Hæstiréttur íslands
Mál nr. 316/2004
Lykilorð
- Líkamsárás
- Reynslulausn
- Ítrekun
- Miskabætur
- Dómari
|
|
Fimmtudaginn 9. desember 2004. |
|
Nr. 316/2004. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Tómasi Waagfjörð (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Líkamsárás. Reynslulausn. Ítrekun. Miskabætur. Dómarar.
T var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa á heimili sínu ráðist á X með um 34 cm löngum hnífi og stungið hann í vinstra hönd með þeim afleiðingum að hann hlaut 5 cm langan og 5 mm djúpan skurð á „handarbakshlið“ vinstri þumals. Hafði X ásamt fleira fólki verið gestkomandi hjá T sem reiddist vegna hátternis þess. Skipaði hann fólkinu að fara út og hlýddu allir utan X og Y. Kvaðst T hafa reynt að koma X út sem hafi ekki viljað fara. Hafi hann þá náð í hníf í eldhúsi og otað að X. Aftur á móti bar T við minnisleysi um hvort hann hafi stungið X með hnífnum. X kvað T hins vegar hafa stungið sig og hann í framhaldi af því flúið inn í baðberherbergi og reynt að forða sér út um baðherbergisglugga. Fékk framburður hans að þessu leyti stoð í vætti Y. Var sök T talin sönnuð. Með þessu rauf T skilorð reynslulausnar á 310 daga eftirstöðvum refsingar. Áður hafði T hlotið 11 refsidóma þar af þrjá fyrir líkamsárásir. Var refsing hans ákveðin fangelsi í tvö ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. júlí 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða og greiðslu skaðabóta, en þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar að nýju, til vara að hann verði sýknaður en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess nú að miskabótakröfu X verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.
I.
Ákærði reisir kröfur sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms á þeirri ástæðu að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum. Ákvæðið felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skuli skipa dóm í máli ef sýnt þykir að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Ræðst nauðsyn þessa úrræðis af aðstæðum hverju sinni.
Í málinu er ákærða gefin að sök hættuleg líkamsárás með því að hafa aðfaranótt 27. desember 2003 á heimili sínu að [...], ráðist á X með hnífi, um 34 cm löngum, og stungið hann í vinstri hönd með þeim afleiðingum að hann hlaut 5 cm langan og 5 mm djúpan skurð, á „handarbakshlið vinstri þumals.“ Þegar ákæra var gefin út í málinu lá fyrir framburður ákærða og X, sem báðir gáfu skýrslu hjá lögreglu 27. desember 2003 og framburður vitnisins Y, sem gaf skýrslu tveimur dögum síðar. Í skýrslu sinni viðurkenndi ákærði að hafa tekið stóran hníf úr eldhúsinu, staðið yfir X og „lesið honum pistilinn.” Kvaðst hann hafa „misst vitið“ af reiði og ekki muna greinilega hvað gerðist, en þó minnast þess að X hafi hlaupið út úr húsinu „með skelfingarsvip“. Y hafi þá verið einn eftir í anddyrinu og sagt „hvað er eiginlega að þér maður ertu orðinn geðveikur.” Hann hafi svo vaknað um klukkan sex síðdegis þann dag og séð hnífinn á gólfinu í anddyrinu. Að kvöldi sama dags hafi hann afhent lögreglu hnífinn. Í ljósi þessa framburðar og vættis þeirra vitna, sem fyrir lá í málinu við þingfestingu þess, verður ekki á það fallist með ákærða að nauðsyn hafi staðið til þess að héraðsdómur yrði fjölskipaður.
II.
Verjandi ákærða hélt því fram fyrir Hæstarétti að lögreglurannsókn málsins hafi verið verulega ábótavant. Þannig hafi ekki farið fram sérstök rannsókn á hnífnum, sem lögregla lagði hald á, með tilliti til þess hvort blóð kynni að vera á honum úr brotaþola. Þá hafi heldur ekki verið rannsakað hvort blóð, sem fannst á vettvangi, hafi verið úr brotaþola eða einhverjum öðrum, en fjölmenni hafi verið á staðnum um nóttina og fram á morgun. Vettvangsskoðun hafi einnig verið mjög fábrotin. Hafi hvorki verið teknar myndir af vettvangi né honum lýst á annan hátt en með ófullkomnum uppdrætti af íbúðinni. Ætlaðir annmarkar á rannsókninni verða teknir til athugunar þegar virt verður hvort sekt ákærða telst nægilega sönnuð, sbr. 45. gr. laga nr. 19/1991.
Í héraðsdómi er rakinn framburður ákærða og vitnanna X og Y. Eins og þar kemur fram viðurkenndi ákærði bæði við rannsókn málsins hjá lögreglu og meðferð þess fyrir dómi að hann hafi umrætt sinn verið mjög reiður vegna hátternis ölvaðs fólks, sem var gestkomandi hjá honum um nóttina. Hafi hann skipað því að fara út og allir hlýtt nema X og Y. Hann hafi reynt að koma X út, en hann ekki viljað fara. Þeir hafi verið komnir fram í anddyrið og hann reynt að ýta X út úr húsinu. Sagðist ákærði þá hafa farið inn í eldhúsið, sem sé við anddyrið og náð í hníf. Kvaðst hann halda að hann hafi otað hnífnum að X og hótað honum. Hann hafi staðið yfir X, sem þá hafi verið kominn inn á baðherbergi við anddyrið. Hann kvaðst telja að hann hafi elt X þangað inn, staðið þar, öskrað, „lesið honum pistilinn“ og hótað honum öllu illu. Það næsta sem hann myndi væri að Y hafi litið á hann í anddyrinu „með furðusvip ... þú veist ertu klikkaður maður eða þú veist hvað ertu að gera sagði hann ... ég man ekki alveg hvað hann sagði ... en það fékk voðalega á mig ... þannig að ég hendi hnífnum frá mér“. Aðspurður fyrir dómi hvort hann neitaði sök kvaðst hann gera það og halda að hann hefði ekki stungið X. Vitnið Y bar fyrir sig minnisleysi um atvik vegna ölvunar. Hann staðfesti þó þann framburð X að hann hafi verið að reyna að koma sér út um gluggann á baðherberginu. Kvaðst vitnið einnig minnast þess að hafa spurt X hvað hann væri að gera og af hverju hann „labbi bara ekki út um útidyrahurðina.“
Þegar framburður ákærða er virtur er ljóst að hann hefur ekki aftekið að hafa stungið X, heldur ber hann fyrir sig minnisleysi um það atriði. Hann sagðist þó muna aðdraganda þess að X hraktist undan honum inn í baðherbergið. Fram er komið að ákærði afhenti lögreglu að kvöldi 27. desember hníf þann, sem hann er grunaður um að hafa notað við verknaðinn. Hann kvaðst hafa tekið hann upp af forstofugólfinu þegar hann vaknaði. Vitnið X hefur staðfastlega borið að ákærði hafi stungið sig greint sinn og er framburður hans nánar rakinn í héraðsdómi. Vitnisburður hans um að hann hafi í kjölfar hnífstungunnar reynt að forða sér undan ákærða út um baðherbergisglugga fær stoð í vætti Y.
Að öllu framangreindu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er sannað að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er að sök gefin í ákæru. Ákærði veittist að brotaþola með hættulegu vopni. Brot hans er réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru.
Ákærði hefur hlotið 11 refsidóma frá árinu 1997, þar af átta frá árinu 2000, aðallega fyrir ýmis hegningar-, fíkniefna- og umferðarlagabrot. Hann hefur þrívegis verið dæmdur fyrir líkamsárás, fyrst 24. júní 1997 í 7 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk húsbrots, þjófnaðar, tollalaga- og áfengislagabrots. Þá var hann dæmdur 15. júní 2000 í 12 mánaða fangelsi, þar af níu mánuði skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga og rán. Síðast var hann dæmdur 17. júlí 2002 í fangelsi í 15 mánuði fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Ákærða var í febrúar 2003 veitt reynslulausn, skilorðsbundið í tvö ár, á 310 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt fjórum refsidómum. Með broti því sem hann er nú sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilorð reynslulausnarinnar og ber að taka hana upp og dæma með í máli þessu, sbr. 1. mgr. 42. gr., 60. gr. og 1. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga. Eins og fyrr segir réðist ákærði með hættulegu vopni á brotaþola. Hann hefur nú í annað sinn gerst sekur um hættulega líkamsárás með því að leggja til manns með hnífi, sbr. áðurnefndan dóm 17. júlí 2002. Hefur sá dómur og óskilorðsbundni hluti dómsins frá 15. júní 2000 ítrekunaráhrif á brot ákærða nú. Honum verður því einnig ákvörðuð refsing með vísan til 1. mgr. 71. gr., sbr. 1. mgr. 218. gr. a almennra hegningarlaga eins og henni var breytt með 12. gr. laga nr. 20/1981. Að öllu framangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi.
Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti tók verjandi ákærða fram að færi svo að sök ákærða teldist sönnuð, væri fallist á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um bótakröfu brotaþola að öðru leyti en því að fjárhæð miskabótakröfu væri of há. Var því krafist lækkunar á henni. Ekki þykja efni til að breyta niðurstöðu héraðsdóms um fjárhæð miskabóta og verður hún því staðfest.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Tómas Waagfjörð, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 27. maí 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 11. maí s.l., hefur ríkissaksóknari höfðað hér fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra með ákæru útgefinni 23. mars 2004, á hendur Tómasi Waagfjörð, [kt.], Mosarima 7, Reykjavík;
„fyrir hættulega líkamsárás með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 27. desember 2003, að [...], Ólafsfirði ráðist að X [kt.], með um 34 cm löngum hníf og stungið hann í vinstri hönd með þeim afleiðingum að X hlaut 5 cm langan skurð á handarbakshlið, vinstri þumal um 5 mm djúpan.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 20, 1981 og lög nr. 82, 1988.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu X er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 521.000 auk vaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 38, 2001.“
Verjandi ákærða Hilmar Ingimundarson hrl. krefst sýknu til handa ákærða, en til vara að hann hljóti þá vægustu refsingu er lög leyfa. Þá krefst verjandi þess að málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði og málsvarnarlauna sér til handa.
Verjandi krefst þess aðallega að bótakröfunni verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.
I
Samkvæmt lögregluskýrslum eru helstu málsatvik þau að klukkan 08:19 laugardaginn 27. desember barst lögreglunni í Ólafsfirði tilkynning frá neyðarlínunni þess efnis að maður hefði verið stunginn með hnífi í íbúðinni að [...], en væri nú í íbúðinni að [...], neðri hæð, þangað sem hann hefði flúið. Maðurinn væri skorinn á hendi og blæddi úr. Lögreglumenn fóru að íbúðinni [...] og hittu þar fyrir þann slasaða sem reyndist vera X. Við athugun reyndist hann skorinn talsvert djúpum skurði ofarlega á þumalfingri vinstri handar og mjög litlum skurði á löngutöng sömu handar en að öðru leyti óslasaður og var hann fluttur í lögreglubifreiðinni til læknis á Dalvík sem saumaði sárið saman. Að því búnu var ekið að lögreglustöðinni í Ólafsfirði þar sem X lagði fram kæru á hendur Tómasi Waagfjörð ákærða í máli þessu sem hann kvað hafa lagt til sín með hnífi.
Lögreglumenn hófu rannsókn og ræddu við vitni.
II
Vitnið X skýrir svo frá að hann hafi verið á dansleik í Tjarnarborg nóttina fyrir atburðinn og lent í partíi suður í Ægisbyggð á eftir. Kveðst vitnið hafa neytt áfengis en þó ekki orðið ofurölvi. Hafi hann síðan um sexleytið farið heim til sín að [...]. Eftir að þangað kom hafi B boðið honum í partí í [...] þar sem ákærði búi. Kvaðst vitnið hafa skipt um föt og farið síðan áleiðis að [...] en ákveðið að koma við hjá C í [...]. Kveðst vitnið hafa farið að [...] og þar inn á neðstu hæð þar sem C búi. Kveðst vitnið hafa dvalið þar um stund ásamt fleira fólki og hafi Y þá hringt frá ákærða og beðið vitnið að koma þangað. Kveðst vitnið síðan hafa farið að [...] ásamt B. Hafi vitnið Y komið til dyra. Ákærði hafi þá birst í dyrunum og virst í vondu skapi og slengt dyrum aftur með miklum krafti þannig að þeir B hafi snúið til baka í íbúð [...]. Hefði Y síðan hringt aftur í vitnið og sagt að ákærði hefði bara verið að fíflast og beðið þá að koma aftur yfir. Segir vitnið að þau sem voru í íbúðinni hjá [...] hafi síðan öll farið í íbúð ákærða en þar hafi verið fyrir téður Y.
Telur vitnið að hann hafi dvalið í íbúðinni í um hálfa klukkustund og allt verið í góðu lagi. Kveðst vitnið hafa setið í sófa í stofunni við hliðina á ákærða. Y hafi eitthvað verið að fást við tölvu er var í stofunni, hafi eitthvað verið að tölvunni og ákærði orðið mjög æstur og sagt við fólkið að nú skildi það yfirgefa íbúðina. Í fyrstu kveðst vitnið hafa setið í sófanum en allir hafi staðið upp og gengið til dyra nema vitnið og Y sem hafi setið áfram í sófanum. Kveðst vitnið síðan hafa staðið upp úr sófanum og tekið plastpoka sem hann hafi haft meðferðis. Kveðst vitnið hafa gengið að anddyrinu en þá hafi ákærði komið að því, þrifið pokann og sett hann upp í skáp í eldhúsinu og verið mjög æstur þar sem búið var að skemma tölvuna og stela sígarettupakka sem var á stofuborðinu. Hann hafi síðan tekið upp úr skúffu í eldhúsinu stóran hníf og komið með hann á lofti í anddyrið og slegið til sín. Lýsir vitnið því svo að ákærði hafi beint hnífnum beint að sér og höggvið til sín. Kveðst vitnið hafa bakkað og borið fyrir sig hendur og hafi hnífurinn lent í þumalfingri sínum. Segir vitnið að hnífurinn hefði getað lent í brjóst sér eða andlit. Mikill kraftur hafi verið í þessu, hann var í „brjáluðu aksjóni” eins og vitnið orðaði það. Kveðst vitnið hafa hrakist inn á salerni sem sé við anddyrið. Kveðst vitnið hafa verið yfir sig hrætt og reynt að loka dyrunum að salerninu en einhver fatnaður hafi verið á milli stafs og hurðar þannig að dyrnar hafi ekki lokast. Hafi ákærði þá hamast og dyrunum en Y sem þarna var hafi reynt að stöðva hann. Aðrir hafi þá verið komnir út úr íbúðinni. Kveðst vitnið hafa reynt að komast út um glugga á salerninu en þá hafi Y opnað dyrnar og sagt honum að fara út úr húsinu. Kveðst vitnið hafa hlaupið út og í íbúðina að [...] þar sem C hafi tekið á móti honum og hringt í lögregluna.
Vitnið Y, skýrir svo frá að hann hafi verið drukkinn þessa nótt og hafi byrjað að drekka eftir kvöldmat í íbúinni hjá ákærða. Fólk hafi verið að koma og fara. Nóttin hafi liðið og ekkert sérstakt borið til tíðinda fyrr en einhvern tímann um morguninn að ákærði hafi allt í einu staðið upp og sagt fólkinu sem í íbúðinni var að yfirgefa hana strax. Allir hafi farið nema hann og X sem hafi verið í anddyrinu. Kveðst vitnið hafa verið að sækja dót sem hann hafi tekið með sér en þá hafi þeir ákærði og X verið í anddyrinu. Kvaðst vitnið hafa opnað dyrnar að baðherberginu og þá séð að X var kominn hálfur út um gluggann og kveðst vitnið hafa spurt hann af hverju færi ekki út um útidyrnar og hafi hann gert það strax og yfirgefið íbúðina. Vitnið kveðst ekki hafa séð að ákærði væri með hníf. Hann neitaði að hafa séð hann veitast að X og hafi hann ekki vitað fyrr en síðar um daginn að X hafi verið skorinn með hnífi.
Vitnið Jón Konráðsson lögreglumaður, skýrir svo frá að þeir lögreglumennirnir hafi verið nýhættir á vakt er hringt hafi verið í hann frá neyðarlínunni og beðið um aðstoð að [...] þar sem maður væri kominn inn í húsið sem hefði verið stunginn með hnífi. Kveðst vitnið hafa farið þangað ásamt héraðslögreglumanni og hitt X þar sem búið var að vefja handklæði utan um hendina á honum. Vitnið kveðst hafa litið á hendina á X og ekki fundist um stóran áverka að ræða. Segir vitnið þá lögreglumennina hafa farið með X til læknis á Dalvík. Segir vitnið þá lögreglumennina hafa í leiðinni ekið framhjá húsi ákærða og hafi hann þá séð vitnið Y og fleiri í glugga í nágrannahúsi en X hafi sagt þeim frá því að Y væri e.t.v. í hættu því að hann vissi ekki hvort að hann var kominn út úr húsi ákærða. Kveðst vitnið ekki hafa haft áhyggjur af þessu og þeir haldið för sinni áfram til læknisins. Kveðst vitnið hafa séð lækninn sauma saman sár X. Hafi þeir síðan farið til baka aftur með X þar sem vitnið kveðst hafa tekið af honum skýrslu. Kveðst vitnið hafa farið að heimili ákærða um hádegið og barið þar að dyrum árangurslaust. Síðan hafi ekkert gerst þar til um kvöldið að ákærði hafi hringt í sig og verið miður sín, beðið sig að koma og tala við sig. Kveðst vitnið hafa gert það og farið á heimili ákærða og hafi hann þá sagt ákærða hvernig málin stæðu. Kveðst vitnið hafa tekið hnífinn sem hafi verið í eldhúsvaskanum. Kveðst vitnið hafa litast um í húsinu. Hafi ástandið verið eins og eftir „gott partí hjá svona mönnum“. Drasl hafi verið út um allt og glerbrot og blóð en aðalblóðið hafi verið í stofunni og frammi í eldhúsi. Um hafi verið að ræða litla blóðdropa sem höfðu fallið á gólfið, en ekki merki um miklar blæðingar.
Kveður vitnið ákærða hafa komið með sér á stöðina þar sem hann hafi tekið af honum skýrslu.
Vitnið tekur fram að X hafi verið mjög æstur og skíthræddur þegar vitnið kom til hans og hafi hann sagt að ákærði mundi örugglega drepa Y ef hann væri ekki búinn að því.
Vitnið kveðst ekki hafa séð neitt blóð á hnífnum er hann tók hann úr vaskanum hjá ákærða. Segir vitni ákærða hafa skýrt frá því að hann hafi um morguninn tekið hnífinn af gólfinu í forstofunni og sett hann í eldhúsvaskinn. Vitnið kveður enga rannsókn hafa farið fram á blóði því er í íbúð ákærða var né heldur hafi það verið kannað hvort blóð reyndist á hnífnum.
Ákærði skýrir svo frá að hann hafi byrjað að neyta áfengis um kl. 20 kvöldið áður en hann hafi þá verið edrú í þrjú ár. Kveðst ákærði hafa verið í lyfjameðferð og hafa orðið reiður sjálfum sér fyrir að drekka ofaní lyfin, hafi lent í einhverju „tilfinningatjóni“. Segir hann fólk hafa verið að koma og fara úr íbúðinni og hafi hann hent öllum út. Kveðst ákærði síðan hafa jafnað sig og leyft gestum sínum að koma inn og hafi partíðið haldið áfram. Síðan hafi brotnað eitthvert stofuljós heima hjá honum, glerbrot farið út um allt gólf. Hafi gesturinn B skorið sig eitthvað í lúkuna og Y hafi stigið á glerbrot og það hafi komið blóð út um allt. Kveðst ákærði hafa orðið pirraður út af þessu. Síðan hafi tölva hans eitthvað bilað, einhver hafi verið að fikta í henni, allt í einu hafi ekki kviknað á henni. Kveðst ákærði þá hafa bilast og byrjað að henda fólki út, öskrað „drullið þið ykkur út og þið eyðileggið þetta allt hér fyrir mér”. Segir hann að allir hafi farið út nema Y og X. Y hafi verið að reyna að tala sig eitthvað til. X hafi ekki viljað fara út og kveðst ákærði þá hafa stokkið inn í eldhús, náð í einhvern hníf og hafi hann otað hnífnum að honum og hótað honum. Næsta sem hann muni sé að Y hafi litið á sig með furðu svip og sagt; „ertu klikkaður maður, hvað ertu að gera”. Kveðst ákærði hafa hent hnífnum frá sér og farið inn í stofu. Þá hafi allt orðið hljótt og allir verið farnir.
Síðar um daginn kveðst ákærði hafa vaknað og séð skilaboð í símanum sínum um að X væri kominn á sjúkrahús. Kveðst ákærði þá hafa hringt í Jón Konráðsson lögreglumann og beðið hann að ná í sig. Hafi hann gefið skýrslu hjá honum.
Ákærði kveðst hafa verið staddur í anddyrinu að reyna að henda öllum út er framangreindur atburður gerðist. Ákærði kveðst minnast þess að hafa staðið yfir X inn á baði og öskrað. Baðið sé við hliðina á anddyrinu. Kveðst ákærði halda að hann hafi elt hann inn á baðið. Ákærði kveðst halda að hann hafi náð í hnífinn vegna þess að X hafi ekki viljað fara út til þess að ógna honum með honum. Kveðst hann ekki hafa ætlað að meiða X. Ákærði kveðst ekki muna eftir að hafa stungið X með hnífnum. Ákærði kveðst hafa síðar um daginn tekið hnífinn og hent honum inn í eldhús, síðan látið lögregluna fá hann um kvöldið. Ákærði kveðst ekki hafa séð neitt blóð á hnífnum, en blóð hafi verið um allt í íbúðinni þ.á.m. í forstofunni.
III
Í málinu liggur fyrir uppdráttur af íbúð ákærða þar sem fram kemur að anddyri það er um ræðir er mjög lítið og úr því liggja dyr bæði inn á salerni og eldhús. Rétt innan við eldhúsdyrnar er skúffa sú er ákærði kveðst hafa tekið hnífinn úr.
Þá liggur frammi mynd af hnífnum og var hann einnig sýndur í réttinum og kannaðist ákærði þar við að um er að ræða hníf er hann hafi átt og tekið úr eldhússkúffunni í greint sinn.
Þá liggur fyrir í málinu læknisvottorð, Guðmundar Pálssonar læknis, þar segir: „Samkvæmt sjúkraskránni var komið með X á Heilsugæslustöðina á Dalvík í fylgd lögreglu, hann hafi verið í samkvæmi þar sem ráðist var á hann með sveðju. Hann hafi sloppið með naumindum inn á salerni. Árásarmaðurinn hafði þó náð að skera til hans og hlaut X skurð á vinstri þumal. Við skoðun fannst 5 cm langur skurður á handarbakshlið vinstri þumals. Skurðurinn náði yfir grunnlið fingursins og var mest 5 mm djúpur. Ekki voru merki um tauga- eða sinaskaða. Áverkinn var meðhöndlaður á venjulegan hátt. Ekkert kemur fram um ástand X við komu. Batahorfur eftir áverka af þessu tagi eru mjög góðar og má gera ráð fyrir að skurðurinn hafi gróið að fullu á tveimur og þremur vikum nema annað hafi komið til.“
IV
Eins og að framan greinir viðurkennir ákærði að hafa í greint sinn verið reiður og reynt að koma X út úr íbúðinni og tekið hníf úr eldhúskúffu í því skyni að ógna honum. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa staðið yfir X inn á salerni og veitt honum tiltal og hafa séð hræðslumerki á X. Ákærði kveðst hins vegar ekki minnast þess að hafa stungið X með hnífnum eins og greinir í ákæru og hefur neitað sök að því að það varðar.
Vitnið Y man ekki eftir atburðum að því er virðist sökum ölvunar. Vitnið minnist þess þó að hafa aðstoðað X við að komast út úr íbúðinni. Er þetta til styrktar framburði X.
Að framangreindu virtu þykir ekki varhugavert að leggja framburð vitnisins X til grundvallar um það atriði þ.e. að ákærði hafi beint hnífnum að honum, stungið til hans og hann við það að bera fyrir sig hendurnar hlotið áverka þá er lýst er í ákæru.
Með vísan til framangreinds þykir brot ákærða nægjanlega sannað eins og því er í ákæru lýst og varðar það við tilgreint lagaákvæði.
Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði á undanförnum árum alloft hlotið refsidóma vegna brota á fíkniefnalöggjöf og hegningarlögum þ.á.m. vegna ofbeldisbrota.
Hinn 8. febrúar 2003 var ákærða veitt reynslulausn á eftirstöðvum refsinga 310 daga skilorðsbundið í 2 ár. Með broti sínu nú rauf ákærði skilorð þeirrar reynslulausnar og ber að hafa hliðsjón af því við ákvörðun refsingar.
Þykir refsing árkærða hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár. Með hliðsjón af sakaferli ákærða þykir eigi unnt að skilorðsbinda dóminn að neinu leyti.
Við munnlegan málflutning sundurliðaði lögmaður tjónþola kröfu sína þannig:
1. Þjáningabætur (án rúmlegu 980x30) kr. 29.400
2. Miskabætur kr. 491.600
3. Lækniskostnaður kr. 600
Samtals: kr. 521.600
Til viðbótar framangreindu krefst lögmaðurinn 46.688. króna bóta vegna lögmannsþóknunar. Þeirrar kröfu er ekki getið í ákæru og hefur verjandi andmælt því að hún komist að.
Krafa samkvæmt lið 1 er nægjanlega rökstudd og er hún tekin til greina með kr. 29.400. Miskabætur samkvæmt lið 2 þykja hæfilega ákvarðaðar krónur 80.000. Liður nr. 3 er studdur reikningi og verður hann því tekinn til greina. Samtals nemur tilgreind fjárhæð samkvæmt framangreindum liðum því kr. 110.000. Þá þykir rétt að dæma ákærða til greiðslu þeirra lögmannsþóknunar sem krafist er þ.e. kr. 46.688 enda rúmast tildæmd heildarfjárhæð innan heildarkröfu tjónþola. Er því niðurstaðan sú að dæma ber ákærða til að greiða tjónþola kr. 156.688 ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001 frá 27. desember 2003 til þingfestingardags 23. mars 2004 en með dráttarvöxtum skv. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Að lokum ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans Hilmar Ingimundarsonar hrl. kr. 160.000.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, Tómas Waagfjörð sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærði greiði X, kr. 156.688 ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001 frá 27. desember 2003 til 23. mars 2004 en með dráttarvöxtum skv. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar hrl. kr. 160.000.