Hæstiréttur íslands
Mál nr. 125/1999
Lykilorð
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 23. september 1999. |
|
Nr. 125/1999. |
Gunnar Viðar Gunnarsson (Helgi Jóhannesson hrl.) gegn Landflutningum ehf. (Hákon Árnason hrl.) |
Skaðabætur.
Bifreiðarstjórinn G slasaðist við fermingu vöruflutningabifreiðar á athafnasvæði L. Varð slysið þegar G hugðist vega sig upp í bifreiðina af bretti, sem var á gálga lyftara, sem notaður var við verkið, en S, stjórnandi lyftarans, setti hliðarfærslu lyftarans af stað um leið með þeim afleiðingum að hönd G klemmdist. Hélt G því fram að hann hefði beðið S að stöðva lyftarann, en S mótmælti því að hann hefði heyrt slík skilaboð. Krafðist G bóta úr hendi L á grundvelli húsbóndaábyrgðar vegna mistaka S. Héraðsdómur sýknaði L, þar sem að ekki var talið að G hefði fært sönnur fyrir því að atvik að slysinu hefðu verið slík, sem hann hélt fram. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest í Hæstarétti með vísan til forsendna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. mars 1999. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.447.734 krónur auk 2% ársvaxta frá 1. febrúar 1995 til 22. september 1996, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að dómkröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað, sem rétt þykir að að fella niður.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað, sem fellur niður.
Áfrýjandi, Gunnar Viðar Gunnarsson, greiði stefnda, Landflutningum ehf., 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 1998.
I.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 28. maí 1998 og dómtekið 8. þ.m. Stefnandi er Gunnar Viðar Gunnarsson, kt. 240369-5759, Mávakletti 3, Borgarnesi. Stefndi er Landflutningar ehf., kt. 710169-4629, Skútuvogi 8, Reykjavík. Réttargæslustefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða honum skaðabætur að upphæð 2.537.629 krónur, auk 2% ársvaxta af þeirri fjárhæð frá 1. febrúar 1995 til 22. september sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist, að áfallnir dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar og dráttarvextir reiknist af þeirri fjárhæð á 12 mánaða fresti, sbr. 12. gr. laga nr. 25/1987, í fyrsta sinn 19. mars 1998. Þá er krafist málsksotnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að sér verði tildæmdur málskostnaður úr hendi hans, en til vara, að sök verði skipt, kröfur stefnanda lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
II.
Málsatvik eru þau, að stefnandi slasaðist miðvikudaginn 1. febrúar 1995, er hann vann við lestun vöruflutningabifreiðarinnar PB-040 á athafnasvæði stefnda Skútuvogi 8 í Reykjavík. Stefnandi hafði ekið bifreiðinni frá bílastöðinni Stefni hf. á Akureyri (nú Flutningamiðstöð Norðurlands ehf.), en hann hafði starfað þar um skeið sem flutningabílstjóri. Hann vann einnig við akstur eftir slysið. Stefnandi lauk sveinsprófi í húsasmíði 28. janúar 1995 og hefur að undanförnu, eða í rúmt ár, starfað við húsasmíðar.
Lestun bifreiðarinnar fór þannig fram, að vörum á brettum var lyft inn í vörurými bifreiðarinnar með vörulyftara stefnda, Linda/Lancing JL-2216. Stjórnaði starfsmaður stefnda, Stefán Hermóður Gestsson, lyftaranum. Við lok lestunar á PB-040 var næstsíðasta vörubrettið staðsett aftast vinstra megin á bílpallinum og var það með viðkvæmar mjólkurvörur.
Um nánari atvik segir í stefnu: „. . .bað stefnandi stjórnanda lyftarans að bíða, meðan hann færi inn í vöruhús bifreiðarinnar og lagaði til, þannig að síðasta brettið gæti gengið inn í bifreiðina. Stefnandi hugðist vega sig upp í bifreiðina af bretti því, sem var á gálga lyftarans, upp í vöruhúsið, en það er algeng aðferð. Í þann mund, er stefnandi var að vega sig upp, setti stjórnandi lyftarans hliðarfærslu lyftarans af stað með þeim afleiðingum, að hægri hönd stefnanda, sem er rétthentur, klemmdist illa.“ Í greinargerð stefnda segir: „. . .Var Hermóður að koma síðasta brettinu fyrir hægra megin á pallinum með því að rugga lyftaragöfflunum til hliðar, þegar stefnandi, er stóð fyrir aftan bílinn, vó sig fyrirvaralaust upp á bílpallinn með því að setja hægri höndina á gafflana eða brettið og klemmdist á milli með fingurna. Kannast Hermóður lyftaramaður ekki við að hafa verið beðinn um að bíða, meðan stefnandi færi upp í bifreiðina, né að lyftarinn hafi þá ekki verið í vinnslu.“
Stefnandi fann strax fyrir miklum sársauka og sá, að þrír fingur voru klemmdir, en þó aðallega langatöng. Hann leitaði þegar á slysadeild Borgarspítalans í Reykjavík, þar sem hann var skoðaður og meðferð var hafin. Stefnandi lá inni á bæklunarlækningadeild Borgarspítala til 3. febrúar 1995, er hann útskrifaðist og var honum fylgt eftir á endurkomudeild spítalans.
Vinnueftirlit ríkisins var kvatt á vettvang. Segir í skýrslu þess, dags. 1.2.1995: „Ekkert var athugavert við vörulyftarann, en minnt er á, að starfsmenn skulu ekki vera nærri vélbúnaði vörulyftara í vinnu.“
Afleiðingar slyssins urðu þær, að taka þurfti framan af löngutöng stefnanda, og var það gert 3. maí og 13. september 1995. Stefnandi var óvinnufær vegna slyssins og afleiðinga þess tvö tímabil á árinu 1995, eða frá slysdegi til 6. júní og frá 13. september til 30. október. Segir í vottorði Magnúsar Páls Albertssonar læknis, dags. 21. júní 1996: „. . . Áverkinn telst frekar alvarlegur fyrir höndina og hefur í för með sér varanleg mein vegna styttingar á löngutöng hægri handar“
Sigurjón Sigurðsson læknir mat örorku stefnanda og er skýrsla hans dagsett 22. júlí 1996. Hann mat tímabundið atvinnutjón stefnanda 100% frá 1. febrúar 1995 til 6. júní s.á. og frá 13. september 1995 til 30. október s.á. Stefnandi var talinn hafa „þurft að vera rúmfastur frá 01.02.95 til 14.03.95 og síðan veikur án þess að vera rúmliggjandi frá 15.03.95 til 06.10.95 og 13.09.95 til 30.10.95 vegna afleiðinga slyssins.“ Varanlegur miski var metinn 10% og varanleg örorka 10%.
Stefnandi mætti að eigin frumkvæði í rannsóknardeild Lögreglunnar í Reykjavík 28. febrúar 1995 og gaf skýrslu um slysið. Skýrsla var síðan tekin af Stefáni Hermóði Gestssyni 6. mars 1995.
Í bréfi lögmanns stefnanda til réttargæslustefnda 21. september 1995 er því haldið fram, að orsök slyssins megi rekja til fljótfærni og mistaka lyftaramannsins. Vinnuveitandi hans, stefndi í máli þessu, beri húsbóndaábyrgð á þeim mistökum, jafnframt ábyrgð sem eigandi lyftarans. Er þess óskað, að tryggingafélagið endurskoði afstöðu sína til bótaskyldu. Í svarbréfi 31. október 1995 segir, að af gögnum málsins verði ekki ráðið, að tjónið verði rakið til annarra atriða en fljótfærni stefnanda máls þessa og geti réttargæslustefndi ekki fallist á skaðabótaskyldu stefnda.
III.
Krafa stefnanda er reist á því, að orsök tjóns hans megi rekja til þeirrar fljótfærni og mistaka stjórnanda lyftarans að setja hliðarfærslu lyftaragálgans af stað, á meðan stefnandi var að vega sig upp á bretti það, sem var á gálga lyftarans. Stefnandi telur, að stefndi beri húsbóndaábyrgð á þessum mistökum starfsmannsins. Hann sé því bótaskyldur, samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins, og beri honum að greiða skaðabætur samkvæmt 1. kafla skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá er vísað til þess, að stefndi sé tryggður ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda.
Endanleg dómkrafa stefnanda er nokkuð breytt frá stefnukröfu, að fram komnum athugasemdum af hálfu stefnda, og sundurliðast hún þannig:
|
1. Tímabundið atvinnutjón 2. Þjáningabætur 3. Varanlegur miski 4. Varanleg örorka |
kr. 542.536 " 157.680 " 429.494 " 1.318.024 |
IV.
Sýknukrafa stefnda er reist á því, að hann eða starfsmenn hans eigi enga sök á slysi stefnanda, sem eingöngu verði rakið til gáleysis hans sjálfs. Því er mótmælt sem röngu og ósönnuðu, að stefnandi hafi beðið lyftarastjórann að bíða, meðan stefnandi vægi sig upp í bílinn og að lyftarinn hafi þá ekki verið í vinnslu. Lyftarastjórinn hafi þvert á móti verið að koma síðasta vörubrettinu fyrir aftast á bílpallinum með því að rugga brettinu til hliðar með lyftaranum, og hafi verið ógerningur fyrir hann að varast hin fyrirvaralausu viðbrögð stefnanda og afstýra slysi. Á stefnanda hvíli sönnunarskylda um ætlaða sök lyftarastjórans og orsakatengsl milli þess og slyssins, samkvæmt almennum sönnunarreglum skaðabótaréttarins. Stefnanda, sem hafi verið 25 ára á slysdegi, húsasmiður að mennt og flutningabílstjóri að atvinnu, hafi mátt vera ljós hættan af atferli sínu. Hann hafi átt að tryggja sér, áður en hann vó sig upp, að stjórnandi lyftarans vissi af því og biði á meðan.
Af hálfu stefnda er einnig byggt á þeirri málsástæðu, að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á slysinu af því einu að vera eigandi lyftarans, sem stefnandi klemmdist af. Stefnandi hafi ekki reynt að rökstyðja fullyrðingu um, að stefndi beri skaðabótaábyrgð sem eigandi lyftarans. Ekkert hafi verið við hann að athuga, sbr. skoðunarskýrslu Vinnueftirlitsins, og um hlutlæga bótaábyrgð á lyfturum sé ekki að ræða, fremur en öðrum vinnuvélum.
Varakrafa stefnda er byggð á því, að tjón stefnanda megi að stærstum hluta rekja til eigin sakar hans. Sök stefnanda sé fólgin í því að vega sig upp á bílpallinn, án þess að gera lyftarastjóranum örugglega viðvart um þá ætlan. Kröfu um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón beri að hafna, og eigi stefnandi aðeins rétt til bóta fyrir raunverulegt vinnutekjutap, en ekki miðað við meðaltekjur húsasmiða. Hann hafi auk þess ekki unnið sem húsasmiður, þegar hann slasaðist. Þá séu slysakaup og bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og úr atvinnuslysatryggingu ávallt til frádráttar. Kröfu um bætur fyrir varanlega örorku er mótmælt sem of hárri. Beri að miða við tekjur stefnanda síðustu tólf mánuði fyrir slysið, en ekki eigi hér við að nota meðaltekjur iðnaðarmanna, þar sem stefnandi hafi kosið að nýta ekki iðnmenntun sína til tekjuöflunar.
Vaxtakröfu er andmælt, en vextir séu reiknaðir af of háum höfuðstól, og engin efni séu til að reikna upphafstíma dráttarvaxta frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi. Loks er örorkumati, sem krafa stefnanda er reist á, mótmælt sem of háu.
V.
Kröfugerð stefnanda er einvörðungu reist á ábyrgð stefnda eftir reglu skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð en ekki ætlaðri ábyrgð hans sem eiganda vörulyftara þess, sem um ræðir í málinu.
Um tildrög slyssins eru ekki aðrir til frásagnar en stefnandi og Stefán Hermóður Gestsson, sem gáfu skýrslur við dómsmeðferðina, en þeir höfðu áður gefið skýrslur hjá lögreglu, eins og fyrr greinir. Þeim ber saman um, að slysið hafi orðið um sjöleytið að kvöldi 1. febrúar 1995. Ágreiningslaust er, að stefnandi hafi staðið framanvert við lyftarann eða við hliðina á honum, Stefáni Hermóði til vinstri handar, meðan unnið var að lestun bifreiðarinnar. Einnig, að lyftarinn hafi verið hávaðasamur og að útvarp hafi verið í honum svo og, að rennigluggi á hlið hans hafi verið opinn. Þá sætir ekki ágreiningi, að fingur stefnanda hafi klemmst á þann hátt, sem hann lýsir.
Stefnandi skýrði svo frá, að hann hefði talið, að Stefán Hermóður hefði meðtekið skilaboð sín um að bíða meðan hann færi upp á pall flutningabifreiðarinnar, en til þess hafi ekki verið önnur leið en að nota gálga vörulyftarans. Aðspurður, hvort verið gæti, að Stefán Hermóður hefði ekki heyrt í honum, sagði hann. „Hann svaraði mér.” Hann kvaðst hafa haldið í fyrstu, að meiðsl sín væru lítil, eða einungis skráma, og farið til að fá plástur.
Vitnið Stefán Hermóður Gestsson kvað hávaða í lyftaranum hafa verið það mikinn, að þurft hafi að kalla hátt til að heyrðist inn í hann. Hann kvaðst ekki hafa heyrt, að stefnandi bæði hann að stoppa lyftarann. Stefnandi hafi verið til vinstri við lyftarann, en athygli sín hafi verið á brettinu, sem hann var að reyna að koma á pallinn með því að skáskjóta honum sitt á hvað, og hafi hann verið að teygja sig til hægri, þegar slysið varð. Hann kvað sér hafa tekist að koma brettinu á réttan stað þegar eftir að stefnandi var farinn í burtu. Hann kvað það koma fyrir, að menn gripu um hús lyftarans til að vega sig upp, en aldrei um vélbúnað hans.
Jafnvel þótt stefnandi hafi reynt að gera Stefáni Hermóði viðvart um fyrirætlun sína og beðið hann að stöðva vörulyftarann, er ekki í ljós leitt, að hann hafi gengið örugglega úr skugga um, að boðin væru numin. Stefnandi hafði ekki að hlutverki að aðstoða við hleðsluna og mátti Stefán Hermóður ekki gera ráð fyrir þeim viðbrögðum hans, sem leiddu til slyssins, nema honum væri fyrirfram gert kunnugt um þau.
Gegn andmælum stefnda hefur stefnandi ekki fært sönnur að því, að atvik að slysinu hafi verið slík, sem hann heldur fram og sem hann styður kröfu sína við. Samkvæmt þessu er niðurstaða málsins sú, að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda. Stefnanda verður gert að greiða stefnda 250.000 krónur í málskostnað.
Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Landflutningar ehf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Gunnars Viðars Gunnarssonar.
Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað.