Hæstiréttur íslands

Mál nr. 85/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæra
  • Frávísun frá Hæstarétti


Dómsatkvæði

                                     

Miðvikudaginn  25. febrúar 2009.

Nr. 85/2009.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Kæra. Frávísun máls frá Hæstarétti.

 

Í kæru X til Hæstaréttar voru ekki uppfyllt skilyrði í ákvæði 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. febrúar 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. febrúar 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess í greinargerð til Hæstaréttar að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar á dómþingi 21. febrúar 2009 var bókað eftir varnaraðila, að viðstöddum verjanda hennar, að hún kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Ekki var bókað í þingbók í hvaða skyni kært væri svo sem áskilið er í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Úr þessum annmarka var ekki bætt með skriflegri kæru til héraðsdóms innan kærufrests svo sem unnt hefði verið, sbr. sama lagaákvæði. Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. febrúar 2009.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess, að X, kt. [...], [heimilisfang], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. febrúar 2009, kl. 16:00.

Kærða hefur mótmælt kröfunni.

Mál þetta var tekið til úrskurðar í gær og tók dómari sér þá frest til að kveða upp úrskurðinn. Við fyrirtöku málsins í dag lagði lögreglustjóri fram breytta kröfugerð ásamt frekari rannsóknargögnum, sbr. ákvæði 3. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að lögreglu hafi borist upplýsingar þess efnis að kærða og unnusti hennar, A, kt. [...], hefðu farið af landi brott til Hollands en við endurkomu til Íslands hygðust þau flytja með sér mikið magn af fíkniefnum.

Samkvæmt upplýsingum lögreglu munu kærða og unnusti hennar hafa farið til Amsterdam þann 12. febrúar sl. með flugi nr. FI-502 og átt bókað far aftur til Íslands þann 24. febrúar nk. með flugi nr. FI-503. Þau munu hins vegar hafa breytt farmiðum sínum og bókað far til Íslands í gærkvöldi, þann 19. febrúar 2009, en við komuna til landsins var unnusti kærðu ekki með henni. Aðspurð kvaðst hún ekki vilja upplýsa lögreglu um hvers vegna svo hafi verið.

Lögregla kveðst hafa fengið upplýsingar frá lögregluyfirvöldum í Hollandi um að unnusti kærðu hafi verið handtekinn á Schipholflugvelli í Amsterdam þann 13. febrúar sl. með mikið magn fíkniefna í sínum vörslum.

Þá hafi lögreglu borist upplýsingar um að kærða hafi haft atvinnu af vændi ungra kvenna sem hún flytji sérstaklega hingað til lands gagngert til slíks athæfis og hún notfæri sér þær því kynferðislega til nauðungarvinnu.

Rannsókn máls þessa sé á frumstigi. Telji lögreglan rökstuddan grun um að kærða tengist hinum ætlaða innflutningi unnusta síns til Hollands en jafnframt að þau hafi í sameiningu ætlað að flytja fíkniefnin til Íslands. Meðal þess sem rannsaka þurfi sé aðdragandi ferðar kærðu og unnusta hennar utan og til landsins og tengsl kærðu við aðra hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og/eða erlendis auk annarra atriða. Um verulegt magn fíkniefna sé að ræða, sem lögregluyfirvöld í Hollandi haldlögðu, og þyki það benda til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi og að háttsemi kærðu kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Þá þyki lögreglu vera til staðar rökstuddur grunur þess efnis að hinn ætlaði innflutningur fíkniefnanna tengist mun umfangsmeiri innflutningi fíkniefna hingað til lands á undanförnum mánuðum og árum.

Þá telji lögregla rökstuddan grun um að kærða hafi lífsviðurværi sitt af vændi annarra og stundi mansal ungra kvenna hingað til lands í því skyni. Lögregla telji að ætla megi að kærða kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hún laus.

Þess sé því krafist að kærðu verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Þá sé þess jafnframt krafist að kærðu verði gert að sæta takmörkunum, sbr. a- til e-liði 1. mgr. sömu greinar.

Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr.a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. febrúar 2009 kl. 16.00.

Eins og rakið hefur verið var kærða handtekin 19. febrúar sl. við komu til Íslands frá Hollandi. Þangað hafði hún farið ásamt unnusta sínum en var ein á ferð þegar hún var handtekin. Ekki fundust á henni fíkniefni. Af rannsóknargögnum verður ráðið að unnusti kærðu var handtekinn í Hollandi 13. febrúar sl. með mikið magn fíkniefna í fórum sínum. Að þessu virtu og með vísan til gagna málsins er það mat dómsins að komnar séu fram vísbendingar um að kærða tengist með einhverjum hætti undirbúningi að fíkniefnabroti vegna tengsla hennar við unnusta sinn. Kærða er í kröfu lögreglustjóra sögð grunuð um brot gegn ákvæðum laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í greinargerð lögreglustjóra segir að kærða tengist ætluðum fíkniefnainnflutningi unnusta síns til Hollands en jafnframt að þau hafi í sameiningu ætlað að flytja fíkniefnin til Íslands. Er það mat dómsins að þetta sakarefni sé ekki svo skýrt að á því verði byggður úrskurður um gæsluvarðhald.

Hins vegar byggir krafa lögreglustjóra jafnframt á því að kærða sé undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn 206. og 227. gr. almennra hegningarlaga. Þegar litið er til gagna málsins er fallist á það með lögreglu að kærða sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot gegn áðurgreindum hegningarlagaákvæðum sem varða fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi og haldi kærða óskertu frelsi sínu gæti hún torveldað rannsókn málsins, komið sönnunargögnum undan eða haft áhrif á framburð vitorðsmanna eða vitna. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fallist á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá verður með sömu rökum og rakin eru hér að framan og vísan til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sakamálalaga fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærða sæti einangrun á meðan hún sætir gæsluvarðhaldi samkvæmt úrskurði þessum.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærða, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. febrúar 2009 kl. 16:00.

Kærða skal sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu.