Hæstiréttur íslands

Mál nr. 326/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Réttindaröð
  • Laun


Mánudaginn 1

 

Mánudaginn 1. september 2003.

Nr. 326/2003.

Þrotabú Brims hf.

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

gegn

Rafni F. Johnson

(enginn)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Réttindaröð. Laun.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þess efnis að R skyldi njóta stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. fyrir kröfu sinni á hendur B hf. vegna starfslokasamnings. Tekið var fram að með 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 væri vikið frá grundvallarreglu laga nr. 21/1991 um jafnræði lánardrottna við gjaldþrotaskipti. Ákvæðið yrði ekki skýrt á rýmri veg en leiddi af orðanna hljóðan en ótvírætt væri að réttur til launa, sem þar gæti átt undir, þyrfti að eiga rætur að rekja til vinnu. Þar sem um var að ræða tilkall til greiðslu eftirlauna, þar sem ekkert vinnuframlag var áskilið af hálfu R, varð það ekki fellt undir 1. tölulið eða önnur ákvæði 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Varð því að hafna því að krafa R nyti stöðu samkvæmt umræddu lagaákvæði í réttindaröð við gjaldþrotaskipti á B hf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. ágúst 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júlí 2003, þar sem viðurkennt var að varnaraðili skyldi njóta stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. fyrir kröfu sinni á hendur sóknaraðila að fjárhæð 8.350.655 krónur. Kæruheimild er í 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði að kröfu varnaraðila verði skipað á fyrrgreindan hátt í réttindaröð. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins mun varnaraðili hafa starfað sem framkvæmdastjóri hjá Heimilistækjum hf., sem síðar fékk heitið Brim hf., um 36 ára skeið þar til gerður var samningur um starfslok hans 8. febrúar 1999. Samkvæmt þeim samningi bar félaginu meðal annars að greiða varnaraðila „í eftirlaun fasta fjárhæð á mánuði hverjum kr. 491.215.- í 5 ár frá 1. janúar 1999 til og með desember 2003.“ Ekki verður annað ráðið af málatilbúnaði aðilanna en að skuldbinding þessi hafi verið efnd fram til 1. ágúst 2002. Hinn 3. september sama árs var bú félagsins, sem þá hafði skipt um heiti, tekið til gjaldþrotaskipta. Varnaraðili lýsti kröfu í þrotabúið á grundvelli þessa samningsákvæðis með bréfi til skiptastjóra 31. október 2002, þar sem höfuðstóll skuldar vegna launa í 17 mánuði var sagður vera 8.350.655 krónur, en auk þess krafðist varnaraðili greiðslu á tiltekinni fjárhæð í dráttarvexti af hluta höfuðstólsins og vegna ritunar kröfulýsingar. Í skrá um lýstar kröfur í þrotabúið, sem skiptastjóri gerði 10. janúar 2003, var þessari kröfu hafnað. Varnaraðili mótmælti þeirri afstöðu skiptastjóra á skiptafundi 17. sama mánaðar. Ekki tókst að jafna ágreining aðilanna á öðrum skiptafundi, sem haldinn var 15. apríl 2003. Beindi því skiptastjóri ágreiningnum til Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2003 og var mál þetta þingfest af því tilefni 13. júní sama árs. Í málinu er ekki deilt um fjárhæð kröfu varnaraðila, sem sóknaraðili hefur lýst sig reiðubúinn til að viðurkenna sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við gjaldþrotaskiptin.

Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 njóta kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns forgangsréttar við gjaldþrotaskipti, enda hafi þær fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag. Með ákvæði þessu, sem skipar vissum kröfum framar öðrum í réttindaröð, er vikið frá grundvallarreglu laga nr. 21/1991 um jafnræði lánardrottna við gjaldþrotaskipti. Verður ákvæðið því ekki skýrt á rýmri veg en leiðir af orðanna hljóðan. Þegar rætt er í ákvæðinu um laun og annað endurgjald fyrir vinnu er ótvírætt sett sú regla að réttur til launa, sem þar getur átt undir, þurfi að eiga rætur að rekja til vinnu. Í máli þessu kallar varnaraðili ekki eftir launum fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns, sem þegar hefur verið leyst af hendi, heldur eftir greiðslu eftirlauna, sem falla áttu að öllu verulegu leyti í gjalddaga á 16 mánaða tímabili eftir frestdag samkvæmt samningi, þar sem ekkert vinnuframlag var áskilið af hans hálfu. Þetta greiðslutilkall varnaraðila verður því ekki fellt undir 1. tölulið eða önnur ákvæði 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt þessu verður að hafna því að krafa hans njóti þeirrar stöðu, sem hann krefst, í réttindaröð við gjaldþrotaskipti á sóknaraðila.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hafnað er viðurkenningu á því að krafa varnaraðila, Rafns F. Johnson, að fjárhæð 8.350.655 krónur njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila, þrotabús Brims hf.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júlí 2003.

I

                Með beiðni dagsettri 23. maí 2003 krafðist Rafn F. Johnson, [...], hér eftir nefndur sóknaraðili, þess að úrlausnar héraðsdóms yrði leitað varðandi rétthæð kröfu hans í þrotabú Brims hf., kt. 640979-0389. Krefst sóknaraðili þess að launakrafa hans að fjárhæð kr. 8.350.655 verði viðurkennd sem forgangskrafa í þrotabúið. Auk þess krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Varnaraðili krefst þess að beiðni sóknaraðila verði hafnað auk málskostnaðar.

                Málið var tekið til úrskurðar hinn 14. júlí sl., að loknum munnlegum málflutningi.

II

Sóknaraðili starfaði hjá Heimilistækjum hf. (Brim hf.) í 36 ár, allt frá stofnun þess fram til ársloka 1998. Eftir starfslok sín hafði hann ekkert samband við fyrirtækið og tengdist á engan hátt rekstri þess. Þegar hann hætti störfum hjá varnaraðila var hlutafjáreign hans í félaginu 3,9%. Við upphaf skipta hafi það komið í ljós að nánast allar eigur búsins höfðu verið seldar ýmsum aðilum og einnig að þær voru veðsettar Búnaðarbanka Íslands hf. en söluverð náði þó ekki að fullnægja kröfum bankans. Allar viðskiptakröfur hins gjaldþrota félags voru einnig veðsettar eftir reglum laga nr. 75/1997 um samningsveð og voru þær afhentar veðsala skömmu eftir upphaf skipta. Eignarstaða búsins er því slík að ekki næst að greiða nema hluta forgangskrafna.

Sóknaraðili lýsti kröfu sinni með bréfi sem var móttekið þann 4. nóvember 2002 en skiptastjóri hafnaði henni m.a. vegna skorts á gögnum. Þeirri afstöðu var mótmælt, en úr því bætt síðar. Á sérstökum skiptafundi var reynt að jafna ágreining með aðilum en tókst ekki og því er komið til málareksturs þessa.

III

Sóknaraðili byggir á því, að einungis sé verið að krefjast umsaminna eftirlauna í máli þessu. Sóknaraðili telur lokamálslið 112. gr. laga nr. 21/1991 ekki eiga við. Hann geti ekki talist vera nákominn þrotamanni. Tveir af fimm stjórnarmönnum beri sama eftirnafn, en þeir séu hvorki nákomnir sóknaraðila né hlýleikar eða vinatengsl milli aðila.  Sóknaraðili telur stjórnarsetu sína, sem lauk fyrir 5 árum, þegar firmað var blómlegt fyrirtæki, ekki geta verið það sem felist í lokaorðum 112. gr. Þar hljóti að vera um að ræða um stjórnarmann sem þekki stöðu fyrirtækisins vegna stjórnarsetu sinnar, sbr. 4. tl. greinargerðar með frumvarpinu.

IV

Varnaraðili heldur því fram að eftirlaun falli ekki undir 1. tl. 112. gr. laga nr. 21/1991 né aðra töluliði greinarinnar. 112. gr. hafi að geyma undantekningar frá þeirri meginreglu að jafnræði skuli vera með kröfuhöfum við skipti þrotabúa og ef eftirlaunum eigi að skipa í kröfuröð með forgangskröfum þurfi að kveða skýrt á um það í lögum. Orðalag 1. tl. 112. gr. bendi og til þess að eftirlaunakröfum fylgi ekki forgangur en tekið sé fram í lagagreininni að hún taki aðeins til launa sem falli í gjalddaga á seinustu átján mánuðum fyrir frestdag. Ljóst sé að eftirlaunaréttindi falli utan þess tímaramma.

Ef ekki verði fallist á ofangreind rök, heldur varnaraðili því fram að lokamálsliður 112. gr. feli í sér að krafa sóknaraðila njóti ekki forgangs því sóknaraðili, sem sé fyrrum stjórnarformaður hins gjaldþrota félags, hafi gert eftirlaunasamning við Ólaf Ö. Johnson föðurbróðir sinn og stjórnarformaður við gjaldþrot félagsins, Friðþjófur Ö. Johnson, sé systkinabarn sóknaraðila.

V

Ágreiningur í máli þessu snýst um hvort krafa sóknaraðila njóti forgangs í þrotabú Brims hf.  Samningur sá sem sóknaraðili styður rétt sinn við er samkomulag um eftirlaunagreiðslur frá Heimilistækjum hf. til sóknaraðila.  Samkvæmt 1. tl. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. ganga næst kröfum samkvæmt 109. –111. gr. laga nr. 21/1991, kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamannsins, sem fallið hafa í gjalddaga síður átján mánuði fyrir frestdag.  Fyrrgreint samkomulag, dagsett 8. febrúar 1999, hljóðar á um ákveðnar mánaðargreiðslu til handa sóknaraðila í fimm ár frá 1. janúar 1999 til og með desember 2003.  Áttu greiðslur þessar að vera óbreyttar á tímabilinu.  Ber því að líta svo á að um launagreiðslur til handa sóknaraðila hafi verið að ræða, sem falli undir fyrrgreint lagaákvæði.  Samningur þessi var milli Heimilstækja hf. og sóknaraðila, sem Brim hf. yfirtók án athugasemda.  Hefur samningnum því aldrei verið rift og er því í fullu gildi.  Samkvæmt því og þar sem stjórnarsetu sóknaraðila lauk svo löngu fyrir gjaldþrot á 3. mgr. 112. gr. laganna ekki við um kröfu þessa og ber að fallast á kröfu sóknaraðila eins og hún er fram sett, enda ekki tölulegur ágreiningur í málinu.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að úrskurða varnaraðila til að greiða sóknaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 75.000 krónur.

                Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan. 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

                Viðurkennt er að krafa sóknaraðila, Rafns F. Johnson, að fjárhæð 8.350.655 krónur, njóti forgangs í þrotabú Brims hf.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 75.000 krónur í málskostnað.