Hæstiréttur íslands

Mál nr. 227/2005


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Sjómaður
  • Laun
  • Sjóveð


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. janúar 2006.

Nr. 227/2005.

Guðmundur Páll Ólafsson

(Jónas Haraldsson hrl.)

gegn

Ístaki hf.

(Jakob R. Möller hrl.)

 

Vinnuslys. Sjómenn. Laun. Sjóveð.

G, sem gegndi starfi yfirvélstjóra á skipinu M, varð óvinnufær í kjölfar slyss sem hann varð fyrir 4. september 2004 við störf sín um borð í M. Deildu aðilar um rétt G til launa eftir slysið, en Í hafði greitt G laun í samræmi við tilhögun á launagreiðslum til hans sumarið 2004. Í málinu lá fyrir að G var lögskráður sem yfirvélstjóri á M óslitið frá 7. júní til 6. september 2004, auk þess sem Í gerði ráð fyrir sjómannaafslætti við útreikning á staðgreiðslu opinberra gjalda af launum G á þessu tímabili. Var því talið að 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga gilti um rétt G til launa úr hendi Í í framhaldi af slysinu. Talið var að skýra yrði ákvæðið svo að sjómaður, sem yrði óvinnufær vegna slyss sem hann yrði fyrir í starfi sínu, ætti rétt til óskertra launa í allt að tvo mánuði án tillits til þess hvort ráðning hans í skiprúm hefði staðið þann tíma ef slysið hefði ekki borið að höndum og að þau laun ættu að vera sömu fjárhæðar og ef skipverjinn hefði gegnt sama starfi áfram á umræddu tímabili. Fallist var á kröfu G um greiðslu úr hendi Í, enda óumdeilt að fjárhæð hennar svaraði til þeirra launa sem yfirvélstjóri á skipinu M naut fyrstu tvo mánuðina eftir slys G, að frádregnu því, sem hann fékk greitt frá Í. Jafnframt var fallist á staðfestingu sjóveðréttur í M fyrir kröfum G.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. júní 2005 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 399.602 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 91.958 krónum frá 23. september 2004 til 7. október sama ár, af 183.916 krónum frá þeim degi til 21. sama mánaðar, af 275.874 krónum frá þeim degi til 4. nóvember sama ár, af 367.832 krónum frá þeim degi til 18. sama mánaðar, en af 399.602 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Þá krefst hann þess að staðfestur verði sjóveðréttur í skipinu Mikael I, skipaskrárnúmer 7513, fyrir því, sem honum verði dæmt úr hendi stefnda.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

 

I.

Samkvæmt gögnum málsins hóf áfrýjandi, sem er vélstjóri að mennt, störf á vegum stefnda á árinu 1997 og var þá gerður skriflegur samningur um ráðningu hans. Nýir ráðningarsamningar voru gerðir árin 1998 og 2000, en samkvæmt þeim síðasta gegndi áfrýjandi starfi vélamanns. Eftir málatilbúnaði aðilanna virðist sem áfrýjandi hafi verið óslitið við störf hjá stefnda eða félögum á vegum hans frá 1997 þar til um haustið 2003, þegar áfrýjandi hóf nám til að afla sér skipstjórnarréttinda. Samkvæmt aðilaskýrslu áfrýjanda fyrir héraðsdómi leit hann svo á að hann hafi þá fengið leyfi frá störfum til að ganga í skóla. Fyrir liggur að áfrýjandi vann hjá stefnda á tímabilinu frá 29. desember 2003 til 25. janúar 2004 og hóf síðan vinnu 17. maí 2004 í járnsmiðju og á vélaverkstæði stefnda. Í byrjun júní 2004 lét af störfum yfirvélstjóri á Mikael I, sem samkvæmt gögnum málsins er prammi í eigu stefnda, 292 brúttótonn að stærð með 375 kW vél, en skipið mun aðallega hafa verið notað til að flytja efni við dýpkunarframkvæmdir. Áfrýjanda var þá falið þetta starf, en því hafði hann áður gegnt um þó nokkurn tíma 2002 og 2003 og um skeið á árinu 2001. Eftir málatilbúnaði aðilanna ber þeim ekki saman um hversu stór hluti þetta var af heildarstörfum áfrýjanda hjá stefnda sumarið 2004.

Áfrýjandi varð fyrir slysi 4. september 2004 við störf sín um borð í Mikael I og varð óvinnufær af þeim sökum. Áður en þetta gerðist hafði verið afráðið að stefndi tæki að sér verk við dýpkunarframkvæmdir í Bolungarvík, þar sem skipið yrði notað. Hafði þá komið til tals hvort áfrýjandi yrði þar við störf, en fyrir lá að hann hygðist halda áfram námi um haustið. Fyrir héraðsdómi bar áfrýjandi að bundið hafi verið fastmælum milli sín og nafngreinds yfirmanns hjá stefnda að hann myndi starfa við verkið í Bolungarvík, en að mestu hefði hann getað lagt stund á nám sitt án skólasóknar. Í vitnaskýrslu, sem sá starfsmaður stefnda gaf fyrir héraðsdómi, kom á hinn bóginn fram að hann hafi tjáð áfrýjanda að ekki gæti orðið af þessum störfum vegna skólasóknar hans, þótt hún yrði lítil. Fékk þetta jafnframt nokkurn stuðning í vætti annars starfsmanns stefnda.

Eftir fyrrnefnt slys fékk áfrýjandi greidd laun frá stefnda allt til 6. febrúar 2005. Við útreikning þeirra var tekið mið af þeirri tilhögun, sem verið hafði á launagreiðslum til áfrýjanda sumarið 2004. Áfrýjandi telur á hinn bóginn að vegna ákvæða 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 hafi hann átt rétt á að fá í tvo mánuði eftir slysið sömu laun og hann hefði notið sem yfirvélstjóri á Mikael I, þar á meðal fyrir vinnu við áðurgreint verk stefnda í Bolungarvík, en vegna vinnutíma þar og fyrirkomulags á vöktum hefðu þau orðið verulega hærri en verið hafði sumarið 2004. Óumdeilt er að mismunurinn á þeim launum og því, sem stefndi greiddi áfrýjanda eftir slysið, nemi þeirri fjárhæð, sem hann krefst í málinu.

II.

Í málinu liggur fyrir að áfrýjandi var lögskráður sem yfirvélstjóri á skipinu Mikael I óslitið frá 7. júní til 6. september 2004. Auk þess gerði stefndi ráð fyrir sjómannaafslætti samkvæmt þágildandi reglum B. liðar 67. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt við útreikning á staðgreiðslu opinberra gjalda af launum áfrýjanda á þessu tímabili. Að virtu þessu og fyrirmælum 5. gr. laga nr. 43/1987 um lögskráningu sjómanna er ekki unnt að fallast á með stefnda að líta megi á vinnu áfrýjanda á skipinu sem tilfallandi störf á efnisflutningabát í verkefnatengdu hlutverki, sem ekki verði jafnað við venjuleg störf  sjómanna. Gilda því reglur 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga um rétt áfrýjanda til launa úr hendi stefnda í framhaldi af slysinu 4. september 2004. Það ákvæði verður að skýra svo að það veiti sjómanni, sem verður óvinnufær vegna slyss sem hann verður fyrir í starfi sínu, rétt til óskertra launa í allt að tvo mánuði án tillits til þess hvort ráðning hans í skiprúm hefði staðið þann tíma ef slysið hefði ekki borið að höndum, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 22. janúar 1985 í máli nr. 12/1983, sem birtur er í dómasafni 1985, bls. 43. Þau laun skulu vera sömu fjárhæðar og ef skipverjinn hefði gegnt sama starfi áfram á umræddu tímabili, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 1. desember 1994 í máli nr. 4/1993, sem birtur er í dómasafni 1994, bls. 2521. Sem fyrr segir er óumdeilt að fjárhæðin, sem áfrýjandi krefst í málinu, svari til þeirra launa, sem yfirvélstjóri á Mikael I naut fyrstu tvo mánuðina eftir slys áfrýjanda, að frádregnu því, sem hann fékk greitt frá stefnda. Verður krafa áfrýjanda því tekin að fullu til greina og staðfestur sjóveðréttur í fyrrnefndu skipi fyrir henni og dæmdum málskostnaði.

Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Ístak hf., greiði áfrýjanda, Guðmundi Páli Ólafssyni, 399.602 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 91.958 krónum frá 23. september 2004 til 7. október sama ár, af 183.916 krónum frá þeim degi til 21. sama mánaðar, af 275.874 krónum frá þeim degi til 4. nóvember sama ár, af 367.832 krónum frá þeim degi til 18. sama mánaðar, en af 399.602 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Staðfestur er sjóveðréttur fyrir framangreindu í skipinu Mikael I, skipaskrárnúmer 7513.

 

         

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2005.

Mál þetta, sem var dómtekið 15. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af  Guðmundi Páli Ólafssyni, Háfi I, Hellu  gegn Ístaki hf., Engjateigi 7, 105 Reykjavík, með stefnu birtri 6. desember 2004.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 399.602 krónur með dráttarvöxtum af 91.958 krónum frá 23. september 2004 til 7. október s.á., en af 183.916 krónum frá þeim degi til 21. október s.á., en af 275.874 krónum frá þeim degi til 4. nóvember s.á., en af 367.832 krónum frá þeim degi til 18. nóvember s.á., en af 399.602 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Einnig er krafist málskostnaðar að skaðlausu í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning, að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Þá er krafist viðurkenningar sjóveðréttar í Mikael I (7513) til tryggingar öllum dæmdum kröfum.

Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að verða sýknaður af kröfum stefnanda og krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins. Til vara krefst stefnda þess, að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.

I.

Málavextir.

Í apríl 1997 réð stefnandi sig fyrst til stefnda sem vinnuvélastjórnandi á gröfu. Hann hefur síðan unnið margvísleg störf víðsvegar um landið á vegum stefnda, aðallega í jarðvinnuverkefnum svo sem vegagerð og álíka verkefnum.  Þá hefur hann einnig stundað nám við Stýrimannaskóla Íslands. Hefur hann gert hvoru tveggja með hléum. Seinni ár hefur stefnandi ásamt öðrum störfum unnið á gröfu á dýpkunarprammanum Gretti, ásamt því að vera vélstjóri á efnisflutningaskipinu Mikael I. 

Í ágúst 2003 hætti stefnandi störfum hjá stefnda og fór í áframhaldandi nám við Stýrimannaskólann. Stefnandi vann um jólaleytið það ár við afleysingar á gröfu sem er á dýpkunarprammanum Gretti. Í apríl 2004 sóttist stefnandi eftir sumarvinnu á vélaverkstæði stefnda í Reykjavík. Stefndi hafði ekki þörf fyrir sumarmann á vélaverkstæði, en vantaði starfsmann á járnsmíðaverkstæði. Stefnandi var ráðinn á járnsmíðaverkstæði stefnanda, þar sem hann hóf störf í maí 2004.

Hinn 4. september 2004 var Mikael I staðsettur skammt norðan við Akurey, á leið frá Njarðvíkurhöfn að Vogabakka í Sundahöfn. Pramminn var undirmannaður og voru einungis stefnandi og skipstjóri um borð. Vegna mikillar skipaumferðar var stefnanda nauðsynlegt að stíga upp á vinnuskúr, sem verið var að flytja á prammanum,  svo hann gæti sagt skipstjóranum til leiðar og beint honum frá aðkomandi skipum. Meðan á þessum leiðbeiningum stefnanda stóð, féll hann niður af skúrnum og hlaut höfuð- og fótameiðsl, átta rifbein brotnuðu í baki stefnanda, auk annarra meiðsla. Stefnandi hefur verið óvinnufær frá slysdegi og verður það áfram um sinn. Stefnandi telur að hann hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni í slysinu.

Eftir að stefnandi slasaðist voru honum greidd laun sem voru miðuð við ráðningu hans hjá járnsmiðju stefnda. Að jafnaði eru þar daglega unnar 8 klst. í dagvinnu og 1,5 klst. í yfirvinnu. Stefnanda fékk greitt miðað við 8. klst. dagvinnu og 2 klst. yfirvinnu á dag. Stefnandi telur sig aftur á móti eiga að fá laun miðað við vinnufyrirkomulagið á Bolungarvík, þar sem Mikael I var ásamt áhöfn við vinnu.  Vinnufyrirkomulagið fyrir vestan var þannig, að unnið var í þrettán tíma á dag í tíu daga samfleytt, en svo var tekið frí í fjóra daga. Stefnandi telur því að greiða eigi átta tíma í dagvinnu og fimm tíma í yfirvinnu fyrir virku dagana mánudag – föstudag, en alla tíma í yfirvinnu laugardag – sunnudag. Stefnandi telur vangreidd laun vera 399.602 krónur. Um sama tímakaup er að ræða á járnsmíðaverkstæðinu og á prammanum og varðar krafan einungis fleiri unnar stundir fyrir vestan.  Ekki  er tölulegur ágreiningur í málinu.

Stefnandi leitaði til skrifstofu stefnda og óskaði eftir leiðréttingu á launum sínum. Starfsmaður stefnda, Erlingur Þorláksson tæknifræðingur, hafnaði leiðréttingu.  Á fundi 12. nóvember 2004, með framkvæmdastjóra stefnda, ítrekaði stefnandi kröfur sínar. Afstaða stefnda var óbreytt og var mál þetta því höfðað.

II.

Málsástæður stefnanda.

Stefnandi byggir á því, að samkvæmt lögum og kjarasamningum eigi hann rétt til óskertra veikindalauna í tvo mánuði frá því að slysið átti sér stað. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sem vísað er til í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins, kemur fram að verði skipverji óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann verður fyrir meðan á ráðningartíma stendur skuli hann eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd, svo lengi sem hann er óvinnufær af framangreindum ástæðum, þó ekki lengur en tvo mánuði.

Stefnandi bendir á, að ákvæði 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 hafi verið tekið upp óbreytt frá 18. gr. eldri sjómannalaga, sbr. breytingar á ákvæðinu með 1. gr. laga nr. 49/1980. Hafi framangreint ákvæði verið skýrt svo, að hinn slasaði skuli halda hlut/kaupi í tvo mánuði sem honum hefði borið, hefði hann gegnt áfram þeirri stöðu sem hann hafði á skipinu. Stefnandi telji það engu skipta þótt vist hans hefði átt að ljúka fyrir lok framangreinds tíma. Hann telji ljóst,  að rangar fullyrðingar stefnda, um að stefnandi hefði ekki átt að fylgja prammanum vestur á firði, breyti engu í þessu sambandi.

Stefnandi telur það óumdeilt, að hann hafi verið að fullu óvinnufær vegna slyssins frá 4. september 2004 og sé það enn. Óumdeilt sé, að hann var í ráðningarsambandi við stefnda þegar slysið varð og óumdeilt sé að hann gegndi stöðu yfirvélstjóra á Mikael I á þeim tíma, eins og lögskráningarvottorð bera með sér. Stefnandi telji sig því eiga rétt á svokölluðum staðgengilslaunum í tvo mánuði, þ.e. þeim launum sem hann hefði haft, hefði hann ekki slasast og unnið áfram sem vélstjóri á prammanum.

Varðandi lagarök vísar stefnandi til sjómannalaga nr. 35/1985, einkum 1. mgr. 36. gr. laganna. Einnig til kjarasamnings milli Vélstjórafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins, einkum 14. kafla samningsins. Jafnframt er vísað til Hrd. 1985:43 og Hrd.1985:1360 og hæstaréttarmálanna nr. 265-266/2003. Einnig er vísað til meginreglu vinnuréttar um greiðslu verkkaups og meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Einnig ákvæða orlofslaga nr. 30/1987 og laga nr. 55/1980. Um dráttarvexti vísast til ákvæða III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og ofangreinds kjarasamnings. Um málskostnað vísast til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um sjóveð vísast til 1. tl. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985.

III.

Málsástæður stefnda.

Sýknukrafa stefnda er byggð á því, að þó að slysið hefði ekki átt sér stað hefði það ekki komið til að stefnandi hefði farið á vegum stefnda til Bolungarvíkur. Stefnandi var skráður í Stýrimannaskóla Íslands á þeim tíma sem vinna við verkefnið í Bolungarvík átti að fara fram. Stefndi telur það styðja það að af hans hálfu hafi ekki komið til álita að ráða stefnanda til starfa við dýpkunarframkvæmdirnar í Bolungarvík. Stefnandi eigi því á engum tíma rétt til þeirra launa sem hann krefst að greiðsla slysakaups sé miðuð við.

Stefndi bendir einnig á að á sama tíma og stefnandi hafi verið lögskráður á Mikael I hafi hann sinnt  störfum sem ekki tengdust störfum hans sem vélstjóri á efnisflutningaskipi.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Krafa stefndu um málskostnað er reist á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr., báðar greinar í lögum nr. 91/1991.

IV.

Skýrslur fyrir dómi.

Í skýrslu Erlings Þorlákssonar, tæknifræðings hjá stefnda, kom fram að hann réð stefnanda til vinnu í maí 2004.  Vitnið segir að stefnandi hafi lagt mikla áherslu á að fá vinnu á verkstæði, vegna náms hans.  Hann hafi þó einnig verið í vinnu á Mikael I eftir því sem þurfti.  Hann sagði að þegar verkið í Bolungarvík hafi komið upp hafi fyrst verið leitað innan fyrirtækisins og einir fjórir komið til greina, þ.á m. stefnandi.  Einnig hafi verið kannað með heimamenn.  Þegar upp hafi komið að stefnandi yrði við nám í Reykjavík hafi hann ekki lengur komið til greina. Það hafi ekki hentað því vaktakerfi sem unnið var eftir í Bolungarvík. Vitninu er ekki kunnugt um að stefnanda hafi verið lofað starfi í Bolungarvík. Heimamenn í Bolungarvík hafi síðan verið ráðnir í verkið og hafi það verið hagstætt fyrir stefnda, því þá hafi ekki komið til kostnaður vegna uppihalds eða ferðalaga. Vitnið segir að ólíklegt sé að stefnandi hefði verið ráðinn til verksins hefði hann ekki slasast. 

Í skýrslu Kristins Þormar skipstjóra kom fram að hann vissi ekki hvort stefnandi hafi óskað eftir því að fara vestur en það hafi verið í umræðunni á vinnustaðnum.  Hann kvaðst ekki hafa verið vitni að samtali stefnanda og Ólafs Gíslasonar.

Í skýrslu Ólafs Gíslasonar, verkfræðings stefnda, kom fram að hann annaðist ráðningu manna í dýpkunarverkefnið í Bolungarvík og þurfti að ráða vélstjóra á Mikael I.  Hann talaði við þrjá menn sem unnu hjá stefnda vegna starfsins og meðal annars stefnanda. Stefnandi kvaðst vera búinn að skrá sig í skóla í Reykjavík og þyrfti að sækja þar ákveðin námskeið sem hann gæti ekki sleppt og á mánudögum væri eitthvert áríðandi námskeið, sem hann þyrfti að sækja.  Honum var tjáð, að það passaði ekki vinnufyrirkomulaginu hjá þeim.  Vitnið segist hafa spurt Einar Gíslason, hvort einhver gæti leyst stefnanda af og taldi Einar að ekki væri hægt að leysa hann af alla mánudaga. Vitnið kveðst hafa sagt stefnanda, að þetta starf gengi ekki upp fyrir hann.  Hann segir að aðeins hafi verið um þreifingar að ræða við þessa þrjá menn.  Síðan hafi heimamenn verið ráðnir í verkið. 

Í skýrslu Einars Gíslasonar, vélvirkja hjá stefnda, kom fram, að hann vissi að stefnandi hefði haft áhuga á að fara vestur og að þeir Ólafur Gíslason hefðu rætt saman, því hann hafi verið spurður álits um afleysingar vegna náms stefnanda. Hann kveðst ekki hafa verið vitni af samtali stefnanda og Ólafs. 

V.

Forsendur og niðurstaða.

Meginágreiningur málsins varðar það, hvort stefnanda hafi staðið til boða að starfa við dýpkunarframkvæmdirnar á Bolungarvík og þar með að slysalaun hans tækju mið af launum þeim er þar voru greidd, en ekki þeim launum sem hann hafði fyrir starf sitt á járnsmíðaverkstæðinu, eins og uppgjör stefnda við stefnanda er. 

Hér er fyrst að líta til þess, að stefnandi stundaði nám við Stýrimannaskóla Íslands og var ráðinn um vorið á járnsmíðaverkstæði stefnda.  Þar sinnti hans ýmsum störfum sem ekki tengdust störfum hans sem vélstjóri á Mikael I. Meðal annars sáu þeir um ýmislegt viðhald á prammanum. Í framburði Ólafs Gíslasonar, verkfræðings og staðarstjóra með dýpkunarframkvæmdunum á Bolungarvík, kom fram, að þreifingar hafi verið innan fyrirtækisins um það hvaða vélstjórar yrðu fengnir til að fara vestur.  Hann hafi talað við þrjá menn innan fyrirtækisins í því skyni, þar á meðal stefnanda.  Ólafur fullyrðir fyrir dómi, að stefnandi hafi ekki komið til greina til starfsins og hann hafi tjáð honum það strax. Í framburði Erlings Þorlákssonar tæknifræðings kom fram, að heimamenn á Bolungarvík hefðu verið ráðnir til verksins og hefði það verið fjárhagslega hagstæðast fyrir stefnda.  Það að stefnandi hafi ekki komið til greina í starfið á Bolungarvík, fær einnig stoð í gögnum málsins, en það liggur fyrir að stefnandi ætlaði að ljúka námi sínu við Stýrimannaskólann, en hann sá fyrir enda þess.  Með vísan til alls framanritaðs lítur dómurinn svo á, að ósannað sé að stefnanda hafi staðið til boða að fylgja Mikael I til Bolungarvíkur og fá vinnu þar við dýpkunarframkvæmdirnar.  Því eigi stefnandi ekki rétt til þeirra launa sem hann krefur um í málinu.

Við aðalmeðferð málsins var byggt á því af hálfu stefnanda, að ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við hann og því hefði stefndi ekki fullnægt skilyrðum 6. gr. sjómannalaganna nr. 35/1985 og ætti stefndi að bera hallann af, hvað sönnun um efni og ráðningartíma varðaði.  Af hálfu stefnda var þessari nýju málsástæðu ekki mótmælt. Eins og að framan greinir hefur stefnandi verið við störf hjá stefnda meira og minna frá árinu 1997.  Ráðningarsamningur við stefnanda frá 26. ágúst 2000 liggur fyrir í málinu og fyrir dómi sagði stefnandi að hann liti svo á, að sá samningur væri í gildi og hann hefði einungis fengið leyfi frá vinnu til að stunda nám sitt. Um vorið fór stefnandi til vinnu á járnsmíðaverkstæði stefnda. Í ljósi þessa lítur dómurinn svo á að tilvitnun til 6. gr. sjómannalaganna nr. 35/1935 eigi ekki við.

Með vísan til framanritaðs ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.  Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.  

Af hálfu stefnanda flutti málið Jónas Þór Jónasson hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Ólafur Arinbjörn Sigurðsson hdl.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Ístak hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Guðmundar Páls Ólafssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.