Hæstiréttur íslands
Mál nr. 256/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Þriðjudaginn 23. apríl 2013. |
|
Nr. 256/2013.
|
Haukur Hjaltason (Kristján Stefánsson hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
H kærði úrskurð héraðsdóms þar sem bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta að beiðni L hf. Í málinu lá fyrir að árangurslaus löggeymsla hafði verið gerð hjá H á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar sem H hafði undirgengist vegna skuldar S ehf. og voru skilyrði 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 17. gr. laga nr. 95/2010, því uppfyllt í málinu. Hvorki var talið að H hefði tekist að sýna fram á að skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga væru uppfyllt í málinu til að víkja sjálfskuldarábyrgð H til hliðar né að áðurgreind 65. gr. færi gegn 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá hafði H jafnframt ekki tekist að sýna fram á að krafa sú sem L hf. hafði uppi í málinu hefði verið greidd eða gefin eftir, en gegn andmælum L hf. bar H sönnunarbyrðina fyrir slíku. Var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. apríl 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2013, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði leitaði varnaraðili eftir því með kröfu, sem barst héraðsdómi 18. október 2012, að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Til stuðnings því að sóknaraðili væri ógjaldfær vísaði varnaraðili þar til árangurslausrar löggeymslu, sem gerð var hjá sóknaraðila 12. sama mánaðar að kröfu þrotabús Dreifingar ehf., sbr. 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Þá greindi varnaraðili jafnframt frá því að hann teldi sóknaraðila standa í skuld við sig samkvæmt yfirlýsingu 18. júní 2007 um sjálfskuldarábyrgð á skuld að fjárhæð allt að 160.000.000 krónur vegna yfirdráttar á tékkareikningi nr. 0101-26-60126 í eigu Skúlagötu 30 ehf., sem upphaflega hafi verið hjá Landsbanka Íslands hf. Hafi heimild til yfirdráttarins fallið niður í árslok 2010 og skuld vegna hans þá numið 614.470.521 krónu. Bú Skúlagötu 30 ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila með úrskurði héraðsdóms 1. júlí 2011, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar 6. september sama ár í máli nr. 448/2011. Teldi varnaraðili kröfu sína á hendur sóknaraðila af þessu tilefni vera að fjárhæð 160.000.000 krónur auk 642.500 króna vegna kostnaðar. Sóknaraðili tók til varna gegn kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti og var mál þetta þingfest af því tilefni 28. nóvember 2012.
Í málinu liggur ekki annað fyrir en að sóknaraðili hafi átt allt hlutafé í Skúlagötu 30 ehf. og setið í stjórn þess félags. Í máli því, sem lauk með áðurnefndum dómi Hæstaréttar 6. september 2011, bar félagið meðal annars fyrir sig að sóknaraðili stæði í sjálfskuldarábyrgð fyrir 160.000.000 krónum af skuld þess við varnaraðila vegna yfirdráttar á tékkareikningnum, sem áður var getið. Því var ekki borið þar við að ábyrgð þessi væri háð öðrum takmörkunum en þeirri að fjárhæð hennar væri bundin framangreindu hámarki. Þá er þess að gæta að í máli þessu hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að krafa sú, sem varnaraðili hefur hér uppi, hafi verið greidd eða gefin eftir, en gegn andmælum varnaraðila ber sóknaraðili sönnunarbyrði fyrir slíku. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Haukur Hjaltason, greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2013.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 7. mars sl.
Sóknaraðili, Landsbankinn hf., krefst þess að bú varnaraðila, Hauks Hjaltasonar, verði tekið til gjaldþrotaskipta skv. 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar.
I
Í gjaldþrotaskiptabeiðni sóknaraðila, Landsbankans hf., kemur fram að varnaraðili, Haukur Hjaltason, skuldi sóknaraðila 160.642.500 kr. Krafan sé samkvæmt sjálfskuldarábyrgð nr. 0101-63-111345, útg. 18.6.2007, til tryggingar á yfirdrætti á reikningi nr. 0101-26-060126, reikningshafi Skúlagata 30 ehf. Bú Skúlagötu 30 ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta þann 1. júlí 2011. Yfirdráttarheimild á reikningnum hafi runnið út þann 31.12.2010 án þess að skuld reikningsins, 614.470.521 kr., væri greidd. Varnaraðila hafi verið sent innheimtubréf þann 27.09.2012 og því muni ábyrgðarskuldbinding hans bera dráttarvexti frá 27.10.2012, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
II
Varnaraðili kveðst hafa verið í miklum viðskiptum við sóknaraðila, bæði persónulega og eins í gegnum fyrirtæki sín Dreifingu hf. og Skúlagötu 30 ehf. Árið 2007 hafi Skúlagata 30 ehf. hafið byggingu fasteigna að Brúarvogi 1-3 í Reykjavík og hafi sóknaraðili gert tilboð í fjármögnun framkvæmdanna sem hafi hljóðað upp á 550 milljóna króna lánasamning í erlendri myntkörfu og að auki allt að 160 milljóna króna fyrirgreiðslu í formi heimildar vegna greiðslu á virðisaukaskatti og yrði ádráttur samhliða verkframvindu.
Eins og tilboð sóknaraðila um lánafyrirgreiðslu beri með sér hafi síðarnefndu fyrirgreiðslunni verið ætlað það eitt að tryggja greiðslu á virðisaukaskatti, sem byggingaraðili hafði gengist undir með sérstakri skráningu virðisaukaskatts.
Að kröfu sóknaraðila hafi til tryggingar fyrirgreiðslunni verið gefið út 180 milljóna króna tryggingarbréf tryggt með 2. veðrétti fasteignarinnar að Brúarvogi, krossveðsetningu á fasteignunum að Flatahrauni 27, Vatnagörðum 6 og Vatnagörðum 8. Þá hafi sóknaraðili undirritað sjálfskuldarábyrgð 18. júní 2007.
Ábyrgð varnaraðila hafi óskipt verið látin ná til alls ádráttar tiltekins reiknings í stað þess að hún væri takmörkuð við ádrátt vegna greiðslu virðisaukaskatts eins og samþykkt tilboð hafi hljóðað upp á. Sjálfskuldarábyrgðin hafi því hvorki verið efnislega samhljóða tilboði bankans né umsókn um veltureikning en um það hafi varnaraðili ekki verið upplýstur.
Allar skuldir er Skúlagata 30 ehf. hafi stofnað til vegna greiðslu virðisaukaskatts séu að fullu uppgreiddar og sé því sjálfsábyrgð varnaraðila niður fallin.
Bú Skúlagötu 30 ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota 1. júlí 2011 og hafi skuldir félagsins numið 2.144.482.587 kr., þar af 506.653.211 kr. vegna tékkareiknings nr. 060126. Varnaraðili hafi frá öndverðu hafnað útreikningum krafna á hendur Skúlagötu 30 ehf. Lán hafi verið veitt í erlendri mynt og engin leiðrétting liggi fyrir. Þá hafi sóknaraðili nú þegar leyst til sín allar tryggingar og fasteignir félagsins án þess að gera nokkra grein fyrir þeim verðmætum. Varnaraðili telji að sóknaraðili hafi nú þegar fengið fullar heimtur krafna sinna.
Varnaraðili byggir á að sóknaraðili sé ekki lánardrottinn varnaraðila eins og áskilið sé í 65. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili byggir á að skýra verði efni sjálfskuldarábyrgðarinnar með hliðsjón af tilboði sóknaraðila og því sem fram fór þeirra á millum. Varnaraðila hafi aldrei verið ætlað að gangast í ábyrgð fyrir öðrum fjárskuldbindingum Skúlagötu 30 ehf. en þeim sem félagið stofnaði til vegna greiðslu virðisaukaskatts. Fjárhæð fyrirgreiðslunnar og fjárhæð sjálfskuldarábyrgðarinnar staðfesti það. Skúlagata 30 ehf. hafi greitt allar þær skuldbindingar sínar við sóknaraðila og því eigi sóknaraðili engar kröfur á hendur varnaraðila.
Varnaraðili árétti að sóknaraðili sé sérfróður aðili sem hafi annast alla skjalagerð sjálfur. Mikill aðstöðumunur hafi verið á aðilum við frágang fjármögnunar. Ljóst megi vera að varnaraðili hefði ekki skrifað undir efni sjálfskuldarábyrgðarinnar hefði honum verið ljóst að hún væri önnur og meiri en fram kom í tilboði sóknaraðila. Sjálfskuldarábyrgðin sé ekki í samræmi við tilboð bankans og umsókn Skúlagötu 30 ehf. um veltureikning þann er ábyrgð varnaraðila taki til. Enn fremur sé ábyrgðin í ósamræmi við fullyrðingar starfsmanna bankans. Með hliðsjón af ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 beri að víkja sjálfskuldarábyrgð varnaraðila til hliðar, enda ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af sóknaraðila að bera hana fyrir sig.
Þá áskilji ákvæði 1. mgr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 að fjármálafyrirtæki skuli starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Sóknaraðili hafi áskilið sér betri rétt, gegn betri vitund, en hann hafi boðið varnaraðila og haldi þeim rétti enn fram fullum fetum þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir um annað.
Þá byggir varnaraðili á því að sóknaraðili eigi ekki kröfu eftir tékkareikningi nr. 060126 og þar af leiðandi sé sjálfskuldarábyrgð varnaraðila niður fallin. Það liggi fyrir að sóknaraðili hefur leyst til sín allar tryggingar og að eignir standi fyllilega undir kröfum. Þá hafi sóknaraðili ekki gert grein fyrir kröfum sínum á hendur varnaraðila né þeim verðmætum sem hann hefur fengið upp í þær. Varnaraðili telji hins vegar að eignir Skúlagötu 30 ehf. séu langtum verðmætari en skuldir þær er eignirnar stóðu til tryggingar. Engir endurútreikningar liggi til grundvallar lánum þeim er Skúlagötu 30 ehf. voru veitt og gjaldféllu.
Enn fremur byggir varnaraðili á því að ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, eins og þeim var breytt með 17. gr. laga nr. 95/2010 gangi gegn ákvæði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Löggeymslan hafi verið gerð eftir dómsorði sem hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar. Ekki hafi verið endanlega skorið úr um lögmæti kröfunnar sem varnaraðili hafni. Varnaraðili hafi mikilsverðra fjárhagslegra hagsmuna að gæta, sem teljast til eignarréttar, af því að bú hans sé ekki tekið til skipta. Ákvæði 65. gr. laga nr. 21/1991 gangi lengra en stjórnarskrá heimili og veiti ekki þá réttarvernd sem hverjum manni eigi að vera tryggð sem grundvallarmannréttindi.
Um lagarök vísar varnaraðili til ákvæða laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, einkum 65. gr. Þá vísar hann til meginreglna íslensks samningsréttar og kröfuréttar, ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Loks vísar varnaraðili til 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.
III
Sóknaraðili byggir kröfu sína um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila á 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, en þann 12. október 2012 fór fram árangurslaus löggeymsla hjá varnaraðila. Til löggeymslunnar var mættur lögmaður fyrir hönd varnaraðila sem lýsti því yfir að varnaraðili ætti engar eignir né nokkuð lausafé til tryggingar kröfu gerðarbeiðanda.
Með gjaldþrotaskiptabeiðni móttekinni 18. október 2012 krafðist sóknaraðili þess að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt beiðninni skuldar varnaraðili sóknaraðila samtals 160.642.500 kr., samkvæmt sjálfskuldarábyrgð nr. 0101-63-111345, útg. 18.6.2007, til tryggingar á yfirdrætti á reikningi nr. 0101-26-060126.
Varnaraðili kveðst hafa átt í miklun viðskiptum við sóknaraðila, bæði persónulega og eins í gegnum fyrirtæki sín Dreifingu ehf. og Skúlagötu 30 ehf., sem hóf á árinu 2007 byggingu fasteigna á lóð að Brúarvogi 1-3 í Reykjavík. Var fasteignin byggð í svokallaðri sérstakri skráningu virðisaukaskatts, þ.e. félagið gat innskattað þann virðisaukaskatt sem til féll vegna kostnaðar við bygginguna.
Fyrir liggur að samkvæmt tilboði sóknaraðila um fjármögnun framkvæmdanna var bankinn tilbúinn að veita m.a. allt að 160 milljóna króna fyrirgreiðslu í formi heimildar til greiðslu á virðisaukaskatti gegn því að til tryggingar væru settar tilteknar fasteignir og varnaraðili gengist í sjálfskuldarábyrgð.
Þann 18. júní 2007 gekkst varnaraðili í sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 160.000.000 kr. gagnvart sóknaraðila fyrir skuldum Skúlagötu 30 ehf., sem úrskurðað hefur verið gjaldþrota.
Varnaraðili heldur því fram að hann hafi aldrei ætlað að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir öðrum fjárskuldbindingum félagsins en vegna virðisaukaskatts.
Þó að það hafi verið upphaflegur tilgangur aðila að ábyrgð varnaraðila yrði takmörkuð með framangreindum hætti þá er ljóst að sjálfskuldarábyrgðin er án slíkrar takmörkunar. Þá er á það að líta að þó að varnaraðili geti ekki talist sérfróður aðili, eins og sóknaraðili, verði að líta til þess að hann var í miklum viðskiptum við sóknaraðila og því ekki sá aðstöðumunur á þeim sem hann heldur fram. Þá liggur ekki fyrir að varnaraðili hafi gert athugasemdir við efni sjálfskuldarábyrgðarinnar fyrr en í máli þessu. Samkvæmt því verður ekki talið að uppfyllt séu skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga til að víkja sjálfskuldarábyrgð varnaraðila til hliðar.
Þeirri málsástæðu varnaraðila að sóknaraðili hafi brotið gegn 1. mgr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki þykir verða að vísa á bug þar sem þau rök sem hún styðst við eiga sér enga stoð í gögnum málsins.
Varnaraðili byggir á að sóknaraðili eigi ekki kröfu eftir tékkareikningi nr. 060126 þar sem sóknaraðili hafi nú þegar fengið fullar heimtur krafna sinna með því að leysa til sín allar tryggingar og að eignir standi fyllilega undir skuldum við sóknaraðila þegar þær hafi verið rétt reiknaðar og uppgjör vegna ofgreiðslna á gengistryggðum lánum hafi farið fram. Þar sem verðmæti eignanna, sem sóknaraðili hafi keypt á nauðungarsölu, sé meira en heildarskuld hans við sóknaraðila séu ekki uppfyllt skilyrði til að taka megi bú hans til gjaldþrotaskipta.
Til stuðnings þessari málsástæðu sinni aflaði varnaraðili mats dómkvadds matsmanns á verðmæti þeirra eigna sem veðsettar voru sóknaraðila vegna lánafyrirgreiðslu sóknaraðila.
Þar sem sóknaraðili hefur leyst umræddar eignir til sín og ráðstafað verðmæti þeirra inn á þær skuldir er þær stóðu til tryggingar verður ekki fallist á að verðmat þeirra hafi þýðingu við úrlausn máls þessa.
Í máli þessu er gjaldþrotaskipta krafist á grundvelli árangurslausrar löggeymslu sem fram fór hjá varnaraðila 12. október 2012. Er því fullnægt skilyrði 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 17. gr. laga nr. 95/2010, í máli þessu. Það leiðir af 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 að sönnunarbyrði hvílir á varnaraðila að sýna fram á að hann verði allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum innan skamms tíma.
Varnaraðili hefur ekki sýnt fram á að eignir hans dugi fyrir skuldum hans við sóknaraðila, fyrir því ber hann sönnunarbyrði.
Samkvæmt framanröktu, og því að ekki er fallist á að ákvæði 65. gr. laga nr. 21/1991 fari í bága við ákvæði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, verður að fallast á kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila.
Í ljósi niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, skal varnaraðili greiða sóknaraðila málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Bú varnaraðila, Hauks Hjaltasonar, er tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili greiði sóknaraðila, Landsbankanum hf., 250.000 krónur í málskostnað.