Hæstiréttur íslands
Mál nr. 785/2013
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Gjöf
- Ógjaldfærni
|
|
Fimmtudaginn 5. júní 2014. |
|
Nr. 785/2013.
|
Þrotabú Fons hf. (Óskar Sigurðsson hrl.) gegn Eignarhaldsfélaginu Feng hf. (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Gjaldþrotaskipti. Riftun. Gjöf. Ógjaldfærni.
Þrotabú F hf. höfðaði mál á hendur E hf. til riftunar á gjafagerningum, sem falist hefðu í 39 leigugreiðslum F hf. til E hf. á tímabilinu frá 3. maí 2007 til 1. apríl 2009 fyrir tvær fasteignir. Þá krafðist þrotabú F hf. þess einnig að E hf. yrði gert að endurgreiða sér ávinning vegna þessa. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að leigugreiðslur fyrir fasteignirnar hefðu verið miklum mun hærri en eðlilegt gæti talist og að það sem hefði verið umfram eðlilegt leigugjald teldist gjöf í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Var því fallist á að borið hefði að rifta leigugreiðslum umfram það sem eðlilegt taldist síðustu sex mánuði fyrir frestdag við gjaldþrotaskiptin, eða á tímabilinu 30. október 2008 til 30. apríl 2009. Að því er varðaði kröfu þrotabús F hf. að einnig yrði rift greiðslum sem fram hefðu farið á síðustu sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag þar sem F hf. og E hf. hafi verið nákomnir í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 og F hf. ógjaldfært á því tímabili taldi Hæstiréttur að félögin teldust nákomin í skilningi 3. gr. laganna. Á hinn bóginn voru ekki talin skilyrði til annars en að telja að F hf. hefði verið gjaldfær fram til loka september 2008, hvorki á grundvelli 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 né 141. gr. laganna. Var því hafnað kröfu þrotabús F hf. um að rift yrði ráðstöfunum sem átt höfðu sér stað fyrir þann tíma. Var E hf. því gert að endurgreiða þrotabúi F hf. þá fjárhæð sem talin var umfram eðlilegt leigugjald vegna 14 leigugreiðslna á tímabilinu frá 1. október 2008 til 1. apríl 2009.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 9. október 2013. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 20. nóvember 2013 og áfrýjaði hann öðru sinni 17. desember sama ár. Hann krefst þess að rift verði með dómi gjafagerningum, sem falist hafi í 39 nánar tilgreindum leigugreiðslum Fons hf. til stefnda. Hann krefst þess jafnframt að stefnda verði gert að greiða sér 107.660.952 krónur aðallega með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 3. maí 2007 til greiðsludags, en til vara með vöxtum samkvæmt 4. gr. sömu laga af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 3. maí 2007 til 8. febrúar 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Bú Fons hf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 30. apríl 2009 og var sá dagur einnig frestdagur við skiptin, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þrotabúið höfðaði mál þetta til riftunar á ráðstöfunum sem það telur að hafi falist í 39 leigugreiðslum Fons hf. til stefnda frá 3. maí 2007 til 1. apríl 2009 fyrir tvær fasteignir í Reykjavík, Suðurgötu 22 og Eyjarslóð 9, en stefndi er eigandi þeirra beggja. Telur áfrýjandi að leigugjaldið fyrir Suðurgötu 22 hafi verið til muna of hátt, hæfilegt leigugjald fyrir fasteignina hafi verið 500.000 krónur á mánuði en engin þörf hafi verið á því fyrir Fons hf. að leigja Eyjarslóð 9. Áfrýjandi reisir kröfu sína í fyrsta lagi á því að rifta beri framangreindum ráðstöfunum að því marki sem í þeim hafi falist gjöf í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Telur hann að leigugreiðslur umfram 500.000 krónur á mánuði fyrir Suðurgötu 22 og allar leigugreiðslur fyrir Eyjarslóð 9 hafi verið gjafagerningar í skilningi framangreinds lagaákvæðis og séu því riftanlegar. Hann byggir kröfu sína jafnframt á 2. mgr. 131. gr. laganna, sem feli í sér að gjafagerningar í framangreindum skilningi, er fram hafi farið á síðustu sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag séu riftanlegir enda hafi hið gjaldþrota félag og stefndi verið nákomnir samkvæmt 3. gr. laganna og félagið hafi verið ógjaldfært á því tímabili sem áður greinir.
Verði ekki fallist á að framangreind lagaákvæði leiði til þess að rifta beri áðurnefndum ráðstöfunum styður áfrýjandi riftunarkröfu sína við 141. gr. laga nr. 21/1991.
Eins og greinir í héraðsdómi fékk áfrýjandi dómkvadda tvo menn til að meta hvert væri ,,eðlilegt og sanngjarnt“ leiguverð fyrir fasteignirnar tvær, sem um ræðir, frá 3. maí 2007 til og með 1. apríl 2009. Matsmennirnir svöruðu spurningunum í matsgerð 7. apríl 2011 þar sem fram kom hvert hið eðlilega og sanngjarna leiguverð hefði verið fyrir hvora fasteign í hverjum mánuði fyrir sig á því tímabili, sem matsbeiðni tiltók. Matsgerðinni, sem ekki er haldin annmörkum, hefur ekki verið hnekkt með yfirmati og verður hún lögð til grundvallar um hvað hafi verið hæfilegt leigugjald fyrir fasteignirnar. Verður ekki talið að áfrýjandi hafi fært sönnur á að engin þörf hafi verið á því fyrir Fons hf. að leigja eignina að Eyjarslóð 9. Fallist er á með héraðsdómi að leigugreiðslur fyrir báðar fasteignirnar hafi verið miklum mun hærri en eðlilegt getur talist og að sá hluti greiðslnanna, sem var umfram það sem talist getur eðlilegt leigugjald, sé gjöf í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Verður því fallist á að borið hafi að rifta sem gjafagerningum þeim ráðstöfunum Fons hf. sem fólust í leigugreiðslum umfram það sem eðlilegt gat talist síðustu sex mánuði fyrir frestdag, sem er tímabilið frá 30. október 2008 til 30. apríl 2009, að teknu tilliti til vaxta eins og síðar greinir.
Krafa áfrýjanda lýtur sem fyrr segir að því að rifta eigi leigugreiðslum sem inntar voru af hendi allt að tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag þar sem hið gjaldþrota félag og stefndi hafi verið nákomnir. Óumdeilt er að Fons hf. var að 53% í eigu Pálma Haraldssonar og að 47% í eigu Jóhannesar Kristinssonar fram til október 2008 en sá fyrrnefndi hafi þá eignast alla hluti í félaginu. Ómótmælt er að stefndi hafi verið að fullu í eigu Pálma Haraldssonar á því tímabili, sem hér skiptir máli. Í 5. tölulið 3. gr. laga nr. 21/1991, eins og það ákvæði var fram til 3. júlí 2010, er því var breytt með lögum nr. 95/2010, var mælt fyrir um að tvö félög teldust nákomin ef annað þeirra, eða maður nákominn öðru þeirra, ætti verulegan hlut í hinu. Pálmi Haraldsson, annar tveggja eigenda Fons hf., átti samkvæmt framansögðu verulegan hlut í því. Sem fyrr greinir átti hann stefnda að fullu. Félögin eru því nákomin í skilningi framangreinds lagaákvæðis.
Riftun samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 er háð því skilyrði að ekki sé leitt í ljós að Fons hf. hafi verið gjaldfært á því tímabili, sem ákvæðið tekur til og það þrátt fyrir hina riftanlegu ráðstöfun. Sönnunarbyrði um gjaldfærni samkvæmt lagaákvæðinu hvílir á stefnda. Hann hefur lýst því yfir að hann hafi orðið ógjaldfær 29. september 2008 er hlutafé hans í FL Group hf. hafi orðið verðlaust á einni nóttu. Fram til þess tíma hafi hann verið gjaldfær. Því til sönnunar vísar hann einkum til ársreikninga Fons hf. 2005, 2006, 2007 og 2008 en samkvæmt þessum reikningsskilum hafi eignir félagsins verið langt umfram skuldir þess. Í matsgerð dómkvadds manns, sem lagði mat á ýmsa þætti í ársreikningum Fons hf. vegna áranna 2004 til 2008, kemst matsmaðurinn í meginatriðum að þeirri niðurstöðu að reikningsskil félagsins séu í samræmi við lög og reglur að því er varðar stöðu eigna og skulda. Verður fallist á í máli þessu að sannað sé að Fons hf. hafi verið gjaldfært fram til 29. september 2008 í þeim skilningi að eignir þess hafi verið meiri en skuldir.
Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að skýra beri orðið gjaldfær í 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 á þann veg, að í því felist krafa um að Fons hf. hafi verið greiðslufært, en merking þess sé að félagið hefði þurft að geta greitt skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga og ekki sennilegt að greiðsluörðugleikarnir myndu líða hjá innan skamms. Þessi skilningur sé í samræmi við ákvæði 64. gr. laganna, sem mælir fyrir um hvenær skylt sé að beiðast gjaldþrotaskipta og síðari tíma viðhorf um skýringu á hugtakinu gjaldfærni í XX. kafla þeirra. Í þessu sambandi bendir áfrýjandi á að veruleg óvissa hafi verið um fjárhagsstöðu félagsins þegar á haustmánuðum 2007. Félagið hafi í september það ár greitt eigendum sínum 4.400.000.000 krónur í arð, en ekki átt það fé handbært, heldur þurft að taka til þess lán hjá Landsbanka Íslands hf. Í nóvember og desember 2007 hafi félagið tekið fjögur lán til áhættufjárfestinga sem samanlagt hafi numið um 27.000.000.000 krónum. Félagið hafi ekki getað greitt þessi lán á gjalddaga og þurft að fresta greiðslum. Ljóst hafi verið í júní 2008 að félagið hafði þá tapað verulegum fjárhæðum vegna framvirkra samninga við Glitni banka hf. um hlutabréfaviðskipti og að verulegt tap varð á rekstri félagsins á fyrri hluta ársins. Þá vísar áfrýjandi til bókana á tveimur stjórnarfundum í Fons hf., öðrum í nóvember 2007, þar sem fram komi að greiðsla sem yrði á gjalddaga í desember 2007 myndi reynast félaginu þungbær en myndi bjargast, en hinum í mars 2008 þar sem fram komi að óveðursský væru á lofti allt í kringum félagið.
Við mat á því hvort Fons hf. hafi verið greiðslufært frá því í maí 2007 og fram til loka september 2008 verður að líta til þess, sem áður greinir, að reikningsskil félagsins báru með sér að eignir þess á tímabilinu væru mun meiri en skuldir. Félagið naut lánstrausts banka eins og áður greinir og Glitnir banki hf. hafði fallist á að fresta gjalddögum á lánum, sem vera áttu um mitt ár 2008. Þótt mikil óvissa hafi verið á fjármálamörkuðum er leið á árið 2008 og um verðmæti eigna Fons hf. er ósannað í málinu að almennt hafi verið fyrirséð hvernig á endanum fór um þessa þætti í lok september og október þetta ár. Samkvæmt framansögðu eru ekki skilyrði til annars en að telja að Fons hf. hafi verið greiðslufært fram til loka september 2008, hvorki á grundvelli 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 né 141. gr. þeirra laga. Verður því hafnað kröfu áfrýjanda um að rifta skuli ráðstöfunum félagsins umfram það sem héraðsdómur hefur fallist á.
Áfrýjandi á rétt á vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 á þær fjárhæðir sem til hans falla samkvæmt framansögðu og dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.
Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Stefndi, Eignarhaldsfélagið Fengur hf., greiði áfrýjanda, þrotabúi Fons hf., 25.328.652 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 3.470.803 krónum frá 1. október 2008 til 1. nóvember sama ár, af 6.971.564 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 10.547.779 krónum frá þeim degi til 5. janúar 2009, af 14.186.130 krónum frá þeim degi til 4. febrúar sama ár, af 17.879.961 krónu frá þeim degi til 2. mars sama ár, af 21.594.875 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár en af 25.328.652 krónum frá þeim degi til 8. febrúar 2010 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 15. maí sl., var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 22. janúar 2010.
Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur í málinu:
1. Að rift verði með dómi eftirfarandi greiðslum Fons hf. til stefnda:
1) 1.681.477 kr. frá 3. maí 2007,
2) 1.695.870 kr. frá 6. júní 2007,
3) 1.704.631 kr. frá 5. júlí 2007,
4) 1.708.385 kr. frá 14. ágúst 2007,
5) 1.709.011 kr. frá 5. september 2007,
6) 1.731.539 kr. frá 1. október 2007,
7) 1.740.300 kr. frá 1. nóvember 2007,
8) 1.751.564 kr. frá 1. desember 2007,
9) 3.324.909 kr. frá 17. janúar 2008,
10) 9.160.940 kr. frá 17. janúar 2008,
11) 3.334.348 kr. frá 4. febrúar 2008,
12) 3.330.808 kr. frá 4. mars 2008,
13) 14.710.315 kr. frá 7. mars 2008,
14) 3.376.824 kr. frá 2. apríl 2008,
15) 1.684.104 kr. frá 2. apríl 2008,
16) 3.426.379 kr. frá 5. maí 2008,
17) 1.708.819 kr. frá 5. maí 2008,
18) 3.543.187 kr. frá 5. júní 2008,
19) 1.767.074 kr. frá 5. júní 2008,
20) 3.591.562 kr. frá 9. júlí 2008,
21) 1.791.200 kr. frá 1. júlí 2008,
22) 3.623.419 kr. frá 1. ágúst 2008,
23) 1.807.087 kr. frá 1. ágúst 2008,
24) 3.567.636 kr. frá 2. september 2008,
25) 1.824.152 kr. frá 2. september 2008,
26) 3.690.673 kr. frá 1. október 2008,
27) 1.840.628 kr. frá 1. október 2008,
28) 3.722.529 kr. frá 1. nóvember 2008,
29) 1.856.516 kr. frá 1. nóvember 2008,
30) 3.802.762 kr. frá 1. desember 2008,
31) 1.896.530 kr. frá 1. desember 2008,
32) 3.868.835 kr. frá 5. janúar 2009,
33) 1.929.482 kr. frá 5. janúar 2009,
34) 3.927.829 kr. frá 4. febrúar 2009,
35) 1.958.904 kr. frá 4. febrúar 2009,
36) 3.950.247 kr. frá 2. mars 2009,
37) 1.970.084 kr. frá 2. mars 2009,
38) 3.970.305 kr. frá 1. apríl 2009,
39) 1.980.088 kr. frá 1. apríl 2009.
2. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 107.660.952 kr. að viðbættum dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 1.181.477,00 kr. frá 03.05.2007 til 06.06.2007, af 2.377.347,00 kr. frá 06.06.2007 til 05.07.2007, af 3.581.978,00 kr. frá 05.07.2007 til 14.08.2007, af 4.790.363,00 kr. frá 14.08.2007 til 05.09.2007, af 5.999.374,00 kr. frá 05.09.2007 til 01.10.2007, af 7.230.913,00 kr. frá 01.10.2007 til 01.11.2007, af 8.471.213,00 kr. frá 01.11.2007 til 01.12.2007, af 9.722.777,00 kr. frá 01.12.2007 til 17.01.2008, af 21.708.626,00 kr. frá 17.01.2008 til 04.02.2008, af 24.542.974,00 kr. frá 04.02.2008 til 04.03.2008, af 27.373.782,00 kr. frá 04.03.2008 til 07.03.2008, af 42.084.097,00 kr. frá 07.03.2008 til 02.04.2008, af 46.645.025,00 kr. frá 02.04.2008 til 05.05.2008, af 51.280.223,00 kr. frá 05.05.2008 til 05.06.2008, af 56.090.484,00 kr. frá 05.06.2008 til 01.07.2008, af 57.881.684,00 kr. frá 01.07.2008 til 09.07.2008, af 60.973.246,00 kr. frá 09.07.2008 til 01.08.2008, af 65.903.752,00 kr. frá 01.08.2008 til 02.09.2008, af 70.795.540,00 kr. frá 02.09.2008 til 01.10.2008, af 75.826.841,00 kr. frá 01.10.2008 til 01.11.2008, af 80.905.886,00 kr. frá 01.11.2008 til 01.12.2008, af 86.105.178,00 kr. frá 01.12.2008 til 05.01.2009, af 91.403.495,00 kr. frá 05.01.2009 til 04.02.2009, af 96.790.228,00 kr. frá 04.02.2009 til 02.03.2009, af 102.210.559,00 kr. frá 02.03.2009 til 01.04.2009, af 107.660.952,00 kr. frá 01.04.2009 til greiðsludags.
3. Til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 107.660.952 kr. að viðbættum almennum vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 1.181.477,00 kr. frá 03.05.2007 til 06.06.2007, af 2.377.347,00 kr. frá 06.06.2007 til 05.07.2007, af 3.581.978,00 kr. frá 05.07.2007 til 14.08.2007, af 4.790.363,00 kr. frá 14.08.2007 til 05.09.2007, af 5.999.374,00 kr. frá 05.09.2007 til 01.10.2007, af 7.230.913,00 kr. frá 01.10.2007 til 01.11.2007, af 8.471.213,00 kr. frá 01.11.2007 til 01.12.2007, af 9.722.777,00 kr. frá 01.12.2007 til 17.01.2008, af 21.708.626,00 kr. frá 17.01.2008 til 04.02.2008, af 24.542.974,00 kr. frá 04.02.2008 til 04.03.2008, af 27.373.782,00 kr. frá 04.03.2008 til 07.03.2008, af 42.084.097,00 kr. frá 07.03.2008 til 02.04.2008, af 46.645.025,00 kr. frá 02.04.2008 til 05.05.2008, af 51.280.223,00 kr. frá 05.05.2008 til 05.06.2008, af 56.090.484,00 kr. frá 05.06.2008 til 01.07.2008, af 57.881.684,00 kr. frá 01.07.2008 til 09.07.2008, af 60.973.246,00 kr. frá 09.07.2008 til 01.08.2008, af 65.903.752,00 kr. frá 01.08.2008 til 02.09.2008, af 70.795.540,00 kr. frá 02.09.2008 til 01.10.2008, af 75.826.841,00 kr. frá 01.10.2008 til 01.11.2008, af 80.905.886,00 kr. frá 01.11.2008 til 01.12.2008, af 86.105.178,00 kr. frá 01.12.2008 til 05.01.2009, af 91.403.495,00 kr. frá 05.01.2009 til 04.02.2009, af 96.790.228,00 kr. frá 04.02.2009 til 02.03.2009, af 102.210.559,00 kr. frá 02.03.2009 til 01.04.2009, af 107.660.952,00 kr. frá 01.04.2009 til 8.2.2010 en dráttarvexti af þeirri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.
4. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts af málskostnaði.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. Krefst stefndi þess að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur aðili.
I.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2009, var bú Fons hf. tekið til gjaldþrotaskipta og Óskar Sigurðsson hrl. skipaður skiptastjóri í þrotabúinu. Frestdagur við gjaldþrotaskiptin var 30. apríl 2009 og innköllun til kröfuhafa birtist í fyrsta sinn í Lögbirtingablaði hinn 25. maí 2009. Kröfulýsingarfresti lauk því 25. júlí 2009. Lýstar kröfur námu samtals 39.842.349.173 krónum.
Fons hf. var fjárfestingarfélag og var tilgangur þess samkvæmt samþykktum félagsins lánastarfsemi, rekstur fasteigna, verðbréfaviðskipti og fjárfestingar í fyrirtækjum, sem félagið taldi arðvænlegar á hverjum tíma.
Fons hf. var í eigu félagsins Matthews Holding SA en eigendur þess voru í upphafi Pálmi Haraldsson, sem átti 53% eignarhlut, og Jóhannes Kristinsson, sem átti 47% eignarhlut í félaginu. Í október 2008 eignaðist Pálmi hlut Jóhannesar í Matthews Holding og átti því félagið að öllu leyti frá og með þeim tíma. Samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá er stefndi einnig að öllu leyti í eigu Pálma Haraldssonar.
Fons hf. greiddi um nokkurt skeið húsaleigu til stefnda vegna tveggja fasteigna, Suðurgötu 22, Reykjavík, fastanúmer 200-3867, þar sem skrifstofur félagsins voru til húsa, og Eyjarslóð 9, Reykjavík, fastanúmer 200-0089, sem notuð var sem geymsluhúsnæði félagsins. Á tímabilinu frá 1. maí 2007 til og með apríl 2009 greiddi Fons samtals 80.935.968 krónur til stefnda í húsaleigu vegna Suðurgötu 22. Samkvæmt yfirliti yfir greiðslur Fons hf. til stefnda námu mánaðarlegar greiðslur vegna leigu á Suðurgötu 22 frá tæplega 1.700.000 krónum og allt upp í tæplega 4.000.000 króna á mánuði, auk viðbótargreiðslna sem námu hærri upphæðum. Frá júlí 2007 til og með apríl 2009 greiddi Fons hf. stefnda samtals 38.724.983 krónur í húsaleigu vegna Eyjarslóðar 9. Námu leigugreiðslur fyrir hvern mánuð vegna Eyjarslóðar að jafnaði frá um 1.700.000 krónum upp í tæplega 2.000.000 króna, auk viðbótargreiðslna vegna Eyjarslóðar sem námu mun hærri fjárhæðum.
Því er lýst í stefnu að í ljósi hagsmuna- og eignatengsla Fons hf. og stefnda hafi verið talið ljóst að félögin tvö væru nátengdir aðilar í skilningi 4., 5. og 6. tl. 3. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Hafi skiptastjóri skoðað bókhaldsgögn stefnanda með hliðsjón af riftunarreglum XX. kafla gjaldþrotalaga. Með hliðsjón af tengslum Fons hf. og stefnda og þeim upphæðum, sem Fons hf. hafi greitt stefnda mánaðarlega í formi húsaleigu, hafi skiptastjóri litið svo á að í greiðslunum hefðu falist gjafagerningar. Hafi ekki fundist samningar í bókhaldsgögnum þrotabúsins um leigu Fons hf. á því húsnæði.
Að mati skiptastjóra hafi þær upphæðir, sem Fons hf. greiddi í húsaleigu, verið mun hærri en eðlilegt og sanngjarnt var að greiða fyrir húsnæðið. Skiptastjóri sendi því stefnda bréf, dagsett 8. janúar 2010, þar sem þeirri afstöðu var lýst að í greiðslunum hefðu falist gjafagerningar sem væru riftanlegir á grundvelli ákvæðis 131. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefnandi lýsti yfir riftun á greiðslunum og skoraði á stefnda að endurgreiða upphæðina fyrir 15. janúar sama ár.
Stefndi mótmælti riftun greiðslnanna með bréfi, dagsettu 20. janúar 2010, og því borið við að eðlilegt leiguverð hefði verið greitt vegna fasteignarinnar að Suðurgötu 22. Varðandi leigugreiðslur vegna fasteignarinnar að Eyjarslóð 9 var því m.a. haldið fram að Fons hf. hefði verið í sjálfsvald sett að ákveða upphæð leigugreiðslna vegna fasteignarinnar, m.a. þar sem sem félagið hefði verið gjaldfært þegar umræddar greiðslur fóru fram. Var kröfum stefnanda hafnað á grundvelli fyrrgreindra raka og taldi stefnandi því nauðsynlegt að höfða mál þetta til innheimtu skuldarinnar.
Í málinu liggur frammi matsgerð dómkvaddra matsmanna, Jóns Guðmundssonar og Sverris Kristinssonar, löggiltra fasteignasala, dagsett 7. apríl 2011, sem aflað var undir rekstri málsins. Var í matsbeiðni stefnanda óskað eftir því að matsmenn legðu mat á það hvert væri eðlilegt og sanngjarnt verð fyrir leigu á annars vegar fasteigninni að Suðurgötu 22 og hins vegar fasteigninni að Eyjarslóð 9, á tímabilinu frá 3. maí 2007 til og með 1. apríl 2009. Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar kemur fram að eðlilegt og sanngjarnt leiguverð á umræddu tímabili hafi verið 42.400.889 krónur fyrir fasteignina að Suðurgötu 22 en 4.505.092 krónur fyrir fasteignina að Eyjarslóð 9. Í matsgerðinni er jafnframt að finna nánari sundurliðun á leiguverði hvers mánaðar vegna beggja eignanna á umræddu tímabili, þannig:
Suðurgata 22. Fastanr. 200-3867
leigugreiðslur frá 3. maí 2007 til og með 1. apríl 2009
|
2007 |
Vísitala |
Grunnleiga |
Uppreikn. leiga skv. vísit. |
|
maí |
268,7 |
1.600.000 |
1.600.000 |
|
júní |
271 |
1.600.000 |
1.613.696 |
|
júlí |
272,4 |
1.600.000 |
1.622.032 |
|
ágúst |
273 |
1.600.000 |
1.625.605 |
|
september |
273,1 |
1.600.000 |
1.626.200 |
|
október |
276,7 |
1.600.000 |
1.647.637 |
|
nóvember |
278,1 |
1.600.000 |
1.655.973 |
|
desember |
279,9 |
1.600.000 |
1.666.691 |
|
Leiga 2007 |
13.057.834 |
|
2008 |
Vísitala |
Grunnleiga |
Uppreikn.leiga skv. vísit. |
|
janúar |
281,8 |
1.600.000 |
1.678.005 |
|
febrúar |
282,6 |
1.600.000 |
1.682.769 |
|
mars |
282,3 |
1.600.000 |
1.680.982 |
|
apríl |
286,2 |
1.600.000 |
1.704.205 |
|
maí |
290,4 |
1.600.000 |
1.729.215 |
|
júní |
300,3 |
1.600.000 |
1.788.165 |
|
júlí |
304,4 |
1.600.000 |
1.812.579 |
|
ágúst |
307,1 |
1.600.000 |
1.828.656 |
|
september |
310 |
1.600.000 |
1.845.925 |
|
október |
312,8 |
1.600.000 |
1.862.597 |
|
nóvember |
315,5 |
1.600.000 |
1.878.675 |
|
desember |
322,3 |
1.600.000 |
1.919.166 |
|
Leiga 2008 |
21.410.939 |
|
2009 |
Vísitala |
Grunnleiga |
Uppreikn.leiga skv. vísit. |
|
janúar |
327,9 |
1.600.000 |
1.952.512 |
|
febrúar |
332,9 |
1.600.000 |
1.982.285 |
|
mars |
334,8 |
1.600.000 |
1.993.598 |
|
apríl |
336,5 |
1.600.000 |
2.003.721 |
|
Leiga 2009 |
7.932.116 |
|
Leiga samtals |
42.400.889 |
Eyjarslóð 9. Fastanr. 200-0089
leigugreiðslur frá 3. maí 2007 til og með 1. apríl 2009
|
2007 |
Vísitala |
Grunnleiga |
Uppreikn. leiga skv. vísit. |
|
maí |
268,7 |
170.000 |
170.000 |
|
júní |
271 |
170.000 |
171.455 |
|
júlí |
272,4 |
170.000 |
172.341 |
|
ágúst |
273 |
170.000 |
172.720 |
|
september |
273,1 |
170.000 |
172.784 |
|
október |
276,7 |
170.000 |
175.061 |
|
nóvember |
278,1 |
170.000 |
175.947 |
|
desember |
279,9 |
170.000 |
177.086 |
|
Leiga 2007 |
1.387.394 |
|
2008 |
Vísitala |
Grunnleiga |
Uppreikn.leiga skv. vísit. |
|
janúar |
281,8 |
170.000 |
178.288 |
|
febrúar |
282,6 |
170.000 |
178.794 |
|
mars |
282,3 |
170.000 |
178.604 |
|
apríl |
286,2 |
170.000 |
181.072 |
|
maí |
290,4 |
170.000 |
183.729 |
|
júní |
300,3 |
170.000 |
189.993 |
|
júlí |
304,4 |
170.000 |
192.587 |
|
ágúst |
307,1 |
170.000 |
194.295 |
|
september |
310 |
170.000 |
196.130 |
|
október |
312,8 |
170.000 |
197.901 |
|
nóvember |
315,5 |
170.000 |
199.609 |
|
desember |
322,3 |
170.000 |
203.911 |
|
Leiga 2008 |
2.274.913 |
|
2009 |
Vísitala |
Grunnleiga |
Uppreikn.leiga skv. vísit. |
|
janúar |
327,9 |
170.000 |
207.454 |
|
febrúar |
332,9 |
170.000 |
210.617 |
|
mars |
334,8 |
170.000 |
211.819 |
|
apríl |
336,5 |
170.000 |
212.895 |
|
Leiga 2009 |
842.785 |
|
Leiga samtals |
4.505.092 |
Í málinu liggur einnig frammi matsgerð dómkvadds matsmanns, Valdimars Guðnasonar endurskoðanda, dagsett 2. júlí 2012, sem stefnandi aflaði í sérstöku matsmáli hér fyrir dóminum. Samkvæmt matsgerðinni var þess óskað að lagt yrði mat á ákveðna þætti í ársreikningum Fons Eignarhaldsfélags hf. árin 2004-2008, nánar tiltekið um meðferð á afkomu og stöðu dóttur- og hlutdeildarfélaga félagsins.
II.
Stefnandi vísar til þess að stefndi sé að öllu leyti í eigu Pálma Haraldssonar. Fons hf. hafi einnig verið að meirihluta í eigu Pálma og síðar að öllu leyti í hans eigu, auk þess sem hann hafi starfað sem framkvæmdastjóri félagsins. Að mati stefnanda hafi aðilarnir því verið nákomnir í skilningi laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. ákvæði 3. gr. sömu laga, á þeim tíma er fyrrgreindar leigugreiðslur fóru fram.
Aðalkröfu sína og varakröfu um riftun byggir stefnandi í fyrsta lagi á því að í leigugreiðslum Fons hf. til stefnda hafi falist gjafagerningar. Hafi greiðslurnar farið fram innan þess tímaramma, sem ákvæði 131. gr. gjaldþrotalaga markar, og séu þær því riftanlegar á grundvelli sama ákvæðis. Þá telur stefnandi að Fons hf. hafi í raun verið ógjaldfært þegar greiðslan fór fram.
Varðandi leigu húsnæðisins að Suðurgötu 22 bendir stefnandi á að umrætt húsnæði sé samtals 507.2 fermetrar að stærð og skráð sem gistiheimili í opinberum gögnum. Þá hafi stefndi sjálfur haft starfsstöð sína að Suðurgötu 22. Að mati stefnanda hefði hæfilegt endurgjald Fons hf. fyrir afnot af húsnæðinu verið 500.000 krónur á mánuði, m.a. með hliðsjón af þessum staðreyndum, og miði stefnandi við það í máli þessu. Í ljósi þess að Fons hf. hafi greitt stefnda allt að 4.000.000 króna á mánuði, telji stefnandi því að fjárhæð þeirrar mánaðarleigu, sem sé umfram 500.000 krónur, sé gjafagerningur í skilningi 131. gr. gjaldþrotalaga. Taki endurgreiðslukrafa stefnanda mið af því.
Að því er varðar leigu húsnæðisins að Eyjarslóð 9, verði ekki séð að Fons hf. hafi haft nokkra þörf fyrir aðgang að eða afnot af húsnæðinu en húsnæðið sé 139 fermetra stórt iðnaðarhúsnæði. Hafi það enn fremur verið í ósamræmi við tilgang Fons hf. samkvæmt samþykktum félagsins að leigja slíkt húsnæði.
Stefnandi byggir á því, að endurgjald hafi ekki komið í stað þeirra leigugreiðslna vegna Suðurgötu 22, sem séu umfram 500.000 krónur. Þá hafi ekkert endurgjald komið í stað þeirra leigugreiðslna, sem runnið hafi til stefnda vegna Eyjarslóðar 9. Hafi greiðslurnar því haft í för með sér rýrnun á eignum Fons hf. Nemi rýrnunin sömu fjárhæð og þeirri, sem var umfram 500.000 krónur á mánuði vegna Suðurgötu 22, og allri þeirri upphæð, sem greidd hafi verið vegna Eyjarslóðar 9. Hafi rýrnunin haft í för með sér samsvarandi aukningu á eignum stefnda. Virðist tilgangur greiðslnanna hafa verið sá að gefa stefnda þá fjármuni sem skipt hafi um hendur með greiðslunum. Afar líklegt er að sá hafi verið tilgangurinn í ljósi þess að Fons hf. og stefndi hafi verið nátengdir aðilar á þeim tíma er fjármunirnir skiptu um hendur. Beri því að rifta greiðslunum.
Samkvæmt ákvæði 131. gr. gjaldþrotalaga séu þeir gjafagerningar riftanlegir sem eiga sér stað sex mánuðum fyrir frestdag. Þá séu gjafagerningar, sem eiga sér stað sex til 24 mánuðum fyrir frestdag einnig riftanlegir, sé um nákomna aðila að ræða. Í ljósi þess að stefndi og Fons hf. hafi verið nátengdir aðilar í skilningi gjaldþrotalaga, sé ljóst að Fons hf. hafi greitt stefnda umræddar fjárhæðir innan þeirra tímamarka sem mörkuð séu í ákvæði 2. mgr. 131. gr. laganna. Stefnandi byggir enn fremur á því að Fons hf. hafi verið ógjaldfær á þeim tíma þegar umræddar greiðslur áttu sér stað. Hvílir á stefnda að sýna fram á að svo hafi ekki verið. Krefjist stefnandi því í aðalkröfu sinni riftunar á öllum þeim leigugreiðslum, sem hafi farið á síðustu 24 mánuðum fyrir frestdag vegna leigu á Suðurgötu 22 og Eyjarslóð 9. Í kröfugerð stefnanda sé því vísað til og krafist riftunar á öllum slíkum greiðslum, sem fóru fram á tímabilinu frá maí 2007 til apríl 2009.
Í öðru lagi byggir stefnandi aðal- og varakröfu sína um riftun á þeirri málsástæðu, að í nefndri greiðslu hafi falist ráðstöfun, sem var stefnda á ótilhlýðilegan hátt til hagsbóta á kostnað kröfuhafa Fons hf., leiddi til þess að eignir félagsins yrðu ekki til reiðu til fullnustu öðrum kröfuhöfum og leiddi til skuldaaukningar, öðrum kröfuhöfum Fons hf. til tjóns. Þá telur stefnandi að Fons hf. hafi í raun verið ógjaldfært þegar greiðslan fór fram. Í ljósi sameiginlegs eignarhalds stefnda og náinna tengsla við Fons hf. hafi stefndi jafnframt vitað eða mátt vita um ógjaldfærni Fons hf. og/eða þær aðstæður sem leiddu til þess að greiðslurnar voru ótilhlýðilegar. Séu greiðslurnar því riftanlegar á grundvelli ákvæðis 141. gr. laga gjaldþrotalaga.
Við mat á ótilhlýðileika greiðslnanna beri einkum að líta til eftirfarandi atriða:
a) Mikil og náin tengsl hafi verið milli stefnda og Fons hf.
b) Engir samningar hafi verið til staðar á milli Fons hf. og stefnda um leigugreiðslur.
c) Stefndi hafi haft starfsstöð í sama húsnæði og leigt var að Suðurgötu 22.
d) Húsnæðið að Suðurgötu 22 sé skráð sem gistiheimili í opinberum skrám.
e) Fons hf. hafi ekki haft þörf fyrir aðgang að eða afnot af iðnaðarhúsnæðinu að Eyjarslóð 9.
f) Leiga Fons hf. á iðnaðarhúsnæði á borð við Eyjarslóð 9 hafi verið í ósamræmi við skráðan tilgang félagsins.
g) Fons hf. hafi verið ógjaldfært á þeim tíma sem greiðslurnar fóru fram.
Þar sem fjármunir þeir, sem ráðstafað hafi verið til stefnda, hefðu að öðrum kosti staðið til úthlutunar fyrir kröfuhafa þrotabúsins, byggir stefnandi á því að öllum skilyrðum lagaákvæðisins sé fullnægt.
Í þriðja lagi byggir stefnandi aðal- og varakröfu sína um endurgreiðslu á ákvæði 142. gr. gjaldþrotalaga. Í ljósi þess að um peningagreiðslur Fons hf. til stefnda hafi verið að ræða, telur stefnandi augljóst að greiðslur Fons hf. hafi komið stefnda að notum að öllu leyti. Breyti því engu til hvaða athafna stefndi hafi notað peningana.
Þá byggir stefnandi á því, að ef fallist sé á riftunarkröfur stefnanda á grundvelli 141. gr. gjaldþrotalaga, beri stefnda að greiða bætur eftir almennum reglum á grundvelli 3. mgr. 142. gr. laganna. Ljóst sé að tjón þrotabúsins nemi þeirri fjárhæð, sem hafi verið greidd stefnda en það sé sama fjárhæð og stefnt sé til greiðslu á í þessu máli.
Kröfur stefnanda um endurgreiðslu byggjast á því að eðlilegt endurgjald fyrir leigu á fasteigninni að Suðurgötu 22 hefði verið 500.000 krónur á mánuði. Með vísan til ákvæðis 142. gr. gjaldþrotalaga krefjist stefnandi þess því að stefndi endurgreiði stefnanda allar greiðslur, sem fram hafi farið á síðustu 24 mánuðum fyrir frestdag. Sé því krafist endurgreiðslu á leigu vegna Suðurgötu 22, að frádreginni þeirri fjárhæð sem talin sé hæfileg fyrir eðlileg afnot af eigninni, þ.e. samtals 68.935.968 krónur, auk allra greiðslna vegna leigu á Eyjarslóð 9, þ.e. 38.724.983 krónur. Nemi endurgreiðslukröfur stefnanda því samtals 107.660.952 krónum.
Í aðalkröfu er þess krafist að stefndi greiði dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá og með þeim tíma er hver og ein greiðsla fór fram, þar sem um ólögmætar greiðslur hafi verið að ræða sem hefðu ekki átt að fara fram, auk dráttarvaxta frá þeim degi er mánuður var liðinn frá dagsetningu kröfubréfs, sem sent var stefnda. Verði ekki talið að stefnda beri að greiða dráttarvexti frá og með hverjum greiðsludegi, sé á því byggt að honum beri að greiða almenna vexti frá og með hverjum og einum greiðsludegi, sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001, auk dráttarvaxta frá þeim degi er mánuður var liðinn frá dagsetningu kröfubréfs, sem sent var stefnda.
Um lagarök vísar stefnandi til stuðnings riftunar- og endurgreiðslukröfum sínum m.a. til 131., 141. og 142. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., en til stuðnings kröfu um vexti og dráttarvexti er vísað til 4. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Um varnarþing vísast til 33. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála og um málskostnaðarkröfu til XXI. kafla sömu laga.
III.
Stefndi hafnar því að leigufjárhæð vegna húsnæðisins að Suðurgötu 22 og Eyjarslóð 9 hafi verið mun hærri en eðlilegt og sanngjarnt hafi verið að greiða fyrir leiguhúsnæði. Í greinargerð stefnda er þó gerður sá fyrirvari, að stefndi viðurkenni kröfur stefnanda varðandi Eyjarslóð 9 að því leyti að grunnleiga hafi átt að vera 170.000 krónur á mánuði, bundin vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá maí 2007. Vegna þess lýsti stefndi því yfir að hann væri reiðubúinn til uppgjörs við stefnanda á þeim grundvelli og taka varnir hans í þessu mál mið af þeirri yfirlýsingu.
Á þeim grundvelli mótmælir stefndi því að um gjöf til hans hafi verið að ræða. Greiðslurnar hafi verið greiddar á grundvelli gagnkvæmra samninga, sem hafi falið í sér að stefndi afhenti Fons hf. húsnæði til umráða á grundvelli leigusamninga og Fons hf. greiddi eðlilegt endurgjald í staðinn.
Stefndi byggir á því að Fons hf. hafi verið vel gjaldfært fyrirtæki, a.m.k. fram til 29. september 2008 þegar hlutafé Fons hf. í FL Group hf. hafi orðið verðlaust á einni nóttu. Vegna þess bresti skilyrði til að rifta greiðslunum á grundvelli 2. mgr. 131. gr. gjaldþrotalaga, enda hafi leiga fyrir umrætt húsnæði verið eðlilegur hluti af starfsemi Fons hf. Skráning á tilgangi húsnæðisins frá gamalli tíð eða tilgangur Fons hf. samkvæmt samþykktum félagsins hafi enga þýðingu varðandi möguleika á riftun samninganna. Samningar hafi verið gerðir um leigu húsnæðisins löngu áður upp komu erfiðleikar í íslensku efnahagslífi og leiga hafi verið greidd mánaðarlega, eins og komi fram í stefnu. Fons hf. hafi ekki orðið ógjaldfært vegna samninganna, heldur af allt öðrum ástæðum.
Í stefnu sé fullyrt að Fons hf. hafi verið ógjaldfær þegar greiðslan fór fram. Þær greiðslur, sem stefnandi hyggist rifta, séu frá 3. maí 2007 og mánaðarlega fram til 1. apríl 2009. Í stefnu sé engin umfjöllun um það, að hvaða leyti Fons hf. hafi verið ógjaldfært eða rök færð fram fyrir þeirri skoðun, eins og gera verði kröfu um. Fjarstæðukennt sé að halda því fram að Fons hf. hafi verið ógjaldfært á árinu 2007 og fram að enduðum september 2008. Þrátt fyrir ógjaldfærni félagsins eftir þann tíma, byggir stefndi á því, að vegna samninga um húsnæðið verði greiðslum á grundvelli þeirra ekki rift eftir það tímamark.
Stefndi kveður óskiljanlegt á hverju stefnandi byggi þá viðmiðun sína að hæfilegt endurgjald fyrir Suðurgötu 22 hafi verið 500.000 krónur á mánuði, enda séu engin haldbær rök færð fram fyrir henni. Stefndi byggir á því að leigufjárhæðin hafi verið í samræmi við húsaleigumarkað vegna atvinnuhúsnæðis á þeim stað í Reykjavík sem um ræði. Það sé stefnanda að sanna að endurgjaldið hafi verið óeðlilegt og þá sönnun sé ekki að finna í sóknargögnum málsins.
Stefndi tekur fram að hann hafi ekki verið með neina starfsemi eða starfsmenn í vinnu á Suðurgötu 22 á þeim tíma sem um ræðir. Verði því ekki byggt á því að Fons hf. hefði átt að greiða lægri leigu vegna þess að lögheimili stefnda var á Suðurgötu 22. Hafi Fons hf. nýtt allt húsnæðið undir starfsemi sína.
Stefndi kveður ekki uppfyllt það skilyrði þess, að um gjafagerning teljist vera að ræða, að ekkert endurgjald komi í staðinn, auk þess sem sá sem afhendir verðmæti verði að hafa haft þann ásetning eða tilgang með afhendingunni að gefa. Séu því engin skilyrði til að rifta greiðslunni með þeim rökum.
Stefndi hafnar því að skilyrði 141. gr. gjaldþrotalaga séu fyrir hendi til að rifta greiðslunni. Til þess þurfi greiðsla að hafa verið ótilhlýðileg. Með því sé gert að skilyrði að sá, sem hafði hag af greiðslunni, hafi verið grandsamur um ótilhlýðileikann. Það geti ekki átt við í þessu máli, enda liggi fyrir að um var að ræða greiðslur vegna leigu húsnæðis, eins og alþekkt sé í rekstri fyrirtækja.
Þá séu ekki uppfyllt þau skilyrði fyrir beitingu 141. gr. að skuldarinn hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og að móttakendur hafi vitað um það. Hvíli á stefnanda að sanna að riftunarskilyrði 141. gr. séu uppfyllt en þá sönnunarfærslu sé ekki að finna í sóknargögnum. Þar segi einungis að greiðslan hafi á ótilhlýðilegan hátt orðið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Þau atriði, sem stefndi tilgreini í sjö stafliðum í stefnu, feli ekki í sér sönnun fyrir ótilhlýðileika greiðslunnar. Hafi stefnandi hvorki fært nein haldbær rök fram né lagt fram nein haldbær gögn til stuðnings þeirri málsástæðu að Fons hf. hafi ekki verið gjaldfært félag. Sönnun um skilyrði fyrir beitingu reglunnar hafi því ekki tekist.
Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda og byggir á því að engin skilyrði séu til að dæma vexti í málinu fyrr en í fyrsta lagi frá dómsuppsögu.
Stefndi vísar um málskostnaðarkröfu sína til 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Stefnandi hefur höfðað mál þetta til riftunar á 39 greiðslum, samtals að fjárhæð 107.660.952 krónur, sem inntar voru af hendi til stefnda á tímabilinu frá 3. maí 2007 til 1. apríl 2009, og til endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar úr hendi stefnda.
Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á því að umræddar greiðslur hafi verið gjafagerningur til hagsbóta fyrir stefnda í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá er jafnframt á því byggt að í greiðslunum hafi falist ráðstöfun, sem hafi verið stefnda til hagsbóta á ótilhlýðilegan hátt á kostnað kröfuhafa Fons hf., sbr. 141. gr. gjaldþrotalaga. Kröfu um greiðsluskyldu stefnda byggir stefnandi á ákvæðum 142. gr. gjaldþrotalaga. Þá byggir stefndi á því að Fons hf. hafi í raun verið ógjaldfært þegar greiðslurnar fóru fram.
Óumdeilt er að nokkrar af umræddum ráðstöfunum, sem stefnandi krefst riftunar á í máli þessu, áttu sér stað meira en sex mánuðum fyrir frestdag. Þegar svo háttar til er það skilyrði fyrir riftun samkvæmt ákvæðum 131. gr. og 141. gr. gjaldþrotalaga að þrotamaður hafi verið ógjaldfær eða orðið það við ráðstöfunina. Sönnunarbyrði um gjaldfærni hvílir á stefndu hvað varðar riftun samkvæmt 131. gr. laganna.
Til sönnunar á gjaldfærni Fons hf. vísar stefndi til upplýsinga úr ársreikningum Fons hf. fyrir árin 2004 til 2007. Samkvæmt endurskoðuðum ársreikningum nam eigið fé félagsins tæpum 40 milljörðum króna í lok árs 2006 og rúmum 39 milljörðum króna í lok árs 2007. Stefnandi lagði fram matsgerð Valdimars Guðnasonar, endurskoðanda og dómkvadds matsmanns, um hvaða áhrif ýmis atriði við gerð ársreikninga félagsins hefðu haft á niðurstöðu þeirra og jafnframt hver hefðu verið áhrif þess á ársreikningana, hefðu reikningar dóttur- og hlutdeildarfélaganna legið fyrir. Samkvæmt matsgerðinni hefði eigið fé Fons hf. í árslok 2006 með réttu átt að vera 39.620 milljónir króna en ekki 39.751 milljón króna eins og niðurstaða ársreikningsins var. Munar þar um það bil 131 milljón króna. Eigið fé félagsins í árslok 2007 hefði með réttu átt að vera 33.544 milljónir króna en ekki 39.324 milljónir króna og munar þar tæpum 6 milljörðum króna. Samkvæmt matsgerðinni má rekja muninn að mestu til ofmats á kröfum félagsins á hendur dótturfélögunum Northern Travel Holding hf. og FS38 ehf.
Að þessu virtu og framlögðum gögnum málsins að öðru leyti er það niðurstaða dómsins að eignir Fons hf. hafi verið vel umfram skuldir og félagið verið gjaldfært allt fram í september 2008 en í greinargerð sinni kveðst stefndi hafa orðið ógjaldfær þegar tilkynnt var um þjóðnýtingu Glitnis banka hf. hinn 29. september 2008 og hlutabréf stefnda í FL Group hf. urðu verðlaus. Hefur stefnandi ekki lagt fram nein gögn sem hrekja þá niðurstöðu. Er það því mat dómsins að ekki verði fallist á riftunarkröfu stefnanda á leigugreiðslum, sem greiddar voru fram til loka september 2008. Með sömu rökum verður ekki talið að umræddar greiðslur hafi verið ótilhlýðilegar í skilningi 141. gr. Er það því niðurstaða dómsins að þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu stefnanda um riftun þeirra greiðslna og leiðir af þeirri niðurstöðu að hafnað er kröfu stefnanda um greiðslu úr hendi stefnda vegna þeirra á grundvelli ákvæða 142. gr. gr. gjaldþrotalaga.
Kemur þá til skoðunar hvort leigugreiðslur þær, sem inntar voru af hendi til stefnda á tímabilinu frá 29. september 2008 fram að frestdegi 30. apríl 2009, séu riftanlegar samkvæmt ákvæðum 131. gr. gjaldþrotalaga. Eins og framan er rakið liggur fyrir að Fons hf. varð ógjaldfært 29. september 2008. Af framlagðri matsgerð dómkvaddra matsmanna, sem áður er getið og stefndi hefur ekki hnekkt, er ljóst að mismunur á því leiguverði, sem matsmenn telja eðlilegt og sanngjarnt, og fjárhæð hinna greiddu leigugreiðslna á umræddu tímabili nam 13.340.626 krónum að því er varðar húsnæðið að Suðurgötu 22 og 11.988.026 krónum vegna húsnæðisins að Eyjarslóð 9. Telst mismunurinn verulegur og þegar litið er til þess að báðir málsaðilar voru á umræddu tímabili í meirihlutaeigu Pálma Haraldssonar telur dómurinn sannað að ráðstöfun þeirra fjárhæða, sem eru umfram þær fjárhæðir sem tilgreindar eru í matsgerðinni sem hæfilegar leigugreiðslur, hafi falið í sér örlætisgerning í skilningi 131. gr. gjaldþrotalaga. Á þeim grundvelli telst ráðstöfun þeirra fjárhæða riftanleg og verður í ljósi framangreinds að líta svo á að stefndi hafi haft hag af umræddri ráðstöfun. Með vísan til ákvæða 142. gr. sömu laga verður stefnda gert að greiða stefnanda 25.328.652 krónur með dráttarvöxtum frá því er mánuður var liðinn frá því stefnandi rifti leigugreiðslunum með bréfi, dagsettu 8. janúar 2010, eins og nánar greinir í dómsorði.
Þrátt fyrir að eingöngu sé fallist á dómkröfur stefnanda að hluta þykir rétt að stefnda verði gert að greiða stefnanda hluta af málskostnaði hans sem þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Halldóri Björnssyni héraðsdómara og dr. Hersi Sigurgeirssyni dósent í fjármálum.
Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómsformanns.
D Ó M S O R Ð:
Rift er eftirtöldum greiðslum Fons hf. til stefnda, Eignarhaldsfélagsins Fengs hf.:
1.828.076 kr. frá 1. október 2008,
1.642.727 kr. frá 1. október 2008,
1.843.854 kr. frá 1. nóvember 2008,
1.656.907 kr. frá 1. nóvember 2008,
1.883.596 kr. frá 1. desember 2008,
1.692.619 kr. frá 1. desember 2008,
1.916.323 kr. frá 5. janúar 2009,
1.722.028 kr. frá 5. janúar 2009,
1.945.544 kr. frá 4. febrúar 2009,
1.748.287 kr. frá 4. febrúar 2009,
1.956.649 kr. frá 2. mars 2009,
1.758.265 kr. frá 2. mars 2009,
1.966.584 kr. frá 1. apríl 2009,
1.767.193 kr. frá 1. apríl 2009.
Stefndi greiði stefnanda, þrotabúi Fons hf., 25.328.652 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 8. febrúar 2010 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað.