Hæstiréttur íslands

Mál nr. 630/2013


Lykilorð

  • Ábyrgð
  • Veðleyfi
  • Ógilding samnings
  • Dagsektir
  • Gjafsókn


                                                                                               

Fimmtudaginn 20. febrúar 2014.

Nr. 630/2013.

Páll Sigurjónsson

(Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.)

gegn

AFLi-sparisjóði

(Anton B. Markússon hrl.)

Ábyrgð. Veðleyfi. Ógilding samnings. Dagsektir. Gjafsókn.

P höfðaði mál gegn A sparisjóði og krafðist þess að felld yrði úr gildi veðsetning á eignarhlutum hans í jörð og lóðum úr henni samkvæmt veðskuldabréfi og tryggingabréfi sem gefin voru út af J. Óumdeilt var að greiðslugeta J hafði ekki verið metin áður en P samþykkti veðsetninguna, eins og P taldi að skylt hefði verið samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Andvirði veðskuldabréfsins rann að mestu til P vegna kaupa J á hlut í jörðinni en í dómi Hæstaréttar kom fram að sú ráðstöfun breytti engu um þá skyldu sem hvíldi á A gagnvart P við veðsetninguna samkvæmt umræddu samkomulagi, enda hefði P ekki borið að tryggja greiðslu kaupverðsins til sjálfs sín með því að veðsetja sinn hluta jarðarinnar sem salan tók ekki til. Þá hefði umrædd sala verið um garð gengin þegar P setti að veði lóðir sínar úr jörðinni með tryggingabréfinu. Þá var ekkert fram komið sem renndi stoðum undir þá staðhæfingu A að fjárhagur J hefði á þessu tímabili verið traustur þannig að ekki skipti máli þótt greiðslugeta hans hefði ekki verið metin eftir reglum samkomulagsins. Þegar þetta væri haft í huga og það traust sem P mátti bera til A, auk þess sem augljós aðstöðumunur var með aðilum, yrði talið með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að ósanngjarnt væri af A að bera fyrir sig samþykki P við að setja að veði eignarhluta sinn í jörðinni og lóðum úr henni til tryggingar skuldum J. Þá var ekki fallist á með A að P hefði sýnt tómlæti við gæslu réttar síns.  Voru veðsetningar á eignum P samkvæmt veðskuldabréfi og tryggingarbréfi því ógiltar. Jafnframt var tekin til greina krafa um að A yrði gert að aflýsa veðunum af eignum P að viðlögðum dagsektum.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. september 2013. Hann krefst þess að felld verði úr gildi veðsetning á eignarhlutum hans til tryggingar á skuldum Júlíusar Ævarssonar annars vegar í jörðinni Galtalæk í Rangárþingi ytra, landnúmer 164973, samkvæmt veðskuldabréfi 21. nóvember 2005 að höfuðstól 16.000.000 krónur og hins vegar í lóðum nr. 2 og 3 úr jörðinni, fastanúmer 210-035 og 210-036, samkvæmt tryggingarbréfi 13. desember 2007 að höfuðstól 20.000.000 krónur. Einnig krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að aflétta veðskuldabréfinu og tryggingarbréfinu af eignunum innan 15 daga frá dómsuppsögu að viðlögðum 50.000 króna dagsektum frá þeim tíma þar til aflétting fer fram. Loks er krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi var eigandi jarðarinnar Galtalækjar í Rangárþingi ytra, en með kaupsamningi 19. nóvember 2005 seldi hann helming hennar til Júlíusar Ævarssonar. Samkvæmt kaupsamningnum var kaupverðið 21.000.000 krónur sem greiða átti með 15.000.000 krónum við undirritun samningsins, 3.000.000 krónum með endurbótum á mannvirkjum jarðarinnar og 3.000.000 krónum með skuldabréfi á gjalddaga 31. desember 2012. Í kaupsamningnum var gert ráð fyrir því að skuld áfrýjanda á 3. veðrétti hvíldi áfram á eigninni, en greiðslu við undirritun samningsins átti að ráðstafa til að gera upp aðrar veðkröfur áður en eftirstöðvar greiðslunnar yrðu lagðar inn á reikning áfrýjanda. Í samræmi við þetta greiddi kaupandi 5. desember 2005 upp veðskuld að fjárhæð 1.819.797 krónur á 1. veðrétti við Lánasjóð landbúnaðarins og veðskuld að fjárhæð 3.396.590 krónur á 2. og 4. veðrétti við Búnaðarbanka Íslands hf. en lagði mismuninn að fjárhæð 9.783.613 krónur inn á reikning áfrýjanda. Áfrýjandi gaf út afsal fyrir eignarhlutanum til Júlíusar 10. janúar 2007 og var það móttekið til þinglýsingar 17. sama mánaðar.

 Til að fjármagna greiðslu samkvæmt kaupsamningnum gaf fyrrnefndur Júlíus út veðskuldabréf 21. nóvember 2005 að fjárhæð 16.000.000 krónur til Sparisjóðs Siglufjarðar, forvera stefnda, en bréfið var til 40 ára með mánaðarlegri afborgun. Til tryggingar skuldinni var jörðin sett að veði með 5. veðrétti og undirritaði áfrýjandi veðskuldabréfið sem þinglýstur eigandi jarðarinnar. Bréfið var móttekið til þinglýsingar 24. sama mánaðar. Einnig samþykkti áfrýjandi með undirritun sinni á tryggingarbréf 13. desember 2007 að lóðir hans nr. 2 og 3 úr jörðinni yrðu settar að veði með 1. veðrétti fyrir öllum skuldum Júlíusar við sparisjóðinn allt að fjárhæð 20.000.000 krónur bundið vísitölu neysluverðs að viðbættum vöxtum og kostnaði, en bréfið var móttekið til þinglýsingar 4. febrúar 2008.

Í málinu liggur fyrir að greiðslugeta greiðanda var ekki metin í aðdraganda þess að áfrýjandi setti jörðina að veði með veðskuldabréfinu 21. nóvember 2005 eða lóðir sínar úr jörðinni með tryggingarbréfinu 13. desember 2007. Stefndi varð til með samruna tveggja sparisjóða, en fyrirsvarsmaður hans, Ólafur Jónsson, sparisjóðsstjóri, sem einnig var í forsvari fyrir þann forvera stefnda sem hér á í hlut, gaf skýrslu fyrir héraðsdómi. Þar lýsti hann aðdraganda þess að Júlíus fékk lánafyrirgreiðslu í sparisjóðnum þannig að lántaki hefði verið í viðskiptum við sjóðinn en engar upplýsingar hefðu legið fyrir um að hann skuldaði nokkuð. Í öllu falli hefðu engar upplýsingar þar að lútandi borist sjóðnum. Þá kom fram í skýrslunni að starfsfólk sparisjóðsins hefði ekki verið í neinu sambandi við áfrýjanda í aðdraganda þess að hann setti eignir sínar að veði til tryggingar skuldum Júlíusar.

Veðskuldabréfið 21. nóvember 2005 var í vanskilum frá 15. apríl 2008 en með beiðni 15. apríl 2010 krafðist stefndi þess að jörðin yrði seld nauðungarsölu til fullnustu skuldar samkvæmt bréfinu. Í beiðninni kom fram að skuldin að meðtöldum vöxtum og kostnaði næmi samtals 27.565.173 krónum. Lögmaður áfrýjanda ritaði sýslumanninum á Hvolsvelli bréf 10. október 2011 og andmælti því að nauðungarsalan næði fram að ganga. Við nauðungarsöluna, sem fór fram degi síðar, tók sýslumaður þá ákvörðun að ráðstafa aðeins eignarhluta Júlíusar í jörðinni. Samkvæmt frumvarpi til úthlutunar á söluverði eignarinnar var hún seld hæstbjóðanda, Arion banka hf., með boði að fjárhæð 21.000.000 krónur. Að greiddum sölulaunum í ríkissjóð og lögveðskröfum var söluverðinu ráðstafað til greiðslu skuldar við Arion banka hf. á 1. veðrétti að fjárhæð 1.972.463 krónur en eftirstöðvunum, 18.135.770 krónum, var ráðstafað upp í kröfu stefnda samkvæmt veðskuldabréfinu, sem þá hvíldi á 2. veðrétti jarðarinnar.

Með tölvubréfum lögmanns áfrýjanda 6. og 25. október 2011 var þess krafist að stefndi aflýsti veðskuldabréfinu af eignarhluta áfrýjanda í jörðinni. Því erindi svaraði stefndi með tölvubréfi 27. sama mánaðar þar sem kröfunni var hafnað. Áfrýjandi höfðaði síðan mál þetta 29. ágúst 2012.

II

Þegar áfrýjandi samþykkti að veðsetja jörðina Galtalæk og tvær lóðir úr jöðinni með veðskuldabréfi 21. nóvember 2005 og tryggingarbréfi 13. desember 2007 var í gildi samkomulag 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Að samkomulagi þessu stóð meðal annars Samband íslenskra sparisjóða fyrir hönd sparisjóða og var stefndi því bundinn af samkomulaginu. Í 1. gr. samkomulagsins var lýst því markmiði þess að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga og að lánveitingar yrðu miðaðar við greiðslugetu greiðanda og eigin tryggingar hans. Þá var tekið fram að með samkomulaginu væru settar meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum, meðal annars í þeim tilvikum er veð í eigu annars einstaklings væri sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu. Í 3. gr. samkomulagsins var fjallað um mat á greiðslugetu en þar sagði meðal annars í 1. mgr. að þegar veð væri sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu bæri fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda nema veðsali óskaði sérstaklega eftir því skriflega að svo yrði ekki gert. Þó var fjármálafyrirtæki skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð á skuld næmi hærri fjárhæð en 1.000.000 krónum, sbr. 3. mgr. þessarar greinar. Samkvæmt 4. gr. samkomulagsins bar fjármálafyrirtæki að gefa út upplýsingabækling meðal annars um veðsetningar og dreifa með skjölum sem afhent væru til undirritunar. Kom meðal annars fram í þeirri grein að með undirritun skjala sem fyllt væru út í tengslum við afgreiðslu láns staðfesti veðsali að hann hefði kynnt sér efni upplýsingabæklingsins. Þá sagði í niðurlagi greinarinnar að tryggt skyldi að veðsali gæti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann heimilaði veðsetningu. Jafnframt bar veðsala að staðfesta skriflega ef hann óskaði eftir að lán yrði veitt þótt niðurstaða greiðslumats benti til að greiðandi gæti ekki efnt skuldbindingar sínar.

Svo sem áður segir var greiðslugeta Júlíusar Ævarssonar ekki metin áður en áfrýjandi samþykkti að setja að veði jörðina og lóðir úr henni með veðskuldabréfi 21. nóvember 2005 og tryggingarbréfi 13. desember 2007. Þá hefur komið fram að starfsfólk stefnda var ekki í samskiptum við áfrýjanda og verður því að leggja til grundvallar að honum hafi ekki verið kynntur upplýsingabæklingur um lögfylgjur þess að setja eign sína að veði fyrir skuld þriðja manns. Af þessum sökum telur áfrýjandi að fella beri úr gildi veðsetningu eigna hans á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þar segir í 1. mgr. að víkja megi samningi til hliðar í heild eða að hluta eða breyta ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við mat á þessu skal líta til efnis samningsins, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar koma til, sbr. 2. mgr. sömu greinar.

Í málinu er komið fram að andvirði veðskuldabréfsins 21. nóvember 2005 rann að mestu til áfrýjanda og veðhafa sem greiðsla samkvæmt kaupsamningi 19. sama mánaðar fyrir helmings hlut í jörðinni. Sú ráðstöfun breytir engu um þá skyldu sem hvíldi á stefnda gagnvart áfrýjanda við veðsetninguna samkvæmt samkomulaginu 1. nóvember 2001, enda bar áfrýjanda ekki að tryggja greiðslu kaupverðsins til sjálfs sín með því að veðsetja sinn hluta jarðarinnar sem salan tók ekki til. Þá var umrædd sala á helmingi jarðarinnar um garð gengin þegar áfrýjandi setti að veði lóðir sínar úr jörðinni með tryggingarbréfi 13. desember 2007.

Eins og hér hefur verið rakið bar stefnda eftir fortaklausri reglu í 3. mgr. 3. gr. samkomulagsins 1. nóvember 2001 að meta greiðslugetu skuldara áður en áfrýjandi setti eignir sínar að veði fyrir verulegum skuldum hans. Verður stefndi að bera hallann af því að hafa ekki viðhaft þau vönduðu vinnubrögð sem samkomulagið gerði ráð fyrir, enda er að öðrum kosti vandséð að náð verði því meginmarkmiði samkomulagsins að þeir sem veittu tryggingu fyrir fjárskuldbindingum annarra gerðu sér grein fyrir þeirri áhættu sem þeir tækjust á herðar með slíkri ráðstöfun. Þessar ríku kröfur sem gera verður til stefnda sem fjármálafyrirtækis verða ekki aðeins leiddar af samkomulaginu heldur einnig skráðum og óskráðum reglum, meðal annars 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en á þessum tíma hljóðaði sú grein þannig að slík fyrirtæki skyldu starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Þá hefur ekkert komið fram sem rennir stoðum undir þá staðhæfingu stefnda að fjárhagur Júlíusar hafi á þessu tímabili verið traustur þannig að ekki skipti máli þótt greiðslugeta hans hafi ekki verið metin eftir reglum samkomulagsins. Þegar þetta er haft í huga og það traust sem áfrýjandi mátti bera til stefnda, auk þess sem augljós aðstöðumunur var með aðilum, verður talið með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 að ósanngjarnt sé af stefnda að bera fyrir sig samþykki áfrýjanda við að setja að veði eignarhluta sinn í jörðinni og lóðum úr henni til tryggingar skuldum Júlíusar. Þá verður ekki fallist á með stefnda að áfrýjandi hafi sýnt tómlæti við gæslu réttar síns þannig að réttarspjöllum varði, en hann hafði uppi andmæli sín í aðdraganda þess að hálf jörðin var seld nauðungarsölu sem fram fór 11. október 2011. Samkvæmt þessu verða ógiltar veðsetningar á eignum áfrýjanda samkvæmt veðskuldabréfi 21. nóvember 2005 og tryggingarbréfi 13. desember 2007. Jafnframt verður tekin til greina krafa um að stefnda verði gert að aflýsa þessum veðum af eignum áfrýjanda að viðlögðum dagsektum eins og greinir í dómsorði.

Eftir þessum málsúrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda verða staðfest, en um þann kostnað hans fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem segir í dómsorði.

Dómsorð:

Veðsetning á eignarhluta áfrýjanda, Páls Sigurjónssonar, annars vegar í jörðinni Galtalæk í Rangárþingi ytra, landnúmer 164973, samkvæmt veðskuldabréfi 21. nóvember 2005 að höfuðstól 16.000.000 krónur og hins vegar í lóðum nr. 2 og 3 úr sömu jörð, fastanúmer 210-035 og 210-036, samkvæmt tryggingarbréfi 13. desember 2007 að höfuðstól 20.000.000 krónur, hvoru tveggja til tryggingar á skuldum Júlíusar Ævarssonar, er ógilt.

Stefnda, AFLi-sparisjóði, er gert að aflétta veðskuldabréfinu og tryggingarbréfinu af eignunum að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 25.000 krónur til áfrýjanda, sem falli á frá 8. mars 2014 hafi skyldunni ekki verið fullnægt fyrir þann tíma.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda skal vera óraskað.

Stefndi greiði 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 24. júní 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var 31. maí sl., hefur Páll Sigurjónsson, kt. 170744-8109, Galtalæk, Rangárþingi ytra, höfðað hér fyrir dómi gegn AFL - sparisjóði, kt. 610269-3979, Aðalgötu 34, 580 Siglufirði, með stefnu birtri 29. ágúst 2012.

Dómkröfur stefnanda eru:

1.  Að felld verði úr gildi með dómi og dæmd óskuldbindandi veðsetning eignarhluta stefnanda í jörðinni Galtalæk, Rangárþingi ytra, landnúmer 164973, til tryggingar skuld Júlíusar Ævarssonar, kt. 110372-3299, við stefnda, samkvæmt veðskuldabréfi að höfuðstól kr. 16.000.000, dagsett 21. nóvember 2005, númer 1102-74-903047, jafnframt því sem allar skuldbindingar stefnanda samkvæmt veðskuldabréfinu verði felldar úr gildi.

2.  Að felld verði úr gildi með dómi og dæmd óskuldbindandi veðsetning eignarhluta stefnanda í lóðum númer 2 og 3 úr jörðinni Galtalæk, Rangárþingi ytra, fastanúmer 210-035 og 210-036, til tryggingar skuld Júlíusar Ævarssonar, kt. 110372-3299, við stefnda, samkvæmt tryggingarbréfi að höfuðstól kr. 20.000.000, dagsett 13. desember 2007, jafnframt því sem allar skuldbindingar stefnanda samkvæmt tryggingarbréfinu verði felldar úr gildi.

3.  Að stefnda verði gert skylt með dómi að aflétta fyrrgreindu veðskuldabréfi og tryggingarbréfi af eignarhluta stefnda í jörðinni Galtalæk, Rangárþingi ytra, landnúmer 164973, og lóðum númer 2 og 3 úr jörðinni, fastanúmer 210-035 og 210-036, innan 15 daga frá dómsuppsögu, að viðlögðum kr. 50.000 í dagsektir frá þeim tíma, þar til aflétting fer fram.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af dómkröfum stefnanda og jafnframt að stefnandi verði dæmdur til að greiða málskostnað samkvæmt mati dómsins.

I.

Í máli þessu er ágreiningur með aðilum um gildi veðsetninga í eignarhluta stefnanda í jörðinni Galtalæk í Rangárþingi ytra samkvæmt fyrrgreindu veðskuldabréfi og tryggingarbréfi, dagsettum 21. nóvember 2005 og 13. desember 2007.

Samkvæmt framlögðum gögnum og málatilbúnaði aðila eru helstu atvik þau að með kaupsamningi, dagsettum 19. nóvember 2005, og afsali, dagsettu 10. janúar 2007, seldi stefnandi, Páll Sigurjónsson, Júlíusi Ævarssyni helming jarðar sinnar að Galtalæk í Rangárþingi ytra.  Kaupverðið var 21.000.000 króna og skyldi það greiðast með eftirfarandi hætti: a) við undirritun samnings 15.000.000 króna, b) með endurbótum á mannvirkjum, skv. sérstöku samkomulagi 3.000.000 króna, c) með skuldabréfi, á gjalddaga 31.12.2012 3.000.000 króna.  Í kaupsamningnum er sá fyrirvari hafður á af hálfu kaupandans, Júlíusar, að andvirði kaupgreiðslu hans samkvæmt a-lið skyldi fyrst varið til uppgreiðslu á þremur áhvílandi lánum að nafnvirði 11.500.000 krónur áður en eftirstöðvunum yrði ráðstafað inn á bankareikning seljanda.  Liggur fyrir að um var að ræða lán frá Lánasjóði landbúnaðarins á 1. veðrétti jarðeignarinnar og lán frá Búnaðarbanka Íslands á 2. og 4. veðrétti.  Kveðið var á um að lán á 3. veðrétti frá Kaupþingi banka að nafnvirði 2.400.000 krónur, frá árinu 2004, skyldi hvíla áfram á eigninni, en vera kaupandanum óviðkomandi, eins og það er orðað.

Ágreiningslaust er að Júlíus fjármagnaði jarðakaupin m.a. með lánveitingu frá forvera stefnda, Sparisjóði Siglufjarðar, með lýstu veðskuldabréfi, dagsettu 21. nóvember 2005, að fjárhæð 16.000.000 króna.  Þá liggur fyrir að stefnandi ritaði, að beiðni lántakans Júlíusar og samkvæmt kröfu forvera stefnda, á veðskuldabréfið sem þinglýstur eigandi jarðarinnar Galtalækjar.  Í framhaldi af því var bréfinu þinglýst á jörðina, og þ.m.t. á eignarhluta stefnanda.

Þann 13. desember 2007 ritaði stefnandi undir fyrrgreint tryggingarbréf til tryggingar skuldum Júlíusar við stefnda að fjárhæð 20.000.000 króna og veðsetti þar með lóðir sínar á jörðinni Galtalæk, nr. 2 og 3.

Veðskuldabréfið hvíldi upphaflega á 5. veðrétti jarðarinnar, en tryggingarbréfið á 1. veðrétti, beggja lóðanna.

Stefndi staðhæfir í greinargerð að aðdragandinn og tilgangurinn með lýstum kaupgerningi stefnanda og Júlíusar á helmingshlut jarðarinnar Galtalækjar hafi verið sá að þeir hafi haft í hyggju að hefja sameiginlegan búrekstur á jörðinni.  Hafi sá rekstur tengst hrossarækt og tengdri starfsemi, og er staðhæft að Júlíus hafi áður verið með ferðaþjónustu á nálægri bújörð.  Hafi lánveiting stefnda grundvallast á þessum búrekstraráformum.

Stefndi staðhæfir að lánsfjárhæð Júlíusar samkvæmt veðskuldabréfinu hafi að hluta og í samræmi við ákvæði nefnds kaupsamnings, að frádregnum lántökukostnaði, verið ráðstafað til stefnanda, samtals 9.783.613 krónum, þann 5. desember 2005.  Að öðru leyti hafi andvirðinu verið ráðstafað til fyrrnefndra veðhafa.

Óumdeilt er að vanskil urðu á greiðslu afborgana af nefndu veðskuldabréfi.  Leiddu þau vanskil að lokum til þess að bréfið var gjaldfellt af hálfu stefnda.  Í framhaldi af því var krafist nauðungarsölu á allri jörðinni Galtalæk, að meðtöldum eignarhluta stefnanda.  Við framhaldssölu á eigninni þann 5. apríl 2011 tók sýslumaðurinn á Hvolsvelli þá ákvörðun að fella niður uppboðsmálið að því er varðaði eignarhluta stefnanda með vísan til 11. gr., sbr. 5. mgr. 15. gr., laga nr. 90, 1991.  Á hinn bóginn var eignarhluti lántakans Júlíusar Ævarssonar í jörðinni seldur á uppboði hinn 11. október 2011.

Samkvæmt gögnum krafðist lögmaður stefnanda, með bréfi til forvera stefnda, dagsettu 6. október 2011, að hann aflétti nefndu veðskuldabréfi af eignarhluta hans í jörðinni Galtalæk.  Var krafan rökstudd með því að stefndi hefði við fyrrgreinda lánafyrirgreiðslu og í samskiptum við stefnanda ekki farið að reglum samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem gert hafði verið millum Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja f.h. aðildarfélaga sinna, Sambands íslenskra sparisjóða f.h. sparisjóða, Neytendasamtakanna og viðskiptaráðherra f.h stjórnvalda þann 1. nóvember 2001. Er stefndi hafnaði erindinu leitaði stefnandi með kvörtun til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, þann 7. desember 2011.  Krafðist stefnandi að úrskurðað yrði óskuldbindandi og að úrskurðarnefndin felldi úr gildi umræddar veðsetningar hans á bújörð hans Galtalæk og á fyrrgreindum lóðum.  Samhliða því krafðist stefnandi þess að stefnda yrði gert að aflétta fyrrgreindum viðskiptabréfum af eignarhluta hans í jörðinni Galtalæk.

Í málatilbúnaði sínum hér fyrir dómi, líkt og í málarekstrinum fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, vísa aðilar ítrekað til ákvæða fyrrgreinds samkomulags fjármálafyrirtækja o.fl. frá 1. nóvember 2001. Í samkomulaginu eru ákvæði um markmið og gildissvið, en einnig eru þar ákvæði um mat á greiðslugetu og upplýsingagjöf til ábyrgðarmanns áður en til skuldaábyrgðar eða veðsetningar er stofnað.  Um þessi atriði segir m.a. í 1.-4. grein samkomulagsins:

1. gr.: Aðilar að samkomulagi þessu eru sammála um að gildi þeirrar stefnu að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga og að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu greiðanda og eigin tryggingar hans.  Með samkomulaginu eru settar meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum er skuldaábyrgð eða veð í eigu annars einstaklings eru sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu.

2. gr.: Samkomulag þetta tekur til allra skuldaábyrgða, þ.e. sjálfskuldaábyrgða og einfaldra ábyrgða, á skuldabréfalánum, víxlum og öðrum skuldaskjölum, á yfirdráttarheimildum á tékkareikningum og á úttektum með kreditkortum nema annað sé tekið fram í einstökum ákvæðum þess.  Einnig tekur samkomulagið til þess er einstaklingur hefur gefið út leyfi til að veðsetja fasteign sína til tryggingar skuldum annars einstaklings.

Samkomulagið gildir óháð því hvort til ábyrgðar er stofnað með áritun á skuldabréf, víxil eða annað skuldaskjal eða með útgáfu sérstakrar ábyrgðaryfirlýsingar.

3. gr.: Sé skuldaábyrgð eða veð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu ber fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda, nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert.

Við greiðslumat skal taka tillit til neyslu og annarra fastra útgjalda áður en ráðstöfunarfé til greiðslu skuldbindinga er reiknað út.  Við áætlun á útgjöldum til neyslu skal að lágmarki nota viðmiðun Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna eða Íbúðalánasjóðs.  Við áætlun á greiðslubyrði vegna yfirdráttarlána skal aldrei miða við lægri fjárhæð en sem nemur mánaðarlegum vöxtum og heimildargjöldum af hámarksfjárhæð yfirdráttarláns.  Við áætlun á greiðslubyrði vegna kreditkorta skal taka mið af mánaðarlegum vöxtum af hámarksúttekt.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er fjármálafyrirtæki skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemur meira en kr. 1.000.000.  Þó er hjónum eða fólki í óvígðri sambúð heimilt að undanskilja fjármálafyrirtæki frá skyldu til greiðslumats, vegna ábyrgðar á skuldum hvors annars.

4. gr.: Fjármálafyrirtækjum ber að gefa út upplýsingabæklinga um skuldaábyrgðir og veðsetningar og dreifa með skjölum sem afhent eru ábyrgðarmönnum til undirritunar.  Í bæklingunum komi m.a. fram hvaða skyldur felast í ábyrgðinni, heimild ábyrgðarmanns til að segja ábyrgðinni upp, heimild hans til þess að óska eftir að greiðslumat verði ekki framkvæmt og heimild hans til að bera ágreiningsmál vegna ábyrgðarinnar undir Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki náist ekki sátt milli hans og fjármálafyrirtækisins.

Með undirritun lánsumsóknar eða annarra gagna sem fyllt eru út í tengslum við afgreiðsluna staðfestir ábyrgðarmaður að hann hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings um ábyrgðir.  Ef ráðgert er að verja meira en helmingi lánsfjár til að endurgreiða önnur lán skuldara hjá fjármálafyrirtæki, skal ábyrgðarmaður staðfesta skriflega að honum hafi verið kynnt um þær ráðagerðir.

Tryggt skal að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það.  Ef niðurstaða greiðslumats bendir til að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar en ábyrgðarmaður óskar eftir að lán verði veitt engu að síður, skal hann staðfesta það skriflega.

Fyrrnefnd úrskurðarnefnd kvað upp úrskurð sinn þann 16. mars 2012.  Það var niðurstaða nefndarinnar að vísa bæri frá kröfu stefnanda um afléttingu tryggingarbréfsins á lóðum stefnanda með vísan til þess að tilmæli í þá veru hefðu ekki áður verið send stefnda.  Aftur á móti var það niðurstaða nefndarinnar að veðsetning jarðarinnar Galtalækjar samkvæmt margnefndu skuldabréfi væri ógilt.  Var einkum vísað til þess að stefndi, þ.e varnaraðili í úrskurðarmálinu, hefði ekki farið eftir ákvæðum áðurrakins samkomulags.  Um nánari rökstuðning segir í úrskurðinum:

Ekki liggja fyrir nein gögn um að varnaraðili hafi metið greiðslugetu Júlíusar Ævarssonar, útgefanda veðskuldabréfs nr. 1102-74-903047.  Verður því að miða við að greiðslumat hafi ekki farið fram.  Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga var varnaraðila skylt að meta greiðslugetu Júlíusar.  Verður varnaraðili að bera allan halla af því að slíkt greiðslumat fór ekki fram og þar með hvort sóknaraðili hefði eftir sem áður gengist í ábyrgð fyrir Júlíus, eftir að hafa kynnt sér matið.

Ekki er unnt að fallast á þá röksemdafærslu varnaraðila að skuldbindingu sóknaraðila, eða meginreglunni um að samninga skuli halda, verði ekki vikið til hliðar með vísan til samkomulagsins frá 1. nóvember 2001.  Nefndin gengur í störfum sínum út frá að aðildarfélög SF séu bundin af því, rétt eins og þau eru bundin af samkomulagi því sem liggur til grundvallar starfsemi nefndarinnar.  Dómur Hæstaréttar í máli nr. 131/1999, þar sem ekki var um neina sambærilega skuldbindingu að ræða á því ekki við.

Varnaraðili bendir á að við mat á því hvort víkja eigi veðsetningunni til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga verði að líta til þess hvernig lánsfjárhæðinni var ráðstafað.  Í máli þessu liggur fyrir að hluti lánsfjárhæðarinnar, þ.e. kr. 9.783.613, var ráðstafað til sóknaraðila, sem greiðslu fyrir hans hlut af jörðinni Galtalæk.  Þar sem um var að ræða greiðslu vegna gagnkvæms samnings sem sóknaraðili og Júlíus Ævarsson höfðu gert með sér, þar sem greiðslan var endurgjald fyrir helmingshluta í jörðinni Galtalæk, verður ekki séð að ábyrgðarskuldbindingin hafi verið sóknaraðila til hagsbóta.  Þvert á móti virðist sóknaraðili í verri stöðu, enda er hann bæði í skuld við varnaraðila og hefur glatað eignarrétti sínum í helmingi jarðarinnar.

Í ljósi alls framangreinds verður að telja að rétt sé að ógilda veðsetningu jarðarinnar Galtalækjar, landnr. 164973, með veðskuldabréfi nr. 1102-74-903047, með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.“

Eftir að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar lá fyrir krafðist lögmaður stefnanda, með bréfum til stefnda, dagsettum 9. júní og 17. ágúst 2002, að hann aflétti þegar í stað umræddu skuldabréfi af jörðinni, en einnig tryggingarbréfinu.

Stefndi hafnaði kröfum stefnanda og vísaði til þess að lagaskilyrði væri ekki til staðar til að verða við þeim.  Höfðaði stefnandi í framhaldi mál þetta.

II.

Stefnandi reisir kröfugerð sína í máli þessu aðallega á fyrrgreindu samkomulagi milli Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja o.fl. um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 (hér eftir nefnt samkomulagið) og vísar hann einkum til áðurrakinna ákvæða 1., 2., 3. og 4. gr.

Stefnandi byggir á því að stefndi sé bundinn af ákvæðum samkomulagsins og að hann beri í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar hallann af því ef ákvæðum þess sé ekki fylgt, og að vanræksla lánastofnunar á skyldum sínum leiði almennt til ógildingar ábyrgðarskuldbindinga.  Stefnandi bendir sérstaklega á að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. samkomulagsins beri lánastofnun að láta lántaka gangast undir greiðslumat fyrir lánveitingu og að kynna eigi niðurstöðu þess fyrir ábyrgðarmanni eða veðsala áður en hann gengst í ábyrgð.  Stefnandi staðhæfir að stefndi hafi ekki gert greiðslumat þrátt fyrir afdráttarlausan áskilnað samkomulagsins, en af þeim sökum hafi stefnanda verið ókunnugt um skuldastöðu Júlíusar.  Stefnandi hafi því ekki haft vitneskju um að viðsemjandi hans, Júlíus, gæti ekki staðið undir afborgunum af láninu.

Stefnandi byggir á því að sérstakrar aðgæslu hafi verið þörf við gerð nefndra viðskiptabréfa, veðskuldabréfsins og tryggingarbréfsins, þar sem um verulegar ábyrgðarskuldbindingar hafi verið að ræða.  Byggir stefnandi á því að stefnda hafi mátt vera ljóst að honum var ómögulegt að kynna sér fjárhagsstöðu lántakans, Júlíusar.  Vegna þessa hafi hvílt á stefnda enn ríkari kröfur til aðgæslu og upplýsingaskyldu, m.a. með hliðsjón af almennum aðgæsluskyldum lánastofnana.  Stefnandi áréttar að stefndi hafi ekki gert greiðslumat og hafi niðurstaða slíkrar athugunar því ekki verið kynnt honum.  Byggir stefnandi á því að stefndi verði að bera hallann af vanrækslu sinni, enda hafi honum mátt vera ljóst að fjárhagsstaða lántakandans var slæm og hann haft takmarkaða burði til að greiða lánið, líkt og komið hafi á daginn.  Stefnandi bendir enn fremur á að honum hafi aldrei verið gert það ljóst af  stefnda, hvaða réttaráhrif undirritun hans á verðbréfin kynni að hafa í för með sér.

Stefnandi byggir á því að lagalegar forsendur séu til þess að víkja til hliðar veði því sem hann veitti í eignarhluta sínum í jörðinni og í lóðunum tveimur á grundvelli 1. og 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7, 1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.  Bendir stefnandi á að í lagaákvæðinu sé kveðið á um að víkja megi samningi til hliðar í heild eða hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samning fyrir sig.  Þá sé það andstætt góðri viðskiptavenju í skilningi ákvæðisins, að stefndi haldi uppi kröfum á hendur honum á grundvelli veðsetninga hans, einkum með vísan til þess, að ekki hafi verið gætt sjónarmiða fyrrgreinds samkomulags eins og áður hafi verið rakið.  Að því leyti byggir stefnandi m.a. á því að staða aðila við samningsgerðina hafi verið harla ólík.  Stefndi sé fjármálafyrirtæki og hafi haft yfirburðastöðu, og m.a. haft sérfræðiþekkingu, sem stefnandi hafi ekki búið yfir.

Stefnandi byggir á því að vegna ofangreindra atriða beri að ógilda veðsetningar hans með dómi, sbr. heimildarákvæði 1. mgr. 36. gr. samningalaganna, en einnig með hliðsjón af ólögfestum reglum samningaréttarins um brotnar forsendur.  Þessu til stuðnings vísar stefnandi til þeirra sjónarmiða sem fram koma í lögum um ábyrgðarmenn nr. 32, 2009, einkum 1. mgr. 4. gr., þar sem segi að lánveitandi skuli meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán, þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka.

Stefnandi byggir á því að er hann hafi ritaði nafn sitt á umþrætt veðskuldabréf hafi hann litið svo á að með því væri hann eingöngu að fallast á veðsetningu eignarhluta lántakans Júlíusar Ævarssonar í jörðinni Galtalæk, en að undirritunin væri nauðsynleg forsenda fyrir lántökunni, þar eð jörðin hafi eftir kaupin verið í óskiptri sameign þeirra tveggja.  Að auki hafi hann álitið að lánsfjárhæð veðskuldabréfsins ætti að nýta til að standa undir kaupverði á helmingi jarðarinnar.  Stefnandi hafi þannig ekki talið að í þessum gerningum fælist að eignarhlutur hans í jörðinni yrði veðsettur til tryggingar kröfunni og þar með til tryggingar á greiðslu kaupverðsins.

Af hálfu stefnanda er þeim sjónarmiðum stefnda mótmælt, sem hann hafi teflt fram hjá úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, að lántaka Júlíusar samkvæmt veðskuldabréfinu hafi verið stefnanda til hagsbóta.  Bendir stefnandi á að samkvæmt kaupsamningi hans og Júlíusar hafi meginþorri kaupverðsins verið fjármagnaður með umræddri lántöku hjá stefnda, en með því að gangast í ábyrgð fyrir Júlíus hafi stefnandi í raun sjálfur tekið á sig ábyrgð á réttum efndum samningsins.  Stefnandi hafi því í raun, sem seljandi, borið ábyrgð á réttum efndum kaupanna, sbr. það að andvirði veðskuldabréfsins hafi af hálfu stefnda um síðir verið til innheimtu gagnvart honum sem ábyrgðarmanni.  Stefnandi hafi því engan fjárhagslegan ávinning haft af því að heimila veðsetningu á eigin eignarhluta í jörðinni Galtalæk, líkt og stefndi haldi fram.

Stefnandi bendir á að við undirritun hans á veðskuldabréfið hafi verið sá formgalli að ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 1. mgr. 22. gr. laga nr. 39, 1978, en undirritunin hafi eingöngu verið staðfest af einum vitundarvotti.

Stefnandi vísar að öðru leyti máli sínu til stuðnings til áðurrakinna röksemda í úrskurði úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki frá 16. mars 2012.

Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, þ.m.t. sjónarmiða um aðgæsluskyldu lánastofnana.  Þá vísar hann til samkomulags um notkun sjálfskuldarábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, til 36. gr. laga nr. 7, 1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og til ólögfestra reglna um brostnar forsendur.  Hann vísar enn fremur til ákvæða laga nr. 32, 2009 um ábyrgðarmenn, einkum 1. mgr. 4. gr., en um málskostnað vísar hann til XXI. kafla laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr.  Um virðisaukaskatt vísar stefnandi til laga nr. 50, 1988.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi með fúsum og frjálsum vilja sett eignarhluta sinn í jörðinni Galtalæk, svo og lóðir nr. 2 og 3 á jörðinni, að veði með undirritun sinni á fyrrgreinda löggerninga, þ.e. veðskuldabréf og tryggingarbréf.  Byggir stefndi á því að engin skilyrði séu til að ógilda þær veðsetningar og samninga.  Stefndi byggir jafnframt á því að fylgja beri þeirri meginreglu samningaréttar að samninga skuli halda.  Vegna þessa sé stefnandi bundinn af þeim samningum sem hann hafi gert við stefnda.

Stefndi byggir á því að fyrrgreint samkomulag fjármálafyrirtækja o.fl. frá árinu 2001 hafi hvorki stöðu settra laga eða reglugerðar, og því geti stefnandi ekki vikið sér undan áðurgreindri meginreglu samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga, og þá ekki með því að vísa til hins ólögfesta samkomulags.

Stefndi andmælir málsástæðum stefnanda og byggir m.a. á því að skortur á greiðslumati geti ekki eitt og sér eða sjálfkrafa réttlætt beitingu 36. gr. samningalaganna.  Í því sambandi bendir stefndi á þá dómaframkvæmd sem fyrir liggi, þar sem reynt hafi á skuldbindingargildi samkomulagsins, m.a. varðandi það atriði að ekki hafi verið framkvæmt greiðslumat á lántaka, í þessu tilfelli Júlíusi Ævarssyni, samningsaðila stefnanda, við gerð áðurnefndra löggerninga, sbr. 3. gr.  i.  Þvert á móti sé nauðsynlegt, líkt og í tilfelli stefnanda, að fram fari heildstætt mat á atvikum, og þar á meðal hvort það teljist ósanngjarnt af hálfu stefnda í skilningi 36. gr. samningalaganna að bera fyrir sig þær veðsetningar sem stefnandi samþykkti.  Nefnir stefndi í því sambandi atriði eins og það hvort lánveitandi hafi leynt ábyrgðaraðila upplýsingum um slæma fjárhagsstöðu lántaka.  Stefndi staðhæfir að í tilviki stefnanda hafi slík ósanngjörn atriði ekki verið til staðar.  Þannig hafi fjárhagsstaða Júlíusar verið góð og engin lán hans verið í vanskilum hjá stefnda.  Því hafi ekki verið tilefni til að vara stefnanda við eða láta gera greiðslumat fyrir lánveitingu stefnda til Júlíusar.  Að þessu leyti vísar stefndi m.a. til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 163/2005, 16/2007 og 116/2010, en einnig dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. 2375/2011.

Stefndi staðhæfir að lánveiting hans til Júlíusar Ævarssonar hafi verið gerð í þágu sameiginlegs búrekstrar hans og stefnanda.  Því til rökstuðnings vísar stefndi til þess að ætlan Júlíusar og stefnanda hafi er atvik gerðust á árinu 2005 verið að hefja sameiginlegan búrekstur á sviði hrossaræktar og tengdrar starfsemi á jörðinni Galtalæk.  Byggir stefndi á því að vegna þessara áforma hafi hann, sem lánveitandi, mátt ganga út frá því að stefnandi þekkt til fjárhagsstöðu Júlíusar.  Því hafi stefndi og mátt ætla að niðurstaða greiðslumats hefði engu skipt um ákvörðun stefnanda um að veðsetja jörðina Galtalæk í heild sinni og liðka þannig fyrir sölu á hluta hennar til Júlíusar.  Stefndi hafnar því jafnframt að stefnanda hafi verið ómögulegt að kynna sér fjárhagssögu Júlíusar, enda hefði hann haft alla möguleika á því að óska eftir upplýsingum um fjárhagsstöðu hans og jafnframt að fara fram á greiðslumat teldi hann þörf á því, annaðhvort frá honum sjálfum eða stefnda.  Og þar sem stefnandi hafi ekki gert það megi líta svo á að niðurstaða greiðslumats hefði engu máli skipt fyrir stefnanda, enda hefði hann verið staðráðinn í að samþykkja hinar umdeildu veðsetningar.

Stefndi byggir á því, líkt og aðstæðum var háttað er atvik gerðust, að stefnanda hafi verið nauðsynlegt að viðsemjandi hans, Júlíus, fengi lánsumsókn sína afgreidda hjá stefnda.  Með því móti hefði stefnandi fengið kaupverð jarðarhlutans greiddan sér, en einnig hefðu fjármunir runnið til lánardrottna hans, og hann þannig komið sér undan innheimtuaðgerðum þeirra.

Stefndi byggir á því að ljóst megi vera af framangreindri atburðarás og þrátt fyrir lýsta annmarka við lánveitingu forvera hans til viðsemjanda stefnanda að þeir hafi í engu breytt um það að stefnandi hefði heimilað hinar umþrættu veðsetningar.  Nefndur annmarki réttlæti það heldur engan veginn að fella beri úr gildi veðsetningar stefnanda.  Vísar stefnandi til þess að við mat á því hvort beiting 36. gr. samningalaga eigi rétt á sér sé nauðsynlegt að horfa heildstætt á málsatvik og þ. á m. hvernig lánsfjárhæð stefnda til Júlíusar samkvæmt lýstu veðskuldabréfi var ráðstafað í raun.  Bendir stefndi á að óumdeilt sé að öll lánsfjárhæðin samkvæmt skuldabréfinu, að frádregnum lántökukostnaði, hafi runnið til stefnanda sjálfs og lánardrottna hans.  Hafi þetta verið gert í samráði við stefnanda, en um hafi verið að ræða kaupverð Júlíusar fyrir þann hluta jarðarinnar sem stefnandi seldi honum.  Telur stefndi það mjög óeðlilega niðurstöðu ef sá aðili sem veitir lánsveð, líkt og stefnandi hafi gert, geti losnað með afturvirkum hætti undan skuldbindingum sínum þegar allt andvirði lánsins hafi í raun runnið til hans sjálfs.  Byggir stefndi á að stefnandi hafi því haft augljósan fjárhagslegan hag af því að heimila veðsetningarnar, enda hafi þær verið forsenda þess að hann fékk kaupverðið greitt á sínum tíma frá Júlíusi.  Stefndi áréttar að það fæli í sér óréttmæta auðgun hjá stefnanda ef hann yrði leystur undan skuldbindingum sínum þegar fyrir liggi að hann hafi fengið nær alla þá fjárhæð sem veðsetningunni var ætlað að tryggja greidda sér.

Til stuðnings sýknukröfu sinni byggir stefndi auk greindra málsástæðna á því að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti.  Bendir stefndi á að það sé viðurkennd meginregla að aðilar geti glatað rétti til að hafa uppi kröfur hafi þeir sýnt af sér slíkt athæfi.  Stefndi byggir á því að kröfu um ógildingu veðsetningar beri að koma á framfæri innan eðlilegs tíma og án ástæðulausrar tafar.  Bendir stefndi á að um sex ár hafi liðið frá því að stefnandi ritaði nafn sitt á veðskuldabréfið, þann 21. nóvember  2005, og um fjögur ár frá því hann ritaði undir tryggingarbréfið, þann 13. desember 2007, þar til kröfur hans um að fella veðsetningarnar úr gildi komu fram.  Byggir stefndi á að stefnandi hafi haft fullt tilefni til að hafa uppi mótmæli og kröfur fyrr ef hann hefði talið á sér brotið.  Stefndi staðhæfir jafnframt að engar nýjar upplýsingar hafi komið fram eftir undirritun stefnanda á viðskiptabréfin sem réttlætt geti hina stórfelldu töf.  Stefndi kveðst hafa haft hagsmuni af því að kröfum af því tagi sem hér um ræðir væri komið á framfæri sem fyrst, enda erfiðara um vik að verjast þeim eftir því sem lengri tími leið frá því að atvik áttu sér stað, en slíkt hafi einmitt orðið raunin í þessu máli.  Þannig hafi stefnda reynst mjög erfitt að rifja upp og finna gögn um samskipti aðila, munnleg og skrifleg, varðandi þá gerninga sem hér um ræðir.  Telur stefndi að hið óútskýrða og stórfellda tómlæti sem stefnandi hafi sýnt af sér í samskiptum aðila eigi að leiða til sýknu með hliðsjón af meginreglunni um áhrif tómlætis á kröfur aðila.  Verði ekki fallist á að tómlæti eigi að leiða til sýknu byggir stefndi á því að meta eigi allan vafa tengdan mögulegum sönnunarskorti honum í hag sökum tómlætis stefnanda.

Af hálfu stefnda er því andmælt að líta eigi til laga nr. 32, 2009 við úrlausn málsins, enda sé beinlínis tekið fram í 12. gr. að ákvæði laganna séu ekki afturvirk.  Lögin hafi því ekkert gildi í málinu.

Stefndi hafnar því að hann eigi að líða fyrir ætlaðan misskilning stefnanda um hvað hafi falist í veðsetningu hans á jörðinni Galtalæk samkvæmt fyrrgreindu veðskuldabréfi.  Bendir stefndi á að stefnandi hafi ritað undir veðskuldabréfið sem þinglýstur eigandi og sé ekkert í skjalinu eða öðrum gögnum málsins sem hafi gefið honum réttmæta ástæðu til að ætla að eignarhlutur hans í jörðinni væri ekki veðsettur til tryggingar réttum efndum. Hið sama eigi við um tryggingarbréfið.

Stefndi andmælir að tilvísun stefnanda til ákvæði 22. gr. þinglýsingalaganna eigi við.  Vísar hann til þess að ákvæðið varði einungis það álitaefni hvort skjalið sé tækt til þinglýsingar.  Fyrir liggi að bréfið sé eftir sem áður í fullu gildi gagnvart aðilum þess.

Stefndi byggir á því að í ljósi lýstra röksemda og atvika séu skilyrði fyrir breytingu á 36. gr. samningalaganna ekki fyrir hendi í málinu, né séu aðrar ástæður til að ógilda eða fella úr gildi hinar umþrættu veðsetningar stefnanda samkvæmt fyrrgreindu veðskuldabréfi eða tryggingarbréfi.  Beri því að hafna dómkröfum stefnanda í málinu.

Um lagarök vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttarins um skuldbindingargildi samninga og um efndir in natura.  Þá vísar hann til meginreglna um áhrif tómlætis og tillitsskyldu samningsaðila, svo og almennra og viðurkenndra lögskýringarsjónarmiða um beitingu 36. gr. samningalaganna.  Loks vísar hann til laga um fjármálafyrirtæki nr. 161, 2002, en um málskostnað til 130. og 131. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

III.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur stefnandi og Ólafur Jónsson, sparisjóðsstjóri hjá AFL - sparisjóði, en hann var áður sparisjóðsstjóri hjá Sparisjóði Siglufjarðar.

Í máli þessu er ágreiningur með aðilum um gildi ábyrgðaryfirlýsinga þar sem stefnandi heimilaði veðsetningu á fasteignum sínum, annars vegar í eignarhluta hans í jörðinni Galtalæk í Rangárþingi ytra, landnúmer 164973, til tryggingar skuld viðsemjanda hans, Júlíusar Ævarssonar, við stefnda, samkvæmt veðskuldabréfi að höfuðstól 16.000.000 króna, dagsettu 21. nóvember 2005, númer 1102-74-903047, og hins vegar í eignarhluta í lóðum númer 2 og 3 úr nefndri jörð, fastanúmer 210-035 og 210-036, til tryggingar skuld Júlíusar við stefnda, samkvæmt tryggingarbréfi að höfuðstól 20.000.000 króna, dagsettu 13. desember 2007.

Samkvæmt skýrslum fyrir dómi voru tildrögin að undirritun stefnanda á veðskuldabréfið þau að nefndur Júlíus hafði á árinu 2005 leitað eftir lánafyrirgreiðslu hjá Sparisjóði Siglufjarðar eftir að stefnandi hafði fallist á að selja honum helmings hlut sinn í bújörðinni Galtalæk.  Rétt tveimur árum síðar ritaði stefnandi undir greint tryggingarbréf, sem þinglýstur eigandi nefndra lóða, en bréfið hafði Júlíus gefið út til tryggingar hvers kyns skuldum hans við forvera stefnda, Sparisjóð Siglufjarðar.

Stefnandi byggir m.a. kröfu sína um ógildingu ábyrgðaryfirlýsinga sinna og veðsetninga samkvæmt lýstu veðskuldabréfi og tryggingarbréfi á því að forveri stefnda, nefndur sparisjóður, hafi við útgáfu skjalanna ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt áðurröktu samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001.

Í skýrslu stefnanda fyrir dómi kom fram að ætlan hans með sölu jarðarhlutans til Júlíusar hafi aðallega verið að halda jörðinni í byggð.  Stefnandi lýsti því að hann hefði haft góð kynni af Júlíusi, og bar að þeir hefðu haft sameiginlega sýn á áframhaldandi búrekstri og uppbyggingu jarðarinnar.  Stefnandi sagði og að þessi áform hefðu að nokkru gengið eftir, en Júlíus hefði í samræmi við ákvæði kaupsamnings hafið endurbætur á fjósbyggingu, sem hann hafi ætlað fyrir hross sín.  Stefnandi kvaðst ekki hafa tekið beinan þátt í búrekstri Júlíusar, enda hefði það ekki staðið til af hans hálfu, þrátt fyrir að jörðin hefði eftir kaupin verið í sameign þeirra.

Stefnandi kvaðst er kaupin gerðust hafa verið í þeirri trú að fjárhagsstaða Júlíusar væri góð, en engar frekari upplýsingar fengið um það, hvorki hjá honum sjálfum né hjá Sparisjóði Siglufjarðar.  Stefnandi kvaðst hins vegar hafa fallist á beiðni Júlíusar, í tengslum við kaup hans á hluta jarðarinnar, að veita honum veðleyfi fyrir umræddu veðskuldabréfsláni, en litið svo á að með því væri hann einungis að veita veðleyfi fyrir hlut Júlíusar í jörðinni.  Stefnandi kvaðst í samræmi við ákvæði kaupsamningsins hafa greitt upp að hluta eldri lán sem hvíldu jörðinni, sem þá hafi verið í vanskilum.  Fyrir dómi treysti stefnandi sér ekki til að tjá sig um áritun sína á greint tryggingarbréf og vísaði þar um til minnisleysis.  Stefnandi staðhæfði á hinn bóginn að hann hefði ekki ritað undir nefnd veðbréf og samþykkt veðsetningu jarðar sinnar ef forveri stefnda hefði upplýst hann nægjanlega um atvik máls, og þá ekki ef fjárhagsstaða viðsemjanda hans, Júlíusar, hefði reynst neikvæð samkvæmt greiðslumati.

Stefndi mótmælir röksemdum og kröfum stefnanda og telur að ábyrgðaryfirlýsingar hans og veðsetningar á nefndum eignum séu í fullu gildi og að engin rök séu til að ógilda þær.

Ágreiningslaust er að stefndi vanrækti að fara eftir áðurröktum ákvæðum samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem samtök fjármálafyrirtækja, m.a. Samtök sparisjóða, gerðu þann 1. nóvember 2001 við Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra.  Stefndi lét m.a. ekki gera mat á greiðslugetu lántakans Júlíusar áður en tekin var ákvörðun um lánveitingu til hans.  Þá afhenti hann stefnanda ekki bækling um þýðingu þess að gangast undir ábyrgð með því að veðsetja eignir sínar vegna lánveitingar stefnda.

Samkvæmt 1. gr. samkomulagsins var markmið þess að draga úr vægi ábyrgðar einstaklinga og að lánveitingar væru miðaðar við greiðslugetu greiðanda og eigin tryggingar hans. Með samkomulaginu voru settar meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum að skuldaábyrgð eða veð í eigu annars einstaklings væri sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu.  Segir m.a. í 3. mgr. 3. gr. að fjármálafyrirtæki sé skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuld viðkomandi skuldara nemi meira en 1.000.000 króna.

Í samræmi við meginreglur íslensks fjármálaréttar um samningsfrelsi voru forverar stefnda bundnir af hinum fortakslausu ákvæðum samkomulagsins frá árinu 2001. Ákvæði laga nr. 32, 2009 um ábyrgðarmenn gilda hins vegar ekki með afturvirkum hætti í máli þessu.

Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar Íslands verður samningur aðila um ábyrgð ekki ógiltur í heild eða hluta af þeim sökum einum að stefndi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt nefndu samkomulagi.  Verður því að finna slíkri ógildingu stoð í reglum samningaréttar ef leysa á stefnanda undan skuldbindingum sínum samkvæmt fyrrnefndum veðbréfum.

Óumdeilt er að forvera stefnda var ljóst að lánafyrirgreiðsla hans til Júlíusar Ævarssonar var vegna kaupa hans á nefndum jarðarhluta í bújörðinni Galtalæk.  Samkvæmt skýrslu fyrirsvarsmanns stefnda var ekki gert greiðslumat á Júlíusi, en í þess stað lagt til grundvallar lánveitingunni áfallalaus viðskiptasaga, en einnig rekstraráætlun hans um búrekstur á hinni óskiptu jörð hans og stefnanda.

Eins og áður er lýst seldi stefnandi jarðarhlutann fyrir 21.000.000 króna.  Fékk stefnandi söluandvirðið greitt frá Júlíusi, þann 5. desember 2012, með þeirri lánafyrirgreiðslu sem hann fékk hjá stefnda samkvæmt hinu umþrætta veðskuldabréfi, sem stefnandi hafði veitt veðheimild fyrir.  Að frátöldum lántökukostnaði voru til ráðstöfunar 15.000.000 króna.  Samkvæmt ákvæðum nefnds kaupsamnings, sem er í samræmi við skýrslu stefnanda og önnur gögn, var hluta lánsfjárhæðarinnar ráðstafað af stefnda til greiðslu þriggja veðskulda sem hvíldu á jörðinni Galtalæk, samtals 5.216,387 krónur, en óumdeilt er að lán þessi voru þá í vanskilum.  Þá voru 9.783.612 krónur lagðar inn á reikning stefnanda.  Áhvílandi á eigninni, á 3. veðrétti, var eftir sem áður lán Kaupþings banka frá árinu 2004, að nafnvirði 2.400.000 krónur.  Var síðastnefnda lánið samkvæmt kaupsamningnum óviðkomandi viðsemjanda stefnanda, Júlíusi, þrátt fyrir kaup hans á jarðarhlutanum.

Í máli sínu vísar stefnandi um rökstuðning fyrir kröfugerð sinni m.a. til 36. gr. laga nr. 7, 1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.  Sé lagagreininni beitt þarf að fullnægja þeim skilyrðum að ósanngjarnt sé eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera loforð fyrir sig og skal við mat á því líta til efnis samnings, atvika við samningsgerð, stöðu aðila við hana og atvika, sem síðar koma til.

Samkvæmt framansögðu gaf viðsemjandi stefnanda, Júlíus, út hið umþrætta veðskuldabréf í lok árs 2005, í tengslum við söluna á jarðarhlutanum í bújörðinni Galtalæk.  Stefnandi ritaði nafn sitt á bréfið til samþykkis veðsetningunni, sem þinglýstur eigandi.  Stefnandi hefur fyrir dómi, eins og hér að framan var rakið, lýst þeim hagsmunum sem hann horfði til við söluna, en einnig liggur fyrir að hann ráðstafaði nokkrum hluta söluandvirðisins til uppgreiðslu á veðlánum sem voru í vanskilum.

Viðsemjandi stefnanda, Júlíus, gaf út hið umþrætta tryggingarbréf, fjárhæð 20.000.000 króna, rúmum tveimur árum eftir gerð fyrrnefnds kaupsamnings um jarðarhlutann.  Ritaði stefnandi nafn sitt á bréfið til samþykkis veðsetningu tveggja sérgreindra lóða á fasteigninni.  Liggur fyrir stefnandi gaf það samþykki sitt eftir hann hafði ráðstafað hluta söluandvirðis til uppgreiðslu eldri lána.  Verður helst ráðið af gögnum og frásögn stefnanda það hafi hann og gert eftir sameigandi hans, Júlíus, hafði hafið uppbyggingu á jörðinni.  Frásögn stefnanda þessu leyti var harla óskýr, og er til þess líta hann leiddi ekki fyrrverandi sameiganda sinn, Júlíus, fyrir dóm til skýrslugjafar um nánari atvik máls. Ákvæði veðskuldabréfsins og tryggingarbréfsins um eðli ábyrgðar stefnanda og umfang eru á hinn bóginn áliti dómsins skýr og einföld.  Verður stefnandi bera ábyrgð á því hafi hann ekki kynnt sér ákvæðin sem skyldi.

Við mat á því hvort til greina komi fella lýstar sjálfskuldarábyrgðir og veðsetningar stefnanda úr gildi á þeim grundvelli skilmerki 36. gr. samningalaganna séu fyrir hendi telur dómurinn horfa verði til þeirra aðstæðna þegar stefnandi gekkst undir ábyrgðir sínar og hvort ætla megi þær hafi verið gefnar í því skyni tryggja hagsmuni, einkum fjárhagslega, hans sjálfs einhverju leyti.  Við mat á því er helst til eigin frásagnar og gjörða stefnanda líta, en eins og áður er fram komið samþykkti hann ábyrgðir sínar og veðsetningar á efndum viðsemjanda síns gagnvart stefnda vegna kaupgernings á hluta jarðar sinnar.  Þá stóðu áform hans og viðsemjandans, hans sögn, til uppbyggingar og framtíðar búrekstrar á jörðinni.  Einnig liggur fyrir stefnandi þekkti til starfa viðsemjandans fyrir kaupin, en þeir munu hafa verið nágrannar.

áliti dómsins hefur stefnandi ekki fært rök fyrir því stefndi hafi leynt hann mikilsverðu upplýsingum eða aðstöðumunur, áðurgreindir annmarkar, og þar á meðal því er varðar áritun vitundarvotta, hafi verið slíkir nokkru varði eins og atvikum máls þessa er háttað.

öllu framangreindu virtu er ekki fallist á stefnandi hafi fært fram þau rök fyrir kröfugerð sinni unnt fallast á dómkröfur hans.  Ber því sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum.

Stefnanda var veitt gjafsóknarleyfi með bréfi innanríkisráðuneytis, dagsettu 26. febrúar 2013.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutnings-þóknun lögmanns hans, Þórhalls Hauks Þorvaldssonar héraðsdómslögmanns.  Með hliðsjón af umfangi málsins og þeim hagsmunum sem í húfi voru, en einnig þegar virt eru gögn um vinnuframlag, og loks því mál þetta var endurflutt, er nefnd þóknun ákveðin 800.000 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.  Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91, 1991 kemur aðeins í hlut dómstóla ákveða þóknun handa lögmanni gjafsóknarhafa og á því ekki réttu lagi taka afstöðu til útlagðs kostnaðar hans í dómi.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Afl-sparisjóður, er sýkn af kröfum stefnanda, Páls Sigurjónssonar.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hans, Þórhalls Hauks Þorvaldssonar héraðsdómslögmanns, 800.000 krónur.