Hæstiréttur íslands

Mál nr. 291/1999


Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. apríl 2000.

Nr. 291/1999.

Bjarney Rut Jensdóttir

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Ragnari Helga Halldórssyni og

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Gjafsókn.

B slasaðist í bifreið í eigu R, sem hafði lögmælta ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélaginu V. Í héraði voru R og V dæmdir til að greiða B bætur fyrir varanlega örorku, varanlegan miska og þjáningar og skyldi fjárhæðin bera dráttarvexti frá uppsögu dómsins. Þeir undu þessari niðurstöðu, en B taldi tímabundið atvinnutjón og tjón sitt vegna varanlegrar örorku ekki fullbætt. Talið var að þótt ráðið yrði að B hefði að einhverju leyti haft skerta getu til vinnu vegna afleiðinga slyssins veittu gögn málsins enga viðhlítandi vitneskju um að hún hefði orðið fyrir fjártjóni vegna tímabundins vinnutaps. Ekki þótti nægilega leitt í ljós að B hefði lagt drög að samningi um nám í framreiðslustörfum fyrir slysið þannig að unnt væri að miða bætur fyrir varanlega örorku við tekjur fyrir þau störf, sbr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þegar litið var til skólasóknar B og upplýsinga um rýrar tekjur síðustu tvö árin fyrir slysið var talið að B hefði nýtt vinnugetu sína á þeim tíma að verulegu leyti til þess að stunda nám. Að þessu gættu og ungs aldurs B þegar slysið bar að höndum þótti 8. gr. skaðabótalaga eiga við ákvörðun örorkubóta vegna slyssins. Var niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð bóta B staðfest, þó þannig að fallist var á kröfu B um að miða bæri dráttarvexti við þann dag, þegar liðinn var einn mánuður frá því að hún krafði R og V um bætur á grundvelli örorkumats, sem þá lá fyrir.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson, og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júlí 1999 og krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sér óskipt aðallega 4.148.586 krónur, en til vara 1.915.785 krónur ásamt 2% ársvöxtum frá 30. janúar 1994 til 5. mars 1996 og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 1.541.585 krónum. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum var veitt á báðum dómstigum.

Stefndu krefjast aðallega sýknu og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

 

I.

Áfrýjandi var farþegi í bifreið í eigu stefnda Ragnars 30. janúar 1994 og slasaðist, er hún fór út af Reykjanesbraut og valt. Var áfrýjandi þá liðlega 17 ára. Áverkum er lýst í héraðsdómi. Dómkvaddir menn mátu 26. janúar 1998 varanlegan miska áfrýjanda vegna slyssins 12%, sbr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en varanlega örorku 20%, sbr. 5. gr. sömu laga. Þá töldu matsmenn áfrýjanda hafa verið óvinnufæran í átta mánuði í kjölfar slyssins, svo og að hann hafi um jafn langan tíma verið veikur án þess að vera rúmfastur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga. Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. greiddi áfrýjanda úr lögmæltri ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar lækniskostnað og nokkrar þjáningabætur. Vegna ágreinings um skaðabótakröfuna að öðru leyti höfðaði áfrýjandi mál þetta gegn stefndu.

Með hinum áfrýjaða dómi voru áfrýjanda dæmdar 632.325 krónur í bætur fyrir varanlega örorku með vísun til 8. gr. skaðabótalaga, 505.860 krónur vegna varanlegs miska og 177.600 krónur í þjáningabætur eða samtals 1.315.785 krónur ásamt 2% ársvöxtum frá slysdegi til uppsögu dómsins, en dráttarvöxtum upp frá því til greiðsludags. Stefndu undu héraðsdómi og greiddi Vátryggingafélag Íslands hf. 20. ágúst 1999 áfrýjanda 1.405.885 krónur, sem þeir töldu vera fullnaðargreiðslu samkvæmt dóminum til viðbótar fyrri greiðslum upp í tjón áfrýjanda. Er aðalkrafa stefndu um sýknu á þessu reist, enda hafi bætur til áfrýjanda verið hæfilega ákveðnar í héraðsdómi.

Áfrýjandi telur tjón sitt ekki fullbætt með þessari greiðslu og varðar ágreiningur málsaðila hér fyrir dómi þrennt, skaðabætur fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku og upphafstíma dráttarvaxta.

Með ákvörðun Hæstaréttar 12. janúar 2000 var áfrýjanda gefinn kostur á að afla nýrra gagna, einkum um nám og störf á árunum 1993 og 1994. Meðal gagnanna eru skýrslur, sem áfrýjandi og einn fyrrverandi vinnuveitandi hans gáfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 13. mars 2000, yfirlýsing annars vinnuveitanda hans og vottorð frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

II.

Áfrýjandi krefst 600.000 króna í bætur fyrir tímabundið atvinnutjón. Miðar hann þá kröfu við 75.000 króna mánaðarlaun og launamissi í 8 mánuði. Krafan styðst við örorkumat frá 4. janúar 1996 og áðurnefnt mat dómkvaddra manna 26. janúar 1998, sem staðfestu áætlun læknisins um tímabundna óvinnufærni. Hvorki er að finna í mati læknisins né hinna dómkvöddu manna viðhlítandi skýringar á hvað hafi legið til grundvallar því að þeir telji áfrýjanda hafa verið óvinnufæran í 8 mánuði, en til þess verður að líta að fyrir liggur að í kjölfar slyssins var áfrýjandi að minnsta kosti við vinnu á tímabilinu frá 30. mars til 3. ágúst 1994. Auk þess eru sumar þeirra upplýsinga um vinnu og nám áfrýjanda eftir slysið, sem byggt er á í örorkumatinu 4. janúar 1996 og matsgerðinni 26. janúar 1998, í ósamræmi við gögn, sem nú liggja fyrir í málinu. Af læknisvottorðum má ráða að áfrýjandi hafi á árinu 1994 að einhverju leyti haft skerta getu til vinnu vegna afleiðinga slyssins, en gögn málsins veita þó enga viðhlítandi vitneskju um að áfrýjandi hafi orðið fyrir fjártjóni vegna tímabundins vinnutaps. Verður því að staðfesta niðurstöðu héraðdóms um þetta ágreiningsefni.

III.

Um ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku áfrýjanda fer eftir skaðabótalögum nr. 50/1993 eins og þau voru fyrir breytingar, sem gerðar voru á þeim með lögum nr. 42/1996 og lögum nr. 37/1999. Áfrýjandi krefst þess að þær bætur verði ákveðnar eftir 5.-7. gr. skaðabótalaga. Stefndu krefjast þess hins vegar að örorkubæturnar verði ákveðnar eftir reglum 8. gr. laganna, eins og lagt var til grundvallar í héraðsdómi.

Til stuðnings umræddri kröfu ber áfrýjandi því við að hann hafi fyrir slysið ákveðið að leggja framreiðslustörf fyrir sig. Hafi hann í því skyni sóst eftir að gera námssamning við veitingahús. Hann kveðst hafa unnið á veitingahúsinu Glóðinni í Keflavík með námi sínu í Fjölbrautaskóla Suðurnesja frá og með haustönn 1993, en fyrir liggur að hann hóf þar nám haustið 1992.

Eftir uppsögu héraðsdóms aflaði áfrýjandi skriflegrar yfirlýsingar frá Erni Garðarssyni matreiðslumeistara, sem rak á umræddum tíma veitingahúsið Glóðina, og leiddi hann jafnframt fyrir dóm til skýrslugjafar 13. mars 2000. Í þeim gögnum kom fram að ráðgert hafi verið að samningur um framreiðslunám yrði gerður við áfrýjanda jafnskjótt og þjónn með meistararéttindi fengist til starfa við veitingahúsið. Það hafi hins vegar ekki orðið. Í yfirlýsingu matreiðslumeistarans segir einnig að áfrýjandi hafi unnið hjá honum á veitingahúsinu Glóðinni í Keflavík frá hausti 1993 þar til áfrýjandi slasaðist og varð að hætta störfum. Fyrir dómi bar hann hins vegar að áfrýjandi hefði aðeins unnið hjá sér til ársloka 1993, þar sem engin starfsemi hafi verið í veitingahúsinu í janúar 1994 vegna breytinga á húsakynnum þess. Upplýsingar um hvernig farið hafi um uppsagnarfrest eða slit ráðningarsamnings að öðru leyti liggja ekki fyrir. Þá kemur ekki fram, hvort samið hafi verið um að áfrýjandi héldi áfram þessari vinnu þegar starfsemi hæfist aftur í veitingahúsinu, en ljóst er að áfrýjandi kom ekki aftur til starfa þar. Í yfirlýsingu matreiðslumeistarans er þess getið að áfrýjandi hafi unnið á vöktum frá kl. 17.30 í 6 klukkustundir á virkum dögum, en 8 klukkustundir um helgar. Vinnuvikan hafi verið „2-2-3,  þ.e. unnið tvo daga, frí í tvo og unnir þrír.”

Áfrýjandi var enn við nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja á vorönn 1994, en slysið varð eins og áður getur 30. janúar 1994. Í bréfi skólans 13. mars 2000 segir að áfrýjandi hafi byrjað nám í sex áföngum á þeirri önn, en lokið fjórum.

Áfrýjandi kveðst hafa leitað til veitingahúss í Reykjavík um námssamning. Samkvæmt bréfi menntamálaráðuneytisins 6. mars 2000 byrjaði áfrýjandi framreiðslunám á veitingahúsi í Reykjavík 30. mars 1994, en þeim námssamningi var slitið 3. ágúst sama árs. Ástæðu samningsslita segir áfrýjandi hafa verið slæma heilsu sína eftir slysið. Meðal nýrra gagna málsins er bréf frá stjórnanda þess veitingahúss, þar sem greint er frá að áfrýjandi hafi unnið þar frá mars til 4. ágúst 1994. Námu tekjur fyrir þá vinnu alls 212.281 krónu. Áfrýjandi skýrði frá að hér hafi verið um að ræða fullt starf.

Aðrar tekjur áfrýjanda á árinu 1994 voru samkvæmt skattframtali 2.242 krónur. Áfrýjandi kvaðst í framburði sínum fyrir dómi ekki hafa treyst sér til að vera í skóla á haustönn 1994. Þá var áfrýjandi barnshafandi. Segir í örorkumati læknis 4. janúar 1996 að áfrýjandi hafi alið barn 15. mars 1995 og verið í fæðingarorlofi frá 1. febrúar til 1. júlí það ár.

IV.

Þegar slysið bar að höndum gilti um ákvörðun örorkubóta svohljóðandi regla í 1. mgr. 8. gr. skaðabótalaga: „Bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skal ákvarða á grundvelli miskastigs skv. 4. gr.“

Atvinnutekjur áfrýjanda árið 1992 námu samkvæmt skattframtali 149.728 krónum, en árið 1993 246.173 krónum, þar af 140.661 krónu fyrir vinnu á veitingahúsinu Glóðinni frá hausti á því ári. Á árinu 1994 voru tekjur áfrýjanda eins og áður greinir 214.523 krónur.

Svo sem fyrr segir hófst nám áfrýjanda við Fjölbrautaskóla Suðurnesja haustið 1992. Kvaðst áfrýjandi síðan hafa tekið sér frí frá námi á vorönn 1993. Veturinn 1993 til 1994 var áfrýjandi þar við nám og stóðst próf í einni námsgrein á haustönn 1993, en engri á vorönn 1994. Samkvæmt vottorði skólans var skólasókn áfrýjanda á hvorri önn þennan vetur 80-94%, en ekki sést af því hvort hún var jöfn allan veturinn eða hafi fallið niður á tilteknum tímabilum. Áfrýjandi hefur ekki upplýst hvenær á vorönn 1994 hann lauk eða lét af námi. Áfrýjandi hefur heldur ekki aflað glöggra upplýsinga um vinnutímabil sitt í veitingahúsinu Glóðinni haustið 1993 eða um aðdraganda að ráðningu hans við veitingahús í Reykjavík í mars 1994, þó að tilefni hafi verið til þess eftir ákvörðun Hæstaréttar. Að þessu virtu er gegn mótmælum stefndu ekki nægilega leitt í ljós, að áfrýjandi hafi lagt drög að samningi um nám í framreiðslustörfum fyrir slysið. Þegar litið er til skólasóknar og framangreindra upplýsinga um rýrar tekjur síðustu tvö almanaksárin fyrir slysið verður að telja að áfrýjandi hafi nýtt vinnugetu sína á þeim tíma að verulegu leyti til þess að stunda nám. Verður ekki talið að tekjuöflun áfrýjanda á haustönn 1993 haggi þeirri niðurstöðu. Þegar gætt er alls framangreinds og ungs aldurs áfrýjanda þegar slysið bar að höndum verður fallist á með stefndu að beitt verði 8. gr. skaðabótalaga við ákvörðun örorkubóta vegna slyssins. Verður því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms að þessu leyti.

Tekin er til greina krafa áfrýjanda um að stefndu beri að greiða honum dráttarvexti frá 5. mars 1996, en þá var liðinn mánuður frá því að hann krafði stefndu bóta á grundvelli örorkumats, sem þá lá fyrir, sbr. 15. gr. vaxtalaga.

Samkvæmt framangreindu verða stefndu dæmdir til að greiða áfrýjanda óskipt 1.315.785 krónur með vöxtum, eins og greinir í dómsorði, en í samræmi við kröfugerð áfrýjanda ber að draga 1.541.585 krónur frá uppreiknaðri kröfu hans eins og hún stóð á greiðsludegi.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndu, Ragnar Helgi Halldórsson og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði óskipt áfrýjanda, Bjarneyju Rut Jensdóttur, 1.315.785 krónur með 2% ársvöxtum frá 30. janúar 1994 til 5. mars 1996, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Frá öllu framangreindu dragist greiðsla stefndu, 1.541.585 krónur, inn á kröfu áfrýjanda, eins og hún stóð á greiðsludegi innborgunar 20. ágúst 1999.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.

                                                                 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 1999.

Mál þetta var dómtekið 2. febrúar sl. en flutt að nýju 19. apríl s.l. og dómtekið þann sama dag.  Málið er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 4. maí 1998 af Bjarney Rut Jensdóttur, Hafnargötu 42, Keflavík gegn Ragnari Helga Halldórssyni, Gónhóli 30, Njarðvík og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

 

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 4.148.586 krónur með 2% ársvöxtum frá 30. janúar 1994 til 5. mars 1996, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara er þess krafist að stefndu verði gert að greiða stefnanda óskipt 1.915.785 krónur með sömu vöxtum og að framan greinir.

Til þrautavara er þess krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda 1.283.460 krónur með sömu vöxtum og að framan greinir.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, eins og mál þetta væri eigi rekið sem gjafsóknarmál og taki tildæmdur málskostnaður mið af því að stefnandi er eigi virðisaukaskattskyld.

Stefndu gera þær dómkröfur að þeim verði aðeins gert að greiða 380.200 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til greiðsludags.  Auk þess er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

 

Málavextir

Þann 30. janúar 1994 lenti stefnandi, Bjarney Rut Jensdóttir, í umferðarslysi á Reykjanesbraut.  Slysið varð með þeim hætti að stefnandi var farþegi í bifreiðinni MS-401, þegar ökumaður bifreiðarinnar missti stjórn á henni með þeim afleiðingum að bifreiðin fór út af veginum og endastakkst.  Stefnandi var í öryggisbelti en kastaðist til inni í bifreiðini við veltuna og fékk högg á háls, bak og axlir.  Þegar eftir slysið fann hún til mikilla eymsla og stirðleika á þessum stöðum.  Var stefnandi strax eftir slysið flutt á slysamóttöku Sjúkrahúss Suðurnesja.  Niðurstaða skoðunar þar var að hún hefði hlotið tognun á hálsi og í baki og fékk hún hálskraga.  Vegna mikilla verkja í hálsi og baki leitaði hún aftur til sjúkrahússins strax daginn eftir og fékk þá meðferð með bólgueyðandi lyfjum.

Stefnandi kveðst hafa verið afar slæm næstu daga af verkjum í hálsliðum, í vöðvafestum, í hálsi, mjóbaki og mjaðmagrind og leitaði af þeim sökum til Sjúkrahúss Suðurnesja.  Hafi hún þá haft stöðuga verki í herðum og upp í háls og einnig í mjóbaki.  Samkvæmt ráðleggingum læknis leitaði hún til sjúkraþjálfara, en kveðst einungis hafa versnað við meðferð hjá honum.

Stefnandi hafði starfað við ræstingar og verið á samningi til þjónsstarfa á veitingastaðnum Glóðinni árið 1993 fyrir slysið, en hugur hennar mun hafa staðið til þess að leggja þjónustustarfið fyrir sig í framtíðinni.

Haustið 1993 settist stefnandi á skólabekk í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og gekk vel í skólanum að sögn.  Vann hún þá jafnframt á kvöldin og um helgar við framreiðslustörf á veitingahúsinu Glóðinni.  Næstu mánuði eftir slysið kveðst hún hins vegar ekkert hafa getað unnið.  Hafi hún átt mjög erfitt með að lesa og einbeita sér og því ekki getað farið í próf um vorið og féll á þeirri önn.

Sumarið eftir slysið stundaði stefnandi þjónsnám á veitingahúsinu Jónatan Livingstone Máfur, þrátt fyrir mikil óþægindi því samfara, að sögn. Vegna verkja kveðst stefnandi hins vegar ekki hafa treyst sér til þess lengur en til fyrstu daga ágústmánaðar 1994 og hafi orðið að hætta.  Þetta sumar varð stefnandi ófrísk og reyndi meðgangan enn frekar á bak hennar, axlir og háls.  Varð hún því að taka verkjalyf á meðan á meðgöngu stóð.  Ól hún síðan stúlkubarn í mars 1995.  Hún gat ekki fætt barn sitt á eðlilegan hátt vegna skekkju í mjaðmagrindd og fór fæðingin því fram eftir keisaraskurð.  Telur sjúkraþjálfari Bjarneyjar að þá skekkju á mjaðmagrindinni megi rekja til slyssins.

Eftir barnsburðinn var stefnandi í meðferð hjá sjúkraþjálfara fram á árið 1996, en sú meðferð kom, að sögn stefnanda, ekki að neinu verulegu gagni.  Hún hafði áfram stöðuga verki frá hálsi og niður í bak og þjáðist auk þess af höfuðverkjum, stirðleika í baki og ljósfælni.  Hóf hún störf sem þjónn á pizzaveitingastað í september 1995.  Var hún fyrst um sinn í 100% starfi, en varð að minnka vinnu við sig niður í 50% starf 1½ mánuði síðar vegna verkja og loks niður í 25% starf 1½ mánuði eftir það.  Varð hún loks að hætta starfinu í febrúar 1996 vegna háls- og bakóþæginda.

Stefnandi hóf störf í apríl 1996 við þrif á flugvélum hjá Flugleiðum, en sú vinna gerði of miklar líkamlegar kröfur til hennar og varð hún að hætta þar 3 vikum síðar.  Í ágúst 1996 hóf hún létt ræstingarstörf hjá embætti sýslumannsins í Keflavík og hefur starfað þar síðan.  Þar er einungis um að ræða vinnu í u.þ.b. 1 klst. á dag, sem hentar henni vel að sögn.  Um haustið 1996 hóf hún störf á afgreiðslukassa í matvöruverslun samhliða starfinu hjá embætti sýslumannsins en sökum mikilla óþæginda við þá vinnu neyddist stefnandi til að hætta þar 3 mánuðum síðar.

Í mars 1997 reyndi stefnandi enn að fara að vinna, nú við loðnufrystingu.  Það starf var líkamlega krefjandi og vegna verkja í baki og hálsi gafst hún upp á því eftir tveggja vikna fullt starf.  Um haustið 1997 hóf hún störf í sjoppu.  Vegna þrauta í baki og hálsi varð hún að  hætta því starfi í nóvember 1997.  Gat hún engan veginn ráðið við ýmis störf sem í því fólust, s.s. að lyfta þungum kössum og rétta vörur út um bílalúgu.

Vegna mikilla óþæginda og verkja í herðum og hálsi eftir slysið fór stefnandi í brjóstaminnkunaraðgerð þann 4. nóvember 1997 í því augamiði að draga úr þyngslum frá brjóstum.  Lá hún á sjúkrahúsi í 4 daga vegna aðgerðarinnar og var óvinnufær með öllu í 8 vikur eftir það, sbr. vottorð Jens Kjartanssonar læknis dags. 20. nóvember 1997.

Að beiðni stefnanda mat Jónas Hallgrímsson læknir örorku stefnanda, sbr. matsgerð hans dags. 4. janúar 1996.  Niðurstaða hans var að örorka hennar hefði verið 100% í 8 mánuði eftir slysið, en að varanleg örorka hennar væri 15%.  Þá telur Jónas hana hafa verið veika í skilningi skaðabótalaga nr. 50/1993 í 90 daga eftir slysið og varanlegan miska mat hann 10%.

Á grundvelli þessarar niðurstöðu Jónasar sendi lögmaður stefnanda stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., kröfubréf dags. 5. febrúar 1996.  Vátryggingafélag Íslands hafnaði kröfu hennar.  Þann 21. mars 1996 óskuðu lögmaður stefnanda og stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., eftir því við örorkunefnd að hún mæti varanlegan miska stefnanda.  Niðurstaða nefndarinnar lá fyrir 21. september 1996 og var á þá leið að varanlegur miski stefnanda vegna umrædds slyss væri 5%.

Í framhaldi af niðurstöðu nefndarinnar sendi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hinn 26. september 1996 lögmanni stefnanda tillögu að uppgjöri á tjóni hennar.  Tilboð stefnda hljóðaði upp á greiðslu á 214.200 krónum fyrir varanlegan miska stefnanda og 67.500 í þjáningabætur, sem fullnaðargreiðslur á öllu tjóni hennar, fjárhagslegu og ófjárhagslegu.

Stefnandi vildi ekki una framangreindri niðurstöðu örorkunefndar.  Hún hafnaði framangreindu tilboði  stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf.  Óskaði lögmaður hennar í framhaldi af því dómkvaðningar matsmanna til að meta varanlega örorku og miska hennar.  Þeir Atli Þór Ólason og Leifur N. Dungal læknar voru kvaddir til matsins.  Er matsgerð þeirra dagsett 26. janúar 1998.  Niðurstaða þeirra er sú að tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga sé 100% í 8 mánuði.  Þjáningar samkvæmt 3. gr. sömu laga vegna veikinda án rúmlegu hafi varað í 8 mánuði.  Varanlegur miski samkvæmt 4. gr. sömu laga sé 12% og varanleg örorka samkvæmt 5. gr. 20%.

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafnaði bótakröfu stefnanda dagsettri 27. febrúar 1998 sem byggði á matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna á þeim grundvelli að réttur stefnanda til bóta byggðist á 8. gr. skaðabótalaga og miða ætti við niðurstöðu örorkunefndar um 5% varanlegan miska.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Um bótarétt stefnanda á hendur stefnda, Ragnari Helga Halldórssyni, er vísað til 1. mgr. 88. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, þar sem Ragnar hafi verið eigandi bifreiðarinnar MS-401 er slysið átti sér stað og sé fébótaskyldur vegna þess tjóns er af notkun bifreiðarinnar hlaust samkvæmt nefndum ákvæðum.

Um bótarétt stefnanda á hendur stefnda, Vátryggingafélgi Íslands hf., er vísað til 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga, þar sem félagið var ábyrgðartryggjandi bifreiðarinnar MS-401 er slysið átti sér stað.  Félaginu er stefnt samhliða stefnda, Ragnari, samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga.

Ekki sé deilt um bótaskyldu í málinu, enda hafi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., viðurkennt bótaskyldu sína.

 

Bótaútreikningur og bótafjárhæð

Ágreiningur aðila þessa máls standi um það við hvaða reglur skuli miða útreikning skaðabóta til stefnanda vegna líkamsstjóns hennar, sem sé afleiðing umferðarslyss þann 30. janúar 1994.

 

Aðalkrafa

Skaðabótalög nr. 50/1993 eigi að gilda um útreikning skaðabóta til stefnanda vegna slyssins.  Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi neitað greiðslu frekari bóta en leiðir- af mati örorkunefndar, sem metið hafi varanlegan miska Bjarneyjar 5%.  Telji Vátryggingafélag Íslands hf. að bætur til stefnanda vegna slyssins skuli reiknaðar út samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga.  Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laganna, eins og hún var á slysdegi þann 30. janúar 1994, greiðast engar skaðabætur til slasaðs fólks vegna varanlegrar örorku ef miskastig þeirra er lægra en 15%.

Aðallega er byggt á því að skaðabætur til stefnanda vegna varanlegrar örorku hennar skuli reiknaðar út með hliðsjón af mati hinna dómkvöddu matsmanna og samkvæmt 5. og 6. gr. skaðabótalaga.  Sé í því sambandi einkum vísað til eftirfarandi:

 

1)Stefnandi hafi starfað við framleiðslustörf og hafi verið á námssamningi að læra til þjóns á veitingahúsi sumarið og haustið 1993, enda hafi hugur hennar staðið til að leggja það starf fyrir sig.  Samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga og athugasemdum við þá grein í greinargerð með frumvarpi til skaðabótalaga fari því ekki um útreikning skaðabóta til stefnanda eftir 8. gr. laganna.  Hins vegar skuli leggja til grundvallar bótaútreikningi þau laun er hún hefði haft að loknu þjónustunámi. sínu.  Stefnandi hafi þegar ákveðið og skapað sér starfsvettvang er slysið varð.  Eins og áður segi hafi hún sest á skólabekk í Fjölbrautaskóla Suðurnesja haustið 1993, en hafi, þrátt fyrir það, haldið áfram þjónsnámi sínu og framreiðslustarfi.  Hafi hún stundað það á kvöldin og um helgar.

Alkunna sé að þjónsstörf á veitingahúsum séu einkum stunduð á kvöldin og um helgar.  Það eitt, að stefnandi, til viðbótar við starfsnám sitt settist á skólabekk haustið fyrir slys sitt, geri það ekki að verkum að meta skuli skaðabætur til hennar eftir 8. gr. skaðabótalaga.  Með því væri verið að refsa henni fyrir þann dugnað að stunda nám í skóla auk þess að vinna, enda séu skaðabætur reiknaðar eftir 8. gr. skaðabótalaga til muna lægri en bætur reiknaðar eftir 5. gr. laganna.  Hefði hún látið vera að hefja skólagöngu haustið 1993, en aðeins unnið sem þjónn, hefðu skaðabætur til hennar vitaskuld verið reiknaðar í samræmi við 5. gr. skaðabótalaga.  Sú krafa stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., að reikna út skaðabætur til Bjarneyjar eftir 8. gr. eingöngu sökum þess að hún stundaði nám haustið fyrir slys sitt, til viðbótar við vinnu sína, sé órökstudd og alveg fráleit.

Skólagangan ein réttlæti ekki að bætur tjónþola séu reiknaðir út eftir 8. gr. skaðabótalaga.  Sé í þessu sambandi vísað sérstaklega til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga  og sjónarmiða að baki henni.  Sú grein taki sérstaklega til þess er tjónþoli hafi verið í hlutastarfi en hafi einnig notað hluta starfsorku sinnar til annarra athafna.  Skuli þá ákvarða  árslaun tjónþola eftir mati.  Fráleitt sé að skólaganga tjónþola, sem vinni ekki fulla vinnu, valdi því að bætur fyrir varanlega örorku hans verði ákvarðaðar eftir 8. gr. skaðabótalaga.  Það gangi þvert gegn tilgangi 2. mgr. 7. gr. sömu laga.  Viðmiðum 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skuli vera vinnugeta tjónþola á tjónsdegi, en ekki raunverulegar tekjur.  Þegar um börn og skólafólk sé að ræða, sem ekki hafa sýnt fram á vinnugetu sína með öflun tekna, geti hugsanlega í sumum tilvikum verið erfitt að meta vinnugetu þeirra.  Hins vegar sé ekki um slíkt að ræða í tilviki stefnanda, eins og áður sé rakið.

Þá verði að líta til þess að 5. gr. skaðabótalaga verði að teljast meginregla, enda hefur sú regla gilt bæði fyrir og eftir setningu skaðabótalaga, að tjón vegna varanlegrar örorku þeirra sem slasast skuli bætt.  Þess vegna verði að líta á 8. gr. laganna sem undantekningu frá þeirri meginreglu og beri því að skýra hana þrengjandi skýringu í samræmi við viðtekin lögskýringarsjónarmið.

Einnig er á því byggt að orðalag 8. gr. skaðabótalaga heimili ekki að skaðabætur til stefnanda verði reiknaðar eftir þeirri lagagrein.  Í 8. gr. laganna segi:

“Bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skal ákvarða á grundvelli miskastigs skv. 4. gr.”

Stefnandi hafi haft venjulegar vinnutekjur við framleiðslustörf sín fyrir slysið svo að grein þessi eigi ekki við um tjón hennar.  Skuli því ákvarða viðmiðunartekjur hennar eftir mati samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Allur vafi verði að þessu leyti skýrður stefnanda í hag þar sem 8. gr. skaðabótalaga verði að teljast undantekning frá meginreglu 5. gr. laganna, sbr. það sem segi hér að framan.

 

2)Verði niðurstaðan sú að 8. gr. skaðabótalaga eigi við um útreikning skaðabóta til stefnanda er byggt á því að ákvæði þeirrar greinar um ákvörðun skaðabóta til barna, námsmanna og annrra með takmarkaða tekjureynslu á næstliðnu ári fyirr slys, gangi gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldis Íslands, sbr. stjórnskipunarlög nr. 33/1944.  Því geti 8. gr. skaðabótalaga ekki talist lögmætur grundvöllur útreiknings skaðabóta til Bjarneyjar.

Dómkvaddir matsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi hlotið 20% varanlega örorku, sbr. 5. gr. skaðabótalaga, vegna líkamlegra afleiðinga umferðarslyss þann 30. janúar 1994.  Það merki að matsmenn álíta að hún hafi beðið varanlega skerðingu á tekjuöflunarhæfi, sem beri að bæta samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga.  Þetta merki einnig að matsmenn telji að framtíðartekjur hennar muni skerðast um sem nemi einum fimmta hluta vegna afleiðinga slyssins.

Þá telji matsmenn varanlegan miska stefnanda vegna afleiðinga slyssins vera 12%.  Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. skaðabótalaga, eins og sú grein hafi hljóðað þegar hún lenti í slysi sínu, hafi börn og þeir sem höfðu takmarkaðar eða engar vinnutekjur fyrir tjónsatburð, aðeins átt að fá greiddar bætur vegna varanlegrar örorku ef varanlegur miski næði 15%.  Nái varanlegur miski ekki 15% fá viðkomandi tjónþolar ekki neinar bætur fyrir varanlega örorku sína, sama hversu há hún sé.  Sé þar um skýra mismunun að ræða gagnvart öllum þeim sem ekki nýttu að fullu vinnugetu sína fyrir slys sökum ungs aldurs, náms, veikinda eða annarra atvika.  Hæstiréttur hafi staðfest að slík mismunum, t.d. vegna aldurs eða kyns, verði ekki réttlætt á nokkurn hátt  með skírskotun til meðaltalsútreikninga.

Komi mismunun þessi skýrlega í ljós þegar um sé að ræða tjónþola, sem séu í sömu aðstöðu og stefnandi, þ.e. miski þeirra sé metinn lægri en 15%.  Miski stefnanda hafi verið  metinn 12%.  Samkvæmt ofannefndri reglu 2. mgr., 8. gr. skaðabótalaga skuli einungis greiða stefnanda bætur fyrir varanlegan miska.  Varanleg örorka hennar sé þá óbætt.  Þar sem ákvæði 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, í tilviki stefnanda, kveði á um að hún verði að þola óbætta skerðingu á vinnugetu sinni um 1/5, hafi löggjafinn gengið gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar, enda svipti ákvæðið stefnanda, sem og annað ungt fólk og námsmenn, með því  rétti sínum til bóta fyrir varanlega örorku.  Sérstaklega skuli ítrekað að varanleg örorka Bjarneyjar sé mikil og öllum augljós, sem vilji sjá.  Hafi örorkan verið metin af dómkvöddum matsmönnum í vel rökstuddri og ítarlegri matsgerð.

 

3)Stefnandi byggir einnig á því að ákvæði 8. gr. skaðabótalaga gangi gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrár lýðveldis Íslands, sbr. lög nr. 33/1944  og geti sú grein skaðabótalaga því ekki talist lögmætur grundvöllur útreiknings skaðabóta til stefnanda.  Þess í stað verði að reikna skaðabætur vegna slyssins eftir 6. gr. skaðabótalaga.

Ákvæði um vernd eignaréttar hafi verið að finna í 67. gr. stjórnarskrárinnar, er Bjarney lenti í umferðarslysinu, en sé nú að finna í 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.  Eins og að framan greini gildi sú meginregla í skaðabótarétti að varanleg örorka þess sem slasast skuli að fullu bætt af tjónvaladi.  Sú regla hafi gilt jafnt fyrir og eftir setningu skaðabótalaga.  Aflahæfi manna og bótaréttur njóti verndar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og eru  því friðheilög sem önnur eignarréttindi.

Dómkvaddir matsmenn hafi metið varanlega örorku stefnanda og telji í ítarlegri og vel rökstuddri matsgerð sinni að hún hafi hlotið 20% varanlega örorku samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga.  Þeir telja m.ö.o. að tekjuöflunarhæfi Bjarneyjar hafi skerst um 20% vegna slyssins.  Vegna þessarar skerðingar eigi hún rétt á skaðabótum.  Samkvæmt ákvæðum 8. gr. skaðabótalaga, eins og sú grein hljóðaði þegar stefnandi lenti í slysinu, á hún hins vegar ekki  rétt á skaðabótum vegna örorku, einvörðungu vegna þess að varanlegur miski hefur ekki verið metinn 15% eða hærri.  Slík skerðing bótaréttar vegna varanlegrar örorku verði ekki réttlætt með vísan til miskastigs hins slasaða, enda sýni mat hinna dómkvöddu matsmanna, svo að ekki verður um villst, að stefnandi hafi hlotið verulega varanlega örorku, þrátt fyrir að miskastig hennar nái ekki tilskildu 15% marki 8. gr. skaðabótalaga.

Með því að aflahæfi stefnanda skerðist verulega, en hún er jafnframt svipt bótarétti vegna þeirrar skerðingar samkvæmt ákvæðum 8. gr. skaðabótalaga, hafi verið gengið gegn þeirri vernd eignarréttar sem 72. gr. stjórnarskrárinnar sé ætlað að veita.  Verði 8. gr. skaðabótalaga því ekki lögð til grundvallar útreikningi skaðabóta til stefnanda vegna slyssins.  Sé í þessu sambandi sérstaklega vakin athygli á því hversu nálægt tilskildum mörkum miski Bjarneyjar hafi verið metinn, eða 12%.

 

Bótafjárhæð

Við ákvörðun bótafjárhæðar er byggt á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 með hliðsjón af niðurstöðum hinna dómkvöddu matsmanna, sbr. matsgerð dags. 26. janúar 1998.  Sundurliðast bótakrafa stefnanda þannig:

Aðalkrafa

1.  Þjáningabætur, skv. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna 240 daga veikinda

 

177.600 krónur

2.  Bætur vegna tímabundins tekjutaps

600.000 krónur

3.  Varanleg örorka 20%, skv. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993

 

2.865.126 krónur

4.  Bætur fyrir 12% varanlegan miska, skv. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993

 

505.860 krónur

Samtals

4.148.586 krónur

 

Um 1. tölulið.

Samkvæmt ákvæðum 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 1. mgr. 15. gr. s.l., hafi þjáningabætur, vegna hvers dags sem tjónþoli var veikur án þess að vera rúmliggjandi, numið 740 krónum á dag miðað við lánskjaravísitölu í mars 1996.  Hér sé byggt á niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um að stefnandi hafi verið veik í 8 mánuði (240 daga) án þess að vera rúmliggjandi (240 x 740 kr. = 177.600 krónur).

 

Um 2. tölulið.

Við útreikning hins tímabundna tekjutaps sé byggt á niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna.  Þeir telji stefnanda algjörlega óvinnufæra í 8 mánuði eftir slys sitt.  Stefnandi hafi unnið á námssamningi sem þjónn meðfram skóla er slysið varð.  Bætur vegna tímabundins tekjutaps miðist við 75.000 krónur á mánuði í laun.  Sé það sú fjárhæð sem hún hefði haft í tekjur ef hún hefði ekki slasast.  Þessari kröfu sé mjög í hóf stillt, því í reynd hafi hún, allt frá slysinu, verið ófær um að vinna þau störf er hún áður sinnti (8 x 75.000 kr. = 600.000 krónur).

 

Um 3. tölulið.

Byggt sé á niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna. Við slysið hafi stefnandi hlotið 20% varanlega örorku.  Hún hafi verið á námssamningi sem þjónn meðfram skóla er slysið varð og hafi stefnt að því að leggja þjónsstarfið fyrir sig.  Ekki skuli því nota árslaun Bjaneyjar á næstliðnu ári fyrir slys sem viðmiðunartekjur, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, heldur sé miðað við þær tekjur er hún hefði haft að námi loknu.  Hér sé verið að áætla framtíðartekjutap Bjarneyjar af völdum slyssins, alla starfsævi hennar. Samkvæmt upplýsingum frá MATVÍS, Matvæla- og veitingasambandi Íslands, hafi fyrst verið samið um kauptaxta fyrir þjóna árið 1997 en bæði fyrir og eftir þann tíma hafi kauptaxtar þjóna tekið mið af taxta matreiðslumanna.  Sé því miðað við kauptaxta matreiðslumanna eins og hann hafi verið er stefnandi lenti í slysi sínu.  Þannig séu fundnar út viðmiðunartekjur samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga.  Stefnandi hafi þegar stundað þjónsnám sitt í nokkurn tíma er hún lenti í slysinu.  Miðað er við kauptaxta kaupskrár Félags matreiðslumanna í júní 1994 fyrir vaktstjóra m.v. 5 ára starfstíma, þ.e. 72.564 krónur í mánaðartekjur.  Rétt sé að nota það sem viðmiðun, enda hafi stefnandi ætlað að gera þjónsstarfið að framtíðarstarfi, eins og áður sé getið.  Eins og fram komi í ódagsettu bréfi Þorsteins Gunnarssonar hjá Matvæla- og veitingasambandi Íslands, hafi tíðkast að greiða tvöfalt hærri laun en lægstu textar segi til um.  Sé því miðað við 145.128 krónur í mánaðartekjur eða 1.741.536 krónur í árslaun.  Við þá upphæð bætast 6% vegna lífeyrisgreiðslna vinnuveitanda og hækkun samkvæmt lánskjaravísitölu frá tjónsdegi til mars 1996 samkvæmt ákvæðum 2. mlsl. 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga.  Viðmiðunarárslaun séu því samtals 1.910.084 krónur (1.910.084 kr. x 20% x 7,5 = 2.865.126).

 

Um 4. tölulið.

Hér sé vísað til niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna um mat á varanlegum miska stefnanda.  Fjárhæðin sé reiknuð skv. 4. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. skaðabótalaga (12% x 4.215.500 kr. = 505.860 kr.), m.v. lánskjaravísitölu í mars 1996.

 

Varakrafa

Um varakröfu stefnanda er vísað til þess sem að ofan segir um bótaskyldu.  Sé varakrafa við það miðuð að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að ákvarða stefnanda eingöngu bætur vegna varanlegs miska, sbr. 8. gr. skaðabótalaga.  Vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar Íslands 8. janúar 1999 í málinu nr. 333/1997.  Er byggt á því að stefnandi hafi í ofangreindu umferðarslysi hlotið 12% varanlegan miska og 20% varanlega örorku.  Með hliðsjón af 2. mgr. 8. gr. skaðabótalaga eins og hún sé nú miðist krafa stefnanda vegna varanlegrar örorku hennar við 125% af skaðabótum vegna varanlegs miska, þ.e. 125% x 12% x 4.215.500 krónur = 632.325 krónur.  Að öðru leyti sé varakrafan óbreytt frá aðalkröfu.

Varakrafa sundurliðist þannig:

Tímabundið tekjutap

600.000 krónur

Þjáningabætur

177.600 krónur

Varanleg örorka

632.325 krónur

Varanlegur miski

505.860 krónur

Samtals

1.915.785 krónur

                     

Um hækkun bóta í samræmi við breytingar á lánskjaravísitölu er vísað til 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Vaxtakrafa stefnanda er byggð á 16. gr. skaðabótalaga og III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. lög nr. 67/1989.  Dráttarvaxta er krafist frá 5. mars 1996, þ.e. frá því að mánuður var liðinn frá því að lögmaður stefnanda sendi stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., kröfu um greiðslu bóta, dags. 5. febrúar 1996.

Málskostnaðarkrafa stefnanda styðst við 1. mgr. 129. gr. laga og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988.  Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og sé því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskattsins við ákvörðun málskostnaðar.  Með leyfi dómsmálaráðherra dags. 24. október 1997 hafi stefnanda verið veitt gjafsókn í máli þessu.  Þess er krafist að málskostnaður verði tildæmdur henni eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

 

Málsástæður stefndu og lagarök

Kröfur sínar í málinu byggja stefndu á því að um bótarétt stefnanda fari skv. 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Frekari greiðslur en þegar hafi verið boðnar komi ekki til greina.

Stefndi sundurliðar dómkröfu sína með eftirfarandi hætti:

Þjáningabætur (90 dagar x 750)

67.500 krónur

Varanlegur miski

214.200 krónur

Varanleg örorka

214.200 krónur

Áður greitt af VÍS

495.900 krónur

Þjáningabætur

  65.700 krónur

Innágreiðsla

50.000 krónur

Til greiðslu

380.200 krónur

 

 

Grundvöllur bóta

8. gr. skaðabótalaga ákvarði þeim einstaklingum bætur sem að verulegu leyti nýti starfsgetu sína þannig að þeir hafi engar eða takmarkaðar vinnutekjur.  Bætur til þessara einstaklinga skuli ákvarða á grundvelli miskastigs skv. 4. gr. laganna.  Í greinargerð með lögunum segi í umsögn um 8. gr. að reglunni í 8. gr. skuli beita um ungt námsfólk þótt það afli tekna í vinnu með námi og án tillits til tekna af þess konar vinnu, svo framarlega sem nemandinn stundi í reynd nám sitt með eðlilegum hætti.  Á dskj. nr. 3 sé að finna upplýsingar um tekjur stefnanda frá árinu 1992 til 1996.  Þar komi fram að árið 1992 hafi stefnandi haft 149.728 krónur í tekjur.  Árið 1993 263.984 krónur og árið 1994 281.875 krónur.  Af þessu megi ljóst vera að tekjur stefnanda séu hvorki meiri né minni en ætla má þegar námsfólk eigi í hlut.

Á slysdegi hafi stefnandi verið 17 ára gömul og hafi stundað nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja.  Ekkert liggi fyrir í málinu því til staðfestingar að aðalstarf stefnanda hafi í raun verið þjónsstarf á veitingahúsi í Keflavík.  Skattframtal stefnanda fyrir árið 1993 og 1994 gefi ekki tilefni til að ætla að svo hafi verið og ekki heldur matsbeiðnin á dskj. 23.  Sé því mótmælt sem ósönnuðu að aðstæður stefnanda hafi verið þær sem greinir í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

Þrátt fyrir 5. gr. skaðabótalaga sé meginregla og túlka beri regluna í 8. gr. þröngt, breyti það engu um réttindi stefnanda, þar sem aðstæður hennar séu þær sem 1. mgr. 8. gr. taki til.

Í dómi Hæstaréttar þann 4. júní 1997, í málinu nr. 317/1997, hafi því verið slegið föstu að 1. mgr. 8. gr. skaðabótalaga væri reist á skýrum málefnalegum forsendum og yrði ekki talin andstæð þeim megintilgangi laganna að tjónþoli fái almennt, auk hæfilegra miskabóta, fullar bætur fyrir raunverulegt fjártjón sitt.  Þannig gangi hún ekki gegn stjórnarskrárvörðum rétti stefnanda.

 

Útreikningur bótakröfu

Í 2. – 4. mgr. 8. gr. sé að finna tæmandi teglur um fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku þeirra tjónþola sem 8. gr. taki til.  Fjárhæð bótanna fari eftir miskastiginu og reiknist eftir tilteknum hlutfallstölum.  Tilboð stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., til stefnanda hafi farið fram samkvæmt þessum tilteknu reglum.

Stefndu byggja á því að gera eigi upp tjón stefnanda á grundvelli niðurstöðu örorkunefndar, enda hafi aðilar sameiginlega staðið að beiðni til nefndarinnar um matið.  Það hafi einungis farið fram á að örorkunefnd mæti varanlegan miska stefnanda og hafi nefndin því ekki tekið afstöðu til þess hvort um varanlegt fjártjón umfram miskann sé að ræða.  Stefndu byggja á því að niðurstaða örorkunefndar hafi hnekkt mati Jónasar Hallgrímssonar, bæði vegna þess að mat Jónasar hafi verið einhliða mat eins læknis og vegna þess að stefnandi og stefndu stóðu sameiginlega að því að biðja örorkunefnd um matið.  Stefndu telji sig óbundna af niðurstöðu dómkvöddu matsmannanna, enda hafi stefnandi staðið ein að dómkvaðningu.

 

Varanlegur miski:

 Tilboð stefndu til stefnanda um greiðslu fyrir varanlegum miska sé fundin þannig út að lagt sé til grundvallar mat örorkunefndar á varanlegum miska stefnanda 5% og bætur reiknaðar sem hlutfall af algerum miska samkvæmt 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga sem þann 26. september 1996 hafi numið 214.200 krónum eftir að upphæðin hafi verið uppfærð miðað við vísitölu í samræmi við 1. mgr. 15. gr. laganna.  Bætur fyrir 5% miska geta því ekki numið hærri fjárhæð en 214.200 krónum (4.284.000 x 5%).

Tímabundin örorka: 

Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn því til sönnunar að tímabundið tekjutap hennar hafi í raun numið 600.000 krónum eins og krafist sé.  Hafni stefndu skyldu sinni til að greiða fyrir tímabundið tekjutap og mótmæli kröfunni sem ósannaðri.

Varanleg örorka: 

Kröfulið stefnanda í aðalkröfu um 4.148.586 krónur vegna varanlegrar örorku er mótmælt harðlega sem röngum og ólögmætum.  Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 8. gr., eins og hún hljóðaði á tjónsdegi, greiðist engar örorkubætur ef miskastig er lægra en 15%.  Krafa stefnanda um örorkubætur vegna varanlegrar örorku miðist við 20% læknisfræðilega örorku sem eigi sér ekki stoð í skaðabótalögunum.  Verði bótakrafan ekki byggð á læknisfræðilegri örorku þar sem skaðabótalögin byggi á þeirri forsendu að einungis skuli bæta tjónþolum fjártjón sem byggi á mati á fjárhagslegri örorku þeirra.  Læknisfræðileg örorka tjónþola sé engin sönnun þess hvert raunverulegt framtíðar fjártjón hans sé.  Verði þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu vegna þess að kröfugerðina skorti viðhlýtandi lagastoð.

 

Því er mótmælt harðlega að í lagagreininni felist brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár gagnvart stefnanda.  Þar sem stefnandi hafi ekki nýtt vinnugetu sína til að afla sér vinnutekna nema að takmörkuðu leyti fyrir slysið sé mat hinna dómkvöddu matsmanna á varanlegri örorku hennar læknisfræðilegt mat en ekki fjárhagslegt mat, eins og 5. gr. skaðabótalaga gerir ráð fyrir.  Geti því ekki verið um ólögmæta mismunun að ræða skv. 65. gr. stjskr. vegna þess að við mat á því verði að vera um tvö sambærileg tilvik að tefla.  Reglur skaðabótalaga geri ráð fyrir bótum fyrir varanlega örorku ef um fjárhagslegt tap sé að ræða.  Það sé þá metið samkvæmt 5. – 7. gr. laganna þegar tjónþoli hafi haft vinnutekjur.  Þegar vinnutekjum sé ekki til að dreifa verði að meta bæturnar á grundvelli 8. gr. sem segi til um bætur byggðar á læknisfræðilegu mati.

Rétt sé að geta þess að með setningu skaðabótalaganna hafi verið stefnt að því að miða við fjárhagslega örorku tjónþola og staðla bætur til þeirra.  Samkvæmt því eigi tjónþoli sem hlotið hafi varanleg líkamsspjöll ekki rétt að neinum örorkubótum ef sýnt þyki að þau dragi ekki úr getu hans til að afla sér tekna með vinnu.  Af þessu megi ráða að markmið skaðabótalaganna hafi m.a. verið að leiðrétta reglur um ákvörðun bóta vegna tjóns á mönnum þannig að ekki væru greiddar bætur nema sannað væri fjárhagslegt tjón tjónþola.  Af þeirri ástæðu hafi sérregla 8. gr. verið látin halda sér þar sem allar líkur séu fyrir því að þeir aðilar sem hún taki til verði ekki fyrir fjárhagslegu tjóni ef miskastig þeirra sé undir 15%.  Sé þessi regla því í fullkomnu samræmi við meginmarkmið laganna.  Sé matsgerð dómkvaddra matsmanna því ekki lögmæt sönnun um fjártjón stefnanda.

Viðmiðunarmarkmið 15% í 2. mgr. 8. gr. sé í samræmi við 8. gr. dönsku skaðabótalaganna, en í dönskum rétti sé varanleg örorka ekki bætt ef hún er undir 15%.  Grundvallist það á því að áralangar rannsóknir á Norðurlöndum munu hafa leitt í ljós að varanleg örorka undir 15% leiði í fæstum tilvikum til nokkurs fjártjóns til frambúðar fyrir tjónþolann.  Sé viðmiðun 8. gr. byggð á þessum reynslulögmálum.

Í stefnu haldi stefnandi því fram að með setningu skaðabótalaga hafi löggjafinn svipt stefnanda eignarrétti með  því að fella niður bótarétt hennar.  Þetta fái ekki staðist gagnvart ákvæðum stjórnarskrár um eignarréttarvernd þar sem slíkur réttur verði ekki felldur niður án bóta.

Réttur til skaðabóta sé skilyrtur réttur þar sem alls óvíst sé um það hvort skilyrði hans komi nokkurn tímann fram.  Ef tjónþoli hafi þegar orðið fyir slysi þegar réttarstaða hans breytist, megi ganga út frá því að slík réttindi teljist eign í skilningi stjórnarskrárinnar, en þegar slys hafi ekki orðið sé ekkert annað um að ræða en óvissa ávinningsvon fyrir viðkomandi aðila sem sjaldnast sé svo ákveðin eða nátengd einum manni öðrum fremur að til greina komi að telja bótarétt hans njóta verndar sem um eign væri að ræða í skilningi eignarnámsákvæðis stjórnarskrárinnar.

Þegar stefnandi varð fyrir tjóni höfðu skaðabótalögin þegar tekið gildi og því sé ljóst að það skilyrði, að hún ætti rétt til skaðabóta vegna líkamstjóns, hafi ekki verið komið fram þegar gildistaka laganna varð.

Réttur til skaðabóta vegna tjóns byggi annaðhvort á lagareglum eða á dómvenju.  Þegar réttarreglur breytist áður en tiltekinn einstaklingur verður fyrir slysi, sem stofni til réttar honum til handa til að heimta skaðabætur, hljóti sá réttur að fara að þeim skaðabótarétti sem í gildi sé þá er hinn bótaskyldi atburður á sér stað.  Hafi reglunum þegar verið breytt er tjónsatburður verður hafi staða mannsins ekki breyst vegna þess að hann hafi ekki átt bótakröfu á nokkurn mann þegar breytingin átti sér stað og því hafi eignin ekki skerst.

Einnig megi hafa í huga meginmarkmið skaðabóta að gera tjónþola jafnsettan og hann hefði ekki orðið fyrir tjóni.  Stefnandi virðist ganga út frá því að greiðsla örorkubóta eigi alltaf að koma til óháð því hvort fjárhagslegt tjón hafi orðið eður ei.  Eins og að ofan sé rakið þá hafi sérregla 2. mgr. 8. gr. verið sett í skaðabótalögin vegna þess að yfirgnæfandi líkur séu fyrir því að í þeim tilvikum sem þar greini verði tjónþoli í reynd ekki fyrir neinu fjárhagslegu tjóni.  Umræddir tjónþolar eigi því í raun engan rétt til bóta í slíkum tilvikum og af þeirri ástæðu sé ekki unnt að fallast á að verið sé að svipta þá eignarrétti.

Þótt nýjar reglur breyti eldra réttarástandi og þar með reglum um ákvörðun bóta þá sé ekki um að ræða mismunun á milli bótaþega vegna þess að lagaskilareglur skaðabótalaganna tryggi að allir þeir sem slasast eftir gildistöku laganna taki bætur eftir lögum, en þeir sem slasast fyrir gildistöku taki bætur eftir eldri reglum sem byggðust á dómvenju.  Í þessu felist ekki sú mismunun sem stefnandi vilji vera láta.

Þjáningabætur: 

Stefnandi hafnar kröfum stefnanda um þjáningabætur, en er reiðubúinn til að greiða stefnanda fyrir þá 90 daga sem hún taldist veik án þess að vera rúmliggjandi að mati Jónasar Hallgrímssonar, en örorkunefnd hafi ekki metið þetta tímabil.

Nemi þessi fjárhæð  67.500 krónum sbr. dskj. nr. 15.

Vextir: 

Kröfu stefnanda um dráttarvexti frá slysdegi er mótmælt harðlega sem ólögmætum.  Samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga beri bætur 2% ársvexti frá slysdegi til greiðsludags.  Dráttarvextir komi því ekki til álita fyrr en í síðasta lagi frá og með dómsuppsögudegi.

Málskostnaður:   Krafa stefnanda um málskostnað að teknu tilliti til virðisauka­skatts er reist á 1. og 3. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991, en krafan um tillit til virðisaukaskatts á lögum nr. 50/1988.

 

 

Niðurstaða

Ekki er í máli þessu deilt um bótaskyldu, en bifreiðin MS-401 var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu skv. 1. mgr. 91. gr. umferðalaga hjá stefnda þegar slysið átti sér stað 30. janúar  1994.  Deilt er hins vegar um það hvaða reglur skaðabótalaga nr. 50/1993 skuli gilda um útreikning skaðabóta til stefnanda. 

Eins og fram er komið telur stefnandi að við ákvörðun skaðabóta vegna varanlegrar örorku eigi að beita ákvæðum 5. og 6. gr. skaðabótalaganna en stefndu telja hins vegar að beita eigi 8. gr. laganna.

Fyrir liggur að þegar slysið varð stundaði stefnandi nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja.  Hugur hennar stóð jafnframt til þess að verða þjónn og síðustu mánuðina fyrir slys vann stefnandi á veitingahúsinu Glóðinni í Keflavík, u.þ.b. þrú til fimm kvöld í viku og aðra hvora helgi.  Bar stefnandi fyrir dómi að hún hefði verið þar á reynslutíma sem þjónn en hafi ekki verið á námssamningi.  Samkvæmt framlögðu vottorðið Arnars Garðarssonar, er sá um rekstur staðarins á þeim tíma, vann stefnandi við afgreiðslustörf.

Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 50/1993 segir að bætur til barna og tjónþola sem að verulegu leyti nýta vinnugeta sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur skuli ákvarða á grundvelli miskastigs samkvæmt 4. gr. laganna.  Í greinargerð með frumvarpi til skaðabótalaga segir m.a. um 8. gr. laganna að reglum greinarinnar skuli beitt um ungt námsfólk þótt það afli tekna í vinnu með námi og án tillits til tekna af þess konar vinnu, svo framarlega sem nemandinn stundi í reynd nám með eðlilegum hætti.

Stefnandi var ung, eða 17 ára gömul er slysið varð.  Hún stundaði nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja eins og áður er fram komið.  Í álitsgerð örorkunefndar kemur fram að hún hafi verið langt komin með þriðju önnina er slysið varð og liggur ekki annað fyrir en hún hafi stundað nám sitt með eðlilegum hætti.  Samkvæmt framansögðu verður ekki litið svo á að stefnandi hafi verið í starfi sem þjónn síðustu mánuðina fyrir slysið, en hún var ekki komin á námssamning, eins og áður greinir.  Tekjur hennar fyrir slysið voru hvorki meiri né minni en ætla má að námsfólk geti unnið sér inn með námi sínu.  Þegar framanritað er virt þykja aðstæður stefnanda vera með þeim hætti að beita beri 1. mgr. 8. gr. skaðabótalaga við ákvörðun bóta til stefnanda vegna varanlegrar örorku.

Með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands 4. júní 1988 í málinu nr. 317/1997 er ekki fallist á að 1. mgr. 8. gr. skaðabótalaga gangi í berhögg við stjórnarskrárvarin réttindi stefnanda varðandi vernd eignarréttinda og jafnræði.  Í sama máli taldi Hæstiréttur hins vegar að 1. málsliður 2. mgr. 8. gr. skaðabótalaga fæli í sér mismunun er brjóti í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 72. gr.  Er á því byggt í niðurstöðu máls þessa.

Í málinu liggja frammi tvær matsgerðir og álitsgerð örorkunefndar þar sem metið er miskastig stefnanda.

Í matsgerð sinni dags. 4. janúar 1996 metur Jónas Hallgrímssonar læknir miskastig stefnanda 10%.  Vísar hann til þess að í töflum örorkunefndar um miskastig sé varanlegur miski talinn vera 10% á grundvelli vægrar tognunar í hálsi, herðum brjóstbaki og mjóbaki

Að beiðni stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., mat örorkunefnd varanlegan miska stefnanda.  Samkvæmt álitsgerð nefndarinnar er varanlegur miski stefnanda metinn 5%.  Í niðurstöðukafla álitsgerðarinnar segir eftirfarandi:  “Í umferðarslysi því er hér um ræðir hlaut Bjarney tognun á hálsi og baki.  Upphaflega var hún einnig með einhver óþægindi frá hægri öxl.  Þau óþægindi eru gengin yfir og er ekki alveg ljóst um hvað var að ræða þar.  Eftir slysið heltist Bjarney úr námi og hefur átt erfitt með að vinna vegna verkja sem hún segist stöðugt hafa frá hálsi, herðum og baki.  Hefur ítrekað verið í sjúkraþjálfun og er nú í sjúkranuddi.  Er hún með talsverð óþægindi frá ofannenfndum svæðum og er þar þreifiaum yfir vöðvum og vöðvafestum en er með eðlilega hreyfigetu í hálsi og baki.  Það er ekkert að finna athugavert við taugaskoðun.

Örorkunefnd telur að eftir 1. janúar 1995 hafi þess ekki verið að vænta að Bjarney fengi frekari bata af afleiðingum umferðarslyssins 30. janúar 1994 en þá var orðinn.  Að öllum gögnum virtum þykir varanlegur miski hennar vegna slyssins hæfilega metinn 5%-fimm af hundraði.”

Að beiðni stefnanda voru dómkvaddir matsmenn, læknarnir Leifur Dungal og Atli Þór Ólason, til þess að meta miskastig stefnanda og varanlega örorku.  Er matsgerð þeirra dagsett 26. janúar 1998.  Í matsgerð þeirra segir m.a. að í umferðarslysinu hafi stefnandi hlotið meðalslæma tognun, annars vegar á háls- og axlarsvæði og hins vegar á mjóbak.  Bifreiðin sem hún var í hafi endastungist og hafi endað á hjólunum og megi því ætla að um flókna röð áverka hafi verið að ræða.  Ljóst virðist þó að hún hafi fengið svipuólaráverka á háls en meira um eðli áverkans sé ekki hægt að dæma ú frá fyrirliggjandi gögnum.

Einkenni hafi orðið  mjög þrálát þrátt fyrir að ýmis meðferð hafi verið reynd og siti hún uppi með verki í höfði, hálsi, brjósthrygg og mjóbaki.  Að auki sé hún með álagsbundin óþægindi í öxlum og handleggjum.  Þá hafi borið á svefntruflunum, minnistapi og einbeitingarskorti.  Loks ýmis geðræn vandamál, að verulegu leyti tengd langvarandi þjáningum og veikindum.  Þar sem Bjarney hafi verið hraust fyrir þetta slys verði að álíta að það sé að öllu leyti orsök þeirrar vanheilsu sem Bjarney býr við í dag.  Auk fyrrgreindra einkenna hafi Bjarney kvartað undan sjóntruflunum en augnlæknir hafi ekki getað fundið neitt athugavert við sjón.  Telja verði líklegt að tognunarástand í hálsi og hnakka og þar af leiddir verkir séu orsök þessara sjóntruflana og jafnframt orsök einbeitingarskerðingar og minnistaps.

Er mat fór fram voru fjögur ár liðin frá slysinu og segja matsmenn að annað verði ekki séð en mestur hluti einkenna stefnanda verði varanlegur.  Við mat á varanlegum miska horfa matsmenn til þess að hún hefur haft óþægindi vegna sinna einkenna og beri sögu hennar og einkennalýsingu saman við lýsingu á atburðum og sjúkrasögu.  Hins vegar sé ekki að finna mikla hreyfiskerðingu við skoðun, hvorki í hálsi né í mjóbaki.  Í miskatöflum örorkunefndar séu “eymsli og óveruleg hreyfiskerðing” í hálshrygg og öðrum hluta baks hvort um sig metið til 5% varanlegs miska.  Í dönskum miskatöflum séu verkir og hreyfiskerðing í hálsi og mjóbaki metið á 8 – 12% en til hækkunar því séu svefntruflanir, einkenni beggja megin og verulegur missis starfsgetu.  Telja verði að þessi einkenni eigi að talsverðu leyti við um stefnanda.  Að teknu tilliti til allra ofangreindra þátta telja matsmenn hæfilegt að meta varanlegan miska stefnanda 12%.

Fyrir liggur að stefnandi var farþegi í bifreið sem valt.  Í matsgerð dómkvaddra matsmanna svo og við yfirheyrslur yfir þeim fyrir dómi kemur fram að við slíka bílveltu megi ætla að um flóknari röð áverka geti verið að ræða en við venjulegan hálshnykk við aftanákeyrslu og taka þeir tillit til þess í mati sínu.  Þeir taka einnig tillit til einkenna stefnanda í hægri öxl sem þeir segja að hafi ekki verið gengin yfir er matið fór fram.  Örorkunefnd tók hins vegar ekki tillit til þessara einkenna.  Magnús Páll Albertsson læknir bar fyrir dómi að samkvæmt frásögn stefnanda sjálfrar hafi þessi einkenni verið gengin yfir.Með hliðsjón af þessu, svo og því að telja verður að betri rökstuðning fyrir niðurstöðu sé að finna í matsgerð dómkvaddra matsmanna en í álitsgerð örorkunenfndar varðandi mat á varanlegum miska, þykir verða að leggja til grundvallar matsgerð dómkvaddra matsmanna varðandi varanlegan miska.  Þykir matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis og styðja þá niðurstöðu.

Stefnandi var ekki rúmliggjandi eftir slysið.  Samkvæmt matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis telst stefnandi hafa verið veik vegna verkja í samtals 90 daga enda hafi nám hennar ekki gengið fyrstu þrjá mánuðina eftir slysið.  Dómkvaddir matsmenn segja varðandi þetta í matsgerð sinni að við mat á þjáningum sé horft til þess að stefnandi hafi ekki verið rúmföst eftir slysið.  Hins vegar hafi hún verið lengi illa haldin af verkjum eftir slysið og sjáist ekki efni til þess að meta henni þjáningabætur öðru vísi en vegna tímabundins atvinnutjóns og teljist hún því hafa verið “veik án þess að vera rúmliggjandi” í átta mánuði.  Eins og segir í matsgerð dómkvaddra matsmanna hafa einkenni stefnanda verið þrálát þrátt fyrir að ýmis meðferð hafi verið reynd.  Þykir mati þeirra, varðandi þetta atriði, ekki hafa verið hnekkt og verður á því byggt við ákvörðun þjáningabóta.

Krafa stefnanda um bætur vegna tímabundins tekjutaps er byggð á matsgerð dómkvaddra matsmanna en þeir telja stefnanda hafa verið óvinnufæra í 8 mánuði eftir slysið.  Stefnandi hefur hins vegar ekki lagt fram nein gögn til sönnunar tímabundnu tjóni sínu.  Gegn mótmælum stefndu telst tímabundið atvinnutjón stefnanda því ósannað og ber að hafna kröfu um bætur vegna þess.

Bætur til stefnanda vegna varanlegrar örorku reiknast, eins og áður greinir, samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Þegar lágmark miskastigs í 1. málslið 2. mgr. 8. gr. var fært úr 15% niður í 10% með lögum nr. 42/1996 var jafnframt ákveðið að örorkubætur vegna 12% miska skyldu vera 125%  af bótum fyrir varanlegan miska.  Þótt hinu yngra ákvæði verði ekki beitt um tjón stefnanda þykir mega nota þessa viðmiðun, enda hafa stefndu ekki sérstaklega mótmælt framsetningu þessa liðar í varakröfu stefnanda.  Er krafa stefnanda um bætur að fjárhæð 632.325 krónur vegna varanlegrar örorku því tekin til greina.

Svo sem að framan er getið, er fallist á að við mat á varanlegum miska beri að leggja til grundvallar mat dómkvaddra matsmanna um að varanlegan miska stefnanda beri að telja 12%.  Er við það miðað í þessum kröfulið í aðal- og varakröfu stefnanda þar sem krafist er 505.860 króna og ber að taka þessa kröfu til greina.

Krafa um þjáningabætur er tekin til greina eins og hún er fram sett, þ.e. 177.600 krónur, með vísan til þess sem áður er rakið.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefndu að greiða stefnanda 1.315.785 krónur.

Eins og atvikum og gagnaöflun háttar í málinu þykir rétt að dæma dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af tildæmdri fjárhæð frá dómsuppsögudegi til greiðsludags.  Fram að þeim tíma dæmast 2% ársvextir.

Óumdeilt er að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hefur þegar greitt stefnanda 115.700 krónur, þar af 65.700 í þjáningabætur.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 469.190 krónur og greiðist í ríkissjóð.  Er þar með talinn matskostnaður.  Ekki er tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 469.190 krónur, greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Viðars Lúðvíkssonar hdl., 250.000 krónur.  Þegar hefur ríkissjóður greitt 207.000 krónur vegna matskostnaðar.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

 

Stefndu, Ragnar Helgi Halldórsson og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Bjarney Rut Jensdóttur, 1.315.785 krónur með 2% ársvöxtum frá 30. janúar 1994 til dómsuppsögudags en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags og 469.190 krónur í málskostnað sem greiðist í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 469.190 krónur, greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Viðars Lúðvíkssonar hdl., 250.000 krónur, en ríkissjóður hefur þegar greitt 207.000 krónur vegna matskostnaðar.