Hæstiréttur íslands
Mál nr. 82/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 24. febrúar 2009. |
|
Nr. 82/2009. |
Ákæruvaldið(Daði Kristjánsson, settur saksóknari) gegn X (Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. febrúar 2009 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 18. febrúar 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 18. mars 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að hann verði úrskurðaður í farbann í stað gæsluvarðhalds. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með dómi Hæstaréttar 8. desember 2008 í máli nr. 656/2008 var fallist á að sterkur grunur beindist að varnaraðila um brot það sem hann hefur nú verið ákærður fyrir með ákæru 18. febrúar 2009 og að skilyrði hefðu þá verið til gæsluvarðhalds yfir honum á grundvelli 2. mgr. 103. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála eins og þau hefðu verið skýrð í réttarframkvæmd. Ákvæði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er samhljóða nefndu ákvæði eldri laganna. Ekkert er fram komið í málinu sem breytir því mati á skilyrðum gæsluvarðhalds yfir varnaraðila sem dómurinn 8. desember 2008 byggðist á. Með vísan til þess verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 19. febrúar 2009.
Ríkissaksóknari hefur gert þá kröfu að úrskurðað verði að X, kt. [...], með lögheimili að [...], nú gæsluvarðhaldsfangi í fangelsinu að Litla Hrauni, Eyrarbakka, verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 18. mars 2009 klukkan 16.00. Um kröfuna vísar ríkissaksóknari til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með ákæru útgefinni 18. febrúar þ.m. hafi ríkissaksóknari höfðað sakamál fyrir Héraðsdómi Suðurlands á hendur X fyrir stórfellda líkamsárás, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 7. nóvember sl., að Y, [...]hreppi, slegið A, kennitala [...], hnefahögg í höfuðið, og með því að hafa skömmu síðar gripið um A og ýtt honum svo hann féll á gólfið af stól og ítrekað sparkað í og stigið á höfuð hans og efri hluta líkama hans á meðan hann lá á gólfinu, svo hann hlaut höggáverka á höfði, andliti, hálsi, hnakka, öxlum og herðablöðum, blæðingar í hálsvöðvum og miklar blæðingar í heilastofni, dreifðar blæðingar í heila með bjúg aðallega við hægra heilahvel og blæðingar milli heilahimna, með þeim afleiðingum að hann lést stuttu síðar. Þá segir ennfremur að kærði þyki vera undir sterkum rökstuddum grun um að hafa með framangreindri háttsemi brotið gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981, en slíkt brot geti varðað fangelsi allt að 16 árum. Meint brot kærða þyki sérstaklega alvarlegt þar sem bani hlaust af atlögunni og þar sem ætluð verknaðaraðferð hafi verið háskaleg og ofsafengin. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar en telja verði og reikna með að ef sakborningur, sem orðið hefur uppvís að jafn alvarlegu broti og ákærði, gangi laus áður en máli ljúki með dómi, þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings.
Þá segir ennfremur í greinargerðinni að ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 8. nóvember sl., fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna, en frá 28. nóvember sl. á grundvelli almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. áður 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 8. desember sl. í málinu nr. 656/2008.
Krafan um gæsluvarðhald byggist á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan 8. nóvember sl. fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í málinu R-76/2008 og síðan á grundvelli almannahagsmuna frá 28. nóvember sl., sbr dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 656/2008, frá 8. desember sl.
Verjandi kærða mótmælir því að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt og vísar til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 508/2005 og 602/2006. Þá vísar hann til 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.
Með vísan til rannsóknargagna málsins liggur kærði undir sterkum grun um að hafa framið ofangreint brot en búið er að gefa út ákæru á hendur honum og er brotið þar heimfært til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot gegn 2. mgr. 218. gr. getur varðað allt að sextán ára fangelsi ef sök sannast. Ákærði hefur á fyrri stigum málsins játað að hafa veist að hinum látna en neitar að hafa gert það með þeim hætti sem í ákæru greinir en ákæra var birt kærða fyrr í dag.
Með hliðsjón af alvarleika brotsins er nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að ákærði sæti gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til 18. mars nk. kl. 16.00. Er því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um gæsluvarðhald kærða og því fallist á kröfu ríkissaksóknara um að kærði sæti gæsluvarðhaldi og þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldi kærða skemmri tíma en krafist er.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð :
Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 18. mars 2009, kl. 16.00.