Hæstiréttur íslands

Mál nr. 338/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                                         

Fimmtudaginn 9. júní 2011.

Nr. 338/2011.

X

(Þ. Skorri Steingrímsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur.

X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hans gegn Í var vísað frá dómi. X hafði verið handtekinn og færður í fangageymslu í framhaldi af húsleit sem fram fór á heimili hans í tengslum við rannsókn lögreglu á mansalsmáli. Var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna vegna gruns um háttsemi sem einkum var talin varða við 227. gr. a., 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Úrskurðurinn var staðfestur í Hæstarétti þar sem nægilega þótti fram komið að rökstuddur grunur beindist að X um brot gegn 248. gr. laganna. X var tilkynnt 15. desember 2009 að rannsókn lögreglu á aðild hans að mansalsmálinu hefði verið hætt en að rannsókn á ætluðum fjársvikabrotum hans héldi áfram. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að þótt þannig mætti telja að skilyrðum 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að krefjast bóta vegna upphafsaðgerða lögreglu og gæsluvarðhalds, hefði verði fullnægt að því er varðaði þátt mansalsins þegar X höfðaði málið 10. maí 2010 væri ljóst að reifun þess gat ekki orðið viðhlítandi af hans hálfu þar sem rannsóknaraðgerðir gegn honum voru einnig reistar á grun um aðild hans að málum sem þá höfðu ekki verið felld niður. Var úrskurður héraðsdóms staðfestur með þessum athugasemdum. Var engu talið breyta þeirri niðurstöðu þó ríkislögreglustjóri hefði tilkynnt X eftir uppkvaðningu úrskurðarins að mál vegna ætlaðra fjársvikabrota hefði verið fellt niður.

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfur hans til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar og að kærumálskostnaður verði felldur niður.

I

Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði voru fimm erlendir karlmenn úrskurðaðir í gæsluvarðhald 14. og 18. október 2009 vegna gruns um mansal, en í tengslum við það var lagt hald á töluvert þýfi. Í kjölfar þessa vaknaði grunur lögreglu um að sóknaraðili tengdist því máli, en jafnframt beindist grunur að honum vegna tryggingasvika. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum krafðist húsleitar hjá sóknaraðila 19. sama mánaðar vegna gruns um að hann hefði brotið gegn 227. gr. a., 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Húsleit hjá sóknaraðila var heimiluð með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 20. sama mánaðar og hún gerð sama dag þar sem lagt var hald á peninga og ýmsa muni. Sóknaraðili var jafnframt handtekinn og færður í fangageymslu. Hann var færður til skýrslutöku 21. október 2009. Sama dag féllst Héraðsdómur Reykjaness á kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum um að sóknaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi til 28. sama mánaðar á grundvelli rannsóknarhagsmuna vegna rökstudds gruns um háttsemi sem einkum kynni að varða við 227. gr. a., 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar. Í forsendum fyrir dómi réttarins 23. október 2009 í máli nr. 608/2009 var talið að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefði ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að rökstuddur grunur beindist að sóknaraðila um brot gegn 227. gr. a. eða 244. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar væri nægilega fram komið að rökstuddur grunur beindist að honum um brot gegn 248. gr. laganna og var úrskurður héraðsdóms því staðfestur. Sóknaraðili var leystur úr haldi 28. október 2009.

 Með bréfi 15. desember 2009 tilkynnti lögreglustjórinn á Suðurnesjum sóknaraðila að hann hefði með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ákveðið að hætta rannsókn á aðild hans að máli vegna ætlaðs mansals. Hins vegar sætti ætluð aðild hans að brotum gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga, einkum 248. gr. þeirra, áframhaldandi rannsókn. Sóknaraðili höfðaði mál þetta 10. maí 2010 og krefst miskabóta vegna ólögmætrar handtöku, vistunar í fangaklefa í sólarhring og gæsluvarðhalds í kjölfar þess. Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp 11. maí 2011. Degi síðar tilkynnti ríkislögreglustjóri sóknaraðila með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 þá ákvörðun að hætta rannsókn vegna ætlaðra brota hans á XXVI. kafla almennra hegningarlaga.

II

Samkvæmt 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 á maður sem borinn er sökum rétt til bóta samkvæmt 2. mgr. sömu greinar, meðal annars ef mál á hendur honum er fellt niður. Eins og að framan er rakið beindist grunur upphaflega að sóknaraðila bæði vegna ætlaðrar hlutdeildar hans að svonefndu mansalsmáli og tengdum brotum og ætlaðra fjársvikabrota hans. Voru upphafsaðgerðir lögreglu og úrskurður héraðsdóms um gæsluvarðhald yfir honum 21. október 2009 því í senn reist á ætluðum brotum hans gegn 227. gr. a., 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga. Eftir að dómur Hæstaréttar um staðfestingu gæsluvarðhalds yfir honum var kveðinn upp 23. sama mánaðar var grundvöllur gæsluvarðhaldsins eingöngu ætluð fjársvikabrot sóknaraðila, sbr. 248. gr. almennra hegningarlaga. Sóknaraðila var tilkynnt 15. desember 2009 að rannsókn á aðild hans að mansalsmálinu hefði verið hætt en að rannsókn á ætluðum fjársvikabrotum hans héldi áfram. Þótt þannig megi telja að skilyrðum 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 til að krefjast bóta vegna upphafsaðgerða lögreglu og gæsluvarðhalds til 23. október 2009 hafi verið fullnægt að því er varðar þátt mansalsins þegar málið var höfðað 10. maí 2010 er ljóst að reifun þess gat ekki orðið viðhlítandi af hans hálfu þar sem rannsóknaraðgerðir gegn honum voru einnig reistar á grun um aðild hans málum sem þá höfðu ekki verið felld niður. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur, en engu fær breytt um þá niðurstöðu að ríkislögreglustjóri hefur eftir uppkvaðningu úrskurðarins tilkynnt að mál vegna ætlaðra fjarsvikabrota sóknaraðila hafi verið fellt niður.

Eins og atvikum er háttað verður kærumálskostnaður felldur niður.   

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 24. mars. sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af X, [...], Reykjavík, á hendur íslenska ríkinu, með stefnu, áritaðri um birtingu 10. maí 2010.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 2.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 20. október 2009 til 3. mars 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags, og að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og málskostnaður verði látinn falla niður.

Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.

II

Málavextir eru þeir, að skömmu fyrir miðnætti 10. október 2009, var óskað eftir aðstoð lögreglu um borð í flugvél Iceland Express, sem var að koma frá Varsjá í Póllandi, vegna farþega, litháískrar konu, sem hafi verið mjög æst og ógnandi um borð í vélinni og hafi flugliðar orðið að binda hana niður í vélinni.  Eftir lendingu var hún flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og eftir að lögregla hafði rætt við hana, hinn 12. október 2009, voru fimm litháískir karlmenn handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins, en einnig var lagt hald á töluvert magn þýfis.  Í kjölfar þessa kveður stefndi að lögregla hafi fengið rökstuddan grun um að stefnandi kynni að tengjast málinu og ætti aðild að því, en jafnframt að stefnandi kynni að tengjast verulegum tryggingasvikum.  Hinn 19. október 2009 krafðist lögreglustjórinn á Suðurnesjum húsleitar hjá stefnanda þar sem talið var að á heimili hans kynnu að finnast munir og eða gögn sem fært gætu sönnur á ætlaða skipulagða glæpastarfsemi.  Taldi lögregla stefnanda mögulega hafa brotið gegn 227. gr. a, 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Húsleitarúrskurður var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness 20. október 2009, og framkvæmdi lögregla húsleit hjá stefnanda þann sama dag.  Við húsleitina var stefnandi handtekinn og færður í fangageymslu lögreglunnar.  Leit fór einnig fram í öðru húsnæði sem stefnandi hafði til umráða.  Hald var lagt á peninga og ýmsa aðra muni við húsleitina.

Stefnandi var færður til yfirheyrslu hinn 21. október 2009, og þar var tekin af honum skýrsla.  Þann sama dag var krafist gæsluvarðhalds yfir stefnanda, og kveður stefndi að það hafi m.a. verið gert á grundvelli þess að verulegs ósamræmis gætti í framburði hans, bæði hvað varðaði innbyrðis tengsl svo og tengsl við Litháana fimm sem þá sátu í gæsluvarðhaldi.  Þá taldi lögregla að stefnandi kynni að torvelda rannsókn málsins og hugsanlega hafa áhrif á meðseka og eða vitni, eða gæti komið undan sönnunargögnum gengi hann laus.

Hinn 21. október var stefnandi úrskurðaður í gæsluvarðhald allt til miðvikudagsins 28. október 2009, kl. 16.00, með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness.  Stefnandi kærði gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Hæstaréttar, sem staðfesti úrskurðinn með dómi hinn 23. október 2009 á þeim grundvelli að nægilega hafi komið fram að rökstuddur grunur beindist að stefnanda um brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga.  Þann sama dag var stefnandi á ný færður til skýrslutöku.

Lögreglan óskaði jafnframt eftir úrskurði Héraðsdóms Reykjaness hinn 23. október 2009, um að tilgreindum lánastofnunum yrði gert skylt að láta í té allar upplýsingar um bankareikninga skráða á stefnanda, þar með talið upplýsingar um innlagnir og úttektir, gjaldeyrisviðskipti, og öll skjöl tengd færslum frá 1. október 2007 til uppkvaðningar úrskurðarins.

Lögregla óskaði einnig eftir úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, hinn 26. október 2009, um að tilgreindum lánastofnunum yrði gert skylt að láta í té allar upplýsingar um bankareikninga skráða á A, sem stefnandi hafi verið skráður fyrir, þar með talið upplýsingar um innlagnir og úttektir, gjaldeyrisviðskipti og öll skjöl tengd færslum frá 1. október 2007 til uppkvaðningar úrskurðarins.  Þá var framangreindum lánastofnunum jafnframt gert skylt að upplýsa lögreglu um það hvort stefnandi væri með prókúru á reikninga annarra fyrirtækja.

Hinn 28. október 2009 var stefnandi enn færður til yfirheyrslu.  Stefnandi var leystur úr haldi kl. 14.30 þann sama dag.

Með bréfi, dagsettu 15. desember 2009, tilkynnti lögreglustjórinn á Suðurnesjum, stefnanda þá ákvörðun sína að hætta rannsókn á ætlaðri aðild stefnanda að mansalsmálinu, þar sem ekki þætti tilefni til að halda henni áfram.  Í bréfinu var stefnanda jafnframt tilkynnt að aðild hans að ætluðum fjársvikum, sbr. XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 248. gr. þeirra laga, sætti áframhaldandi rannsókn, með aðkomu fleiri lögregluembætta.

Hinn 11. janúar 2010, voru ákærur í mansalsmálinu þingfestar í Héraðsdómi Reykjaness og var dómur kveðinn upp í Hæstarétti 16. júní 2010.

Með bréfi, dagsettu 2. mars 2010, óskaði lögmaður stefnanda eftir því við ríkissaksóknara að opinber rannsókn færi fram á störfum þeirra lögreglumanna, sem komu að handtöku stefnanda hinn 20. október 2009 og gæsluvarðhaldi sem hann sætti til 28. október 2009.

Með bréfi stefnanda til embættis ríkislögmanns, dagsettu 3. mars 2010,  var gerð krafa um að embættið greiddi stefnanda skaðabætur vegna meintrar ólögmætrar handtöku og gæsluvarðhalds. 

Hinn 5. maí 2010 sendi lögmaður stefnanda lögreglustjóranum á Suðurnesjum tvö bréf.  Í öðru bréfinu var höfð uppi krafa um að embættið greiddi stefnanda skaðabætur vegna ólögmætrar handtöku og gæsluvarðhalds, sem hann hefði verið látinn sæta að ósekju.  Í hinu bréfinu var gerð krafa um að embætti lögreglustjórans upplýsti hvort stefnandi sætti opinberri rannsókn vegna gruns um refsiverða háttsemi.  Í svarbréfi lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettu 25. maí 2010, voru fyrri bréfaskrif embættisins til stefnanda ítrekuð og því jafnframt svarað að til rannsóknar væru ætluð brot stefnanda gegn lögum nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka svo og brot gegn skattalöggjöfinni og að mál stefnanda hefði verið sent embætti ríkislögreglustjóra til frekari meðferðar og afgreiðslu.

Með bréfi, dagsettu 10. ágúst 2010, var lögmanni stefnanda tilkynnt afstaða ríkissaksóknara til kröfu stefnanda, um að fram færi opinber rannsókn á störfum þeirra lögreglumanna sem komu að handtöku stefnanda hinn 20. október 2009 og gerðu kröfu um gæsluvarðhald, sem stefnandi sætti til 28. október 2009.  Ríkissaksóknari taldi ekki efni til opinberrar rannsóknar, enda benti ekkert til refsiverðrar háttsemi lögreglumanna við handtöku stefnanda og eftirfarandi málsmeðferð.

III

Stefnandi byggir kröfu sína á því, að handtaka hans hafi verið ólögmæt, sem og vistun hans í fangaklefa í sólarhring og gæsluvarðhaldsvistin í framhaldi af handtöku hans.

Stefnandi hafi verið handtekinn 20. október 2009 á heimili sínu að [...], Reykjavík.  Ástæðu handtökunnar hafi lögreglumenn sagt vera tengsl við mansalsmál sem væri til rannsóknar hjá lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum.  Komið hafi síðan í ljós að stefnandi tengdist ekki á neinn hátt viðkomandi mansalsmáli, en búið sé að gefa út ákærur í því máli og dómur sé fallinn, án þess að stefnandi hafi verið ákærður í málinu.  Stefnandi byggir á því að hann hafi strax í upphafi gert grein fyrir öllu því sem hann hafi verið inntur eftir hvort sem það hafi verið í samtali við lögreglumenn á heimili hans eða við síðari yfirheyrslur.

Byggir stefnandi á því að umrædd frelsissvipting, þ.e. handtaka og vistun hans í fangageymslu og síðar gæsluvarðhald, hafi verið með öllu ólögmæt, enda hafi engin áþreifanleg sönnunargögn legið fyrir varðandi meinta refsiverða háttsemi stefnanda önnur en sú staðreynd að hann hafi selt tveim erlendum aðilum bifreið, en þeir hafi verið tengdir viðkomandi mansalsmáli.  Stefnandi hafi strax gert grein fyrir þeim tengslum og ekkert dregið undan.  Telur stefnandi að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði þágildandi 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, um að til staðar væri rökstuddur grunur um refsivert afbrot sem sætt gæti ákæru er hann hafi verið handtekinn hinn 20. október 2009.  Jafnframt tekur stefnandi fram, að það sé skilyrði handtöku að hún sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist handtekins manns og öryggi eða koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum.  Alltaf hafi verið ljóst að stefnandi tengdist málinu ekki og hafi því handtakan verið ónauðsynleg, sbr. einnig t.d. 2. ml. 1. mgr. 14. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.  Lögreglu hafi verið í lófa lagið að kalla stefnanda til skýrslutöku síðar án þess að frelsissvipting, með handtöku, færi fram.  Hafi frelsissviptingin því verið með öllu óþörf, ólögmæt og gengið langt út fyrir allt meðalhóf enda hafi málið nú verið fellt niður gagnvart stefnanda, þar sem fyrirliggjandi gögn málsins hafi ekki þótt nægjanleg eða líkleg til sakfellis.  Stefnandi hafi þannig verið sviptur frelsi í sólarhring og síðar úrskurðaður í gæsluvarðhald í viku án haldbærra gagna og röksemda sem réttlætt gætu slíka frelsissviptingu.

Stefnandi byggir og á því, að gæsluvarðhald það sem hann hafi verið látinn sæta hafi ekki uppfyllt skilyrði 1. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.  Grunur lögreglu um þátt stefnanda í máli því sem tengst hafi mansali virðist aðallega hafa byggst á misskilningi eða getgátum þar sem ekkert sé fram komið sem tengi stefnanda með neinum hætti við mansal eða aðra glæpastarfsemi.

Stefnandi byggir á því að hann hafi verið hafður of lengi í gæsluvarðhaldi.  Skipti þá engu tímalengd gæsluvarðhaldsúrskurðarins þar sem lögreglu beri stöðugt að endurskoða forsendur gæsluvarðhalds meðan á því stendur.  Byggir stefnandi á að lögreglu hefði mátt vera það ljóst að skilyrði gæsluvarðhalds væru ekki fyrir hendi strax við fyrstu yfirheyrslu og þar með nokkru áður en stefnandi hafi verið látinn laus, með vísan til fyrrnefndrar 97. gr. laga um meðferð sakamála.  Þrátt fyrir að ljóst hafi orðið strax eftir skýrslutökur að stefnandi hafi ekki átt nokkurn þátt í umræddu mansali, eða öðrum brotum er tengst hafi því máli, hafi honum verið haldið í fangageymslu í sólarhring og síðar úrskurðaður í gæsluvarðhald í framhaldinu.  Handtakan og síðan gæsluvarðhaldið, hafi ekki verið í samræmi við 90. gr., 1. mgr. og 2. mgr. 93. gr., 95. gr., og 2. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, og meðalhófsregluna, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 14. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.  Stefnandi telur lögmæt skilyrði hafa brostið til handtökunnar 20. október 2009 og síðan gæsluvarðhaldsins og því sé ljóst að stefnda beri að greiða honum bætur.  Þá telur stefnandi vistunartímann hafa verið allt of langan í báðum tilvikum, það eitt nægi til þess að hann eigi rétt á skaðabótum úr höndum stefnda.

Samkvæmt 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, skuli sá sem sviptur hafi verið frelsi að ósekju eiga rétt á skaðabótum.  Í 1. mgr. og 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, komi fram að dæma megi bætur ef rannsókn máls á hendur sakborningi hafi verið hætt.  Ljóst sé að þetta skilyrði sé uppfyllt og því heimilt að dæma stefnanda bætur.  Samkvæmt 5. mgr. 228. gr. laganna skuli bæta fjártjón og miska.

Auk framangreinds geti ákvæði b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, um ólögmæta meingerð gegn æru valdið því að réttur til miskabóta stofnist vegna aðgerða stefnda, en þar segi að heimilt sé að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við.  Stefnandi tekur fram að þrátt fyrir að ljóst hafi verið orðið strax við fyrstu skýrslutökur að stefnandi hefði hvorki átt nokkurn þátt í umræddu mansali né öðrum brotum er því tengdust hafi honum verið haldið í fangageymslu í sólarhring og síðar úrskurðaður í gæsluvarðhald í framhaldinu.  Handtakan, og síðar gæsluvarðhaldið hafi ekki verið í samræmi við 90. gr., 1. mgr. og 2. mgr. 93. gr. og 95. gr. og 2. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, og meðalhófsregluna, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 14. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.  Stefnandi telur lögmæt skilyrði hafa brostið til handtökunnar 20. október 2009 og síðan gæsluvarðhaldsins og því ljóst að stefnda beri að greiða honum bætur.  Þá telur stefnandi lengd vistunartímans hafa verið allt of langan í báðum tilvikum, það eitt nægi til þess að hann eigi rétt á skaðabótum úr höndum stefnda. 

Samkvæmt 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 skal sá sem sviptur hafi verið frelsi að ósekju eiga rétt á skaðabótum.  Í 1. mgr. og 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, komi fram að dæma megi bætur ef rannsókn máls á hendur sakborningi hafi verið hætt.  Ljóst sé að þetta skilyrði sé uppfyllt og því heimilt að dæma stefnanda bætur.  Samkvæmt 4. mgr. 228. gr. laganna skuli bæta fjártjón og miska.

Í 2. ml. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 komi fram sú undantekningarregla að fella megi niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfu sína á.  Stefnandi telur að túlka beri þetta ákvæði þröngt í ljósi ákvæðis 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sem kveði á um að hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skuli hann eiga rétt til skaðabóta.  Sú túlkun sé einnig í samræmi við ákvæði 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hlotið hafi lagagildi hér á landi með lögum nr. 62/1994, um að hver maður sé saklaus uns sekt sé sönnuð.  Stefnandi hafi ekki framið það brot sem honum sé gefið að sök.  Ekkert sé fram komið í málinu sem geti réttlætt að bætur til stefnanda verði lækkaðar, hvað þá felldar niður að öllu leyti.

Samkvæmt 5. gr. 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, skuli bæði bæta fjártjón og miska.  Stefnandi krefjist miskabóta að fjárhæð 2.500.000 krónur.  Jafnframt leiði af meginreglu íslensks skaðabótaréttar, sakarreglunni, að stefndi beri skaðabótaábyrgð í málinu vegna aðgerða sinna.  Stefnandi telur að stefndi hafi brotið gróflega gegn sér og sé því krafa hans um miskabætur að fjárhæð 2.500.000 krónur afar hófleg. 

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna skaðabóta- og refsiréttar, skaðabótalaga nr. 50/1993, stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1994, laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, lögreglulaga nr. 90/1997, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Um gjafsókn er vísað til lögbindingar hennar í málum af þessu tagi í 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

IV

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því, að meintur réttur stefnanda til bóta samkvæmt 1. og 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, hafi ekki stofnast, þar sem fyrir liggi að sakamálarannsókn á hendur honum sé enn í gangi vegna ætlaðra brota hans gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 248. gr. þeirra laga, ætlaðra brota hans gegn lögum nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem og brot hans gegn skattalöggjöfinni.

Hæstiréttur Íslands hafi þegar leyst úr því að skilyrði hafi verið til að hneppa stefnanda í gæsluvarðhald, á þeirri forsendu að nægilega hafi komið fram að rökstuddur grunur beindist að honum um brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga.  Sú dómsniðurstaða sé ekki til endurskoðunar í þessu máli.  Stefndi mótmælir sérstaklega þeirri málsástæðu stefnanda sem órökstuddri og ósannaðri að gæsluvarðhald það sem hann hafi sætt hafi ekki uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, þar sem grunur lögreglu um þátt stefnanda í mansalsmálinu hafi byggst á misskilningi eða getgátum.  Stefnandi hafi áður viðrað þessi sjónarmið sín fyrir dómi, þ.e. áður en gæsluvarðhaldsúrskurðurinn hafi verið kveðinn upp yfir honum í Héraðsdómi Reykjaness og síðar við kæru þess úrskurðar til Hæstaréttar.  Hafi hvorki verið fallist á kröfu stefnanda um að hinn kærði úrskurður yrði felldur úr gildi né að honum yrði markaður skemmri tími.  Ljóst sé að stefnandi hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna meintra auðgunarbrota, sem enn sæti rannsókn hjá embætti ríkislögreglustjóra.

Ríkissaksóknari hafi leyst úr því að engar forsendur séu til þess að rannsaka handtöku stefnanda og eftirfarandi málsmeðferð lögreglu, sbr. bréf ríkissaksóknara.  Stefnandi hafi ekki fært fram neinar málsástæður sem hnekki því mati ríkissaksóknara.

Stefndi telur ekki lagaskilyrði til þess að dæma stefnanda miskabætur.  Bótareglur 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, skaðabótalaga nr. 50/1993, eða almenna sakarregla skaðabótaréttar, eigi ekki við um kröfu stefnanda.  Mótmælir stefndi því sem órökstuddu og ósönnuðu að stefnandi hafi sýnt fram á að krafa hans uppfylli bótaskilyrði þessara reglna.  Ekkert liggi fyrir um ólögmætt eða saknæmt atferli starfsmanna stefnda.

Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda, sem rangri, órökstuddri og ósannaðri, að frelsissvipting hans, þ.e. handtaka, vistun í fangageymslu og gæsluvarðhald, hafi verið ólögmæt.  Fyrir liggi að lögregla hafi haft rökstuddan grun um refsivert afbrot sem sætt gæti ákæru við handtöku stefnanda hinn 20. október 2009, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.  Vinnubrögð lögreglu hafi verið í fullu samræmi við viðeigandi lagaheimildir, bæði hvað varði ákvæði laga um meðferð opinberra mála og lögreglulaga.  Lögregla hafi talið fullt tilefni til handtöku og gæsluvarðhalds stefnanda á grundvelli rannsóknarhagsmuna að virtu því alvarlega sakarefni sem hún hafi staðið frammi fyrir og meðalhófs hafi verið gætt.  Gögn málsins beri með sér að allt hafi verið gert af hálfu lögreglu til að vanda málsmeðferð, hraða rannsókn eftir megni og leitast við að ganga ekki lengra við beitingu þvingunarúrræða en brýna nauðsyn hafi borið til.  Þetta mat lögreglunnar hafi verið staðfest af Héraðsdómi Reykjaness og Hæstarétti og beri því að sýkna stefnda.  Stefndi telur ljóst af gögnum málsins að handtaka og eftirfarandi frelsissvipting stefnanda hafi átt sér stað vegna rannsóknar á þætti hans í afbrotum sem falli undir almenn hegningarlög nr. 19/1940, þ.e. ætluðu mansali og fjármunabrotum.

Samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sé lögreglu rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur er um að hann hafi framið brot, sem sætt geti ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist hans og öryggi eða koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum.

Stefnandi hafi verið handtekinn við húsleit sem fram hafi farið á heimili hans.  Húsleitarheimildar hafi verið aflað daginn áður og hafi krafa grundvallast á því að unnt yrði að upplýsa málið og kanna hvort stefnandi hafi verið í tengslum við ætlað fórnarlamb mansals og eða aðra aðila sem hugsanlega kynnu að tengjast mansali, skipulögðum þjófnuðum og tryggingasvikum, þ.e. brotum gegn 227. gr. a, 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem hvert um sig geti sætt ákæru.

Af framlögðum gögnum megi vera ljóst að stefnanda hafi ekki getað dulist ástæður handtöku og eftirfarandi gæsluvarðhalds, enda hafi hann verið upplýstur um ástæður þeirra.  Hafi verið nauðsynlegt fyrir lögreglu að handtaka stefnanda við húsleitina, til að tryggja nærveru hans og hindra að hann gæti torveldað rannsókn, en þá þegar hafi legið fyrir rökstuddur grunur um að hann hefði framið brot sem gæti sætt ákæru og varðað fangelsisrefsingu.  Hafi handtakan því verið lögmæt og í samræmi við heimildir lögreglu til slíkrar valdbeitingar.

Stefndi byggir á því til vara að lækka beri stefnukröfu verulega, annars vegar á grundvelli 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, þar sem fella megi niður bætur eða lækka þær hafi sakborningur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á.  Hins vegar með vísan til dómaframkvæmdar í sambærilegum málum, þar sem bætur hafi verið ákvarðaðar miklu mun lægri en kröfur stefnanda hljóði upp á.

Stefndi mótmælir sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda, sem órökstuddri og ósannaðri.  Stefnandi hafi fyrst haft uppi bótakröfu í bréfi til embættis ríkislögmanns hinn 3. mars 2010.  Þá hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn sem styðji bótakröfu hans og sé því skilyrðum 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, ekki fullnægt.

V

Í málinu hefur stefnandi uppi bótakröfu vegna ólögmætrar handtöku, ólögmætrar vistunar í fangaklefa og ólögmæts gæsluvarðhalds.  Byggir stefnandi málatilbúnað sinn á þeim grunni að honum beri réttur til skaðabóta með vísan til 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, en byggir einnig á sakarreglunni, 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 65. stjórnarskrárinnar.  Telur hann aðgerðir lögreglu, og síðar gæsluvarðhald sem hann hafi verið látinn sæta, hafa verið ólögmætar og með rannsóknaraðgerðum hafi verið brotið í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar, og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.  Kveður hann kröfu sína vera vegna miska, sem hann hafi orðið fyrir.

Skilyrði skaðabóta í tilviki eins og um ræðir í málinu lúta ákvæði 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.  Ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrár hafa verið skýrð svo að þau veiti ekki ríkari bótarétt en reglur laga nr. 88/2008. 

Í 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, er heimilað að dæma bætur vegna aðgerða samkvæmt IX. – XIV. kafla laga þessara ef skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi, þ.e. ef maður hefur verið borinn sökum í sakamáli, en mál hans hefur verið fellt niður eða hann verið sýknaður með endanlegum dómi, án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann hafi verið talinn ósakhæfur.  Ákvæði um heimild til handtöku, vistunar í fangaklefa og gæsluvarðhald er í XIII. og XIV. kafla laga nr. 88/2008.

Eins og að framan greinir var stefnandi handtekinn og færður í fangageymslu í framhaldi af húsleit sem fram fór á heimili hans í tengslum við rannsókn lögreglu á svokölluðu mansalsmáli.  Þá var stefnandi strax í framhaldi af þeim aðgerðum úrskurðaður í gæsluvarðhald af Héraðsdómi Reykjaness hinn 21. október 2009, að beiðni lögreglustjórans á Suðurnesjum, á grundvelli rannsóknarhagsmuna með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.  Var byggt á því að háttsemi stefnanda varðaði við ákvæði 227. gr. a, 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Með dómi Hæstaréttar Íslands, dagsettum 23. október 2009, var fyrrgreindur úrskurður Héraðsdóms Reykjaness staðfestur, þar sem fram væri kominn rökstuddur grunur um að stefnandi hefði brotið gegn 248. gr. almennra hegningarlaga, en ekki var fallist á að rökstuddur grunur væri kominn fram um að hann hefði brotið gegn 227. gr. a. og 244. gr. almennra hegningarlaga.

Með bréfi Lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettu 15. desember 2009, var stefnanda tilkynnt, með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008, að rannsókn á aðild hans í ætluðu mansali væri hætt.  Hins vegar var stefnanda jafnframt tilkynnt, að enn væri til rannsóknar, með aðkomu fleiri lögregluembætta, ætluð fjársvik hans, einkum brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga.   

Með framlagðri yfirlýsingu Lögreglustjórans á Suðurnesjum til embættis ríkislögmanns, dagsettri 24. ágúst 2010, eða eftir að mál þetta var höfðað, kemur fram, að sá þáttur máls stefnanda er lúti að rökstuddum gruni um fjármuna- og eða gjaldeyrisbrotum og klofinn hafi verið frá mansalsmálinu, sæti enn rannsókn, en mansalsmálið hafi verið dæmt í Hæstarétti.  

Með vísan til þess er ekki unnt að líta svo á að skilyrði 1. mgr., sbr. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, séu fyrir hendi í máli þessu, þar sem rannsókn á ætluðum brotum stefnanda, sem aðgerðir lögreglu beindust m.a. að, er ekki enn lokið.  Þar sem ætluð brot stefnanda eru enn til rannsóknar verður, með vísan til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að vísa málinu frá dómi ex officio.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt, með vísan til atvika málsins, að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Stefnandi hefur gjafsókn í málinu samkvæmt bréfi dóms- og mannréttindaráðuneytisins, dagsettu 16. júní 2010.  Gjafsóknarkostnaður hans, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans 500.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði.

                Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 500.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði.