Hæstiréttur íslands

Mál nr. 754/2012


Lykilorð

  • Fíkniefnalagabrot


                                     

Fimmtudaginn 30. maí 2013.

Nr. 754/2012.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

Steinari Aubertssyni

(Oddgeir Einarsson hrl.)

Fíkniefnalagabrot.

S var sakfelldur fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa, ásamt tveimur öðrum, staðið að og skipulagt innflutning á samtals 569,15 g af kókaíni, til Íslands frá Danmörku. Með hliðsjón af magni og styrkleika fíkniefnanna og þess að um samverknað ákærða og meðákærðu var að ræða, svo og með hliðsjón af því að S ætti sér engar málsbætur, þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Þá voru 270.000 krónur í reiðufé, sem fannst við leit á heimili S, einnig gerðar upptækar, sem og fyrrnefnd fíkniefni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. desember 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða og upptöku ávana- og fíkniefna og 270.000 króna í reiðufé, en að refsing verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.

I

Í forsendum héraðsdóms kemur fram að meðal gagna málsins séu hljóðritanir af samtölum á heimili meðákærðu A og B, þar sem greinilega megi þekkja raddir þessara meðákærðu og ákærða Steinars Aubertssonar, hér eftir ákærði, auk þess sem meðákærðu nefni það í upptöku frá 15. maí 2012 að „Steini“ sé að koma. Á upptöku frá 14. maí 2012 megi heyra ákærða spyrja meðákærðu A hvernig best sé að setja þetta upp með „gömlu“ og þá heyrist meðákærða segja að mamma hennar geri allt fyrir hana. Þá ræði þau um hvar sé best að afhenda móður meðákærðu A „þetta“. Einnig ræði ákærði um það að hann „lendi þarna“ 20. eða 21. og að hann verði „þarna“ til 22. eða 23. og þá geti hann komið „með þetta“ til meðákærðu A. Hún þurfi bara að vera „á vaktinni“ og þau þurfi bara að vera mikið „on line“. Þá heyrist ákærði í upptöku frá 15. maí 2012 spyrja meðákærðu A hvort hún eigi einhvern vin þarna úti sem gæti látið móður hennar „hafa þetta“ og heyrist meðákærða þá svara: „Það er bara C, það er bara C“ og meðákærði B heyrist bæta við: „C“. Jafnframt heyrist ákærðu öll velta því fyrir sér að best sé að senda einhvern sem sé „ekki í þessum heimi“, en það verði að vera stelpa. Enn fremur heyrist ákærði ræða um það að hann verði kominn „þangað“ 21. og verði farinn 22. og þetta sé bara spurning um hvernig meðákærða A ætli að „setja þetta upp í sambandi við din mor.“ Meðákærða A heyrist þá segja: „Segðu mér bara hvenær þú verður þarna.“ Jafnframt heyrist ákærði segja: „Í versta falli þá segirðu þessari C þarna að vinkona þín ... að vinkona þín sé á smá hraðferð og hún ætli að láta mömmu þín fá smá“. Loks heyrist ákærði segja: „Já, og þá plötum við hana bara þannig og þá gerir hún það bara sama dag og mamma þín væri komin til hennar þannig að hún væri ekkert að fara þú veist að geta testað það sem væri í þessu skilurðu“ og „Þá er hún komin með töskuna ... mamma þín myndi senda konuna mína til þessarar C eða eitthvað.“

Eftir að hafa rakið það sem fram kemur í hljóðritununum dregur héraðsdómur réttilega þá ályktun af því sem þar kemur fram að ekki fari milli mála að ákærðu hafi verið að skipuleggja innflutning á þeim fíkniefnum sem móðir meðákærðu A flutti með sér til landsins 25. maí 2012. Að þessu gefnu er rakið í dóminum að ákærði hafi komið til Kaupmannahafnar 22. maí 2012, um svipað leyti og fram komi í samtölum hans við meðákærðu 14. og 15. sama mánaðar. Þá hafi ákærði og unnusta hans, vitnið D, skýrt frá því að þau ákærði hafi farið í verslunarleiðangur í Kaupmannahöfn og keypt barnaföt og fleira fyrir meðákærðu A 23. maí 2012 og að ákærði hafi sagt fyrir dóminum að áðurnefnd unnusta hans hafi hitt vinkonu meðákærðu A á torgi í borginni og látið hana hafa fatapokana. Næst er rakinn framburður ákærða hjá lögreglu 5. september 2012, þar sem ákærði hafi sagt að vinkona meðákærðu A, sú sem þau D hafi afhent barnafötin, héti E, C eða eitthvað í þá áttina. Við hlustun á yfirheyrslunni væri það ekki rétt sem ákærði héldi fram fyrir dóminum að lögregla hafi spurt hann að því hvort verið gæti að vinkona meðákærðu A héti C, heldur hafi ákærði verið spurður að því hver þessi vinkona væri. Þá hafi ákærði sagt hjá lögreglu að vel gæti verið að þau D hafi farið heim til þessarar vinkonu meðákærðu A og að þau hafi farið inn í einhverja íbúð þarna, en ekki munað hvar. Voru skýringar ákærða á breyttum framburði fyrir dómi ekki taldar trúverðugar.

Þá er í dómsforsendum gerð grein fyrir því að meðákærða A hafi neitað fyrir dómi að ákærði hafi komið að skipulagningu fíkniefnainnflutnings þess, sem honum er gefinn að sök í máli þessu. Í skýrslu sinni hjá lögreglu 7. júní 2012 hafi meðákærða hins vegar staðfest að í upptökum af samtali á heimili hennar og meðákærða B 14. maí 2012 mætti heyra þau ákærða skipuleggja innflutning fíkniefna í tösku, sem móðir meðákærðu A átti að koma með til landsins, en meðákærða hafi tekið fram að ekki hefði verið búið að ákveða magnið. Voru skýringar meðákærðu á breyttum framburði hennar fyrir dómi um aðild ákærða að fíkniefnainnflutningnum ekki metnar trúverðugar. Enn fremur er rakinn framburður vitnisins C, vinkonu meðákærðu A, fyrir dómi um að par hafi komið heim til vitnisins með tösku einum eða tveimur dögum áður en vitnið fór með hana út á flugvöll til móður meðákærðu. Gæti það samrýmst framburði ákærða og D um ferðalag þeirra til Hollands. Í framburði C hafi komið fram að stúlkan hafi séð um að kaupa barnafötin fyrir meðákærðu A og pakka þeim í töskuna meðan vitnið hafi brugðið sér af bæ og hafi taskan verið tilbúin í íbúð vitnisins þegar það kom til baka. Þótti lýsing vitnisins á parinu koma heim og saman við útlit ákærða og D og þá sérstaklega lýsing vitnisins á D, en vitnið kvaðst geta lýst henni betur þar sem það hafi átt meiri samskipti við hana. Hafi framburður C verið greinargóður og skýr, hann samrýmdist framburði ákærða hjá lögreglu og að sínu leyti framburði D og var framburður C metinn trúverðugur.

Að framangreindu virtu var komist að þeirri niðurstöðu að ósamræmi væri í framburði ákærða fyrir dóminum og hjá lögreglu og þætti ákærði ekki hafa gefið trúverðugar skýringar á breyttum framburði sínum fyrir dómi. Þá samrýmdist framburður ákærða fyrir dóminum ekki öðrum gögnum málsins, svo sem hljóðritunum á heimili meðákærðu, og þætti framburður ákærða fyrir dóminum ekki trúverðugur. Með hliðsjón af hljóðritunum á heimili meðákærðu A og B 14. og 15. maí 2012, sem fengi stuðning í framburði meðákærðu A hjá lögreglu og framburði vitnisins C, sem einnig samrýmdist framburði ákærða hjá lögreglu, þætti sannað svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa að ákærði hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum væri gefin að sök í ákæru.

II

Í skýrslu C hjá lögreglu 25. júní 2012 kvaðst hún ekki vita hvað það fólk, sem kom með töskuna til hennar, héti, og hafi hún lítið sem ekkert talað við „strákinn“ þar sem hann hafi verið á Skype allan tímann inni í eldhúsi. Lýsti C parinu þannig að stúlkan hafi verið „lítil og sæt með ljósbrúnt hár og strákurinn var dökkhærður, svolítið stór, þéttur“. Fyrir dómi kvaðst vitnið fyrst ekki muna hvernig „strákurinn“ leit út, en stúlkan hafi verið „svolítið síðhærð, grönn ... svona ljós skolhærð.“ Nokkru síðar var vitnið beðið að lýsa „stráknum“ og var svar þess svofellt: „Hann var ótrúlega venjulegur. Var ekki feitur, hann var ekki eitthvað geðveikt grannur“. Aðspurt um hár hans sagði vitnið: „Held það hafi bara verið svona venjulegt stutt hár. Ég man ekki hvernig það var á litinn.“ Aðspurt um hvort maðurinn hafi verið með gleraugu svaraði vitnið: „Ég held hann hafi ekki verið með gleraugu því ég held ég hefði munað.“ Spurt um komu parsins í íbúð vitnisins sagði það: „Já og svo fæ ég hana. Ég tala við hana. Hann var að tala í símann í eldhúsinu þannig að ég sá hann miklu minna og ég var að pakka fyrir dóttur mína, ég var að fara með hana og hún sat inni í stofu og var með dóttur minni og var að reyna tala við hana og ég spurði hana hvort þau hefðu tíma að fara að versla þetta sem ég var búinn að lofa A að versla. Hún sagði já það væri ekkert mál ef hún mætti þá koma með það á eftir. Ég lét þau bara hafa lykilinn af því ef að ég yrði ekki komin þannig og bara muna að láta hann í póstkassann. Þau fengu bara ... lykilinn minn þannig að taska var tilbúin þegar ég kom og það var ekkert mál.“ Er vitnið var spurt að því hvort það myndi „þekkja þetta par í sjón í dag“ svaraði það: „Kannski stelpuna en ég er ekki viss ... Líka ef hún hefur breyst í útliti. Ég sá þau bara einu sinni einn dag þannig að það var náttúrulega í maí.“

Með beiðni verjanda ákærða 5. apríl 2013, móttekinni í Héraðsdómi Reykjaness 12. sama mánaðar, var þess óskað að tekin yrði á ný skýrsla af vitninu til að ganga úr skugga um hvort það gæti staðfest hvort ákærði hefði afhent því tösku á heimili þess eða hvort um annan mann hefði verið að ræða. Var fallist á beiðnina með dómi Hæstaréttar 14. maí 2013 í máli nr. 320/2013. Vitnið, sem búsett er í Kaupmannahöfn, gaf símaskýrslu fyrir héraðsdómi 17. sama mánaðar. Vitnið var í upphafi spurt að því hvort það vissi nú hvernig ákærði liti út og svaraði vitnið því til að svo væri, það hafi séð hann á vefmiðlinum visir.is fyrir um mánuði. Kvað vitnið ákærða ekki hafa verið þann mann sem afhenti því töskuna á heimili þess. Spurt um ástæðu þess að vitnið fór að skoða myndina af ákærða svaraði það: „Bara út af umfjöllum um þetta eiginlega ... og svo var ég bara að pæla í því hver þetta væri sem væri verið að tala um“. Þegar vitnið var spurt hvort það hafi aðallega verið það að „strákurinn“ á myndinni hafi verið feitari og með gleraugu, en „strákurinn“ sem hafi komið heim til vitnisins hafi verið grennri og ekki með gleraugu, sem réði því að um sama mann gæti ekki verið að ræða svaraði vitnið: „Já fyrst og fremst þetta“. Hafi „þessi gaur“ sem vitnið hafi séð í fjölmiðlum bara ekkert verið líkur „þessum strák eins og ég man það“ sem kom heim til vitnisins.

III

Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða var einkum reist á því sem fram kom í hljóðritunum á samtölum hans og meðákærðu 14. og 15. maí 2012, enda þætti þar ekki fara á milli mála að ákærðu væru að skipuleggja innflutning á fíkniefnum, sem móðir meðákærðu A flutti með sér til landsins 25. maí 2012. Þá var talið að önnur gögn styddu sakfellingu ákærða eins og rakið var. Lýsing vitnisins C á manni þeim, sem kom með unnustu sinni á heimili þess greint sinn, var ekki á sama veg hjá lögreglu og fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Þá fullyrti vitnið í símaskýrslu sinni fyrir dómi, sem tekin var að frumkvæði ákærða, að af mynd að dæma, sem vitnið kvaðst hafa séð af ákærða á vefmiðli, væri hann ekki sá maður sem komið hefði með tösku á heimili vitnisins. Jafnvel þótt tekið yrði tillit til þessa síðbúna framburðar vitnisins fær hann ekki einn og sér haggað sönnunarmati fjölskipaðs héraðsdóms að öðru leyti. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Steinar Aubertsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 567.267 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness, þriðjudaginn 4. desember 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var að aflokinni aðalmeðferð þriðjudaginn 6. nóvember sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 16. ágúst 2012, á hendur F, kt. [...], [...], [...], A, kt. [...], [...], [...], B, kt. [...], [...] ,[...] og G, kt. [...], [...], [...],

„fyrir neðangreind fíkniefna- og umferðarlagabrot framin á árunum 2011 og 2012 svo sem hér greinir:

I.

Gegn ákærðu öllum fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið saman að innflutningi á samtals 347,08 g af kókaíni, sem unnt hefði verið að framleiða 1322 g af kókaíni úr, til Íslands frá Spáni í gegnum Bretlandi (sic.), ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni eins og nánar er lýst í ákæruliðum I/1 og I/2.

1. Ákærðu A og B lögðu saman á ráðin um innflutning fíkniefnanna og fengu meðákærðu F og G til að fara til Alicante á Spáni og taka þar við efnunum og flytja þau til Íslands gegn greiðslu. Er meðákærðu voru komin til Spánar höfðu ákærðu samband við þau með upplýsingar um hvar þau ættu að nálgast fíkniefnin.

2. Ákærðu F og G tóku að sér, að beiðni meðákærðu A og B, að flytja umrætt kókaín til landsins. Ákærðu F og G fluttu efnin til Íslands frá Spáni til Bretlands og þaðan til Íslands sem farþegar með flugi HCC-502 þann 8. desember 2011. Ákærða F var með 5 pakkningar innvortis sem innihéldu 173,46 g af kókaíni, sem unnt er að framleiða 616 g af kókaíni úr. Ákærði G var með 5 pakkningar innvortis sem innihéldu 173,62 g af kókaíni, sem unnt er að framleiða 706 g af kókaíni úr.

Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.

II.

Gegn ákærðu A og B fyrir tilraun til fíkniefnalagabrots með því að hafa í félagi, fjármagnað og skipulagt innflutning á 140 g af kókaíni frá Danmörku til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi. Efnið afhentu ákærðu H í Kaupmannahöfn í febrúar 2012 í þeim tilgangi að H myndi flytja efnin til Íslands en af því varð ekki þar sem H hvarf frá verkinu.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001, sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga.

III.

Gegn ákærðu A og B fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa, í félagi við þriðja mann, staðið saman að og skipulagt innflutning á samtals 569,15 g af kókaíni, sem unnt hefði verið að framleiða 1940 g af kókaíni úr, frá Danmörku, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Fíkniefnin voru falin í ferðatösku sem ákærðu fengu C (sic.) til að afhenta (sic.) I, móður ákærðu A, á Kastrup flugvelli í Kaupmannahöfn. I flutti töskuna til Íslands sem farþegi með flugi HCC-902 en var stöðvuð við komuna til landsins föstudaginn 25. maí 2012.

Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga.

IV.

Gegn ákærðu A fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot með því að hafa föstudaginn 25. maí 2012 ekið bifreiðinni [...] austur Miklubraut í Reykjavík, óhæf um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (tetrahýdrókannabínól í blóði 5,7 ng/ml) og fyrir að hafa haft í vörslum sínum 1,16 g af amfetamíni og 0,36 g af maríhúana sem lögregla fann við leit í bifreiðinni.

Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum og 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni, sbr. og 6. gr. sömu laga að því er varðar meðferð ákærðu á amfetamíni, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að framangreind 916,23 g af kókaíni, 1,16 gr af amfetamíni og 0,36 g af maríhúana, sem hald var lagt á verið (sic.) gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni. Loks er þess krafist að samtals 137.500 krónur í reiðufé sem fannst við leit á ákærða B í húsnæði World Class í Laugardal í Reykjavík 25. maí 2012 verði gert upptækt með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009 og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 1. gr. laga nr. 60/1980 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

Í málinu var gefin út framhaldsákæra 14. september 2012 á hendur Steinari Aubertssyni, kt. [...]-[...], Hörðukór 3, Kópavogi, og er þar eftirfarandi viðbót gerð á ofangreindri ákæru:

„Kafli III. (sic.) í ákæru ríkissaksóknara frá 16. ágúst 2012 hljóðar svo:

I.

Gegn ákærðu A, B og Steinari fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið saman að og skipulagt innflutning á samtals 569,15 g af kókaíni, sem unnt hefði verið að framleiða 1940 g af kókaíni úr, frá Danmörku, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Fíkniefnin voru falin í ferðatösku sem ákærðu fengu C (sic.) til að afhenta I, móður ákærðu A, á Kastrup flugvelli í Kaupmannahöfn, en ákærði Steinar hafði áður afhent C (sic.) ferðatöskuna í Kaupmannahöfn. I flutti töskuna til Íslands sem farþegi með flugi HCC-902 en var stöðvuð við komuna til landsins föstudaginn 25. maí 2012.

Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærðu öll verði dæmd til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar.

Er þess krafist að samtals 270.000 krónur í reiðufé sem fannst við leit á heimili ákærða Steinars að Hörðukór 3 í Kópavogi þann 25. maí 2012 verði gert upptækt með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009 og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 1. gr. laga nr. 60/1980 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

Af hálfu ákærðu F og G er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegra málsvarnarlauna skipaðs verjanda.

Af hálfu ákærðu A er þess aðallega krafist að II. kafla ákæru verði vísað frá dómi. Þá er krafist sýknu af I. kafla ákæru, en að öðru leyti er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Loks er krafist hæfilegra málsvarnarlauna á rannsóknarstigi og hér fyrir dómi og að þau verði lögð á ríkissjóð að öllu leyti eða að hluta.

Af hálfu ákærða B er krafist sýknu af I. og III. kafla ákærunnar, en til vara og að öðru leyti er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegra málsvarnarlauna skipaðs verjanda. Þá er kröfu um upptöku á 137.500 krónum í reiðufé mótmælt.

Af hálfu ákærða Steinars er aðallega krafist sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna og að þau verði felld á ríkissjóð að öllu leyti eða að hluta.

Málavextir.

I. kafli ákæru 16. ágúst 2012.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dags. 9. desember 2011, barst lögreglu tilkynning frá tollgæslu fimmtudaginn 8. desember 2011 um að grunur léki á að farþegar, sem hefðu komið með flugi HCC-501 frá London, væru með fíkniefni innvortis. Lögreglumenn fóru á vettvang og þar tjáði tollvörður þeim að ákærðu G og F hefðu verið að koma frá Spáni í gegnum London. Ákærði G hefði viðurkennt fyrir tollverði að hann væri með fimm pakkningar af kókaíni innvortis og að ákærða F væri einnig með fimm pakkningar. Ekkert ólögmætt hefði hins vegar fundist við leit tollgæslunnar í farangri ákærðu. Fram kemur í lögregluskýrslunni að farið hafi verið með ákærðu á lögreglustöð þar sem þau hafi losað pakkningarnar út. Þá hafi þau verið látin gangast undir sneiðmyndatöku til að ganga úr skugga um að þau væru ekki með fleiri aðskotahluti innvortis og hafi svo ekki reynst vera. Ákærðu hafi bæði verið handtekin og vistuð í fangaklefa.

Samkvæmt gögnum málsins gerði lögregla húsleit á heimili ákærðu að [...] í [...] hinn 12. desember 2011 og fann lögregla smáræði af fíkniefnum, en ekkert annað sem gagnaðist við rannsókn málsins.

Samkvæmt efnaskýrslu lögreglu var heildarmagn þeirra efna, sem ákærði G var með innvortis, 173,62 grömm og samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 28. desember 2011, innihélt sýni úr efninu kókaín að styrkleika 87%, að mestu á formi kókaínklóríðs. Fram kemur í síðari matsgerð rannsóknastofunnar, dags. 5. janúar 2012, að úr efninu væri hægt að búa til 706 grömm af efni, sem væri 21,4% að styrkleika. Í síðari matsgerðinni segir að sérstök rannsókn á neyslustyrkleika kókaíns hér á landi hafi ekki farið fram. Við útreikninginn sé gengið út frá nýjustu tölum um neyslustyrkleika kókaínklóríðs í Danmörku, en hann hafi að meðaltali verið 24% á landsvísu árið 2010, sem samsvari 21,4% af kókaínbasa.

Heildarmagn þeirra efna sem ákærða F var með innvortis var samkvæmt efnaskýrslu lögreglu 173,46 grömm og samkvæmt matsgerð rannsóknastofunnar, dags. 28. desember 2011, innihélt sýni úr efninu kókaín og sykuralkóhól og var kókaínið að mestu á formi kókaínklóríðs. Styrkur kókaíns í sýninu var samkvæmt matsgerðinni 76%. Fram kemur í síðari matsgerð rannsóknastofunnar, dags. 5. janúar 2012, að úr efninu væri hægt að framleiða 616 grömm af efni sem væri 21,4% að styrkleika, úr. Miðað var við sömu forsendur og lýst er hér að framan.

II. og III. kafli ákæru16. ágúst 2012 og framhaldsákæru14. september 2012.

Samkvæmt skýrslu tollstjóra, dags. 25. maí 2012, voru tollverðir við eftirlit með farþegum, sem komu úr flugi HCC-902 frá Kaupmannahöfn klukkan 16.38. Er farþeginn I hafi komið á grænt tollhlið ásamt samferðamanni sínum J hafi fíkniefnahundur vísað á ferðatösku í þeirra fórum. Hafi farangur þeirra því verið gegnumlýstur og þau verið flutt í leitarklefa tollgæslunnar til skoðunar. I hafi aðspurð tjáð tollvörðum að taskan væri í eigu dóttur hennar, A, en hún hefði tekið töskuna með sér að ósk A. Í skýrslunni segir að taskan hafi verið tóm að öðru leyti en því að í henni hafi verið tvenn pör af barnaskóm og eitt par af sokkum. Tóm hafi taskan vegið 5,395 kíló. Þegar tekið hafi verið Itemiser-stroksýni úr töskunni hafi það gefið háa jákvæða svörun við kókaíni. Er stungið hafi verið á töskuna hafi mátt sjá hvítt duft, ætlað kókaín.

Í skýrslu lögreglu, dags. 26. maí 2012, segir að lögreglan á Suðurnesjum hafi um nokkurt skeið rannsakað hvort ákærðu A og B stunduðu innflutning á fíkniefnum til landsins vegna upplýsinga sem borist hefðu lögreglu þar um. Segir í skýrslunni að lögreglu hafi nýverið borist upplýsingar um að til stæði að senda ferðatösku með fíkniefnum til Íslands frá Danmörku. Einnig að ákærða A ætlaði að biðja móður sína, I, um að taka ferðatöskuna með sér til landsins undir því yfirskini að í ferðatöskunni væru barnaföt fyrir börn ákærðu A og B.

Í skýrslunni er síðan greint frá sömu málavöxtum og í framangreindri skýrslu tollgæslu. Þá segir í skýrslunni að I og J hafi verið handtekin en látin laus rétt fyrir miðnætti sama dag. Þá segir að ákærðu A og B hafi verið handtekin og í kjölfarið hafi verið gerð húsleit á heimili þeirra að [...] í [...] og í bifreiðinni [...]. Ekkert markvert hafi fundist við húsleitina en við leit í bifreiðinni hafi fundist smáræði af fíkniefnum

Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglu, dags. 31. maí 2012, var ferðataskan, sem I flutti með sér til landsins, tekin til skoðunar og segir þar að í holum plastrenningi, er hafi verið í hliðum ferðatöskunnar, hafi fundist hvítt duft sem gefið hafi svörun sem kókaín í litarforprófi. Kókaínið hafi verið 569,15 grömm að þyngd. Á meðal gagna málsins eru ljósmyndir lögreglu af ferðatöskunni og hvernig fíkniefnunum var komið fyrir í henni.

Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 12. júní 2012, innihélt sýni úr efninu kókaín og tetramísól. Efnapróf hafi bent til þess að kókaínið væri að mestu á formi kókaínklóríðs. Styrkur kókaíns í sýninu hafi verið 75%, sem samsvari 84% af kókaínklóríði. Í matsgerðinni segir að tetramísól sé dýralyf, þ.e. ormalyf, sem ekki teljist til ávana- og fíkniefna. Í síðari matsgerð rannsóknastofunnar, dags. 3. júlí 2012, kemur fram að úr efninu væri hægt að búa til 1940 grömm af efni, sem væri 22% að styrkleika. Þá segir að í útreikningnum sé gengið út frá nýjustu tölum um neyslustyrkleika kókaíns í Danmörku, en hann hafi verið að meðaltali 22% á landsvísu árið 2011.

Samkvæmt gögnum málsins voru símanúmer og símtæki þeirra B hleruð á tímabilinu frá 14. desember 2011 til 14. maí 2012. Þá kom lögregla fyrir hlerunarbúnaði á heimili ákærðu og á tímabilinu frá 31. janúar 2012 til 25. maí 2012 hlustaði lögregla á samskipti ákærðu B og A á heimili þeirra að [...], íbúð [...].

IV. kafli ákæru 16. ágúst 2012.

Um málavexti hvað þennan kafla ákærunnar varðar er skírskotað til ákæru.

Framburður ákærðu og vitna.

Ákærða A neitaði sök að því er varðar I. og II. kafla ákæru, en játaði sök að því er varðar III. og IV. kafla ákærunnar. Hún kvaðst hafa staðið ein að brotinu sem snýr að III. kafla ákærunnar.

Að því er varðar sakargiftir í I. kafla ákæru kvaðst ákærða þekkja meðákærðu F og G í gegnum kærastann sinn, en hún sagðist vita til þess að G og kærasti hennar hefðu einhvern tíma verið saman á sjó og að þeir hefðu þekkst lengi. Hún sagðist ekki hafa haft vitneskju um ferð þeirra F og G og kvaðst ekki hafa komið að skipulagningu þeirrar ferðar eða fjármagnað innflutninginn. Hún sagðist hins vegar hafa frétt af þessu síðar. Hún sagði að F og G hefðu keypt af henni hluta af innbúi og sagði að þau skulduðu henni enn 175.000 krónur vegna þess. Hún kvaðst aðspurð ekki hafa selt þeim fíkniefni. Aðspurð kvaðst hún hafa frétt af því að F og G hefðu borið á kærasta hennar að hann hefði farið inn á heimili þeirra í [...] og brotið upp hurðina. Kvaðst hún ekki vita til þess að það hefði átt sér stað. Aðspurð kvaðst hún ekki muna eftir að hafa verið með hótanir í garð G í síma.

Ákærða var spurð út í skýrslu hennar hjá lögreglu 7. júní sl., skjal III-10, bls. 10, en þar hefði hún verið innt eftir innflutningi meðákærðu F og G. Hún hefði þá tjáð lögreglu að hún hefði rætt við verjanda sinn og hann hefði tjáð henni að ef hún hefði ekki lagt pening í þetta hefði hún ekki komið að skipulagningunni. Ákærða sagði þá að hún hefði haft vitneskju um þetta, en kvaðst ekki muna hvernig hún hefði komist að þessu. Kvaðst hún ekki geta sagt til um það hvort hún heyrði af þessu áður eða eftir að meðákærðu fóru út, en sagðist þó halda að hún hefði frétt af þessu eftir að þau komu heim.

Upptaka af símtali ákærðu og meðákærða G frá 4. apríl sl., skjal VIII, 8-1, var spiluð fyrir ákærðu. Ákærða kvaðst ekki muna eftir þessu símtali, en kvaðst kannast við rödd sína. Ákærða var innt eftir þessu símtal og spurð að því af hverju lögreglan hefði átt að banka upp á hjá henni. Sagði ákærða þá að þau hefðu verið að rífast og hún hefði verið æst. Maðurinn væri forfallinn fíkniefnaneytandi og væri alltaf með eitthvert kjaftæði við hana. Ákærða sagði að þetta símtal tengdist ekkert þessu máli.

Upptaka af herbergishlustun á heimili ákærðu og meðákærða B að [...], 29. apríl sl., skjal VIII, 10, þar sem hún ræðir við K, var spiluð fyrir ákærðu. Kvaðst ákærða ekki muna eftir þessu samtali, en kvaðst kannast við rödd sína. Hún kvaðst ekki muna svona langt aftur og þá sagðist hún greina það að hún hefði á þessari stundu verið útúrrugluð og að reyna að vera „kúl á því“, eins og fólki í þessu ástandi væri tamt að gera.

Að því er varðar sakargiftir í II. kafla ákæru kvaðst ákærða hafa haft einhverja vitneskju um það frá B kærasta sínum að til stæði að H myndi flytja fíkniefni til landsins. Hún sagði að H væri æskuvinkona sín og sagði að B hefði hitt hana einu sinni eða tvisvar. Ákærða sagðist hafa hitt H þegar hún fór til Danmerkur í upphafi þessa árs til að heimsækja móður sína, en þá hefði fíkniefnainnflutningurinn ekki komið til tals. Hún sagðist hins vegar hafa rætt við H símleiðis í febrúar þegar þetta hefði allt verið komið um kring og tjáð H að hún vildi ekki að hún gerði þetta. Kvaðst hún hafa viljað að þetta yrði stöðvað. Sagðist ákærða hafa beðið H um að hætta við og skila fíkniefnunum, sem hún hafði fengið í hendur. Þá kvaðst ákærða hafa sent H skilaboð á Facebook 19. febrúar sl. og útskýrt fyrir henni hvert hún ætti að fara til að skila fíkniefnunum. Kvaðst ákærða hafa fundið þessi skilaboð á Facebook nú í morgun og vera nýbúin að lesa þau yfir. Í skilaboðunum biðji ákærða H um að fara að hitta íslenskan mann við MacDonalds á aðalbrautarstöðinni í Kaupmannahöfn til að skila efnunum, sem hún hefði fengið. Hefði maðurinn, sem ekki tengdist þessu máli að öðru leyti, átt að þekkja H af klæðaburði hennar og töskunni. Ákærða sagði að H hefði lokað á sig á Facebook og því hefði hún ekki komist í þessar færslur á Facebook fyrr en H kom til landsins og opnaði fyrir hana aftur á Facebook.

Ákærða sagði að H hefði ekki skilað efnunum og tjáð þeim að þau væru týnd. Maðurinn, sem hefði ætlað að taka við efnunum og koma þeim til réttra aðila, hefði tjáð þeim að H hefði ekki komið á brautarstöðina. Kvaðst ákærða þá hafa sent H skilaboð og spurt hana að því hvað væri í gangi en ekki fengið svar frá henni í fyrstu. Síðar hefði hún sent henni bréf um að hún skildi ekkert í því hvað hefði gerst og hún væri búin að týna efnunum. Ákærða kvaðst telja að hún hefði afstýrt því með þessum afskiptum sínum að þessi fíkniefni yrðu flutt til landsins.

Ákærða svaraði því ekki hver hefði átt þessi efni og sagði að H hefði bara átt að skila þeim. Hún neitaði því að það að efnin skyldu týnast hefði sett þau B í vanda. Hún játaði þó að einhver hlyti að hafa tapað á því að efnin týndust. Ákærða kvaðst hafa verið í mikilli neyslu á þessum tíma og kvaðst því ekki muna vel eftir því sem gerðist, auk þess sem langt væri um liðið síðan þessi atvik áttu sér stað.

Ákærða kvaðst oft hafa gefið eða lánað H peninga í gegnum tíðina. Ákærða var spurð út í millifærslu hennar á fjármunum til H á dskj. nr. 17 og kvaðst ákærða ekki muna af hverju hún millifærði þessa peninga. Ákærða kvaðst ekki muna eftir að hafa hitt H ásamt B á hóteli nálægt lestarstöðinni í Kaupmannahöfn í byrjun þessa árs.

Ákærðu var kynntur framburður H um að hún hefði fengið skilaboð frá ákærðu um að fara með efnin, sem ákærða hafði látið hana fá, hitta einhvern mann, sem hefði verið að koma frá Amsterdam til Kaupmannahafnar, og skipta við hann á efnum. Kvaðst ákærða þá bara hafa verið að fá H til að skila efnunum. Sagðist ákærða vera búin að læra það að þessari manneskju væri ekki treystandi og kvaðst hún halda að H hefði bara notað efnin sjálf. Sagði ákærða að það gæti vel verið að hún hefði sagt þetta við H til að fá hana til að skila efnunum og hætta við þetta.

Undir ákærðu var borinn framburður hennar hjá lögreglu 7. júní sl., skjal III, 10, bls. 6, þar sem hún hefði verið spurð að því hversu mikið magn H hefði átt að koma með til landsins og að þá hefði hún svarað að það hefði ekki verið ákveðið og það sem hún hefði viljað að hún kæmi með hefði kannski verið það sem hún gæti komið með. Einnig hefði henni verið kynnt af lögreglu að rannsókn hefði leitt það í ljós að H hefði verið búin að fá afhent fíkniefnin, sem staðið hefði til að hún flytti til landsins. Ákærða hefði þá svarað: „Já, það er rétt. Ég held að það hafi verið 140 grömm, en ég vigtaði það aldrei sjálf…“ Ákærða hefði þá verið spurð að því hvort hún hefði afhent H þessi fíkniefni og hún hefði svarað: „Já, Danmörku, Kaupmannahöfn, rétt hjá lestarstöðinni.“ Var ákærðu þá bent á að þarna virtist hún vera að lýsa aðild sinni að málinu.

Sagðist ákærða þá ekkert muna eftir þessu og sagði að hún hefði ekkert vitað hvað hún var að segja. Kvaðst hún halda að hún hefði haft áhyggjur af kærastanum sínum og ekki viljað bendla hann við þetta. Ákærðu var þá bent á að þetta stemmdi við framburð H hjá lögreglu. Ítrekaði ákærða þá að hún myndi ekkert eftir þessu.

Ákærðu var að lokum bent á að í herbergishlustunum á heimili þeirra meðákærða B 3. mars sl. mætti heyra þau ræða við mann, sem lögregla áliti vera meðákærða Steinar. Þar væru þau ítrekað að ræða það að einhver stelpa hafi svikið þau og að hún skuldi þeim peninga. Einnig væri rætt um 140 grömm. Kvaðst ákærða ekki muna eftir þessu.

Upptaka af samtalinu var þá spiluð fyrir ákærðu, skjal VIII, 4. Ákærða var spurð út í eftirfarandi ummæli í samtalinu: „Ég var náttúrulega löngu kominn með stykkið mitt. Þið verðið bara að sjá um að rukka það. Hún er bara ykkar hausverkur. Þið verðið að taka ábyrgð á liðinu sem er að fara að vinna fyrir ykkur, skilurðu.“ Einnig var ákærðu kynnt að lögregla áliti að þarna væri meðákærði Steinar að ræða við ákærðu og meðákærða B.

Ákærða kvaðst ekkert muna eftir þessu samtali, en kvaðst kannast við rödd sína í upphafi og lok samtalsins.

Upptaka úr herbergishlustun á heimili ákærðu og meðákærða B 16. apríl sl., skjal VIII-9, var nú spiluð fyrir ákærðu. Einnig var ákærðu kynnt að lögregla áliti að þarna væri meðákærði B að tala við einhvern á Skype, hugsanlega meðákærða Steinar. Ákærðu var bent á að í upptökunni heyrðist bæði í henni og meðákærða B og þau heyrðust segja: „Við vorum með níu eða 140 stykki og við tókum helminginn og 140 stykki og hún tók fimm.“

Ákærða sagðist ekki muna eftir þessu og sagði að þetta gæti átt við hvað sem væri. Kvaðst hún hafa heyrt þessa upptöku áður, en sagðist ekki átta sig á því um hvað þetta snerist.

Að því er varðar sakargiftir í III. kafla ákæru kvaðst ákærða hafa ákveðið að flytja inn fíkniefnin af því hana vantaði peninga. Ákærða kvaðst hafa unnið við hárlengingar og sagði að dýrt væri að kaupa hárlengingar hérlendis. Hún kvaðst því hafa byrjað að ræða um það við móður sína í upphafi árs að hana vantaði hárlengingar og föt á krakkana og verið með það í huga að móðir hennar hefði þetta meðferðis þegar hún kæmi næst til landsins. Síðar hefði vaknað sú hugmynd að láta fíkniefni í töskuna og sagði hún að sér hefði þótt líklegt að móðir hennar, sem væri um sextugt, og kærastinn hennar myndu ganga með þetta í gegnum tollinn. Ákærða kvaðst hafa búið í Danmörku í mörg ár og þekkja þar marga. Það hefðu því verið hæg heimatökin fyrir hana að hafa samband við fólk til að koma þessu um kring. Kvaðst hún hafa hringt út og óskað eftir því að taskan yrði höfð klár og síðan fengið vinkonur sínar til að kaupa fyrir hana föt. Hún sagði að D, vinkona sín og kærasta meðákærða Steinars, hefði keypt fyrir hana fötin á krakkana. Aðspurð sagði hún að D væri ekki búsett í Danmörku en hún sagðist hafa vitað að hún væri á leiðinni út og kvaðst hafa treyst henni betur en vinkonum sínum úti, C og H, til að kaupa réttar stærðir, enda þekkti D krakkana hennar. Hún kvaðst oft áður hafa beðið C og H um að kaupa fyrir sig föt á börnin, en þau hefðu oft ekki passað. Ákærða tók fram að hana hefði í raun og veru vantað föt á börnin.

Ákærða sagðist halda að D hefði hitt vinkonu ákærðu einhvers staðar á Strikinu og vinkonan hefði ætlað að koma fötunum til fólksins sem var með töskuna. Ákærða vildi ekki greina frá því hver þessi vinkona hennar væri, en sagði þó að það hefði ekki verið C. Hún sagði að fólkið með töskuna hefði síðan komið töskunni með fötunum til C og C hefði síðan afhent móður ákærðu töskuna.

Ákærða sagði að meðákærði B hefði ekki vitað af þessum áformum, þó að það gæti verið að hann hefði grunað eitthvað, en hún sagði að þau hefðu ekki rætt þetta sín á milli og hann hefði ekki á neinn hátt komið að skipulagningu innflutningsins. Þá neitaði hún því að meðákærði Steinar hefði komið að þessum innflutningi og kveðst ekki hafa rætt þetta við hann.

Ákærða sagðist í fyrstu skýrslum sínum hjá lögreglu hafa reynt að aftengja sjálfa sig málinu þar til hún vissi hvað lögreglan vissi mikið. Því hefði hún sagt að L, M og N hefðu átt fíkniefnin og ætlað að flytja þau til landsins. Hún sagði að þetta væru kunningjar, sem hún ætti í Danmörku, en ákærða sagðist hafa verið gift þar manni, sem hefði tengst fíkniefnaheiminum. Hún sagði að þessi kunningjar hennar hefðu útvegað töskuna.

Ákærða var spurð út í skýrslu hennar hjá lögreglu 7. júní sl., skjal III, 10, bls. 10-11, þar sem hún er spurð út í samtal, sem lögreglu grunaði að hún hafi átt við meðákærða Steinar 14. maí sl. þar sem hann væri að spyrja hana hvernig væri hægt að setja þetta upp með móður hennar og hvernig móðir hennar eigi að nálgast töskuna úti. Einnig að lögreglu gruni að þarna hafi þau verið að ræða um þá tösku sem móðir hennar hefði verið tekin með á Keflavíkurflugvelli 25. maí sl. Ákærða svari þá í yfirheyrslunni: „Þetta er rétt en eins og þið kannski heyrið að þá var ekki ákveðið hvað þetta átti að vera mikið, ég hélt að þetta ættu að vera 2-300 grömm af kókaíni í lítilli tösku.“

Ákærða var beðin um að skýra þetta. Ákærða sagðist þá hafa verið mjög illa fyrirkölluð í þessari skýrslutöku. Hún hefði ekkert verið búin að fá að sofa og ekki verið í ástandi til að svara spurningum. Sagðist ákærða muna lítið eftir þessum yfirheyrslum. Kvaðst ákærða hafa verið að reyna að finna út hversu mikið lögreglan vissi og í hve miklum mæli hún kæmist hjá því að játa þessar sakargiftir. Ekki hefði hins vegar verið ætlunin að bendla aðra við málið. Kvaðst ákærða halda að hún hefði verið að meina að hún hefði ekki vitað hversu mikið átti að vera í töskunni. Kvaðst ákærða muna eftir að hún hefði verið að reyna að þykjast ekki vita neitt, þ.e. hvað var í töskunni, hvaðan hún hefði komið o.s.frv.

Upptaka af framangreindri skýrslutöku var sýnd ákærðu og sagði ákærða þá að greinilegt væri af upptökunni að hún hefði ekki verið í góðu ástandi þarna. Kvaðst ákærða vera með geðhvarfasjúkdóm og fleiri alvarlega sjúkdóma og sagðist ákærða ekki hafa fengið lyfin sín meðan á varðhaldinu stóð. Þetta hefðu verið verstu dagar lífs hennar og kvaðst hún ekki einu sinni muna eftir þessu þegar hún horfði á upptökuna.

Ákærða var spurð út í skýrslu hennar hjá lögreglu 29. maí sl., skjal III-9, en neðarlega á bls. 4 í skýrslunni kæmi fram að henni hefði verið kynnt að lögregla hefði hlerað íbúð hennar í nokkra mánuði. Ákærða hefði þá sagt við lögreglu að hún gerði sér grein fyrir að búið væri að hlera hana en hún gæti ekki sagt lögreglu það sem lögregla vildi að hún segði og að lögregla þyrfti að ná í það sjálf. Einnig að hún vissi að lögregla vissi alveg hvernig þetta væri. Ákærða var innt eftir því hvað hún hefði átt við með þessu. Sagðist ákærða ekki geta svarað því þar sem hún myndi ekki eftir þessu. Henni hefði liðið það illa að hún hefði ekki verið í ástandi til að svara spurningum. Kvaðst ákærða ekki hafa borðað í fimm daga á meðan hún var í varðhaldi, hún hefði ekki sofið og ekki fengið lyf. Kvaðst hún hafa fengið kvíðakast í klefanum og klórað sig til blóðs í andlitinu. Þrátt fyrir þetta ástand hefði verið tekin skýrsla af henni.

Ákærða var yfirheyrð hjá lögreglu 26. og 29. maí 2012, og 7. og 28. júní 2012. Hjá lögreglu sagði ákærða í fyrstu að hún og meðákærði B hefðu farið til Danmerkur í janúar til að heimsækja móður ákærðu. Þá hefði hún kynnt æskuvinkonu sína fyrir manni að nafni L, en hann hefði látið vinkonuna fá fíkniefni, sem hún hefði ætlað að flytja til Íslands. Vinkonan hefði síðan týnt efnunum og þá hefði L þessi og strákar að nafni M og N orðið brjálaðir og sagt henni að hún yrði að innheimta féð hjá vinkonunni. Ákærða greindi síðar frá því að umrædd vinkona væri H. Ákærða hefði síðan frétt af því að móðir hennar væri á leiðinni til landsins og hefði hún þá hringt í C, vinkonu sína. og beðið hana um að tala við L og redda tösku, sem C hefði síðan afhent móður hennar. Í töskunni hefði átt að vera bangsi með tvö- eða þrjúhundruð grömmum af kókaíni. Síðar sagði ákærða að ekki væri rétt að áðurgreindir menn hefðu komið að fíkniefnainnflutningnum og kvaðst hún ekki vilja gefa upp nein nöfn í því sambandi. Þá greindi ákærða frá því að meðákærði B hefði vitað af fíkniefnunum, sem komu með móður hennar, en hann hefði verið á hliðarlínunni og ekki vitað um alla þætti innflutningsins.

Ákærða sagði að pakki, sem hefði átt að koma með H, hefði klúðrast og hún sagst hafa týnt efninu. Hún kvaðst hafa sent H peninga fyrst fyrir meira en ári og síðan mörgum sinnum eftir það og „þetta“ hefði átt að hafa borist mörgum sinnum. Síðar sagðist ákærða hafa sent H peninga með Western Union 15. febrúar 2012 í því skyni að hún keypti sér farmiða til Íslands og ætlunin hafi verið að H kæmi með fíkniefni til landsins, en ekki hefði verið ákveðið hversu mikið magn hún kæmi með. Síðar sagði ákærða að með innflutningi á fíkniefnunum sem komu í töskunni með móður hennar hefði hún verið að losa sig við þá skuld sem H hefði komið henni í.

Þá kvaðst ákærða hafa vitað af fíkniefnainnflutningi meðákærðu G og F, en sagðist ekki hafa átt aðild að honum. Síðar sagðist ákærða ekki muna hvort hún talaði við þau fyrir eða eftir ferðina. Hún sagði að meðákærði G hefði sjálfur brotið hurðina á heimili sínu og þau meðákærði B hefðu ekki verið á staðnum.

Ákærða F játaði sök. Hún sagði að þau G væru vinafólk meðákærðu A og B og kvað þau G hafa keypt fíkniefni af þeim. Hún sagði að þau hefðu skuldað þeim peninga vegna þeirra viðskipta, fyrst 200.000 krónur og síðar 160-170.000 krónur. Hún sagði að þau G hefðu verið beðin um að fara þessa ferð, en kaus að tjá sig ekki um hverjir það voru. Skipuleggjandinn hefði lagt út fyrir ferðinni út og síðan hefðu þau G átt að fá 900.000 krónur þegar þau kæmu heim. Hluti af þeirri fjárhæð hefði átt að fara upp í skuldir. Hún sagði að aðallega einn aðili hefði skipulagt innflutninginn, en annar aðili hefði vitað af þessu. Hún sagði að enginn hefði átt að vita af þessari ferð aðrir en þau G og þeir sem skipulögðu þetta. Ákærða sagði að talað hefði verið um að þau ættu að flytja inn kókaín og þá það magn, sem venjulega væri flutt innvortis. Ákærða sagðist ekki vilja upplýsa um það hver skipulagði innflutninginn vegna þess að betra væri að hafa ekki einhvern á eftir sér. Hún sagði að meðákærði B hefði sparkað upp hurðinni á heimili þeirra G þegar hann hefði verið að innheimta skuld hjá þeim. Kvaðst hún halda að þetta hefði átt sér stað áður en þau fóru út. Hún kaus að tjá sig ekki um hvort þetta atvik tengdist málinu.

Aðspurð sagði ákærða að meðákærðu A og B hefðu gefið þeim G sófa og borð þegar þau hefðu verið að skipta út hjá sér. Hún sagði að þau G hefðu aðeins keypt fíkniefni af þeim. Kvað hún ekki rétt hjá meðákærðu A að þau hefðu keypt af henni húsgögn. Hún kaus að tjá sig ekki um það hvort skuldir þeirra G hefðu strokast út eftir ferðina.

Ákærða var yfirheyrð hjá lögreglu 8. og 13. desember 2011 og eru skýrslur hennar hjá lögreglu í meginatriðum í samræmi við framburð hennar hér fyrir dómi.

Ákærði G játaði sök. Hann sagðist hafa kynnst meðákærða B í [...] árið 2004, en þeir hefðu verið saman á sjó. Hann sagði að þeir hefðu verið vinir og félagar á þessum tíma. Ákærði kvaðst hafa keypt fíkniefni af meðákærða B og kvaðst hafa skuldað honum fé.

Ákærði sagði að þeim meðákærðu F hefði verið boðið að fara þessa ferð gegn greiðslu, en ákærði sagði að þau hefði vantað peninga. Hann kvaðst ekki þora að greina frá því hver bað þau um að fara. Hann sagðist hafa fengið hótanir, en sagðist ekki vilja tjá sig um það frekar. Hann sagði að legið hefði fyrir áður en þau fóru út að um kókaín yrði að ræða, svo og hversu mikið magn.

Ákærði sagði að meðákærði B hefði brotið upp hurðina á heimili þeirra F, sennilega sama dag og meðákærða A hringdi í hann og hótaði honum. Þetta hefði a.m.k. ekki átt sér stað fyrir þann tíma. Ákærða var þá bent á að þegar lögregla hefði gert húsleit á heimili þeirra í desember 2011 hefði hún séð að hurðin hafði verið brotin upp. Sagði ákærði þá að þetta hefði gerst nokkru áður, en þó sagðist hann minna að hann hefði hringt í lögreglu sama dag og hurðin var brotin upp og tilkynnt um símtalið. Hann sagði að meðákærði B hefði brotið upp hurðina vegna 160.000 króna skuldar, sem hefði komið til eftir að þetta mál kom upp. Ákærða var þá kynnt að símtalið frá meðákærðu A hefði átt sér stað 4. apríl sl. Ákærði var spurður um hvað þetta símtal hefði snúist. Sagði ákærði þá að þau meðákærða F hefðu skuldað þeim peninga og þau hefðu ekki getað greitt þeim. Hann sagði að áður en þau fóru í ferðina hefðu meðákærðu A og B verið búin að hóta þeim tvisvar sinnum að þau yrðu drepin. Þetta hefði því ekki verið fyrsta hótunin frá þeim. Ákærði var spurður að því af hverju meðákærða A hefði verið að tala um lögregluna í símtalinu. Sagði ákærði þá að hann hefði getað farið til lögreglu og kært þau fyrir hótanir og að hafa brotið upp hurðina. Hann sagði að þetta hefði ekki tengst innflutningi á fíkniefnum. Aðspurður af verjanda A neitaði ákærði því að meðákærða A hefði beðið hann um að fara í ferðina til Spánar. Hann kaus að tjá sig ekki um hvort meðákærði B hefði beðið hann um að fara í þessa sömu ferð.

Ákærði var spurður út í skýrslu hans hjá lögreglu 13. desember sl., skjal II-10, bls. 2. Þar hefði hann ítrekað verið spurður að því hver hefði skipulagt ferðina, en hann hefði ekki viljað tjá sig um það. Hann hefði síðan sagt við lögreglu: „Fóruð þið heim og sáuð hurðina heima hjá mér ? Hún var brotin í miðjunni.“ Hann hefði þá verið spurður að því hvort þetta tengdist rukkun og hann hefði svarað: „Við skulum alla vegna segja að það hafi verið skoðanaágreiningur.“ Ákærða var bent á að núna væri hann búinn að bera um það að meðákærði B hefði brotið upp hurðina. Sagði ákærði þá að hann hefði átt við að hurðin hefði verið brotin út af 160.000 króna skuld og þá hefði hann fengið líflátshótun vegna 200.000 króna skuldar. Hægt væri því að ímynda sér hvað yrði gert út af hærri fjárhæðum og af „alvarlegra“ fólki. Aðspurður sagði ákærði að þau meðákærða F hefðu átt að fá 900.000 krónur fyrir ferðina og að hluta til hefði sú fjárhæð átt að ganga upp í fíkniefnaskuldir. Hann sagði að þau hefðu skuldað nokkrum aðilum og þau hefðu ekki losnað við þær skuldir eftir ferðina.

Á sama skjali á bls. 4 hefði hann verið spurður að því hvar þau meðákærða F hefðu átt að skila af sér efnunum. Ákærði sagði að það hefði verið ákveðið áður en þau fóru út, þ.e. heima hjá skipuleggjendunum. Ákærða var þá bent á að í lögregluskýrslu hefði hann sagt að það hefði átt að vera í Kópavogi og sagði ákærði þá að það gæti verið rétt. Hann sagði að enginn hefði vitað af þessari ferð þeirra til Spánar aðrir en þau tvö og þeir sem sendu þau út.

Loks var ákærði spurður út í skýrslu hans hjá lögreglu 16. desember, skjal II-11, bls. 2, en þar hefði hann verið inntur eftir því hvort skipuleggjandinn hefði alltaf verið einn á ferð þegar hann hitti hann. Hann hefði þá svarað: „Já, þannig séð, í rauninni.“ Ákærði var inntur eftir því hvað hann hefði átt við með þessu. Sagði ákærði þá að hann hefði alltaf komið einn heim til þeirra, en verið gæti að einhver annar hefði beðið úti í bíl. Eins og málið hefði snúið að þeim hefði aðeins einn komið að skipulagningu ferðarinnar.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 8., 13. og 16. desember 2011 og 20. júní 2012 og eru skýrslur hans hjá lögreglu í meginatriðum í samræmi við framburð hans hér fyrir dómi.

Ákærði B neitaði sök að því er varðar I. og III. kafla ákærunnar, en játaði sök að því er varðar II. kafla ákærunnar, en kvaðst hafa staðið einn að því broti.

Að því er varðar sakargiftir í I. kafla ákæru kvaðst ákærði hafa verið með meðákærða G á sjó og eftir það hefði hann átt einhver samskipti við hann sem vinur. Ákærði kvaðst ekki hafa selt meðákærðu G og F fíkniefni og þá kvaðst hann enga aðkomu hafa átt að innflutningi þeirra á fíkniefnum til landsins 8. desember 2011. Hann kvaðst enga vitneskju hafa haft um þennan innflutning.

Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna eftir að hafa brotið upp á heimili meðákærðu G og F, en sagði þó að það gæti vel verið. Tók ákærði fram að hann væri með mikinn athyglisbrest og ofvirkni og þá hefði hann verið í mikilli neyslu á þessum tíma og mikið af þessu tímabili væri í þoku hjá sér.

Ákærði kvaðst ekki muna eftir því að meðákærðu G og F hefðu skuldað honum peninga.

Skýrsla ákærða hjá lögreglu 28. júní sl., skjal IV-7, bls. 7, var borin undir ákærða. Þar hefði hann verið spurður að því hvort hann hefði komið að innflutningi meðákærðu F og G á fíkniefnum og þá hefði hann svarað: „Ekki svo ég muni.“ Nú væri hann hins vegar þess fullviss að hann hefði ekki komið að þessum innflutningi. Var ákærði beðinn um skýringu á þessu misræmi. Sagði ákærði þá að hann væri misupplagður og ítrekaði hann að hann væri þess fullviss nú að hann hefði ekki komið að þessum innflutningi.

Að því er varðar sakargiftir í II. kafla ákæru sagði ákærði að H væri vinkona sín og kvaðst hann hafa þekkt hana í töluverðan tíma. Hann sagði að þessi tími væri í mikilli þoku hjá sér og hann myndi lítið eftir því sem gerðist. Sagðist hann ekki muna hvernig það atvikaðist að hann leitaði til H og kvaðst ekki muna hvort hann hitti H sjálfa eða talaði við hana í síma. Ákærði neitaði því að einhver annar hefði komið að skipulagningu innflutningsins.

Aðspurður sagðist ákærði ekki muna eftir að hafa hitt H á hóteli í Kaupmannahöfn og afhent henni fíkniefni, en sagði að það gæti þó verið. Ákærði var þá spurður að því á hverju hann byggði játningu sína. Sagðist ákærði þá ráma í að hafa verið að ræða þessa hluti. Hann sagðist ekki vita af hverju H kom ekki með fíkniefnin til landsins. Hann sagði að það hefði ekki haft neinar fjárhagslegar afleiðingar í för með sér fyrir sig. Hann sagði þó að það gæti vel verið að hann hefði keypt fíkniefnin, en sagðist þó ekki muna eftir því.

Að því er varðar sakargiftir í III. kafla ákæru kvaðst ákærði ekki hafa vitað hvað til stóð og kvaðst ekki hafa lagt á ráðin eða komið að skipulagningu innflutningsins með meðákærðu A. Hann sagði að það gæti vel verið að meðákærða hefði rætt þetta einhvern tímann við hann en hann sagðist ekki muna eftir því. Hann kvaðst enga aðild hafa átt að þessum innflutningi. Ákærði kvaðst ekki hafa verið í neinu sambandi við I eða J áður en þau komu til landsins með fíkniefnin og kvaðst ekki hafa komið fíkniefnunum fyrir í töskunni. Ákærði kvaðst hafa neytt fíkniefna daglega á tímabilinu frá september 2011 til maí 2012 og sagði að þetta tímabil væri í mikilli þoku hjá sér.

Aðspurður sagði ákærði að meðákærði Steinar væri vinur þeirra meðákærðu A. Hann sagði að það gæti vel verið að Steinar hafi kíkt til þeirra A á vormánuðum, en kvaðst útiloka að þau hefðu rætt um innflutning á fíkniefnum.

Ákærði var beðinn um að gera grein fyrir því reiðufé sem fannst við leit á honum 25. maí sl. Sagði ákærði að fjögurra ára gömul dóttir hans, sem hann hefði fullt forræði yfir, hefði átt afmæli daginn eftir og kvaðst ákærði hafa ætlað að kaupa handa henni hjól í afmælisgjöf. Einnig hefði hann ætlað að gera upp við barnsmóður sína vegna fermingar eldri dóttur hans. Aðspurður kvaðst ákærði vera á atvinnuleysisbótum og þá sagðist hann fá barnameðlag og barnabætur. Einnig sagðist ákærði fá aðstoð frá móður sinni. Ákærði kaus að tjá sig ekki um það hvort hann stundaði fíkniefnasölu.

Upptaka úr herbergishlustun á heimili ákærða og meðákærðu A 15. maí sl., skjal VIII-13, var spiluð fyrir ákærða. Ákærði sagði að vel gæti verið að rödd hans heyrðist á þessari upptöku. Spurður hver þessi Steini væri, sem hefði hringt bjöllunni, sagði ákærði að það gæti verið hvaða Steini sem er, en hann sagðist þekkja marga Steina. Ákærða var kynnt að lögregla áliti að á upptökunni væri meðákærði Steinar að ræða við hann og meðákærðu A og spyrja hana hvort hún ætti ekki einhvern annan vin þarna úti sem gæti látið mömmu hennar fá þetta. Þá svaraði meðákærða A: „Það er bara C.“ Ákærði segði einnig: „C.“ Einnig að á bls. 2 áliti saksóknari að meðákærði Steinar segi: „Þá veit hún strax eitthvað, þú veist, einhver sem er ekki í þessum heimi, skilurðu.“ Ákærða var kynnt að það væri mat ákæruvaldsins að þarna hefðu þau verið að skipuleggja fíkniefnainnflutninginn, þ.e. hver væri best til þess fallinn að láta móður meðákærðu A hafa ferðatöskuna. Var ákærði spurður hvort þetta væri rétt skilið. Sagðist ákærði þá ekki muna eftir þessu, en sagði að það gæti vel verið að það heyrðist í honum á upptökunni, en þó væri það ekkert víst þar sem upptakan væri óskýr.

Upptakan var nú spiluð áfram og ákærða var bent á að meðákærði Steinar væri þarna að tala um að hann ætlaði að kaupa sér síma þarna úti, sem hún ætti að gefa móður sinni númerið á. Ákærði sagði þá að þarna væri verið að ræða einhver allt önnur mál, sem tengdust þessu máli ekki.

Upptaka úr herbergishlustun á heimili ákærða og meðákærðu A 16. maí sl., skjal VIII-14, var nú spiluð fyrir ákærða. Ákærði sagði að vel gæti verið að rödd hans heyrðist á upptökunni. Honum var kynnt að ákæruvaldið teldi að hann segði á upptökunni: „Þarf ekki að tala neitt meira um þetta, hvernig þetta verður bara eitthvað, þú veist? Og þá svari meðákærða A: „Ég er að fara að gera svona lista, ég ætlaði nefnilega…ég er að fara að hitta D á eftir.“ Einnig: „Ég ætla nefnilega að láta hana fara.“ Og þá svari ákærði: „Ég hérna, já láttu hana fara með þetta til, til mömmu þinnar.“ Ákærði sagði þá að sig minnti að þau A hefðu verið að rífast eitthvað um þetta leyti og að þetta tengdist rifrildi þeirra. Kvaðst hann ekki telja að þetta tengdist þessu máli.

Ákærði kvaðst vera að byggja upp líf sitt að nýju eftir mikla óreglu, en hann sagðist hafa hætt neyslu fíkniefna 25. maí 2012. Kvaðst hann vera nýkominn með íbúð að [...] og vera í atvinnuleit. Ákærði sagðist vera í sambúð með meðákærðu  A og á heimili þeirra væri fjögurra ára dóttir hans, sem hann hefði óskipta forsjá með, og þá kæmu reglulega á heimilið 7 ára gamall sonur meðákærðu og 14 ára dóttir hans.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 26. og 30. maí og 28. júní 2012. Kvaðst hann ýmist ekki muna eftir málsatvikum eða neitaði að tjá sig.

Ákærði Steinar Aubertsson neitaði sök að því er varðar sakargiftir í framhalsákæru. Hann kvaðst hafa þekkt meðákærða B í nokkur ár og kynnst meðákærðu A í gegnum hann. Hann sagði að þeir A væru ágætisfélagar. Ákærði sagðist enga aðkomu hafa haft að innflutningi á 569,15 g af kókaíni til landsins 25. maí sl., sbr. I. kafla framhaldsákæru.

Ákærði kvaðst ekki hafa verið mikið á heimili meðákærðu A og B í apríl og maí sl., en sagðist stundum hafa komið við þar á kvöldin þegar hann var að djamma.

Ákærði sagðist hafa farið í smáreisu með D kærustunni sinni síðastliðið vor og ákveðið að heimsækja fyrst vin ákærða á Grænlandi og síðan annan vin ákærða í Hollandi. Ekkert beint flug væri frá Grænlandi til Hollands og því hefðu þau orðið að fara í gegnum Danmörku. Hann sagði að sig minnti að þau hefðu komið til Danmerkur 22. maí og verið komin til Hollands um miðnætti 23. maí. Þá kvaðst ákærði telja að hann hefði verið í eina til eina og hálfa viku í Grænlandi. Aðspurður sagði ákærði að vel gæti passað að hann hefði farið til Grænlands 16. maí sl. og sagðist hann hafa farið frá Keflavíkurflugvelli.

Ákærði sagði að meðákærða A hefði verið búin að biðja D um að kaupa föt. Hún hefði því farið að sinna því erindi daginn eftir að þau lentu í Danmörku, en ákærði sagðist hafa beðið á næstu krá á meðan. Hann sagði að þessi innkaup hefðu dregist svolítið á langinn og sagðist hann hafa verið orðinn frekar pirraður og fúll. Kærastan hans hefði síðan lokið við að kaupa fötin og þá hefði hún hitt einhverja stelpu, vinkonu meðákærðu A, á einhverju torgi og látið hana fá fatapokann. Kvaðst ákærði muna það óljóst þegar kærastan hans hitti þessa stelpu, en ákærði sagðist hafa verið þarna nálægt, sennilega á næstu krá og verið orðinn svolítið ölvaður. Hann sagðist ekki muna hvað þessi stelpa héti eða hvernig hún leit út. Ákærði kvaðst ekki muna eftir að hafa farið heim til einhverrar vinkonu A á meðan þau voru í Danmörku. Aðspurður sagði ákærði að þau hefðu ekki verið með neina ferðatösku. Ákærði sagðist síðan hafa hitt O, vin sinn, og sagði að þau kærastan hans hefðu farið með honum til Hollands.

Ákærði var spurður um það reiðufé, sem fannst við leit á heimili hans 25. maí sl. Sagði ákærði að þetta væru peningar sem hann hefði tekið út úr banka. Sjálfur sagðist hann eiga 105.000 krónur af þessu fé, en kærastan hans ætti 165.000 krónur, en það væru peningar sem hún hefði fengið í laun fyrir vinnu í einhverjum pókerklúbb. Ákærði var spurður að því hvernig hann framfleytti sér og sagðist hann þá vera að vinna við smíðar með föður sínum þegar hann hefði heilsu til. Þá sagðist ákærði hafa lent í tveimur bílslysum og verið stunginn einu sinni og hafa fengið allt að 15 milljónir í bætur vegna þessa. Ákærði sagðist ekki hafa stundað fíkniefnasölu.

Skýrsla ákærða hjá lögreglu 5. september sl. var borin undir hann. Var honum bent á að þar hefði hann greint frá því að umrædd vinkona A heiti E, C eða eitthvað slíkt. Ákærði sagði þá að lögregla hefði spurt hann að því hvort það gæti verið að hún héti C og þá hefði hann sagt að það gæti vel verið, en hann kvaðst ekki vita ekki hvað hún héti. Honum var jafnframt bent á að hann hefði verið spurður að því hvort þau hefðu dvalið hjá íslenskri stúlku, sem heiti C og hann hefði þá svarað að það gæti vel verið að þau hefðu farið þangað, en hann myndi ekki eftir því. Ákærði sagði þá að hann hefði fengið það staðfest hjá kærustunni sinni að þau hefðu ekki farið heim til neinnar stelpu á meðan þau voru þarna og sagði að þau hefðu gist á hóteli þessa nótt sem þau voru í Danmörku. Ákærði sagðist hafa verið svolítið drukkinn þegar þetta var og því hefði hann spurt kærustuna sína að þessu.

Upptaka af herbergishlustun á heimili meðákærðu A og B 14. maí sl., skjal VIII-12, var spiluð fyrir ákærða. Ákærði sagðist ekkert muna eftir þessu samtali og sagðist ekki vera viss um hvort rödd hans heyrðist í upptökunni. Kvaðst ákærði hvorki neita því né játa að þetta væri hann þar sem hann væri ekki viss.

Ákærða var bent á að þarna væri byrjað á því að tala um hvernig þau ættu að setja þetta upp með gömlu og það væri mat ákæruvaldsins að þarna væri verið að skipuleggja innflutning á fíkniefnum þar sem til stóð að móðir meðákærðu A kæmi með fíkniefni til landsins. Ákærði sagðist þá ekki vera viss um að þetta væri hann og þá sagðist hann ekki muna eftir þessu. Ákærða var þá bent á að þarna kæmi fram: „ … ég lendi þarna 20., 21. og ég verð þarna til 22., 23. og þá get ég komið til þín með þetta þannig að þú þarft að vera bara á vaktinni skilurðu.“ Ákærða var jafnframt bent á að þetta passaði við þær dagsetningar, sem hann hefði nefnt fyrr í skýrslunni. Ákærði sagðist þá ekki skilja hvernig hann hefði átt að koma með eitthvað til þeirra þegar þau voru stödd á Íslandi. Sagðist ákærði ekki hafa komið nálægt þessu.

Upptaka af herbergishlustun á heimili meðákærðu A og B 15. maí sl., skjal VIII-13, var spiluð fyrir ákærða. Ákærði sagðist ekki kannast við rödd sína á upptökunni og sagðist ekkert muna eftir þessu. Ákærða var þá bent á að í upptökunni heyrðist dyrabjöllu hringt og meðákærði B spyrja hver væri að koma og þá hafi meðákærða A svarað: „Örugglega Steini.“ Ákærði sagðist ekki muna eftir þessu og spurði hvort meðákærðu þekktu ekki fleiri en hann sem hétu Steini. Ákærða var þá einnig bent á að á upptökunni legði Steini þessi til að þau færu í smábíltúr og töluðu saman eða færu inn í kompu. Var ákærða kynnt að ákæruvaldið teldi að það væri ákærði sem hefði lagt þetta til. Ákærði sagðist þá ekki heyra neinn mun á röddunum á upptökunum, t.d. hvort um væri að ræða hann eða meðákærða B. Ákærða var þá bent á að viðmælandinn á upptökunni segði þá að það væri ekki séns á því að eitthvað væri þarna inni og ákæruvaldið teldi að það benti til þess að þarna hefði átt að ræða eitthvað sem ekki mætti fréttast. Sagðist ákærði ekki kannast við þetta. Ákærða var þá kynnt að ákæruvaldið teldi að hann hefði sagt: „Ég hérna, ég er að reyna að finna….áttu engan annan vin þarna sem býr þarna…sem gæti látið mömmu þína fá þetta“ og þá svöruðu meðákærðu A og B: „Það er bara C. Það er bara C.“ Var ákærða bent á að það hefði einmitt verið C sem lét móður meðákærðu A hafa ferðatöskuna. Ákærði ítrekaði þá að hann hefði aldrei komið nálægt neinum innflutningi á fíkniefnum og myndi aldrei gera.

Upptakan var spiluð áfram fyrir ákærða og bent á að þar væri hann talinn segja: „Í versta falli þá segirðu þessari C þarna að vinkona þín…að vinkona þín sé á smá hraðferð og hún ætli að láta mömmu þína fá smá…“ Og síðar: „Já. Og þá plötum við hana bara þannig og þá gerir hún það bara sama dag og mamma þín væri komin til hennar þannig að hún væri ekkert að fara, þú veist að geta testað það sem væri í þessu skilurðu.“ Ákærði sagðist þá ekki kannast við að hafa tekið þátt í þessu samtali og hvað þá að hafa skipulagt fíkniefnainnflutning. Ákærði var spurður hvort hann gæti útilokað að rödd hans heyrðist í upptökunum. Sagðist ákærði þá hvorki geta játað því né neitað þar sem upptakan væri svo óskýr.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 5. og 11. september og samræmist framburður hans hjá lögreglu í öllum meginatriðum framburði hans fyrir dóminum. Hjá lögreglu sagði ákærði þó að hann og kærasta hans hefðu látið íslenska vinkonu ákærðu A, E eða C, hafa fatapokann. Þá sagði hann að vel gæti verið að þau hefðu farið heim til hennar og sagði að þau hefðu farið inn í einhverja íbúð þarna, en sagðist ekki muna hvar það var.

Vitnið H kvaðst hafa kynnst meðákærðu A í meðferð á Íslandi þegar hún var 13 ára gömul og sagði að þær hefðu verið nánar vinkonur en væru það ekki í dag. Hún sagðist hafa hitt ákærðu A og B í [...] í Danmörku í janúar eða febrúar á þessu ári, en hún sagði að móðir sín byggi við hliðina á móður A og þær væru mjög góðar vinkonur. Hún sagðist síðan hafa farið með ákærðu til Kaupmannahafnar og farið m.a. með þeim út að borða og eitthvað fleira. Ákærðu hefðu síðan farið í smáferðalag og komið síðan aftur. Eftir að þau komu til baka hefði hún hitt ákærðu A og B á hótelherbergi í Kaupmannahöfn þar sem þau hefðu verið með einhver fíkniefni af ókunnri tegund, en ákærða kvaðst aðeins hafa sé pakkningarnar, þ.e. sex kinderegg. Þau hefðu boðið henni að flytja fíkniefni til Íslands og sagt að hún fengi greitt fyrir þetta þegar hún kæmi til Íslands og þá gæti hún dvalið hjá þeim í einhvern tíma og þau myndu halda henni uppi. Hún sagði að ákærða A hefði verið búin að senda henni peninga í gegnum Western Union fyrir fargjaldi til Íslands, en hún kvaðst reyndar hafa verið búin að eyða þeim í eitthvað annað. Hún sagði að ákærða A hefði sent henni peninga nokkrum sinnum, m.a. hefði hún einu sinni lánað henni og síðan hefðu hún alltaf sent henni pening þegar hún átti að gera þetta fyrir hana. Hún sagðist síðan hafa farið aftur til [...], en hún sagðist ekki vita hversu lengi ákærðu A og B voru í Kaupmannahöfn eftir að hún fór.

Vitnið sagðist síðan hafa fengið bakþanka og ekki hafa þorað að flytja fíkniefnin til Íslands. Kvaðst hún hafa verið með efnin undir höndum í tvo daga og síðan grafið þau niður þar sem hún hefði ekki þorað að geyma þau heima hjá sér. Hún sagðist þekkja fólk í Danmörku, sem hefði tekið þessi efni frá henni. Hún sagði að ákærða A hefði síðan hringt í hana og verið alveg brjáluð og kvaðst hún hafa sagt ákærðu að hún myndi borga þetta. Hún sagði að fyrst á eftir hefði ákærða A reynt ítrekað að ná í hana bæði á Facebook og í síma en vitnið kvaðst ekki hafa svarað henni. Einnig hefði ákærði B sent hótun til yngri systur hennar, sem ætluð var vitninu. Hún sagði að þegar hún hefði hitt ákærðu A og B í Danmörku hefðu þau verið að monta sig af því hvað þau ættu mikið af peningum og sagði að þau hefðu slegið um sig með peningum.

Aðspurð sagði hún að aldrei hefði komið til þess að ákærða A vildi hætta við fíkniefnainnflutninginn. Sér hefði skilist að þau B stunduðu þetta eins og vinnu. Hún sagði aðspurð að ákærða A hefði aldrei haft samband við hana til að biðja hana um að hætta við innflutninginn. Hún hefði hins vegar fengið skilaboð frá ákærðu A í gegnum síma um að hitta mann til að skila efninu því það væri ekki nógu gott og fá annað efni í staðinn. Hún kvaðst hins vegar ekki hafa fengið upplýsingar um það hvern hún ætti að hitta eða hvar, en hún hefði átt að hafa samband við ákærðu til að fá frekari upplýsingar síðar. Vitnið sagðist hins vegar ekki hafa verið með efnin undir höndum lengur og því hefði hún ekki vitað hvað hún ætti að gera. Kvaðst hún hafa verið dauðhrædd við þetta og því ákveðið að loka símanum sínum.

Vitnið kvaðst aldrei hafa talað við ákærða B í síma, en sagði að þau A og B hefðu bæði staðið að skipulagningu innflutningsins.

Vitnið staðfesti að samtal á dskj. nr. 18 væru samskipti sem hún hefði átt við ákærðu A á Facebook 19. febrúar sl. Vitnið kannaðist við að ákærða hefði beðið hana um að vera við MacDonalds-staðinn á lestarstöðinni kl. 20.10 nánar tilgreindan dag og þar hefði hún átt að hitta mann og skila honum efnunum og fá ný í staðinn. Kvaðst hún aðspurð alveg vera viss um þetta. Hún sagðist ekki muna hvort hún var með efnin undir höndum þegar þarna var komið sögu.

Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 30. júlí 2012, sem er í samræmi við skýrslu vitnisins fyrir dóminum.

Vitnið C kvaðst hafa verið með meðákærðu C í menntaskóla í Danmörku og þá hefði ákærða búið hjá henni ásamt syni sínum eftir að hún hætti með kærastanum sínum. Einnig hefðu þær haldið sambandi eftir að ákærða flutti til Íslands. Hún sagði að þær hefðu verið nánar vinkonur, en væru það ekki lengur. Kvaðst hún hafa hitt kærasta ákærðu, ákærða B, a.m.k. einu sinni þegar þau komu til Danmerkur.

Vitnið sagði að ákærða hefði haft samband við hana nokkrum dögum áður en hún afhenti móður ákærðu töskuna og beðið hana um að kaupa fyrir sig föt á strákinn sinn og dóttur ákærða B. Hefði ákærða gefið henni upp þær fatastærðir sem hún ætti að kaupa. Þá hefði ákærða beðið hana um að fara með töskuna með fötunum annaðhvort á aðallestarstöðinni eða út á flugvöll og afhenda hana móður ákærðu. Þá hefði ákærða gefið henni upp símanúmer móður sinnar og kvaðst vitnið hafa verið í sambandi við móður ákærðu varðandi það hvar hún ætti að hitta hana. Vitnið kvaðst í fyrstu hafa haldið að hún ætti að útvega töskuna þar sem ákærða A hefði átt tösku hjá sér.

Vitnið sagði að einn daginn hefði síðan par hringt dyrabjöllunni hjá sér og komið með tösku ákærðu til hennar, en það hefði verið áður en hún hafði náð að versla. Konan, þ.e. vinkona ákærðu, hefði þá tekið að sér að kaupa fötin fyrir hana og kvaðst vitnið hafa látið hana og kærasta hennar fá lykil að íbúðinni sinni, en vitnið kvaðst hafa orðið að fara eitthvað með stelpuna sína. Þau hefðu því verið með lykil að íbúðinni hennar og verið búin að pakka í töskuna og koma henni í íbúðina þegar hún kom til baka. Hún kvaðst síðan fyrst daginn eftir hafa farið með töskuna út á flugvöll og hitt þar móður ákærðu. Sagði vitnið að þau hefðu sett öll fötin úr töskunni yfir í töskuna hjá móður ákærðu og síðan hefðu þau sett tösku ákærðu inn í aðra og stærri tösku frá móður ákærðu.

Hún sagði að parið hefði kynnt sig þegar það kom en hún sagðist ekki muna hvað þau hétu. Vitnið sagðist í raun ekki vita hvort um par eða vini var að ræða. Hún sagðist ekki muna eftir því hvernig maðurinn leit út, en konan hefði verið með rúmlega axlarsítt, ljósskollitað hár og verið grönn. Þá hefði hún ekki talað dönsku vel. Hún sagðist hafa munað betur hvernig parið leit út þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglu, en hún myndi þetta ekki vel nú þar sem langt væri um liðið síðan hún hitti parið og þá hefði hún hitt parið í skamma stund. Hún kvaðst halda að parið væri á svipuðum aldri og hún eða aðeins yngra. Hún sagði að maðurinn hefði verið mjög venjulegur, hvorki grannur né feitur. Kvaðst hún telja að hann hefði verið með venjulegt stutt hár, en sagðist ekki muna hvernig það var á litinn. Kvaðst hún halda að hann hefði ekki verið með gleraugu.

Vitnið sagðist hafa rætt við konuna inni í stofu á meðan maðurinn hefði talað í síma inni í eldhúsi og sagðist því hafa séð hann minna. Kvaðst vitnið hafa verið að pakka niður fyrir dóttur sína í stofunni og þar hefði konan setið hjá henni og reynt að tala dönsku við dóttur hennar. Sagðist vitnið hafa spurt konuna hvort hún hefði tíma til að versla fyrir A og hefði hún sagt að það væri ekkert mál ef þau gætu komið töskunni til hennar síðar um daginn. Kvaðst vitnið því hafa látið þau fá lykilinn að íbúðinni ef ske kynni að hún yrði ekki komin til baka áður en þau kæmu. Taskan hefði því verið tilbúin í íbúðinni þegar hún kom til baka og húslykillinn í póstkassanum.

Vitnið kvaðst ekki hafa rætt við ákærða B í síma í aðdraganda þess að hún fór með töskuna út á flugvöll. Sagðist hún aðeins hafa rætt við ákærðu A á Skype um málið.

Hún sagðist ekki vita hver ákærði Steinar Aubertsson væri. Hún kvaðst ekki muna hvenær hún afhenti móður ákærðu A töskuna, en sagðist hafa hitt parið einum eða tveimur dögum áður en hún fór með töskuna út á flugvöll. Hún kvaðst aðeins hafa hitt parið heima hjá sér, en ekki niðri í bæ.

Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 25. júní 2012. Hún kvaðst í fyrstu hafa afhent móður ákærðu A tösku, sem ákærða hefði skilið eftir hjá sér nokkrum mánuðum fyrr. Síðar í skýrslunni breytti hún þeim framburði og bar á sama veg og hér fyrir dómi. Hún sagði að parið hefði komið til hennar sama morgun eða daginn áður en móðir A fór til Íslands. Hún sagði að stúlkan hefði verið lítil og sæt með ljósbrúnt hár og strákurinn hefði verið dökkhærður og svolítið stór og þéttur.

Vitnið D kvaðst vera unnusta ákærða Steinars og þá sagðist hún þekkja ákærðu A og B.

Hún sagði að þau ákærði Steinar hefðu farið til Grænlands í maí sl. til að heimsækja vin sinn. Þau hefðu verið á Grænlandi í nokkra daga og síðan haldið til Danmerkur. Kvaðst hún aðspurð hafa keypt barnaföt fyrir ákærðu A, en ákærða hefði beðið hana um það þar sem hún hefði góðan smekk og vissi hvernig föt hún vildi á börnin. Hún sagði að vinkona A, sem hún vissi ekki frekari deili á, hefði síðan tekið við fötunum af henni niðri í bæ, skammt frá Strikinu. Hún sagði að ákærða A hefði látið hana vita að hún ætti að hitta þessa stelpu á ákveðnum stað og tíma og stelpan hefði síðan séð að hún var með poka úr HM og komið til hennar. Hún sagðist ekki muna hvernig stelpan leit út. Aðspurð kvaðst hún ekki muna eftir að hafa farið heim til vinkonu A með ferðatösku. Hún kvaðst ekki hafa haft vitneskju um skipulagningu á fíkniefnainnflutningi.

Hún sagði að þau ákærði Steinar hefðu verið í einn og hálfan dag í Kaupmannahöfn, þ.e. þau hefðu farið daginn eftir að þau komu. Hún sagði aðspurð að líklegt væri að þau hefðu komið til Danmerkur 22. maí og farið þaðan 23. maí.

Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 28. júní 2012, sem er í samræmi við skýrslu hennar fyrir dóminum.

Vitnið I, móðir ákærðu A, sagði að ákærða hefði haft samband við hana og tjáð henni að börnin vantaði sumarföt og spurt hana hvort hún gæti tekið tösku með fötum með sér til Íslands. Einnig að vinkona hennar í Kaupmannahöfn, C, myndi kaupa fötin og koma með þau til hennar í tösku út á flugvöll. Hún sagði að ákærða hefði byrjað að nefna þetta við hana viku til tveimur vikum áður en hún fór til Íslands. Hún sagðist síðan hafa hitt C fyrir utan flugstöðina og þar hefðu þær sest niður og fengið sér að reykja.

Hún sagði að vinkona sín í [...] hefði minnst á það við hana að það gæti verið að ákærða A stundaði þetta. Hún sagði að kvöldið áður hefði J sagt við hana að hann vonaði að það yrði ekkert misjafnt í töskunni, en vitnið sagðist ekki hafa trúað því upp á dóttur sína. Hún sagðist samt hafa viljað vera viss og farið niður á salerni með töskuna, opnað hana og þreifað undir fóðrið og ekki orðið vör við neitt. Kvaðst hún hafa skammast sín fyrir að hafa látið sér detta í hug að dóttir hennar gæti gert henni þetta. Hún sagðist síðan hafa sett eitthvað af fötunum í handtösku sem hún var með til að létta tösku ákærðu A.

Vitnið kvaðst ekki hafa verið í sambandi við ákærða B varðandi kaupin á barnafötunum og sagði að þau samskipti hefðu eingöngu verið á milli hennar og ákærðu A.

Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 25. maí 2012 og fyrir dómi 4. júní sama ár og hafði vitnið stöðu sakbornings í bæði skiptin. Eru þær skýrslur í samræmi við framburð vitnisins fyrir dóminum.

Vitnið J sagði að hann og I hefðu farið til Íslands í maí sl. Á Kastrupflugvelli hefðu þau átt að hitta ungt fólk, vini ákærðu A, og taka þar við ferðatösku með barnafötum frá ákærðu og fara með til Íslands. Þau hefðu síðan tekið við töskunni og kvaðst hann hafa sagt við I að vissara væri að gá í ferðatöskuna til að athuga hvort þar væri eitthvað grunsamlegt því þau þekktu ekki þetta fólk. I hefði því farið með töskuna á salernið og skoðað hana, en ekki fundið neitt grunsamlegt. Þau hefðu því ákveðið að taka ferðatöskuna með sér til Íslands. Framhaldið þekkti ákæruvaldið, en þau hefðu síðan verið handtekin í Keflavík.

Vitnið sagði að konan, sem lét þau fá töskuna á flugvellinum, hefði verið íslensk, u.þ.b. 25 ára gömul og ljóshærð. Hann kvaðst hafa tekið eftir að hún klóraði sér mikið og hafi komið til tals að hún væri með psoriasis. Sjálfur sagðist hann vera með þann sjúkdóm og kannaðist því við einkennin. Hann sagði að maðurinn hefði verið dökkhærður og kvaðst hann ekki hafa talað við hann. Hann sagðist ekki hafa þekkt þetta fólk.

Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 25. maí og fyrir dómi 4. júní sama ár og hafði vitnið stöðu sakbornings í bæði skiptin. Eru þær skýrslur í samræmi við framburð vitnisins fyrir dóminum.

Vitnið O sagðist þekkja ákærða Steinar. Kvaðst hann hafa hitt hann og kærustu hans fyrir hreina tilviljun rétt hjá aðalbrautarstöðinni í Kaupmannahöfn. Hann sagði að ákærði Steinar og kærasta hans hefðu tjáð sér að þau hefðu komið til Kaupmannahafnar daginn áður. Hann hefði sjálfur verið á leið til Amsterdam og sagði vitnið að þau farið með honum þangað. Hann sagðist ekki muna hvenær þetta var og kvaðst ekki geta staðfest að þetta hefði verið 23. maí sl. Hann kvaðst ekki hafa tekið eftir að ákærði Steinar hefði verið áberandi ölvaður þegar hann hitt hann.

Vitnið P rannsóknarlögreglumaður sagði að málið hefði byrjað með því að ákærðu G og F hefðu komið með fíkniefni innvortis til landsins. Í kjölfarið á því máli hefðu borist upplýsingar um hver hefði í raun átt þau fíkniefni, en ákærðu G og F hefðu ekki viljað tjá sig um það við rannsóknina. Þessar upplýsingar hefðu leitt til sérstakrar rannsóknar á ákærðu A og B þar sem upplýsingarnar hefðu lotið að því að þau hefðu átt aðild að fíkniefnainnflutningi ákærðu G og F. Aðspurður af verjanda A kvaðst hann ekki vilja upplýsa hver hefði veitt lögreglu þessar upplýsingar. Þá sagði vitnið að lögregla hefði búið yfir eldri upplýsingum um að ákærða A og B væru að leita að burðardýrum. Hann sagði að lögreglan hefði byrjað á því að fá heimild til að hlera síma ákærðu og síðar hefði lögregla fengið heimild til að koma fyrir hlerunarútbúnaði á heimili þeirra og hefði sú hlerun staðið yfir fram að handtöku þeirra 25. maí sl.

Hann sagði að hlerunin hefði leitt það í ljós að á heimilinu var mikil fíkniefnaneysla og sala á fíkniefnum. Einnig hefði komið í ljós að von var á burðardýri til landsins, en síðar hefði komið á daginn að burðardýrið hafði svikið ákærðu. Síðar hefðu ákærðu A og B ákveðið að láta flytja til landsins ferðtösku með fíkniefnum í og hefði undirbúningur þess staðið sem hæst 14. eða 15. maí sl. Það hefði síðan leitt til þess að I kom til landsins með þá tösku 25. maí sl. Hann sagði að lögregla hefði vitað um hennar þátt þá, þ.e. að henni væri ókunnugt um það að í töskunni yrðu fíkniefni, og því hefði lögregla sent mann út til að fylgjast með því hver myndi afhenda henni töskuna. Þessi lögreglumaður hefði síðan fylgt I til landsins. Í ljósi þess að ekkert benti til þess að hún og J hefðu vitað af fíkniefnunum hefði þeim verið sleppt að loknum yfirheyrslum.

Hann sagði að lögreglumenn hefðu byrjað að hlera síma ákærðu og síðan farið að hlera heimili þeirra og kvaðst vitnið gera sér grein fyrir hver talaði hverju sinni. Hann sagði að þeir sem hefðu skrifað upp hljóðritanir af samtölum, sem mestu máli þættu skipta, hefðu verið þeir lögreglumenn, sem hefðu hlerað ákærðu og töldu sig bera kennsl á raddir þeirra.

Vitnið staðfesti að hafa fengið upplýsingar um ferðir ákærða Steinars og vitnisins D til Grænlands frá Flugfélag Grænlands, þ.e. að þau hefðu flogið til Grænlands frá Keflavíkurflugvelli 16. maí sl. og frá Grænlandi til Danmerkur 22. maí sl.

Vitnið R, verkefnisstjóri hjá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, staðfesti framlagðar matsgerðir rannsóknastofunnar, dags. 28. desember 2011 og 5. janúar 2012 vegna rannsóknar á sýnum merktum 112596 og 112597 og matsgerðir, dags. 12. júní 2012 og 3. júlí 2012 vegna rannsóknar á sýnum merktum 121304. Hann sagði að í síðari matsgerðunum væri miðað við nýjustu tölur frá Danmörku um meðalneyslustyrk, þ.e. annars vegar 21,4% og hins vegar 22%, og út frá þeirri tölu væri reiknað hversu mikið magn kókaíns í neyslustyrkleika mætti vinna úr því efni sem flutt hafði verið inn. Vitnið sagði að þau sýni, sem rannsóknastofan fengi til greiningar, væru yfirleitt úr stærri málum og væru því sterkari. Síðustu fimm ár hefði rannsóknastofan rannsakað tæplega 200 sýni í heildina og þar væri meðaltalið rúmlega 52% að styrkleika. Vitnið sagði að styrkleiki efnanna væri meiri eftir því sem meira magn væri haldlagt. Yfirleitt væri styrkleikinn minnstur í sýnum úr minna magni, þ.e. úr neysluskömmtum.

Vitnið sagði að miðað væri við tölur frá Danmörku vegna þess að þær væru aðgengilegar. Hann sagði að engin rannsókn hefði farið fram á því hver meðalstyrkleiki kókaíns í neysluskömmtum væri á Íslandi.

Vitnið S lögreglumaður kvaðst hafa verið stödd á Kastrupflugvelli í maí sl. til að fylgjast með afhendingu á ferðatösku ákærðu A. Kvaðst hún hafa séð I og J koma inn í innritunarsal Iceland Express og fylgst með þeim innrita farangur sinn. Hún sagði að þau hefðu verið með tvær stórar svartar ferðatöskur og eina ferðatösku, gráa að lit, og sagði að I hefði tekið fatnað upp úr gráu töskunni og sett hann í flugfreyjutösku, sem þau voru með. Þau hefðu hins vegar innritað gráu töskuna. Hún sagðist síðan hafa séð þau koma um borð í vélina og fá sér sæti. Hún sagðist ekki hafa séð I fara með ferðatöskuna á salernið og kvaðst ekki hafa séð þegar þeim var afhent ferðataskan.

Niðurstaða

I. kafli ákæru 16. ágúst 2012.

1. töluliður. Þáttur ákærðu A og B.

Ákærðu A og B hafa bæði staðfastlega neitað sök að því er varðar sakarefni I. kafla ákæru.

Fyrir dóminum sagði ákærða A að hún hefði ekki haft vitneskju um fíkniefnainnflutning ákærðu F og G og kvaðst ekki hafa komið að skipulagningu ferðar þeirra eða fjármagnað innflutninginn. Ákærða kvaðst hins vegar hafa frétt af málinu síðar. Nánar aðspurð kvaðst ákærða ekki vera viss um hvenær hún frétti af málinu, en kvaðst þó halda að það hefði verið eftir að F og G komu heim. Ákærða bar á sama veg hjá lögreglu.

Ákærði B kvaðst ekki hafa komið að fíkniefnainnflutningi ákærðu G og F og kvaðst enga vitneskju hafa haft um innflutninginn. Hjá lögreglu kvaðst ákærði ekki muna til þess að hafa komið að þessum innflutningi.

Ákærðu G og F hafa bæði borið um það að þau hafi verið beðin um að fara til Spánar til þess að flytja kókaín til landsins gegn greiðslu, en þau hafa hvorugt viljað greina frá því hver það var sem bað þau um að fara utan. Hjá báðum kom fram að aðallega hefði einn skipulagt innflutninginn, en annar hefði vitað af skipulagningunni.

Fram hefur komið í málinu að ákærðu F og G annars vegar og ákærðu A og B hins vegar þekkjast og hafa átt samskipti undanfarin ár. F og G hafa bæði borið um það að A og B hafi selt þeim fíkniefni og að þau hafi skuldað þeim peninga vegna þess, fyrst 200.000 krónur og síðar 160.000-170.000 krónur. A og B könnuðust hins vegar ekki við að hafa selt meðákærðu fíkniefni og þá kvaðst B ekki minnast þess að meðákærðu hefðu skuldað honum peninga. A bar um það að meðákærðu hefðu skuldað henni 175.000 krónur vegna kaupa á húsgögnum. F kannaðist hins vegar ekki við það, en sagði að meðákærðu hefðu gefið þeim G sófa og borð þegar meðákærðu hefðu skipt út húsgögnum hjá sér.

Á meðal gagna málsins er upptaka af símtali ákærðu A og G 4. apríl 2012 þar sem A hótar G því að hún muni fara í dóttur hans ef lögreglan hefur samband við hana eða ef hún fær ekki peninga sína. Ákærði G bar um það fyrir dóminum að símtalið hefði verið vegna skuldar þeirra F, sem þau hefðu ekki getað greitt. Þá hefðu A og B tvívegis áður verið búin að hóta þeim lífláti, auk þess sem B hefði sparkað upp hurðinni hjá þeim og sagði ákærði að hann hefði getað kært þau til lögreglu vegna hótana og eignaspjalla. Ákærða A hefur borið um það að þetta símtal tengist ekki þessu máli og er það í samræmi við framburð G, sem sagði að það tengdist ekki innflutningi á fíkniefnum. Með vísan til alls framangreinds þykir ekki í ljós leitt að umrætt símtal tengist sakarefni I. kafla ákæru.

Ákærðu F og G báru bæði um það fyrir dóminum að meðákærði B hefði sparkað upp hurð á heimili þeirra þegar hann var að innheimta skuld hjá þeim. Kvaðst ákærða F halda að það hefði verið áður en þau fóru út, en kaus að tjá sig ekki um hvort það tengdist þessu máli. Ákærði G kvaðst halda að B hefði brotið upp hurðina sama dag og A hringdi í hann og hótaði honum, en fram hefur komið að það var 4. apríl 2012. Ákærða A kvaðst ekki vita til þess að ákærði B hefði sparkað upp hurð á heimili meðákærðu, en B sagðist ekki muna eftir því, en bætti þó við að það gæti vel verið. Ákærði G sagði að B hefði sparkað upp hurðinni vegna 160.000 króna skuldar, sem hefði komið til eftir að mál þetta kom upp.

Í skýrslu lögreglu um húsleit sem fram fór á heimili ákærðu F og G 12. desember 2011 kemur ekki fram að hurð á íbúðinni hafi verið brotin. Um það atvik liggur einungis fyrir í málinu framburður ákærðu G og F, sem ber ekki saman um það hvenær umræddur atburður átti sér stað. Auk þess hefur ákærði G borið um það að þetta hafi átt sér stað vegna skuldar sem kom til eftir að mál þetta kom upp. Með vísan til framangreinds þykir mjög á reiki hvort og þá hvenær ætlað atvik átti sér stað, svo og hvort það tengist sakarefni I. kafla ákæru.

Loks liggur frammi í málinu upptaka af samtali ákærðu A og K á heimili ákærðu og B 29. apríl 2012. Þar talar ákærða um það að fólk, sem hefði farið fyrir þau, hefði verið tekið rétt fyrir jól og að þau hafi verið búin að leggja út fyrir kostnaðinum. Fyrir dóminum kvaðst ákærða kannast við rödd sína á upptökunni, en kvaðst ekki muna eftir samtalinu. Kvaðst hún greina það á tali sínu að hún hefði verið „útúrrugluð“ eins og hún orðaði það sjálf og að reyna að vera „kúl á því.“

Með hliðsjón af því að í samtalinu nefnir ákærða engin nöfn eða dagsetningar, svo og með vísan til þess að ekkert annað þykir hafa komið fram í málinu sem bendlar ákærðu A og B við sakarefni I. kafla ákæru þykir ekki unnt með neinni vissu að tengja samtal þetta við ferð ákærðu F og G til Spánar og innflutning þeirra á fíkniefnum.

Með vísan til alls framangreinds þykir ákæruvaldinu ekki hafa tekist að sanna svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærðu A og B hafi lagt á ráðin um innflutning á fíkniefnum þeim sem greinir í I. kafla ákæru og fengið meðákærðu F og G til að flytja þau til landsins gegn greiðslu. Ber því með vísan til 109. gr., sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að sýkna ákærðu af þeirri háttsemi sem lýst er í I. kafla ákæru og að þeim snýr.

2. töluliður. Þáttur ákærðu F og G.

Ákærðu játuðu brot sitt skýlaust fyrir dóminum eins og því er lýst í ákæru að því tilskyldu að þau hafa ekki borið um að þau hafi flutt fíkniefnin inn að beiðni meðákærðu A og B. Þykir það ósannað eins og að framan greinir. Með játningu ákærðu, sem á sér stoð í gögnum málsins, þykir hinsvegar sannað að ákærðu hafi gerst sek um þá háttsemi sem þau eru ákærð fyrir og er brot ákærðu réttilega heimfært til refsiákvæða í ákærunni.

II. kafli ákæru 16. ágúst 2012.

Af hálfu A er þess krafist að II. kafla ákærunnar verði vísað frá dómi þar sem tilraunarverknaðurinn hafi verið framinn í Danmörku og hvorki liggi fyrir um það í málinu að brotið sé refsivert þar í landi né hver hámarksrefsing þar er fyrir slík brot, sbr. 2.tl. 1. mgr. 5. gr., sbr. 2. mgr. 8. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í II. kafla ákærunnar er ákærðu A og B gefin að sök tilraun til fíkniefnalagabrots með því að hafa í félagi, fjármagnað og skipulagt innflutning á fíkniefnum frá Danmörku til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi. Er ákærðu gefið að sök að hafa afhent H efnin í Kaupmannahöfn í þeim tilgangi að hún myndi flytja efnin til Íslands. Í 7. gr. almennra hegningarlaga segir að þegar refsing er að einhverju leyti bundin að lögum við afleiðingar verknaðar beri að líta svo á að verkið sé einnig unnið þar sem afleiðingar þess verða eða er ætlað að koma fram. Eins og brotinu er lýst í II. kafla ákærunnar er ljóst að til stóð að flytja efnin til Íslands og hefðu afleiðingar brotsins því komið fram hér á landi. Með vísan til framangreinds og 7. gr. almennra hegningarlaga er því ekki fallist á frávísunarkröfu ákærðu A, sem verjandi ákærða B tók einnig undir við munnlegan málflutning.

Ákærða A hefur neitað sakargiftum í II. kafla ákærunnar. Ákærði B hefur hins vegar játað sök að því er þennan kafla ákærunnar varðar, en kveðst hafa verið einn að verki.

Fram hefur komið að ákærða A og vitnið H eru æskuvinkonur, en auk þess munu mæður þeirra vera vinkonur og nágrannar. Þá hefur komið fram að H hefur aðeins hitt ákærða B einu sinni eða tvisvar. Ljóst er því að tengsl vitnisins við ákærðu A eru mun meiri en við ákærða B.

Vitnið H hefur borið um það að hafa hitt ákærðu A og B á hótelherbergi í Kaupmannahöfn í janúar eða febrúar 2012 þar sem þau hafi boðið henni að flytja fíkniefni til Íslands gegn greiðslu. Þá hefur hún borið um að hafa tekið við fíkniefnum frá þeim í sex pakkningum. Jafnframt hefur vitnið borið um að ákærða A hafi verið búin að senda henni peninga í gegnum Western Union fyrir fargjaldi til Íslands og er það í samræmi við framburð ákærðu A og fær jafnframt stuðning í yfirliti á dskj. nr. 17 þar sem fram kemur að ákærða A millifærði hinn 9. nóvember 2011 150.000 krónur til vitnisins í gegnum Western Union. Vitnið lýsti því einnig það hefði fengið bakþanka og ekki þorað að flytja efnin til Íslands heldur grafið þau niður og ekki fundið þau aftur. Hún sagði að ákærða A hefði aldrei haft samband við hana til að biðja hana um að hætta við fíkniefnainnflutninginn. Hún hefði hins vegar fengið skilaboð frá ákærðu um að hún ætti að hitta mann við MacDonalds-staðinn á lestarstöðinni og skila efninu, þar sem það væri ekki nógu gott, og fá annað í staðinn.

Framburður vitnisins hefur verið stöðugur. Samræmist hann framburði ákærðu A hjá lögreglu á meðan hún sat í gæsluvarðhaldi og var í einangrun og fær jafnframt stoð í öðrum gögnum málsins. Þykir framburður vitnisins skýr, greinargóður og trúverðugur.

Ákærða A kvaðst fyrir dómi hafa haft einhverja vitneskju um það frá meðákærða B að til stæði að H flytti fíkniefni til landsins. Kvaðst hún hafa beðið H, bæði símleiðis og með skilaboðum á Facebook, að hætta við innflutninginn og skila fíkniefnunum sem hún hefði fengið í hendur. Kvaðst ákærða telja að með afskiptum sínum hefði hún afstýrt því að umrædd fíkniefni yrðu flutt til landsins.

Framburður ákærðu A tók töluverðum breytingum á meðan á rannsókn málsins stóð og þá er talsvert ósamræmi á skýrslum hennar hjá lögreglu og hér fyrir dómi. Hjá lögreglu viðurkenndi ákærða að hafa afhent vitninu H fíkniefnin rétt hjá lestarstöðinni í Kaupmannahöfn og kvaðst halda að um hefði verið að ræða 140 grömm. Einnig bar ákærða um það að pakki, sem hefði átt að koma með H, hefði klúðrast. Einnig að hún hefði sent H peninga, fyrst 50.000 eða 80.000 krónur og síðan 150.000 krónur í gegnum Western Union, m.a. í því skyni að hún keypti sér farmiða til Íslands og ætlunin hefði verið að H kæmi með fíkniefni til landsins. Loks sagði ákærða að með innflutningi á fíkniefnum þeim, sem greinir í III. kafla ákæru, hefði hún verið að losa sig við þá skuld, sem vitnið H hefði komið henni í.

Eins og að framan greinir hefur framburður ákærðu A verið reikull og þykja skýringar hennar á breyttum framburði fyrir dómi ekki trúverðugar. Þykir framburður hennar fyrir dóminum því ótrúverðugur. Framburður ákærðu hjá lögreglu samrýmist hins vegar trúverðugum framburði vitnisins H um að ákærðu A og B  hafi afhent henni umrædd fíkniefni í því skyni að hún flytti þau til Íslands.

Eins og áður greinir hélt ákærða A því fram fyrir dóminum að hún hefði komið í veg fyrir að vitnið H flytti fíkniefnin til landsins, en ákærða bar ekki um það hjá lögreglu. Þá samræmist það hvorki trúverðugum framburði vitnisins H né upptöku af samtali ákærðu, B og manns, sem greina má að er ákærði Steinar, á heimili ákærðu og B 3. mars 2012, en þar er rætt um að einhver stelpa hafi látið sig hverfa með efnið og skuldi þeim 80.000 krónur, sem þau hafi verið búin að senda henni, og einnig 300.000 krónur, sem hún hafi verið búin að fá áður. Á upptökunni má auðveldlega greina rödd ákærðu, auk þess sem ákærða kvaðst kannast við rödd sína á upptökunni. Þá samræmist áðurgreindur framburður ákærðu fyrir dómi ekki upptöku á heimili þeirra 16. apríl 2012, en þar er rætt um að æskuvinkona ákærðu A hafi svikið þau og að ekki náist í hana. Einnig er rætt um að mæður vinkonunnar og ákærðu A séu vinkonur. Jafnframt er rætt um magnið 140 og að hún skuldi þeim mikla peninga vegna kókaíns. Á upptökunni má greinilega heyra rödd ákærðu.

Með vísan til alls framangreinds og játningar ákærða B þykir í ljós leitt svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi í félagi fjármagnað og skipulagt innflutning á 140 grömmum af fíkniefnum eins og nánar greinir í II. kafla ákæru. Þá hefur með hliðsjón af framangreindu og gögnum málsins ekki verið leitt í ljós að ákærða A hafi afstýrt því að fíkniefnin voru flutt til landsins. Háttsemi ákærðu er réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

III. kafli ákæru 16. ágúst 2012 og framhaldsákæra 14. september 2012.

Ákærðu B og Steinar hafa báðir neitað sök að því er varðar sakargiftir í III. kafla ákæru og framhaldsákæru, en ákærða A hefur játað sök að því er sömu sakargiftir varðar.

Ákærði Steinar kvaðst enga aðkomu hafa átt að fíkniefnainnflutningi þeim sem greinir í framhaldsákæru. Hann kvaðst þekkja meðákærðu B og A og kvaðst stundum hafa komið við á heimili þeirra í apríl og maí sl.

Á meðal gagna málsins eru hljóðritanir af samtölum á heimili þeirra ákærðu A og B 14. og 15. maí 2012, þ.e. skömmu áður en innflutningurinn átti sér stað. Þar má greinilega þekkja raddir ákærðu A, B og Steinars, auk þess sem ákærðu A og B nefna það í upptökunni frá 15. maí að Steini sé að koma.

Á upptökunni frá 14. maí 2012 má heyra ákærða Steinar spyrja ákærðu A hvernig best sé að setja þetta upp með gömlu og þá heyrist A segja að mamma hennar geri allt fyrir hana. Þá ræða þau um það hvar sé best að afhenda móður A þetta. Þá ræðir ákærði Steinar um það að hann lendi þarna 20. eða 21. og að hann verði þarna til 22. eða 23. og þá geti hann komið með þetta til A. Hún þurfi bara að vera á vaktinni og að þau þurfi bara að vera mikið „on line.“

Á upptökunni frá 15. maí 2012 heyrist ákærði Steinar leggja það til að þau fari í bíltúr í nágrenninu eða fari inn í kompu til að tala saman. Þá heyrist ákærði B segja að ekki sé möguleiki á því að það sé eitthvað þarna inni. Þykir þetta benda til að ræða hafi átt um hluti, sem leynt áttu að fara. Þá heyrist ákærði Steinar spyrja ákærðu A hvort hún eigi ekki einhvern vin þarna úti sem gæti látið móður hennar hafa þetta og heyrist ákærða A þá svara: „Það er bara C, það er bara C“ og þá heyrðist ákærði B bæta við: „C“. Og síðar: „Já, það er bara hún.“ Einnig heyrast ákærðu öll velta því fyrir sér að best sé að senda einhvern, sem er ekki „í þessum heimi“, en að það verði að vera stelpa. Þá velta þau því fyrir sér hvort rétt sé að fá kærustu ákærða Steinars í verkið. Þá ræðir ákærði Steinar um það að hann verði kominn þangað 21. og verði farinn þaðan 22. og þetta sé bara spurning um hvernig ákærða A ætli að „setja þetta upp í sambandi við din mor.“ Ákærða A heyrist þá segja: „… segðu mér bara hvenær þú verður þarna …“ Þá er rætt um kaup á barnafötum og hári. Jafnframt heyrist ákærði Steinar segja: „Í versta falli þá segirðu þessari C þarna að vinkona þín … að vinkona þín sé á smá hraðferð og hún ætli að láta mömmu þín fá smá ...“ Loks heyrist ákærði Steinar segja: „Já, og þá plötum við hana bara þannig og þá gerir hún það bara sama dag og mamma þín væri komin til hennar þannig að hún væri ekkert að fara þú veist að geta testað það sem væri í þessu skilurðu.“ Einnig: „Þá er hún komin með töskuna … mamma þín myndi senda konuna mína til þessarar C eða eitthvað.“

Á framangreindum hljóðritunum þykir ekki fara á milli mála að ákærðu Steinar, A og B voru að skipuleggja innflutning á fíkniefnum, sem móðir ákærðu A flutti með sér til landsins 25. maí 2012.

Þá liggur fyrir í málinu að ákærði Steinar lenti í Kaupmannahöfn 22. maí 2012 eða um svipað leyti og fram kemur í samtölum hans við ákærðu A og B 14. og 15. maí 2012. Þá hefur ákærði Steinar og unnusta hans, vitnið D, borið um það að hafa farið í verslunarleiðangur í Kaupmannahöfn og keypt barnaföt og fleira fyrir ákærðu A 23. maí 2012. Sagði ákærði Steinar fyrir dóminum að eftir að D hafði keypt fötin hefði hún hitt vinkonu A á einhverju torgi niðri í bæ og látið hana fá fatapokann. Kvaðst ákærði hafa verið þar nálægt, sennilega á næstu krá. Kvaðst hann ekki muna hvað þessi vinkona A hét eða hvernig hún leit út. Þá kvaðst ákærði Steinar ekki muna eftir að hafa farið heim til einhverrar vinkonu A á meðan þau voru í Danmörku.

Í skýrslu sinni hjá lögreglu 5. september sl. sagði ákærði Steinar hins vegar að vinkona A, þ.e. sú sem þau D afhentu barnafötin, héti E, C eða eitthvað í þá áttina. Við hlustun á yfirheyrsluna hjá lögreglu er ekki rétt svo sem ákærði hélt fram fyrir dóminum að lögregla hefði spurt hann að því hvort verið gæti að hún héti C, heldur var ákærði spurður að því hver þessi vinkona A væri. Þá sagði ákærði Steinar hjá lögreglu að vel gæti verið að þau D hefðu farið heim til þessarar vinkonu A og sagði að þau hefðu farið inn í einhverja íbúð þarna, en sagðist ekki muna hvar. Skýringar ákærða á breyttum framburði sínum fyrir dómi hvað þetta varðar þykja ekki trúverðugar.

Vitnið D kvaðst ekki muna eftir því hér fyrir dómi að hafa farið heim til vinkonu A með ferðatösku á meðan þau ákærði Steinar voru í Kaupmannahöfn. Þá sagði hún að einhver vinkona A, sem hún vissi ekki frekari deili á, hefði tekið við barnafötunum einhvers staðar niðri í bæ skammt frá Strikinu. Í ljósi tengsla vitnisins við ákærða Steinar þykir framburður vitnisins ekki trúverðugur.

Vitnið C hefur borið um það að einn daginn hefði par hringt dyrabjöllunni hjá sér og komið með tösku ákærðu A til hennar. Hún sagði að parið hefði komið til sín einum eða tveimur dögum áður en hún fór með töskuna út á flugvöll til móður ákærðu A, en það getur samræmst framburði ákærða Steinars og vitnisins D um ferðalag þeirra til Danmerkur og Hollands. Kvað vitnið stúlkuna hafa séð um að kaupa barnafötin fyrir ákærðu A og pakka þeim í töskuna á meðan hún sjálf varð að bregða sér af bæ. Sagði vitnið að taskan hefði verið tilbúin í íbúðinni hjá sér þegar hún kom til baka. Lýsing vitnisins á parinu þykir koma heim og saman við útlit ákærða Steinars og vitnisins D, sérstaklega lýsing vitnisins á D, en vitnið kvaðst geta lýst stúlkunni betur þar sem vitnið hefði átt meiri samskipti við hana. Framburður vitnisins C var greinargóður og skýr og samræmist hann framburði ákærða Steinars hjá lögreglu og að sínu leyti framburði vitnisins D í málinu. Þykir framburður vitnisins trúverðugur.

Vitnið O staðfesti fyrir dóminum að hann hefði ekið ákærða Steinari og vitninu D til Hollands frá Danmörku í greint sinn, en hann kvaðst ekki geta staðfest að það hefði verið 23. maí 2012. Þá kvað hann ákærða Steinar ekki hafa verið áberandi ölvaðan þegar hann hitti hann í greint sinn, eins og ákærði Steinar hélt sjálfur fram fyrir dóminum.

Ákærða A neitaði því fyrir dóminum að meðákærði Steinar hefði komið að skipulagningu fíkniefnainnflutnings þess, sem greinir í III. kafla ákæru og framhaldsákæru, og kvaðst ekki hafa rætt þessi áform við hann. Í skýrslu sinni hjá lögreglu 7. júní 2012 staðfesti ákærða hins vegar að í upptökum af samtali á heimili hennar og ákærða B 14. maí sl. mætti heyra þau ákærða Steinar skipuleggja innflutning fíkniefna í tösku, sem móðir hennar átti að koma með til landsins, en ákærða tók fram að ekki hefði verið búið að ákveða magnið. Skýringar ákærðu A á breyttum framburði sínum fyrir dómi hvað aðild ákærða Steinars varðar þykja ekki trúverðugar, en af upptökum af yfirheyrslunni hjá lögreglu verður ekki séð að ákærða hafi verið sérstaklega illa fyrirkölluð.

Eins og að framan greinir er ósamræmi á framburði ákærða Steinars fyrir dóminum og hjá lögreglu og þykir ákærði ekki hafa gefið trúverðugar skýringar á breyttum framburði sínum fyrir dómi. Þá samræmist framburður ákærða fyrir dóminum ekki öðrum gögnum málsins, svo sem hljóðritunum á heimili meðákærðu. Þykir framburður ákærða Steinars fyrir dóminum ekki trúverðugur.

Með hliðsjón af hljóðritunum á heimili ákærðu A og B 14. og 15. maí 2012, sem fær stuðning í framburði ákærðu A hjá lögreglu og framburði vitnisins C, sem einnig samræmist framburði ákærða sjálfs hjá lögreglu, þykir sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem greinir í framhaldsákæru.

Ákærði B bar fyrir dóminum að hann hefði ekki vitað hvað til stóð og kvaðst ekki hafa lagt á ráðin eða komið að skipulagningu innflutningsins með ákærðu A, sbr. III. kafla ákæru. Hann sagði þó að vel gæti verið að ákærða hefði einhvern tímann rætt þetta við hann, en kvaðst ekki muna eftir því.

Ákærða A sagði að ákærði B hefði ekki vitað af áformum hennar, en sagði þó að vel gæti verið að hann hefði grunað eitthvað. Þau hefðu ekki rætt þetta sín á milli og ákærði B hefði ekki á nokkurn hátt komið að skipulagningu innflutningsins.

Með hliðsjón af áðurgreindum hljóðritunum á heimili ákærðu 14. og 15. maí 2012 þykir ljóst að ákærða B var vel kunnugt hvað stóð til og tók þátt í skipulagningu innflutningsins með ákærðu A og Steinari. Á upptökum af samtali þeirra ákærðu A á heimili þeirra 16. maí 2012 má og heyra að ákærði B spyr ákærðu A hvort það þurfi ekki að fara að ræða þetta frekar og þá svari ákærða A játandi og segist vera að gera lista og ætli að hitta D á eftir. Hún ætli nefnilega að láta hana fara. Ákærði B taki þá undir það með A að rétt sé að láta hana fara með þetta til mömmu A.

Ljóst þykir að þarna hafi þau ákærðu A og B verið að ræða skipulagningu á áðurgreindum innflutningi á fíkniefnum. Með hliðsjón af því og öllu framangreindu þykir því í ljós leitt svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði B hafi gerst sekur um háttsemi þá sem greinir í framhaldsákæru.

Þá þykir sannað með játningu ákærðu A og með vísan til alls framangreinds að ákærða A hafi gerst sek um háttsemi þá sem greinir í framhaldsákæru.

Brot ákærðu A, B og Steinars eru réttilega heimfærð til refsiákvæða í III. kafla ákæru og framhaldsákæru.

IV. kafli ákæru 16. ágúst 2012.

Ákærða A játaði brot sitt skýlaust fyrir dóminum eins og því er lýst í IV. kafla ákæru. Þykir með játningu ákærðu, sem á sér stoð í gögnum málsins, sannað að ákærða hafi gerst sek um þá háttsemi sem ákært er fyrir og er brot ákærðu réttilega heimfært til refsiákvæða í IV. kafla ákæru.

Ákvörðun refsingar.

Ákærða F er fædd [...]. Á árinu 2007 hlaut ákærða tvo fangelsisdóma fyrir fíkniefnalagabrot, annan 20. mars og hinn 19. september, og var refsing samkvæmt þeim báðum skilorðsbundin í þrjú ár. Hinn 20. febrúar 2010 var ákærða dæmd í fimm mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir þjófnað. Með dóminum var skilorðsdómurinn frá 19. september 2007 dæmdur upp. Með broti því, sem ákærða hefur nú verið sakfelld fyrir, rauf ákærða skilorð dómsins frá 20. febrúar 2010 og ber því með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga að taka þann dóm upp og gera ákærðu refsingu í einu lagi fyrir bæði málin, sbr. 77. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar ákærðu ber að líta til þess að um samverknað hennar og ákærða G var að ræða. Þá ber að líta til þess að brot ákærðu var stórfellt, en um var að ræða talsvert magn hættulegra fíkniefna og samkvæmt matsgerðum Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, sem liggja fyrir í málinu, og vitnaframburði R var styrkleiki efnisins mikill. Á móti kemur að líta ber til játningar ákærðu og að ekki er unnt að fullyrða annað en að hún hafi verið svokallað burðardýr. Eftir atvikum þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 17 mánuði. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald, sem ákærða sætti vegna málsins frá 9. til 16. desember 2011.

Ákærða A er fædd [...]. Hinn 24. janúar 2005 var ákærða í Árósum í Danmörku dæmd í 14 daga fangelsi, skilorðsbundið í eitt ár, fyrir nytjastuld. Hinn 26. maí 2011 var ákærða dæmd í 60 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir þjófnað, gripdeild og nytjastuld. Loks var ákærða dæmd hinn 12. janúar 2012 til greiðslu 170.000 króna sektar fyrir fíkniefnalagabrot. Með brotum sínum nú hefur ákærða rofið skilorð dómsins frá 26. maí 2011 og ber því með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga að taka þann dóm upp og gera ákærðu refsingu í einu lagi fyrir bæði málin, sbr. 77. gr. sömu laga. Eins og áður segir ber við ákvörðun refsingar að líta til þess að brot ákærðu í III. kafla ákæru, sem unnið var í félagi við aðra, var stórfellt og að um mikið magn hættulegra fíkniefna var að ræða að miklum styrkleika. Þykir ákærða ekki eiga sér neinar málsbætur. Þykir refsing hennar hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og tvo mánuði. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald, sem ákærða sætti vegna málsins frá 26. maí til 17. september 2012.

Ákærði B er fæddur [...] og á samkvæmt framlögðu sakavottorði sakarferil allt aftur til ársins 1995, en þó með hléi frá því ári til ársins 2002. Ákærði hefur frá árinu 1995 hlotið sjö dóma, m.a. fyrir nytjastuld, þjófnað, líkamsárás, umferðarlagabrot og brot á fíkniefnalöggjöfinni. Frá árinu 2002 hefur ákærði gengist undir sex sáttir hjá lögreglustjóra fyrir fíkniefnalagabrot, umferðarlagabrot og eignaspjöll. Síðast var ákærði dæmdur til greiðslu sekta 14. desember 2011 og 7. júní 2012, í fyrra skiptið fyrir fíkniefnalagabrot og í síðara skiptið fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og var ákærði þá jafnframt sviptur ökurétti. Til refsiþyngingar ber að líta til þess sem áður segir um magn og styrkleika efnanna í III. kafla ákæru og að brotið var framið í félagi við aðra. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald ákærða frá 26. maí til 21. ágúst 2012.

Ákærði G er fæddur [...] og á samkvæmt framlögðu sakavottorði sakarferil allt aftur til ársins 1992, en þó með hléi frá því ári til ársins 2004. Ákærði hefur hlotið tvo fangelsisdóma, annan á árinu 1992 fyrir umferðarlagabrot og hinn á árinu 2007 fyrir fíkniefnalagabrot og akstur undir áhrifum fíkniefna. Var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, og til greiðslu sektar. Þá var ákærði sviptur ökurétti. Frá árinu 2004 hefur ákærði gengist undir fimm sáttir, aðallega fyrir fíkniefnalagabrot, en einnig umferðarlagabrot. Síðast gekkst ákærði hinn 26. maí 2012 undir tvær sáttir hjá lögreglustjóra, sektargreiðslu og sviptingu ökuréttar, fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og fíkniefnalagabrot. Til refsiþyngingar ber að líta til þess sem áður segir um magn og styrkleika efnanna og að um samverknað ákærða og meðákærðu F var á ræða, en á hinn bóginn er litið til játningar ákærða og þess að ekki er unnt að fullyrða annað en að hann hafi verið svokallað burðardýr. Eftir atvikum þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald, sem ákærði sætti vegna málsins frá 9. til 16. desember 2011.

Ákærði Steinar er fæddur 1983. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur hann frá árinu 2005 gengist undir sjö sáttir hjá lögreglustjóra fyrir fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Þá var ákærði hinn 14. apríl 2008 dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir fíkniefnalagabrot. Síðast gekkst ákærði hinn 24. mars 2011 undir viðurlagaákvörðun dómara, 75.000 króna sekt, fyrir líkamsárás. Með hliðsjón af magni og styrkleika fíkniefnanna og þess að um samverknað ákærða og meðákærðu A og B var að ræða, svo og með hliðsjón af því að ákærði á sér engar málsbætur þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald ákærða frá 6. til 17. september 2012.

Upptökukröfur.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyldi efni eru gerð upptæk til ríkissjóðs 916,23 g af kókaíni, 1,16 g af amfetamíni og 0,36 g af maríhúana.

Í málinu er krafist upptöku á samtals 137.500 krónum í reiðufé, sem fannst við leit á ákærða B í húsnæði World Class í Laugardal í Reykjavík 25. maí 2012, og samtals 270.000 krónum í reiðufé, sem fannst við leit á heimili ákærða Steinars að Hörðukór 3 í Kópavogi þann 25. maí 2012, hvorutveggja með vísan til 1. töluliðar 1. mgr. 69. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009 og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 1. gr. laga nr. 60/1980 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Samkvæmt 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 er heimilt að gera upptækt til ríkissjóðs andvirði ólögmætrar sölu efna sem lögin taka til og samkvæmt 69. gr. b 1. mgr. má gera upptæk verðmæti, að hluta eða í heild, sem tilheyra einstaklingi sem gerst hefur sekur um brot þegar brotið er til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning og það getur varðað að minnsta kosti 6 ára fangelsi.

Ákærði B kvaðst vera á atvinnuleysisbótum og fá meðlag með barni og barnabætur. Ákærði Steinar kvaðst framfleyta sér með vinnu við smíðar með föður sínum þegar hann hefði heilsu til. Þá kvaðst hann hafa fengið bætur fyrir tvö bílslys og hnífsstungu. Ákærðu þykja ekki hafa sýnt fram á að framangreindra fjármuna hafi verið aflað á lögmætan hátt.

Ákærðu hafa nú báðir verið sakfelldir fyrir stórfelldan innflutning á fíkniefnum, sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Eru brot ákærðu til þess fallin að hafa í för með sér verulegan ávinning. Með vísan til framangreinds er því fallist á upptökukröfu ákæruvaldsins og er ákærða B gert að sæta upptöku á 137.500 krónum og ákærða Steinari upptöku á 270.000 krónum, í báðum tilvikum í reiðufé.

Sakarkostnaður.

Með vísan til 219. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærðu til að greiða sakarkostnað. Samkvæmt yfirliti um sakarkostnað vegna I. kafla ákæru 16. ágúst 2012 ber ákærðu F og G að greiða óskipt 618.310 krónur og er þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda þeirra, Snorra Sturlusonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 251.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Jafnframt ber ákærðu F að greiða í sakarkostnað þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Bjarna Haukssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 81.575 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá ber ákærða G jafnframt að greiða í sakarkostnað þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Björgvins Jónssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 81.575 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Samkvæmt yfirliti um sakarkostnað vegna III. kafla ákæru ber ákærðu A, B og Steinari að greiða óskipt í sakarkostnað 680.547 krónur.

Ákærðu A ber jafnframt að greiða í sakarkostnað 836.666 krónur og er þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda hennar, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 753.000 krónur. og þóknun skipaðs verjanda á rannsóknarstigi, Súsönnu Bjargar Fróðadóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 429.586 krónur, í báðum tilvikum að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði B greiði jafnframt í sakarkostnað málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 753.000 krónur, og þóknun skipaðs verjanda á rannsóknarstigi, Jóhannesar Árnasonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 429.586 krónur, í báðum tilvikum að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði Steinar greiði jafnframt í sakarkostnað málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gríms Sigurðssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 627.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dóm þennan kveða upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari, Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari og Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Ákærða F sæti fangelsi í 17 mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald ákærðu frá 9. til 16. desember 2011.

Ákærða A sæti fangelsi í tvö ár og tvo mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald ákærðu frá 26. maí til 17. september 2012.

Ákærði B sæti fangelsi í tvö ár. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald ákærða frá 26. maí til 21. ágúst 2012.

Ákærði G sæti fangelsi í 12 mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald ákærða frá 9. til 16. desember 2011.

Ákærði Steinar Aubertsson sæti fangelsi í 18 mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald ákærða frá 6. til 17. september 2012.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 916,23 g af kókaíni, 1,16 g af amfetamíni, 0,36 g af maríhúana og 407.500 krónur í reiðufé.

Ákærðu F og G greiði óskipt í sakarkostnað 618.310 krónur, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Snorra Sturlusonar hdl., 251.000 krónur, en jafnframt greiði F í sakarkostnað þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Bjarna Haukssonar hrl., 81.575 krónur, og ákærði G þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Björgvins Jónssonar hrl., 81.575 krónur.

Ákærða A, B og Steinar greiði óskipt í sakarkostnað 680.547 krónur.

Jafnframt greiði ákærða A í sakarkostnað 836.666 krónur, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 753.000 krónur, og þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Súsönnu Bjargar Fróðadóttur hdl., 429.586 krónur.

Jafnframt greiði ákærði B í sakarkostnað málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar hdl., 753.000 krónur, og þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Jóhannesar Árnasonar hdl., 429.586 krónur.

Jafnframt greiði ákærði Steinar í sakarkostnað málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gríms Sigurðssonar hdl., 627.500 krónur.