Hæstiréttur íslands
Mál nr. 546/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Sameign
- Samaðild
- Útburðargerð
|
|
Miðvikudaginn 11. janúar 2006. |
|
Nr. 546/2005. |
Magnús Tómasson(Hilmar Magnússon hrl.) gegn Einari Oddssyni (Jónatan Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Sameign. Samaðild. Útburðargerð.
Ekki var fallist á kröfu M um útburð á sumarhúsi E af landi í eigu M og fleiri þar sem sameigendur M áttu ekki aðild að málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 12. desember 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að sumarhús varnaraðila yrði fjarlægt af jörðinni Ökrum í Borgarbyggð með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að framangreind aðfarargerð verði heimiluð og varnaraðila gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Niðurstaða dóms Hæstaréttar 3. febrúar 2005 í máli nr. 22/2005 var á því reist að Ingibjörgu Jóhannsdóttur og Brynhildi Pálsdóttur hafi skort heimild til að ráðstafa, án aðildar eða samþykkis annarra eigenda jarðarinnar Akra, spildu úr Ísleifsstaðatúni til varnaraðila með lóðarleigusamningi 31. ágúst 2002, en sumarhús það sem aðfararbeiðni sóknaraðila beinist að stendur á spildu þessari. Byggðist þetta á því að spildan væri í sameign landeigenda, þar sem einn þeirra, Ólafur Þórðarson, sem sóknaraðili leiðir eignarheimild sína frá, hefði ekki verið bundinn af samningi um landskipti sem aðrir eigendur jarðarinnar höfðu gert sín í milli 26. júní 1955. Í þessu máli reynir hins vegar á, hvort sóknaraðili geti, án aðildar sameigenda sinna að landspildu þessari, fengið sumarhús varnaraðila borið af henni með beinni aðfarargerð.
Krafa sóknaraðila byggist á þeirri forsendu, að fyrrgreindur leigusamningur Ingibjargar Jóhannsdóttur og Brynhildar Pálsdóttur við varnaraðila sé ógildur og varnaraðila sé skylt að fjarlægja sumarhús það sem hann hefur reist á spildunni. Hefur sóknaraðili kosið að beiðast útburðar á húsi varnaraðila, án undangenginnar málsóknar á hendur þeim sem aðild áttu að leigusamningnum og eftir atvikum annarra eigenda jarðarinnar Akra, sem kalla til eignarréttar ásamt honum að landspildunni. Með vísan til 2. málsliðar 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem hér á við samkvæmt 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 4. mgr. 150. gr. og 166. gr. laga nr. 91/1991, verður ekki dæmt um kröfu þessa án aðildar sameigendanna. Leiðir þetta til þess að staðfesta ber niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að hafna kröfu sóknaraðila.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Magnús Tómasson, greiði varnaraðila, Einari Oddssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 12. desember 2005.
Mál þetta barst dóminum 21. september 2005 og var tekið til úrskurðar 2. desember sama ár. Gerðarbeiðandi er Magnús Tómasson, Vogaseli 7 í Reykjavík, en gerðarþoli er Einar Oddsson, Hrauntungu 35 í Kópavogi.
Gerðarbeiðandi krefst þess að sumarhús í eigu gerðarþola verði fjarlægt af landi Akra I í Borgarbyggð með beinni aðfarargerð. Þá krefst gerðarbeiðandi málskostnaðar úr hendi gerðarþola að mati dómsins auk þess sem heimilað verði að fjárnám verði gert fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.
Gerðarþoli krefst þess að kröfu gerðarbeiðanda verði hrundið, auk þess sem gerðarbeiðanda verði gert að greiða málskostnað. Verði aðfararbeiðnin tekin til greina er gerð sú krafa að málskot fresti aðför.
I.
Með samningi 31. ágúst 2002 leigði varnaraðili spildu úr jörðinni Akrar af Ingibjörgu Jóhannsdóttur og Brynhildi Pálsdóttur. Var spildan leigð til 35 ára en stærð hennar er 5.000 fermetrar og er hún hluti af svonefndu Ísleifsstaðatúni. Lóðarleigusamningnum ásamt stofnskjali fyrir spildunni frá 21. mars 2003 var síðan þinglýst 2. maí sama ár. Í kjölfar þessarar ráðstöfunar reis ágreiningur um hvort Ingibjörgu og Brynhildi hefði verið þessi ráðstöfun heimil. Nánar tiltekið var deilt um hvort landskipti hefðu farið fram þannig að landspildan hefði verið hluti af landi í einkaeigu Ingibjargar og Brynheildar eða hvort þær hefðu ráðstafað spildu úr óskiptu landi jarðarinnar án samþykkis gerðarbeiðanda sem eins af eigendum jarðarinnar.
Með bréfi lögmanns gerðarbeiðanda 23. júlí 2003 var þess krafist að lóðarleigusamningurinn og stofnskjalið yrðu afmáð úr þinglýsingabókum þar sem Ingibjörgu og Brynhildi hefði brostið heimild til að ráðstafa spildu úr óskiptu landi jarðarinnar. Eftir nokkur bréfaskipti milli sýslumanns og lögmannsins tók sýslumaður þá ákvörðun 3. maí 2004 að afmá skjölin. Sú ákvörðun var tekin á grundvelli 27. gr. þinglýsingarlaga, nr. 39/1978, þar sem sýslumaður taldi Ingibjörgu og Brynhildi hafa skort heimild til ráðstöfunarinnar. Hefði því átt að vísa skjölunum frá þinglýsingu samkvæmt 2. mgr. 7. gr. þinglýsingarlaga, sbr. 24. og 25. gr. sömu laga.
Framangreind ákvörðun sýslumanns var borinn undir dóminn á grundvelli 3. gr. þinglýsingarlaga með bréfi lögmanns gerðarþola 2. júní 2004. Með úrskurði réttarins 22. desember 2004 var hafnað kröfu gerðarþola um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumanns um að afmá skjölin úr þinglýsingabókum. Var sú niðurstaða reist á því að gerðarbeiðandi væri ekki bundinn af samningi um landskipti jarðarinnar. Því hefði Ingibjörgu og Brynhildi brostið þinglýsta heimild til að ráðstafa spildunni til gerðarþola. Með dómi Hæstaréttar 3. febrúar 2005 í máli nr. 22/2005 var úrskurður héraðsdóms staðfestur. Í umræddum úrskurði dómsins er gerð nánari grein fyrir eignarhaldi jarðarinnar en ekki eru efni til að endurtaka þá reifun hér.
II.
Gerðarbeiðandi vísar til þess að með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar 3. febrúar 2005 hafi verið hafnað kröfu gerðarþola um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumanns frá 3. maí 2004 um að afmá úr þinglýsingabókum lóðarleigusamning frá 31. ágúst 2002 um spildu úr landi Akra í Borgarbyggð og stofnskjali frá 21. mars 2003. Í kjölfarið hafi verið skorað á gerðarþola að hlíta dóminum og fjarlægja sumarhús af lóðinni en hann hafi virt þau tilmæli að vettugi. Þar sem gerðarþoli hafi ekki viljað fjarlægja húsið, sem reist hafi verið í heimildarleysi, sé gerð sú krafa að húsið verði fjarlægt með beinni aðfarargerð, sbr. 78. gr. laga nr. 90/1991.
III.
Gerðarþoli telur að ekki sé unnt að taka kröfu gerðarbeiðanda til greina þegar af þeirri ástæðu að málið sé vanreifað af hans hendi. Eingöngu sé vísað til dóms Hæstaréttar 3. febrúar 2005 og að gerðarþoli hafi ekki orðið við óskum um að fjarlægja sumarhúsið. Frekari rök séu ekki færð fyrir kröfunni og því eigi gerðarþoli óhægt um vik að halda uppi vörnum í málinu. Af sömu ástæðu hljóti að vera erfitt fyrir dóminn að leysa úr sakarefninu.
Af hálfu gerðarþola er því haldið fram að tilvísun gerðarbeiðanda til dóms Hæstaréttar styðji ekki á nokkurn hátt kröfu hans, enda lúti niðurstaða dómsins á engan hátt að því að fjarlægja beri sumarhúsið. Telur gerðarbeiðandi að sá dómur geti ekki falið í sér annað og meira en að ákvörðun sýslumanns um að afmá tiltekin skjöl úr þinglýsingabókum skyldi standa óhögguð. Að þessu gættu telur gerðarþoli það rangt að hann hafi ekki viljað hlíta dómi Hæstaréttar, enda hafi ekki þurft neinar athafnir gerðarþola til að fullnægja þeim dómi. Í þessu sambandi tekur gerðarþoli fram að umræddum dómi verði með engu móti jafnað til þess að gerðarbeiðandi hafi í höndum dóm um að sumarhúsið verði fjarlægt.
Einnig telur gerðarþoli að hafna beri kröfu gerðarbeiðanda vegna samaðildar, enda geti gerðarbeiðandi einn ekki verið réttur aðili að málinu. Um sé að ræða kröfu sem varði jörð í sameign fleiri og því verið allir eigendur að standa sameiginlega að máli sem snerti jörðina. Eigi það sérstaklega við þegar ríkir hagsmunir séu í húfi eins og í þessu máli.
Þá bendir gerðarþoli á að byggingarleyfi sé fyrir húsi því sem gerðarbeiðandi krefst að fjarlægt verði af landi Akra og því verði krafan ekki tekin til greina meðan það leyfi sé enn í gildi. Heldur gerðarþoli því fram að fyrst verði gerðarbeiðandi að gera þá kröfu að leyfið verði fellt úr gildi. Að því búnu yrði að fara að ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, til að húsið verði rifið, en afla verði leyfis fyrir slíkri framkvæmd, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna.
Samkvæmt framansögðu telur gerðarþoli að réttur gerðarbeiðanda sé hvergi nærri svo skýr að honum verði fullnægt á grundvelli 78. gr. laga um aðför, nr. 90/1989. Hér verði einnig að gæta að því að krafa gerðarbeiðandi í málinu sé mjög íþyngjandi og varði mikla hagsmuni og því verði að gera enn ríkari kröfu í þessum efnum. Af þessum sökum beri að hafna kröfunni þar sem varhugavert sé að gerðin nái fram að ganga á grundvelli fyrirliggjandi gagna, sbr. 3. mgr. 83. gr. sömu laga.
Til stuðnings kröfu um að málskot fresti aðför vísar gerðarþoli til þess að málið varði ríka hagsmuni hans sem ekki sé rétt að hrófla við fyrr en endanlegur dómur hafi gengið í málinu.
IV.
Málatilbúnaður gerðarbeiðanda er reistur á því að Ingibjörgu Jóhannsdóttur og Brynhildi Pálsdóttur hafi brostið heimild til að ráðstafa spildu úr óskiptu landi jarðarinnar Akra til gerðarþola með lóðarleigusamningi 31. ágúst 2002 og stofnskjali 21. mars 2003. Af þeim sökum beri gerðarþola að fjarlægja af jörðinni sumarhús sem hann reisti á spildunni.
Í málinu liggur fyrir að jörðinni hefur hvorki verið skipt milli jarðeigenda né hefur verið gripið til aðgerða til að slíta sameign um jörðina. Meðan slíkar ráðstafanir hafa ekki farið fram er óvíst um afdrif lóðarleigusamnings gerðarþola við tvo af eigendum jarðarinnar. Jafnframt getur gerðarbeiðandi ekki að óbreyttu eignarhaldi upp á sitt eindæmi sem einn af jarðeigendum fengið fjarlægt af jörðinni sumarhús gerðarþola með beinni aðfarargerð. Samkvæmt þessu verður synjað kröfu gerðarbeiðanda um aðför.
Eftir þessum málsúrslitum verður gerðarbeiðanda gert að greiða gerðarþola málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn, svo sem í dómsorði greinir.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu gerðarbeiðanda, Magnúsar Tómassonar, um að sumarhús gerðarþola, Einars Oddssonar, verði fjarlægt af jörðinni Akrar með beinni aðfarargerð.
Gerðarbeiðandi greiði gerðarþola 80.000 krónur í málskostnað.