Hæstiréttur íslands

Mál nr. 182/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 10

 

Mánudaginn 10. maí 2004.

Nr. 182/2004.

Sýslumaðurinn í Kópavogi

(Karl Vilbergsson fulltrúi)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 106. gr. laga nr. 19/1991.

X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stæði, sbr. c. lið 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þar sem dómurinn var birtur X 6. maí 2004 var gæsluvarðhaldinu ekki markaður lengri tími en til dagsloka 3. júní 2004.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. maí 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. maí 2004, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sætti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. júní 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 getur dómari úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á áfrýjunarfresti stendur, sbr. 2. mgr. 151 gr. laganna. Samkvæmt þeirri grein skal ákærði lýsa yfir áfrýjun dóms innan fjögurra vikna frá birtingu hans. Varnaraðila var birtur dómur í máli ákæruvaldsins á hendur honum og tveimur öðrum mönnum 6. maí 2004. Samkvæmt því verður gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila ekki markaður lengri tími en til dagsloka 3. júní 2004. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur með þeim hætti er í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili,  X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 3. júní 2004 kl. 24.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. maí 2004.

I.

                Lögreglustjórinn í Kópavogi krefst þess að dómfellda, X, verði með skírskotun til c. liðar 1. mgr. 103. gr. sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan á fresti samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laganna stendur, eða allt til 4. júní 2004 klukkan 16:00.

                Dómfelldi krefst þess að kröfunni verði hafnað.

II.

                Með dómi í málinu uppkveðnum í dag var dómfellda gert að sæta fangelsi í 15 mánuði fyrir þjófnaðarbrot, gripdeild, ólögmæta meðferð fundins fjár, fjársvik, nytjastuld, skjalabrot og umferðarlagabrot. Við uppkvaðningu dómsins tók dómfelldi sér frest til að taka afstöðu til áfrýjunar.

Dómfelldi hefur á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og vegna gruns um þau brot sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir sætt gæsluvarðhaldi frá 2. f.m. Upphaflega var dómfellda með úrskurði héraðsdóms 2. f.m. gert að sæta gæsluvarðhaldi til klukkan 14:00 fimmtudaginn 29. apríl, en gæsluvarðhaldið var með úrskurði uppkveðnum þann dag framlengt til dómsuppkvaðningardags. Dómfelldi kærði fyrri úrskurðinn til Hæstaréttar, sem staðfesti hann með dómi sínum 7. f.m. í máli nr. 138/2004.

Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í máli. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á fresti samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laganna stendur.

Með vísan til framanritaðs og c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 verður krafa lögreglustjórans í Kópavogi tekin til greina eins og hún er fram sett.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

                Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Dómfelldi, X, sæti gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála stendur, eða allt til föstudagsins 4. júní 2004 klukkan 16:00.