Hæstiréttur íslands

Mál nr. 790/2016

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Bergi Axelssyni (Björn Þorri Viktorsson hrl.),
(Sigríður Kristinsdóttir lögmaður brotþola )

Lykilorð

  • Misneyting
  • Einkaréttarkrafa

Reifun

B var sakfelldur fyrir misneytingu samkvæmt 253. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því hafa fengið A sem þá var 87 ára til að taka út samtals 42.000.000 krónur af bankareikningi sínum og ráðstafa fjárhæðinni með þremur millifærslum yfir á bankareikning B. Hafði B í skýrslu sinni hjá lögreglu kveðið umrædda fjármuni gjöf frá A en fyrir dómi breytt framburði sínum og sagt að um lán hefði verið að ræða. Var ekki talið að B hefði gefið viðhlítandi skýringar á þessu misræmi. Þá hefði hann ekki gefið haldbærar skýringar á því hvers vegna honum hefði ekkert þótt athugavert við að þiggja svo háa fjárhæð af A sem hann hafði að engu leyti endurgreitt. Loks var talið sannað að A hefði vegna heilbilunarsjúkdóms og skorts á skilningi á tölum hvorki getað gert sér grein fyrir þýðingu þeirra ráðstafana sem falist hefðu í millifærslunum né um hve háar fjárhæðir var að ræða. Hefði B vegna fyrri kynna við A ekki getað dulist fákunnátta hans á sviði fjármála. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brotið hefði beinst gegn öldruðum manni sem gat ekki spornað við verknaðinum sökum sjúkleika síns og um verulegar fjárhæðir hefði verið að ræða. Á hinn bóginn var horft til þess að B hafði ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Var refsing B ákveðin fangelsi í 12 mánuði en fullnustu 9 mánaða hennar frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Þá var honum gert að greiða dánarbúi A 42.000.000 krónur í skaðabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. nóvember 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og einkaréttarkröfu.

Brotaþolinn A lést [...]. febrúar 2017 og hefur dánarbú hans tekið við aðild að einkaréttarkröfu hans samkvæmt lögjöfnun frá 2. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af hálfu dánarbúsins er krafist staðfestingar á ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu, auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í máli þessu er ákærða gefin að sök misneyting samkvæmt 253. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og nánar er lýst í ákæru, með því að hafa 1. ágúst og 8. september 2014 fengið A, sem þá var 87 ára að aldri, til að taka samtals 42.000.000 krónur út af bankareikningi sínum og ráðstafa fjárhæðinni með millifærslum yfir á tilgreindan bankareikning ákærða.

Ákærði kvaðst í skýrslu sinni hjá lögreglu hafa litið svo á að framangreindir fjármunir hafi verið gjöf frá brotaþola og spurning væri hvort litið yrði á þá sem „arf eða eitthvað slíkt“, en fyrir dómi breytti hann framburði sínum og sagði þetta hafa verið lán. Á þessu misræmi hefur ákærði ekki gefið viðhlítandi skýringar. Þá hefur hann ekki gefið haldbærar skýringar á því hvers vegna honum þótti ekkert athugavert við að þiggja svo háa fjárhæð af brotaþola sem ákærði hefur að engu leyti endurgreitt. Loks gat ákærða ekki dulist vegna áratuga kynna sinna af brotaþola fákunnátta hans á sviði fjármála. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu til refsiákvæðis.

Með vísan til refsiforsendna héraðsdóms er refsing ákærða ákveðin eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti vegna einkaréttarkröfunnar, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, svo sem í dómsorði segir.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Bergur Axelsson, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða refsingarinnar og falli sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að öðru leyti skal héraðsdómur vera óraskaður.

Ákærði greiði dánarbúi A 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 938.770 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Björns Þorra Viktorssonar hæstaréttarlögmanns, 868.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands fimmtudaginn 7. júlí 2016

                Mál þetta, sem tekið var til dóms 12. maí 2016, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 21. desember 2015, á hendur Bergi Axelssyni, kt. [...], Þingási 37, Reykjavík, „fyrir misneytingu, í Sveitarfélaginu [...], með því að hafa dagana 1. ágúst 2014 og 8. september 2014, fengið A, kt. [...], sem búsettur var á hjúkrunar- og sjúkradeild [...] og var haldinn minnistruflun vegna langt gengins Alzheimer sjúkdóms og vangetu til þess að átta sig á tölum, til að taka fjármuni út af bankareikningi sínum í Landsbankanum [...], nr. [...], samtals kr. 42.000.000, í þremur millifærslum og ráðstafa allri fjárhæðinni til ákærða með millifærslum yfir á bankareikning hans nr. [...], í aðalútibúi Arion banka og notfært sér þannig bágindi og fákunnáttu A, sem sökum framangreinds ástands síns gat hvorki gert sér grein fyrir  þýðingu ráðstafananna né um hve mikla fjármuni væri að ræða, til þess að afla sjálfum sér fjármunanna án nokkurs endurgjalds, en ákærða gat ekki dulist framangreint ástand A.“

                Í ákæruskjali er þetta talið varða við 253. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum, og er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Þá er í málinu höfð uppi svofelld einkaréttarkrafa, sem haldið var uppi við dómtöku málsins:

                „Í málinu gerir Sigríður Kristinsdóttir, hrl., kröfu f.h. A um að ákærða verði með dómi gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð kr. 42.000.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, af kr. 30.000.000 frá 1. ágúst 2014  til 8. september 2014, en af kr. 42.000.000 frá þeim degi og þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfunnar, en með dráttarvöxtum samkvæmt  9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.“

                Ákærði krefst sýknu og að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að einkaréttarkröfu verði „hafnað“. Þá er þess krafist að sakarkostnaður, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun til handa verjanda ákærða, greiðist úr ríkissjóði.          

I

                Rannsókn þessa máls hófst með kæru Sigríðar Kristinsdóttur hrl. fyrir hönd brotaþola, A, til lögreglustjórans [...], dags. 29. september 2014. Er málsatvikum þar lýst svo, og eru þau atvik óumdeild, að ákærði hafi farið ásamt brotaþola í útibú Landsbankans á [...] þann 1. ágúst 2014, þar sem millifærðar voru 25 milljónir króna kl. 12.32 og síðan 5 milljónir króna kl. 12.50, af bankareikningi brotaþola á bankareikning ákærða. Þá hafi þeir ákærði og brotaþoli aftur komið í sama bankaútibú 8. september s.á., þar sem millifærðar voru 12 milljónir króna af sama reikningi brotaþola á sama reikning ákærða. Að millifærslum þessum loknum hafi innistæðan á reikningi brotaþola numið ríflega 500.000 krónum, en fyrir úttektirnar hafi innistæðan verið ríflega 42,5 milljónir króna.

                Í kærunni er því lýst að brotaþoli sé 87 ára gamall maður sem hafi frá því í október 2013 búið á hjúkrunarheimili Heilbrigðisstofnunar [...], en alla tíð fram að því hafi hann búið á æskuheimili sínu, [...] í [...], ásamt systkinum sínum. Hann sé sjálfmenntaður fræðimaður um fugla og skordýr, en hafi ávallt átt í erfiðleikum með tölur og hafi forðast bókhald og allt sem viðkom rekstri og peningum, eins og allir viti sem umgengist hafi hann í gegnum tíðina. Hann sé nú með töluverð einkenni heilabilunar og sé ófær um að greina tölur eða ráðstafa fjármunum sínum. Hafi B árum saman séð um fjármál hans og haft prókúru á bankareikningum hans frá árinu 2008.

                Í kærunni er auk þess rakið að ákærði hafi í æsku dvalist mörg sumur á [...] og hafi kynnst brotaþola og systkinum hans vel.

                Kærunni fylgdi læknabréf C, læknis við Heilbrigðisstofnun [...], dags. 18. september 2014, varðandi brotaþola, sem síðar verður vikið að.

                 Við rannsókn málsins aflaði lögregla enn fremur mats D geðlæknis á heilsufari brotaþola og hæfi hans til að taka fjárhagslegar ákvarðanir. Að mati geðlæknisins, dags. 7. apríl 2015, verður einnig vikið síðar.

                Meðal rannsóknargagna lögreglu eru ýmis gögn frá bankastofnunum, þ. á m. yfirlit yfir bankareikninga brotaþola, ákærða og eiginkonu ákærða, kvittanir fyrir viðkomandi millifærslum og prókúruumboð fyrir bankareikninga brotaþola. Þá er þar að finna upptökur úr eftirlitsmyndavélum útibús Landsbankans [...] og útprentaðar ljósmyndir úr þeim upptökum, sem sýna ákærða og A athafna sig við gjaldkeraborð í umrædd þrjú skipti.

                Ákærði lagði við rannsókn málsins fram gögn um m.a. ráðstöfun bræðranna A, E og F á árinu 2002 á jörðinni [...] til samnefnds einkahlutafélags, sem nú er í eigu þriggja einstaklinga sem eru meðal vitna málsins. Þá lagði hann fram erfðaskrá þeirra bræðra, E og A, frá árinu 2008, þar sem sömu vitni eru tilgreind sem helstu erfingjar þeirra. Fyrir dómi lagði hann fram nokkurn fjölda gagna til viðbótar, einkum um fjárhag sinn, m.a. skattframtöl og verðmat á fasteign, húsbíl og fólksbifreið. Þá lagði hann fram vottorð úr réttindaskrá loftfara um flugvél í hans eigu, ýmis gögn um verðmæti samskonar flugvéla og yfirlýsingu flugvirkja sem hefur téða flugvél til viðgerðar.

II

                Hér verður gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna fyrir dómi, eftir því sem þörf krefur, þar á meðal vitnisburði lækna og vottorðum þeirra. Einnig verður stuttlega vikið að áður nefndum upptökum/myndum úr eftirlitsmyndavélum. Aðeins að því marki sem nauðsynlegt þykir verður vikið að skýrslugjöf ákærða og vitna hjá lögreglu.

                Ákærði gaf skýrslu fyrir dómi og bar að um lán hafi verið að ræða sem brotaþoli hafi veitt honum af fúsum og frjálsum vilja með þeim þremur millifærslum milli bankareikninga sem greinir í ákæru. Þeir A hafi farið saman í bankann í öll þrjú skiptin, ásamt eiginkonu ákærða og börnum.

                Aðdragandi þessara lánveitinga hafi verið sá að í heimsókn ákærða og fjölskyldu hans til A á hjúkrunardeildinni [...] 31. júlí 2014 hafi þeir A verið að ræða daginn og veginn og þar á meðal hafi borist í tal hve bankahrunið hefði leikið menn illa. Hafi „peningamál“ borist í tal og að ákærða „vantaði smá pening“. Kvað ákærði að A hafi „endilega“ viljað „hjálpa“ sér með það og boðið sér lán. Þetta hafi atvikast svona í spjalli, en ákærði kvaðst ekki hafa farið gagngert til A með það fyrir augum að biðja hann um lán.

                Ekki hafi verið rætt um fjárhæð fyrr en í bankann var komið daginn eftir, 1. ágúst 2014. Kvaðst ákærði ekki hafa haft hugmynd um hvað A ætti mikið fé, en í bankanum hafi þeir fengið yfirlit yfir tvo bankareikninga hans og ákærði þá séð að hann ætti þar samtals um 45–46 milljónir króna. Þeir A hafi þá ákveðið „í sameiningu“ að millifærðar yrðu 25 milljónir króna af reikningi hans á reikning ákærða. A hafi sagt gjaldkeranum fjárhæðina, en ákærði kvaðst hafa rétt gjaldkeranum miða með reikningsnúmeri sínu og kennitölu.

                Á leið frá bankanum hafi A haft á orði að hann hefði verið helst til nískur og spurt ákærða hvort hann gæti ekki notað meira fé, sem ákærði hafi játað. Hafi þeir þá snúið aftur í bankann og A millifært 5 milljónir króna til viðbótar.

                Næst er ákærði heimsótti þá bræður, A og E, á hjúkrunarheimilinu hafi E spurt hvort féð hefði ekki nýst þeim hjónum vel. Kvaðst ákærði hafa játað því og hafi þeir bræður þá boðið þeim meira fé, eftir að hafa lokað að sér og ræðst við um stund. Ákærði kvaðst hafa sagt það skýrt við A í þetta sinnið að hann myndi borga honum féð til baka, nánar tiltekið er flugvél sem hann væri að gera upp seldist, en að A skyldi láta hann vita ef hann vantaði fé, þá skyldi ákærði greiða honum eitthvað af fénu til baka fyrr. Ekki hafi komið til tals milli þeirra að ganga frá skriflegri skuldaviðurkenningu.

                Ákærði sagðist ætíð hafa hugsað sér þetta fé sem lán, þótt hann teldi A ekki endilega hafa verið sama sinnis. Aðspurður hvort hann hafi með einhverjum hætti getað litið á þetta fé sem arf í ljósi kunningsskapar við A, svaraði hann: „Já og nei, mér fannst þetta alveg eins geta verið það.“ Aðspurður hvort það hafi á einhvern hátt haft áhrif á gerðir hans hvernig bræðurnir höfðu ráðstafað jörðinni [...] til þriggja sveitunga sinna nokkrum árum fyrr, hafnaði ákærði því.

                Ákærði kvaðst starfa sem flugstjóri í millilandaflugi og telja sig borgunarmann fyrir þessu láni, þó ekki þannig að hann geti reitt það af hendi fyrirvaralaust, en hann sé fús að ganga svo frá málum að téð flugvél verði sett að veði fyrir skuldinni. Hann kvað fénu hafa verið varið til greiðslu skulda og í flugvélina sem hann vinni nú að því að gera upp. Hann gerði að einhverju leyti grein fyrir fjárhæðum í því sambandi, en vísaði annars til þess að eiginkona sín færi mest með fjármál þeirra hjóna. Hann hafnaði því að nokkur fjármálaóreiða væri í gangi hjá sér eða eiginkonu sinni.

                Ákærði kvaðst hafa verið að [...] í sveit nokkur sumur á barns- og unglingsaldri og hafa heimsótt bæinn og systkinin þar reglulega síðan. Kvaðst hann alltaf hafa varið meira eða minna „öllum [s]ínum frítíma“ hjá þeim. Tók ákærði fram að hann vinni 17 daga í senn og eigi síðan 17 daga frí. Hann hafi alltaf ferðast mikið í frítíma sínum og komið við að [...] sennilega í hverju einasta vaktafríi sínu yfir sumarmánuðina, þ.e. um einu sinni í mánuði frá maí til október, yfirleitt í nokkra daga í senn og gist þá í húsbíl eða ferðavagni á túninu þar. Sérstaklega aðspurður kvað hann þetta einnig eiga við um síðustu árin fyrir atburði máls þessa.  Eftir að þeir bræður, A og E, fluttust á hjúkrunardeild síðla árs 2013 hafi hann þó staldrað styttra við, kannski í einhverja klukkutíma. Á árinu 2014 taldi hann líklegt að hann hafi sótt þá bræður heim nokkrum sinnum, í maí, júní og júlí, áður en kom að umræddum ferðum í bankann 1. ágúst og 8. september það ár. Hann hafi boðið A í bíltúr í öll skiptin.

                Ákærði kvaðst aldrei hafa orðið var við að A væri farið að förlast og ekki hafa vitað um þá greiningu á byrjandi heilabilun sem gerð var með minnisprófi á A í nóv./des. 2013. Hann hafi ekki átt nein samskipti við starfsfólk hjúkrunardeildarinnar um heilsufar hans og ekki merkt neina breytingu á A vitrænt séð þau skipti sem hann hitti hann á hjúkrunardeildinni vorið og sumarið 2014. Hann kvaðst heldur ekki hafa orðið var við það, öll þau ár sem hann hefði þekkt A, að hann væri talnablindur. Aðspurður kvaðst hann heldur ekki hafa orðið var við það að A færi með nein fjárhagsleg umsvif. F, bróðir hans heitinn, hafi einkum haft með slíkt að gera af systkinahópnum á [...], þ.e. fjármál, kaup á vélum o.þ.h. Ákærði tók fram að samskipti þeirra A hafi almennt ekki snúist um tölur eða peninga. Fram kom þó að á árinu 1990 hefði A lánað honum peninga, um eina milljón króna til íbúðarkaupa, sem ákærði kvaðst hafa greitt til baka að mestu þótt A hefði ekki ætlast til þess.

                Ákærði kvaðst hafa vitað af sameiginlegri erfðaskrá A og E, þar sem B, G og H er ánafnað svo til öllum þeirra eigum eftir andlát þess þeirra sem lengur lifir. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa vitað að B færi með prókúru á reikninga A er umræddar millifærslur áttu sér stað.

                Ákærði kannaðist við að hafa gert sér ferð í útibú Landsbankans [...] 15. október 2014, en kvað starfsmann þar hafa misskilið erindi sitt. Erindið hafi einungis verið að beiðast upplýsinga um það hver væri fjárhaldsmaður þeirra bræðra, A og E, svo að hann gæti kannað hvort þeir þyrftu á endurgreiðslu fjárins að halda.

                Í viðbótarskýrslu sem ákærði gaf fyrir dómi að loknum vitnaleiðslum kom fram að honum væri brugðið að sjá hve mikið A væri farið að förlast.

                Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 22. desember 2014 vegna málsins. Liggur fyrir samantekt lögreglu á þeirri skýrslugjöf, sem og hljóðupptaka af henni. Afhenti ákærði þá lögreglu um leið skriflega samantekt sína um atvik málsins og samskipti sín við [...], dags. sama dag. Lýsir hann í þeirri samantekt kærleikum milli sín og systkinanna sem myndast hafi á æskuárum hans, 1970–1979, er hann dvaldi árlega sumarlangt í sveit á [...], auk þess sem hann víkur að atvikum máls þessa.

                Á framburði ákærða fyrir dómi og hjá lögreglu er sá áherslumunur, að ákærði kvaðst fyrir dómi frá upphafi sjálfur hafa litið svo á að um lán væri að ræða, en hjá lögreglu kvaðst hann hafa litið á þetta fé sem gjöf frá A, enda þótt hann hafi, er þeir fóru í bankann í seinna skiptið (8. september), sagt við A að hann gæti endurgreitt þetta fé ef hann þyrfti á því að halda. Sama afstaða verður ráðin af hinni skriflegu samantekt ákærða sem hann lagði fram hjá lögreglu og fyrr var nefnd. Gaf ákærði þá skýringu á þessum mun fyrir dómi að honum hafi skilist að A liti alveg eins svo á að þetta væri gjöf en hann ítrekaði að sjálfur hafi hann alltaf litið á þetta sem lán og ætlað að borga það til baka.

                Þá lét ákærði þess ekki getið við skýrslugjöf hjá lögreglu að fjárhagsvandræði hans hefðu borist í tal milli þeirra A áður en fyrsta millifærslan átti sér stað. Í samantekt af skýrslu hans hjá lögreglu segir að hann hafi verið í heimsókn hjá þeim A og E 31. júlí 2014 og „þeir verið að spjalla um daginn og veginn“ þegar A hafi boðið sér fé „að fyrra bragði“.

                Ennfremur er framburður ákærða fyrir dómi frábrugðinn framburði hans hjá lögreglu að því leyti að hjá lögreglu bar hann um að hafa sjálfur stungið upp á tölunni 25 milljónir króna í bankanum, við fyrstu millifærsluna, og að A hafi samþykkt þá fjárhæð, en fyrir dómi bar hann um að þeir hafi ákveðið þá fjárhæð „í sameiningu“, eins og fyrr sagði.

                Loks ber að nefna að í skýrslu ákærða hjá lögreglu kemur fram að á miða sem ákærði kvaðst hafa afhent gjaldkera við fyrstu millifærsluna hafi staðið reikningsnúmer hans sjálfs og kennitala A. Fyrir dómi staðfesti hann að á miðanum hafi staðið reikningsnúmer hans og „kennitala“, en ekki var hann um það spurður fyrir dómi hvers kennitala það var.

                Að öðru leyti virðist framburður ákærða fyrir dómi samræmast í helstu atriðum framburði hans hjá lögreglu.

                Brotaþoli, A, kom fyrir dóminn í fylgd starfsmanns hjúkrunardeildarinnar þar sem hann býr nú. Hann þekkti ákærða auðsjáanlega, þótt hann heilsaði honum ekki með nafni. Hann kvaðst muna eftir því að hafa farið í bankann með ákærða í eitt skipti. Hann hafi sagt ákærða að taka það fé sem hann þyrfti, en hann hafi ekki ætlast til þess að ákærði tæki það allt. Hann kvaðst ekki vita hve mikið fé hann hafi þá átt í banka, en það hafi ekki verið mörg þúsund, „kannski tíu þúsund“. Í framburði hans kom fram að honum hafi líkað svo vel við ákærða að honum hafi fundist að hann ætti að greiða fyrir honum. Einnig kom fram að honum hafi þótt ákærði eiga inni hjá sér fyrir vinnu á [...], er hann var þar sem unglingur. Hann hafi ekki viljað leggja fram kæru á hendur ákærða. Hann kvaðst hafa litið á þetta sem lán og hafa ætlað að „bjarga“ ákærða. Hann kvaðst hafa búist við endurgreiðslu þegar ákærði væri búinn að „jafna“ eitthvert „mál“ en sagðist ekki muna út á hvað það mál gekk.

                A sagðist hafa búið alla sína ævi á [...], og verið þar með búrekstur ásamt systkinum sínum, en hafa unnið um skeið á [...] við að taka á móti fiski. Hann hafi lokið skólagöngu um fjórtán ára aldur. Aðspurður kvaðst hann alla tíð hafa verið mjög óglöggur á tölur.

                Af framburði A fyrir dómi varð glöggt ráðið að hann býr nú við verulega minnisskerðingu, sem m.a. lýsti sér í því að hann taldi sig enn búa á [...] ásamt E bróður sínum, árið væri 1962 og að þinghaldið færi fram á [...]. Hann kvaðst ekki muna vel eftir ákærða á fullorðinsárum og ekki minnast þess að ákærði hafi heimsótt þau systkinin að [...] á húsbíl. Aðspurður hvort hann minntist þess að hafa lánað ákærða fé til íbúðarkaupa fyrir mörgum árum, kvaðst hann ekki muna eftir því, en sagðist hafa verið svo vel við ákærða að hann gæti vel trúað því að hann hefði gert það. Að því marki sem hann gat borið um atvik samræmdist framburður hans fyrir dómi í meginatriðum framburði sem hann  gaf hjá lögreglu 11. október 2014.

                Eiginkona ákærða, I, kaus að gefa skýrslu fyrir dómi. Hún lýsti atvikum svo að undanfarin ár hafi þau hjónin komið að [...] oft á ári og gist þá í ferðavögnum á túninu þar. Áður fyrr hafi þau hjónin dvalið þar í þrjár eða fjórar vikur í sumarfríum, en eftir að ákærði fór að vinna erlendis í 17 daga í senn, og síðan átt frí í 17 daga, hafi þau nýtt frídaga hans til að skjótast austur, ýmist á [...] eða á [...].

                Er þau ákærði og börn þeirra heimsóttu bræðurna, A og E, um mánaðamót júlí og ágúst 2014, hafi A upp úr þurru minnst á að hann ætti fé sem hann hefði ekki þörf fyrir og spurt hvort ákærði gæti ekki notað það. Ákærði hafi svarað því játandi en síðan hafi talið beinst að öðru. Þau hjónin hafi ekki rætt þetta neitt frekar og ekki haft hugmynd um hve mikið fé A hefði í huga.

                Daginn eftir hafi þau ákærði, börn þeirra og A haldið í bankann, þar sem A hafi látið millifæra 25 milljónir króna yfir á reikning ákærða. Sjálft hafi vitnið sinnt yngsta barni þeirra hjóna í bankanum og lítið fylgst með því sem fór fram, en vitað að verið væri að millifæra þessa fjárhæð. Á leið frá bankanum hafi A sagt að þetta hefði verið níska af sér og spurt, orðrétt, hvort þau gætu ekki „notað 5 milljónir í viðbót“. Þau hafi því snúið aftur í bankann þar sem 5 milljónir króna til viðbótar hafi verið millifærðar. Aðspurð hvað henni hafi þótt um þessar millifærslur kvaðst hún ekki telja sig hafa verið í aðstöðu til að hafa nein áhrif á það sem fram fór milli A og ákærða.

                Næst hafi þau litið við hjá A 8. september 2014, á leið sinni til [...]. Er þau voru að kveðja hafi A beðið þau að bíða aðeins á meðan hann ræddi við E, bróður sinn. Hann hafi síðan kallað á þau aftur og spurt hvort það myndi ekki nýtast fjölskyldunni ef hann léti þau fá meira fé. Þau hafi svarað því játandi, en fjárhæðin hafi ekki verið rædd. Að því búnu hafi A farið með þeim aftur í bankann, þar sem 12 milljónir króna hafi verið millifærðar.

                Ákærði hafi tekið skýrt fram við A, bæði í þetta skiptið og og hið fyrra, að hann ætti flugvél sem verið væri að gera upp og að hann myndi endurgreiða A þegar hún yrði seld. Að auki hefði hann tekið fram að hann myndi greiða A fyrr, ef hann þyrfti á því að halda. Vitnið kvaðst hafa litið svo á að um lán væri að ræða, en ekki gjöf, enda hefði strax verið rætt um að þetta yrði endurgreitt er flugvélin yrði seld, en hún yrði 25–30 milljóna króna virði þegar hún væri tilbúin. Ekki hafi verið rætt um kjör eða skilmála vegna lánsins. 

                Aðspurt um fjárhag þeirra hjóna á þessum tíma sagði vitnið þau hafa verið skuldug, en ekki svo að þau réðu ekki við skuldirnar. Vísaði hún þar til þess að ákærði væri hátekjumaður. Féð sem þau fengu frá A hafi verið notað til að greiða niður skuldir. Nánar aðspurð sagði hún þau hafa greitt niður lán vegna húsbílsins, um 5 milljónir króna eða rúmlega það, um 10 milljónir króna í erlent húsnæðislán, og um tveggja milljóna króna yfirdráttarskuld vegna flugfélags sem ákærði hafi verið ábyrgðarmaður að, en gat ekki gert nánari grein fyrir í hvað féð hefði runnið. Aðspurð um útgjöld sem koma fram á kreditkortareikningi vitnisins upp á tæpa eina milljón króna vegna viðskipta við erlendar vefsíður á ríflega mánaðar tímabili í kringum þann tíma sem umræddar millifærslur fóru fram, gaf hún þá skýringu að um væri að ræða kaup á vörum sem dóttir þeirra hjóna á táningsaldri seldi á netsíðum.

                Vitnið kvaðst hafa talið að þau hjónin væru borgunarmenn fyrir skuldinni við A.

                Vitnið kvaðst ekki hafa fundið neina breytingu á A vitrænt í þessi skipti sem þau heimsóttu hann í ágúst og september 2014, og hvorki hafa fundið að skammtímaminnið væri farið að bregðast honum, né að hann bæri ekki skynbragð á peninga og fjárhæðir. Þar áður taldi vitnið þau ákærða hafa hitt A síðast í kringum mánaðamót maí og júní sama ár, og hafi það þá verið í fyrsta skiptið sem þau hittu hann eftir að hann fluttist á hjúkrunarheimilið síðla árs 2013.

                Framburður eiginkonu ákærða fyrir dómi samræmist í öllum meginatriðum samantekt á skýrslu sem hún gaf við lögreglurannsókn málsins, 21. janúar 2015, þar sem hún hafði réttarstöðu sakbornings. 

                J gaf skýrslu fyrir dómi og kvaðst hafa haft áralöng kynni af A, sem til hafi komið fyrir sameiginlegan áhuga þeirra á fuglum og náttúrufræði. Í framburði hans kom fram að í samskiptum þeirra A hafi margoft komið fram að A ætti erfitt með tölur og peninga, t.d. er vitnið sinnti innkaupum fyrir hann. Nefndi vitnið sem dæmi að A hafi komið með 15.000 krónur til hans til að endurgreiða honum innkaup fyrir 1.500 krónur. Þá hafi A beðið vitnið að gæta greiðslukorts og pin-númers fyrir hann á ferðalagi erlendis.

                Vitnið kvaðst hafa greint breytingar á A vitrænt séð nokkru áður en hann fluttist á hjúkrunardeildina, eða fyrir um 4–5 árum, og fundist skammtímaminni hans vera farið að hraka. Nefndi vitnið sem dæmi að A hafi þá þegar verið orðinn illa áttaður á dögum og fólki og ekki lengur getað sinnt þeim venjubundnu verkum sínum að sinna fulglamerkingum og tæma fiðrildagildrur með reglulegu millibili og að halda utan um niðurstöður í minnisbók. A hafi ekki áttað sig á þessu sjálfur, en smám saman hafi fjarað undan þessum verkum hans.

                Vitnið kvaðst hafa hitt A rétt eftir að hann gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins og hafi það verið í fyrsta og eina skiptið sem hann hafi heyrt nokkurt [...] hallmæla nokkrum manni. A hafi brostið í grát og sagt: „Ég hélt að þetta helvíti væri vinur minn.“

                Vitnið kvaðst hafa upplifað það að E, bróður A, hafi ekki verið kunnugt um millifærslurnar fyrr en málið var komið til lögreglu og að E hafi tekið málið mjög nærri sér.

                Einnig gáfu skýrslu sem vitni B, [...], G, [...], og H, [...]. Þau staðfestu það sem gögn málsins bera með sér, að þau eru núverandi eigendur [...] í gegnum félagið [...] ehf. og jafnframt að þeim sé kunnugt um erfðaskrá bræðranna E og A, frá 18. september 2008, þar sem þau eru tilgreind erfingjar að meginhluta eigna bræðranna, að hinum langlífari þeirra látnum, en um erfðaskrána hafi þeim fyrst orðið kunnugt eftir andlát E. 

                Í framburði þeirra allra kom fram að þau hafi verið farin að veita athygli breytingu á ástandi A á meðan hann bjó enn á [...], áður en hann lærbrotnaði og fluttist á hjúkrunarheimili í október 2013. H taldi að ástand hans hafi verið farið að versna 2012, en hin tvö miðuðu í framburði sínum við árið 2013 og að þá um sumarið hafi ástandið verið orðið slæmt. Nefndu vitnin að breytingin hafi falist í því að A hafi verið mun meira inni við en honum hafi verið tamt, jafnvel sofið um miðjan dag, og að hann hafi farið bæði dagavillt og árstíðavillt.

                H kvaðst fyrst hafa orðið vör við vandkvæði A varðandi peninga er hún sinnti innkaupum fyrir þá bræður, en það hafi hún ekki gert fyrr ensíðustu ár þeirra á [...]. G kvaðst ekki hafa séð um innkaup fyrir þá bræður, en að A hafi alltaf talað um það að hann hefði ekki getað lært reikning. Hún kvaðst aldrei hafa séð peninga á [...]. B kvað A sjálfan hafa talað um talnablindu sína og að hann gæti ekki gert greinarmun á hærri og lægri fjárhæðum. Vitnið kvaðst hafa séð um að greiða reikninga fyrir þá þrjá bræður, A, E og F, allt frá því áður en F dó á árinu 2008.

                Þá lýstu G og B því hvernig bræðurnir A og E brugðust við er þeim var sagt frá umræddum millifærslum. Bæði sögðu að þetta hafi komið E á óvart, hann hafi verið mjög sleginn yfir þessu og haft á orði að ákærði hefði „farið í þann veikari“. Viðbrögð A hafi verið óræðari og hann hafi ekki virst skilja þegar rætt var um fjárhæðir millifærslnanna, en þegar útskýrt hafi verið fyrir honum að um nánast aleigu hans væri að ræða, hafi hann haft á orði að hafi hann viljað láta ákærða hafa eitthvert fé hafi það ekki átt að vera allt hans fé. Hann hafi lýst vilja til að leggja fram kæru vegna málsins.

                Framburður framangreindra fjögurra vitna, sveitunga brotaþola, samræmist í öllum aðalatriðum skýrslum sem þau gáfu hjá lögreglu við rannsókn málsins.

                Þá gáfu skýrslu fyrir dómi sem vitni fjórir starfsmenn útibús Landsbanka Íslands [...], K gjaldkeri, L fjármálaráðgjafi, M gjaldkeri (sumarstarfsmaður) og N útibússtjóri. Engin þeirra bar um að hafa talið neitt óeðlilegt á ferðinni, eða að A hafi virst undir þvingunum eða þrýstingi, enda hefðu umræddar millifærslur þá ekki verið afgreiddar.

                K, sem afgreiddi fyrstu millifærsluna, 25 milljónir króna, kvað A sjálfan hafa haft orð fyrir þeim ákærða og staðfesti aðspurð framburð sinn hjá lögreglu um að A hafi sjálfur nefnt fjárhæðina.

                M, sem afgreiddi aðra millifærsluna, 5 milljónir króna, kvaðst hafa fengið óþægilega tilfinningu við millifærsluna, vegna þess hvernig mennirnir báru sig að, en hún kvað ákærða hafa komið fyrstan að gjaldkeraborðinu og haft orð fyrir A, m.a. nefnt fjárhæðina sem millifæra átti, 5 milljónir króna. A hafi þó virst samþykkur millifærslunni.

                N, sem afgreiddi þriðju millifærsluna, 12 milljónir króna, taldi fyrir dómi að fjárhæðin hafi staðið á miða sem henni var réttur, auk reikningsnúmera, en aðspurð kvað hún réttan þann framburð sinn hjá lögreglu að annar hvor þeirra A eða ákærða hafi nefnt fjárhæðina, þótt hún væri ekki viss hvor þeirra það var. Hún sagðist ekki muna hvor þeirra hafi rétt henni miðann, en staðfesti aðspurð framburð sinn hjá lögreglu um að það hafi verið ákærði. Hún kvaðst ekki þora að fullyrða hvor þeirra, ákærði eða brotaþoli, hafi haft orð fyrir þeim, en sjálf hafi hún beint orðum sínum til brotaþola. 

                L bar um samskipti sín við ákærða er hann kom við í útibúi bankans [...] 15. október 2014. Hún kvað ákærða hafa lagt ökuskírteini sitt á borð hennar og kynnt erindi sitt svo að það varðaði bræðurna E og A. Hún fullyrti, ítrekað aðspurð, að ákærði hafi í samtalinu óskað eftir því að fá prókúru fyrir E og óskað eftir útfylltu formi til þess. Hún hafi neitað því, enda hefðu þá verið gefin þau fyrirmæli innan bankans að verða ekki við slíkri ósk varðandi bræðurna, nema í samráði við lögmann þeirra. Hún hafnaði þeirri skýringu ákærða, sem undir hana var borin, að hann hafi aðeins verið að óska eftir upplýsingum um nafn prókúruhafa á reikninga þeirra bræðra.

                Framburður framangreindra fjögurra bankastarfsmanna samræmist í öllum aðalatriðum skýrslum sem þessi vitni gáfu við lögreglurannsókn málsins. Samræmist framburður þeirra jafnframt því sem fram kemur á myndskeiðum úr eftirlitsmyndavél útibús Landsbankans [...], og útprentuðum myndum úr því myndskeiði. Meðal annars er þar vel sjáanlegt að ákærði dregur í öllum tilvikum upp miða úr brjóstvasa sínum sem hann afhendir gjaldkera. Þá er ljóst af þessum myndum að ákærði hafði sig meira í frammi en brotaþoli við afgreiðsluborðið við aðra og þriðju millifærsluna, meðan brotaþoli stóð álengdar framan af. Við fyrstu millifærsluna er hins vegar sjáanlegt að A kemur fyrr að gjaldkeraborðinu og ræðir við gjaldkera, áður en þeir ákærði rýna saman í tvö yfirlit sem gjaldkeri réttir þeim. Dregur ákærði síðan upp miða úr brjóstvasa sínum og brotaþoli kvittar fyrir millifærslunni.

                Auk framangreindra vitna, sem öll gáfu skýrslu við lögreglurannsókn málsins, gaf bróðir brotaþola, E, stutta skýrslu hjá lögreglu 26. október 2014 og fór sú skýrslugjöf fram í herbergi hans og A á hjúkrunardeild [...]. E lést á árinu 2015. Liggur fyrir samantekt á skýrslu hans hjá lögreglu, auk hljóðupptöku af henni. Eru ekki efni til þess að rekja þá skýrslugjöf að öðru leyti en því að þar kom fram að vitnið rámaði, aðspurt beint, í heimsóknir ákærða 1. ágúst og 8. september 2014, en vitnið kvaðst ekki muna eftir því að rætt hafi verið um að fara í banka. Þá kvaðst hann, aðspurður hvort hann myndi eftir því að ákærði hafi beðið A að koma með sér eða eitthvað slíkt, ómögulega geta munað hvers vegna A og ákærði hafi „farið tveir saman“. Loks svaraði hann því neitandi, aðspurður í lok skýrslutökunnar hvort hann vissi eitthvað um umræddar millifærslur.

                Fyrir dómi gáfu einnig skýrslu lögreglumennirnir P, R og S. Staðfestu þeir allir skýrslugjöf sína í málinu. Í framburði R kom fram að hann hafi upplifað það við skýrslutöku af brotaþola að hann væri orðinn aldraður, óöruggur með sig og gleyminn og því hafi hann áréttað, í samantekt sinni á skýrslu brotaþola, mikilvægi þess að þeir sem síðar kæmu að málinu hlýddu á upptökuna sjálfa. Í framburði S kom fram að E heitinn hafi virst hrumur og heyrnardaufur, en alveg skýr og skilið það sem fram fór við skýrslutöku af honum.

                Enn fremur gaf skýrslu fyrir dómi systir ákærða, T. Hún kvaðst, líkt og ákærði, hafa verið í sveit að [...] sem barn, og hafa heimsótt bæinn árlega síðan. Hún kvaðst hafa heimsótt A á hjúkrunardeildina í lok maímánaðar 2014 og ekki hafa merkt neinn mun á A þá. Hún hafi stoppað í um klukkustund og þau rætt um daginn og veginn. A hafi dregið fram myndaalbúm og sýnt henni myndir.

                Þá staðfesti U flugvirki fyrir dómi skriflega yfirlýsingu sína, dags. 2. febrúar 2016, þar sem fram kemur að flugvél ákærða, [...], sé í viðgerð hjá honum og að áætlað sé að viðgerð ljúki í haust. Aspurður fyrir dómi kvaðst hann áætla að það muni kosta um 5 milljónir króna í vinnustundum talið að koma vélinni í flughæft ástand, en kvaðst ekki geta sagt til um hvað vanti á í efniskostnaði. Meðalvél af slíku tagi, í flughæfu ástandi, geti selst á um 20 milljónir króna.

                 Í læknabréfi C, læknis við Heilbrigðisstofnun [...], dags. 18. september 2014, kemur fram að A búi á hjúkrunardeild [...] og hafi gert síðan í október 2013, en þangað hafi hann komið eftir mjaðmarbrot.

                 Í upphafi bréfsins eru hagir A raktir, og er þar m.a. haft eftir honum sjálfum og aðstandendum að hann hafi ekki getað lokið menntaskólagöngu vegna „erfiðleika með tölur“ og hafi „alla tíð forðast bókhald og allt sem viðkom rekstri og peningum, sem ekki hefur farið fram hjá neinum sem hann þekkja“. Þá segir í bréfinu: „Strax fór að bera á glöpum hjá honum, sem ekki höfðu verið eins áberandi heima á [...]. Fyrir hann var lagt próf í nóvember 2013, þar sem hann náði 26/30 stigum (mms, stutt próf til að meta glöp). Úr því prófi mátti greina byrjandi glöp, sem sagt heilabilun. Síðan hefur minni hans hrakað, og núna í september 2014 var aftur lagt fyrir hann sama próf, og hann náði 22/30 stigum, greinileg afturför eins og við má búast með heilabilunarsjúkdóma. Hann er illa áttaður á stund og árstíð og svo er skammtímaminnið mjög slæmt, getur ekki lært nýja hluti og man illa hvað gerðist sama dag.“ Í læknabréfinu kemur enn fremur fram að læknirinn hafi lagt fyrir A talnapróf, sem lýst er í bréfinu, og telji niðurstöðu þess benda til þess að A sé að öllum líkindum talnablindur.

                Í samanteknu áliti læknisins í bréfinu segir: „A er með töluverð einkenni heilabilunar, versnandi síðasta ár. Skammtímaminnið er það sem er mest á undanhaldi og hann er einnig óáttaður á tíma, dagsetningum, ártölum og árstíð. Hann hefur alltaf átt erfitt með tölur, eins og þeir vita sem hann þekkja, og fer það hrakandi með tímanum (vitna í það einfalda próf sem ég lagði fyrir hann). Ég tel hann ekki hæfan, hvorki núna né síðasta ár til að greina tölur, né ráðstafa fjármunum sínum, vegna erfiðleika með tölur og heilabilunar.“

                C læknir staðfesti fyrir dómi framangreint læknabréf sitt og gerði nánari grein fyrir því áliti sem kemur fram í bréfinu. Hún kvað A þurfa mikla stýringu núorðið og að sú þörf hafi verið byrjuð strax á árinu 2014. Upplýsingar um erfiðleika hans við að greina tölur hafi komið frá honum sjálfum og þeim sem helst heimsóttu hann, B og G. Aðspurð kvað hún erfitt að segja til um hversu auðséð það gat verið leikmanni að átta sig á að A var farið að förlast á árinu 2014, það hefði farið eftir því hvað þeim hefði farið á milli. Það hefði getað dulist í klukkutímaspjalli um liðna tíð, enda sé það vel þekkt að fólk með heilabilun geti spjallað heillengi um fortíðina, þótt fátt verði um svör þegar talið berst að nútíðinni.

                Við rannsókn málsins var D geðlæknir tilkvaddur af lögreglu til að meta hæfi A til að taka umræddar ákvarðanir um fjármál sín. Álitsgerð geðlæknisins er dagsett 7. apríl 2015. Kemur þar fram að geðlæknirinn hafi hitt A á hjúkrunardeildinni [...], 27. mars s.á., og rætt við hann tvívegis þann dag, auk þess sem rætt hafi verið við Q, deildarstjóra hjúkrunardeildarinnar, og C lækni. Þá hafi verið rætt við J, B og G. Í samantekt álitsgerðar hans segir: „A er 88 ára gamall einhleypur karlmaður, sem hefur búið við vaxandi minnisleysi á undanförnum árum. Sérlega er um að ræða vaxandi skerðingu á skammtímaminni, hann er á köflum ekki áttaður á stund og stað, frumkvæði hans er mjög lítið. Öllum ber saman um að A hafi alla tíð átt í erfiðleikum með tölur. Jafnvel hefur verið talað um talnablindu hjá honum. Minnisbilunin hefur verið staðfest með svokölluðu MMSE prófi. Í nóvember 2013 fékk hann 26/30 á því prófi, í september 2014 fékk hann 22/30 og hann fékk 18/30, þegar undirritaður lagði sama próf fyrir.

                A hefur að mörgu leyti lifað sérstöku og að hluta til vernduðu lífi. Hann hefur alla tíð haft mikla sérþekkingu á náttúru Íslands, sérlega á blómum, fuglum, fiðrildum og stærri skordýrum. Hann hefur að eigin sögn ekki getað lært erlend mál og nefnir að sér hafi stundum fundist að hann væri heimskur. Ljóst er að minnisbilun A hefur á síðustu árum farið hratt vaxandi. Allir sem þekktu A vissu af þessu. Í síðara viðtali undirritaðs við A kemur skýrlega fram, hve lítið A veit um hvað er að gerast á Íslandi í dag. Það er í fullu samræmi við mikla minnisskerðingu A. Þessi minnisskerðing samræmist Alzheimer sjúkdómi.“

                Í niðurstöðukafla álitsgerðarinnar kemur fram að þar sé leitast við að svara spurningum sem lögregla lagði fyrir geðlækninn í bréfi 9. mars 2015. Segir þar: „Eins og fram kemur í greinargerð þessari býr A við nokkuð hratt vaxandi minnistruflun. Minnistruflun er staðfest með viðtölum, skoðun og niðurstöðum á sérhæfðum prófum, sem meta minnisskerðingu. Minnistruflunin samrýmist Alzheimer sjúkdómi og hefur minnistruflunin farið hratt vaxandi á síðasta ári og verulegar líkur eru á að minnistruflunin haldi áfram að versna.

                [...]

                [...] Undirritaður hefur engar upplýsingar um annað en að hlýtt hafi verið milli A og [ákærða].

                Nú er svo komið hjá A að hann man ekki nafn [ákærða] og telur að hann hafi eingöngu verið á [...] hluta sumars og að hann hafi ekki fengið borgað nægilega fyrir þá vinnu sem [ákærði] innti af hendi.

                Það er ekki óeðlilegt að A muni að e-u leyti eftir því að hafa farið með [ákærða] í banka til að taka út peninga. Ljóst er að atburðurinn hefur haft mikil tilfinningaleg áhrif á A. Slíkir atburðir festast frekar í minni þeirra sem að öðru leyti hafa minnisbilun. A gerir sér enga grein fyrir því um hvað mikla peninga var að ræða.

                A vissi að hann átti peninga á bankabók en aðrir sáu um að borga reikninga fyrir hann.

                A hefur alla tíð verið mjög óglöggur á tölur, talað hefur verið um talnablindu hjá honum. Þegar langt genginn Alzheimer sjúkdómur kemur til viðbótar er ljóst að A gerði [sér] enga grein fyrir því um hvað háar upphæðir var að ræða. Ástand A er þannig að mjög ólíklegt er að hann hafi haft frumkvæði að því að taka út umrædda peninga. Sjálfsagt hefur hann tekið því vel ef aðrir stungu upp á því.

                Það er mat undirritaðs að vegna ástands A hafi hann verið algerlega ófær um að taka þær ákvarðanir, sem fólust í því að nánast tæma bankabók hans á síðastliðnu sumri og hausti. Ekkert bendir til þess að hann hafi áttað sig á því hvaða þýðingu þær aðgerðir höfðu. Kemur þar hvort tveggja til, mikil vangeta hans að átta sig á tölum og langt genginn Alzheimer sjúkdómur.“

                D geðlæknir staðfesti fyrir dómi framangreinda álitsgerð sína og gaf nánari skýringar á niðurstöðum hennar. Í framburði hans kom fram að A hafi talað um að hann myndi ekki vel og að fram hafi komið, einnig í viðræðum við aðra, að hann væri ansi glúrinn í að fela minnisleysi sitt. Aðspurður hvort ástand hans gæti dulist leikmanni, sem hitti A ekki reglulega og spjallaði við hann í hálfa til eina klukkustund, kvaðst hann telja það hugsanlegt, en benti á að ákærði virtist hafa haft samband við A reglulega undanfarin ár og kvaðst halda að hann hefði átt að taka eftir því að honum hefði hnignað, þótt hann hefði kannski ekki áttað sig á því hve mikil hnignunin væri. Tók vitnið fram að það hafi greinilega ekki farið milli mála þeirra manna sem þekktu A mjög vel, og voru að koma í reglulegar heimsóknir til hans, tvisvar, þrisvar í viku, að hann var orðinn töluvert skertur og reyndar mjög skertur. Ástand hans hafi farið „nokkuð hratt versnandi“, um sé að ræða töluverða lækkun á tveimur árum. Vísaði vitnið þar til minnisprófanna. Aðspurður hvort hægt væri að draga ályktanir varðandi ástand A lengra aftur í tímann, kvað hann ekki hægt að segja til um það hvenær glöpin hafi byrjað nákvæmlega, en þau hafi greinilega verið byrjuð á árinu 2013.

III

Niðurstaða

1.

                Ákærða er gefið að sök að hafa, 1. ágúst og 8. september 2014, notfært sér bágindi og fákunnáttu brotaþola, sem þá var 87 ára að aldri, búsettur á hjúkrunarheimili, og „haldinn minnistruflun vegna langt gengins Alzheimer sjúkdóms og vangetu til þess að átta sig á tölum“, með því að fá hann til að millifæra fjármuni, alls 42 milljónir króna, af bankareikningi sínum á bankareikning ákærða í þremur millifærslum, sem nánar er lýst í ákæru, til þess að „afla sjálfum sér fjármunanna án nokkurs endurgjalds“. Segir í ákæru að brotaþoli hafi sökum framangreinds ástands síns hvorki getað gert sér grein fyrir þýðingu ráðstafananna, né um hve mikla fjármuni væri að ræða, en að ákærða hafi ekki getað dulist ástand hans.

                Í ákæru er sú háttsemi sem þar er lýst talin misneyting er varði við 253. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem segir: „Hafi maður notað sér bágindi annars manns, einfeldni hans, fákunnáttu eða það, að hann var honum háður til þess að afla sér með löggerningi hagsmuna eða áskilja sér þá þannig að bersýnilegur munur sé á hagsmunum þessum og endurgjaldi því sem fyrir þá koma eða skyldi koma, eða hagsmunir þessir skyldu veittir án endurgjalds, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum.“ Til þess að refsað verði fyrir brot gegn þeirri grein almennra hegningarlaga þarf að sýna fram á ásetning til allra þátta þess verknaðar sem þar er lýst, sbr. 18. gr. sömu laga. Auk þess þarf að sýna fram á ásetning til auðgunar, sbr. 243. gr. sömu laga.

                Ákærði neitar sök og hafnar bótakröfu. Varnir hans eru ítarlega raktar í greinargerð sem verjandi hans lagði fram í málinu, en þær eru í meginatriðum eftirfarandi:

                Ákærði kannast við að hafa farið með brotaþola, A, í útibú Landsbankans [...] í umrædd þrjú skipti þar sem millifærslurnar áttu sér stað, en byggir á því að yfirfærsla fjármunanna hafi farið fram að frumkvæði brotaþola og með vitneskju og stuðningi bróður hans heitins, E, sem þá bjó með A í herbergi á [...]. Byggir ákærði á því að um lán hafi verið að ræða, hann hafi ætlað að endurgreiða þessa fjármuni og því hafi aldrei verið um neinn ásetning til auðgunar að ræða. Engin leynd hafi hvílt yfir þessum gerningum og hafi lánið til að mynda verið talið fram á skattframtali hans vegna ársins 2014 og síðar. Hann sé hátekjumaður og telji sig borgunarmann fyrir þessum fjármunum.

                Þá hafnar ákærði því alfarið að honum hafi mátt vera ljóst ástand brotaþola og að hann hafi notfært sér það, teljist sú lýsing á ástandi brotaþola sem greinir í ákæru á annað borð sönnuð. Bendir ákærði á að heimsóknir hans til bræðranna hafi orðið styttri eftir að þeir fluttu á hjúkrunarheimilið í október 2013 og hann hafi aldrei orðið var við að A væri farið að förlast. Þá hafi hann aldrei heyrt af eða orðið var við að A ætti í erfiðleikum með tölur eða peninga. Loks er af hálfu ákærða bent á að meðal þeirra sem gefið hafa skýrslu vegna málsins séu þrjú vitni, B, G og H, sem eigi hagsmuna að gæta af málinu sem erfingjar A samkvæmt erfðaskrá. Kunni þau tvö fyrstnefndu að hafa beitt brotaþola og bróður hans heitinn þrýstingi til þess að kæra málið og haft áhrif á framburð þeirra hjá lögreglu.

2.

                Brotaþoli hefur borið um það að hann hafi alla tíð haft takmarkaðan skilning á tölum og hafi þurft að hætta menntaskólanámi sökum lýstrar talnablindu sinnar. Er sá framburður hans studdur framburði fjögurra vitna, sveitunga hans sem þekkt hafa vel til hans um árabil. Þá styðst sá framburður hans um þetta atriði við vottorð og vitnisburði C læknis og D geðlæknis, sem mátu það atriði sérstaklega með því að leggja fyrir hann einföld talnapróf á árunum 2014 og 2015. Fær þetta einnig stoð í samantekt og hljóðupptöku af framburði brotaþola hjá lögreglu 11. október 2014, þar sem örðugleikar hans við að svara spurningum um fjárhæðir mega teljast augljósir. Telur dómurinn óhætt að leggja til grundvallar að brotaþoli eigi, og hafi lengi átt, við vangetu að stríða varðandi talnaskilning.

                Læknabréf C læknis og álitsgerð D geðlæknis, sem þau staðfestu fyrir dómi og gáfu nánari skýringar á, eru rakin hér að framan. Tekur dómurinn, sem skipaður er sérfróðum meðdómanda, undir það álit læknanna að langlíklegasta skýring hinna augljósu og versnandi minnisglapa, sem A er nú haldinn, sé sú að hann sé haldinn heilabilunarsjúkdómi af Alzheimer-gerð. Telur dómurinn óhætt að leggja það til grundvallar þótt sú greining hafi ekki verið staðfest með myndrannsóknum, ýtarlegra minnisprófi eða taugasálfræðilegu mati á sínum tíma, enda er ekkert fram komið í málinu sem bendir til annarra orsaka minnisglapa hans. Slíkur sjúkdómur fellur einn sér undir hugtakið „bágindi“ í 253. gr. almennra hegningarlaga, og enn frekar er um bágindi að ræða þegar við bætist framangreind vangeta varðandi tölur.

                Svokallað MMSE-próf (Mini-Mental-State-Examination), sem lagt var fyrir A í nóvember 2013, bendir til þess að hann hafi þá þegar þjáðst af heilabilun á vægu stigi (26/30), sem hafi farið versnandi er leið á árið 2014, þótt hún teldist enn væg í september það ár er prófið var lagt fyrir hann öðru sinni (22/30), skömmu eftir að atvik máls þessa áttu sér stað. Í ljósi niðurstöðu prófsins í september, getur dómurinn ekki tekið fyllilega undir þá lýsingu sem fram kemur í niðurstöðu álitsgerðar D geðlæknis að um „langt genginn“ Alzheimersjúkdóm hafi verið að ræða, a.m.k. ekki á þeim tíma. Að öðru leyti tekur dómurinn undir niðurstöður geðlæknisins, sem fá enn fremur stoð í áliti C læknis. Þar á meðal tekur dómurinn undir þá niðurstöðu D geðlæknis að ástand brotaþola, þegar litið er bæði til heilabilunarsjúkdóms hans og meðfæddrar takmörkunar hans varðandi tölur, hafi á umræddum tíma verið slíkt að hann hafi ekki verið fær um að gera sér grein fyrir þýðingu þeirra fjárhagslegu ráðstafana sem fólust í umræddum millifærslum. Þá tekur dómurinn undir það álit geðlæknisins að ólíklegt sé að A hafi haft frumkvæði að slíkum gerningum, þótt ekki verði í efa dregið að A hafi brugðist vel við beinum eða óbeinum uppástungum um að veita fé til ákærða, sem auðsætt var við skýrslugjöf brotaþola fyrir dómi að hann ber hlýhug til.

                Í framburði geðlæknisins kom fram að ekki sé hægt að draga neinar ályktanir af þeim minnisprófum sem lögð voru fyrir A um það nákvæmlega hvenær sjúkdómurinn fór að gera vart við sig, en fram kom þó að það hafi greinilega verið á árinu 2013. Kemur það heim og saman við framburð sveitunga A fyrir dómi, þ.e. þeirra B, G og H, sem vel þekkja til hans og báru öll fyrir dómi um að andlegri heilsu A hafi verið farið að hraka meðan hann bjó enn á [...]. Nefndu þau tvö fyrstnefndu sumarið 2013 í því sambandi, en H nefndi árið 2012. Þótt virða verði framburð þessara vitna í ljósi hagsmuna þeirra sem erfingja A samkvæmt sameiginlegri erfðaskrá hans og E, var framburður þeirra allra fyrir dómi heilt á litið trúverðugur að mati dómsins og varð ekki annað af honum ráðið en að þau beri fyrst og fremst hagsmuni A fyrir brjósti. Auk þess sem framburður þessara vitna kemur heim og saman við læknisfræðileg gögn og framburð lækna, samræmist framburður þeirra um hrakandi andlega heilsu A einnig framburði vitnisins J, sem gaf greinargóða lýsingu á því hvernig ástandi A fór að hraka fyrir um 4-5 árum. Verður ekki annað séð en að þar sé um algerlega óvilhallt vitni að ræða.

                Samkvæmt framanrituðu telur dómurinn óhætt að leggja það til grundvallar, sem styðst bæði við framburð vitna um einkenni hans og mat lækna, að farið hafi að bera á einkennum heilabilunarsjúkdómsins hjá brotaþola síðasta sumarið sem hann bjó á [...], þ.e. sumarið 2013, nokkru áður en hann beinbrotnaði og fluttist á hjúkrunardeild [...] í októbermánuði það ár.

                Auk þess sem að framan greinir telur dómurinn gögn málsins og framburð vitna benda til þess að brotaþoli hafi alla sína tíð lifað tiltölulega einföldu og vernduðu lífi að [...], og að þetta renni fremur stoðum undir það en hitt að auðvelt kunni að hafa verið að misnota sér lýst ástand hans og fákunnáttu. Þótt brotaþola hafi verið lýst sem miklum fræðimanni, sjálfmenntuðum, á sviði náttúrunnar, þarf það alls ekki að stangast á við þá lýsingu sjálfs hans og vitna, að hann hafi verið mjög óglöggur á tölur. Framburð brotaþola fyrir dómi, svo langt sem hann náði, metur dómurinn trúverðugan.

3.

                Samkvæmt framburði ákærða og eiginkonu hans fyrir dómi heimsóttu þau bræðurna á [...] um árabil svo til mánaðarlega frá maí til október ár hvert og dvöldust jafnvel þar í túnfætinum í nokkra daga í senn. Sérstaklega aðspurður um heimsóknir sl. 3-4 ár bar ákærði að heimsóknum þau ár hafi verið háttað á sama veg, og kom ekki annað fram en að sá framburður ætti jafnt við um árið 2013 sem fyrri ár. Þá heimsóttu þau hjónin bræðurna á hjúkrunardeildina í einhver skipti á árinu 2014, þótt þær heimsóknir hafi verið styttri. Bar ákærði sjálfur um að hafa sennilega heimsótt A í nokkur skipti á árinu 2014, í maí, júní og júlímánuði, áður en til þeirra heimsókna kom sem enduðu með bankaferðum 1. ágúst og 8. september sama ár.

                Að framanrituðu virtu verður að telja það í hæsta máta ólíklegt og ótrúverðugt að það geti hafa farið fram hjá ákærða að andlegri heilsu A fór hrakandi nokkru áður en atvik þessa máls gerðust. Rennir framburður ákærða sjálfs og eiginkonu hans um tíðar heimsóknir þeirra að [...] og góðan kunningsskap þeirra við A um árabil, þar á meðal hin síðustu ár, stoðum undir það að hafið teljist yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi hlotið að verða áskynja um byrjandi minnisglöp A áður en til þeirra atburða kom sem hér eru til umfjöllunar. Fær sú ályktun dómsins einnig stoð í framburði framangreindra fjögurra sveitunga brotaþola, sem og í áliti D geðlæknis, sem taldi annað ólíklegt en að ákærði hafi hlotið að verða áskynja um hrakandi andlegt ástand brotaþola, enda þótt brotaþoli kunni þá að hafa haft getu til að dylja ástand sitt fyrir fólki sem lítt þekkti til hans og hitti hann einungis í skamma stund í senn. Í því samhengi verður heldur ekki horft fram hjá því að ákærða var fullkunnugt um bæði háan aldur brotaþola og það að hann hafði tæpu ári fyrir þá atburði sem hér eru til umfjöllunar þurft að fara af æskuheimili sínu, [...], og eftir það verið vistmaður á hjúkrunardeild.

                Þá verður, þótt það sé ekki útilokað, að telja afar ótrúverðugt að ákærða hafi ekki verið kunnugt um lýsta takmörkun brotaþola varðandi talnaskilning. Af framburði vitna sem báru fyrir dómi og þekkt hafa A um árabil verður ráðið að A hafi ekki dulið að hann ætti við vangetu á þessu sviði að stríða. Þá kom það fram í framburði ákærða sjálfs að hann átti samskipti um fjárhagsleg málefni við brotaþola vegna íbúðarkaupa á árinu 1990 og þáði af honum fé til þeirra kaupa, sem hann kvaðst síðan hafa endurgreitt brotaþola að mestu leyti.

                Ákærða var, samkvæmt framburði hans sjálfs, það fullljóst að hann var að þiggja fé af brotaþola sem nam langstærstum hluta af bankainnistæðum hans á tveimur reikningum hans í Landsbankanum. Hann hefur ekki gefið á því haldbærar skýringar hvers vegna honum þótti eðlilegt að þiggja svo háa fjárhæð af brotaþola, hvort heldur sem er að láni eða gjöf, hvað sem líður vináttutengslum þeirra allt frá sveitardvöl hans á [...] í æsku. Dregur þetta einnig úr trúverðugleika framburðar hans.

                Framburður ákærða og eiginkonu hans fyrir dómi var keimlíkur, þar sem bæði lögðu áherslu á að þau hafi litið á umræddar millifærslur sem lán, fremur en gjöf. Hefur framburður eiginkonu ákærða verið stöðugur um það atriði. Í framburði ákærða, sem gaf skýrslu hjá lögreglu mánuði fyrr en eiginkonan, og í samantekt sem hann lagði fram við það tækifæri, kom hins vegar skýrt fram að ákærði leit fremur svo á að um gjöf væri að ræða, þótt hann segðist geta endurgreitt brotaþola hluta fjárins ef hann þyrfti á því að halda. Bendir þetta til þess að ákærði leitist nú fyrir dómi við að fegra sinn hlut er hann heldur því fram að ávallt hafi staðið til að endurgreiða féð.

                Sú staðreynd að ákærði hefur talið fram sem skuld við A, á skattframtali sem skilað var eftir að rannsókn máls þessa hófst, þær 42 milljónir króna sem millifærðar voru á reikning hans, þykir ekki vega þungt til stuðnings þeirri staðhæfingu að hann hafi ætlað að endurgreiða allt féð, andspænis því sem fyrr greinir um óstöðugan framburð hans um það hvort hann leit á féð sem gjöf eða lán, og skort á því að gengið væri frá nokkurs konar skriflegum skuldaviðurkenningum eða tryggingum fyrir endurgreiðslu, þrátt fyrir háan aldur brotaþola. Þótt tekið sé mið af þeim framburði ákærða að hann hafi ætlað að endurgreiða lánið með söluverðmæti flugvélar hans er hún seldist í óvissri framtíð, hlaut það ávallt að hafa verið ljóst að það verðmæti gat ekki staðið til tryggingar fullri endurgreiðslu og að kosta þyrfti talsverðu fé til að fá flugvélina í söluhæft ástand. Jafnvel þótt litið yrði til annarra eigna ákærða, þ. á m. einbýlishúss og heimilis fjölskyldu hans, voru áhvílandi skuldir slíkar að óvíst er að þær eignir hefðu dugað til að tryggja fulla endurgreiðslu. Þá er ljóst að jafnvel þótt til þess kæmi að ákærði endurgreiddi féð að fullu á einhverjum tímapunkti, hlaut hann a.m.k. að hagnast á því að fá vaxtalaust lán til ótiltekins tíma og brotaþoli að sama skapi að verða fyrir vaxtatapi.

                Eins og fyrr sagði tekur dómurinn undir það sérfræðiálit D geðlæknis að ólíklegt sé, í ljósi ástands brotaþola á umræddum tíma, að hann hafi sjálfur haft frumkvæði að umræddum millifærslum. Telur dómurinn þá málsvörn  ákærða ósannfærandi, enda dró ákærði nokkuð úr þeim framburði sínum fyrir dómi, er hann upplýsti að þeir A hafi rætt um fjárhagsörðugleika hans, áður en A bauð honum féð.

                Enn fremur stangast staðhæfingar þeirra hjóna beggja, um að E, bróður A, hafi verið fullkunnugt um fjárveitingar A til ákærða og stutt þær, á við framburð vitna, þeirra B, G og J, um viðbrögð E við fregnum af málinu, sem og skýrslu E hjá lögreglu, sem líta má til, eins og hér stendur á, með hliðsjón af 3. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Í þeirri skýrslu, þótt stutt sé og efnisrýr, kemur skýrt fram að E muni ekki til þess að ákærði hafi rætt um að fara í banka eða rætt peningamál í heimsóknum sínum, og að hann viti ekkert sem máli skipti varðandi téðar millifærslur. Ber þó öllum sem um það hafa borið saman um að E hafi verið skýr fram að andláti sínu. Telur dómurinn framburð ákærða um þátt E í þessum ráðstöfunum eða aðdraganda þeirra þannig ótrúverðugan.

                Samkvæmt framanrituðu er það álit dómsins að framburður ákærða, þótt stöðugur teljist að mestu, sem og framburður eiginkonu hans, geti ekki talist fyllilega trúverðugur og jafnvel ótrúverðugur um ýmis mikilvæg atriði, s.s. það að þeim hafi alls ekki verið ljós hrakandi vitræn geta brotaþola og takmarkanir hans hvað tölur snertir.           

4.

                Að öllu framanrituðu virtu telst það nægilega sannað, með vottorðum og vitnisburði lækna, sem og annarra vitna, að brotaþoli hafi í ágúst og september 2014 verið ófær, vegna heilabilunarsjúkdóms og skorts á skilningi á tölum, um að gera sér grein fyrir þýðingu þeirra ráðstafana sem fólust í umræddum millifærslum og um hve háar fjárhæðir var að ræða. Hann hafi þannig verið óhæfur um að fara með fjármuni sína og taka þær fjárhagslegu ákvarðanir sem hér um ræðir upp á eigin spýtur, hvað sem líður auðsæjum hlýhug hans til ákærða.

                Þá telur dómurinn, að virtri þeirri sönnunarbyrði sem á ákæruvaldinu hvílir, sbr. 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008, og með heildstæðu mati á gögnum málsins og framburði ákærða og vitna, að hafið sé yfir skynsamlegan vafa, gegn neitun ákærða, að ákærði hljóti að hafa orðið var við vaxandi minnisglöp brotaþola og þekkt til fákunnáttu hans á sviði talna og fjármála áður en umræddar millifærslur áttu sér stað. Honum hafi því mátt vera ljóst að brotaþola skorti hæfi til fjárhagslegra ráðstafana. Þykir því sannað, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi notfært sér bágindi brotaþola og fákunnáttu sökum lýsts ástands, sér til fjárhagslegs ávinnings, með því að fá hann til að láta millifæra þær 42 milljónir króna sem um ræðir, án nokkurs endurgjalds. Er þannig hafnað þeirri meginmálsvörn ákærða að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því hvernig ástandi brotaþola var háttað er atburðir samkvæmt ákæru gerðust.

                Trúverðugur framburður þeirra þriggja bankastarfsmanna sem báru fyrir dómi um að hafa annast umræddar millifærslur, og ekki séð ástæðu til að efast um samþykki brotaþola til þeirra, þykir ekki til þess fallinn að veikja á nokkurn hátt framangreinda niðurstöðu, enda verður ekki séð að þeim vitnum hafi mátt vera ljóst hvernig ástatt var fyrir brotaþola, á þeim stutta tíma sem afgreiðsla hverrar millifærslu varði. Hið sama á við um þann takmarkaða framburð sem systir ákærða gaf fyrir dómi, sem auk þess verður, líkt og framburð eiginkonu hans, að meta í ljósi tengsla þeirra ákærða. Framburð fjórða bankastarfsmannsins, L, metur dómurinn trúverðugan, en þar sem um orð hennar gegn orðum ákærða er að ræða verður látið liggja milli hluta, við úrlausn málsins, hvað þeim fór á milli 15. október 2014. Samkvæmt öllu framanrituðu, og þar sem nægilega þykir sannað að saknæmissskilyrði teljist uppfyllt, er það álit dómsins að ákærði hafi gerst sekur um refsivert brot með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæru, og sem þar er réttilega heimfærð til 253. gr. almennra hegningarlaga. Þá þykir ljóst að ákærði hafði ásetning til þess að auðgast með þeirri háttsemi, og skiptir ekki öllu máli hverjar hugmyndir hann gerði sér um endurgreiðslu fjárins í óljósri framtíð. Teljast því jafnframt uppfyllt skilyrði 243. gr. sömu laga um auðgunarásetning.

IV

                Ákærði, sem fæddur er árið 1962, á sér ekki sakaferil. Með hátterni sínu braut hann gegn háöldruðum manni sem ekki gat spornað við verknaðinum vegna sjúkleika síns og takmarkaðs skilnings á tölum. Um svo verulegar fjárhæðir var að ræða í þremur millifærslum á ríflega mánaðartímabili, að brotin hljóta að teljast stórfelld. Ákærði þykir ekki eiga sér sérstakar málsbætur. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin, með hliðsjón af 77. gr. og 1., 2. og 5. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, fangelsi í níu mánuði. Í ljósi þess að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverð brot verður fullnustu sex mánaða refsingarinnar frestað og fellur sá hluti hennar niður að tveimur árum liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. sömu laga.

                Í málinu er sett fram einkaréttarkrafa af hálfu brotaþola. Lýtur sú krafa einungis að því að bæta það beina tjón sem hlaust af því að féð, alls 42 milljónir króna, var millifært af reikningi brotaþola með ólögmætum og saknæmum hætti og hefur ekki staðið honum til ráðstöfunar síðan þá. Með framangreindri háttsemi, sem fól í sér brot gegn almennum hegningarlögum, hefur stofnast til skaðabótaskyldu ákærða gagnvart brotaþola vegna þess tjóns sem af hlaust, á grundvelli hinnar almennu skaðabótareglu íslensks réttar. Ekki er á því byggt að fjárhæðin hafi verið endurgreidd að neinu leyti. Kröfur um vexti og dráttarvexti af kröfunni eiga sér stoð í þeim ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sem greinir í ákæru og einkaréttarkröfu málsins, og hefur þeim kröfum ekki verið mótmælt sérstaklega. Verður því fallist á einkaréttarkröfuna eins og hún er fram sett og miðast upphaf dráttarvaxta við þann dag er mánuður var liðinn frá því er mál þetta var þingfest, enda verður ekki séð að krafan hafi verið kynnt fyrr fyrir ákærða. Þá þykir hæfilegt að gera ákærða að greiða bótakrefjanda 275.000 krónur í málskostnað, með vísan til 172. gr. laga nr. 88/2008.

                Samkvæmt yfirliti ákæruvalds um sakarkostnað féll til á rannsóknarstigi málsins kostnaður að fjárhæð 597.524 krónur vegna vinnslu sérfræðings Símans á símagögnum og af álitsgerð D geðlæknis. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Björns Þorra Viktorssonar hrl., vegna starfa hans á rannsóknarstigi og fyrir dómi, þykja hæfilega ákveðin að fjárhæð 1.432.200 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Þá ber að endurgreiða verjandanum þann útlagða kostnað hans sem studdur er gögnum, 21.425 krónur vegna flugferðar. Í ljósi úrslita málsins verður ákærða gert að greiða allan framangreindan sakarkostnað, sem samtals nemur 2.051.149 krónum.

                Dómur þessi er kveðinn upp af Hildi Briem héraðsdómara sem dómsformanni, ásamt meðdómsmönnunum Ólafi Ólafssyni héraðsdómara og Ragnheiði Halldórsdóttur, sérfræðingi í lyf- og öldrunarlækningum. Við dómsuppsögu var gætt ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en dómendur og málflytjendur voru sammála um að ekki væri þörf á endurflutningi málsins, þrátt fyrir þann drátt sem varð á dómsuppsögu og helgaðist einkum af önnum dómsformanns.

Dómsorð:

                Ákærði, Bergur Axelsson, sæti fangelsi í níu mánuði, en fullnustu sex mánaða refsingarinnar er frestað og fellur sá hluti hennar niður að tveimur árum liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

                Ákærði greiði A 42.000.000 króna í skaðabætur, auk vaxta, samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, af 30.000.000 króna frá 1. ágúst 2014 til 8. september 2014, en af 42.000.000 króna frá þeim degi til 26. mars 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags, og 275.000 krónur í málskostnað.

                Ákærði greiði 2.051.149 krónur í sakarkostnað til ríkissjóðs, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Þorra Viktorssonar hrl., 1.432.200 krónur, og ferðakostnað verjandans, 21.425 krónur.