Hæstiréttur íslands
Mál nr. 130/2001
Lykilorð
- Sjómaður
- Kjarasamningur
- Skiptaverðmæti
- Sjóveðréttur
|
|
Fimmtudaginn 27. september 2001. |
|
Nr. 130/2001. |
Stígandi ehf. (Gestur Jónsson hrl.) gegn Bergi Páli Kristinssyni (Jónatan Sveinsson hrl.) |
Sjómenn. Kjarasamningur. Skiptaverðmæti. Sjóveðréttur.
B, skipverji á skipi S ehf., taldi uppgjör til sín fyrir tiltekið tímabil ekki hafa verið byggt á réttu skiptaverði eins og það var skilgreint í gildandi kjarasamningi, sbr. 1. gr. laga nr. 24/1986. Kvaðst S ehf. hafa selt aflann innanlands, annars vegar til B ehf., sem flutt hafi aflann úr landi og selt hann á erlendum mörkuðum og hins vegar til kaupenda á fiskmarkaði. S ehf. gerði upp laun til B á grundvelli söluverðs aflans til B ehf. samkvæmt reikningum. Deilt var um hvort leggja skyldi það verð til grundvallar útreikningi eða verðið, sem Verðlagsstofa skiptaverðs (V) miðaði við að fengist hefði fyrir aflann við sölu á mörkuðum erlendis. Fram var komið að gengið var frá sölu aflans til B ehf. eftir að vigtun og sala hafði farið fram erlendis, en ekkert lá fyrir um það hvenær sala til B ehf. hefði átt sér stað eða hvort B ehf. var í raun seljandi aflans erlendis. Fyrir lá að S ehf. var á umræddu tímabili útflytjandi aflans. Af þessum sökum þótti ekki unnt að byggja á því verði sem tilgreint var í útreikningi S ehf. á aflahlut áhafnar skipsins. Með vísan til viðkomandi kjarasamnings var það talin grundvallarregla að skipverjum skyldi tryggt hæsta gangverð fyrir aflann, sbr. einnig lög nr. 24/1986. Samkvæmt útreikningum V var verðið sem fékkst fyrir afla umrædds skips á erlendum mörkuðum mun hærra en verð það, sem S ehf. kvaðst hafa fengið fyrir aflann hjá B ehf. Af framangreindum ástæðum var fallist á kröfu B um greiðslu mismunar þess hlutar sem honum var greiddur og þess sem B taldi sér hafa borið að fá greitt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 6. apríl 2001. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram var stefndi skipverji á skipi áfrýjanda, Ófeigi VE-325. Hann telur, að uppgjör til sín fyrir mánuðina júlí til og með nóvember 1999 hafi ekki verið byggt á réttu skiptaverði eins og það er skilgreint í kjarasamningi milli Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landsambands íslenskra útgerðarmanna, sbr. 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Áfrýjandi kveðst hafa selt aflann innanlands, annars vegar til Blábergs ehf., sem flutt hafi aflann úr landi og selt hann á erlendum mörkuðum, og hins vegar til kaupenda á Fiskmarkaði Vestmannaeyja hf. Gerði áfrýjandi upp laun til stefnda á grundvelli söluverðs aflans til Blábergs ehf. samkvæmt reikningum. Ágreiningur aðila snýst um það, hvort leggja skuli það verð til grundvallar útreikningi aflahlutar eða verðið, sem Verðlagsstofa skiptaverðs miðar við að hafi fengist fyrir aflann við sölu á mörkuðum erlendis samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu.
II.
Verðlagsstofa skiptaverðs, sem starfar samkvæmt lögum nr. 13/1998, kannaði launauppgjör áhafnar Ófeigs og komst að þeirri niðurstöðu, að aflahlutur hefði verið vanreiknaður á ofangreindu tímabili. Mestur hluti aflans hefði verið seldur Blábergi ehf., sem síðan muni hafa selt hann á mörkuðum í Bretlandi og Þýskalandi. Í raun hefðu 136.577.992 krónur fengist fyrir aflann en ekki 104.364.781 króna eins og áfrýjandi heldur fram. Aflinn hefði verið ísaður í kassa og hefði áhöfn Ófeigs annast löndun hans og frágang í gáma. Engin vinnsla eða virðisaukning var talin hafa átt sér stað á aflanum hjá Blábergi ehf. og engin gögn höfðu borist frá því fyrirtæki til Fiskistofu um kaup eða sölu fiskafla.
Í bréfi áfrýjanda til Verðlagsstofu skiptaverðs 23. febrúar 2000 kemur fram, að gengið var frá sölu aflans til Blábergs ehf. eftir að vigtun og sala hafði farið fram erlendis. Ekkert liggur fyrir um það hvenær sala til Blábergs ehf. átti sér stað eða hvort það félag var í raun seljandi aflans erlendis. Fyrir Hæstarétt hafa verið lagðar upplýsingar frá tollstjóranum í Reykjavík þess efnis, að áfrýjandi var á umræddu tímabili útflytjandi aflans. Er fallist á það með héraðsdómi, að ekki sé unnt að byggja á því verði, sem tilgreint er í útreikningi áfrýjanda á aflahlut áhafnar Ófeigs.
Samkvæmt grein 1.03 í framangreindum kjarasamningi er það grundvallarregla, að skipverjum skuli tryggt hæsta gangverð fyrir aflann, sbr. einnig lög nr. 24/1986. Samkvæmt útreikningum Verðlagsstofu skiptaverðs var verð það, sem fékkst fyrir afla Ófeigs VE-325 á erlendum mörkuðum mun hærra en verð það, sem áfrýjandi kveðst hafa fengið fyrir aflann hjá Blábergi ehf. Hefur ekki verið sýnt fram á, að útreikningar Verðlagsstofu hafi verið rangir. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Stígandi ehf., greiði stefnda, Bergi Páli Kristinssyni, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 5. janúar 2001.
Mál þetta höfðaði Bergur Páll Kristinsson, kt. 060160-4659, Búhamri 31, Vestmannaeyjum, með stefnu birtri 7. júní 2000 á hendur Stíganda ehf., kt. 550371-0309, Básaskersbryggju 3, Vestmannaeyjum. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 19. desember sl.
Stefnandi krefst greiðslu á kr. 901.161 með dráttarvöxtum af kr. 169.155 frá 15. ágúst 1999 til 15. september sama ár, af kr. 326.923 frá þeim degi til 15. október sama ár, af kr. 417.424 frá þeim degi til 15. nóvember sama ár, af kr. 605.903 frá þeim degi til 15. desember sama ár og af kr. 901.161 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samtals að fjárhæð kr. 309.133. Loks krefst hann þess að viðurkenndur verði sjóveðréttur í vélskipinu Ófeigi VE-325, skipaskrárnúmer 2030, til tryggingar dómkröfunum.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins.
Stefnandi var skipverji á skipi stefnanda, Ófeigi VE. Hann telur að hlutur sinn á tímabili á árinu 1999 hafi verið reiknaður of lágur og krefur um mismun þann sem hann telur þar á vera.
Málsatvik og helstu gögn.
Í máli þessu krefur stefnandi um mismun á þeim hlut sem honum var greiddur og þeim hlut sem hann telur að sér hafi borið. Hann gerir kröfu vegna launagreiðslna mánuðina júlí til nóvember 1999. Hann gegndi þá stöðu 2. stýrimanns á Ófeigi VE-325, sem stefndi á og gerir út. Í nokkrum veiðiferðum gegndi hann þó stöðu 1. stýrimanns. Í hnotskurn snýst ágreiningur aðila um það hvort söluverð afla samkvæmt reikningum til Blábergs ehf. skuli lagt til grundvallar útreikningi aflahlutar, eða það verð sem Bláberg ehf. fékk fyrir aflann við sölu á erlendum mörkuðum.
Stefnandi og fleiri skipverjar leituðu Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi í Vestmannaeyjum. Það leiddi til þess að með skeyti 10. janúar 2000 óskaði Farmanna- og fiskimannasambandið eftir því við Verðlagsstofu skiptaverðs að könnuð yrðu launauppgjör áhafnarinnar. Hóf Verðlagsstofa könnun á launauppgjörum fyrir það tímabil sem deilt er um í máli þessu, þ.e. mánuðina júlí til nóvember 1999.
Verðlagsstofa skiptaverðs óskaði upplýsinga hjá stefnda með bréfi dagsettu 10. febrúar 2000. Í bréfinu er sagt að Verðlagsstofa hafi til könnunar uppgjör áhafnar Ófeigs á umræddu tímabili. Tilgangurinn sé að kanna hvort misræmis gæti milli söluverðs afla annar vegar og grunns að útreikningi á aflahlut. Með bréfinu fylgdi eyðublað sem fyllt hafði verið út að hluta til samkvæmt upplýsingum sem tiltækar voru. Þá var á blaðinu áætlaður kostnaður við sölu erlendis 12% af söluverði. Var stefnda í bréfinu sérstaklega bent á að hann ætti kost á að leiðrétta þessa áætlun.
Stefndi svaraði Verðlagsstofu með bréfi dagsettu 23. febrúar 2000. Bréfið er undirritað af Díönnu Einarsdóttur f.h. Stíganda ehf. Þar segir m.a.:
" Nokkur munur er á aflaverðmæti til uppgjörs skv. upplýsingum Verðlagsstofu og raunverulegu aflaverðmæti til uppgjörs. Skýringin á því er helst sú að Stígandi ehf., sem en útgerðaraðili Ófeigs VE er ekki eigandi aflans við sölu á honum erlendis. Eigandi aflans við sölu erlendis er Bláberg ehf. kt. 520697-2419. Stígandi ehf. selur Blábergi ehf. aflann skv. útgefnum reikningum og vigt erlendis og gert er upp við áhöfn skv. þeirri sölu. Til viðbótar þessari skýringu er síðan einnig munur milli mánaða þ.e. hvaða sölur eru gerðar upp í hverjum mánuði. Meðfylgjandi sendi ég ný VSS 1.1. eyðublöð "
Með bréfi dagsettu 10. mars 2000 kynnti Verðlagsstofa þá niðurstöðu sína að á umræddu tímabili hefði hásetahlutur verið vanreiknaður um kr. 817.032.
Á þessu tímabili var afli seldur í litlum mæli á markaði innanlands og til nokkurra innlendra aðila. Mestur hluti aflans var seldur Blábergi ehf., sem síðan seldi aflann á markaði í Bretlandi. Var aflinn ísaður í kassa og annaðist áhöfn Ófeigs VE löndun og frágang í gáma.
Stefndi kærði niðurstöðu Verðlagsstofu til Sjávarútvegsráðuneytis. Byggði hann kæru sína á þremur atriðum. Í fyrsta lagi hefði hann ekki notið andmælaréttar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga áður en Verðlagsstofa ákvað að sala til Blábergs ehf væri málamyndasala. Þá hefði ákvörðun ekki verið rökstudd. Loks taldi stefndi að efnislega væri niðurstaða Verðlagsstofu röng þar sem sala aflans til Blábergs væri lögleg.
Í bréfi Verðlagsstofu til ráðuneytisins kemur fram ítarleg frásögn af málsmeðferð og forsendum fyrir niðurstöðum hennar. Bréfið er dagsett 17. maí 2000 og segir þar m.a.:
"Með tilvísun í 6. gr. l. nr. 13/1998 sendi Verðlagsstofa þann 10. feb. sl. bréf til Stíganda ehf. ásamt eyðublaði VSS 1.1 með upplýsingum frá Fiskistofu um landað aflamagn og verðmæti afla Ófeigs VE-325 fyrir tímabilið 1. júlí - 30. nóv. 1999. Á eyðublaðinu kom jafnframt fram, samkvæmt upplýsingum frá lögskráningu, fjöldi í áhöfn. Á sama blaði var síðan reiknaður út einn hásetahlutur út frá gögnum Fiskistofu og lögskráningar. Í bréfi VSS og fylgigögnum þess kom fram hvaðan upplýsingar voru fengnar og jafnframt var þess getið að sölukostnaður vegna markaðssölu væri áætlaður. Útgerð gafst kostur á að leiðrétta áætlaðan sölukostnað og senda inn frekari upplýsingar.
Í bréfi dagsettu 23. feb barst svar frá útgerð þar sem fram kom að nokkur munur væri á aflaverðmæti til uppgjörs skv. upplýsingum Verðlagsstofu og raunverulegu aflaverðmæti til uppgjörs. Skýringin á því væri helst sú að Stígandi ehf. væri ekki eigandi aflans við sölu á honum erlendis, heldur Bláberg ehf (þ.e. afli talinn seldur frá Stíganda til Blábergs og frá Blábergi á markaði). Jafnframt fylgdu með leiðrétt VSS 1.1 eyðublöð og afrit af launaseðlum. Við athugun VSS á útfylltu eyðublaði frá útgerð kom í ljós að um óverulegar breytingar var að ræða á aflamagni milli þess og eyðublaðs VSS, aðallega tilfærslu í kringum mánaðamót. Jafnframt voru óverulegar breytingar gerðar varðandi fjölda í áhöfn. Verðlagsstofa tók allar þessar breytingar til greina og lagfærði eyðublað VSS 1.1 með tilliti til þess. Verðlagsstofa tók hins vegar ekkert tillit til breytinga sem gerðar voru varðandi söluverð á einingu (kr/kg), en þar studdist hún áfram við upplýsingar Fiskistofu um sölu til markaða en ekki sölu til Blábergs ehf.
Með því að færa inn leiðréttingar útgerðar varðandi magn og fjölda í áhöfn áleit stofan að málinu væri lokið af hennar hálfu, en Verðlagsstofa taldi aflasölu til Blábergs augljóst yfirvarp til að lækka réttmætt skiptaverð til áhafnar. Forsendur voru þær að engin vinnsla eða virðisaukning var talin eiga sér stað á aflanum hjá Blábergi ehf."
Því er síðan lýst í bréfi Verðlagsstofu að hún hafi talið nægilegt í umræddu máli að beita reglu 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um eftirfarandi rökstuðning.
Ekki er ástæða til að taka upp frekari efnisatriði eða skýringar úr bréfi Verðlagsstofu, en þó má telja til upplýsinga um ágreiningsefni málsins að taka upp rökstuðning fyrir efnisniðurstöðu:
" Meðfylgjandi gögn staðfesta álit Verðlagsstofu að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða:
A) Staðfesting Fiskistofu um að engin gögn hafi borist frá Blábergi ehf. varðandi kaup eða sölu fiskafla.
B) Staðfesting yfirmanna um að afli færi beint frá áhöfn í gáma án endurvinnslu Blábergs ehf.
C) Afrit af ársreikningi Blábergs ehf. þar sem kaup á veiðiheimildum koma fram, en vert er að vekja athygli á að Bláberg gerir ekki út neinn bát.
D) Afrit af ársreikningi Stíganda ehf, en þar kemur ekki fram sérstaklega kaup á veiðiheimildum árin 1997 og 1998, sbr. lið C. Aftur á móti kemur þar fram sala á veiðiheimildum (þ.e. sala er eingöngu færð hjá Stíganda, en kaupin virðast færð hjá Blábergi).
E) Skjal sem sýnir eigendur og stjórn Blábergs ehf, en félagið er í eigu Þorsteins Viktorssonar og maka hans Díönnu Einarsdóttur. Augljós tengsl eru á milli Stíganda ehf og Blábergs ehf þar sem Viktor, faðir Þorsteins, rekur Stíganda ehf."
Sjávarútvegsráðuneyti vísaði kæru stefnda frá með úrskurði dagsettum 18. júlí 2000. Hinn 25. ágúst leitaði stefndi með málið til Umboðsmanns Alþingis. Með bréfi til lögmanns stefnda, dagsettu 26. september 2000, kvaðst Umboðsmaður hafa ákveðið að ljúka að sinni athugun á kvörtun stefnda. Vísar Umboðsmaður í bréfi sínu til b-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.
Eins og fram kemur í lýsingu á málsástæðum aðila var gert fiskverðssamkomulag milli stefnda og áhafnar Ófeigs þann 17. september 1998. Ekki er að neinu leyti byggt á þessu samkomulagi í málatilbúnaði aðila og sýnist því ekki nauðsynlegt að reifa efnisatriði samkomulagsins.
Stefndi lagði fram í málinu yfirlýsingu Hafsteins Gunnarssonar, löggilts endurskoðanda, þar sem segir að ekki séu nein eignatengsl milli lögaðilanna Stíganda ehf. og Blábergs ehf.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi kveðst hafa gegnt stöðu 2. stýrimanns og í afleysingum stöðu 1. stýrimanns á skipi stefnanda, Ófeigi VE. Um kjör sín hafi gilt kjarasamningur FFSÍ og LÍÚ, sem að stofni til sé frá árinu 1998. Hann telur að uppgjör til sín fyrir mánuðina júlí til og með nóvember 1999 hafi ekki verið byggð á réttu skipaverði, svo sem það sé skilgreint í kjarasamningnum, sbr. 1. gr. laga nr. 24/1986.
Stefnandi kveðst byggja á niðurstöðu Verðlagsstofu skiptaverðs um það hvernig stefnda hafi borið að reikna aflahlut sinn á tímabilinu. Hann telur að uppgjör verði ekki byggt á sölu afla skipsins til annarra en þeirra aðila sem kaupi á markaði erlendis, en ekki á skráðum sölum til Blábergs ehf. Slíkar sölur séu til málamynda og ekki gerðar til annars en að hlunnfara áhöfn skipsins.
Stefnandi mótmælir því að samkomulag um fiskverð sem gert var 17. september 1998 verði lagt til grundvallar. Að því marki sem það geti falið í sér lægra skiptaverð en gildandi kjarasamningur gerði ráð fyrir sé samkomulagið ekki skuldbindandi, sbr. 1. gr. laga nr. 24/1986.
Stefnukrafa er sundurliðuð eftir uppgjörstímabilum svo:
|
Tímabil |
Aflahlutur skv. útreikningi |
Aflahlutur skv. uppgjöri stefnda |
Mismunur ógreiddur: |
|
Júlí 1999 |
517.051,00 |
347.896,00 |
169.155,00 |
|
Ágúst 1999 |
806.505,00 |
648.737,00 |
157.768,00 |
|
Sept.1999 |
739.056,00 |
648.737,00 |
90.319,00 |
|
Okt. 1999 |
740.167,00 |
551.506,00 |
188.661,00 |
|
Nóv. 1999 |
997.333,00 |
702.075,00 |
295.258,00 |
|
Samt. júl-nóv. |
3.800.112,00 |
2.898.951,00 |
901.161,00 |
Mismunur er hér tilgreindur að meðtöldu 10,17% orlofi. Dráttarvaxta krefst stefnandi af hverri fjárhæð frá 15. degi næsta mánaðar.
Loks vísar stefnandi almennt til 27. - 32. gr. sjómannalaga, svo og 36. gr., en stefnandi var óvinnufær vegna veikinda um tíma í nóvember 1999. Kröfu um viðurkenningu sjóveðréttar byggir hann á 1. tl. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Um málskostnað vísar hann til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi í máli þessu, Stígandi ehf., kveður hjónin Viktor Berg Helgason og Stefaníu Þorsteinsdóttur eiga allt hlutafé í félaginu. Félagið eigi og geri út Ófeig VE-325. Afla skipsins hafi að mestu verið ráðstafað með beinni sölu innanlands. Langmest hafi einkahlutafélagið Bláberg keypt. Það félag sé alfarið í eigu Þorsteins Viktorssonar, framkvæmdastjóra stefnda, og eiginkonu hans, Díönnu Þyríar Einarsdóttur. Félag þetta hafi ýmsa aðra starfsemi með höndum.
Stefndi mótmælir því að sala afla Ófeigs VE til Blábergs ehf. hafi verið ólögmæt og til málamynda. Að því leyti sem ágreiningur sé í þessu máli sé um að ræða sölu afla beint til Blábergs ehf. Því skipti söluverðið meginmáli við útreikning aflahlutar.
Stefndi tekur til samanburðar í greinargerð sinni dæmi af niðurstöðu úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna í tilteknu máli um söluverð afla Ljósafells SU-70. Hafi þar verið lögð fyrir ákveðin grunnverð er hafi gilt sem 85% af greiddu verði, en 15% hafi verið fundin sem meðalverð á nokkrum fiskmörkuðum. Lýsir hann dæminu og segir að það sýni að fiskverð sé ákveðið mjög mismunandi eftir því hvert afla sé ráðstafað.
Þegar afli sé seldur til innlendra aðila skipti meginmáli um verð hvort honum sé ráðstafað til vinnslu eða ekki. Sé ráðstafað til vinnslu hafi verið talið eðlilegt að miða við verð á fiskmörkuðum á viðkomandi svæðum. Stefndi telur sig hafa sýnt fram á að söluverð til Blábergs ehf. sé ekki lægra en söluverð á Fiskmarkaði Vestmannaeyja. Vísar hann í þessu sambandi til laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og 1. gr. laga nr. 24/1986. Ekki sé ágreiningur um að launauppgjör sé í samræmi við söluverð til Blábergs ehf.
Stefndi bendir á að hann og áhöfn Ófeigs VE hafi gert með sér sérstakt fiskverðssamkomulag, dagsett 17. september 1998. Söluverð á því tímabili sem um sé deilt hafi í öllum tilvikum verið hærra en þar sé miðað við.
Loks krefst stefndi sýknu sérstaklega á þeim grundvelli að gögn þau sem stefnandi reisi kröfur sínar á séu byggð á röngum forsendum. Verðlagsstofa hafi með bréfi til sín 10. febrúar 2000 leitað upplýsinga. Hafi þar verið sagt að tilgangurinn væri sá að kanna hvort misræmi væri á milli söluverðs afla annars vegar og grunns að útreikningi hlutar skipverja hins vegar. Kveðst stefndi hafa svarað erindinu með bréfi 25. sama mánaðar. Jafnframt hafi verið gefið vilyrði um frekari upplýsingar ef óskað væri. Verðlagsstofa hafi hins vegar ekki leitað frekari upplýsinga heldur byggt niðurstöður sínar alfarið á upplýsingum frá Fiskistofu um söluverð aflans erlendis. Upplýsingar sem Fiskistofa safni saman séu ætlaðar til opinberrar skýrslugerðar í samræmi við verksvið Fiskistofu, eins og það sé afmarkað í lögum nr. 36/1992. Aldrei áður hafi verið höfðað mál á grundvelli þeirra talna sem Fiskstofa gefi nú út, en Fiskifélagið hafi áður gefið út. Ekkert liggi fyrir í gögnum Fiskistofu um raunverulegan sölu- og markaðskostnað, uppgjörsgengi o.fl., heldur virðist Verðlagsstofa áætla þennan kostnað að eigin frumkvæði. Telur stefndi þetta vera mistök því Verðlagsstofa hafi heimildir til að sækja þessar upplýsingar. Vísar stefndi hér til laga nr. 13/1998. Kveðst stefndi hafa kært málsmeðferð Verðlagsstofu til Sjávarútvegsráðherra, en kærunni hafi verið vísað frá þar sem mál þetta og önnur samhliða höfðu verið höfðuð. Þá ákvörðun kveðst hann nú hafa kært til Umboðsmanns Alþingis.
Niðurstaða.
Með bréfi sínu 10. mars 2000 um hver væri eðlilegur grundvöllur til útreiknings aflahlutar stefnanda og annarra skipverja á Ófeigi VE lýsti Verðlagsstofa skiptaverðs áliti sínu, en kvað ekki á með bindandi hætti um réttindi aðila og skyldur. Málssókn stefnanda byggir á þeim sönnunargögnum sem hann hefur lagt fram og verður málið dæmt á grundvelli þeirra málsástæðna sem aðilar bera fram. Þannig verður dómurinn að leggja sjálfstætt mat á það hvort stefnda hafi verið heimilt að byggja launauppgjör á söluverði afla til Blábergs ehf., en ekki dugar að leysa úr því hvort Verðlagsstofa hafi gætt réttra stjórnsýsluaðferða er hún komst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki.
Samkvæmt 1., 2. og 3. gr. laga nr. 24/1986 skal skiptaverðmæti afla reiknað frá því verði sem útgerðin fær fyrir aflann, með misjöfnu hlutfalli eftir því hvernig afla er ráðstafað. Meginreglan er skýr í 1. gr. Reiknað skal frá heildarverði, með tilgreindum frádrætti samkvæmt 3. gr. þegar afli er sendur með öðru skipi til sölu erlendis.
Samkvæmt grein 1.03 í kjarasamningi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna skal yfirmönnum tryggt hæsta gangverð alls sem aflað er. Síðan segir að útgerðarmaður hafi með höndum sölu aflans og hafi til þess umboð áhafnar að því er aflahlut hennar varðar.
Samkvæmt skilgreiningu áðurnefnds kjarasamnings er ekki augljóst að stefndi og Bláberg ehf. séu skyldir aðilar. Við nánari könnun blasir skyldleikinn þó við. Þorsteinn Viktorsson er hluthafi í Blábergi auk eiginkonu sinnar, en bæði eru þau skráð prókúruhafar fyrir stefnda Stígandi ehf., en foreldrar Þorsteins eru hluthafar í því félagi. Stefndi hefur ekki skýrt viðskiptalegan grundvöll fyrir viðskiptum sínum við Bláberg ehf., þ.e. hvernig verð er fundið í þessum viðskiptum. Ljóst er af bréfi stefnda til Verðlagsstofu, sem hann lagði sjálfur fram, að verðið milli Blábergs og stefnda er reiknað og ákveðið eftir að upplýsingar um sölu og þar með söluverð erlendis eru fengnar. Er augljóslega um að ræða viðskipti þar sem öll sagan er ekki sögð í þeim reikningsafritum sem stefndi hefur lagt fram í málinu. Er ekki að neinu leyti á þeim söluverðum sem þar eru tilgreind byggjandi við útreikning á aflahlut áhafnar Ófeigs VE, þ.á.m. aflahlutar stefnanda. Áhöfn Ófeigs VE gekk frá aflanum til útflutnings í gámum og starfsmenn Blábergs ehf. komu þar ekki við sögu.
Við munnlegan málflutning lagði lögmaður stefnda mikla áherslu á að Verðlagsstofu skiptaverðs hefði verið óheimilt að áætla sölukostnað eins og hún gerði, þ.e. að reikna kostnað af sölu afla erlendis 12% af söluverði. Hann hefur þó ekki hirt um að leggja fram nein gögn um þennan kostnað. Telja má að honum hafi verið í lófa lagið þegar er hann svaraði Verðlagsstofu í febrúarmánuði 2000 að leggja fram yfirlit um kostnaðinn. Þá gat hann við rekstur þessa máls komið slíkum upplýsingum fram í formi rökstuðnings fyrir varakröfu. Hann hefur kosið að gera það ekki.
Stefnandi hefur ekki verið upplýstur um kostnað af sölu afla úr Ófeigi VE á umræddu tímabili. Hann lækkar kröfur sínar um 12% til að mæta þeim kostnaði af sölu erlendis sem útgerðarmanni er heimilt að draga frá óskiptu. Stefndi hefur ekki með neinum gögnum sýnt fram á að þessi viðmiðun sé fjarstæð. Verður andmælum hans um þetta atriði því ekki sinnt frekar.
Samkvæmt þessu verða kröfur stefnanda teknar til greina. Málskostnaður ákveðst kr. 300.000. Virðisaukaskattur er þar innifalinn.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndi, Stígandi ehf., greiði stefnanda, Bergi Páli Kristinssyni, kr. 901.161 með dráttarvöxtum af kr. 169.155 frá 15. ágúst 1999 til 15. september sama ár, af kr. 326.923 frá þeim degi til 15. október sama ár, af kr. 417.424 frá þeim degi til 15. nóvember sama ár, af kr. 605.903 frá þeim degi til 15. desember sama ár og af kr. 901.161 frá þeim degi til greiðsludags og kr. 300.000 í málskostnað.
Stefnandi á sjóveðrétt í vélskipinu Ófeigi VE-325, skipaskrárnúmer 2030, til tryggingar framangreindum fjárhæðum.