Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-163

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Y (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Brot í nánu sambandi
  • Heimfærsla
  • Börn
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 4. desember 2022 leitar Y leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja hvað sig varðar dómi Landsréttar 11. nóvember 2022 í máli nr. 119/2022: Ákæruvaldið gegn X og Y. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi var ákærð fyrir stórfelld brot í nánu sambandi og barnaverndarlagabrot gagnvart fjórum dætrum sínum, framin á heimili þeirra og taldist háttsemin varða við 1., sbr. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 98. gr. og 1. mgr., sbr. 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

4. Með dómi héraðsdóms var leyfisbeiðandi sakfelld fyrir brot gegn 98. gr. og 1. mgr., sbr. 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga með því að hafa á tilgreindu tímabili ítrekað slegið elstu þrjár dætur sínar með nánar tilgreindum hætti. Leyfisbeiðandi var með þessu talin hafa margsinnis misþyrmt dætrum sínum líkamlega og andlega og stofnað velferð þeirra í hættu með ofbeldi, yfirgangi og ósiðlegu athæfi. Gegn neitun leyfisbeiðanda og með hliðsjón af vitnisburði elstu þriggja dætra sinna var hún að öðru leyti sýknuð af sakargiftum og þá meðal annars af þeirri háttsemi gagnvart yngstu dóttur sinni sem hún var sökuð um. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin fangelsi í sex mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var leyfisbeiðanda gert að greiða brotaþolum bætur en bótakröfu yngstu dóttur hennar vísað frá dómi. Með dómi Landsréttar voru brot leyfisbeiðanda heimfærð til 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga en ákvæði héraðsdóms um fangelsisrefsingu og skilorðsbindingu hennar var staðfest sem og niðurstaða um miskabætur til brotaþola.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Hún hafi ranglega verið sakfelld í héraði og sú sakfelling staðfest í Landsrétti á grundvelli takmarkaðra sönnunargagna. Þá vísar leyfisbeiðandi einkum til þess að brotin hafi verið ranglega heimfærð til 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga í Landsrétti en þeirri heimfærslu hafi verið hafnað í héraðsdómi og hafi Landsréttur þannig snúið héraðsdómi að þessu leyti.

6. Með dómi Landsréttar var ákærða sakfelld fyrir sömu háttsemi og í héraði en háttsemin heimfærð til 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga í samræmi við ákæru en í héraði var háttsemin talin varða við refsiákvæði barnaverndarlaga. Refsing hennar var þó ekki þyngd. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu né að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggist að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Af framangreindu er ljóst að áfrýjun til réttarins mun ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar, sbr. lokamálslið 4. mgr. sömu greinar. Samkvæmt þessu er beiðni um áfrýjunarleyfi hafnað.