Hæstiréttur íslands
Mál nr. 314/2002
Lykilorð
- Bifreið
- Ölvunarakstur
- Svipting ökuréttar
- Dómvenja
- Ítrekun
|
|
Fimmtudaginn 14. nóvember 2002. |
|
Nr. 314/2002. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Sigurði Inga Sveinbjörnssyni (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Bifreiðir. Ölvunarakstur. Svipting ökuréttar. Dómvenja. Ítrekun.
S var ákærður fyrir ölvunarakstur og var í héraðsdómi gerð sekt og sviptur ökurétti í 18 mánuði. Fyrir Hæstarétti undi S við niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu, fésekt og sakarkostnað, en leitaði endurskoðunar á ákvörðun ökuréttarsviptingar. Talið var að S hafi réttilega verið sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Þá var vísað til þeirrar dómvenju að sviptingu ökuréttar vegna brots gegn fyrrnefndu ákvæði skuli miða við eins árs lágmarkssviptingu samkvæmt 2. mgr. 102. gr. umferðarlaga ef um sé að ræða fyrsta brot ökumanns og ekki hafi verið brotin önnur ákvæði laga eða aðstæður að öðru leyti verið sérstaklega alvarlegar. Skýrlega komi fram í lögskýringargögnum er varða 3. mgr. 102. gr., sem mælir fyrir um lengri lágmarkstíma ökuréttarsviptingar ef áður hefur verið brotið gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., að ákvæðið eigi því aðeins við að brot teljist ítrekað í skilningi 71. gr. almennra hegningarlaga. Ekki voru talin efni til annars en að styðjast við sömu sjónarmið þegar lengd ökuréttarsviptingar væri ákveðin á grundvelli dómvenju um beitingu 2. mgr. 102. gr. umferðarlaga. S hafði tvívegis áður sætt viðurlögum vegna brots á 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., á árunum 1989 og 1991. Gætti því ekki lengur ítrekunaráhrifa af þeim brotum þegar S gerðist aftur sekur um ölvunarakstur í mars 2002. Var S sviptur ökurétti í eitt ár með dómi Hæstaréttar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. júlí 2002 að fengnu áfrýjunarleyfi í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst þess að ökuréttarsviptingu verði markaður skemmri tími en gert var í héraðsdómi.
I.
Samkvæmt gögnum málsins handtók lögreglan ákærða vegna gruns um ölvunarakstur eftir að honum hafði verið veitt eftirför eftir nánar tilgreindri leið um Grafarvogshverfi í Reykjavík nokkru eftir kl. 1 aðfaranótt 5. mars 2002. Í skýrslu, sem tekin var í framhaldi af þessu af ákærða, viðurkenndi hann að hafa neytt áfengs bjórs fyrir aksturinn, en hann bar því einnig við að hann hafi drukkið af áfengisblöndu í bifreið sinni eftir að hann stöðvaði hana og áður en lögreglumenn tóku hann höndum. Þá um nóttina voru tekin sýni af blóði og þvagi úr ákærða. Reyndist áfengi í blóði vera 1,64, en í þvagi 2,50. Lögreglustjórinn í Reykjavík gaf út ákæru í málinu 2. apríl 2002, þar sem ákærði var borinn sökum um að hafa með þessari háttsemi brotið gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum. Var þess krafist að honum yrði gerð refsing og hann sviptur ökurétti samkvæmt 101. gr. og 102. gr. sömu laga. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 17. apríl 2002. Ákærði sótti ekki þing og var málinu lokið samdægurs með hinum áfrýjaða dómi. Ákærði var þar dæmdur til að greiða 130.000 krónur í sekt, en sæta ella fangelsi í 24 daga. Hann var jafnframt sviptur ökurétti í 18 mánuði frá birtingu dómsins að telja.
Héraðsdómur í máli þessu var birtur ákærða 3. maí 2002. Með bréfi 31. sama mánaðar sótti hann um leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dóminum, sbr. 1. mgr. 150. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, svo sem henni var breytt með 10. gr. laga nr. 37/1994. Beiðni þessi var reist á því að ákærði hafi með héraðsdóminum verið sviptur ökurétti í lengri tíma en dómvenja stæði til og þá á grundvelli ákvæða reglugerðar nr. 575/2001 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim. Með dómi Hæstaréttar 30. maí 2002 í máli nr. 138/2002 hafi verið hafnað að víkja með stoð í þessari reglugerð frá dómvenju, sem fylgt hafi verið um ákvörðun viðurlaga fyrir ölvunarakstur, og teldi ákærði þann dóm hafa hér fordæmisgildi. Áfrýjunarleyfi var veitt 14. júní 2002. Fyrir Hæstarétti unir ákærði við niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu, fésekt og sakarkostnað, en leitar eins og fyrr greinir endurskoðunar á ákvörðun ökuréttarsviptingar.
II.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði réttilega sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga, eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 48/1997. Samkvæmt 2. mgr. 102. gr. umferðarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 23/1998, skal stjórnandi ökutækis, sem gerist sekur um slíkt brot, sæta sviptingu ökuréttar ekki skemur en eitt ár. Í 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga er kveðið á um að ökuréttarsviptingin skuli þó ekki verða skemmri en þrjú ár ef stjórnandi ökutækis hefur áður brotið gegn ákvæði 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. laganna.
Eins og fram kom í áðurnefndum dómi Hæstaréttar frá 30. maí 2002 hafa dómstólar allar götur frá setningu núgildandi umferðarlaga á árinu 1987 og lengur fylgt þeirri venju að sviptingu ökuréttar vegna brots stjórnanda ökutækis gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. laganna skuli miða við fyrrgreint eins árs lágmark ef um er að ræða fyrsta brot hans og ekki hafa verið brotin önnur ákvæði laga eða aðstæður að öðru leyti verið sérstaklega alvarlegar. Þegar metið er samkvæmt þeirri venju hvort brot stjórnanda ökutækis sé fyrsta brot hans verður að gæta að því að í lögskýringargögnum, sem varða fyrrnefnda 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga, kemur skýrlega fram að þargreint ákvæði um lengri lágmarkstíma ökuréttarsviptingar eigi því aðeins við að brot teljist ítrekað í skilningi 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ekki eru efni til annars en að styðjast við sömu sjónarmið þegar lengd ökuréttarsviptingar er ákveðin á grundvelli dómvenju um beitingu 2. mgr. 102. gr. umferðarlaga. Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða hefur hann þrívegis áður sætt viðurlögum vegna ölvunaraksturs, á árunum 1988, 1989 og 1991. Í tveimur síðustu tilvikunum varðaði brot hans við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Seinast var hann sviptur ökurétti í þrjú ár frá 26. mars 1991. Vegna ákvæðis 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga gætti ekki lengur ítrekunaráhrifa af þeim brotum þegar ákærði gerðist aftur sekur um ölvunarakstur 5. mars 2002. Að þessu athuguðu og með því að ákærði braut hvorki önnur ákvæði laga né voru aðstæður við ölvunarakstur hans sérstaklega alvarlegar er hæfilegt að hann verði sviptur ökurétti í eitt ár frá birtingu hins áfrýjaða dóms 3. maí 2002. Að öðru leyti skal héraðsdómur standa óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins skal greiðast úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að ákærði, Sigurður Ingi Sveinbjörnsson, er sviptur ökurétti í eitt ár frá 3. maí 2002 að telja.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. apríl 2002.
Málið er höfðað með ákæruskjali Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettu 2. apríl sl. á hendur ákærða, Sigurði Inga Sveinbjörnssyni, kt. 090454-7819, Garðhúsum 31, Reykjavík, „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni MG-417, aðfaranótt þriðjudagsins 5. mars 2002, undir áhrifum áfengis um Fjallkonuveg, Hallsveg, Langarima og Grasarima í Reykjavík.
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr., 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48, 1997 og 3. gr. laga nr. 57, 1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44, 1993 og 2. gr. laga nr. 23, 1998.”
Málavextir
Ákærða hefur verið löglega birt ákæra og fyrirkall og hefur hann hvorki sótt þing né boðað forföll. Er málið nú dæmt með heimild í 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991. Hefur ákærði orðið sekur um athæfi það sem greinir í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæða.
Gera ber ákærða 130.000 króna sekt til ríkissjóðs en ákærði sæti ella fangelsi í 24 daga, greiðist sektin ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu. Þá ber að svipta ákærða ökurétti í 18 mánuði frá birtingu dómsins að telja.
Loks ber að dæma ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Sigurður Ingi Sveinbjörnsson, greiði 130.000 króna sekt til ríkissjóðs innan 4 vikna frá uppkvaðningu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi í 24 daga.
Ákærði er sviptur ökurétti í 18 mánuði frá dómsbirtingu að telja.
Ákærði greiði allan sakarkostnað.