 5. veðrétti, sem nam 3.158.924 krónum samkvæmt kröfulýsingu hans 5. febrúar 2004, komu einungis 184.104 krónur.

Veðhafarnir Íbúðalánasjóður og Lífeyrissjóðurinn Framsýn samþykktu síðar að lán þeirra mættu hvíla áfram á heildareigninni og taldi stefnandi að það ætti að leiða til breytingar við úthlutun uppboðsandvirðisins og að meta bæri þessar veðkröfur til helmings upphæðar á hvorum eignarhluta og þá jafnframt að greiða að fullu kröfu stefnanda.

Stefnandi skaut úthlutunarfrumvarpi sýslumanns til Héraðsdóms Reykjaness, sem með úrskurði 20. desember 2004 staðfesti úthlutunargerð sýslumanns. Stefnandi kærði þann úrskurð til Hæstaréttar, sem með dómi 19. janúar 2005 vísaði málinu frá héraðsdómi að því er varðaði varnaraðilana Hákon Hákonarson, Kristínu Kristjánsdóttur, en staðfesti úrskurð héraðsdóms að öðru leyti.

Stefndu Hákon og Kristín seldu stefndu Áslaugu og Matthíasi fasteignina Roðasali 20, Kópavogi með kaupsamningi 28. mars 2003 á 27.000.000 krónur og skyldi kaupverðið greitt með yfirtöku Íbúðasjóðsláns á 1. veðrétti að fjárhæð 9.106.900 krónur fyrir kaupendur og útborgun með peningum 17.983.100 krónur. Stefndu Áslaug og Matthías eru nú þinglýstir eigendur Roðasala 20.

II.

Af hálfu stefnanda er á því byggt, að með því að allar veðkröfur á 1.-4. veðrétti, sem áður getur, greiddust upp af uppboðsandvirði eignarhluta stefnda Hákonar, sem var 50% í Roðasölum 20, og þar sem veðskuldirnar voru tryggðar með veði í allri eigninni, telji stefnandi sig eiga rétt til veðtryggingar í hinum 50% eignarhlutanum, eignarhluta stefndu Kristínar, fyrir þeirri kröfu sem stefnandi tapaði við nauðungarsöluna á eignarhlut stefnda Hákonar, af þeirri ástæðu að veðhafar í allri eigninni fóru inn á helming eignarinnar við nauðungarsöluna. Allar þessar veðkröfur hafi verið með veði í allri eigninni og þeim verið lýst að fullu inn á veðrétt í eignarhluta stefnda Hákonar. Í kærumálum stefnanda fyrir Héraðsdómi Reykjaness og í Hæstarétti hafi því verið hafnað að breyta úthlutunargerð sýslumanns um að taka bæri einungis tillit til helmings fjárhæðar í kröfulýsingu veðhafa sem hvíla á undan fjárnámskröfu sóknaraðila sem heimiluðu áframhaldandi veðsetningu á báðum eignarhlutum þegar úthlutun var ákveðin og að þar með bæri að greiða uppboðskröfu stefnanda að fullu.

Þegar svo sé komið beri að heimila með lögjöfnun rétt stefnanda samkvæmt aðfarargerð hinn sama og samningsveðhafar eiga rétt á samkvæmt lagareglum um sameiginlegt veð í lögum um samningsveð, sbr. greinargerð með frumvarpi til þeirra laga, með lögjöfnun eftir atvikum í 12. gr. 2. mgr. laga nr. 75/1997 sem hljóðar svo: “Ef veðhafi hefur fengið fullnustu í einu veðandlaginu fyrir stærri hluta veðkröfunnar en þeim sem samkvæmt réttarsambandinu milli aðila skyldi falla á það veðandlag eiga aðrir veðhafar í því veðandlagi og eftir atvikum eigandinn sjálfur rétt til þess að ganga inn í veðréttinn í öðrum veðandlögum fyrir því sem umfram er”. Þessu lagaákvæði séu gerð ítarleg skil í greinargerð með frumvarpi með lögunum og sé þar að finna afgerandi lögskýringar um lagaregluna og endurkröfurétt veðþolanna sín í milli; og hvað verði um veðréttindi annarra kröfuhafa, þegar tiltekinn kröfuhafi leitar fullnustu í ákveðnu veðandlagi fyrir stærri hluta kröfu sinnar en á endanum hefði átt að lenda á því veðandlagi. Verður nánar vikið að greinargerð sem fylgdi framangreindum lögum eftir því sem tilefni gefst til í forsendum dómsins, en athugasemdirnar eru tíundaðar í stefnu.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að þau sjónarmið sem fram koma í lögum um samningsveð og heimildir til handa þeim sem skaðast við nauðungarsölu þegar svo stendur á að veðhafi sem á veð í hvort heldur í fleiri en einni fasteign eða fleiri en einum eignarhluta, veiti veðhafa rétt til að krefjast veðréttar í þeirri eign eða eignarhluta þess sem hagnast við uppgreiðslu eða kröfulýsingu til uppgreiðslu á láni sem er með veði í tveimur eignarhlutum. Lög um samningsveð veiti þeim, sem lakar stendur við nauðungaruppboð vegna þess að veðhafar á undan lýsa fullum kröfum í einn eignarhluta af tveimur, lögvernd samkvæmt lögunum til samningsveðhafa og að áliti stefnanda einnig aðfararveðhafa með lögjöfnun.

Sjónarmið stefnanda varðandi lögjöfnun séu þau sem gilda um lögfræðilegan grundvöll fyrir lögjöfnun almennt. Það er að aðstæður og hagsmunir séu sambærilegir hjá veðhöfum hvort sem veðhafi er aðfararveðhafi eða samningsveðhafi þegar svo stendur á sem greinir í 12. gr. laga um samningsveð. Ekki séu til lög um aðfararveð á því sviði sem lög um samningsveð fjalla um þegar veðhafi í fleiri en einni eign eða eignarhlutum nýtir einn eignarhluta og veldur veðhafa sem lakar stendur tjóni og hagnað eða öðrum eiganda veðs fyrir sömu kröfu auðgun að sama skapi.

Stefnandi kveður röksemdir sínar í öðru lagi vera þær að við uppboðið á Roðasölum 20 komi upp sú staða að heildareignin hafi verið seld stefndu Áslaugu Helgu og Matthíasi Vilhjálmi. Með uppboðsmálinu sem lauk með dómi Hæstaréttar liggi fyrir að eignahluti stefnda Hákonar sé að fullu greiddur með yfirtöku á öllum áhvílandi veðlánum. Kaupendur eigi eftir að greiða peningagreiðslu samkvæmt kaupsamningi til seljenda og því liggi fyrir að peningagreiðslur samkvæmt kaupsamningi renni til stefndu Kristínar. Stefnda Kristín auðgist því fyrir tilstilli uppboðsmálsins og með rökum 12. gr. laga um samningsveð beri því að heimila veðsetningu fyrir fjárnámskröfu stefnanda á eignarhlut hennar vegna auðgunar.

Ákvörðun samningsveðhafa að leyfa áframhaldandi veð í allri eigninni eftir uppboðið hafi þeir gert á þeirri forsendu að viðkomandi lán hvíli á eignarhlutum beggja eigenda. Hins vegar séu þessir eigendur búnir að ráðstafa kröfuréttindum sínum með þeim hætti svo bindandi sé, að þeir eiga greiðslurétt af uppboðsandvirði eignarhluta stefnda Hákonar og því hafi stefnda Kristín hagnast og auðgast við uppboðsaðgerðina. Ekki liggi fyrir hvort samningsveðhafar muni heimila áframhaldandi veðsetningu í allri eigninni, en stefnandi telji það engu breyta um rétt sinn til að fá viðurkenningu fyrir dómkröfum sínum.

Stefnandi færir þau lagarök fyrir kröfum sínum, að málið sé höfðað á grundvelli laga um samningsveð nr. 75/1997, 12. gr. 2. mgr. Krafist sé viðurkenningar á lögjöfnun frá þeim lögum við úrlausn málsins. Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr. einkum 1. tl. e, laga nr. 91/1991.

III.

Af hálfu stefnda Hákonar er sýknukrafa byggð á því að stefndi sé ekki eigandi að Roðasölum 20 í Kópavogi og eigi það eitt að leiða til sýknu með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Eigi hið sama við, að eigi sé á hans valdi eða objectivur ómöguleiki fyrir því, að hann geti efnt dómkröfur stefnanda eins og þær liggja fyrir. Kröfum sínum eigi stefnandi að beina að þeim aðilum sem séu réttir eigendur að eigninni, en stefndi falli ekki þar undir. Beri því að sýkna hann af kröfum stefnanda að öllu leyti.

Krafa um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr, sbr. 2. mgr. 132. gr. og 1. mgr. a og c liðum 131. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Af hálfu stefndu Kristínar er sýknukrafa byggð á því að stefnda sé ekki eigandi að Roðasölum 20 í Kópavogi sbr. afsal og að kaupverð sé að fullu greitt fyrir margt löngu og eigi það eitt að leiða til sýknu með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Eigi hið sama við, að eigi sé á hennar valdi eða objectivur ómöguleiki fyrir því, að hún geti efnt dómkröfur stefnanda eins og þær liggja fyrir. Kröfum sínum eigi stefnandi að beina að þeim aðilum sem séu réttir eigendur að eigninni, en ekki stefndu. Beri því að sýkna hana af kröfum stefnanda að öllu leyti.

Krafa um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr, sbr. 2. mgr. 132. gr. og 1. mgr. a og c liðum 131. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Sýknukröfu sína byggja stefndu Áslaug Helga og Matthías Vilhjálmur á því að dómkrafa stefnanda sé reist á aðfararkröfu, sem átti upphaflega stoð í víxilábyrgð stefnda Hákonar. Stefndi Hákon sé ekki eigandi að Roðasölum 20 í Kópavogi og stefndu beri ekki ábyrgð á skuldum hans. Það nægi eitt og sér til sýknu gagnvart stefndu með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndu hafi keypt eignarhlut stefnda Hákonar í Roðasölum 20 en meðal þekktra veðbanda við nauðungarsölu, sem fram fór síðar, hafi verið nefnd aðfararkrafa stefnanda. Eignarhluti þessi hafi síðar verið seldur nauðungarsölu á uppboði og hefðu stefndu keypt eignarhlutann af hæstbjóðanda. Þar með hafi fallið niður veðréttindi þau, er tryggja áttu aðfararkröfuna. Það hafi hvorki fyrr né síðar verið véfengt af hálfu stefnanda. Ekkert kröfuréttarsamband hafi verið milli stefndu og stefnanda. Þá hafi stefndu verið grandlaus um annað en að veðbókarvottorð yfir eignarhlutann og upplýsingar seljanda væru réttar, þannig að allar kröfur kæmu þar fram. Umrætt veðbandayfirlit hafi verið í samræmi við upplýsingar seljanda að öllu leyti. Þá hafi á sama tíma verið þinglýst kaupsamningi við stefndu Kristínu og afsali þinglýst enda kaupverð að löngu greitt að fullu.

Af hálfu stefndu er því mótmælt að stefnandi geti reist kröfur sínar á 2. mgr. 12. gr. um samningsveð og vísa stefndu til sömu raka og reifuð eru í greinargerð stefndu Kristínar, en þar er á því byggt að um aðfararkröfu eins og kröfu stefnanda gildi lög um samningsveð ekki, hvorki með beitingu lögjöfnunar eða með öðrum hætti. Þá eigi ákvæði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 75/1997 við þegar fleiri aðilar hafa gengist í ábyrgð fyrir skuld sinni og lagt fram fleiri en eitt veð til tryggingar. Stefndu séu ekki aðilar að því skuldamáli sem er grundvöllur máls þessa, hvorki sem sem skuldarar né ábyrgðaraðilar.

Samkvæmt framansögðu verði því samkvæmt kröfum stefnanda með engum hætti komið að veðböndum á eign stefndu. Beri því að sýkna þau af kröfum stefnanda að öllu leyti.

Sýknukröfu sína byggja stefndu á aðildarskorti samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 33. gr. laga nr. 39/1978. Málskostnaðarkröfu sína byggja stefndu á 1. mgr. 130. gr., sbr. 2. mgr. 132. gr. og a- og c- lið 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggja stefndu á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV.

Í máli þessu snýst deila aðila efnislega um það hvort stefnandi, sem fékk aðfararkröfu sína ekki að fullu greidda af uppboðsandvirði helmingshlutar fasteignar þar sem samningsveðhafar sem áttu veð í heildareigninni fengu fullnustu sinna krafna í eignarhlutanum geti, með lögjöfnun frá 2. mgr. 12. gr. laga um samningsveð, öðlast veðrétt í hinum eignarhlutanum. Upplýst er að hvorki núverandi eigendur umræddra fasteignar né eigandi þess eignarhluta sem ekki var seldur nauðungarsölu, stóðu í kröfuréttarsambandi við stefnanda. Það gerði stefndi Hákon, sem átti eignarhlutann sem seldur var nauðungarsölu, á hinn bóginn.

Í málinu liggur fyrir og er óumdeilt að stefnda Kristín afsalaði eignarhluta sínum í fasteigninni Roðasölum 20 í Kópavogi til stefndu Áslaugar Helgu og Matthíasar Vilhjálms með afsali útgefnu 3. mars 2005, sem móttekið var til þinglýsingar hjá sýslumanninum í Kópavogi 7. mars 2003.

Stefndi Hákon er ekki eigandi að þeim eignarhluta í Roðasölum 20 í Kópavogi sem stefnandi krefst nú að verði veðsettur fyrir kröfum stefnanda á hendur stefnda Hákoni og hefur hann aldrei átt þann eignarhluta. Það er því ekki á valdi stefnda að efna dómkröfur stefnanda eins og þær eru settar fram. Þá verður ekki talið að hagsmunir stefnda krefjist aðildar hans að málinu. Ber því þegar af þessum ástæðum og með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að sýkna stefnda Hákon af kröfum stefnanda.

Stefnda Kristín átti umræddan eignarhluta sem mál þettra varðar en seldi hann stefndu Áslaugu Helgu og Matthíasi Vilhjálmi með kaupsamningi 28. mars 2003 og var afsal gefið út 3. mars sl.  Samkvæmt þessu er stefnda ekki lengur eigandi þessa eignarhluta og er því ekki lengur á hennar valdi að efna dómkröfur stefnanda eins og þær eru settar fram. Þá verður ekki talið að hagsmunir stefndu krefjist aðildar hennar að málinu. Ber því þegar af þessum ástæðum og með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að sýkna stefndu Kristínu af kröfum stefnanda.

Eins og að framan getur byggir stefnandi dómkröfur sínar á lögjöfnun í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð, sem hljóðar svo: “Ef veðhafi hefur fengið fullnustu í einu veðandlaginu fyrir stærri hluta veðkröfunnar en þeim sem samkvæmt réttarsambandinu milli aðila skyldi falla á það veðandlag eiga aðrir veðhafar í því veðandlagi og eftir atvikum eigandinn sjálfur rétt til þess að ganga inn í veðréttinn í öðrum veðandlögum fyrir því sem umfram er.” Er rökstuðningi fyrir beitingu þessa ákvæðis gerð ítarleg skil í málsástæðukafla stefnanda hér að framan. Úrslit málsins ráðast af því hvort skilyrði verði talin vera fyrir hendi til þessa að beita þessu lagaákvæði með lögjöfnun í því tilviki er mál þetta varðar.

Eins og að framan er rakið átti stefnandi aðfararveð fyrir kröfum sínum á hendur stefnda Hákoni í þáverandi eignarhluta hans en fékk ekki fullnustu allrar kröfu sinnar í eignarhlutanum eftir nauðungarsölu þar sem veðhafar sem áttu veð í báðum eignarhlutum eignarinnar lýstu kröfum sínum að fullu í eignarhluta stefnda Hákonar og freistar stefnandi þess nú að fá fullnustu kröfu sinnar í hinum eignarhlutanum.

Ákvæði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 75/1997 á einvörðungu við um samningsveð. Hér er um að ræða sérákvæði í lögum sem skýra ber þröngt og eftir orðanna hljóðan. Mæla því rök gegn því að ákvæðinu verði beitt utan sviðs laga um samningsveð með lögjöfnun, enda þykir mega ætla að löggjafinn hefði tekið það fram í athugasemdum með frumvarpi til laga um samningsveð hefði tilgangurinn verið að ákvæðinu væri ætlað að hafa víðtækara gildissvið en ráða megi af orðanna hljóðan.

Telur dómurinn því ekki unnt að beita framangreindu ákvæði laga um samningsveð með lögjöfnun að því er kröfur stefnanda varðar.

Með hliðsjón af þessu og með því að stefnandi hefur ekki teflt fram öðrum ástæðum til stuðnings kröfum sínum á hendur stefndu Áslaugu Helgu og Matthíasi Vilhjálmi ber að sýkna þau af kröfum stefnanda.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 70.000 krónur fyrir hvert þeirra.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.

Dómsorð:

Stefndu, Hákon Hákonarson, Kristín Kristjánsdóttir, Áslaug Helga Hálfdánardóttir og Matthías V. Baldursson, eru sýknuð af kröfum stefnanda, Gunnlaugs Gestssonar, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefndu hverjum fyrir sig 70.000 krónur í málskostnað.