Hæstiréttur íslands
Mál nr. 156/2000
Lykilorð
- Opinberir starfsmenn
- Biðlaun
|
|
Þriðjudaginn 19. desember 2000. |
|
Nr. 156/2000. |
Ólöf Björg Einarsdóttir (Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn Reykjavíkurborg (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) |
Opinberir starfsmenn. Biðlaun.
Hjúkrunarfræðingurinn Ó hafði verið fastráðin hjá R frá árinu 1973 samkvæmt 2. gr. reglna um réttindi og skyldur starfsmanna R og naut biðlaunaréttar samkvæmt 14. gr. reglnanna. Á árinu 1996 var ákveðið að starfsemi á deild þeirri, sem Ó var deildarstjóri á, yrði hætt og hluti sjúklinga flyttist á hjúkrunarheimilið S, sem er sjálfseignarstofnun. Ó ákvað að fylgja sjúklingunum er S opnaði í júní 1997 og varð hún deildarstjóri þar. Ó sagði upp starfi sínu á S í júní 1999 og starfar nú sem deildarstjóri hjá Félagsþjónustu R. Taldi hún að biðlaunaréttur sinn hefði orðið virkur þegar starfsemi deildarinnar hefði verið flutt og krafðist hún biðlauna í 12 mánuði. Í samkomulagi milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og borgarstjórans í Reykjavík, sem gert var í tilefni þessara flutninga, var tekið fram, að réttindi starfsfólks skyldu tryggð og ekki rýrð, þótt skipt væri um vinnuveitanda. Talið var að Ó hefði átt að njóta allra þeirra réttinda í starfi hjá S, sem hún hefði notið í fyrra starfi sínu hjá R, þar á meðal biðlaunaréttar og hafi réttarstaða Ó því verið óbreytt frá því sem áður var. Hafi hún því ekki átt rétt á biðlaunum. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna R af kröfum Ó.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Pétur Kr. Hafstein og Arnljótur Björnsson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 19. apríl 2000. Hún krefst þess, að stefnda verði dæmd til að greiða sér 2.001.235 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. júní 1997 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og lýst er í héraðsdómi hafði áfrýjandi, sem er hjúkrunarfræðingur að mennt, starfað hjá stefnda frá árinu 1969. Hún var fastráðin 1. janúar 1973 samkvæmt 2. gr. reglna um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar frá 7. desember 1967 og naut biðlaunaréttar samkvæmt 14. gr. þeirra.
Á grundvelli samkomulags heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, fjármálaráðherra og borgarstjórans í Reykjavík 28. ágúst 1996 um „aðgerðir í rekstri Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítala“ var ákveðið, að sjúklingar á legudeild Heilsuverndarstöðvar Sjúkrahúss Reykjavíkur, en áfrýjandi var þar deildarstjóri, yrðu fluttir þaðan, eldri sjúklingar á Sjúkrahús Reykjavíkur-Landakot og yngri sjúklingar til Skógarbæjar. Síðastnefnda stofnunin er hjúkrunarheimili í þágu aldraðra og sjúkra, en skipulagsskrá fyrir þessa sjálfseignarstofnun er frá 30. apríl 1997. Fyrir liggur, að áfrýjandi ákvað að fylgja þeim sjúklingum, sem fluttir voru í Skógarbæ, er hjúkrunarheimilið tók til starfa í byrjun júní 1997, og varð hún deildarstjóri þar. Áfrýjandi sagði upp starfi sínu í Skógarbæ 1. júní 1999 og vinnur nú hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík sem deildarstjóri dagdeildar við þjónustuíbúðir aldraðra á Dalbraut.
Áfrýjandi telur, að biðlaunaréttur sinn hafi orðið virkur er starfsemi langlegudeildar heilsuverndarstöðvarinnar var hætt og flutt meðal annars til Skógarbæjar. Í máli þessu krefur hún stefnda um 12 mánaða biðlaunagreiðslur.
II.
Í 12. gr. framangreinds samkomulags frá 28. ágúst 1996 segir: „Réttindi starfsfólks verði tryggð og ekki rýrð þó svo þeir skipti um vinnuveitanda sbr. meðferð mála við sameiningu Borgarspítala og Landakotsspítala 1995.“ Ljóst þykir að grein þessa verði að skýra á þann veg, að áfrýjandi átti að njóta allra þeirra réttinda í starfi í Skógarbæ og hún naut áður í starfi sínu á Heilsuverndarstöð Sjúkrahúss Reykjavíkur, þar á meðal biðlaunaréttar. Stefndi lýsti réttilega þessari sömu afstöðu við áfrýjanda, meðal annars í bréfi 13. október 1998, þar sem jafnframt var boðið að Sjúkrahús Reykjavíkur ábyrgðist greiðslu biðlauna hjá Skógarbæ til áfrýjanda, ef á þau reyndi. Réttarstaða áfrýjanda var því óbreytt frá því sem áður var. Þegar af þessari ástæðu ber að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Ólöf Björg Einarsdóttir, greiði stefnda, Reykjavíkurborg, 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2000.
I
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 21. maí 1999 og dómtekið 20. þ.m.
Stefnandi er Ólöf Björg Einarsdóttir, kt. 220944-2399, Leirubakka 6, Reykjavík.
Stefndi er Reykjavíkurborg vegna Sjúkrahúss Reykjavíkur.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér biðlaun að upphæð 2.289.839 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af fjárhæðum og eftir tímabilum sem hér segir.
Af 181.009 krónum frá 1. júní 1997 til greiðsludags, af 172.609 krónum frá 1. júlí 1997 til greiðsludags, af 13.238 krónum frá 16. júlí 1997 til greiðsludags, af 172.609 krónum frá 1. ágúst 1997 til greiðsludags, af 13.238 krónum frá 16. ágúst 1997 til greiðsludag, af 172.609 krónum frá 1. september 1997 til greiðsludags, af 13.238 krónum frá 16. september 1997 til greiðsludags, af 172.609 krónum frá 1. október 1997 til greiðsludags, af 13.238 krónum frá 16. október 1997 til greiðsludags, af 172.609 krónum frá 1. nóvember 1997 til greiðsludags, af 13.238 krónum frá 16. nóvember 1997 til greiðsludags, af 186.935 krónum frá 1. desember 1997 til greiðsludags, af 13.238 krónum frá 16. desember 1997 til greiðsludags, af 179.514 krónum frá 1. janúar 1998 til greiðsludags, af 13.238 krónum frá 16. janúar 1998 til greiðsludags, af 185.981 krónu frá 1. febrúar 1998 til greiðsludags, af 13.767 krónum frá 16. febrúar 1998 til greiðsludags af 185.981 krónu frá 1. mars 1998 til greiðsludags, af 14.263 krónum frá 16. mars 1998 til greiðsludags, af 185.981 krónu frá 1. apríl 1998 til greiðsludags, af 14.263 krónum frá 16. apríl 1998 til greiðsludags af 198.421 krónu frá 1. maí 1998 til greiðsludags, af 14.263 krónum frá 16. maí 1998 til greiðsludags og af 14.263 krónum frá 16. júní 1998 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda en til vara að kröfur hennar verði lækkaðar í 2.001.235 krónur. Hann krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda.
II
Með samkomulagi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, fjármálaráðherra og borgarstjórans í Reykjavík 28. ágúst 1996 var tekin ákvörðun um aðgerðir í rekstri Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítala.
Stefnandi, sem er hjúkrunarfræðingur að mennt, hafði af borgarráði verið fastráðin starfsmaður Reykjavíkurborgar frá 1. janúar 1973 og gegndi á þessum tíma stöðu deildarstjóra á legudeild Heilsuverndarstöðvar Sjúkrahúss Reykjavíkur. Á grundvelli greinds samkomulags var starfseminni þar skipt í tvo hluta. Eldri sjúklingar voru fluttir á Sjúkrahús Reykjavíkur Landakot. Hinir yngri voru fluttir til Hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar, sem er sjálfseignarstofnun samkvæmt skipulagsskrá frá 30. apríl 1997, og var stefnandi meðal þeirra starfsmanna sem hófu störf þar í byrjun júnímánaðar 1997. Til bráðabirgða, eða frá því um áramótin 1996 1997, höfðu yngri sjúklingarnir verið vistaðir á Grensásdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur og stefnandi starfað þar þann tíma.
Í greinargerð stefnda segir að stefnandi hafi lýst því yfir áður en kom til formlegs flutnings á starfseminni að hún hygðist fylgja vistmönnum deildarinnar yfir til Hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar. Af hálfu Sjúkrahúss Reykjavíkur hafi engum athugasemdum verið hreyft við þeirri fyrirætlun en á því tímamarki hafi reynst örðugt að manna stöður hjúkrunarfræðinga á spítalanum og fjöldi starfa verið laus, þ.á m. sambærileg því sem stefnandi gegndi. Þá lagði stefndi fram yfirlýsingu Hrefnu Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar, frá 27. ágúst 1999. Þar segir að áður en kom til áðurgreinds flutnings á starfsemi Sjúkrahúss Reykjavíkur yfir til Hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar hafi verið haldinn fundur með starfsfólki spítalans og hafi stefnandi lýst yfir að hún hefði ákveðið að fylgja sínu fólki, þ.e. vistmönnum, og taka til starfa á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í byrjun júnímánaðar 1997. Lögmaður stefnanda skoraði á stefnda að afla frekari gagna um umræddan fund. Voru þá lagðir fram „minnispunktar“ Margrétar Björnsdóttur, hjúkrunarframkvæmdastjóra Sjúkrahúss Reykjavíkur, dags. 2. maí 1997. Þar segir frá fundi sem haldinn hafi verið 18. apríl s.á. í Skógarbæ varðandi flutning ungra fatlaðra sjúklinga, sem lágu á Heilsuverndarstöðinni, yfir í nýtt hjúkrunarheimili, Skógarbæ, og hafi stefnandi verið meðal þeirra sem sátu hann af hálfu Sjúkrahúss Reykjavíkur. Ljóst hafi verið á fundinum að Björg Einarsdóttir mundi verða deildarstjóri hinnar nýju deildar.
Frammi liggja drög að samkomulagi milli Sjúkrahúss Reykjavíkur og Hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar frá því í október 1998. Var gert ráð fyrir áritun stefnanda til staðfestingar á því að efnisákvæði 1. gr. þess hafi verið uppfyllt, þ.e. tryggt að réttindi hennar yrðu ekki skert, en að meginefni er skjalið svohljóðandi: „Hjúkrunarheimilið Skógarbær lýsir því yfir að Ólöfu Björgu skuli tryggð ráðning sem jafngildi fastráðningu (æviráðningu) í skilningi reglna um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar. Í því felst m.a. réttur til biðlauna í 12 mánuði verði staða hennar lögð niður enda hafi hún ekki hafnað annarri sambærilegri stöðu hjá Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ eða Reykjavíkurborg. Um rétt til greiðslu biðlauna vísast að öðru leyti til 14. gr. reglna um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar. Komi til greiðslu biðlauna til Ólafar Bjargar mun Sjúkrahús Reykjavíkur greiða Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ þann kostnað sem hlýst af. Sjúkrahús Reykjavíkur lýsir því jafnframt yfir að spítalinn ábyrgist Ólöfu Björgu biðlaunagreiðslur skv. samkomulagi þessu.“ Samkomulagsdrögin voru send stefnanda með bréfi forstjóra Sjúkrahúss Reykjavíkur 13. október 1998. Þar segir m.a. að upplýst hafi verið af hálfu Hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar að stefnandi hafi ekki lokið gerð skriflegs ráðningarsamnings vegna óvissu um flutning réttinda sinna. Einnig segir að í samtölum forstöðumanns starfsmannahalds spítalans og bréfritarans við stefnanda hafi henni ítrekað verið boðið, teldi hún flutning réttinda sinna ekki tryggðan, að koma aftur til starfa í sambærilegt starf hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur.
Í bréfi stefnanda 2. nóvember 1998 til Jóhannesar Pálmasonar, forstjóra Sjúkrahúss Reykjavíkur, segir að samkomulagsdrögin séu henni óviðkomandi og ekki hægt að ætlast til að þriðji aðili undirskrifi. Jafnframt fer hún fram á að Sjúkrahús Reykjavíkur greiði sér biðlaun í samræmi við réttarstöðu sína. Með bréfi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 2. nóvember 1998 til Sjúkrahúss Reykjavíkur er farið fram á að sjúkrahúsið virði réttarstöðu stefnanda máls þessa og greiði henni biðlaun í 12 mánuði í samræmi við ákvæði 14. greinar reglna um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar. Með bréfum Sjúkrahúss Reykjavíkur 26. nóvember 1998, annars vegar til stefnanda og hins vegar til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, var biðlaunakröfu hafnað.
Stefnandi hætti störfum samkvæmt eigin ákvörðun hjá hjúkrunarheimilinu Skógarbæ á liðnu sumri og hóf þá störf, sem hún gegnir enn, sem hjúkrunarfræðingur hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík við þjónustuíbúðir aldraðra að Dalbraut 21 27.
III
Málsástæður stefnanda.
Stefnandi taldist til fastráðinna starfsmanna stefnda í skilningi reglugerðar um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkur þegar starf hennar við Sjúkrahús Reykjavíkur var lagt niður við flutning starfsemi heilsuverndarstöðvar sjúkrahússins yfir til Hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar en við flutninginn varð réttur stefnanda til biðlaunagreiðslna samkvæmt 1. mgr. 14. gr. framangreindra reglna virkur.
Starf það, sem stefnandi gegndi hjá Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ telst ekki sambærilegt því starfi sem hún gegndi áður hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Hún naut til að mynda ekki biðlaunaréttar í hinu nýja starfi eða þess starfsöryggis sem hún hafði sem starfsmaður stefnda. Hjúkrunarheimilið Skógarbær er sjálfseignarstofnun og stofnaðilar bera engar fjárhagslegar skuldbindingar umfram það stofnfé sem þeir leggja til.
Stefnanda var hvorki boðið sambærilegt starf hjá stefnda fyrir niðurlagningu starfs hennar né á biðlaunatímanum. Það var fyrst á haustmánuðum 1998 sem stefnanda var boðinn samningur sem átti að tryggja henni biðlaunarétt í starfi hennar hjá Skógarbæ.
Kröfufjárhæð er þannig fengin: Miðað er við að stefnandi hafi átt rétt til 12 mánaða biðlauna og með föstum launum sem starfi hennar fylgdu frá þeim tíma, 1. júní 1997, sem staðan teldist hafa verið lögð niður. Til fastra launa stefnanda teljist mánaðarlaun samkvæmt launaflokki hennar og desemberuppbót að upphæð 28.651 króna fyrir júní desember 1997 og 13.713 krónur vegna janúar maí 1998. Að auki er miðað við greiðslur fyrir 35 yfirvinnutíma á mánuði, sem stefnandi hafi fengið óháð vinnuframlagi, en af þeim kveður stefnandi greiðslur fyrir 10 klst. hafa verið inntar af hendi þann tíma sem hún starfaði í húsnæði Grensásdeildar á grundvelli samkomulags við yfirmann um að hún bætti á vinnuskýrslur þeim tímafjölda við unnar yfirvinnustundir. Ennfremur felur krafan í sér greiðslur vegna 9,1 yfirvinnutíma í hverjum mánuði fyrir það að stefnanda hafi ekki verið tryggðir fastir kaffitímar og er um þetta vísað til kjarasamnings. Miðað er við gjalddaga þessara greiðslna 16. hvers mánaðar.
IV
Málsástæður stefnda.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að staða stefnanda hafi ekki verið lögð niður hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur og henni hafi aldrei verið sagt upp störfum hjá sjúkrahúsinu.
Með gerð áðurgreinds samkomulags heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og fjármálaráðherra annars vegar og borgarstjórans í Reykjavík hins vegar frá 28. ágúst 1996 hafi stefnanda verið tryggt sambærilegt starf hjá Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ og hún gegndi áður hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Í því felist að hún hafi eftir sem áður notið að öllu leyti sambærilegra réttinda og kjara, þ.m.t. biðlaunaréttar. Samninginn verði að skýra svo að ríkissjóður ábyrgist fullar efndir réttinda gagnvart starfsfólki. Rekstur Hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar byggist á fjárveitingum úr ríkissjóði. Hjúkrunarheimilið og Sjúkrahús Reykjavíkur teljist sambærilegir aðilar í þessu tilliti og séu ekki efni til að gera greinarmun þar á.
Sjúkrahús Reykjavíkur og Hjúkrunarheimilið Skógarbær hafi lýst yfir vilja til að ganga frá skriflegri yfirlýsingu um tilflutning á réttindum stefnanda og eyða með því þeirri óvissu sem hún taldi vera um réttindaflutning sinn. Á þann hátt hefði ábyrgð sveitarfélags legið að baki flutningi á réttindum hennar svo og efndum á þeim og hafi stefndi boðið stefnanda sérhverjar tryggingar og ábyrgðir sem án nokkurs vafa verði að telja ásættanlegar við lausn þessa máls.
Stefnandi hafi sjálf tekið ákvörðun um flutning frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur til Hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar með yfirlýsingu þessa efnis. Í þeirri yfirlýsingu hafi falist afdráttarlaus afstaða um höfnun áframhaldandi starfs hjá stefnda eða viðræður um slíka tilhögun.
Þá er sýknukrafan byggð á því að stefnandi sé aftur orðin starfsmaður Reykjavíkurborgar. Hún hafi notið biðlaunaréttar sem starfsmaður Sjúkrahúss Reykjavíkur, henni verið tryggður biðlaunaréttur þann tíma sem hún vann hjá Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ og hún njóti enn biðlaunaréttar sem starfsmaður Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar.
Varakrafa stefnda víkur frá kröfu stefnanda til lækkunar að því leyti að við það er miðað að fastir, óunnir yfirvinnutímar hafi verið 25 á mánuði í samræmi við það sem fram kemur á launaseðlum og að ekki er fallist á 9,1 klst. á mánuði á yfirvinnukaupi vegna kaffitíma.
V
Í fyrrgreindu samkomulagi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, fjármálaráðherra og borgarstjórans í Reykjavík frá 28. ágúst 1996 segir í 12. gr.: „Réttindi starfsfólks verði tryggð og ekki rýrð þó svo þeir skipti um vinnuveitanda sbr. meðferð mála við sameiningu Borgarspítala og Landakotsspítala 1995.“
Jóhannes Pálmason gegndi stöðu forstjóra Sjúkrahúss Reykjavíkur á þeim tíma sem um ræðir í málinu. Við aðalmeðferð málsins bar hann að við það að starfsemi var lögð niður á Heilsuverndarstöðinni og flutt í Skógarbæ hefði engum starfsmanni verið sagt upp eða verið tilkynnt að staða hans hefði verið lögð niður. Stefnandi staðfesti að þetta ætti við um hana.
Jóhannes Pálmason kvað það ekki mundu hafa verið vandkvæðum bundið að stefnandi héldi deildarstjórastarfi hjúkrunar og því hefði verið fagnað hefði hún haldið áfram störfum í Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Henni hafi hins vegar ekki verið boðið tiltekið starf á tilteknum tíma vega þess að snemma árs 1997 hafi legið fyrir að hún hygðist að eigin ósk fylgja sjúklingum deildarinnar í Skógarbæ ásamt flestu starfsfólkinu. Hann kvað kvartanir stefnanda yfir því að allur réttindapakkinn hefði ekki fylgt með hafa komið til sinna kasta síðla árs 1997 eða í upphafi 1998. Tilefni samkomulagsdraganna frá því í október 1998 kvað hann vera að stefnandi hafi talið vafa vera um æviráðningu og því sem henni fylgdi. Stefnt hafi verið að því að eyða misskilningi og árétta og skjalfesta það sem falist hafi í samkomulaginu frá 28. ágúst 1996 en í sínum huga hafi enginn vafi verið um að það hafi tryggt réttindi stefnanda.
Stefnandi kvað gert hafa verið ráð fyrir að starfsfólk deildarinnar í Heilsuverndarstöðinni færi í Hjúkrunarheimilið Skógarbæ og það hefðu nær allir gert. Hún hafi enga yfirlýsingu gefið en þetta hafi þróast þannig. Hún kvað ekki hafa verið rætt við sig á öðrum nótum og sér ekki verið boðið annað starf. Hún kvað ekkert hafa verið rætt formlega við sig um hvaða þýðingu flutningurinn hefði fyrir sig. Hún kvaðst hafa orðið deildarstjóri í sambærilegri deild í Skógarbæ sem áður en starfið verið umfangsmeira. Launakjör hafi verið hin sömu að öðru leyti en því að fastir yfirvinnutímar hafi veri 25 í stað 35. Hún kvað föst laun í núverandi starfi hennar á vegum Reykjavíkurborgar vera þremur launaflokkum hærra en hins vegar væri engin föst yfirvinna. Það starf sé léttara en það sem hún gegndi í Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ. Hún kvaðst ekki hafa fengið fastráðningu og ekki sóst eftir henni.
Vitnið Margrét Björnsdóttir var hjúkrunarframkvæmdastjóri lyflæknisdeildar og endurhæfingadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur og heyrði starfsemin á Grensásdeild undir hana á fyrri helmingi árs 1997. Hún kvað hafa verið ljóst nokkuð snemma að stefnandi mundi fylgja skjólstæðingum sínum og starfsmönnum eða að hún óskaði a.m.k. eftir því.
Um starfskjör stefnanda sem starfsmanns Sjúkrahúss Reykjavíkur gilti reglugerð um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar frá 7. desember 1967 ásamt áorðnum breytingum. Í 14. gr. hennar segir að sé staða lögð niður skuli starfsmaður jafnan fá föst laun, er starfanum fylgdu, greidd í 6 mánuði frá því hann lét af starfi ef hann hefur verið í þjónustu borgarinnar skemur en 10 ár en í 12 mánuði eigi hann að baki lengri þjónustualdur, enda hafi hann þá ekki hafnað annarri sambærilegri stöðu á vegum borgarinnar.
Starf það, sem stefnandi hafði gegnt í legudeild Heilsuverndarstöðvar Sjúkrahúss Reykjavíkur, var flutt til annarrar stofnunar. Hins vegar er ekki upplýst að staða hennar hafi verið lögð niður og þykir mega leggja til grundvallar að hún hefði getað gegnt áfram stöðu deildarstjóra hjúkrunar hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur hefði hún látið á það reyna eða sett fram ósk um það. Þegar af þessari ástæðu öðlaðist stefnandi ekki rétt til greiðslu biðlauna. Að auki naut stefnandi óskertra réttinda, þar með talið biðlaunaréttar, í starfi sínu í Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ á grundvelli 12. gr. samkomulags heilbrigðis- og tyggingamálaráðherra, fjármálaráðherra og borgarstjórans í Reykjavík frá 28. ágúst 1996 og var sú staða einnig að öðru leyti sambærileg hinni fyrri.
Samkvæmt þessu er niðurstaða málsins sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda. Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.
Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Reykjavíkurborg vegna Sjúkrahúss Reykjavíkur, er sýknaður af kröfum stefnanda, Ólafar Bjargar Einarsdóttur.
Málskostnaður fellur niður.