Hæstiréttur íslands

Mál nr. 287/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


Miðvikudaginn 30

 

Miðvikudaginn 30. ágúst 2000.

Nr. 287/2000.

Hringbraut ehf. og

Þórarinn Jónsson

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

Hjörleifi K. Júlíussyni

(Valgarður Sigursson hrl.)

                                              

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

H höfðaði mál gegn Þ og HB. Kröfðust Þ og HB þess að H yrði gert að setja málskostnaðartryggingu, með vísan til b.liðar 1. tl. 133. gr. laga nr. 91/1991. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu Þ og HB, þar sem H hefði sýnt fram á að hann væri fær um að greiða málskostnað, sem á hann kynni að falla við málssókn hans á hendur Þ og HB.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júlí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2000, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert í máli sínu á hendur þeim að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að varnaraðila verði gert að setja málskostnaðartryggingu og greiða kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2000.

Málsaðilar eru:

Stefnandi er Hjörleifur K. Júlíusson, kt. 200653-5569, Grundarsmára 12, Kópavogi,en stefndu eru Hringbraut ehf., kt. 580797-2029, Vitastíg 13, Reykjavík, Þórarinn Jónsson, kt. 190447-7669, Grjótaseli 17, Reykjavík og Sjóvá-Almennar hf. kt. 701288-1739, sem stefnt er til réttargæslu.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 5. júlí sl.  Það var þingfest á reglulegu dóm­þingi 29. júní sl. Þar gerðu stefndu Hringbraut ehf. og Þórarinn Jónsson þá kröfu, (hér eftir nefndir stefndu), að stefnanda yrði gert að setja málskostnaðartryggingu, með vísan til b.liðar 1. tl. 133. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 (eml.) Lögmaður stefnanda mótmælti þessari kröfu stefndu og urðu lögmenn málsaðila ásáttir um að leggja þennan ágreining í úrskurð dómara. Réttargæslustefndi átti ekki aðild að kröfu þessari stefndu.

Í þinghaldi, sem fram fór 5.júlí sl. hélt lögmaður stefndu fast við kröfu sína um að stefnanda yrði gert að setja umkrafða málskostnaðartryggingu og var málið tekið til úrskurðar, eftir að lögmenn málsaðila höfðu gert dóminum munnlega grein fyrir viðhorfum og sjónarmiðum sínum til ágreiningsefnisins.

Lögmaður stefnda vísar til b. liðar 1. tl. 133. gr. eml. til stuðnings kröfum sínum og vísar til árangurslausrar aðfarargerðar, sem fram fór hinn 21. febrúar sl. Stefnandi benti þar á til fjárnáms tvö eininghús, ásamt aðstöðuhúsi, sem hann var að byggja að Suðurhrauni 4 í Hafnarfirði. Þeirri ábendingu var hafnað af hálfu talsmanns gerðarbeiðanda, þar sem kaupsamningur sé um húsin við Gerplu ehf. og skv. 6. lið þess samnings sé kaupandi réttur eigandi húsanna frá því að fyrsta greiðsla hafi verið innt af hendi. Stefnandi kvaðst þá engar aðrar eignir eiga til að benda á til fjárnáms. Um var að ræða skuld stefnanda við Búnaðarbanka Íslands, að höfuðstóli 7.600.127 krónur, en með áföllnum dráttarvöxtum og kostnaði talsvert á 9. milljón króna.

Lögmaður stefndu telur þessa yfirlýsingu stefnanda leiða fullnægjandi líkur að því, að hann sé ófær um að greiða málskostnað, sem á hann kunni að falla vegna málsóknar hans á hendur stefndu. Sé því skilyrði tilvitnaðs ákvæðis 133. gr. eml. fullnægt.

Lögmaður stefnanda kveður framangreinda fjárnámsgerð stafa af mistökum umbj. síns. Hann sé vel stæður og lagði fram til sönnunar því veðbókarvottorð fyrir eigninni Suðurhólum 4 í Hafnarfirði. Þar komi fram, að stefnandi sé eigandi eignarinnar, samkvæmt kaupsamningi og hafi keypt eignina af Hamra ehf., þinglýstum hennar.  Brunabótamat eignarinnar nemi 72,979 milljónum króna að sögn lögmannsins, en áætluð eign stefnanda sé u.þ.b. 20 milljónir króna að frádregnum áhvílandi veðskuldum. Þá lagði lögmaðurinn fram kaupsamning um hluta fasteignarinnar Melabrautar 19 í Hafnarfirði, þar sem stefnandi selur Dal sf. fjárfestingu, Dalhúsum 45 í Reykjavík tilgreindan hluta fasteignarinnar fyrir 69 milljónir króna til sönnunar á gjaldfærni stefnanda. Ógreiddar eftirstöðvar kaupanda nemi að sögn lögmannsins 8.968.382 krónum. Þessu til frekari sönnunar lagði lögmaður stefnanda fram stefnu á hendur kaupendum eignarinnar, sem þingfest var í Héraðsdómi Reykjaness 20. júní sl. Þar er krafist greiðslu úr hendi eigenda Dals sf. á 8.968.382 krónum, auk dráttarvaxta af 2 milljónum króna frá 17. mars sl. til 28. sama mánaðar en af 8.968.382 króna frá þeim degi til greiðsludags.

Álit dómsins.

Þegar framlögð gögn eru virt, verður að telja, að stefnandi hafi gefið rangar upplýsingar um eignir sínar við fjárnámsgerðina 21. febrúar sl.  Stefnandi hefur sýnt fram á með fullnægjandi hætti að mati dómsins, að hann er fær um að greiða þann málskostnað, sem á hann kann að falla við málssókn hans á hendur stefndu í máli þessu.

Því skilyrði b. liðar 1. tl. 133. gr. sem stefndu byggja á, er ekki fullnægt.

Niðurstaða þessa þáttar málsins er því sú að hafnað er kröfu stefndu um að stefnanda verði gert að setja málskostnaðartryggingu.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu stefndu, Hringbrautar ehf., og Þórarins Jónssonar um að stefnanda, Hjörleifi K. Júlíussyni verði gert að setja málskostnaðartryggingu.