Hæstiréttur íslands
Mál nr. 727/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Opinber skipti
|
|
Mánudaginn 14. janúar 2013. |
|
Nr. 727/2012.
|
B og C (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) gegn A (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.) |
Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu A um að bú föður hennar yrði tekið til opinberra skipta henni til handa. Krafan var reist á 1. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 en B, stjúpmóðir A, hafði fengið leyfi til setu í óskiptu búi föður A. Fallist var á kröfu A og þá einkum með vísan til þess að peningaeign búsins hafði á skömmum tíma rýrnað verulega og stærsta einstaka eign þess var krafa á hendur syni B. Engar upplýsingar lágu fyrir um þá kröfu og ljóst að yrðu vanhöld á greiðslu kröfunnar væri búið eignalítið eða eignalaust.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediksdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 2. desember 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2012, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um opinber skipti sér til handa á dánarbúi föður síns, D. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi auk málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er stærsta einstaka eign hins óskipta bús krafa þess á hendur sóknaraðilanum C sem er sonur sóknaraðilans B og hins látna. Ekki hefur verið upplýst af hálfu sóknaraðilanna hvernig sú krafa varð til eða hvers eðlis hún er, þar á meðal hvort hún sé með einhverjum hætti tryggð. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilar greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, B og C, greiði óskipt varnaraðila, A, 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2012.
I
Með bréfi, mótteknu af Héraðsdómi Reykjavíkur 29. febrúar 2012, krafðist sóknaraðili, A, [...], þess að dánarbú föður hennar, D, sem lést 28. maí 2009, yrði tekið til opinberra skipta henni til handa. Varnaraðilar eru B, [...], eftirlifandi eiginkona D, og sonur þeirra hjóna, C, [...]. Málið var þingfest 23. mars 2012 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 1. nóvember sl.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að dánarbú föður hennar, D, kt. [...], verði tekið til opinberra skipta henni til handa. Að auki krefst hún málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða þeim málskostnað að skaðlausu, að mati réttarins, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun
II
D lést 28. maí 2009. Eftirlifandi eiginkona hans er B, annar varnaraðila. D og B áttu saman eitt barn, C, hinn varnaraðilann, en fyrir átti D dótturina A, sem er sóknaraðili í máli þessu. D og B gerðu með sér sameiginlega og gagnkvæma erfðaskrá 7. febrúar 1995, þar sem mælt var svo fyrir að það þeirra sem lengur lifði ætti rétt til setu í óskiptu búi svo lengi sem það óskaði þess.
B fékk leyfi til setu í óskiptu búi 3. júní 2009. Í beiðni hennar til Sýslumannsins í Reykjavík sama dag eru eignir búsins og skuldir þannig skráðar:
Fasteignin að [...], fasteignamat kr. 31.630.000
Bílskúr að [...], fasteignamat kr. 2.969.000
Bifreiðin [...], gangverð kr. 3.000.000
Bankareikningur [...] kr. 11.800.000
Bankareikningur [...] kr. 8.100.000
Eignarhaldsfélagið [...] ehf., nafnverð kr. 200.000
Ríkisvíxlasjóður kr. 260.000
Ríkisverðbréfasjóður kr. 440.000
Skuld við Íbúðalánasjóð kr. -7.978.000
Samkvæmt þessu nam hrein eign óskipta búsins 50.421.000 krónum.
Sóknaraðili kveðst um sumarið 2011 hafa fengið upplýsingar um að verið væri að selja eignir búsins. Þannig hafi fasteignin að [...] verið seld fyrir 22.500.000 krónur og bílskúrinn að [...] fyrir 2.000.000 króna. Þar sem lítið sem ekkert samband sé á milli sóknaraðila og varnaraðila kveðst sóknaraðili hafa leitað til Sýslumannsins í Reykjavík með ósk um mat og skráningu á eignum búsins. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir sýslumanns hafi ekkjan, varnaraðili B, þó engar upplýsingar veitt embættinu. Sýslumaður hafi því brugðið á það ráð, samkvæmt heimild í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 21/1991, að afla upplýsinga um eignir búsins frá skattyfirvöldum og bönkum, og var sóknaraðila send eignaskráin með bréfum sýslumanns 22. og 24. febrúar 2012. Samkvæmt henni voru eignir búsins þá eftirfarandi:
Bankareikningar kr. 385.151
Hlutabréf í [...]., nafnverð kr. 150.000
Búseturéttur hjá [...], íbúð [...] kr. 8.154.409
Krafa á C kr. 21.011.407
Skuldir búsins námu þá samtals 22.614.085 krónum, þar af var skuld samkvæmt skuldabréfi nr. [...] að fjárhæð 22.610.435 krónur.
Að fengnum þessum upplýsingum taldi sóknaraðili ljóst að eignir búsins hefðu rýrnað verulega frá því varnaraðila B var veitt leyfi til setu í óskiptu búi. Með heimild í 1. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 gerði hún í kjölfarið þá kröfu sem að framan greinir.
III
Samkvæmt greinargerð sóknaraðila er krafan á því reist að eignir búsins hafi rýrnað um rúmlega 42 milljónir króna frá því varnaraðili B fékk leyfi til setu í óskiptu búi, og hafi sóknaraðili engar upplýsingar um hvert þeim eignum hafi verið ráðstafað. Kröfu sinni til stuðnings kveðst sóknaraðili vísa til 1. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962, en þar sé m.a. kveðið á um að erfingi geti krafist skipta sér til handa, ef hann sannar að maki veiti tilefni til að óttast megi rýrnun á efnum búsins með óhæfilegri fjárstjórn sinni. Jafnframt er vísað til 3. mgr. 38. gr. skiptalaga nr. 20/1991. Þá telur sóknaraðili eðlilegt að skoðað verði sérstaklega hvert eignum búsins hafi verið ráðstafað með tilliti til 2. mgr. 15. gr. erfðalaga, um leið og skoða þurfi hvort tilefni sé til þess að sóknaraðili setji fram endurgjaldskröfu á hendur eftirlifandi maka, með stoð í 17. gr. sömu laga. Við munnlegan flutning málsins vakti sóknaraðili sérstaka athygli á því að meðal eigna búsins nú væri krafa á hendur varnaraðila C að fjárhæð 21.011.407 krónur, en engra upplýsinga nyti við um hverjar ástæður væru að baki þessu láni né um kjör lánsins. Við sama tækifæri mótmælti sóknaraðili þeirri málsástæðu varnaraðila að krafan væri vanreifuð og órökstudd, en lagði hins vegar áherslu á að hún hefði enga möguleika haft til að afla sér frekari gagna um efni búsins, þar sem varnaraðili B hefði ekki viljað láta þær upplýsingar í té.
IV
Varnaraðilar telja málatilbúnað sóknaraðila haldinn slíkum annmörkum að hann uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um skýran og glöggan málatilbúnað. Þeim sé því erfitt að taka til varna í málinu, en leggja það í mat dómsins hvort rétt sé að vísa málinu frá dómi af þessum sökum, án kröfu. Benda varnaraðilar á að sóknaraðili byggi kröfu sína á því að eignir dánarbúsins hafi rýrnað verulega, án þess að rökstutt sé hverjar ráðstafanir sóknaraðili telji óhæfilegar eða í hverju fjárstjórn varnaraðila B hafi verið áfátt, sbr. 1. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Af greinargerð sóknaraðila verði hins vegar ráðið að sóknaraðili telji að varnaraðili B hafi veitt tilefni til að óttast rýrnun á efnum búsins sakir óhæfilegrar fjárstjórnar hennar. Ekki sé þó fremur en áður rökstutt hverjar þær ráðstafanir séu sem sóknaraðili telji óhæfilegar og þá hvernig þær hafi leitt til rýrnunar á efnum búsins.
Varnaraðilar leggja áherslu á að ekkja D, varnaraðili B, eigi á grundvelli erfðaskrár þeirra hjóna rétt til setu í óskiptu búi án samþykkis sóknaraðila. Hafi ekkjan því lögbundin eignarráð á fjármunum búsins, sbr. 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962, og verði ekki svipt þeim nema að uppfylltum ströngum lagaskilyrðum. Þar sem varnaraðilum sé hins vegar ekki ljóst hvaða gerninga sóknaraðili telur óhæfilega, eða þess eðlis að hafi rýrt svo eignir dánarbúsins að uppfyllt séu skilyrði til að verða við kröfu sóknaraðila samkvæmt 1. mgr. 15. gr. erfðalaga, þyki þeim rétt að gera grein fyrir eftirfarandi breytingum sem orðið hafi á eignum búsins:
1. Íbúðin að [...] var seld óskyldum aðilum 23. mars 2010, og var söluverðið 22.500.000 krónur. Fullyrða varnaraðilar að söluverð eignarinnar hafi að öllu leyti verið eðlilegt og í samræmi við raunvirði. Frá söluverði hafi dregist lán við Íbúðalánasjóð, sem hafi verið vel á níundu milljón króna. Hrein eign búsins í íbúðinni hafi samkvæmt því numið um 14.000.000 króna.
2. Varnaraðili B fjárfesti í svokölluðum búseturétti í íbúð á vegum hjúkrunarheimilisins [...] hér í borg. Búseturétturinn sé nú metinn á um 8.200.000 krónur, en jafnframt hafi B gefið út skuldabréf vegna búseturéttarins, nr. [...]. Í árslok 2010 hafi sú skuld numið um 22.600.000 krónum.
3. Bílskúrinn að [...] var seldur óskyldum aðila 12. október 2009 og var söluverðið 2.000.000 króna. Vegna slæms ástands bílskúrsins telja varnaraðilar að söluverðið endurspegli fullkomlega markaðsvirði hans.
4. Bifreiðin [...] var seld sonardóttur varnaraðila B á 2.500.000 krónur 18. febrúar 2010. Staðhæfa varnaraðilar að verðið hafi verið markaðsvirði bifreiðarinnar samkvæmt mati bifreiðasala.
5. Varnaraðilum er ljóst að ekkjan, varnaraðili B, hefur tekið út verulegar fjárhæðir af bankareikningum í eigu búsins. Þannig hafi innstæður á bankareikningum numið um 19.900.000 krónum og verðbréfaeign um 700.000 krónum þegar beiðni var lögð fram um setu í óskiptu búi, en í árslok 2010 hafi bankainnstæður numið um 400.000 krónum. Bankainnstæður hafi því minnkað um 19.500.000 krónur. Ný eign hafi á hinn bóginn verið tilgreind í skattframtali 2011, þ.e. krafa á varnaraðila C, og hafi hún numið um 21.000.000 króna í árslok 2010. Byggja varnaraðilar á því að ekki skipti máli þótt peningar búsins séu nú í formi kröfu á hendur öðrum varnaraðila í stað innstæðu á bankareikningum.
Samkvæmt framanrituðu telja varnaraðilar ljóst að markaðsvirði fasteigna búsins hafi verið um 10.100.000 krónum lægra en fasteignamatsvirði þeirra í árslok 2008 og söluverð bifreiðarinnar um 500.000 krónum lægra en áætlað gangverð hennar. Þá hafi óskipta búið átt sambærilega fjárhæð á bankareikningum og í sjóðum og það eigi nú inni hjá varnaraðila C. Þannig telja varnaraðilar að þær breytingar sem orðið hafi á eignum búsins megi í fyrsta lagi rekja til lægra raunvirðis fasteigna og bifreiðar, í öðru lagi til kaupa varnaraðila B á nýrri íbúð í sérhönnuðu húsi fyrir aldrað fólk, og í þriðja lagi til útgjalda vegna útfarar D heitins og erfidrykkju. Auk þessa hafi ekkjan, varnaraðili B, leyft sér að lifa áfram sama lífi og fyrir andlát D.
Krafa varnaraðila byggist einnig á því að ekki sé fullnægt skilyrðum 1. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 til þess að verða við kröfu sóknaraðila. Því til stuðnings ítreka þeir að sóknaraðili rökstyðji á engan hátt að meint rýrnun á eignum dánarbúsins verði rakin til óhæfilegrar fjárstjórnar eða eyðslusemi varnaraðila B. Óhæfileg fjárstjórn hennar sé því algerlega ósönnuð, hvort sem litið sé til sölu hennar á eignum, úttekta af bankareikningum eða láns til varnaraðila C. Þá leggja varnaraðilar áherslu á að varnaraðila B sé heimilt að nýta efni búsins sér til framfærslu, m.a. til að halda heimili og þeim lífsstíl sem hún hafði áður. Hið sama gildi um möguleg útgjöld vegna áframhaldandi umgengni og samverustunda hennar með syni sínum, varnaraðila C, og fjölskyldu hans, sem hafi um margra ára skeið hugsað um hana, annast innkaup fyrir hana, greiðslu reikninga o.fl. Sóknaraðili hafi aftur á móti ekki verið í neinum samskiptum við varnaraðila svo árum skipti.
Varnaraðilar byggja enn fremur á því að rýrnun eigna í skilningi 1. mgr. 15. gr. erfðalaga verði að vera veruleg til að ráðist verði í opinber skipti. Jafnvel þótt sýnt þætti að varnaraðili B hefði á einhvern hátt gerst sek um óhæfilega fjárstjórn, telja varnaraðilar ósannað að sú stjórn hafi leitt til slíkrar rýrnunar á efnum búsins að ástæða þyki til að fallast á kröfu sóknaraðila.
Kröfu sinni til stuðnings vísa varnaraðilar til ákvæða erfðalaga nr. 8/1962, einkum 1. og 4. tl. 1. gr., 1. mgr. 2. gr., 3. mgr. 8. gr., 11. gr., 12. gr., 1. mgr. 15. gr., 34. gr., 40. gr., 42. gr. og 43. gr. Þá er vísað til ákvæða laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., einkum XVI. og XVII. kafla þeirra. Málskostnaðarkrafan styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en krafa um virðisaukaskatt byggist á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
V
Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að dánarbú föður hennar, D, sem lést 28. maí 2009, verði tekið til opinberra skipta henni til handa. Fram er komið að D og eftirlifandi eiginkona hans, varnaraðili B, gerðu með sér erfðaskrá 7. febrúar 1995, þar sem svo var mælt fyrir að það þeirra sem lengur lifði ætti rétt til setu í óskiptu búi svo lengi sem það óskaði þess. Í samræmi við þau fyrirmæli, sbr. og 3. mgr. 8. gr. erfðalaga nr. 8/1962, veitti Sýslumaðurinn í Reykjavík B heimild til setu í óskiptu búi eftir eiginmann sinn 3. júní 2009. Fram er einnig komið að saman áttu D og B eitt barn, varnaraðila C, en fyrir átti D dótturina A, sóknaraðila í máli þessu.
Varnaraðilar telja að máltilbúnaður sóknaraðila sé haldinn slíkum annmörkum að til álita komi að vísa málinu frá dómi án kröfu. Benda þeir á að krafa sóknaraðila sé ýmist á því reist að eignir búsins hafi rýrnað verulega með óhæfilegri fjárstjórn varnaraðila B, eða að tilefni sé til að óttast slíka rýrnun, án þess þó að sóknaraðili tilgreini hvaða ráðstafanir hún telji bera vott um óhæfilega fjárstjórn, og þá um leið hvernig þær hafi leitt til rýrnunar á eignum búsins.
Í tilefni af ábendingum varnaraðila verður til þess að líta að nánast ekkert samband var á milli sóknaraðila og varnaraðila, og var sóknaraðila af þeim ástæðum erfitt að sannreyna hvort einstakar ráðstafanir væru þess eðlis að ástæða þætti til að óttast um eignir búsins eða fjárstjórn varnaraðila B. Samkvæmt heimild í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 21/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., leitaði sóknaraðili því atbeina Sýslumannsins í Reykjavík til þess að skrásetja eignir búsins, og var eignaskráin kynnt sóknaraðila í bréfum sýslumanns 22. og 24. febrúar 2012. Gerð hefur verið grein fyrir efni hennar hér að framan. Skömmu áður hafði sýslumaður sent sóknaraðila greinargerð varnaraðila B, þar sem B fjallaði um samskipti sóknaraðila við sig og föður hennar, ásamt því að upplýsa um sölu fasteigna búsins, bifreiðar og hlutabréfa í [...]. Í greinargerðinni kvaðst varnaraðili B þó ekki myndi upplýsa sóknaraðila um hvar hún geymdi fé sitt. Í kjölfarið gerði sóknaraðili þá kröfu sem hér er til úrlausnar. Byggðist krafan á því að eignir búsins hefðu rýrnað verulega frá því varnaraðila B var veitt leyfi til setu í óskiptu búi, og vísaði sóknaraðili þá til þeirra breytinga sem orðið höfðu á eignum búsins og upplýst var um í eignaskrá sýslumanns. Taldi sóknaraðili að gögn málsins sýndu að efni búsins hefðu á þessum tíma rýrnað um rúmlega 42 milljónir króna. Af eðlilegum ástæðum var sóknaraðila hins vegar ógjörningur að tilgreina hvaða ráðstafanir hún teldi bera vott um óhæfilega fjárstjórn varnaraðila B, enda naut hún til þess ekki aðgangs að nauðsynlegum upplýsingum. Að þessu virtu verður ekki fallist á að málatilbúnaði sóknaraðila sé svo ábótavant að ástæða sé til að vísa málinu frá dómi. Ekki verður heldur séð að málatilbúnaðurinn hafi torveldað varnaraðilum að halda uppi vörnum í málinu.
Ekki er um það deilt að eignir búsins, að frádreginni skuld við Íbúðalánasjóð, voru taldar 50.421.000 krónur þegar varnaraðili B fékk leyfi til setu í óskiptu búi 3. júní 2009. Af þeirri fjárhæð námu bankainnstæður alls 19.900.000 krónum. Á sama tíma átti búið verðbréf, annars vegar í Ríkisvíxlasjóði Nýja Kaupþings banka hf., en hins vegar í Ríkisverðbréfasjóði við sama banka, samtals að nafnverði 700.000 krónur. Þá átti búið hlutabréf í eignarhaldsfélaginu [...]. að nafnverði 200.000 krónur. Í upptalningu eigna var miðað við fasteignamat íbúðarinnar að [...] og bílskúrs að [...], en gangverð bifreiðarinnar [...]. Í málinu liggja frammi samningar vegna sölu þeirra eigna á árunum 2009 og 2010, og má af þeim ráða að matsvirði eignanna 3. júní 2009 var tæpum 10,7 milljónum króna hærra en söluverð þeirra. Virðist lágt söluverð fyrst og fremst skýrast af lækkuðu fasteignamati milli ára. Hins vegar er ekkert sem bendir til þess að eignirnar hafi verið seldar undir markaðsvirði eða að ráðstöfun þeirra geti á annan hátt talist óeðlileg. Ekki verður heldur fallist á að sú ráðstöfun varnaraðila B að fjárfesta í íbúð á vegum hjúkrunarheimilisins [...], og lántaka hennar í þeim tilgangi, geti talist þess eðlis að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 til að verða við kröfu sóknaraðila um skipti búsins sér til handa. Kemur þá til skoðunar hvort aðrar ráðstafanir varnaraðila B á hagsmunum búsins geti fallið undir ákvæði 1. mgr. 15. gr. erfðalaga.
Eftir því sem næst verður komist nam söluandvirði ofantalinna eigna 18.057.171 krónu, og hefur þá verið tekið tillit til áhvílandi veðskuldar við Íbúðalánasjóð, sölukostnaðar og afsláttar af kaupverði bílskúrsins. Kaupverð búseturéttar varnaraðila B í hjúkrunarheimilinu [...] á árinu 2010 liggur ekki fyrir, en sjá má af framlögðu skattframtali hennar árið 2011 að búseturétturinn er þar talinn til eignar að fjárhæð 8.154.409 krónur. Á móti kemur þó skuld að fjárhæð 22.066.929 krónur vegna kaupa á búseturéttinum (skuldabréf nr. 0315-64-012166). Af þessu má ráða að ofantaldar eignabreytingar hafi að óbreyttu átt að auka peningaeign búsins um a.m.k. 9.900.000 krónur. Engra upplýsinga nýtur þó við um afdrif þessara peninga, en samkvæmt áðurnefndu skattframtali námu bankainnstæður í árslok 2010 aðeins 1.385.976 krónum. Fyrrnefnd verðbréf í Ríkisvíxlasjóði og Ríkisverðbréfasjóði voru þar á sama tíma talin til eignar, alls að fjárhæð 826.958 krónur, en nafnverð hlutabréfa í eignarhaldsfélaginu [...]. hafði lækkað í 150.000 krónur. Samkvæmt eignaskrá sýslumanns frá 24. febrúar 2012 höfðu bankainnstæður lækkað í 385.151 krónu, nafnverð hlutabréfa í [...]. var hið sama og áður, en engin verðbréf voru lengur í búinu. Í skattframtali 2011 var hins vegar tilgreind krafa búsins á hendur varnaraðila C, að fjárhæð 21.011.407 krónur, og er fjárhæðin hin sama í eignaskrá sýslumanns. Ekkert er upplýst um í hvaða formi krafa þessi sé, um skilmála hennar eða hvort tryggingar standi að baki henni.
Varnaraðili B er 85 ára gömul og hefur í rúm þrjú ár setið í óskiptu búi eftir eiginmann sinn D. Framlögð skattframtöl áranna 2010 og 2011 sýna að tekjur hennar á árunum 2009 og 2010 voru óverulegar og einungis í formi greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum, um 1.000.000 króna hvort ár. Skattframtal ársins 2012 liggur ekki fyrir og eru því engar upplýsingar um tekjur hennar árið 2011. Á hinn bóginn hafa verið lögð fram yfirlit um útgjöld B og úttektir af greiðslukorti hennar frá 15. júlí 2009 til loka árs 2011. Nema samanlögð útgjöld hennar á þessum tíma rúmum 9.000.000 króna, en af þeirri fjárhæð virðast ríflega 3.000.000 króna vera greiðslur afborgana af skuldabréfi vegna kaupa á áðurnefndum búseturétti. Aðrir útgjaldaliðir gefa ekki tilefni til sérstakrar skoðunar og verður ekki annað ályktað en að þau útgjöld falli innan heimildar langlífari maka til að njóta efna óskipta búsins, sbr. 12. gr. erfðalaga. Þrátt fyrir það verður ekki fram hjá því litið að á þeim skamma tíma sem B hefur setið í óskiptu búi hafa eignir búsins dregist verulega saman, fasteignir hafa verið seldar, svo og bifreið, en í staðinn var fjárfest í títtnefndum búseturétti. Á sama tíma hafa verðbréf horfið úr eign búsins. Þyngst vegur þó að peningaeign búsins er nánast að engu orðin, en eins og fram er komið kvaðst varnaraðili B í greinargerð sinni til Sýslumannsins í Reykjavík ekki myndi upplýsa sóknaraðila um hvar hún geymdi fé sitt. Sé eignaskrá sýslumanns frá 24. febrúar sl. hins vegar lögð til grundvallar, með þeirri breytingu þó að verðmæti búseturéttarins í árslok 2011 var 9.179.368 krónur, en ekki 8.154.409 krónur, nema eignir búsins, að frádregnum skuldum, nú aðeins rúmum 8.100.000 krónum. Er stærsta einstaka eignin í búinu áðurnefnd krafa á hendur varnaraðila C, en eins og áður segir liggja engar upplýsingar fyrir um þá kröfu. Verði hins vegar vanhöld á greiðslu hennar þykir að óbreyttu ljóst að búið muni eignalítið, ef ekki eignalaust.
Með vísan til ofanritaðs er það álit dómsins að sóknaraðili hafi fært nægar sönnur fyrir því að tilefni sé til þess að óttast megi rýrnun búsins vegna óhæfilegrar fjárstjórnar varnaraðila B á efnum þess. Eru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 til þess að verða við kröfu sóknaraðila, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Samkvæmt úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður varnaraðilum sameiginlega gert að greiða sóknaraðila málskostnað. Þykir hann hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Fallist er á kröfu sóknaraðila, A, um opinber skipti sér til handa á dánarbúi föður hennar, D.
Varnaraðilar, B og C, greiði sóknaraðila sameiginlega 350.000 krónur í málskostnað.