Hæstiréttur íslands
Mál nr. 98/2003
Lykilorð
- Manndráp
- Tilraun
- Líkamsárás
|
|
Fimmtudaginn 12. júní 2003. |
|
Nr. 98/2003. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Kristjáni Viðari Júlíussyni (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Manndráp. Tilraun. Líkamsárás.
K var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa á árinu 2001 ráðist á fyrrverandi sambúðarkonu sína og slegið hana margsinnis í andlit, höfuð og líkama, slegið höfði hennar utan í vegg og misþyrmt henni með öðrum hætti. Þá var hann ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa á árinu 2002 ráðist á sömu konu, veist að henni með ofbeldi, brotið hægri upphandlegg hennar ofan við olnboga, skorið hana með hnífi á vinstri augabrún og vinstra megin á háls með þeim afleiðingum að hún hlaut þar djúpt sár og slagæð og bláæð skárust sundur. Var K fundinn sekur um brot gegn 1. mgr. 218. gr. og 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Talið var með hliðsjón af geðrannsókn og öðrum gögnum málsins að ekkert væri fram komið, sem benti til þess að ákvæði 15. gr. eða 16. gr. almennra hegningarlaga hafi átt við um andlega hagi K er hann framdi brot sín og var hann því talinn sakhæfur. Var refsing hans ákveðin fangelsi í fimm ár og sex mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. mars 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða og refsing hans þyngd. Þá er þess krafist að ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað.
Ákærði krefst þess að refsingin verði milduð og brot hans, sem fjallað er um í ákæru 30. október 2002, verði fært undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 29/1981. Þá krefst hann þess að hluti áfrýjunarkostnaðar verði lagður á ríkissjóð.
I.
Í greinargerð fyrir Hæstarétti gerir ákæruvaldið auk þess þá kröfu að því er varðar ákæru 21. maí 2002 að ákærði verði, auk þeirra áverka brotaþola sem hann var sannur að sök að hafa valdið, sakfelldur fyrir að hafa veitt henni þá áverka, sem hún hlaut á löngutöng vinstri handar, en ákærði var sýknaður af þeirri háttsemi með hinum áfrýjaða dómi. Samkvæmt c. lið 2. mgr. 153. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum skal meðal annars greina í áfrýjunarstefnu nákvæmlega í hvaða skyni áfrýjað sé. Þessa krafa ákæruvalds samrýmist ekki þeirri kröfugerð sem fram kemur í áfrýjunarstefnu um að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms varðandi sakfellingu ákærða. Kemur krafan því ekki til álita í málinu fyrir Hæstarétti.
Mál þetta var höfðað á hendur ákærða með fyrrnefndri ákæru ríkissaksóknara 21. maí 2002 og ákæru 30. október sama árs. Með fyrri ákærunni var honum gefin að sök líkamsárás með því að hafa ráðist á X, fyrrum sambúðarkonu sína, á heimili hennar aðfaranótt 13. maí 2001 og slegið hana margsinnis í andlit, höfuð og líkama, slegið höfði hennar utan í vegg og misþyrmt henni með öðrum hætti, allt með þeim afleiðingum, sem nánar er lýst í héraðsdómi. Var þessi háttsemi hans talin varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Ákærði var með síðari ákærunni sakaður um tilraun til manndráps með því að hafa ráðist á sömu konu að kvöldi 28. júlí 2002 á heimili hennar, veist að henni með ofbeldi, brotið hægri upphandlegg hennar ofan við olnboga, skorið hana með hnífi á vinstri augabrún og vinstra megin á háls með þeim afleiðingum að hún hlaut þar djúpt 4,7 cm langt sár og slagæð og bláæð skárust sundur. Þessi háttsemi hans taldist varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
Eins og greinir í héraðsdómi hefur ákærði játað skýlaust sakargiftir þær, sem á hann eru bornar í báðum ákærunum, þó þannig að hann telur sig saklausan af því að hafa valdið áverkum, sem konan hlaut á löngutöng vinstri handar, en sem fyrr segir var hann sýknaður af þeirri háttsemi með hinum áfrýjaða dómi. Hann unir niðurstöðu dómsins um sakfellingu og greiðslu miskabóta svo og málskostnað, en telur að refsingin sé of þung og færa eigi brot sitt 28. júlí 2002 undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum, þar sem ekki hafi vakað fyrir honum að bana konunni.
II.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð geðrannsókn Tómasar Zoëga geðlæknis 19. maí 2003. Í niðurstöðu hennar kemur fram það álit læknisins að ákærði hafi ekki verið haldinn virkri geðveiki, andlegum vanþroska eða hrörnun, rænuskerðingu eða öðru samsvarandi ástandi, sem hafi haft í för með sér að hann hafi ekki getað stjórnað gerðum sínum, þegar hann réðist á fyrrum sambúðarkonu sína í umrædd tvö skipti. Að virtri þessari rannsókn og öðrum gögnum málsins er ekkert fram komið, sem bendir til þess að ákvæði 15. gr. eða 16. gr. almennra hegningarlaga hafi átt við um andlega hagi ákærða er hann framdi brot sín og telst hann því sakhæfur.
III.
Ákærði hefur hlotið fimm refsidóma og gengist undir jafnmargar sáttir. Hann var fyrst dæmdur árið 1972 í fangelsi í 10 mánuði, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir líkamsárás, þjófnað og nytjastuld. Þá var hann dæmdur árið 1973 í fangelsi í 1 ár fyrir þjófnað og tæpu ári síðar í fangelsi í 6 mánuði fyrir þjófnað og nytjastuld. Með dómi Hæstaréttar 22. febrúar 1980 var hann dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir líkamsárás, manndráp af gáleysi, rangar sakargiftir og þjófnað. Þann 30. júní 1983 fékk hann reynslulausn, skilorðsbundið í 4 ár, á 3050 daga eftirstöðvum refsingar. Hann rauf það skilorð með broti gegn ávana- og fíkniefnalögum og var dæmdur fyrir það brot 22. apríl 1987 í fangelsi í jafnmarga daga og eftirstöðvar refsingar námu, en þar af voru 2990 dagar skilorðsbundnir í 3 ár. Eftir það gekkst hann undir þrjár sáttir, árin 1993 og 1994 fyrir umferðarlagabrot og 1996 fyrir fíkniefnalagabrot.
Fallist er á með héraðsdómi að við hina hættulega árás ákærða á X 28. júlí 2002 hafi hending ein ráðið að ekki hlaust banvænn áverki á hálsi hennar. Ákærða hlaut að vera það ljóst er hann veittist að konunni með hnífnum að langlíklegast væri að bani hlytist af atlögu hans, þótt tilviljun hafi ráðið að svo fór ekki og er þetta brot hans því réttilega fært undir 211. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 20. gr. laganna. Bæði brot ákærða voru stórfelld og brotið 28. júlí 2002 sérstaklega háskalegt. X hefur viðurkennt að hafa reitt ákærða til reiði áður en hann réðist að henni með hnífnum síðastgreindan dag. Sagði hún í skýrslu sinni fyrir dómi að hún myndi lítið eftir aðdraganda árásarinnar, en þau hafa farið að tala saman umrætt sinn um árásina 13. maí 2001 og hún þá talað um að hún ætti falin gögn varðandi þá árás, sem gætu komið honum illa. Þar sem hún þekkti hann vel og hún væri „dálítið sniðug með það að ýta ... ýta á takka, og ætlaðist nú ekki til að þetta myndi ske, ...en ég reitti hann til reiði með því að ljúga.” Hann hafi verið orðinn fullur og hún hafi verið eitthvað að hlæja að honum og gera grín að honum. Hún hafi verið drukkin og þau verið að rífast. Af þessum framburði og því sem rakið er að öðru leyti í héraðsómi er ljóst að X reitti ákærða vísvitandi til reiði áður en hann réðist á hana. Verður ákærða virt þetta til refsilækkunar, sbr. 75. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðunar refsingar hans ber einnig að líta til þess að hann hlaut síðast dóm fyrir hegningarlagabrot fyrir rúmum 23 árum og voru brot hans sem hann var þá sakfelldur fyrir framin á árunum 1972 - 1974 og 1976. Að virtu öllu framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fimm ár og sex mánuði.
Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist að jöfnu úr ríkissjóði og af ákærða, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans.
Dómsorð:
Ákærði, Kristján Viðar Júlíusson, sæti fangelsi í fimm ár og sex mánuði, en til frádráttar komi óslitið gæsluvarðhald hans frá 29. júlí 2002.
Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu af ákærða, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 2003.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 21. maí 2002 á hendur: ,,Kristjáni Viðari Júlíussyni, kt. 210455-3969, Skúlagötu 70, Reykjavík, fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 13. maí 2001 á heimili fyrrverandi sambúðarkonu sinnar X, [...], ráðist á X og slegið hana margsinnis í andlit, höfuð og líkama, slegið höfði hennar utan í vegg og misþyrmt henni með öðrum hætti, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut nokkur sár á höfði og í andliti sem sauma þurfti saman með allt að 30-40 sporum, marðist mikið í andliti, einkum í kringum augu og yfir nefi, nefbrotnaði, marðist og tognaði á hálsi, marðist mikið á báðum handleggjum og rasskinnum, hlaut opið sár á gómi og naglbeði löngutangar vinstri handar og gómhrjóna og nögl fingursins brotnuðu en þessir áverkar leiddu til þess að fingurinn skaddaðist alvarlega.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981 og 111. gr. laga nr. 82, 1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá gerir X þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða henni 800.000 kr. í miskabætur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 13. maí 2001 til 1. júlí 2001, en samkvæmt III. kafla laga nr. 38, 2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig krefst hún þess að ákærði verði dæmdur til að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Loks gerir hún kröfu um að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta, allt í samræmi við 12. gr. laga nr. 25, 1987.”
Önnur ákæra var gefin út á hendur ákærða 30. október 2002 og þar ákært ,,fyrir tilraun til manndráps með því að hafa, sunnudagskvöldið 28. júlí 2002, [...], veist með ofbeldi að X, brotið hægri upphandlegg hennar ofan við olnboga, skorið hana með hnífi á vinstri augabrún og vinstra megin á háls svo hún hlaut þar djúpt 4,7 sentímetra langt sár og slagæð og bláæð skárust í sundur.
Telst þetta varða við 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu X er krafist miskabóta að fjárhæð 1.542.670 krónur að viðbættum dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38, 2001 af 1.500.000 krónum frá 28. júlí 2002 til 19. september 2002, en af 1.542.670 krónum frá þeim degi til greiðsludags, auk greiðslu málskostnaðar að mati dóms eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.”
Málin voru sameinuð.
Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að brot, sem ákærða er gefið að sök skv. ákæru dags. 30. október 2002, verði heimfært undir vægari refsiákvæði en þar greinir.
Þess er krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 29. júlí 2002 komi til frádráttar dæmdri refsingu. Krafist er verulegrar lækkunar skaðabótakrafanna. Þá er krafist réttargæslu- og málsvarnarlauna að mati dómsins.
Ákæra dags. 21. maí 2002.
Samkvæmt lögregluskýrslu, dags. 13. maí 2001, var lögreglan send að [...] kl. 08.28 þann dag. Greint er frá því í skýrslunni að Y, sonur X, hafi tekið á móti lögreglunni og sagt að hann hafi komið að móður sinni alblóðugri í rúmi sínu. Ákærði hefði verið í setustofunni er Y kom heim skömmu áður og kvaðst hann viss um að ákærði hefði lagt hendur á móður hans. Í skýrslunni er greint frá því að X hafi sagt ákærða hafa gengið í skrokk á sér milli 03.00 og 04.00 um nóttina.
Ákærði var handtekinn, en hann greindi lögreglu svo frá að X hefði dottið utandyra. Hann hafi ekki lagt á hana hendur.
Því er lýst í lögregluskýrslunni og öðrum gögnum málsins að leitað hafi verið ummerkja utandyra og kannað hvort þar fyndist blóð. Svo reyndist ekki vera.
Meðal gagna málsins er útprentun úr sjúkraskrá slysadeildar 13. maí 2001, þar sem Theodór Friðriksson læknir tók á móti X og skoðaði hana. Þar segir m.a: ,,Við skoðun er hún með nokkurt sár á höfuðleðri. Hún er með 2 sár ofan og aftan við hæ. eyra. Það efra ca 3 cm, það neðra ca 2.5 cm. Það er 1 sár aftan við hæ, eyra, þ.e.a.s lat. á hnakkanum hæ. megin sem er ca 1,5 cm. Það sjást ekki fleiri sár á höfuðleðri, en þess ber að geta að það er ekki búið að þvo henni um hárið og þess vegna geta verið fleiri sár. Hún er marin í öllu andlitinu, sérstaklega neðan augna. Þar er glóðarauga beggja vegna. Það eru nokkur smá hruflsár/grunn sár lat. á hæ. augnloki, bæði neðra og efra. Hún er með smá sár ca 5 mm yfir nefrótinni. Nef er allt mjög bólgið og marið yfir báðum madibula í húðinni. Er með mar á neðri kjálka og höku, þetta er meira úfið mar, neðar á andlitinu. Nefið er rautt og bólgið eins og áður sagði. Það er stífla og mikill bjúgur í nefslímhúð. Það sést ekkert septal hematom. En septum gæti verið devierað yfir til hæ. Eins og áður sagði er hún með bilateral glóðarauga nánast raconice. Það er mikið subconjunctival hemotom komið í hæ. auga. Hún er með dreifða gómstóra marbletti á báðum upphandleggjum og framhandleggjum. Á vi. baugfingri hefur hún orðið f. klemmuáverka eða kramáverka distalt á fingrinum. Nöglin er brotin prox., þ.e.a.s. það vantar prox. hluta naglarinar. Hefur farið upp úr naglbeðinum eða upp úr naglrótinni. Distali hluti naglarinar er ennþá á, en það er mikill bjúgur og bólga í þessu svæði og naglbeðurinn er í nokkrum hlutum. Sárið nær í 1-2 hltum þvert yfir naglbeðinn, frá radial hlið yfir ulnart og ulnart út á góminn. Þess ber að geta að sárin sem eru á höfði og eins áverkinn á fingrinum benda til þess að einhvers konar verkfæri hafi verið notað, þvi það hefur þurft högg með einhverju skörpu eða mjög hörðum hlut til þess að valda þeim sárum sem að sjást á höfuðleðrinu. Það sama gildir með fingurinn. Þetta er eins og mar eða klemmuáverki eftir einhvern harðan, þungan hlut.
Í hnakka var sár sem var í raun 3 sár sem voru hlið við hlið, 2 lítil flipalaga lat. hæ. megin og eitt lengra alveg í miðju. Þessu sári var lýst áður sem einu sári. Svo fannst hærra uppi á h nakkanum ca 1.5 cm sár. Þannig eru samtals allavega 6 sár á höfðinu sem þurfti að sauma. Hvert þeirra lengri en 0.5 cm 1 cm. Það er risastór marblettur aftanvert á vi. rasskinn annar á þeirri hæ. sá vi. megin heldur stærri, nánast lófastór.”
Tehodór kom fyrir dóminn og staðfesti og skýrði skoðunina sem lýst var að ofan. Hann taldi nánast útilokað að skurðáverkarnir á höfði væru af völdum þess að X hefði verið slegin af einhverjum sem hefði hring á hendi. Theodór kvað áverkana á fingri X líkjast áverka sem hlýst er fólk klemmir sig. Þessi áverki líkist ekki skurðsári að hans sögn.
Nú verður rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði játar sök, utan hann kvað X, sem sé fyrrverandi sambýliskona sín, hafa skorist og hlotið opið sár á gómi og naglbeði löngutangar vinstri handar er hún sló í spegil sem stóð á borði. Aðspurður um aðra áverka á X sem í ákæru greinir kveðst ákærði draga í efa að hann væri valdur að mari á rasskinnum. Hann kvað X eiga það til að detta þegar hún er ölvuð. Hún hafi dottið aftur fyrir sig fyrir utan heimili sitt og þá hafi hún einnig dottið er þau voru stödd á Kaffi Austurstræti. Þau X hafi verið samferða í leigubifreið að heimili hennar auk tveggja farþega sem ákærði vissi ekki deili á. Ákærði kvaðst hafa fylgt X inn til hennar vegna þess að hún hafi dottið fyrir utan húsið. Hann mundi ekki eftir áverkum á X eftir fallið. Ákærði mundi atburði illa, en kvað hugsanlegt að aðdragandi að rifrildis og slagsmála á milli þeirra X mætti rekja til ósættis af kynferðislegum toga, en ákærði kvaðst hafa beitt X líkamlegu ofbeldi. Ákærði dró ekki í efa að aðrir áverkar en fingurmeinið og mar á rasskinnum væru af sínum völdum er hann beitti hana ofbeldi. Aðspurður um 30 til 40 spor, sem sauma þurfti, kvaðst ákærði hafa haft hring á hendi og sprungið hafi fyrir eftir hringinn er ákærði sló X hnefahögg.
Ákærði lýsti því er hann reyndi ítrekað að hringja í neyðarlínu vegna áverkanna á X. Í ljós hafi komið að síminn á heimili hennar var ekki í lagi. Í gögnum málsins er lögregluskýrsla sem staðfestir þessa frásögn ákærða um hringingar í neyðarlínu, fyrst kl. 07.26 og síðan 08.27.
Ákærði lýsti samskiptum þeirra X eftir atburðinn. Þau samskipti hafi verið að frumkvæði X, sem yfirleitt hafi verið mikið drukkin. Hann vissi til þess að hún hefði dregið kæru sína til baka og hafi ákærði ekki hvatt hana til þess. Það hafi verið að hennar frumkvæði.
Vitnið X kvaðst hafa verið ölvuð og lítið muna eftir atburðum þeim sem í þessari ákæru greinir. Ákærði hafi komið með henni heim, en hún taldi þau hafa komið af veitingastaðnum Skipper. Þau hafi farið í leigubifreið ásamt fleira fólki, sem hún mundi ekki eftir. Hún gæti hafa dottið fyrir utan heimili sitt eftir að hún kom í leigubílnum, þótt hún muni það ekki. Eftir að inn var komið kvað hún þau ákærða hafa farið upp í rúm í svefnherberginu. Þar hljóti þau að hafa byrjað að rífast en hún mundi eftir slagsmálum þar inni. Hún mundi lítið meira, utan það að hún hafi fengið höfuðhögg annað slagið. Hún gerði sér ekki grein fyrir fjölda högganna, en þetta hafi staðið yfir í nokkrar klukkustundir. Hún kvað ákærða hafa slegið sig og hann hafi haft hring á hendi, sem hún taldi að hafi skorið sig við höggin. Hún kvaðst ekki viss um það að áverkinn á löngutöng vinstri handar væri af völdum ákærða. Hún hafi eins getað fengið þann áverka við það að slá hendinni í spegil, sem hafi brotnað, hún muni það ekki. Þá kvaðst hún telja að hún hafi verið rifin upp á hárinu og henni slegið utan í vegg í svefnherberginu.
X kvað áverkana sem hún hlaut og lýst er í ákærunni hafi verið af völdum ákærða fyrir utan fingurmeinið sem lýst var. Áverkar á rasskinnum hljóti einnig að hafa verið af völdum ákærða, þótt hún viti það ekki. Hún kvaðst ekki hafa vitað af þessum áverkum fyrr en læknir hafi bent sér á þá. Hún viti ekki hvernig þeir voru tilkomnir.
X afturkallaði kæru og skaðabótakröfu sína á rannsóknarstigi málsins. Hún kvað það hafa verið gert af eigin frumkvæði, en ekki ákærða, en fyrir dómi kvaðst hún standa við skaðabótakröfuna.
Vitnið Stefán Jónsson lögreglumaður staðfesti fyrir dóminum í skýrslu sem hann ritaði um komu lögreglu á vettvang og vitnað var til að framan. Hann kvað X hafa greint frá því að ákærði væri valdur að áverkum sem hún bar. Ákærði hefði sagt X hafa dottið utandyra. Það hafi verið kannað en engir blóðpollar fundist þar.
Vitnið Y, systir X, kvað hana hafa greint sér frá því að til rifrildis hefði komið milli þeirra ákærða og hafi hann gengið í skrokk á henni, en Y kvaðst hafa farið upp á sjúkrahús, þar sem hún hitti X.
Vitnið A kvaðst hafa ekið ákærða og X, sem bæði voru ölvuð, á heimili hennar að [...] á þessum tíma auk tveggja farþega í viðbót, sem ekki fóru út úr bílnum við [...]. Hann kvað X hafa dottið í götuna er hún steig út úr bílnum og þá hafi ákærði farið út og aðstoðað hana. A kvaðst ekki hafa séð hvort hún hlaut áverka við þetta, en A ók burtu með hina farþegana tvo.
Vitnið Guðmundur Ágústsson rannsóknarlögreglumaður staðfesti fyrir dómi tæknigögn sem hann vann við rannsókn þessa máls, meðal annars ljósmyndir af vettvangi. Ekkert blóð hafi fundist utandyra.
Niðurstaða ákæru dags. 21. maí 2002.
Ákærði játar sök og að vera valdur að öllum áverkunum á X utan fingurmeininu og mari á rasskinnum. Ráða má af vitnisburði X að hún man atburði illa eftir að ákærði byrjaði að slá hana og sló höfði hennar utan í vegg. Hún taldi alla áverkana sem í ákærunni greinir af völdum ákærða utan fingurmeinið, sem hún var ekki viss um, en ákærði hefur borið að hún hafi hlotið þann áverka er hún skarst við að slá í spegil. Eins og áður er rakið er minni ákærða og X ekki traust um atburðarásina en bæði voru ölvuð. Þótt telja verði langlíklegast að beint orsakasamband sé á milli áverkanna, sem X hlaut á löngutöng vinstri handar og árásar ákærða, telur dómurinn, eins og vitnisburði X er háttað og gegn neitun ákærða, ósannað að ákærði hafi verið valdur að þeim áverka og er hann sýknaður af þeim þætti ákærunnar. Að öðru leyti er sannað með játningu ákærða og vitnisburði X að ákærði hafi gerst sekur um aðra þá háttsemi sem í ákærunni greinir og á sama hátt er sannað með vísan til læknisfræðilegra gagna, sem rakin hafa verið, að afleiðingar árásar ákærða urðu þær sem lýst er í ákærunni.
Áður var rakin lýsing úr sjúkraskrá er X var skoðuð við komu á slysadeild 13. maí 2001. Í sjúkraskránni er lýst meðferð sem hún hlaut. Þar segir meðal annars að sár á höfði hafi verið saumuð, en ekki talið hversu mörg spor, trúlega 30 til 40 spor í höfuð alls. Meðal gagna málsins eru ljósmyndir sem sýna áverka sem X hlaut. Af þeim má ráða hversu hrottafengin árás ákærða hefur verið. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga er svohljóðandi: ,,Nú hlýst stórfellt líkams- eða heilsutjón af árás eða brotið er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þar á meðal tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, sem sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum.”
Ákærði sló X margsinnis í andlit, höfuð og líkama. Hann sló höfði hennar utan í vegg. Þótt ákærði hafi ekki beitt öðru en hnefum og ef til vill haft hring á fingri, eins og fram er komið, telur dómurinn ljóst að svo mörg og þung höfuðhögg sem raun ber vitni sem meðal annars sem ráða má af ljósmyndum og öðrum gögnum málsins, að ákærði hafi veitt X svo að sauma þurfti tugi spora í höfuð, sé svo hættuleg árás að heimfæra beri brotið undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en hætta af svo mörgum og þungum höfuðhöggum er alkunn. Eins og ákæran er úr garði gerð verður ákærða hins vegar gerð refsing eftir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæra dags. 30. október 2002.
Sunnudaginn 28. júlí sl. kl. 20.31 var lögreglan send að [...] vegna tilkynningar um konu, sem skorin hefði verið á háls, eins og segir í lögregluskýrslunni, sem dags. er þennan dag. Á vettvangi hafði lögreglan tal af Y, sem hringt hafði í lögregluna, en hún er systir X. X sat í sófa í stofunni, mjög blóðug í andliti. Gólf íbúðarinnar var blautt af sápuvatni. Hafi ákærði lýst því að X hefði dottið á hníf og skorið sig. X hafi einnig lýst atburðum á sama veg. Í skýrslunni er lýst viðræðum lögreglu við Z á vettvangi. Segist hún hafa talað við X í síma um kl. 18.00 þá um kvöldið, en X og ákærði hafi þá verið að rífast. Ákærði hafi síðan hringt laust upp úr kl. 20.00 og beðið hana um að koma strax. Það væri ,,spurning um líf og dauða”. Z hafi þá flýtt sér heim til X og komið að henni þar sem hún sat í sófanum með stóran brauðhníf í kjöltunni. Z kvað ákærða hafa sagt að áverkinn hafi hlotist fyrir rúmri klukkustund og X hefði ekki heimilað honum að hringja í neyðarlínuna. X hafi gefið sér í skyn með ,,varamáli“ að ákærði væri valdur að áverkunum. Í skýrslunni segir að X og ákærði hafi bæði verið ölvuð.
Ákærði var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt óslitið frá 29. júlí sl. Undir rannsókn málsins hjá lögreglu og fyrir dómi er gæsluvarðhaldskrafan tekin fyrir 29. júlí sl. kvað ákærði X hafa greint sér frá að hún hefði dottið á hníf og þannig hlotið áverkann á háls.
X var flutt á sjúkrahús. Áverkavottorð sem Hannes Petersen yfirlæknir ritaði og dags. er 29. júlí sl. er svohljóðandi.
,,Undirritaður sá sjúkling fyrst á slysadeild og framkvæmdi síðan aðgerð á sjúklingi í framhaldi af því. Vottorðið er einnig byggt á gögnum frá slysadeild og háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala háskólasjúkrahúss Fossvogi.
Sjúklingur kom á sjúkrahúsið í sjúkrabíl, þá með greinilegt sár vinstra megin á hálsi. Í fyrstu blæddi lítið frá sári, en eftir að læknar slysadeildar höfðu kannað sárið eilítið fór að bera á vaxandi blóðkekki og mari vinstra megin á hálsi ásamt því að sjúklingur átti erfitt með andardrátt. Var því afráðið að drífa sjúkling í aðgerð og var þess vegna kallað í undirritaðan. Við skoðun undirritaðs á slysadeild sást skurður sem var ca 4 sm að lengd og frá honum blæddi kröftuglega. Var því afráðið að exploera sár í bráðaaðgerð. Sjúklingur var því fluttur á skurðstofu og svæfður.
Við intubation var töluverður bjúgur í koki og barkakýli og gekk erfiðlega að koma barkarennu í sjúkling en það tókst. Strax var byrjað að exploera sár sem mældist nákvæmlega 4,7 cm. Undirhúð var í sundur og platysmavöðvi (hálsflatningur), sem liggur undir og í undirhúðina, var einnig í sundur. Strax var komið niður að töluverðum blóðlifrum sem voru hreinsaðar og esptist þá blæðing. Greina mátti blæðingu frá bláæð aftarlega í skurðsári og var hnýtt fyrir þá bláæð sem væntanlega var önnur af tveimur stærstu bláæðum háls. Sár var kannað áfram og sjá mátti að skornar höfðu verið í sundur pretracheal vöðvar ásamt því að lag hefur náð niður að skjaldbrjóski vinstra megin og tekið þar í sundur þá vöðva sem þar liggja, þ.e. thyrohyoideusvöðvann og cricothyroidvöðvann (hring-og skjaldbrjóskvöðvi.) Skurður var í brjóskinu og grunur vaknaði að hreyfitaug vinstra raddbands sé í sundur en á þessu stigi er ekki hægt að sanna það. Sjúklingur þarf að vera vakandi svo hægt sé að kanna hreyfingu raddbanda. Blóðlifrar voru hreinsaðar og sár kannað aftur fyrir barkakýli og niður að efsta hluta vélinda sem virtist vera heilt, ekki var að sjá leka þaðan. Skurður lá síðan aftur að stóru hálsæðunum vena jugularis interna og carotis og voru þær æðar heilar. Blæðing stöðvuð og dreni komið fyrir í skurðsári og því lokað á hefðbundinn hátt. Sjúklingur var fluttur á gjörgæsludeild og hafður þar sofandi í öndunarvél. Þar sem töluverður bjúgur er í og umhverfis barkakýli og má gera ráð fyrir að það taki einhvern tíma fyrir þann bjúg að renna burt svo tryggt sé að öndunarvegir séu opnir þegar barkarenna verður fjarlægð.
Um er að ræða hálsáverka með skarpri skurðlínu í gegnum þá vefi sem fyrir lágu. Húð var beinskorin 4,7 sm þvert á lengdarstefnu háls, milli höfuðvendivöðvans vinstra megin og barkakýlis, hliðbrúnar þess. Vöðvar og aðrir mjúkvefir voru í sundur skarpt, en einungis eggjárn af einhverri tegund getur framkallað slíkan skurð, væntanlega eggjárn sem hefur bit í báðar áttir. Eggjárn þetta hefur náð að skera í sundur tvær æðar, eina slagæð og eina bláæð og nánast hefur bragðið rétt sleppt stóru æðum háls sem hefði væntanlega leitt til blæðingar er kostað hefðu sjúkling lífið. Bragðið náði niður að skjaldbrjóski barkakýlis og tók þar í sundur vöðva og hugsanlega taug þá er nærir vinstra raddband. Síðari tíma mat verður að leiða það nákvæmlega í ljós. Skurðurinn er vinstra megin á hálsi og verður sú staðsetning að teljast óvenjuleg m.t.t. sjálfsáverka þar eð sjúklingur er rétthentur samkvæmt upplýsingum frá lækni á slysadeild. Dýpt skurðar bendir til að töluverðri orku hafi verið beitt við lagið. Aðra áverka má greina í andliti yfir vinstri augabrún og á höku. Áverkar sem gætu hafa verið til komnir við högg frekar en eggvopn.”
Hannes Petersen yfirlæknir kom fyrir dóminn og staðfesti og skýrði vottorðið. Hann lýsti því að mjög litlu hafi mátt muna svo að skurðurinn á hálsi X hefði skorið í sundur líffæri og æðar sem hefðu leitt til þess að X hefði blætt út á mjög skömmum tíma.
Þá liggur fyrir læknisvottoð X dags. 1. ágúst sl. það hljóðar svo:
,,Komið er með X á slysamóttöku Landspítalans í Fossvogi þ. 28/7 2002, kl. 21. 09. Hún kemur með neyðarbíl, sem hafði verið kallaður að heimili hennar, að mér skilst, þar sem hún hafði legið alblóðug á hálsi með skurð þar, sem eitthvað var óljóst hvernig hafði borið að.
Lítið viljað tjá sig um það sjálf, en sambýlismaður eða kærasti mun hafa verið þarna einnig. Það kemur einnig fram, að hún sé með hepatitis, það er að segja lifrabólgu, eftir vímuefnamisnotkun. Segist sjálf hafa notað mikið af eiturlyfjum í [...], þar sem hún hafi verið einhvern tíma.
Við skoðun hér þá er hún með merki um nokkra áverka. Hún kvartar sjálf um óþægindi í hægra olnbogasvæðinu. Hún er bólgin þar og að mati læknis á neyðarbíl er spurning um hvort hún sé ekki brotin um olnbogann.
Þá er hún með verk í hægri síðunni og ofan við vinstri augabrún er skurður. Sá skurður er ekki eftir hníf heldur eftir högg trúlega. Hann er þverlægur og um það bil 2,5 cm á lengd. Gæti verið til kominn eftir að hún hafði fengið högg á ennið, en þessi áverki er ekki eftir neitt með hvassari brún.
Þá er hún með stungusár vinstra megin á hálsi, um miðjan hálsinn. Þetta virðist vera eftir hníf. Skurðurinn er þverlægur. Það eru enginn “æfingaskurðir” sjáanlegir á hálsinum, eins og oft má sjá ef að fólk er að veita sér hálsáverka með hníf sjálft.
Þetta er eins og áður segir stungusár, ekki skurður, mjög skarpt og utanvert þá er á svona 3 4 mm svæði grynnri skurður, þannig að eggin á hnífnum hefur væntanlega snúið þar að, en inn að miðlínu er alveg skarpt fyrir og væntanlega bakki hnífsins verið þeim megin.
Það er við komu erfitt að gera sér grein fyrir dýpt skurðarins. Hann virðist nokkuð djúpur og blæðir hressilega. Maður sér, að það hefur skorist í gegnum vöðva og það er bláæðablæðing, trúlega úr external jugular venunni og síðan virðist vera lítil arteriu-blæðing eða slagæðablæðing.
Rödd sjúklings er mjög rám. Hún er dálítið rám fyrir, sennilega eftir miklar reykingar, en þetta er þó mun meira en áður hefur verið að hennar mati og mér finnst sennilegast, að taugin, sem að stjórnar raddbandinu, nervus laryngeus recurrens, sé sködduð þarna vinstra megin.
Hún hefur verið stöðug í púls og blóðþrýstingi, en hefur örugglega misst hálfan til heilan lítra af blóði. Súrefnismettun er góð við komu.
Mitt mat er, að hún vilji ekki gefa mér upp hvernig þessi áverki hafi til komið, því þessi stunguáverki sé frá öðrum aðila. Hún er sjálf rétthent og ef að olnboginn er skaddaður og brotinn, þá getur hún ekki hafa beitt hægri hendinni til þess að veita sér þennan áverka og hefur þá orðið að taka hníf með vinstri hendi og stinga þarna beint inn og ég tel það mjög ósennilegt.
Tel því sennilegra að olnbogaáverkinn, áverki á síðu og skurðurinn á augabrún tengist þessum sama áverka, það er að segja, að þeir séu allir eftir sama aðila.
Það eru teknar blóðprufur og pantað í hana blóð. Það er stoppuð blæðing í skurðinum á hálsinum með því að þrýsta á með kompressu og síðan sauma ég skurðinn ofan við vinstri augabrún.
Greinilegt að gera þarf aðgerð á hálsinum til að stöðva blæðingu endanlega, en þar sem ástandið virðist stöðugt, er ákveðið að bíða eilítið, þar sem komið er á deildina alvarlegt umferðarslys, sem einnig þarf að sinna og eins þarf að fá röntgenmynd af olnboga og brjóstkassa.
Það er þó áfram fylgst með henni inni á bráðaherbergi, hálsinn er mjúkur og engir öndunarerfiðleikar, en síðan snögglega á 1 2 mínútna bili, snarversnar henni. Það er búið að blæða í hálsinn sjálfan frá skurðinum, það er að segja blóðið þrýstist inn í vefi og þrengir orðið að barka. Hún á erfitt með að ná andanum, það kemur fram þrengslahljóð við öndun og súrefnismettun fellur.
Umbúðum er svift strax af sárinu og það opnað upp aftur með töng og vellur þá fram mikið af blóði og henni léttir við. Því er hún drifin beint upp í aðgerð í svæfingu og háls- nef- og eyrnalæknar og æðaskurðlæknir annast þá aðgerð.
Samkvæmt lýsingu frá bæklunarlæknum þ. 31/7 þá kom síðan fram að hún var brotin um olnbogann, það er að segja upphandleggsbeinið rétt ofan olnboga og gekkst hún undir aðgerð þess vegna 31/7. Að mínu mati rennir þetta frekari stoðum undir það, að hún hafi ekki sjálf veitt sér hnífsáverkann.”
Yngvi Ólafsson sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum ritaði læknisvottorð vegna handleggsbrots X sem lýst er í ákærunni. Þar segir m.a: ,,Undirritaður sá X við endurkomu 15.08.02 en þá kom hún til fjarlægingar á saumum, gipsskipta og fyrsta eftirlits með röntgen eftir aðgerðina sem framkvæmd var í kjölfar innlagnarinnar 28.07.02. Voru sár staðfest gróin og voru saumar fjarlægðir þar sem þess þurfti. Sýndu röntgenmyndir hinsvegar að skrúfurnar sem notaðar voru til að festa brotflaska þann í hægri olnboga sem upphaflega var til staðar höfðu misst haldfestu sína og hafði hliðrun orðið á flaskanum. Var þó ákveðið að láta gott heita og fara ekki út í frekari aðgerðir að svo stöddu. Fékk X nýtt gips á olnbogann sem áætlað var að hún hefði í 2-3 vikur til viðbótar en þá fékk hún nýjan tíma til endurmats.
Að mati undirritaðs hefur X hlotið varanlegt mein af áverkum sínum. Er annars vegar um að ræða lýti vegna sárs á beruðu svæði þ.e. hálsi, en hins vegar afleiðingar olnbogabrots sem enn er ekki fullmeðhöndlað og í raun ekki útséð um hvort grói. Ef brotið grær er ljóst að það mun gróa með vissri styttingu sem hugsanlega getur leitt til aukins burðarhorns (cubitus valgus) á olnboganum eða óstöðugleika utanvert en væntanlega verður verkjavandamál óverulegt eða ekkert. Ef það grær afturámóti ekki er ljóst að til frekari aðgerða þarf hugsanlega að koma með tilheyrandi lengingu meðferðartímans og stirðleika í liðnum. Á hvorn veginn sem olnbogaáverkinn fellur þykir undirrituðum þó ljóst varanleg mein þar verða einhver.“
Nú verður rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Við þingfestingu máls þessa neitaði ákærði sök. Hann kvað X hafa ráðist á sig og hann hafi verið að reyna að ná hnífnum af henni, en við þetta hafi hún hlotið skurðinn á hálsini, en ákærði kvaðst hafa heyrt smell er hann reyndi að taka hnífinn af henni. Hann kvaðst ekki átta sig á því hvernig áverkinn á augabrún hafi hlotist. Hann neitaði því að hafa reynt að meiða X.
Við aðalmeðferð málsins játaði ákærði sök utan að hann neitaði að hafa ætlað sér að bana X. Hann kvaðst hafa komið á heimili hennar þennan dag að hennar ósk til þess að aðstoða hana við að koma fólki út úr íbúðinni, en þetta fólk hafði dvalið þar í nokkra daga. Ákærði kvað aðdraganda atburðarins sem í ákæru greinir þann að X hafi beðið hann um að sækja hníf fram í eldhús, hnífinn sem hún hefði ráðist á hann með hálfum mánuði fyrr, eins og ákærði bar. Hann kvaðst hafa sótt hnífinn og er hann kom með hann hafi X spurt hvað hann væri að gera með þennan hníf, hún hafi beðið hann um að sækja smjörhníf. Þessu næst lýsti ákærði því að X hafi verið búin að æsa hann upp og sagt að hún hefði geymt í bankahólfi gögn vegna fyrri ákæru máls þessa, en gögnin hefði ákærði fengið hjá lögfræðingi sínum. Þá hafi hún sagst vera búin að smita ákærða af eyðni og hún ætlaði að ,,tortíma” honum. Hún hafi þannig verið búin að rugla í ákærða. Hann lýsti því einnig að X hefði rekið á eftir sér varðandi mann, sem útvega átti amfetamín fyrir þau. Ákærði kvaðst hafa verið í miklu fráhvarfi og X einnig, en hún hafi verið mjög æst og óróleg. Hann kvaðst er hér var komið hafa misst stjórn á sér og framkvæmt verknaðinn í skyndibrjálæði og að átök hefðu verið milli þeirra. Hann hafi þá snúið upp á handlegginn á X svo hann brotnaði, en hann kvaðst hafa heyrt smella í handleggnum. X hafi hlotið áverkann á hálsinn í átökunum, en ekki hafi vakað fyrir sér að vinna henni mein. Hann sagði X hafa verið búna að æsa sig svo upp að runnið hafi á sig æði og hann hafi snúist í hring og hvorki vitað upp né niður. Þá hljóti hún að hafa hlotið áverkana á augabrún af völdum hnífsins, en fram kom hjá ákærða að hann áttaði sig ekki vel á þessu og á einum stað við skýrslutöku fyrir dóminum kvaðst hann hafa stokkið á X. Hann kvað mikið hafa blætt úr henni og þau hafi rætt þetta eftir á. Hann hafi beðið X um að setjast í sófann og þá hafi hann sprautað vatni og sápu á gólfið, en það hafi verið gert til að svo liti út sem X hefði dottið á hnífinn.
Vitnið X kvaðst hafa farið á heimili ákærða daginn fyrir atburðinn sem í ákæru greinir og beðið hann um að aðstoða hana við að koma fólki út úr húsnæði sínu, en fólkið hafi dvalið þar um hríð. Fólkið hafi flutt töskur sínar út úr íbúð hennar um hádegisbilið, en öll hafi þau setið og spjallað saman uns fólkið fór milli kl. 16.00 og 17.00 á sunnudeginum. Þá voru þau ákærði tvö eftir í íbúðinni, en þau hafi bæði verið ölvuð, verið að drekka og bæði búin að vera að neyta lyfja. Þau hafi þá tekið að ræða málið, sem lýst er í ákærunni frá 21. maí. Hún kvaðst ,,dálítið sniðug með það að ýta svona” og kvaðst þannig hafa reitt ákærða til reiði með því að ljúga að honum, en hún hafi gert sér grein fyrir því að hún reitti hann til reiði, en hún sagði ákærða hafa orðið mjög æstan við þetta. X greindi frá því að sama hafi verið hvar þau ákærði hittust um sumarið hún hefði allt sumarið verið búin að ,,hreyta einhverjum skít í hann”. Hún kvað það sem hún sagði ákærða hafa verið ,,tóm steypa”. Hún hafi hringt í systur sína, sem skellti á hana, þar sem hún hafi heyrt að X var ölvuð og þau ákærði hafi verið að rífast. Fram kom hjá X að hún mundi illa það sem gerðist eftir símtalið við systur sína. Hún kvaðst ekki vita hvernig hún handleggsbrotnaði. Hún mundi ekki eftir því að hafa beðið ákærða um að sækja smjörhníf fram í eldhús eins og ákærði bar fyrir dóminum. Henni fannst hún hafa setið í sófa er ákærði var að ýta hnífnum í augabrún á henni til að hræða hana. Hún taldi sig hafa fengið áverkann á augabrún við þetta, þótt hún myndi það ekki. Hún mundi ekki hvernig hún hlaut áverkann á háls, en það gæti hafa verið í átökum milli þeirra ákærða.
Tekin var skýrsla af X á gjörgæsludeild Landspítalans 31. júlí sl. Þar með er meðal annars svofelldur kafli:
,,X segist minnast þess að hafa setið í sófanum í stofunni þegar Kristján Viðar hafi allt í einu birst fyrir framan hana með stóran eldhúshníf í höndunum. Hann hafi verið að sveifla hnífnum og ota honum að henni en X segist hafa verið mjög hrædd og beðið hann að hætta þessu. Kristján Viðar hafi hinsvegar orðið mun æstari og skorið hana í augabrún fyrir ofan vinstra auga. X segir að hún hafi þá orðið mjög hrædd og beðið hann að hætta þessu, hún segist ekki muna aðdragann að þessu neitt betur.
Kristján Viðar hafi síðan skorið hana á háls, þar sem hann stóð beint fyrir framan hana. X segist halda að hann hafi skorið hana einu sinni en þó ekki vera viss um það. X segir að við hnífsskurðinn þá hafi blóð spýst út og henni sortnaði fyrir augum. X segir að Kristján Viðar hafi að þessu loknu sett hnífinn í kjöltu hennar og haft á orði að það væri til þess að fingraför hennar kæmu á hnífinn. X segir að hann hafi ekki hlúð neitt að henni heldur farið að tala um að X ætti að segja að hún hefði veitt sér þessa áverka sjálf.”
Fyrir dómi kvaðst X hafa verið nýkomin úr öndunarvél er þessi skýrsla var tekin og hún sé ekki alveg viss um það hvernig þessir atburðir gerðust. Þá kvaðst hún hafa verið með ,,tremma” um nóttina og hafa verið viss um það að ákærði væri inni í sjúkrastofunni með sér. Þá hafi henni verið gefið Librium áður en hún gaf skýrsluna. Nánar aðspurð fyrir dómi kvaðst hún ekki muna þetta.
X kvað þau ákærða hafa rætt saman eftir að hún hafi hlotið áverkana og þá hafi borið á góma að lögreglan myndi ekki trúa því að slys hefði orðið. Þá hefði ákærði sprautað sápu á gólfið svo því yrði fremur trúað að hún hafi dottið á hnífinn er hún var að skúra gólfið. X kvaðst hafa beðið ákærða um að hringja í Z systur sína. Þetta gerði ákærði og kom Z skömmu síðar.
X kvaðst hafa verið í sambandi við ákærða eftir þennan atburð. Þau hafi meðal annars reynt að rifja upp það sem gerðist. Hún sagði ákærða ekki hafa hvatt sig til að bera á annan veg fyrir dóminum en sannleikanum samkvæmt.
X lýsti afleiðingum árásarinnar á sig. Hún kvað hægri hendina á sér vera bogna og aðgerð þurfi til að rétta handlegginn. Vísast í þessu sambandi til læknisvottorðs sem Yngvi Ólafsson ritaði og rakið var að framan. Þá hafi henni liðið illa andlega eftir þetta.
Vitnið Arna Óskarsdóttir lögreglumaður staðfesti fyrir dóminum skýrslu, sem hún ritaði við komu lögreglu að [...], sunnudaginn 28. júlí sl., en hluti skýrslunnar var rakinn að ofan. Arna kvað ákærða og X hafa lýst því á vettvangi að X hefði dottið á hnífinn, en bleyta hafi verið á gólfinu.
Vitnið Y kvað X systur sína hafa hringt í sig um kl. 18.00 sunnudaginn 28. júlí sl. og spurt sig hvort hún vissi ekki til þess að hún hefði undir höndum skjöl varðandi fyrri ákæru máls þessa. Y kvaðst ekkert hafa vitað um þetta. Þá hafi ákærði, sem var mjög æstur, komið í símann og spurt að því sama. Hún kvaðst einnig hafa sagt honum að hún vissi ekkert um þetta. Bæði hafi ákærði og X verið að drekka, eða undir öðrum áhrifum, en óregla hafi verið á þeim báðum. Um kl. 19.30 hafi ákærði hringt aftur og sagðist vera að hringja fyrir X og bað hann Y um að koma strax. Y, sem var að borða, kvaðst hafa dregið seiminn, en ákærði hafi sagt þetta varða lífi eða dauða, því X hafi stungið sig á hnífi. Hún hafi því farið á heimili systur sinnar ásamt Birni syni sínum. Er hún kom þangað hafi blasað við sér hrikaleg sjón. X hafi setið eða hálflegið í sófa öll blóði drifin. Á vettvangi hafi ákærði sagt að X hafi runnið á gólfinu og dottið á hníf er hún var að skúra gólfið. Íbúðin hafi borið þess merki að átök hefðu átt sér stað. Y kvað X hafa gefið til kynna að ákærði væri valdur að áverkunum.
Vitnið B lýsti því er hann fór ásamt Y móður sinni í íbúð X eftir að ákærði hringdi. Í íbúðinni hafi allt verið á rúi og stúi og X hafi setið með hníf í fanginu og með skurðsár á hálsi. Ákærði hefði sagt að X hefði dottið á hnífinn á blautu gólfinu.
Vitnið C lýsti því að hann hefði farið úr íbúð X um hádegisbilið þennan dag. Hann hafi hitt ákærða og X og einhverjar kýtingar hafi verið á milli þeirra. Um ástandið í íbúðinni er hann fór sagði vitnið að það hafi verið ,,nokkuð skikkanlegt”.
Vitnið D kvaðst hafa farið úr íbúð X um kl. 17.00 þennan dag, en þau C fóru þá og útveguðu sér annað húsnæði. Allt hafi virst í lagi er hún fór.
Vitnið Kristján Kristjánssonn rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og lýsti aðkomu sinni að rannsókn málsins. Vitnisburður hans varpar ekki ljósi á málavexti og verður ekki rakinn hér.
Vitnið E kom fyrir dóminn og lýsti því að hann hefði orðið vitni að deilum ákærða og X um það bil 10 dögum fyrir atburð þann, sem hér um ræðir. Þá hafi ákærði ætlað að leggja hendur á X, en vitnið gengið á milli. Þá hafi X komið með hníf, en vitnið kvaðst hafa gengið á milli. Vitnisburður Þrastar varpar ekki ljósi á málsatvik þessa máls og verður ekki rakinn frekar.
Niðurstaða ákæru dags. 30. október 2002.
Ákærði játar að hafa valdið þeim áverkum sem hér um ræðir. Hann neitar hins vegar að fyrir sér hafi vakað að bana X eða vinna henni mein. Eins og rakið hefur verið hefur framburður ákærða og vitnisburður X tekið miklum breytingum og erfitt er að ráða af frásögn þeirra nákvæmlega um atburðarrásina. Bæði hafa borið að þau hafi verið ölvuð og undir áhrifum lyfja. Ákærði kvaðst hafa sótt hnífinn fram í eldhús að beiðni X og er hann kom með hnífinn hafi hún sagt honum að hún hafi beðið hann um að sækja smjörhníf. X mundi ekki eftir að hafa beðið ákærða um að sækja hníf og hjá lögreglunni bar hún að ákærði hafi skyndilega birst með hnífinn og veitt henni áverka, eins og rakið var. Ákærði lýsti því hvernig hann missti stjórn á skapi sínu, en hann kvaðst hafa veitt X áverkana í átökum þeirra á milli. Samkvæmt vitnisburði, sem rakinn hefur verið, bar íbúðin merki eftir átök og það verður einnig ráðið af ljósmyndum af vettvangi. Þá bar X fyrir dómi að átök kynnu að hafa átt sér stað þótt hún myndi það ekki. Hún lýsti atburðum á annan veg hjá lögreglu. Að þessu virtu telur dómurinn að leggja verði til grundvallar að X hafi hlotið áverkana í átökum milli þeirra ákærða.
Sannað er með játningu ákærða, sem kvaðst hafa misst stjórn á sér, að hann hafi veist að X með ofbeldi eins og lýst er í ákærunni. Þá er sannað með játningu hans og með öðrum gögnum, þar á meðal læknisfræðilegum gögnum, sem rakin voru, að afleiðingar árásarinnar voru þær sem lýst er í ákærunni.
Ákærði sótti hnífinn, en heildarlengd hans er 339 mm og blaðlengd 202 mm, fram í eldhús og veittist með honum að X eftir að hann missti stjórn á skapi sínu. Hún hlaut hnífslag á vinstri augabrún og 4,7 cm sár á háls, þannig að slagæð og bláæð skárust í sundur. Mjög litlu mátti muna að ekki hlytist af banvænn hálsáverki og vísast um þetta til vitnisburðar Hannesar Petersen yfirlæknis. Það var því hending ein að ekki hlaust af bani. Þótt ekki sé unnt að slá því föstu að fyrir ákærða hafi beinlínis vakað að svipta X lífi, er hann sótti hnífinn, telur dómurinn að honum hafi mátt vera ljóst er hann veittist að X með hnífnum eftir að hann missti stjórn á skapi sínu, að langlíklegast væri að bani hlytist af atlögunni, þótt tilviljun hafi ráðið að svo fór ekki. Samkvæmt þessu ber að heimfæra brot ákærða til 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hengingarlaga, eins og lýst er í ákærunni.
Samkvæmt b-lið 2. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála bar lögreglunni að rannsaka persónulegar aðstæður ákærða. Rannsókn málsins beindist að mjög alvarlegu sakarefni og því bar að vanda sérstaklega til rannsóknar þessa þáttar málsins, sbr. niðurlag ofangreindrar lagagreinar. Þótt þessu hafi ekki verið sinnt sem skyldi kemur það ekki að sök eins og hér stendur á þar sem verjandi ákærða lagði fram örorkumat sem ákærði gekkst undir vegna umferðarslyss á árinu 1995. Örorkumatið unnu Júlíus Valsson sérfræðingur í gigtarlækningum og embættislækningum og Atli Þór Ólason sérfræðingur í bæklunarlækningum og er örorkumat þeirra dagsett er 20. september 2000. Þar er vísað til læknisfræðilegra rannsókna sem ákærði gekkst undir vegna slyssins og þar koma fram upplýsingar um persónulega hagi ákærða þótt upplýsingarnar séu séu ekki alveg nýjar. Undir aðalmeðferð málsins og í skjölum málsins komu fram viðbótarupplýsingar. Ákærði býr einn og er 75% öryrki.
Ekkert hefur komið fram sem skyggir á sakhæfi ákærða. Hann er því sakhæfur.
Ákærði hefur frá árinu 1972 hlotið sex refsidóma, þar af er einn dómur Hæstaréttar. Hann hefur hlotið dóma fyrir fíkniefnabrot, líkamsárásir, þjófnað, nytjastuld, manndráp og fyrir rangar sakargiftir. Auk þessa hefur hann gengist undir tvær dómsáttir fyrir áfengislagabrot og fíkniefnabrot, tvær lögreglustjórasáttir fyrir umferðarlagabrot og fíkniefnabrot og eina viðurlagaákvörðun fyrir umferðarlagabrot. Ákærði hlaut síðast refsingu er hann gekkst undir lögreglustjórasátt á árinu 1996.
Brot ákærða nú eru bæði stórfelld. Árás ákærða á X 13. maí 2001 var tilefnislaus og hrottafengin og á ákærði sér engar málsbætur vegna hennar.
Samkvæmt vitnisburði X reitti hún ákærða vísvitandi til reiði 28. júlí sl. Ákærði framdi brot sitt þá í mikilli reiði, sem X átti að miklu leyti sök á. Verður þetta virt ákærða til refsilækkunar, sbr. 4. tl. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga, sbr. og 75. gr. sömu laga. Ákærði hefur að mestu leyti játað brot sín fyrir dómi og er það virt til refsilækkunar.
Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir þannig hæfilega ákvörðuð fangelsi í 7 ár.
Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 29. júlí sl. koma til frádráttar refsingunni með fullri dagatölu.
Hinn 12. janúar 2002 gaf X skýrslu hjá lögreglu og afturkallaði kæru sína á hendur ákærða. Með bréfi X til skipaðs réttargæslumanns, sem dags. er 26. febrúar 2002, afturkallaði hún kæruna og kvaðst ekki lengur þurfa á réttargæslumanni að halda, en lögmaðurinn hafði gert bótakröfu, dags. 1. nóvember 2001, fyrir hönd X. Bótakrafan var tekin upp í ákæruna, þótt ef til vill hefði verið rétt eins og á stóð að gera það ekki vegna afturköllunarinnar. Ekki hefur verið hreyft andmælum við þessu, en krafist er lækkunar á bótakröfunni.
X á rétt á miskabótum úr hendi ákærða, skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Litið er til þess hversu hrottaleg árás ákærða var. Þykja bæturnar vegna sakarefnis ákæru dags. 21. maí 2002 hæfilega ákvarðaðar 400.000 krónur auk vaxta, svo sem í dómsorði greinir.
X á einnig rétt á miskabótum úr hendi ákærða skv. ofangreindu ákvæði skaðabótalaga vegna misgerðar við hana, sem lýst er í ákærunni frá 30. október sl. Árás ákærða var mjög alvarleg og hafði í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir X. Þykja bætur til hennar hæfilega ákvarðaðar 600.000 krónur auk vaxta eins og greinir í dómsorði.
Þórdís Bjarnadóttir héraðsdómslögmaður var skipuð réttargæslumaður X og fór hún með báðar bótakröfurnar fyrir hennar hönd. Er ákærði dæmdur til að greiða Þórdísi 150.000 krónur í réttargæsluþóknun.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 400.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns.
Ragnheiður Harðardóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson sem dómsformaður, Páll Þorsteinsson og Arnfríður Einarsdóttir settur héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Ákærði Kristján Viðar Júlíusson sæti fangelsi í 7 ár, en til frádráttar refsingunni komi óslitið gæsluvarðhald hans frá 29. júlí 2002 að telja.
Ákærði greiði X 1.000.000 krónur í miskabætur auk dráttavaxta frá uppsögu dómsins að telja og til greiðsludags.
Ákærði greiði 150.000 krónur í réttargæsluþóknun til Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns X.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 400.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns.