Hæstiréttur íslands

Mál nr. 844/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kærufrestur
  • Frávísun frá Hæstarétti


 

Nr. 844/2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

Kærumál. Kærufrestur. Frávísun frá Hæstarétti.  

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar samkvæmt nánar tilgreindum dómum, sem henni hafði verið veitt reynslulausn á. Málinu var vísað frá Hæstarétti, enda hafði kæra borist héraðsdómi eftir að frestur samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var liðinn.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 16. desember 2015, en Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2015 þar sem varnaraðila var gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar samkvæmt dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2012, 20. mars 2014 og 18. desember 2014 og dómi Héraðsdóms Reykjaness 10. febrúar 2015, sem henni var veitt reynslulausn á 22. ágúst 2015. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 má kæra eftir almennum reglum til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara um að maður, sem hlotið hefur reynslulausn, skuli afplána eftirstöðvar refsingar. Um kæru gilda sömu reglur og um kæru úrskurðar samkvæmt lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt upphafsmálslið 2. mgr. 193. gr. þeirra laga skal maður sem kæra vill úrskurð lýsa því yfir innan þriggja sólarhringa frá því að hann fékk vitneskju um úrskurðinn. 

Varnaraðili og verjandi hennar voru viðstödd uppsögu hins kærða úrskurðar og lýsti varnaraðili því þá yfir að tekinn væri lögboðinn frestur til að taka ákvörðun um hvort hún kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Eins og áður greinir barst kæra héraðsdómi 16. desember 2015, en þá var liðinn kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2015.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að afplána eftirstöðvar reynslulausnar dóma héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 25. júní 2012, héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 20. mars 2014, héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 18. desember 2014 og héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 10. febrúar 2015 sbr. reynslulausn sem henni var veitt af Fangelsismálastofnun þann 22. ágúst 2015. 

Í greinargerð kemur fram að í nótt hafi lögreglu borist tilkynning um að búið væri að fara inni í bifreið utan við [...] á [...] og taka úr bifreiðinni kveikjulásalykla sem þar höfðu verið. Tilkynnandi kvaðst síðast hafa verið á bifreiðinni og hafi hann þá lagt henni við gangstéttina við [...]. Bifreiðinni hafi nú verið lagt á akbrautina út við [...]. A, eigandi bifreiðarinnar, kvaðst hafa skilið bifreiðina eftir ólæsta og búið væri að taka greiðslukort, ökuskírteini, poka sem innihélt tvo boli úr 10-11, gólftusku, skyndihjálpartösku merka Atlantsolíu og dælulykla frá Atlantsolíu og Olís, geisladiskinn Pottþétt 63, debetkort frá Landsbankanum, ökuskírteini, fjóra húslykla, nýlegan auðkennislykil, þjónustubók úr bifreiðinni, úlpu, heyrnatól og matarbox. Þegar verið var að ræða við tilkynnanda hafi komið tilkynning um konu á stigagangi við [...] og hafi það reynst vera X. Hafi hún heimilað leit í farangri sínum, en í honum hafi fundist lyf. Í poka sem hafi fundist í stigagangi að [...] fundust tveir 10-11 bolir og geisladiskahulstur af plötunni Pottþétt 63. Í veski hennar hafi fundist geisladiskar og textabæklingur af plötunni Pottþétt 63, ásamt tveimur bensínlyklum frá OB og einum frá Atlantsolíu. Í stigagangi að [...] fundust lyf og heyrnatól.

Í viðræðum við kærðu kvaðst hún hafa sett kort sem hún tók úr bifreiðinni inn í skápa í stigahúsi að [...]. Þar hafi fundist debetkort, ökuskírteini og húslyklar í eigu A og þjónustubók úr bifreiðinni sem A hafi til umráða. Í skýrslutöku í dag kvaðst kærða hafa farið inn í bifreiðina [...] til að reyna að stela einhverju. Hún hafi fundið bíllykla og sett bifreiðina í gang, keyrt hann áfram og svo farið aftur út úr honum. Í þvagsýni kom svörun á fíkniefni, og kvað hún þetta bara vera það sem hún væri búin að taka inn. Kvaðst hún hafa tekið dælulykil frá OB, hring með tveimur dælulyklum, geisladiskinn Pottþétt 63, sjúkratösku merkta Atlantsolíu úr einhverri bifreið.

Kærða hafi ítrekað komið við sögu lögreglu síðan hún fékk reynslulausn þann 22. ágúst 2015 og sé hún undir rökstuddum og sterkum grun vegna neðangreindra mála hjá lögreglu.

Mál 007-2015-56261

Kærða hafi viðurkennt að hafa föstudaginn 25. september sl., í verslun Bónus, Fiskislóð, Reykjavík, í félagi við annan aðila, stolið kjúklingabringum, samtals að verðmæti kr. 46.072.

Mál 007-2015-60654

Mánudaginn 19. október sl. í verslun Krónunnar, Bíldshöfða 20. Reykjavík, stolið fatnaði, snyrtivörum og þremur kertum, samtals að verðmæti kr. 15.105. Kærða hafi viðurkennt að hafa stolið snyrtivörunum en fannst ólíklegt að hún hefði stolið kertunum.

Mál 007-2015-60735

Kærða hafi viðurkennt að hafa föstudaginn 30. október sl., við Bíldshöfða í Reykjavík, stolið tösku úr bifreiðinni [...], að óþekktu verðmæti.

Mál nr. 007-2015-60820

Kærða sé grunuð um nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa föstudaginn 30. október sl. tekið bifreiðina [...] ófrjálsri hendi og ekið henni víðsvegar um höfuðborgarsvæðið, svipt ökurétti og óhæf til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, en lögregla hafði afskipti af kærðu í bifreiðinni að kvöldi 30. október við [...] í Reykjavík. Kærða hafi viðurkennt að hafa ekið svipt ökurétti og kvaðst hafa notað morfín og fentanýl. Blóðsýni úr ákærðu sé enn í rannsókn. Kærða kvaðst hafa fengið bifreiðina lánaða hjá vinkonu sinni.

Mál nr. 007-2015-67033

Kærða sé grunuð um umferðarlagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 1. desember sl. ekið bifreiðinni [...] svipt ökurétti og óhæf til að stjórna henni örugglega vegna áhrif ávana- og fíkniefna. Blóðsýni úr kærðu sé enn í rannsókn. Kærða hafi viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni svipt ökurétti og undir áhrifum fíkniefna.

Mál nr. 007-2015-67537

Kærða sé grunuð um fjársvik og þjófnað, með því að hafa föstudaginn 4. desember sl., í [...]skóla, [...], Reykjavík, í félagi við B, stolið tveimur úlpum, að óþekktu verðmæti og að hafa í framhaldi svikið út vörur og þjónustu í verslun Iceland Arnarbakka og hjá Hreyfli, með því að framvísa þar í blekkingarskyni og án heimildar greiðslukorti C og látið þannig skuldfæra andvirði varanna og þjónustunnar af bankareikningi hennar. Greiðslukort C hafi verið í úlpu hennar sem stolið var úr [...]skóla. Stuttu síðar hafi X verið handtekinn með svarta Cintamani úlpu meðferðis sem samsvaraði til lýsingar á úlpu C. C staðfesti síðar að úlpan væri hennar. Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði kærða að úlpan og greiðslukortið væri úr skóla í [...].

Mál 007-2015-67538

Kærða sé grunuð um líkamsárás og tilraun til fjársvika, með því að hafa föstudaginn 4. desember, í verslun Nettó, Álfabakka 14a, Reykjavík, reynt að svíkja út vörur með því að framvísa þar í blekkingarskyni og án heimildar greiðslukorti í eigu annars aðila og þannig reynt að láta skuldfæra andvirði varanna af þeim bankareikningi, en greiðslukortinu var hafnað. Í framhaldinu hafi kærða ráðist á D starfsmann verslunarinnar og kýlt hann með krepptum hnefa í hökuna, sparkað í hann og hrækt á hann. Hún hafi svo ráðist á E, starfsmann verslunarinnar, slegið hann í andlitið, hrækt framan í hann og bitið hann í framhandlegg hægri handar. Í framhaldi hafi kærða ráðist á F, starfsmann verslunarinnar og sparkað í hægri fót hans og hægri hendi. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst kærða ekki muna eftir þessu. 

Kærða játi sök. Samkvæmt því liggi kærða undir sterkum grun um brot sem varði við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sé það mat lögreglu að með þessu sé fullnægt skilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um að hún hafi á reynslulausnartímanum rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnarinnar.

                Niðurstaða

Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærða hafi gerst sek um háttsemi sem varðar geti allt að 6 ára fangelsi. Hún hefur því brotið gróflega gegn skilyrðum reynslulausnarinnar. Það er því fallist á með lögreglustjóra að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005. 

Er krafan því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð: 

Kærða, X, kt. [...], skal afplána eftirstöðvar reynslulausnar dóma héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 25. júní 2012, héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 20. mars 2014, héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 18. desember 2014 og héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 10. febrúar 2015, sbr. reynslulausn sem henni var veitt af Fangelsismálastofnun þann 22. ágúst 2015.