Hæstiréttur íslands

Mál nr. 251/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hjón
  • Fjárslit
  • Kaupmáli
  • Vottur


Föstudaginn 27. maí 2011.

Nr. 251/2011.

A

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

B

(Guðrún Helga Brynleifsdóttir hrl.)

Kærumál. Hjón. Fjárslit. Kaupmáli. Vottur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu B um að kaupmáli hans og A sem skráður hafði verið í kaupmálabók sýslumannsins í R yrði metinn ógildur. Í Hæstarétti var talið að vottun hæstaréttarlögmannsins C fullnægði ekki formskilyrðum hjúskaparlaga nr. 31/1993 þar sem málsaðilar skrifuðu hvorki undir skjalið, sem um væri deilt í málinu, né könnuðust við undirskriftir sínar fyrir honum áður en hann staðfesti með vottun sinni að þau hefðu undirritað kaupmála. Staðfesti Hæstiréttur hinn kærða úrskurð með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og  Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2011, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að kaupmáli  hans og sóknaraðila 30. september 2009, sem skráður var í kaupmálabók sýslumannsins í Reykjavík 11. nóvember sama ár, yrði metinn ógildur. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að dæmt verði að kaupmálinn sé í gildi og varnaraðila gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í 80 gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 er mælt fyrir um að vottun kaupmála skuli vera með tilgreindum hætti. Orðalag ákvæðisins hefur verið skýrt svo að kaupmáli sé því aðeins gildur að gætt sé þeirra aðferða við vottunina sem í ákvæðinu greinir, sbr. dóm Hæstaréttar 14. janúar 2008 í máli nr. 668/2007. Þar sem málsaðilar skrifuðu hvorki undir skjalið, sem deilt er um í málinu, í viðurvist C hæstaréttarlögmanns né könnuðust við undirskriftir sínar fyrir honum áður en hann staðfesti með vottun sinni að þau hafi undirritað kaupmála fullnægir vottun hans ekki formskilyrðum 80. gr. hjúskaparlaga. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, B, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2011.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, upp kveðnum 25. júní 2010, var ákveðið að opinber skipti færu fram til fjárslita milli A og B. Með bréfi skiptastjóra, mótteknu 12. júlí 2010, var ágrein­ings­efni þessa máls skotið til úrlausnar dómsins. Málið, sem var þingfest 4. október sl., var tekið til úrskurðar 2. mars sl. að aflokinni aðalmeðferð.

Sóknaraðili, B, kt. [...], [...], Reykjavík, krefst þess að kaupmáli, dagsettur 30. september 2009, verði metinn ógildur. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili, A, kt. [...], [...], Reykjavík, krefst þess að kröfu sóknaraðila verið hafnað og úrskurðað verði að kaupmáli, dagsettur 30. september 2009, sé í fullu gildi í fjárskiptum aðila.

Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, ásamt virðisauka­skatti á málskostnað.

Málavextir

Málsaðilar gengu í hjúskap [...] en slitu samvistir sínar í [...] 2009 þegar sóknaraðili flutti út af heimilinu. Hann sótti um skilnað að borði og sæng 18. maí 2010 og óskaði opinberra skipta til fjárslita milli þeirra með beiðni 20. maí 2010. Að öðru leyti en þessu greinir málsaðila nokkuð á um málavexti.

Sóknaraðili kveðst hafa freistað þess um tíma að ná samkomulagi um fjárskipti milli aðila, án árangurs, en töluverðar eignir séu í búi aðila. Á síðastliðnum árum hafi málsaðilar staðið saman í fjárfestingum og samfara þeim hafi þau tekið á sig allnokkrar skuldbindingar. Hvorugt þeirra hafi stundað launaða vinnu hjá þriðja aðila. Við bankahrunið hafi forsendur breyst. Hafi hjónin ákveðið að gera með sér kaupmála af ótta við að sjálfskuldarábyrgðir sem þau, einkum sóknaraðili, hefðu tekist á hendur vegna þessara fjárfestinga kynnu að falla á þau og vildu þau verja eignir sínar á meðan samið væri við lánastofnanir. Hafi þau leitað til vinar síns til margra ára C hrl. en lögmaðurinn og eiginkona hans og sóknar- og varnaraðilar þessa máls hafi verið nánir vinir í 15-20 ár og hafi þau fjögur meðal annars staðið sameigin­lega að allmörgum fjárfestingar­verkefnum og umgengist mikið.

Drög að kaupmála hafi verið dagsett 28. september 2009 og hafi afturköllun kaupmálans verið gerð á sama tíma. Áður en skjölin hafi verið frágengin, hafi sóknar- og varnaraðili ákveðið að bæta fleiri eignum í kaupmálann. Það hafi verið gert og kaupmálinn dagsettur 30. september 2009. Afturköllunin hafi einnig verið endurgerð enda sé hún samhljóma kaupmálanum. Í afturköllun kaupmál­ans sé vísað til kaupmála dagsetts 28. september 2009. Ekki hafi verið lagður fram undirritaður kaupmáli með þeirri dagsetningu, enda sé hann ekki til. Dagsetning afturköllunarinnar séu því augljós mistök, einfaldlega hafi gleymst að breyta dagsetningu hennar vegna þess að sóknaraðili hafi staðið yfir C á meðan hann breytti skjölunum. Sóknaraðili hafi svo tekið skjölin með sér heim til undirritunar eftir að hafa beðið C að votta.

Varnaraðili greinir þannig frá að haustið 2006 hafi málsaðilar hagnast talsvert á fjárfestingum. Í kjölfar þess hafi sóknaraðili farið í ýmsar fjárfestingar og eyðslu sem varnaraðili hafi ekki verið sátt við. Hafi hún ekki vitað fyrr en síðar um margar fjárfestingar og sjálfsskuldarábyrgðir sem sóknaraðili hafi tekið á sig á þessum tíma.

Í lok árs 2008 og byrjun árs 2009 hafi varnaraðila verið hætt að lítast á blikuna varðandi fjármálaumsvif sóknaraðila. Til að mynda hafi komið í ljós að sóknaraðili hafi veðsett fjármuni í eignastýringu í [...] banka þótt milli málsaðila hefði verið skýrt samkomulag um að þessir fjármunir væru lífeyrissjóður þeirra, þá ætti ekki að hreyfa og því síður veðsetja.

Um þetta leyti hafi varnaraðili rætt það við sóknaraðila að hún vildi gera kaupmála til að tryggja fjárhagsstöðu sína, þar sem flestar eignir í hjúskapnum væru á nafni hans. Með kaupmála, þar sem hjúskapareignir sóknaraðila yrðu gerðar að séreign hennar, hafi varnaraðili talið sig í betri stöðu, færu fjárfestingar sóknaraðila, sem hún vissi takmarkað um, á versta veg.

Sóknaraðili hafi tekið þessari ósk varnaraðila vel og hafi verið sammála um að skynsamlegt væri að gera kaupmála. Hafi sóknaraðili fljótlega rætt gerð kaupmála við viðskiptafélaga sinn, C hrl. Lögmaðurinn hafi gert drög að kaupmála sumarið 2009, sem varnaraðili hafi farið yfir með tilliti til þeirra eigna sem þar hafi verið taldar upp. Í lok september 2009 hafi verið komið að því að undirrita kaup­málann. Sóknaraðili hafi 28. september komið heim með kaupmála dagsettan þann dag. Hafi kaupmálinn nánast verið samhljóða drögum sem lögmaðurinn hafði sent varnaraðila í tölvupósti 16. júlí 2009 að því frátöldu að settar höfðu verið áhvílandi veðskuldir inn á þær eignir. Hafi varnaraðili aflað þeirra upplýsinga fyrir lögmanninn. Sóknaraðili hafi einnig komið með afturköllun á kaupmálanum og hafi það komið varnaraðila í opna skjöldu. Hafi sóknaraðili fullyrt við varnaraðila að ætíð væri gerð afturköllun á kaupmála samhliða gerð kaupmála. Hafi varnaraðili lagt trúnað á orð sóknaraðila og undirritað skjölin.

Að sögn varnaraðila var hún ósátt við þennan frágang á kaupmálanum, enda ekki í samræmi við það sem um hefði verið talað milli aðila. Þar hafi hvort tveggja komið til að hjúskapareignum var ekki breytt í séreignir hennar, eins og um hefði verið talað, og að afturköllun var útbúin samhliða kaup­málanum. Af þeim sökum hafi hún farið fram á við sóknaraðila að gerður yrði nýr kaupmáli, þar sem upptaldar eignir yrðu gerðar að séreign hennar og að engin afturköllun fylgdi þeim kaupmála. Því sé röng sú fullyrðing í greinargerð sóknaraðila að ekki sé til undirritaður kaupmáli, dagsettur 28. september 2010, sem afturköllunin eigi við um.

Af þessum sökum hafi verið gerður nýr kaupmáli tveimur dögum seinna og hafi sóknaraðili komið heim með hann, eins og í fyrra skiptið. Honum hafi ekki fylgt nein afturköllun. Í kaupmálanum, dagsettum 30. september 2009, séu tilgreindar nákvæmlega sömu eignir og í fyrri kaupmálanum en þær séu gerðar að séreignum varnaraðila eins og alltaf hafði staðið til af hennar hálfu. Því sé ranglega haldið fram af hálfu sóknaraðila að nýr kaupmáli hafi verið gerður til að bæta við fleiri eignum. Einnig sé röng sú fullyrðing í greinargerð sóknaraðila að gerð kaupmála hafi tengst því að sóknaraðili þyrfti að verjast kröfum þriðja aðila vegna sjálfskuldarábyrgða tengdum fjárfestingum hans. Gerð kaupmálans hafi vissulega tengst óvissu varnaraðila um fjármálaumsvif sóknaraðila en hafi verið að hennar kröfu til að tryggja fjárhags­stöðu hennar kæmi til hjónaskilnaðar.

Að sögn varnaraðila var yngri kaupmálinn vottaður þegar sóknaraðili kom með hann til varnaraðila. Varnaraðili hafi ekkert velt því fyrir sér enda hafi hún treyst því að C hrl. vissi hvað hann væri að gera.

Yngri kaupmálinn hafi orðið eftir hjá varnaraðila enda hafi aldrei annað staðið til en að hann yrði skráður og honum þinglýst á þær eignir sem hann tiltekur. Hinn 6. október 2009 hafi varnaraðili beðið [...] banka að millifæra þrjár milljónir króna yfir á tékkareikning sinn vegna margvíslegra útgjalda, meðal annars vegna kostnaðar við þinglýsingu kaupmálans. Sóknaraðili hafi beðið varnaraðila að bíða aðeins með þinglýs­inguna, sem varnaraðili hafi gert framan af. Á meðan hafi eyðst af þeim fjármunum, sem meðal annars hafi verið millifærðir til að standa straum af þinglýs­ing­unni. Í byrjun nóvember sama ár hafi varnaraðili óskað aftur eftir að millifærðir yrðu á reikning hennar fjármunir af eignastýringunni hjá [...] banka, nú ein milljón króna. Á brúðkaupsafmælisdegi málsaðila, [...] 2009, hafi varnaraðili síðan farið og látið skrá kaupmálann.

Varnaraðili fullyrðir að sóknaraðili hafi strax vitað af því að hún hefði látið skrá og þinglýsa kaupmálanum. Í síðari samskiptum milli aðila hafi sóknaraðili farið að halda því fram að kaupmálinn væri ógildur og hafi vísað til ógildingarskjalsins sem gert hafi verið með fyrri kaupmálanum. Varnaraðili hafi því falið lögmanni sínum að rita bréf til sýslumanns vegna þessa 31. mars 2010.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili telur ljóst, af málsatvikum eins og hann greinir frá þeim, að milli málsaðila hafi verið fullkominn skilningur á því hver væri tilgangur kaupmálans. Telja megi fáheyrt að kaupmáli og afturköllun kaupmála séu gerð samtímis, enda hafi afturköllunin verið gerð í þeim tilgangi að allt væri óbreytt milli aðila. Frá báðum skjölunum hafi verið gengið á sama tíma en afturköllun kaupmálans sé dagsett í október 2009. Af því megi ráða að þessum löggerningum hafi ekki verið ætlaður langur líftími. Skjölin hafi verið samin, eins og áður greini, til að verjast kröfum þriðja aðila. Hjónunum hafi verið það ljóst, báðum, enda vefengi þau ekki undirritun sína á skjölin. Með málsaðilum hafi verið samkomulag um að láta ekki þinglýsa kaup­málan­um fyrr en ljóst væri að samningar við bankann bæru ekki árangur. Sóknaraðili hafi svo komist að því 20. mars 2010 að varnaraðili hefði látið þinglýsa kaupmálanum.

Sóknaraðili byggir á því að formkröfur, sbr. 80. gr. hjúskaparlaga nr. 31/993, hafi ekki verið í heiðri hafðar við gerð kaupmálans. Hafi C, hrl. vottað bæði skjölin áður en sóknaraðili hafi farið með þau af skrifstofu lögmannsins heim til undirritunar. Þetta hafi lögmaður­inn gert að beiðni sóknaraðila sem hafi ekki viljað blanda ættingjum þeirra hjóna í jafn­viðkvæmt mál með því að láta þá votta skjölin.

Það sé fortakslaus krafa að vottun undirritunar kaupmála sé gerð um leið og undirritun fari fram, ekki nægi að vottunin fari fram á undan eða eftir að undirritun fari fram heldur skuli hún fara fram samtímis. Í þessu sambandi nægi að vísa til 80 gr. laga nr. 31/1993 og dóms Hæstaréttar í máli nr. 668/2007. Skýringin á því að slakað hafi verið á forminu vegna þessa kaupmála sé sú að báðir aðilar hafi vitað nákvæm­lega hvers vegna skjölin væru útbúin. Það hafi einnig verið hreinn vinargreiði af hálfu C að aðstoða vinafólk sitt við gerð kaupmálans enda hafi sóknaraðili ekki viljað láta ættingja sína votta skjölin þegar málsaðilar undirrituðu þau.

Þar sem ekki hafi verið farið eftir formkröfum 80 gr. laga 31/1993, sé kaup­málinn ekki gildur. Hafi lögmanni varnaraðila verið bent á þessa staðreynd, en hann hafi engu að síður kosið að leggja málið fyrir héraðsdóm. Verði að telja þann málatil­búnað þarflausan og hafi þessi málarekstur ekki aðra þýðingu en að baka aðilum enn frekari kostnað við fjárskiptin.

Við aðalmeðferð málsins féll sóknaraðili frá þeirri málsástæðu, sem getið var í greinargerð hans, að báðum málsaðilum hafi verið kunnugt um það skilyrði að vottun kaupmála þyrfti að fara fram samtímis undirritun.

Sóknaraðili vísar til hjúskaparlaga nr. 31/1993, einkum 80 gr. þeirra. Máls­kostnaðarkrafa sóknaraðila eigi sér stoð í 129., 130., og 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattsskyldur og sé því nauð­syn­legt að taka tillit til virðisaukaskattsins við ákvörðun málskostnaðar.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili byggir kröfu sína á því að milli málsaðila sé gildur kaupmáli, gerður 30. september 2009 og skráður 9. nóvember sama ár.

Varnaraðili vísar fyrst til þeirrar málsástæðu sóknaraðila að af dómi Hæsta­réttar í máli nr. 668/2007 verði dregin sú ályktun að sá kaupmáli, sem hér sé deilt um, sé ógildur. Í hinum tilvitnaða dómi hafi málavextir verið aðrir. Ágreiningur hafi verið um efni skjalsins, annar aðilinn látinn og vottar hafi talið að eftir vottun sína hefði verið handritað inn á skjalið. Brot á formreglu 80. gr. hjúskapar­laga varðandi vottun hafi því orðið til þess að mikil óvissa hafi ríkt um það hvort skjalið hefði verið undir­ritað, hvenær og hvert hafi verið raunverulegt efni þess skjals, sem var undir­ritað. Í skýringum með 80. gr. hjúskaparlaga sé á það bent að form hvetji til þess að menn vandi löggerning sinn. Form stuðli að því að sönnun fáist fyrir því að hjón hafi undirritað kaupmála af fúsum vilja og hvenær undirritun fór fram. Á það sé bent að vottar eigi til dæmis að ganga úr skugga um að skjalið geymi kaup­mála að efni til og votta um það. Þótt ágreiningslaust sé að vottun C hrl. á kaup­málann hafi verið gerð áður en málsaðilar sjálfir undirrituðu skjalið þá sé ekki ágrein­ingur um það að C hafi vitað að hann væri að votta kaup­mála enda hafi hann útbúið skjalið sjálfur. Í málinu sé ekki ágreiningur milli málsaðila um efni kaupmálans sem var undirritaður. Ekki sé ágreiningur milli málsaðila um að efni kaupmálans, sem undir­ritaður var, sé í samræmi við það sem þau hafi talað um sín á milli. Enn fremur sé ekki ágreiningur um að málsaðilar hafi undirritað kaupmálann samtímis, af fúsum vilja og að þau hafi gert það sama dag og sóknaraðili kom heim með skjalið, þ.e. 30. septem­ber 2009. Þær ástæður sem hafi leitt til þess í dómi Hæstaréttar í máli nr. 668/2007 að vottun eftir á hafi verið talin varða ógildi, séu því ekki fyrir hendi í máli þessu. 

Sú fullyrðing sóknaraðila að málsaðilar hafi ekki viljað láta nákomna votta kaupmálann þar sem enginn hafi mátt vita um efni hans standist ekki. Þvert á móti fullyrðir varnaraðili að fólk þeim nákomið hafi vitað af gerð kaupmálans. Af hennar hálfu hafi því ekkert verið því til fyrirstöðu að fá það til að votta hann.

Með framlagningu óvottaðs, en undirritaðs, kaupmála, dagsetts 28. september 2009, hnekki varnaraðili þeirri fullyrð­ingu sóknaraðila að kaupmáli og afturköllun hans hafi ekki verið undirrituð 28. september 2009. Með því að sýna fram á að kaupmáli hafi verið undirritaður 28. september 2009 telji varnaraðili sig renna stoðum undir þá fullyrðingu sína að afturköllunin eigi við um þann kaupmála en ekki hinn yngri.

Varnaraðili mótmælir einnig þeirri fullyrðingu sóknaraðila að tvær aftur­kallanir hafi verið gerðar, samhljóða kaupmálanum. Varnaraðili fullyrðir að einungis ein afturköllun hafi verið gerð, afturköllun sem vísaði til fyrri kaupmálans frá 28. september. Hún hafi krafist þess að gerður yrði nýr kaupmáli, án afturköllunar. Gögn sýni að gerðir hafi verið tveir kaupmálar, mismunandi að efni, annar 28. september og hinn 30. september. Engin gögn hafi verið lögð fram um afturköllun síðari kaup­málans. Sú afturköllun sem fyrir liggi sé afturköllun á fyrri kaupmálanum.

Sóknaraðili haldi því fram að fullkominn skilningur hafi verið milli aðila um tilgang kaupmálans, að verjast kröfum þriðja aðila, og þess vegna hafi fylgt honum afturköllun. Þessi skýring sóknaraðila standist ekki ákvæði hjúskaparlaga um heimildir þriðja aðila til að rifta kaupmála. Ólíklegt sé að sóknar­aðili hafi ekki gert sér grein fyrir að kaupmálinn væri engin vörn gegn kröfum þriðja aðila færi hann í þrot.

Sóknaraðili haldi því að auki fram að samkomulag hafi verið milli aðila um að þinglýsa ekki kaupmálanum fyrr en ljóst væri að samningaviðræður við þriðja aðila bæru ekki árangur. Varnaraðili mótmælir þessari fullyrðingu og bendir á að sókn­ar­aðili hafi skilið yngri kaupmálann eftir hjá henni af því að hann vissi að hún ætlaði að koma honum í þinglýsingu. Varnaraðili fullyrðir að hún hafi látið sóknar­aðila vita þegar hún fór og þinglýsti síðari kaupmálanum, sem hér er deilt um.

Eins og mál þetta sé vaxið verði að telja að formskilyrðum 80. gr. hjúskapar­laga hafi verið fullnægt, að kaupmálinn sé í gildi milli aðila og hann skuli gilda í fjárskiptum vegna hjónaskilnaðar þeirra. Enda sé ekki neinn ágreiningur um efni eða aðdraganda kaupmálans.

Við aðalmeðferð málsins féll varnaraðili frá þeirri málsástæðu að með því að fá C til þess að votta kaupmálann áður en málsaðilar undir­rituðu hann hafi sóknaraðili vísvitandi ætlað að gera kaupmálann ógildan að formi til, á bak við varnaraðila, til að tryggja að hann gæti síðar borið fyrir sig ógildi yngri kaupmálans.

Krafa um málskostnað byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggir á lögum nr. 50/1988 þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar. Varnaraðili í máli þessu er ekki virðisaukaskattskyld vegna þessa málarekstrar og er henni því nauðsyn að fá skattinn tildæmdan úr hendi sóknaraðila.

Framburður fyrir dómi

Við aðalmeðferð gáfu skýrslu sóknaraðili, varnaraðili og vitnið C. Málsaðilar báru mjög á sama veg og lýst er í greinargerðum þeirra. Öllum bar saman um að málsaðilar hafi farið að huga að gerð kaupmála vorið 2009. Fyrstu drög hafi verið gerð um miðjan júlí en skjal til undirritunar hafi verið gert 28. september 2009. Þá hafi jafnframt verið útbúin afturköllun kaupmála. Það skjal sem deilt sé um í þessu máli hafi verið samið, vottað og undirritað 30. september 2009.

Sóknaraðili bar að kaupmálinn hefði verið gerður í því skyni að mynda skjól gagnvart lánastofnun sem kynni að láta hann standa við ábyrgðir sem hann hefði gengist í vegna fjárfestinga. Nýrri útgáfan, dags. 30. september, hefði verið gerð þar sem málsaðilar hafi jafnvel ætlað að fella fleiri eignir undir kaupmálann og einnig til þess að umorða mætti kaupmálann þannig að eignirnar yrðu þar skráðar sem séreignir varnaraðila. Þegar yngri kaupmálinn hafi verið gerður hafi sóknaraðili, til þess að komast hjá því að leita þyrfti til ættingja til að votta kaupmálann, óskað eftir því við lögmanninn sem gerði hann að hann vottaði skjalið áður en sóknaraðili tæki það með sér heim. Sóknaraðili bar að sér hefði ekki verið kunnugt um formskilyrði 80. gr. hjúskaparlaga og jafnframt að hann hefði ekki, þegar kaupmálinn var gerður, vitað um þann dóm Hæstaréttar sem vísað hefur verið til í málinu.

Hann bar jafnframt að þar sem það væri afar dýrt að láta skrá kaupmála hefði ekki átt að skrá hann hjá sýslumanni fyrr en ljóst væri að ekki næðust samn­ingar við þá lánastofnun sem kaupmálanum hefði verið ætlað að skýla þeim fyrir. Honum hafi því verið ókunnugt um að kaupmálanum hefði verið þinglýst og hefði hann ekki áttað sig á því fyrr en um vorið 2010 þegar kauptilboð hefði borist í aðra bifreiðina sem tilgreind sé í kaupmálanum.

Varnaraðili bar að kaupmálinn hefði verið gerður að hennar ósk fyrst og fremst til þess að tryggja hennar hag, kæmi til skilnaðar milli hennar og sóknaraðila og jafnframt til þess að ekki féllu á þau ábyrgðir. Hafi hún lesið sér til um hugtakið hjúskapar­eignir og áttað sig á að þær kæmu til jafnra skipta við skilnað og hafi hún því viljað að orðalagi kaupmálans yrði breytt þannig að þær eignir sem þar væru tilgreinar yrðu gerðar að séreign hennar. Hafi kaupmáli, dagsettur 30. september 2009, verið undir­ritaður af C, sem votti, þegar sóknaraðili kom heim með skjalið. Hún bar að seinni kaupmálanum hefði ekki fylgt afturköllun. Að hennar sögn vissi sóknaraðili af því að hún hefði látið þinglýsa kaupmálanum.

C, sem samdi kaupmálann fyrir málsaðila, bar að hlutverk kaupmálans hefði verið að mynda skjól gegn mögulegum innheimtuaðgerðum banka­stofnunar sem sóknaraðili átti í samningaviðræðum við vegna sjálfskuldar­ábyrgða. Hafi málsaðilar velt ýmsum atriðum fyrir sér svo sem hvort einhver vægari leið væri í boði en kaupmáli og hvaða eignafyrirkomulag veitti mesta skjólið. Hafi hann sagt þeim að mesta verndin væri að gera eignirnar að séreign varnaraðila. Samkvæmt þeim upplýsingum sem vitnið veitti málsaðilum hafi þeir mátt vita að raunverulegt skjól væri þó ekki af kaupmála fyrr en að liðnum tveimur árum frá skráningu hans.

Vitnið bar að sér væri kunnugt um formskilyrði kaupmála. Við gerð yngri kaupmálans hafi sóknaraðili innt hann eftir því hvaða reglur giltu um vottun kaup­mála og hafi vitnið sagt að það þyrfti tvo votta en þó dygði einn væri hann löglærður. Hafi vitnið því, í einhverri fljótfærni, vottað kaupmálann fyrir sóknar­aðila þegar sóknaraðili hafi sagst vilja komast hjá því að blanda fjölskyldunni inn í þessa kaupmálagerð. Hafi sóknaraðili sagt vitninu að kaupmálinn yrði undirritaður fljótlega en þau myndu bíða með að þinglýsa honum þar til niðurstaðan úr viðræðunum við bankann kæmi í ljós.

Kvaðst vitnið ekki hafa leitt hugann að formskilyrðunum fyrr en þetta mál hafi verið komið af stað og hafi því ekki heldur verið kunnugt um tilvitnaðan dóm Hæstaréttar fyrr en þá. Hafi afturköllunin verið gerð þar sem ekki hafi átt að breyta fjármálaskipan málsaðila.

Niðurstaða

Ágreiningur þessa máls lýtur að því hvort kaupmáli sem málsaðilar gerðu með sér 30. september 2009 sé gildur. Sóknaraðili byggir á því að svo sé ekki þar sem kaupmálinn hafi ekki verið vottaður á sama tíma og málsaðilar undirrituðu skjalið en samkvæmt 80. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 sé samtímavottun gildis­skilyrði kaupmála. Varnaraðili telur að túlka beri ákvæðið þannig að samtímavottun sé ekki skilyrði þegar vottarnir séu löglærðir.

Málsaðila greinir á um það af hvaða ástæðu kaupmálinn hafi verið gerður. Það atriði hefur þó ekki þýðingu þegar leysa þarf úr því hvort kaupmálinn sé gildur. Málsaðilum og vitni bar öllum saman um það að kaupmálinn hefði verið undir­ritaður af vottinum þegar sóknaraðili kom með kaupmálann heim til undirritunar.

Í 80. gr. hjúskaparlaga segir um form kaupmála að hann skuli vera skrif­legur. Tekið er fram að undirritun hjóna eða hjónaefna skuli staðfest af lögbókanda, héraðs­dóms- eða hæstaréttarlögmanni eða fulltrúa þeirra eða af tveimur vottum sem skulu vera samtímis viðstaddir og rita nöfn sín og kennitölur á kaup­málann. Í vottorði þeirra skal koma fram að skjalið, sem vottað er, sé kaupmáli. Vottarnir skulu vera lögráða og staðfestingarhæfir samkvæmt réttarfars­lögum.

Samkvæmt orðalagi ákvæðisins eiga vottarnir, hvort heldur þeir eru einn löglærður eða tveir ólöglærðir, að staðfesta undirritun hjóna eða hjónaefna. Verður ekki séð að þetta verði gert á annan hátt en þann að fyrst undirriti hjón eða hjóna­efni skjalið og vottarnir staðfesti síðan undirritun þeirra með sinni eigin undirritun.

Þrátt fyrir að hér sé ágreiningslaust að málsaðilar voru sammála um efni kaup­málans og undirrituðu hann af fúsum og frjálsum vilja þá var vottun kaup­málans ekki í samræmi við fyrirmæli 80. gr. laga nr. 31/1993 um hjúskap þar sem votturinn var hvorki vitni að því að málsaðilar undirrituðu kaupmálann né gat staðfest að kaup­málinn hefði þegar verið undirritaður af málsaðilum þegar hann undirritaði hann. Af þeim sökum verður fallist á þá kröfu sóknaraðila að kaupmálinn verði metinn ógildur.

Samkvæmt þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður ekki hjá því komist að dæma varnaraðila til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Kaupmáli, sem A og B undir­rituðu 30. september 2009 og skráður var í kaupmálabók sýslumannsins í Reykjavík 11. nóvember 2009, er ógildur.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað.