Hæstiréttur íslands
Mál nr. 814/2015
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Skuldabréf
- Gengistrygging
- Frávísunarkröfu hafnað
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir, settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. desember 2015. Hann krefst þess að aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hann verði sýknaður af kröfu áfrýjanda. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, en þó þannig að áfrýjanda verði gert að greiða sér 122.129.642 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 5. nóvember 2009 til greiðsludags. Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi höfðaði stefndi mál þetta á hendur áfrýjanda til greiðslu skuldabréfs 27. júní 2007. Er málsóknin reist á því að um hafi verið að ræða skuld í svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum. Áfrýjandi mun síðast hafa innt af hendi greiðslu af bréfinu 5. janúar 2010 en það hafði þá verið í vanskilum frá 5. nóvember 2009. Stefndi hefur lagt fram ítarlega útreikninga um greiðslusögu bréfsins frá öndverðu og fjárhæð skuldarinnar miðað við gjaldfellingu bréfsins 10. mars 2010. Samkvæmt þeim nam fjárhæðin 122.129.642 krónum eftir að hún hafði verið umreiknuð úr erlendum gjaldmiðlum í íslenskar krónur samkvæmt heimild í bréfinu. Þessum útreikningum stefnda hefur ekki verið hnekkt og hefur hann lækkað kröfu sína hér fyrir dómi í samræmi við þá. Jafnframt tekur krafa hans um dráttarvexti mið af þessu áfrýjanda til hagsbóta.
Aðalkrafa áfrýjanda um frávísun málsins er reist á því að stefna til héraðsdóms hafi ekki fullnægt áskilnaði í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um glöggan málatilbúnað. Í stefnu til héraðsdóms er með fullnægjandi hætti lýst umræddu skuldabréfi sem stefndi reisir kröfu sína á. Þar er jafnframt sundurliðaður útreikningur á fjárhæð skuldarinnar og samkvæmt honum skeikar óverulegu miðað við fyrrgreinda útreikninga sem lagðir hafa verið fram hér fyrir dómi. Að þessu gættu var málið ekki svo vanreifað að áfrýjandi ætti óhægt um vik að taka til varna. Verður því hrundið kröfu um frávísun málsins frá héraðsdómi.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður fallist á þá niðurstöðu að skuldabréfið hafi verið í erlendum gjaldmiðlum og því fór skuldbindingin ekki í bága við 13. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 38/2001. Samkvæmt þessu verður krafa stefnda á hendur áfrýjanda tekin til greina.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Logafold ehf., greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 122.129.642 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 54.325 krónum frá 5. nóvember 2009 til 5. desember sama ár, af 319.186 krónum frá þeim degi til 5. janúar 2010, af 786.333 krónum frá þeim degi til 5. febrúar sama ár, af 1.063.667 krónum frá þeim degi til 5. mars sama ár, af 1.736.161 krónu frá þeim degi til 10. apríl 2010 og af 122.129.642 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. september 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 3. september sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, á hendur Logafold ehf., Bláhömrum 7, Reykjavík, með stefnu birtri 29. júlí 2014.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 122.129.663 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, af 248.446 krónum frá 5. nóvember 2009 til 5. desember 2009, en 513.306 krónum frá þeim degi til 5. janúar 2010, en af 786.369 krónum frá þeim degi til 5. febrúar 2010, en af 1.063.703 krónum frá þeim degi til 5. mars 2010, en af 1.736.196 krónum frá þeim degi til 10. mars 2010, en af 122.129.664 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Stefndi krefst þess aðallega, að málinu verði vísað frá dómi en til vara krefst hann sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Hinn 18. mars sl. fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda og með úrskurði, dagsettum 25. mars sl., var frávísunarkröfu stefnda hafnað.
II
Málavextir eru þeir að hinn 27. júní 2007 gaf stefndi út skuldabréf til Glitnis banka hf., nú Íslandsbanka hf., sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dagsettu 14. október 2008. Skuldabréfið var að fjárhæð 397.852 svissneskir frankar, 39.944.078 japönsk jen og 119.962 evrur, að jafnvirði 50.000.000 króna hinn22. júní 2007.
Samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins bar að greiða af lánshluta þess í japönskum jenum og svissneskum frönkum LIBOR-vexti, þ.e. vexti á millibankamarkaði í London, eins og þeir eru auglýstir kl. 11:00 að staðartíma í London á BBA-síðu Reuters, sbr. 3. gr. skuldabréfsins. Af lánshluta í evrum bar að greiða EURIBOR-vexti, þ.e. vexti á millibankamarkaði í aðildarríkjum Evrópska myntbandalagsins, eins og þeir eru auglýstir kl. 11:00 að staðartíma í Brussel á EURIBOR-síðu Reuters. Fyrsta vaxtatímabilið bar að greiða 2,53% LIBOR-vexti af lánshluta í svissneskum frönkum, 0,6825% LIBOR-vexti af lánshluta í japönskum jenum og af lánshluta í evrum bar að greiða 4,128% EURIBOR-vexti. Fast vaxtaálag var 2,4% og vegnir meðaltalsvextir voru 4,5106%. Skuldabréfið bar að greiða með 300 afborgunum á mánaðar fresti, í fyrsta sinn 5. ágúst 2007. Vexti skyldi greiða á sömu gjalddögum.
Í skilmálum skuldabréfsins er kveðið á um að verði vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta af skuldabréfinu eða aðrar vanefndir sé lánveitanda heimilt að fella alla skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar. Enn fremur að lánveitanda sé heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur í lok gjaldfellingardags miðað við skráð sölugengi lánveitanda á þeim myntum sem skuldin samanstandi af. Þá er kveðið á um það í skuldabréfinu að greiða beri dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma.
Hinn 16. september 2008 voru eftirstöðvar lánsins í svissneskum frönkum 379.287,48 svissneskir frankar auk áfallinna vaxta að fjárhæð 538,91 svissneskur franki, eða samtals 379.826,39 svissneskir frankar. Eftirstöðvar lánsins í japönskum jenum voru 38.080.21,92 japönsk jen auk áfallinna vaxta að fjárhæð 36.055,58 japönsk jen eða samtals 38.116.077,50 japönsk jen. Eftirstöðvar lánsins í evrum voru 114.362,40 evrur auk áfallinna vaxta að fjárhæð 241,64 evrur eða samtals 114.604,04 evrur.
Hinn 17. september 2008 var skuldabréfinu skilmálabreytt þannig að eftirstöðvar lánsins skyldu endurgreiðast með 286 greiðslum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 5. október 2009. Á sérstökum vaxtagjalddögum á eins mánaðar fresti bar að greiða vexti af höfuðstól, í fyrsta sinn hinn 5. október 2009. Sérstakir vaxtagjalddaga voru 12. Áfallnir vextir til 5. september 2008 auk vanskila lögðust við höfuðstól og áttu að greiðast samhliða afborgunum, í fyrsta sinn 5. október 2009. Vextir reiknuðust frá 5. september 2008. Skuldin samkvæmt skuldabréfinu átti að miðast við ofangreinda erlenda fjárhæð eða jafngildi hennar í öðrum erlendum myntum eða mynteiningum sem birtar voru í almennri gengistöflu lánveitanda eða í íslenskum krónum. Að öðru leyti héldust skilmálar skuldabréfsins óbreyttir.
Skilmálum skuldabréfsins var aftur breytt hinn 30. desember 2009, en hinn 4. nóvember 2009 námu eftirstöðvar skuldabréfsins 383.600,25 svissneskum frönkum, 38.508.849,92 japönskum jenum og 117.205,45 evrum, án vaxta. Vanskil námu 1.345,97 svissneskum frönkum og 135.119 japönskum jenum, án vaxta og kostnaðar, sem lögðust við höfuðstól. Skilmálum skuldabréfsins var breytt þannig að framangreindar eftirstöðvar lánsins skyldu endurgreiðast með 286 afborgunum á eins mánaðar fresti í fyrsta sinn hinn 5. mars 2010, auk fjögurra vaxtagjalddaga á mánaðar fresti, í fyrsta sinn 5. nóvember 2009. Vextir reiknuðust frá 5. október 2009 af legg nr. 13446 og frá 5. september 2009 af leggjum nr. 13444 og 13445 og tóku mið af ERUIBOR- og LIBOR- vöxtum. Að öðru leyti héldust skilmálar skuldabréfsins óbreyttir.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að umþrætt skuldabréf, sem sé lögmætt lán í erlendum myntum, hafi verið í vanskilum frá vaxtagjalddaga 5. nóvember 2009. Hinn 10. mars 2010 hafi bréfið verið gjaldfellt og sent í lögfræðiinnheimtu. Eftirstöðvar þess hafi verið umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við gengi viðkomandi gjaldmiðla á gjaldfellingardegi í samræmi við 10. gr. í skilmálum bréfsins. Uppreiknaðar eftirstöðvar skuldabréfsins við gjaldfellingu, ásamt vanskilum við gjaldfellingu séu samtals 122.129.664 krónur, sem sé stefnufjárhæð málsins.
Stefnandi hefur sundurliðað kröfu sína í stefnu. Hinn 10. mars 2010, á gjaldfellingardegi skuldabréfsins, hafi eftirstöðvar þess verið færðar yfir í íslenskar krónur, sbr. heimild í 10. gr. skuldabréfsins, en á þeim degi hafi eftirstöðvar lánshluta í svissneskum frönkum, þ.e. leggur nr. 13444 verið 383.600,25 svissneskir frankar, áfallnir vextir frá 5. mars 2010 hafi verið 132,84 svissneskir frankar. Gengi svissneskra franka á gjaldfellingardegi hafi verið 119,33 krónur og umreiknaðar eftirstöðvar þess leggjar í íslenskum krónum séu því 45.790.870 krónur. Ógreiddir gjaldfelldir gjalddagar hafi verið samtals 5.743,35 svissneskir frankar umreiknaðir yfir í íslenskar krónur miðað við gengi gjaldmiðla á hverjum gjalddaga samtals 694.227 krónur. Samtals hafi því staða staða þess leggjar skuldabréfsins verið 46.485.097 krónur.
Eftirstöðvar lánshluta í japönskum jenum, leggur 13445, hafi á gjaldfellingardegi numið 38.508.849,92 japönskum jenum. Áfallnir vextir frá 5. mars 2010 hafi verið 13.675,05 japönsk jen. Gengi japanska jensins á gjaldfellingardegi hafi verið 1,4076 krónur og umreiknaðar eftirstöðvar þess leggs í íslenskum krónum hafi því verið 54.224.306 krónur. Ógreiddir gjaldfallnir gjalddagar hafi verið samtals 505.547,04 japönsk jen, sem umreiknuð yfir í íslenskar krónur miðað við gengi japansks jens á hverjum gjalddaga hafi verið samtals 713.402 krónur. Samtals hafi því staða japanska leggjar skuldabréfsins verið 54.937.708 krónur.
Eftirstöðvar lánshlutans í evrum, leggur nr. 13446, hafi á gjaldfellingardegi verið 116.795,64 evrur, áfallnir vextir frá 5. mars 2010 hafi verið 45,66 evrur. Gengi evru á gjaldfellingardegi hafi verið 174,41 króna og séu eftirstöðvar þess leggjar í íslenskum krónum því 20.378.291 króna. Ógreiddir gjaldfallnir gjalddagar hafi verið samtals 1.834,66 evrur, umreiknaðar yfir í íslenskar krónur miðað við gengi evru á hverjum gjalddaga samtals 328.567 krónur. Samtals hafi því staða evru leggjar skuldabréfsins verið 20.706.858 krónur.
Heildareftirstöðvar skuldabréfsins við gjaldfellingu þess hafi því hinn 10. mars 2010 verið 122.129.663 krónur, sem sé stefnufjárhæð málsins.
Stefnandi kveður allar innheimtutilraunir hafa verið án árangurs og sé málssókn þessi því nauðsynleg.
Stefnandi byggir kröfu sína um greiðslu skuldabréfsins á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga auk skýrra ákvæða skuldabréfsins.
Málið sé rekið sem skuldabréfamál, samkvæmt c-lið 117. gr. XVII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á 1. mgr. 6. gr., sbr. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsyn á að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að lán það sem stefnandi byggi kröfu sína á hafi verið greitt út í íslenskum krónum og bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Lán sem bundið sé við gengi erlendra gjaldmiðla sé í andstöðu við ófrávíkjanlegar reglur VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Þar sem hvergi hafi verið tekið tillit til þess í stefndu hafi stefnandi í raun hvorki sannað að hann eigi kröfu á hendur stefnanda né hve há sú krafa sé.
Það verði ráðið af fjöldamörgum dómum Hæstaréttar, t.d. í málum nr. 155/2011, 3/2012 og 66/2013, þar sem tilgreining lánsfjárhæðar sé í jafnvirði íslenskra króna ráði önnur atriði því hvort lán teljist lögmætt erlent lán eða lán með ólögmætri gengistryggingu. Meðal þeirra atriða sem þá hafi verið litið til sé í hvaða gjaldmiðli greiðslur beggja aðila hafi farið fram og hvernig tilgreining lánsfjárhæðar sé í öðrum skjölum. Auðséð sé við lestur umþrætts skuldabréfs að lánsfjárhæðinni hafi í þessu tilviki verið ráðstafað inn á hefðbundinn íslenskan bankareikning stefnda og skuldfærsla farið inn á annan hefðbundinn íslenskan bankareikning. Allar greiðslur hafi verið inntar af hendi í íslenskum krónum. Þá hafi stefndi lagt fram skjal með fyrirsögninni „Staða lána í mynt“, þar sem upphafleg fjárhæð sé tilgreind sem 50.000.000 króna, nafnverð eftirstöðva sem 77.053.435 krónur og uppfærðar eftirstöðvar 120.350.403 krónur, en allar þessar fjárhæðir séu í íslenskum krónum. Einnig hafi stefndi lagt fram skjal með fyrirsögninni „Staða lána í ISK“, þar sem sá hluti lánsins sem bundinn hafi verið við hvern hinna erlendu gjaldmiðla sé tilgreindur í íslenskum krónum, en skjalið væri bersýnilega óþarft ef í raun hefði verið um að ræða lögmætt lán í erlendri mynt.
Einnig sé til þess að líta að samkvæmt 8. gr. skilmála skuldabréfsins sé gert ráð fyrir því að unnt sé að breyta viðmiðunargjaldmiðlum lánsins. Þar sé gert ráð fyrir því að við slíkar breytingar skuli tekið mið af gengi viðkomandi gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni en ekki innbyrðis gengi hinna erlendu gjaldmiðla. Ef í raun væri um að ræða lögmætt lán í erlendri mynt væri þessi tenging við íslensku krónuna óþörf enda væri þá nærtækast að miða við gengi erlendra gjaldmiðla hvers gagnvart öðrum. Ekki verði séð að önnur ástæða geti legið að baki myntbreytingarheimild en að í raun sé um að ræða lán í íslenskum krónum. Með því að leggja ekki fram yfirlit yfir hver krafa stefnanda sé án tillits til ólögmætrar gengistryggingar hafi stefnandi látið hjá líða að færa fram sönnun fyrir umfangi kröfu sinnar. Í ljósi meginreglu laga um sönnunarbyrði bíði stefnandi hallann af eigin sönnunarskorti og því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Stefnanda hafi borið að reikna út kröfu sína í samræmi við dóma Hæstaréttar, einkum í málum nr. 600/2011, 464/2012, 430/2013, 661/2013 og 544/2013, þ.e. á grundvelli reglunnar um fullnaðarkvittanir og aðrar reglur er varði endurútreikning ólögmætra gengislána, sbr. einnig lög nr. 151/2010. Þar sem þetta hafi ekki verið gert beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Um lagarök vísar stefndi einkum til reglna samninga- og kröfuréttar og VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnaði byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Í máli þessu greinir aðila á um hvort lán, sem stefndi tók hinn 27. júní 2007 hjá Íslandsbanka hf., sem stefnandi leiðir rétt sinn frá, hafi verið í íslenskum krónum og bundið gengi erlendra mynta með þeim hætti að í bága fari við 14. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001, eða hvort um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum.
Eins og greinir í forsendum dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðlum ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt þeim er hins vegar óheimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum á þann hátt að það sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Af orðalagi ákvæðanna og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausn á því hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum verðir fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni.
Umþrætt lán var veitt með því að stefndi gaf út skuldabréf, sem bar yfirskriftina: „Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“. Þá sagði í skuldabréfinu: „Undirritaður útgefandi viðurkennir með undirritun sinni á skuldabréf þetta að skulda Íslandsbanka hf. ... CHF 397.852 ... JPY 39.944.078 ... EUR 119.962 ... Jafnvirði í íslenskum krónum þann 22.6.2007 50.000.000“. Efni skuldabréfsins hefur verið lýst nánar hér að framan sem og þeim tveimur skilmálabreytingum sem gerðar voru á skuldabréfinu annars vegar hinn 17. september 2008 og hins vegar hinn 30. desember 2009, þar sem breytt var endurgreiðslu lánsins.
Við úrlausn þess hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum er fyrst að líta til heitis skuldabréfsins. Í öðru lagi að lánsfjárhæðin er samkvæmt orðalagi skuldabréfsins fyrst tilgreind í þremur erlendum gjaldmiðlum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum, og síðan jafnvirðis lánsins í íslenskum krónum. Í þriðja lagi eru vextir samkvæmt skuldabréfinu til samræmis við að um erlent lán sé að ræða tilgreindir LIBOR- og ERUIBOR-vextir. Í fjórða lagi er til skilmálabreytinganna að líta, en þar er jafnvirðisfjárhæðar í íslenskum krónum ekki getið. Þegar framangreind atriði eru virt verður lagt til grundvallar að hér hafi verið tekið gilt lán í hinum tilgreindu erlendu gjaldmiðlum. Að því gættu gat útgreiðsla lánsins og endurgreiðsla þess engu breytt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 446/2013. Þá er ekki unnt að líta svo á að ákvæði samningsins um myntbreytingar bendi til þess að um hafi verið að ræða gengistryggt lán í íslenskum krónum.
Óumdeilt er að vanskil voru á skuldabréfinu frá 5. nóvember 2009 og var skuldabréfið gjaldfellt hinn 10. mars 2010. Eftirstöðvar þess voru þá reiknaðar í íslenskar krónur í samræmi við skilmála bréfsins. Samkvæmt því verður því fallist á kröfu stefnanda eins og hún er fram sett og nánar greinir í dómsorði.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Logafold ehf., greiði stefnanda, Íslandsbanka hf., 122.129.663 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 248.446 krónum frá 5. nóvember 2009 til 5. desember 2009, en af 513.306 krónum frá þeim degi til 5. janúar 2010, en af 786.369 krónum frá þeim degi til 5. febrúar 2010, en af 1.063.703 krónum frá þeim degi til 5. mars 2010, en af 1.736.196 krónum frá þeim degi til 10. mars 2010, en af 122.129.664 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.