Hæstiréttur íslands
Mál nr. 24/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Opinber skipti
|
|
Föstudaginn 30. janúar 2015. |
|
Nr. 24/2015.
|
A B C og D (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) gegn E og F (Ívar Pálsson hrl.) |
Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem til úrlausnar var ágreiningur um nánar tiltekin atriði varðandi opinber skipti á dánarbúi G og H þar sem erfingjarnir voru sex börn þeirra. Eins og málið var lagt fyrir Hæstarétt laut ágreiningur málsaðila einvörðungu að því hvort A, B, C og D gætu krafist þess samkvæmt 36. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. að þeim yrði sameiginlega lagðar út eignir úr dánarbúinu sem væru alls að verðmæti 162.310.000 krónur á grundvelli fyrirliggjandi mats, en samkvæmt yfirliti skiptastjóra var ógreiddur arfur til hvers þeirra 48.233.849 krónur eða samtals 192.935.396 krónur til þeirra allra. Í hinum kærða úrskurði var kröfu A, B, C og D hafnað. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þar sem ekki væri lagt bann við því í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 20/1991 að tveir erfingjar eða fleiri gætu sett fram sameiginlega kröfu um að fá útlagðar eignir úr dánarbúi sér til handa yrði að játa þeim þeirri heimild, að því tilskildu að matsverð eignanna rúmuðust innan sameiginlegs arfshluta þeirra og ekki yrði talið að þær hefðu sérstakt gildi fyrir aðra erfingja umfram þá sem kröfuna gerðu, sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna. Samkvæmt framansögðu var krafa A, B, C og D tekin til greina þrátt fyrir mótmæli E og F, enda hefðu þeir ekki sýnt fram á að eignirnar hefðu sérstakt gildi fyrir þá umfram A, B, C og D.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 19. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. janúar 2015. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 8. desember 2014 þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi málsaðila sem reis við opinber skipti á dánarbúi G og H. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að þeim verði „sameiginlega og að óskiptu lagðar út allar efnislegar eignir dánarbús foreldra sinna ... á matsverði samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna frá 13. nóvember 2013 og mati á sumarbústað frá 29. apríl 2011 að undanskilinni 146 hektara spildu úr landi jarðarinnar [...], sem G og H ráðstöfuðu til E 2. desember 2001 ... og þeim eignum sem kaupréttur D tekur til samkvæmt kaupsamningi dagsettum 19. apríl 1991“. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar, svo og málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
I
Varnaraðilar hafa ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur því krafa þeirra um málskostnað í héraði ekki til álita hér fyrir dómi.
Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram var bú G, sem lést [...] 2008, og eiginkonu hans, H, sem féll frá [...] 2009, tekið til opinberra skipta með úrskurði héraðsdóms [...] 2010. Aðilar máls þessa eru börn þeirra hjóna og einu erfingjar þeirra. Samkvæmt gögnum málsins munu hin látnu ekki hafa skilið eftir sig erfðaskrá.
Á skiptafundi í dánarbúinu 15. apríl 2014 lagði skiptastjóri fram tillögu að skiptum í búinu. Þar kom fram að verðmæti eigna búsins, annarra en sumarhúss, bankainnstæðna, verðbréfa og innbús, væri miðað við matsgerð dómkvaddra manna 13. nóvember 2013 og verðmæti sumarhússins við mat löggilts fasteignasala 29. apríl 2011. Samkvæmt tillögunni námu heildareignir búsins 294.403.092 krónum þegar frá hafði verið dreginn arfur sem greiddur hafði verið sóknaraðilum og varnaraðilanum F fyrir fram, 5.000.000 krónur til hvers þeirra eða samtals 25.000.000 krónur. Í tillögunni var arfshluti hvers hinna fimm erfingja sagður vera 48.233.849 krónur, en arfshluti varnaraðilans E 53.233.849 krónur. Þá hafði land úr jörðinni [...], sem sá síðastnefndi hafði fengið í sinn hlut sem fyrirframgreiddan arf, verið metið á 43.500.000 krónur í áðurgreindri matsgerð. Ef sú fjárhæð er dregin frá arfshluta hans standa eftir af honum 9.733.849 krónur.
Sóknaraðilar hafa krafist þess að þeim verði sameiginlega lagðar út eignir úr dánarbúinu sem eru alls að verðmæti 162.310.000 krónur á grundvelli fyrirliggjandi mats. Samkvæmt yfirliti skiptastjóra er ógreiddur arfur til hvers þeirra 48.233.849 krónur eða samtals 192.935.396 krónur til þeirra allra. Eins og málið er lagt fyrir Hæstarétt lýtur ágreiningur málsaðila einvörðungu að því hvort taka beri kröfu sóknaraðila til greina samkvæmt lögum nr. 20/1991 eða hafna henni, svo sem gert var í hinum kærða úrskurði.
II
Ákvæði 2. þáttar laga nr. 20/1991, sem lúta að bústjórn og ráðstöfun eigna við opinber skipti á dánarbúum, eru reist á þeirri meginreglu að við slík skipti verði öllum eignum gjaldfærs bús komið í verð og andvirði þeirra að frádregnum skuldum, kostnaði og erfðafjárskatti greitt erfingjum til fullnustu arfskröfum þeirra. Frá þeirri meginreglu er vikið í III. kafla laganna þar sem kveðið er á um að einstakar eignir dánarbús verði lagðar út erfingjum samkvæmt kröfu þeirra á matsverði til greiðslu arfs. Þegar eftirlifandi maki stendur ekki til arfs og sá látni hefur ekki mælt fyrir um ráðstöfun einstakra eigna með erfðaskrá getur hver og einn erfingi krafist að fá arf sinn greiddan með því að fá eignir lagðar sér út samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 20/1991. Sú heimild er þó ávallt háð því að matsverð eigna rúmist innan arfshluta hans ef erfingjar semja ekki sérstaklega á annan veg, sbr. dóm Hæstaréttar 14. desember 1999 í máli nr. 477/1999 sem birtur er í dómasafni það ár, bls. 4883. Þá segir í síðari málslið 2. mgr. sömu greinar að verði talið að eign hafi sérstakt gildi fyrir tiltekinn erfingja öðrum fremur skuli hann þó ganga fyrir um útlagningu.
Sökum þess að erfðaréttindi eru í eðli sínu einkaréttindi hafa erfingjar heimild til að semja um það hvernig þeir haga skiptum sín á milli nema öðru vísi sé fyrir mælt í lögum, þar á meðal mega þeir ekki brjóta gegn lögmæltum rétti annarra erfingja með slíkum samningum. Þar sem ekki er lagt bann við því í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 20/1991 að tveir erfingjar eða fleiri geti sett fram sameiginlega kröfu um að fá útlagðar eignir úr dánarbúi sér til handa verður samkvæmt því að játa þeim þeirri heimild, að því tilskildu að matsverð eignanna rúmist innan sameiginlegs arfshluta þeirra og ekki verði talið að þær hafi sérstakt gildi fyrir aðra erfingja umfram þá sem kröfuna gera.
Með skírskotun til þess að matsverð þeirra eigna, sem sóknaraðilar hafa krafist að þeim verði lagðar út sameiginlega og að óskiptu við skipti á dánarbúi foreldra þeirra, rúmast innan sameiginlegs arfshluta þeirra verður krafan samkvæmt framansögðu tekin til greina þrátt fyrir mótmæli varnaraðila, enda hafa þeir ekki sýnt fram á að eignirnar hafi sérstakt gildi fyrir þá umfram sóknaraðila.
Ekki er ástæða til að hrófla við því ákvæði hins kærða úrskurðar að málskostnaður í héraði skuli falla niður. Einnig er rétt að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Tekin er til greina krafa sóknaraðila, A, B, C og D, um að þeim verði sameiginlega og að óskiptu lagðar út við skipti á dánarbúi G og H „allar efnislegar eignir“ búsins, að undanskilinni spildu úr landi jarðarinnar [...] í eigu varnaraðilans E og þeim eignum sem kaupréttur sóknaraðilans D tekur til samkvæmt kaupsamningi 19. apríl 1991.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað skal vera óraskað.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 8. desember 2014.
Mál þetta barst dómnum 26. ágúst sl., með bréfi skiptastjóra, dagsettu 25. sama mánaðar. Með því beindi skiptastjóri til dómsins ágreiningi sem risið hafði milli erfingja búsins, þeirra A, B, C, D, F og E, við opinber skipti á dánarbúi G og H með vísan til 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.
Málið var þingfest 25. september sl., og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 11. nóvember sl. Í bréfi skiptastjóra kom fram að ágreiningur væri milli erfingja um eftirfarandi:
Í fyrsta lagi um þá ákvörðun skiptastjóra á skiptafundi 14. ágúst 2014, að hafna kröfu A, B, C og D um útlagningu þeim til handa á öllum efnislegum eignum búsins á matsverði að undanskilinni landspildu sem E fékk sem fyrirframgreiddan arf og eigna sem kaupréttur D tæki til.
Í þeim hluta málsins teljast A, B, C og D sóknaraðilar málsins, og krefjast tilgreindrar útlagningar. Varnaraðilar teljast E og F, og krefjast þess að ákvörðun skiptastjóra verði staðfest.
Í öðru lagi um þá ákvörðun skiptastjóra á framangreindum skiptafundi, að samþykkja kröfu D um kauprétt að fjárhúsi og véla- og verkfærageymslu samkvæmt kaupsamningi frá 19. apríl 1991.
Í þeim hluta málsins teljast E og F sóknaraðilar, og krefjast þess að framangreind ákvörðun skiptastjóra verði felld úr gildi. Varnaraðilar teljast A, B, C og D, og krefjast þess að ákvörðun skiptastjóra verði staðfest.
Í þriðja lagi krefjast E og F þess að ljúka beri skiptum á grundvelli frumvarps skiptastjóra frá 15. apríl 2014.
Í þeim hluta málsins teljast E og F sóknaraðilar, en varnaraðilar A, B, C og D, og krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.
Í öllum tilvikum krefjast aðilar, sóknar- og varnarmegin, málskostnaðar úr hendi gagnaðila.
Málavextir
Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands [...] 2010 var bú hjónanna G, sem lést þann [...] 2008, og eiginkonu hans, H, sem lést þann [...] 2009, tekið til opinberra skipta og Óskar Sigurðsson hrl., skipaður skiptastjóri. Erfingjar búsins eru börn þeirra hjóna, A, B, C, D, E og F. Þá hafa tvívegis áður verið rekin fyrir dómi þessum ágreiningsmál vegna dánarbúsins. Annars vegar mál nr. [...]/2010 þar sem viðurkennt var með úrskurði, uppkveðnum [...] 2011, að E hafi með afsali fengið 146 ha landspildu úr jörðinni [...] sem fyrirframgreiddan arf, en skiptastjóri hafði með ákvörðun hafnað gildi afsalsins. Hins vegar mál nr. [...]/2011 þar sem kröfu um brottvikningu skiptastjóra var hafnað, með úrskurði uppkveðnum [...] 2011. Sá úrskurður var staðfestur [...] sama ár með dómi Hæstaréttar í málinu nr. [...]/2011.
Í áðurnefndu bréfi skiptastjóra til dómsins kemur fram að skiptastjóri hafi, án árangurs, reynt að ljúka skiptum á dánarbúinu. Samkvæmt bréfinu og gögnum málsins eru málavextir helstir þessir. Fyrir liggur að skiptastjóri fól I, löggiltum fasteignasala, að meta eignir búsins og var matsgerð lögð fram á skiptafundi 29. febrúar 2012. Á skiptafundi 5. júní 2012 hafi tveir erfingjar, E og F, lýst því yfir að leitað yrði eftir dómkvaðningu matsmanna til að meta eignir búsins. Á skiptafundinum hafi F meðal annars krafist útlagningar á 63. ha spildu, merktri A í matsgerð, ásamt 1/3 af vatnsveitu [...] og umferðarrétti að landinu, en því hafi verið mótmælt af hálfu hluta erfingja. Einnig hafi A ítrekað ósk um útlagningu sumarhúss, byggðu árið 1992, ásamt 20.000 fermetra lóð, en E og F mótmælt kröfunni.
Á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands [...] 2013 voru þeir J, byggingatæknifræðingur og húsasmíðameistari, og K, löggiltur fasteignasali, dómkvaddir til að meta eignir búsins. Matsgerð þeirra, dagsett 13. nóvember 2013, var lögð fram á skiptafundi 12. desember 2013. Ekki hafi náðst samkomulag milli erfingja um skipti á grundvelli matsgerðarinnar þrátt fyrir tilraunir skiptastjóra þar að lútandi. Boðað hafi verið til skiptafundar 15. apríl 2014 þar sem skiptastjóri hafi, eins og segir í bréfi hans, lagt fram tillögu að skiptum í búinu og leitaði eftir afstöðu erfingja. Í tillögunni hafi m.a. falist að leitast var við að slíta hugsanlegri sameign erfingja á fasteignum búsins, eftir því sem hægt væri, þ.e. milli F annars vegar og A, B, C og D hins vegar. Af því hafi leitt að í hlut F skyldi koma skilgreint land, merkt J í matsgerð dómkvaddra matsmanna, hlut í vatnsveitufélögum yrði skipt jafnt milli erfingja, sumarhús kæmi í hlut A og í hlut D fjárhús og véla-/verkfærageymsla í samræmi við kauprétt samkvæmt kaupsamningi milli G heitins og D frá 19. apríl 1991. Erfingjum hafi verið veittur tveggja vikna frestur til að yfirfara tillögu skiptastjóra og koma á framfæri athugasemdum sínum og ábendingum.
Í tölvupósti Láru V. Júlíusdóttur, hrl., til skiptastjóra 28. apríl 2014, hafi komið fram að lögmenn hefðu átt viðræður um sáttamöguleika og frekari viðræður myndu eiga sér stað. Því myndu ákveðnar tillögur ekki koma fram innan þess frests sem veittur hafði verið á skiptafundi. Með bréfi lögmannanna Ívars Pálssonar og Þorsteins Péturssonar til skiptastjóra, dagsettu 29. apríl 2014, kom fram að E og F gætu fyrir sitt leyti fallist á tillögu skiptastjóra þó með nánar skilgreindri útfærslu til að tryggja umferðarrétt, vatns- og veiðirétt. Með tölvupósti 30. apríl 2014 frá Láru V. Júlíusdóttur, hrl., hafi komið fram að A, B, C og D höfnuðu frumvarpsdrögum en myndu leita leiða til sátta.
Á skiptafundi 7. maí 2014 hafi orðið ljóst að ekki næðist samkomulag milli erfingja um skipti eigna búsins og óskaði skiptastjóri eftir afstöðu lögmanna erfingja til þess hvaða heimildir þeir teldu skiptastjóra hafa að lögum til úthlutunar eigna búsins til erfingja við þessar aðstæður. Lögmenn aðila hafi rætt sjónarmið hvað þetta varðaði út frá lögum nr. 20/1991. Skiptastjóri hafi síðan boðað að hann myndi útbúa frumvarp til úthlutunar úr búinu og boða sérstaklega til skiptafundar þegar það lægi fyrir. Skiptafundur hafi verið haldinn 13. júní 2014 og hafi skiptastjóri þá kynnt þá ákvörðun sína að, í ljósi þess sem fram hefði komið á síðasta skiptafundi, teldi skiptastjóri að hann ætti þess ekki annan kost en að selja eignir dánarbúsins í samræmi við meginreglu 2. þáttar laga nr. 20/1991, og greiða erfingjum síðan andvirði eigna búsins að frádregnum kostnaði og erfðafjárskatti til fullnustu arfskröfum þeirra. Lára V. Júlíusdóttir, hrl., hafi áskilið sér rétt til að gera athugasemdir við þessa ákvörðun. Á sama skiptafundi hafi verið ítrekuð krafa A um útlagningu sumarhúss að [...] ásamt lóð, fastanúmer [...]. Útlagningu hafi verið mótmælt af hálfu lögmanna E og F og jafnframt hafi F krafist útlagningar á sumarhúsinu sér til handa á fyrirliggjandi matsverði. Þá hafi lögmennirnir mótmælt kauprétti D að fjárhúsi og véla- og verkfærageymslu. Skiptastjóri hafi þá boðað að hann myndi taka ákvörðun varðandi þessi ágreiningsefni og kynna aðilum.
Í bréfi Láru V. Júlíusdóttur, hrl., dags. 19. júní 2014, hafi athugasemdir verið gerðar við greinda ráðagerð skiptastjóra um sölu eigna búsins af hálfu meirihluta erfingja, þ.e. A, B, C og D, og sett fram sú tillaga að þau leysi til sín allar fasteignir búsins samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna, sem ekki væri ágreiningur um. Skiptastjóri kveðst í bréfi til dómsins hafa skilið tillöguna svo að greindir erfingjar væru með þessu að óska eftir að fá útlagðar til sín allar fasteignir dánarbúsins samkvæmt 36. gr. laga nr. 20/1991, á fyrirliggjandi matsverði, að undanskilinni 146 hektara spildu sem E hafi fengið 2001 sem fyrirfram greiddan arf. Lögmönnum annarra erfingja hafi verið gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við þessa kröfu meirihluta erfingja. Í bréfi Ívars Pálssonar, hrl., dagsettu 8. júlí 2014, fyrir hönd E og F, hafi athugasemdir verið gerðar við greinda kröfu um útlagningu allra eigna búsins, og jafnframt kynnt að yrði fallist á að erfingjar gætu gert kröfu til útlagningar allra fasteigna búsins gerði F slíkt hið sama.
Í bréfi skiptastjóra til lögmanna erfingja, dags. 6. ágúst 2014, hafi skiptastjóri tekið fram að hann hefði reynt að ná fram skiptum á eignum dánarbúsins en ekki tekist. Erfingjar hefðu hafnað úthlutun fasteigna búsins í óskiptri sameign og væri skiptastjóri af því bundinn, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 477/1999. Athugasemdir hefðu einnig verið gerðar við tillögu til úthlutunar eigna búsins, þar sem ekki hefði verið samkomulag um hvaða eignir, eða nánar tiltekið hvaða hluti af jörðinni [...], kæmi til hvers erfingja. Einnig hefðu erfingjar verið sammála um að hlutkesti samkvæmt 36. gr. myndi ekki leysa þann ágreining. Vegna þessa hefði skiptastjóri kynnt erfingjum á skiptafundi 13. júní 2014 að hann sæi ekki aðra leið en að selja eignir búsins og úthluta andvirði eignanna til erfingja. Þar sem fyrir lægi nú að fimm erfingjar hefðu krafist þess að fá útlagðar allar efnislegar eignir búsins samkvæmt matsverði bæri skiptastjóra að taka afstöðu til kröfunnar samkvæmt lögum nr. 20/1991. Hafi skiptastjóri boðað að hlutkesti myndi ráða milli erfingja í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 36. gr. greindra laga og myndi hann fá sýslumanninn á Selfossi til að annast það. Hafi erfingjar verið boðaðir á skiptafund 15. ágúst 2014, til kynningar á greindri ákvörðun um hlutkesti sem og að þeim gæfist þá kostur á að bóka um afstöðu sína og bera ágreining um ákvörðunina undir dómstóla. Fundartíma hafi síðan verið breytt í samráði við lögmenn erfingja og skiptafundur haldinn 14. ágúst 2014. Fyrir fundinn hafi borist bréf frá Ívari Pálssyni, hrl., fyrir hönd E og F, þar sem mótmælt hafi verið þeirri ákvörðun að láta varpa hlutkesti um allar efnislegar eignir búsins. Þá hafi kauprétti D einnig verið mótmælt. Á skiptafundinum 14. ágúst 2014 hafi lögmenn erfingja skýrt sjónarmið sinna umbjóðenda. Lára V. Júlíusdóttir hrl., hafi vísað til þess að arfshlutur umbjóðenda hennar, eftir fyrirframgreiddan arf E, myndi nægja vel fyrir útlagningu allra efnislegra eigna búsins til þeirra og skiptastjóra bæri að úthluta öllum efnislegum eignum búsins til þeirra gegn greiðslu á matsverði. Hafi hún tekið fram að öll lagaskilyrði laga nr. 20/1991, væru uppfyllt til að unnt væri að úthluta eignunum til þeirra gegn greiðslu á matsverði. Ívar Pálsson hrl., hafi andmælt þessari túlkun og ítrekað sjónarmið sem hann hafði fært fram í áðurgreindu bréfi.
Samkvæmt bréfi skiptastjóra til dómsins og fundargerð skiptafundar 2. maí 2013 tilkynnti lögmaður D að hann ætlaði að kaupa fjárhús og véla- verkfærageymslu á fasteignamatsverði af dánarbúinu með vísan til kaupsamnings milli hans og foreldra hans. Lögmenn E og F mótmæltu þessu og kváðu hugsanlegan kauprétt niður fallinn vegna tómlætis. Í áðurnefndu bréfi skiptastjóra kemur fram að framangreind mannvirki standi á eignarlandi D.
Í bréfi skiptastjóra til dómsins kveðst skiptastjóri hafa tekið þá ákvörðun á skipafundinum 13. júní 2014 að selja eignir búsins. Einnig hafi skiptastjóri tekið fram að hann ætti ekki annan kost, þar sem hlutkesti væri ekki framkvæmanlegt við þær aðstæður, sem upp væru komnar, og hafnaði skiptastjóri því kröfum um útlagningu allra fasteigna búsins til A, B, C og D. Rökstuddi skiptastjóri greinda ákvörðun sína á fundinum. Þá hafi skiptastjóri samþykkt kauprétt D að fjárhúsi og véla- og verkfærageymslu á fasteignamatsverði 4.055.000 krónur með vísan til ákvæðis í kaupsamningi D og G heitins frá 19. apríl 1991. Lára V. Júlíusdóttir hrl., hafi tekið fram að umbjóðendur hennar myndu bera framangreinda ákvörðun skiptastjóra undir héraðsdóm til úrlausnar. Ívar Pálsson hrl., hafi tekið fram að umbjóðendur hans, E og F, myndu bera ákvörðun skiptastjóra um kauprétt D undir héraðsdóm til úrlausnar. Ennfremur, yrði kröfu umbjóðenda Láru V. Júlíusdóttur hrl., um úthlutun hafnað, gerðu áðurnefndir erfingjar kröfu til þess að ljúka bæri skiptum í búinu á grundvelli frumvarps skiptastjóra sem lagt hafi verið fram á skiptafundi 15. apríl 2014.
Í greinargerð varnaraðila varðandi fyrsttalda ágreiningsefnið er meðal annars ítarlega gerð grein fyrir tilraunum varnaraðila til að ná sáttum í máli þessu. Ekki þykir ástæða til að rekja málavexti frekar en að framan greinir.
I. Ágreiningur um úthlutun eigna
Kröfugerð sóknaraðila
Sóknaraðilar, A, B, C og D, krefjast þess að þeim verði sameiginlega og að óskiptu lagðar út allar efnislegar eignir dánarbús foreldra sinna, G og H, á matsverði samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna frá 13. nóvember 2013 og mati á sumarbústað frá 29. apríl 2011, að undanskilinni 146 hektara spildu út landi jarðarinnar [...], sem G og H ráðstöfuðu til E, þann 2. desember 2001, sem fyrirframgreiddum arfi honum til handa, sem og þeim eignum sem kaupréttur D tekur til samkvæmt kaupsamningi dagsettum 19. apríl 1991, þ.e. fjárhúsi, hlöðu og véla- og verkfærageymslu. Þessar eignir séu nánar tilgreindar:
a. Skv. matsgerð á dskj. nr. 10:
Matsliður b. Skipulagt sumarhúsasvæði kr. 126.700.000
Matsliður c. [...], 20% hlutur kr. 160.000
Matsliður d. [...] land 11-1 kr. 1.500.000
Matsliður e. [...], 0,029% úr óskiptu landi jarðarinnar kr. 150.000
Matsliður g. fimm lóðir úr landi E kr. 1.300.000
Matsliður i. land B, 71,5 ha kr. 3.500.000
Matsliður j. land A kr. 16.000.000
b. Skv. mati fasteignasala á dskj. 29
Sumarhús fastanr. [...] kr. 13.000.000
Málsástæður sóknaraðila
Kröfu sína um útlagningu sér til handa byggja sóknaraðilar á 36. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991, eins og henni hafi verið beitt og hún túlkuð í dómum Hæstaréttar. Sóknaraðilar óski sameiginlega og að óskiptu eftir útlagningu á tilgreindum eignum, enda rúmist verðmæti eignanna innan sameiginlegs erfðahluta þeirra úr búinu. Skiptastjóri hafi hafnað kröfu þeirra á skiptafundi þann 14. ágúst 2014 og talið að líta yrði á útlagningu eigna samkvæmt 36. gr. skiptalaga sem persónuleg réttindi hvers og eins erfingja og með vísan til grundvallarreglna skiptaréttar um jafnræði erfingja væri hæpið að meirihluti erfingja gæti ákveðið úthlutun eigna búsins sér til handa og útilokað aðra erfingja frá varanlegum fasteignum búsins. Kveða sóknaraðilar sjónarmið skiptastjóra ekki eiga sér stoð í lögum um dánarbússkipti og ekkert í lögunum komi í veg fyrir að erfingjar geti ráðstafað réttindum sínum sameiginlega, þar á meðal sameinast um kröfu til útlagningar sér til handa að óskiptu. Ekki verði séð að slíkt samkomulag erfingja brjóti á jafnræðisrétti annarra. Mönnum sé almennt frjálst að semja um eignir sínar og réttindi út frá meginreglum samningalaga. Væri um slíka takmörkun að ræða um ráðstöfun erfingja við búskipti hefði löggjafinn orðið að taka það skýrt fram.
Samkvæmt yfirliti skiptastjóra, sem lagt hafi verið fram á skiptafundi þann 15. apríl 2014, nemi heildareignir búsins 294.403.092 krónur. Að frádregnum þegar greiddum arfi, þ.e. annars vegar peningum að fjárhæð 25.000.000 króna og hins vegar fyrirfram greiddum arfi til E að fjárhæð 43.500.000 króna, standi eftir í búinu verðmæti að fjárhæð 225.503.092 krónur. Ógreiddur arfur hvers sóknaraðila nemi samkvæmt yfirlitinu 48.233.849 krónum, og samanlagður ógreiddur arfur þeirra allra 192.935.796 krónur. Verðmæti þeirra eigna sem þeir geri kröfu um útlagningu á, sé samkvæmt mati 162.310.000 krónur. Krafa þeirra um útlagningu sé þannig vel innan marka sameiginlegs arfshluta þeirra. Þá vísa sóknaraðilar til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 477/1999, þar sem fram komi um útlagningu að hver og einn erfingi geti krafist að fá arf sinn greiddan með því að fá muni lagða sér út, sbr. 36. gr. laga nr. 20/1991, en sú heimild sé þó ávallt háð því að matsverð muna rúmist innan arfshluta ef erfingjar semja ekki sérstaklega á annan veg. Sóknaraðilar hafi hér samið á þann veg að gera kröfu um að fá sér útlagðar eignir sameiginlega að óskiptu. Í skiptalögum sé ekkert sem komi í veg fyrir þann hátt og taki ofangreindur dómur Hæstaréttar undir þá skoðun að erfingjum sé heimilt að semja sín í milli.
Varðandi kröfu um málskostnað er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Kröfugerð varnaraðila
Varnaraðilar, E og F, krefjast þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um útlagningu meirihluta efnislegra eigna búsins sameiginlega og óskipt.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og vísa í fyrsta lagi til þess að krafan sé of seint fram komin, en hún hafi fyrst verið sett fram í bréfi lögmanns sóknaraðila 19. júní 2014. Þrátt fyrir að í bréfinu sé talað um „ítrekaða“ kröfu, hafi krafa um útlagningu allra efnislegra eigna ekki verið sett fram fyrr en í áðurnefndu bréfi. Dánarbúið hafi verið tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands þann [...] 2010 og hafi sóknaraðilum borið að krefjast útlagningar eigna dánarbúsins þegar í stað við upphaf skiptanna, sbr. 3. mgr. 54. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, en ákvæðið taki til upphafsaðgerða við skipti. Slíka kröfu hafi sóknaraðilum í það minnsta borið að setja fram eins fljótt og kostur var. Varnaraðilar telji því kröfu sóknaraðila fallna niður sökum tómlætis.
Í öðru lagi vísa varnaraðilar kröfu sinni til stuðnings til þess, að krafa sóknaraðila um útlagningu efnislegra eigna búsins sameiginlega og óskipt, sé andstæð ákvæðum skiptalaga. Slík krafa fari gegn meginreglu laganna um jafnræði erfingja við opinber skipti sem og 2. þætti laganna. Kröfuna geri fjórir erfingjar dánarbúsins af sex. Samkvæmt 4. mgr. 70. gr. skiptalaga sé skiptastjóra að öðru jöfnu rétt að fylgja ályktun meirihluta. Það skuli þó ekki gert m.a. ef slík ályktun er andstæð lögum, sbr. 4. mgr. 70. gr. skiptalaga, eða ef ætla má að meirihlutavaldi sé misbeitt minnihlutanum til tjóns. Varnaraðilar telji ljóst að sóknaraðilar séu að beita meirihlutavaldi sínu á kostnað varnaraðilans F. Slíka misnotkun á aðstöðu af hendi meirihluta erfingja beri að virða að vettugi samkvæmt áður tilvitnaðri lagagrein, sbr. og 3. mgr. sömu greinar. Í gögnum málsins liggi fyrir að sóknaraðilar hafi lengi vel ekki sett fram tillögur um skiptin og hafnað öllum tillögum varnaraðila. Telji varnaraðilar að í upphafi hafi sóknaraðilar talið sig geta haft áhrif á skiptin með þeim hætti sem þeir teldu réttast með meirihlutavaldi. Í öllu falli myndi aðgerðarleysi þeirra neyða skiptastjóra til að skipta búinu upp með þeim hætti að þau ættu eignir þess í sameign með varnaraðilanum F, enda fengi varnaraðilinn E ekki meiri eignir úr búinu vegna hins fyrirframgreidda arfs. Í krafti meirihlutavalds gætu sóknaraðilar svo stjórnað eignum búsins að vild. Tilboð um að greiða varnaraðilanum F út sinn hlut hafi sóknaraðilar ekki sett fram fyrr en nýlega eftir að þeim varð ljóst að vegna reglna um óskipta sameign, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 477/1999, gengi hugmynd þeirra ekki upp. Varnaraðilinn F hafi sjálfur, í upphafi skipta, boðið að verða leystur frá búinu með greiðslu en því tilboði hafi verið hafnað. Umrædd krafa um útlagningu hafi komið fram þegar varnaraðilinn F hafi hafnað boðum um að verða greiddur út. Verði fallist á kröfu sóknaraðila sé ljóst að reglur um minnihlutavernd í skiptalögum mega sín lítils. Varnaraðilar telji að með slíkri kröfu geti meirihluti erfingja ávallt ákveðið úthlutun eigna búsins sér til handa og útilokað aðra erfingja frá tilteknum eignum.
Þá telji varnaraðilar að lög um skipti á dánarbúum geri ekki ráð fyrir að erfingjar geti krafist allra eigna dánarbús sameiginlega og óskipt. Um sé að ræða persónubundin réttindi, enda komi skýrt fram í 36. gr. skiptalaga að hver erfingi um sig geti krafist útlagningar sér til handa. Af ákvæðinu sé ljóst að hverjum og einum erfingja, sem vilji fá eign útlagða, beri að hafa uppi sundurgreinda og sjálfstæða kröfu þar um. Þetta megi og ráða af orðalagi 2. mgr. 36. gr. laganna. Af ákvæðinu sé ljóst að einungis sé gert ráð fyrir að einn erfingi fái tilgreinda eign sér útlagða. Séu hins vegar fleiri en einn erfingi sem krefjist sömu eigna beri að varpa hlutkesti. Ef erfingi geti hins vegar sýnt fram á að umrædd eign hafi sérstakt tilfinningalegt gildi fyrir sig umfram aðra, beri að leggja eignina út til hans. Hafi eignin hins vegar tilfinningalegt gildi fyrir fleiri en einn erfingja skuli hlutkesti á milli þeirra ráða.
Þá sé það meginreglan að hver og einn erfingi hafi aðeins heimild til þess að krefjast þess að fá sinn arf greiddan með því að fá eign sér lagða út, að matsverð rúmist innan arfshluta þess nema erfingjar semji sérstaklega á annan veg, sbr. áðurgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 477/1999. Fyrir liggi að ekkert samkomulag hafi tekist á meðal erfingja í máli þessu og því ekki heimild til þess að víkja frá meginreglunni að þessu leyti.
Samkvæmt matsgerð, dags. 13. nóvember 2013, og verðmats á sumarbústað að [...], dags. 29. apríl 2011, er verðmæti þeirra eigna sem krafist er útlagningar á samtals 162.310.000 krónur. Arfshlutur hvers sóknaraðila um sig samkvæmt frumvarpi skiptastjóra, sem lagt var fram á skiptafundi þann 15. apríl 2014, nemi hins vegar ekki nema 48.233.849 krónum þegar tekið hafi verið tillit til þegar greidds arfs. Enginn sóknaraðila eigi því nægilegan stóran arfshlut til þess að geta krafist útlagningar allra eignanna sem krafist er í greinargerð þeirra, alls að fjárhæð 162.310.000 krónur.
Varnaraðilar vísa til þess að réttur til útlagningar eignar séu persónubundin réttindi sem ekki verði beitt í hóp, enda myndu reglur um réttinn ella ganga gegn öðrum reglum laganna, s.s. reglunni um vernd minnihluta. Þá vísa varnaraðilar til þess að þeir telji verðmæti búsins vanmetin og ljóst að verði fallist á umrædda kröfu geti það leitt til tjóns fyrir þá. Réttara sé, og í samræmi við meginreglu laganna, að selja eignir búsins. Þá er minnt á að við skipti beri eingöngu að líta til fjárhagslegra verðmæta enda byggi reglurnar um útlagningu m.a. á sjónarmiðum um tilfinningalegt gildi. Væri fallist á túlkun sóknaraðila gæti meirihluti erfingja ávallt komið í veg fyrir úthlutun eigna til minnihluta erfingja.
Varnaraðilar telji að skýra beri ákvæði laga um skipti á dánarbúum eftir orðanna hljóðan að þessu leyti og til samræmis við önnur ákvæði laganna. Af slíkri túlkun og skýringu sé ljóst að lögin geri ráð fyrir að hver erfingi um sig geti sett fram sjálfstæða kröfu um úthlutun innan arfshluta. Krefjist fleiri en einn sömu eignar ráði hlutkesti, nema eignin hafi meira tilfinningalegt gildi fyrir annan þeirra.
Með vísan til framangreinds hafna varnaraðilar því að sóknaraðilar geti beitt meirihlutavaldi sínu og lagt alla arfshluta sína saman og krafist útlagningar saman og ósundurgreint, líkt og þeir gera í máli þessu. Miða beri arfshlut hvers sóknaraðila fyrir sig og meta réttindi hvers þeirra út frá því.
Varðandi tilvísun sóknaraðila til umfjöllunar Hæstaréttar í dómi réttarins í máli nr. 477/1999, um að útlagning sé ávallt háð því að matsverð rúmist innan arfshluta ef erfingjar semja ekki um annað, vísa varnaraðilar til þess að ekki hafi verið samið við þá um frávik frá þessu. Ekki sé nægilegt að sóknaraðilar semji um slíkt sín á milli enda þurfi samþykki allra erfingja til að víkja frá þessu. Almennar reglur samningaréttar og samningsfrelsi einstaklinga gangi ekki framar ákvæðum skiptalaga.
Auk framangreinds vísa varnaraðilar til rökstuðnings skiptastjóra sem fram kemur í bréfi hans til dómsins dags. 25. ágúst sl., og fundargerðar skiptafundar frá 14. ágúst sl., varðandi kröfu sína. Þá er því mótmælt að krafa sóknaraðila um útlagningu í máli þessu lúti einnig að útlagningu sumarhúss.
Varnaraðilar vísa að öðru leyti til meginreglna erfða-, skipta- og eignarréttar og meginreglna samningaréttar. Þá er einnig vísað til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Loks vísa varnaraðilar, um málskostnaðarkröfu sína til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Sóknaraðilar, fjórir af sex erfingjum búsins, sem byggja kröfu sína um útlagningu á 36. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., vísa meðal annars til þess að ekkert í lögunum komi í veg fyrir að erfingjar geti ráðstafað réttindum sínum sameiginlega, þar á meðal að sameinast um kröfu til útlagningar sér til handa að óskiptu. Slíkt samkomulag brjóti ekki á jafnræðisrétti annarra erfingja, enda séu menn almennt frjálsir að því að semja um eignir sínar og réttindi út frá meginreglum samningalaga.
Í 2. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, kemur fram ein grundvallarregla laganna, þ.e. að dánarbú verður sjálfkrafa við andlát manns lögpersóna og tekur við öllum réttindum og skyldum hins látna, nema það leiði af réttarreglum, löggerningum eða eðli máls, að slík réttindi eða skyldur flytjist með lögmætum hætti á annarra hendur eða falli niður. Framangreint leiðir því til þess að dánarbú tilheyrir hvorki lánardrottnum né erfingjum þess, heldur er nánast um sjálfseignarstofnun að ræða, eins og kemur fram í athugasemdum við 2. gr. frumvarps sem síðar varð að lögum nr. 20/1991. Með vísan til þessa og þar sem dánarbú hjónanna G og H á sjálft þær eignir sem um er deilt, þykja framangreindar málsástæður sóknaraðila ekki eiga við í máli þessu.
Það er meginregla laga nr. 20/1991, að við opinber skipti á gjaldfæru dánarbúi verði eignum þess komið í verð og andvirði þeirra að frádregnum skuldum, erfðafjárskatti og kostnaði við skiptin greitt erfingjum til fullnustu arfskröfum þeirra. Í III. kafla laganna, sem fjallar um sérstök réttindi erfingja við skiptin, eru tilgreindar undantekningar frá framangreindri meginreglu, á þann veg að erfingjar geta krafist þess að einstakar eignir dánarbús verði lagðar þeim út á matsverði. Í 36. gr. laga nr. 20/1991, er mælt fyrir um réttindi maka og annarra erfingja til að fá eignir dánarbúsins lagða sér út til greiðslu arfs, auk réttar maka til að fá eignir lagðar út upp í búshluta sinn. Í 36. gr. segir, að því leyti sem maki þess látna neytir ekki réttar samkvæmt 35. gr. getur hver erfingi um sig krafist þess að fá útlagðar eignir búsins eftir matsverði til greiðslu arfs, enda hafi sá látni ekki ráðstafað eignunum sérstaklega með erfðaskrá. Í 2. mgr. 36. gr. skiptalaga er síðan tekið á þeirri aðstöðu sem uppi er ef fleiri erfingjar en einn krefjast þess að fá sömu eign lagða sér út við skipti, sem og ef um er að ræða eign sem hafi sérstakt gildi fyrir tiltekinn erfingja.
Í máli þessu er eftirlifandi maka ekki til að dreifa og kemur því til skoðunar hvort heimilt sé samkvæmt 36. gr. laga nr. 20/1991, að fallast á sameiginlega kröfu fjögurra erfingja dánarbúsins um að þeim verði lagðar út allar fasteignir dánarbúsins að óskiptu. Með vísan til þess að úrræði III. kafla skiptalaga er, eins og áður er rakið, frávik frá meginreglu laganna um að eignum dánarbús verði komið í verð, verður að mati dómsins að túlka ákvæði 1. mgr. 36. gr. eftir orðanna hljóðan þannig að kröfu um úthlutun verði hver erfingi fyrir sig að gera. Því sé ekki heimilt fyrir hluta erfingja að taka sig saman um að krefjast sameiginlega útlagningar eigna dánarbúsins, eins og háttar til í máli þessu. Um sé að ræða sérstök og persónuleg réttindi hvers og eins erfingja sem aldrei komi til nema samkvæmt kröfu hans sjálfs. Þykir framangreind túlkun einnig fá stoð í 1. og 2. málslið 2. mgr. 36. gr. skiptalaganna. Í fyrri málslið áðurnefndrar greinar er tekið sérstaklega á því ef fleiri erfingjar en einn krefjist þess að fá sömu eign lagða sér út skuli hlutkesti ráða og í síðari málslið segir að sé talið að eignin hafi sérstakt gildi fyrir tiltekinn erfingja öðrum fremur skuli hann þó ganga fyrir útlagningu, en eigi það við um fleiri erfingja en einn skal hlutkesti milli þeirra ráða. Þá er einnig til þess að líta að 36. gr. laga nr. 20/1991, hefur verið túlkuð þannig af dómstólum að erfingjar geti krafist efnda á arfstilkalli sínu með afhendingu tilgreindra eigna sem verði metnar sem greiðsla á arfi miðað við matsverð. Hins vegar geti aðrir erfingjar en maki ekki krafist þess að fá að leysa til sín gegn peningagreiðslu eignir, sem eru verðmeiri en nemur arfshluta þeirra. Því megi þó koma við með samkomulagi við aðra erfingja, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 477/1999. Samkvæmt gögnum málsins er matsverð þeirra eigna sem sóknaraðilar krefjast útlagningar á samtals að verðmæti 162.310.000 krónur en arfshlutur hvers og eins sóknaraðila 48.233.849 krónur. Hér háttar því þannig til að hver sóknaraðili um sig hefur krafist útlagningar eigna sem eru verðmeiri en nemur þeim arfshluta sem hann á í vændum. Með vísan til þess og þar sem ekki liggur fyrir sérstakt samþykki varnaraðila að þessu leyti, er ekki hægt að fallast á kröfu sóknaraðila í þessum þætti málsins. Að öllu framansögðu virtu er kröfu sóknaraðila hafnað og staðfest sú ákvörðun skiptastjóra á skiptafundi 14. ágúst 2014 að hafna kröfu sóknaraðila um úthlutun allra fasteigna dánarbúsins þeim til handa.
II. Ágreiningur um kauprétt
Kröfugerð sóknaraðila
Sóknaraðilar, E og F, krefjast þess að ákvörðun skiptastjóra frá 14. ágúst 2014, um að samþykkja kauprétt varnaraðilans D að fjárhúsi og véla- og verkfærageymslu á fasteignamatsverði, kr. 4.055.000,- samkvæmt kaupsamningi, dags. 19. apríl 1991, verði felld úr gildi.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðilar vísa til þess að samkvæmt orðalagi kaupsamnings frá 19. apríl 1991, milli varnaraðilans D og G heitins, komi skýrt fram að tvö skilyrði þurfi að vera uppfyllt til þess að varnaraðilinn D eigi rétt á að leysa til sín tilgreind hús. Í samningi aðila segir orðrétt: „Fjárhús byggt 1958 og véla-/verkfærageymsla byggð 1973 fylgja ekki með í kaupum þessum. Þó skal kaupandi kaupa hús þessi á fasteignamatsverði síðar ef seljendur óska þess eða að seljendum látnum. Uppgjör vegna kaupa á húsum þessum skal þá ekki taka lengri tíma en tólf mánuði.“ Samkvæmt þessu beri varnaraðilanum D að kaupa hús þessi ef seljendur óska þess eða að seljendum látnum. Kveða sóknaraðilar að fyrir liggi að fyrra skilyrðið eða forsendan sé uppfyllt þar sem seljendur séu látnir. Hins vegar liggi fyrir að síðara skilyrðið eða forsendan, þ.e. að uppgjör vegna kaupa á þessum húsum taki ekki lengri tíma en tólf mánuði, sé ekki uppfyllt. Sóknaraðilar telja að uppgjör vegna húsanna hafi tekið lengri tíma en 12 mánuði og því sé kaupréttur fallinn niður. Sóknaraðilar telja að miða beri upphaf tólf mánaðar tímabilsins við andlát seljenda enda hafi heimild D til að nýta rétt sinn til kaupanna stofnast þá. Verði ekki fallist á það, telja sóknaraðilar að miða eigi við úrskurð Héraðsdóms Suðurlands, dags. [...] 2010, er dánarbúið var tekið til opinberra skipta. Verði ekki fallist á það beri í öllu falli að miða við þann tíma er varnaraðilinn D krafðist þess að beita kaupréttinum á grundvelli kaupsamningsins. Slík krafa hafi fyrst komið fram á skiptafundi þann 2. maí 2013. Þá þegar hafi sóknaraðilar mótmælt kaupréttinum. Ljóst megi vera, óháð hvaða framangreint tímamark miða skuli við, að tólf mánaða tímabilið sé liðið og þar með réttur varnaraðilans til kaupa á húsunum á fasteignamatsverði. Tómlæti varnaraðilans D beri að skýra honum í óhag í samræmi við hefðbundin túlkunarsjónarmið, þ.e. sjónarmiðum samningaréttar um að skýra beri samninga samkvæmt efni þeirra. Hafi ætlunin verið að láta umræddan kauprétt gilda ótímabundið hefði samningsaðilum verið í lófa lagið að haga samningsákvæðum samningsins með þeim hætti.
Með vísan til framangreinds telja sóknaraðilar að varnaraðilinn D eigi ekki rétt á því að kaupa eða leysa húsin til sín á grundvelli kaupsamningsins frá 19. apríl 1991, og því ekki á fasteignamatsverði. Þegar af þeirri ástæðu beri að fella ákvörðun skiptastjóra frá 14. ágúst 2014, um að samþykkja kauprétt varnaraðilans D, úr gildi.
Sóknaraðilar vísa að öðru leyti til meginreglna erfða-, skipta- og eignarréttar og meginreglna samningaréttar. Þá er einnig vísað til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Loks vísa sóknaraðilar, um málskostnaðarkröfu sína til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Kröfugerð varnaraðila
Varnaraðilar, A, B, C og D, krefjast þess að ekki verði fallist á kröfu sóknaraðila heldur að viðurkenndur verði kaupréttur D á fjárhúsi, fastanr. [...], byggðu 1958; hlöðu, fastanr. [...], byggðri 1960 og véla/verkfærageymslu, fastanr. [...] byggðri 1973 á fasteignamatsverði svo sem mælt er fyrir um í kaupsamningi dagsettum 19. apríl 1991.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðilar vísa kröfu sinni til stuðnings til skýrs ákvæðis í kaupsamningi dagsettum 19. apríl 1991. Í umræddum kaupsamningi séu þessar eignir undanþegnar kaupunum en tekið fram að kaupandi skuli kaupa húsin á fasteignamatsverði síðar, ef seljendur óska eða að seljendum látnum. Ekki verði annað lesið út úr ákvæðinu en að það sé fortakslaus skylda kaupanda að kaupa húsin á fasteignamatsverði að seljendum látnum hafi það ekki verið gert áður. Í samningnum segi einnig að uppgjör vegna kaupa á húsum þessum skuli þá ekki taka lengri tíma en tólf mánuði. Væntanlega sé þar verið að semja um greiðslufrest komi til þess að seljendur óski eftir að kaupandi kaupi húsin. Ekkert sé tekið fram um hvernig með skuli fara hafi uppgjör ekki átt sér stað innan 12 mánaða. Ekki sé heldur fjallað um það hvernig beri að bregðast við fari kaup ekki fram fyrr en eftir lát seljenda. Eftir lát seljenda taki dánarbú við skuldbindingum hinna látnu. Kaupandi telji sér skylt með vísan til samningsins að kaupa þessar eignir og óski eftir viðurkenningu á kauprétti sínum. Þá kröfu hafi hann jafnframt sett fram gagnvart dánarbúinu. Hann sé einn erfingja og eigi kröfu á hendur búinu sem sé mun hærri en nemi fasteignamati þessara eigna.
Þá vísa varnaraðilar til þess að allt frá upphafi skipta hafi legið ljóst fyrir af hálfu varnaraðilans D að hann myndi kaupa þær eignir sem tilgreindar eru í umræddum kaupsamningi. Ekki sé einungis um að ræða ósk af hans hálfu, heldur sé ákvæðið í kaupsamningnum sett fram með þeim hætti að um skyldu af hans hálfu sé að ræða. Frágangi kaupanna sé ekki lokið enda skiptum dánarbúsins ekki lokið. Þetta sé eitt þeirra verka sem ólokið sé í dánarbúinu og hvíli á herðum skiptastjóra. Frestir telji ekki á meðan skiptum sé ólokið.
Varðandi kröfu um málskostnað er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Varnaraðilinn D keypti hluta [...] af foreldrum sínum með kaupsamningi dagsettum 19. apríl 1991. Undanskilið við söluna voru mannvirki og spildur sem nánar eru tilgreind í 1. gr. samningsins, töluliðum 1.-3. Í 2. gr. samningsins er gerð grein fyrir greiðslufyrirkomulagi. Í fyrsta lagi með peningagreiðslu við undirritun kaupsamnings og fjórum greiðslum á nánar tilteknum gjalddögum, þeim síðasta 14. apríl 1992, eða um ári eftir undirritun. Í öðru lagi með jarðakaupaláni. Í þriðja lagi með útgáfu skuldabréfa og í fjórða lagi með yfirtöku áhvílandi lána. Samkvæmt 6. gr. skyldi afsal gefið út þegar lokagreiðsla hefði farið fram og kaupandi hefði aflétt áhvílandi lánum af jarðarhluta G. Í 10. gr. segir að komi upp sú aðstaða að D vilji selja sinn hlut í jörðinni að öllu eða einhverju leyti, beri honum að bjóða systkinum sínum að kaupa jarðahlutann fyrir sambærilegt verð og að ofan greinir, að viðbættum verðauka á húsum eða mannvirkjum jarðar, sem á hafa orðið fyrir hans atbeina eins og segir í áðurgreindri grein.
Í 1. gr. kaupsamningsins eru einnig tilgreind mannvirki á jörðinni samkvæmt skrá Fasteignamats ríkisins, meðal annars fjárhús byggt 1958 og véla- og verkfærageymsla byggð 1973. Þar er einnig að finna ákvæði það sem ágreiningur er um í þessum þætti málsins og er það svohljóðandi: „Fjárhús byggt 1958 og véla-/verkfærageymsla byggð 1973 fylgja ekki með í kaupum þessum. Þó skal kaupandi kaupa hús þessi á fasteignamatsverði síðar ef seljendur óska þess eða að seljendum látnum. Uppgjör vegna kaupa á húsum þessum skal þá ekki taka lengri tíma en tólf mánuði.“
Í bréfi skiptastjóra til dómsins kemur fram að framangreint ákvæði kaupsamningsins sé að mati skiptastjóra „einhvers konar kaupréttur“ og hafi D óskað eftir að beita kauprétti sínum samkvæmt samningunum á skiptafundi 2. maí 2013. Það hafi síðan verið á skiptafundi 14. ágúst 2014 sem skiptastjóri samþykkti kauprétt D.
Kaupréttur eða innlausnarréttur er ein tegund óbeinna eignarréttinda. Rétturinn felur í sér að rétthafanum er veitt heimild til þess að krefjast þess, með nánar tilteknum skilyrðum, af hinum virka eiganda tiltekinnar eignar, að hann selji sér hana. Slíkur réttur getur bæði stuðst við heimild í lögum eða samkvæmt samningi aðila. Samkvæmt hinu umdeilda ákvæði er hins vegar sú skylda lögð á kaupanda, þ.e. varnaraðila D, að hann kaupi umrædd hús á fasteignamatsverði, í fyrsta lagi ef seljandi óskar þess, en í öðru lagi að seljanda látnum. Hér er því ekki um það að ræða að það sé undir vilja kaupanda, þ.e. varnaraðila D, hvort eignarréttur hans verður virkur eða ekki, heldur er fremur um að ræða kaupskyldu hans, þ.e. skyldu til að kaupa umrædd hús við nánar tilteknar aðstæður. Slík skylda kann hvort heldur sem er að byggjast á lögum eða samningi. Af málatilbúnaði sóknaraðila verður ekki annað ráðið að þeir viðurkenni skuldbindingargildi umrædds ákvæðis, en byggi hins vegar á því að rétturinn sé fallinn niður vegna tómlætis varnaraðilans D. Telja sóknaraðilar að miða beri tólf mánaða frest þann sem tilgreindur er í ákvæðinu við andlát seljenda, til vara við þann tíma þegar dánarbúið var tekið til opinberra skipta, en til þrautavara við 2. maí 2013 þegar varnaraðili D krafðist þess að beita „kaupréttinum“. Þar sem framangreind tímamörk séu öll liðin verði þegar af þeirri ástæðu að fella úr gildi ákvörðun skiptastjóra frá 14. ágúst sl.
Samkvæmt gögnum málsins tilkynnti lögmaður varnaraðila D á skiptafundi 2. maí 2013 að D myndi kaupa umrædd mannvirki með vísan til hins umdeilda ákvæðis kaupsamningsins frá 1991. Þá þegar mótmæltu sóknaraðilar kröfunni með vísan til þess að hugsanlegur kaupréttur væri fallinn niður sökum tómlætis. Ekkert er hins vegar bókað í fundargerð um afstöðu skiptastjóra. Næst var fjallað um málið á skiptafundi 13. júní 2014. Bókað er um mótmæli sóknaraðila og að skiptastjóri muni taka ákvörðun og kynna aðilum. Það var síðan á skiptafundi 14. ágúst 2014 sem skiptastjóri féllst á „kauprétt“ varnaraðila D að greindum húsum.
Kemur þá til skoðunar sú málsástæða sóknaraðila að þar sem uppgjöri vegna kaupanna sé ekki lokið sé „kauprétturinn“ fallinn niður vegna tómlætis. Eins og áður er rakið segir í hinu umdeilda ákvæði kaupsamningsins að kaupandi, þ.e. varnaraðili D, skuli kaupa umrædd hús á fasteignamatsverði og að uppgjör vegna kaupa á húsum skuli ekki taka lengri tíma en tólf mánuði. Að mati dómsins verður nafnorðið uppgjör, í því samhengi sem hér um ræðir, ekki túlkað á annan veg en þann að þar sé átt við fjárhagsleg reikningsskil, þ.e. að greiðsla kaupverðs húsanna skuli efnd innan tólf mánaða, en það er svipaður greiðslufrestur og mælt er fyrir um í 2. gr. kaupsamningsins eins og rakið er hér að framan. Við andlát seljanda, þ.e. foreldra aðila, tók dánarbúið við öllum réttindum og skyldum hinna látnu og sem lögpersóna nýtur dánarbúið rétthæfis fram til loka skipta, sbr. 2. gr. laga nr. 20/1991. Þá fluttist forræði á hagsmunum dánarbúsins til skiptastjóra frá og með skipan hans til starfans í kjölfar uppkvaðningar úrskurðar um opinber skipti á dánarbúi, sbr. 1. mgr. 67. gr. laganna. Það er því skiptastjóri dánarbúsins einn sem er bær um að ráðstafa hagsmunum og eignum búsins út á við, þar með töldum umræddu fjárhúsi og véla- og verkfærageymslum. Við þá umsýslu er skiptastjóri að sjálfsögðu bundinn af ákvæði kaupsamningsins, m.a. hvað varðar þann hámarkstíma sem kveðið er á um sem greiðslufrest í samningum. Þá er í ákvæðinu hvorki kveðið sérstaklega á um það að skuldbinding varnaraðila D til kaupa á húsunum falli niður við tilteknar aðstæður né er að finna í samningnum ákvæði um riftun kaupskyldunnar, en nauðsynlegt hefði verið að kveða með ótvíræðum hætti á um það í samningnum ef svo hefði átt að vera. Þá er til þess að líta við túlkun kaupsamningsins að umrædd hús, sem eru án lóðarréttinda samkvæmt gögnum málsins, nánar tiltekið matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, standa á eignarlandi varnaraðilans D. Að öllu framansögðu virtu er staðfest ákvörðun skiptastjóra á skiptafundi 14. ágúst 2014 hvað varðar kaup varnaraðilans D á fjárhúsi og véla- og verkfærageymslu samkvæmt kaupsamningi frá 19. apríl 1991 og kröfu sóknaraðila því hafnað.
III. Ljúka beri skiptum á grundvelli frumvarps skiptastjóra.
Kröfugerð sóknaraðila
Sóknaraðilar, E og F, krefjast þess að skiptum verði lokið á grundvelli frumvarps skiptastjóra sem lagt hafi verið fram á skiptafundi þann 15. apríl 2014.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðilar krefjast þess að skiptum verði lokið á grundvelli frumvarps skiptastjóra, sem lagt hafi verið fram á skiptafundi þann 15. apríl 2014, þar sem leitast hafi verið við að slíta sameign erfingja á fasteignum dánarbúsins, þ.e. milli sóknaraðila F annars vegar og varnaraðila A, B, C og D hins vegar. Tillagan hafi nánar tiltekið gert ráð fyrir eftirfarandi skiptingu:
· Sóknaraðili E fengi land sitt samkvæmt fyrirfram greiddum arfi í samræmi við dómsúrskurð i Héraðsdóms Suðurlands, dags. [...] 2011.
· Sóknaraðili F fengi 63 ha. landspildu, sem hann hafði óskað eftir.
· Varnaraðili A fengi sumarhús, sem hún hafði óskað eftir.
· Varnaraðili D fengi útihús og skemmu, sem hann hafði óskað eftir.
· Hlutum í vatnsveitufélögum yrði skipt jafnt á milli erfingja.
· Varnaraðilar fengju aðrar eignir búsins í sameign.
· Mismunur á arfshlut yrði síðan jafnaður út með peningagreiðslum.
Skiptastjóri hafi veitt erfingjum tveggja vikna frest til þess að yfirfara tillöguna og óskað eftir að aðilar sendu skiptastjóra athugasemdir og ábendingar við hana eigi síðar en 29. apríl 2014. Engin mótmæli hafi komið fram á fundinum við þeirri ákvörðun.
Vísa sóknaraðilar til þess að skiptafundur sé ályktunarfær ef hann er sóttur af þeim sem fara með minnst þriðjung atkvæða skv. 4. mgr. 69. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 1. mgr. 70. gr. laganna. Svo sem fram komi í fundargerð skiptafundarins frá 15. apríl 2014, hafi fundurinn verið sóttur af öllum erfingjum dánarbúsins, ýmist sjálfum eða lögmanns fyrir þeirra hönd. Ákvörðun um að veita erfingjum frest til 29. apríl 2014, til að koma á framfæri athugasemdum sínum við tillögu skiptastjóra hafi verið tekin á ályktunarbærum fundi. Engin mótmæli hafi komið fram á skiptafundinum um ákvörðun skiptastjóra og hafi skiptastjóri því verið bundinn af ákvörðun sem tekin var á ályktunarbærum skiptafundi enda allir fundarmenn á einu máli þar um, sbr. 3. mgr. 70. gr. skiptalaga.
Kveða sóknaraðilar hafa tilkynnt skiptastjóra, með bréfi þann 29. apríl 2014, að þeir féllust á tillögu skiptastjóra frá 15. apríl 2014, en hafi bent skiptastjóra á að gera þyrfti grein fyrir umferðar-, vatns- og veiðirétti. Varnaraðilar hafi hins vegar ekki skilað inn athugasemdum við tillöguna fyrir þann tíma sem skiptastjóri hafði gefið þ.e. 29. apríl 2014. Hafi sóknaraðilar því mátt gera ráð fyrir að fallist hefði verið á tillögu skiptastjóra frá 15. apríl 2014. Það hafi ekki verið fyrr en daginn eftir, 30. apríl 2014, sem varnaraðilar tilkynntu skiptastjóra að þeir höfnuðu tillögu hans án nokkurs rökstuðnings. Mótmæli varnaraðila hafi því komið of seint fram og beri að virða þau að vettugi.
Kveða sóknaraðilar rétt að geta þess að samkvæmt athugasemdum um 70. gr. frumvarps er varð að lögum um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, sé reglum ákvæðisins ætlað að ráða fram úr því hver verði talin ákvörðun skiptafundar sem skiptastjóra sé síðan ætlað að framfylgja. Meginreglan komi þar skýrt fram þess efnis að skiptastjóri sé almennt bundinn af einróma niðurstöðu skiptafundar. Þó svo að í ákvæðinu komi fram tilteknir fyrirvarar við meginregluna, þá eigi slíkir fyrirvarar ekki við í máli þessu. Í 3. mgr. 70. gr. skiptalaga komi nánar tiltekið fram að ef ákvörðun er andstæð lögum, óheiðarleg, óframkvæmanleg eða bersýnilega í bága við hagsmuni erfingja eða kröfuhafa, sem ekki hafi sótt fundinn eða geta enn gefið sig fram, megi skiptastjóri virða ákvörðunina að vettugi. Ekkert slíkt eigi við um ákvörðun skiptastjóra þess efnis að veita tilgreindan frest til að mótmæla tillögu sinni.
Þar sem varnaraðilar hafi ekki haft uppi mótmæli gegn ákvörðun skiptastjóra um veittan frest til að hafa uppi athugasemdir við tillögu sína, á skiptafundinum sjálfum þegar ákvörðunin var tekin né innan þess frests sem veittur var, sé skiptastjóri bundinn af ákvörðun fundarins á fundi 15. apríl 2014, og því beri að skipta dánarbúinu samkvæmt tillögu skiptastjóra frá 15. apríl 2014.
Sóknaraðilar vísa að öðru leyti til meginreglna erfða-, skipta- og eignarréttar og meginreglna samningaréttar. Þá er einnig vísað til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Loks vísa sóknaraðilar, um málskostnaðarkröfu sína til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Kröfugerð varnaraðila
Varnaraðilar, A, B, C og D, krefjast þess að kröfu sóknaraðila, um að skiptum verði lokið á grundvelli frumvarps skiptastjóra sem lagt var fram á skiptafundi 15. apríl 2014, verði hafnað.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðilar byggja á því að málsástæða sóknaraðila fyrir því að ljúka beri skiptum á grundvelli frumvarps skiptastjóra frá 15. apríl 2014, um að skiptastjóri sé bundinn af fresti sem hann gaf til 29. apríl 2014, fái ekki staðist. Hið rétta sé að á umræddum fundi hafi skiptastjóri kynnt tillögu sína að skiptum, og sýnt aðilum á excel-skjali. Ekki hafi verið um að ræða frumvarp skv. 77. gr. skiptalaga, heldur vinnuskjal sem skiptastjóri lagði fram í viðleitni sinni til að leita sátta með erfingjum. Hvergi sé í fundargerð fundarins, né heldur á umræddu skjali, notað hugtakið frumvarp, heldur sé talað um tillögu skiptastjóra. Skiptastjóri hafi farið yfir tillögu sína og veitt aðilum tveggja vikna frest til að yfirfara hana og óskað eftir að þeir kæmu á framfæri athugasemdum og ábendingum innan ofangreinds frests. Lögmaður varnaraðila hafi sent skiptastjóra tölvupóst 28. apríl 2014, um að lögmenn hefðu átt í viðræðum um sáttamöguleika og upplýst um að frekari viðræður myndu eiga sér stað. Því myndu ákveðnar tillögur ekki kom fram innan frestsins sem veittur hafði verið á skiptafundinum. Hafi skiptastjóra því verið kunnugt um að sáttaþreifingar væru í gangi, og að eitthvað kynni að dragast að afstaða varnaraðila kæmi fram. Sættir hafi ekki náðst og hafi lögmaður varnaraðila tilkynnt skiptastjóra það með tölvupósti þann 30. apríl 2014.
Þá telja varnaraðilar að í tilkynningu lögmanna sóknaraðila til skiptastjóra, dags. 29. apríl 2014, þar sem þeir fallist á tillögu hans, þó að teknu tilliti til breytinga, felist meira en örlitlar breytingar líkt og sóknaraðilar haldi fram. Í þeim falist verulegar breytingar, þ.e. að tryggður verði umferðarréttur, efnistökuréttur og réttur í vatnsveitu, sem vafasamt sé að falli innan hlutverks skiptastjóra dánarbús nema að litlu leyti. Telja varnaraðilar bréf lögmanna sóknaraðila innihalda gagntilboð í skilningi meginreglna samningaréttar. Þannig hafi sóknaraðilar hafnað framkominni tillögu skiptastjóra en lagt fram nýtt tilboð í hennar stað. Það sé því ekki rétt að þeir hafi fallist á tillögu skiptastjóra, líkt og þeir haldi fram.
Þá telja varnaraðilar tilvísun lögmanna sóknaraðila til 70. gr. skiptalaga alls ekki eiga við varðandi tilmæli skiptastjóra til lögmanna aðila um að lýsa afstöðu sinni til tillögu sinnar, innan tiltekins frests. Greinin fjalli um ályktunarbærni skiptafundar, en tillögu skiptastjóra sé ekki hægt að túlka sem ályktun skiptafundar. Skiptastjóri stjórni skiptum og hafi sem slíkur m.a. heimild til að veita viðbótarfresti, og sé því ekki bundinn af fresti er hann veitti á skiptafundi 15. apríl 2014.
Niðurstaða
Sóknaraðilar krefjast þess að skiptum í dánarbúinu verði lokið á grundvelli frumvarps skiptastjóra sem lagt hafi verið fram á skiptafundi 15. apríl 2014. Frumvarp það til úthlutunar úr dánarbúinu sem sóknaraðilar vísa til og liggur frammi í málinu er svokallað exelskjal. Þó skjalið sé óundirritað, ódagsett og án frekari tilgreiningar er óumdeilt að skjalið stafar frá skiptastjóra dánarbúsins. Í skjalinu er gerð grein fyrir verðmæti eigna samkvæmt matsgerð, verðmæti vatnsveitufélaga, stöðu bankainnistæðna og bankabréfa, verðmæti sumarhúss og innbús. Þá er tilgreind samtala framangreindra liða að frádregnum greiðslum úr dánarbúinu til erfingja á skiptatímanum. Í athugasemdum með nokkrum framangreindum liðum er meðal annars gerð grein fyrir óskum erfingja varðandi skiptin og frádráttarliðum. Í bréfi skiptastjóra til dómsins og fundargerð skiptafundar 15. apríl 2014, kemur fram að skiptastjóri hafi á framangreindum skiptafundi lagt fram tillögu að skiptum í búinu og leitað eftir afstöðu erfingja. Þá hafi hann veitt erfingjum tveggja vikna frest til að yfirfara tillöguna og koma á framfæri athugasemdum sínum og ábendingum eigi síðar en 29. apríl sl. Í fundargerð næsta skiptafundar, 7. maí sama ár, kemur fram að til fundarins hafi verið boðað til að fara yfir athugasemdir við tillögu skiptastjóra að skiptum í búinu sem hafi verið kynnt á síðasta skiptafundi, og til að ræða hvort grundvöllur sé fyrir sáttum milli aðila.
Í 1. mgr. 77. gr. laga nr. 20/1991 er ítarlega kveðið á um hvert efni frumvarps skiptastjóra til úthlutunar úr dánarbúi skuli vera. Þá er 1. mgr. 78. gr. laganna kveðið á um hvernig skiptastjóri skuli standa að boðun skiptafundar um frumvarp til úthlutunar. Hvorki verður séð af gögnum málsins né málflutningi sóknaraðila að til hafi staðið að fjalla um frumvarp skiptastjóra til úthlutunar úr búinu á skiptafundi þann 15. apríl 2014, enda var ekki boðað til þess fundar í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 78. gr. laganna. Þá uppfyllir umrætt exelskjal ekki þær kröfur sem gerðar eru til efnis frumvarps til úthlutunar, sbr. 1. mgr. 77. gr. áðurnefndra laga. Þykir því ljóst, bæði af bréfi skiptastjóra til dómsins og fundargerðum skiptafunda 15. apríl og 7. maí 2014 að skiptastjóri hafi lagt framangreint exelskjal fram á fyrrnefnda fundinum í þeim tilgangi að leitast við að jafna ágreining milli erfingja, sbr. 5. mgr. 54. gr. laga nr. 20/1991, en hluti erfingja hafði sett fram kröfu um útlagningu eigna á skiptafundi 12. desember 2013. Að framansögðu virtu er því ekki fallist á það með sóknaraðilum að skjal það sem skiptastjóri lagði fram á skiptafundi 15. apríl 2014 sé frumvarp til úthlutunar í skilningi laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991. Kröfu sóknaraðila er því hafnað.
Að virtum ágreiningi málsaðila og atvikum máls, þykir rétt með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, að láta hvern málsaðila bera sinn kostnað af málinu.
Af hálfu erfingjanna A, B, C og D flutti Lára V. Júlíusdóttir hrl., mál þetta. Af hálfu erfingjans F flutti Þorsteinn Péturssonar hdl., málið, en Ívar Pálsson hrl., af hálfu erfingjans E.
Ragnheiður Thorlacius, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun skiptastjóra í dánarbúi G og H að hafna kröfu sóknaraðila A, B, C og D, um að úthluta skuli til þeirra öllum efnislegum eignum búsins.
Staðfest er ákvörðun skiptastjóra um kauprétt D að fjárhúsi og véla- og verkfærageymslu á fasteignamatsverði.
Hafnað er kröfu sóknaraðila F og E um að skipta beri dánarbúinu samkvæmt frumvarpi skiptastjóra 15. apríl 2014.
Málskostnaður fellur niður.