Hæstiréttur íslands
Mál nr. 230/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Útivist í héraði
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 29. apríl 2014. |
|
Nr. 230/2014.
|
Arion banki hf. (Þorsteinn Ingi Valdimarsson hdl.) gegn Guðmundu Áslaugu Geirsdóttur og Snorra Sturlusyni (enginn) |
Kærumál. Útivist í héraði. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli A hf. gegn G og S var vísað frá dómi. Af hálfu G og S var ekki sótt þing við þingfestingu málsins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að engir gallar væru á málatilbúnaði sem varðað gætu frávísun þess af sjálfsdáðum. Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 hafi dómara því borið að dæma málið á hendur G og S eftir kröfum og málatilbúnaði A hf. að því leyti sem var samrýmanlegt framkomnum gögnum.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. mars 2014, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum málsins varð sóknaraðili hæstbjóðandi er fasteignin Bugðulækur 3 í Reykjavík var seld nauðungarsölu á uppboði 27. febrúar 2012. Boð hans var samþykkt af sýslumanni 23. apríl sama ár og gaf hann út afsal til sóknaraðila 21. júní þetta ár. Jafnframt kemur fram í gögnunum að varnaraðilar hafi þá haft þar heimili sitt. Sóknaraðili sendi þeim símskeyti 5. júní 2012 þar sem upplýst var um að hann væri orðinn eigandi fasteignarinnar og óskaði eftir því að þau rýmdu hana í síðasta lagi 2. júlí sama ár. Að öðrum kosti myndi hann leitast við að fá þau borin út úr eigninni. Áskildi sóknaraðili sér einnig rétt til að höfða mál vegna vangoldinnar húsaleigu varnaraðila.
Sóknaraðili sendi 14. ágúst 2012 beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur um að varnaraðilar yrðu borin út úr eigninni. Áður en hún var tekin fyrir átti sóknaraðili í samskiptum við varnaraðilann Snorra. Í tölvubréfi sóknaraðila til hans 17. október 2012 var meðal annars vísað til þess að í samtölum þeirra hefði komið fram að varnaraðilar hefðu áhuga á því að leigja fasteignina tímabundið á meðan þau fyndu sér annan samastað. Bauð sóknaraðili að gerður yrði tímabundinn leigusamningur og að ,,Leigufjárhæðin yrði 150þ á mánuði + rafmagn og hiti.“ Þessu svaraði varnaraðilinn Snorri meðal annars svo: ,,Já ég vil skrifa undir leigusamning þessi er samt frekar hár en látum það liggja á milli hluta.“ Sóknaraðili vakti athygli varnaraðila á því 22. október 2012 að þá ætti enn eftir að undirrita leigusamning um eignina. Varnaraðilinn Snorri gerði samdægurs ýmsar athugsemdir við efni væntanlegs leigusamnings, þó ekki við leigufjárhæðina, sem tiltekin hafði verið 150.000 krónur á mánuði. Daginn eftir sendi sóknaraðili, með vísan til samtals, leigusamning til undirritunar. Ekki var þó gerður skriflegur leigusamningur með aðilum og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2012 var fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðilar skyldu bornir út úr fasteigninni. Sóknaraðili beindi útburðarbeiðni 13. desember 2012 til sýslumannsins í Reykjavík. Beiðnin var tekin fyrir 22. janúar, 6. febrúar og 25. mars 2013 og var alltaf mætt af hálfu varnaraðila og óskað eftir fresti til þess að rýma húsnæðið. Er málið var tekið fyrir í fjórða sinn 8. apríl sama ár var á hinn bóginn ekki mætt af þeirra hálfu og fór þá útburðargerðin fram og sóknaraðili fékk umráð eignarinnar.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi með birtingu stefnu fyrir varnaraðilum 25. september og 1. október 2013. Ekki var mætt af þeirra hálfu við þingfestingu málsins 9. október sama ár og var málið þá dómtekið. Sóknaraðili krefst aðallega húsaleigu fyrir tímabilið 23. apríl 2012, er hann telur sig hafa eignast fasteignina við að boð hans var samþykkt, til 8. apríl 2013, er hann fékk umráð hennar eftir að varnaraðilar höfðu rýmt hana. Sóknaraðili kveður leigusamning hafa verið í gildi milli sín og varnaraðila, þótt hann hafi ekki verið skriflegur og vísar í því sambandi til 10. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Hann reisir mál sitt einnig á því að varnaraðilar hafi samþykkt umkrafða leigufjárhæð, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Hún sé að auki sanngjörn. Hann kveður leiða af 1. mgr. 69. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 að báðir varnaraðilar séu bundnir af samþykki varnaraðilans Snorra á leigufjárhæðinni.
Varnaraðilar hafa átt þess kost að tefla fram vörnum gegn kröfu sóknaraðila og þeim grundvelli, sem mál hans er reist á, en ekki nýtt sér þann rétt. Við þingfestingu málsins lagði sóknaraðili fram gögn um samskipti sín við varnaraðila og önnur gögn er málið varða. Eru engir þeir gallar á málatilbúnaði sóknaraðila að varða eigi frávísun þess af sjálfsdáðum, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991. Bar samkvæmt því ákvæði að leggja dóm á málið að því leyti sem krafan er samrýmanleg þeim gögnum, sem hún er reist á.
Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Ákvörðun um málskostnað í héraði bíður efnisdóms. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. mars 2014.
Mál þetta, sem höfðað var 25. september 2013 á hendur stefndu Guðmundu Áslaugu Geirsdóttur, Sunnuflöt 41, Garðabæ, og 1. október 2013 á hendur stefnda Snorra Sturlusyni, til heimilis á sama stað, var dómtekið í kjölfar útivistar stefndu á þingfestingardegi 9. október 2013.
Kröfur stefnanda eru aðallega að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda 1.720.000 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 1.720.000 krónum frá 4. ágúst 2013 til greiðsludags.
Til vara krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda skaðabætur að álitum ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. ágúst 2013 til greiðsludags.
Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu.
I
Í stefnu er málavöxtum svo lýst að 27. febrúar 2012 hafi fasteignin Bugðulækur 3 í Reykjavík, fastanúmer 201-6652 verið seld nauðungarsölu á framhaldsuppboði. Þinglýstur eigandi fasteignarinnar við nauðungarsöluna hafi verið Irma Sjöfn Óskarsdóttir, kt. 121161-5409. Hæstbjóðandi á uppboðinu hafi verið stefnandi og samþykkisfrestur hafi verið veittur til 23. apríl 2012. Með afsali 21. júní 2012 hafi því verið lýst yfir af hálfu sýslumannsins í Reykjavík að þar sem stefnandi hefði efnt boð sitt væri bankinn réttur og löglegur eigandi eignarinnar. Umrædda fasteign segir stefnandi 124 m² samkvæmt Fasteignaskrá Íslands. Fasteignamat eignarinnar árið 2013 hafi verið 27.700.000 krónur.
Stefnandi kveður stefndu hafa búið í fasteigninni við nauðungarsöluna. Með bréfi 5. júní 2012 hafi stefnandi skorað á þau að rýma eignina og skila lyklum að henni fyrir 2. júlí sama ár. Stefndu hafi engin viðbrögð sýnt við bréfinu og því hafi stefnandi afráðið að senda aðfararbeiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur í því skyni að afla útburðarheimildar á hendur stefndu. Um miðbik október 20012 hafi aðilar verið boðaðir til þingfestingar aðfararbeiðninnar 26. október 2012. Í framhaldinu hafi stefndi Snorri haft samband við fulltrúa stefnanda og viðrað hugmyndir um áframhaldandi dvöl stefndu í eigninni. Í framhaldinu hafi fulltrúi stefnanda sent tölvupóst til stefnda Snorra þar sem lagt hafi verið til að gerður yrði skriflegur tímabundinn leigusamningur um eignina í nokkra mánuði, auk greiðslna fyrir rafmagn og hita. Síðar sama dag hafi stefndi Snorri svarað tölvupósti fulltrúa stefnanda og samþykkt þessa tilhögun, þ.m.t. varðandi fjárhæð leigunnar. Í framhaldinu hafi töluverð samskipti átt sér stað milli stefnda Snorra og fulltrúa stefnanda varðandi undirritun á skriflegum leigusamningi. Hafi svo farið að útbúinn var leigusamningur og hafi afrit hans verið sent til stefnda Snorra með tölvubréfi 23. október 2012. Um hafi verið að ræða hefðbundinn leigusamning um íbúðarhúnsæði, tímabundinn frá 1. október 2012 til 31. janúar 2013. Skv. 7. gr. samningsins skyldi leiguverð vera 150.000 krónur á mánuði líkt og stefndi Snorri hefði samþykkt með tölvubréfi 17. október 2012. Stefndu hafi hins vegar ekki sinnt boðum stefnanda um undirritun samningsins og því hafi farið svo að skriflegur samningur um afnot stefndu af eigninni var aldrei gerður.
Hinn 26. október 2012 hafi mál vegna aðfararbeiðni stefnanda verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur. Stefndu hafi ekki sótt þing við þingfestingu þrátt fyrir lögmæta boðun og hafi málið því verið tekið til úrskurðar að kröfu stefnanda. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2012 hafi stefnanda verið veitt heimild til að fá stefndu borin út úr fasteigninni með beinni aðfarargerð. Á grundvelli heimildarinnar hafi stefnandi sent beiðni um útburð á hendur stefndu til sýslumannsins í Reykjavík 13. desember 2012. Beiðnin hafi fyrst verið tekin fyrir hjá sýslumanni 22. janúar 2013 en stefndu hafi þá óskað eftir því að gerðinni yrði frestað, enda gætu þau ekki rýmt eignina fyrir 1. febrúar 2013. Stefndu hafi hins vegar ekki staðið við loforð um að rýma fyrir þann dag og því hafi beiðnin aftur verið tekin fyrir 6. febrúar 2013. Aftur hafi fulltrúi stefnda óskað eftir fresti fyrir þeirra hönd, enda myndu þau fá afhent húsnæði innan tveggja vikna. Stefndu hafi enn ekki orðið við loforði um rýmingu eignarinnar og því hafi beiðnin verið tekin fyrir á ný 25. mars 2013. Enn og aftur hafi stefndu óskað eftir fresti og hafi verið afráðið að fresta málinu til útburðar á stefndu úr eigninni. Stefndu hafi síðan verið borin út úr fasteigninni 8. apríl 2013 og stefnanda afhentir lyklar að eigninni með atbeina sýslumanns.
Með bréfi stefnanda 4. júlí 2013 hafi stefndu verið krafin um greiðslu fyrir afnot fasteignarinnar frá þeim tíma sem stefnandi fékk rétt til umráða yfir eigninni og þar til hún var rýmd, þ.e. frá 23. apríl 2012 til 8. apríl 2013. Í bréfinu hafi komið fram að stefnandi teldi hóflegt leiguverð fyrir afnot eignarinnar vera 150.000 krónur á mánuði. Þá hafi stefnandi tiltekið að ef greiðsla hefði eigi borist honum innan tíu daga frá dagsetningu bréfsins yrði krafan innheimt með atbeina dómstóla.
Þar sem skuldin hafi ekki verið greidd af hálfu stefndu, þrátt fyrir innheimtutilraunir, hafi málshöfðun reynst nauðsynleg.
II
Kröfur sínar byggir stefnandi á því að með afnotum af fasteigninni að Bugðulæk 3, fastanúmer 201-6652, þar sem stefndu hafi búið ásamt börnum sínum, í tæplega 12 mánuði, eða frá 23. apríl 2012 til 8. apríl 2013, hafi stefndu stofnað til skuldar við stefnanda. Stefnandi hafi verið réttmætur eigandi fasteignarinnar á þessu tímabili. Boð stefnanda í fasteignina á nauðungarsölunni hafi verið samþykkt 23. apríl 2012 en frá þeim tíma hafi stefnandi, sem kaupandi eignarinnar, notið réttar til umráða yfir henni, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 28. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sem fyrr segi hafi fasteignin verið rýmd með atbeina sýslumanns 8. apríl 2012. Stefnandi hafi aldrei heimilað endurgjaldslaus afnot stefndu af fasteigninni á því tímabili sem stefndu dvöldu í henni.
Stefnandi reisi kröfu sína í fyrsta lagi á því að hann hafi gert samning við stefnda um afnot þeirra af eigninni gegn greiðslu leigu. Þessi leigusamningur hafi hafist þegar stefnandi eignaðist rétt til umráða yfir eigninni 23. apríl 2012 og honum lokið þegar eignin hafi verið rýmd með atbeina sýslumanns 8. apríl 2013. Ákvæði 10. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 mæli fyrir um að hafi aðilar vanrækt að gera skriflegan leigusamning um húsnæði teljist þeir hafa gert ótímabundinn leigusamning. Gildi þá öll ákvæði húsaleigulaga um réttarsamband aðila, þ.m.t. um skyldu leigutaka til að greiða leigusala fyrir afnot af húsi, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Af þeim sökum beri stefndu að greiða stefnanda leigu fyrir afnot sín af húsnæðinu á tímabilinu frá því stefnandi eignaðist fyrst rétt til umráða yfir eigninni, þ.e. frá 23. apríl 2012, og þar til húsnæðið var rýmt með atbeina sýslumanns 8. apríl 2013, enda hafi stefnandi aldrei heimilað stefndu endurgjaldslaus afnot eignarinnar. Áréttar stefnandi í þessu sambandi að útbúinn hafi verið skriflegur leigusamningur fyrir hluta tímabilsins og hafi hann verið tilbúinn til undirritunar. Stefndu hafi hins vegar ekki sinnt boðum stefnanda um undirritun samningsins og því hafi aldrei farið svo að gerður hafi verið skriflegur leigusamningur milli aðila um afnot eignarinnar.
Að mati stefnanda sé eðlileg fjárhæð leigu fyrir afnot stefndu af eigninni 150.000 krónur á mánuði. Sú fjárhæð taki mið af tæplega 1.210 krónum fyrir hvern fermetra eignarinnar, en eignin sé 124 m² að flatarmáli samkvæmt upplýsingum frá Fasteignaskrá Íslands. Stefnandi byggi jafnframt á því að stefndu hafi samþykkt leigufjárhæðina og vísar stefnandi um það til tölvubréfs stefnda Snorra til fulltrúa stefnanda 17. október 2012. Leigufjárhæðin sé því óumdeild í skilningi 2. mgr. 10. gr. laga nr. 36/1994. Þá hafi stefnandi verið í góðri trú um að stefndi Snorri hefði umboð og heimild til að semja við stefnanda fyrir hönd beggja stefndu og beri að leggja það til grundvallar við úrlausn málsins. Sérstaklega að því gættu að skv. 1. mgr. 69. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 beri báðir aðilar í hjónabandi ábyrgð á samningum um leigu húsnæðis sem ætlað sé til sameiginlegs heimilishalds hjóna. Samkvæmt þessu ákvæði hafi það enga efnislega þýðingu í málinu hvort það hafi verið stefndi Snorri eða stefnda Guðmunda sem samið hafi um fjárhæð leigunnar við stefnanda.
Verði ekki fallist á að leigufjárhæðin sé óumdeild byggi stefnandi á því að sú fjárhæð sem stefnandi krefji stefndu um, þ.e. 1.210 krónur á hvern m² eignarinnar (150.000 krónur á mánuði), sé hagfellt, hóflegt og sanngjarnt í samanburði við það sem gangi og gerist með sambærilegar eignir, sbr. m.a. meginreglu 45. gr. laga nr. 50/2000. Að mati stefnandi skuli meginreglunni beitt með lögjöfnun, sem leiði til þess að stefndu hafi sönnunarbyrði fyrir því að leiguverðið sem stefnandi krefji þau um sé ósanngjarnt.
Miðað við ofangreindar forsendur, þ.e. að mánaðarleg leigufjárhæð nemi 150.000 krónum á mánuði, nemi skuld stefndu við stefnanda fyrir tímabilið 23. apríl 2012 til 8. apríl 2013, samtals 1.720.000 krónum. Þá sé miðað við að stefndu greiði leigu fyrir sjö daga í apríl 2012 og 2013.
Stefnandi byggi í öðru lagi á því sakarregla skaðabótaréttar leiði til greiðsluskyldu stefndu. Sakarreglan sé almennt skilgreind svo að maður beri skaðabótaábyrgð á tjóni sem hann valdi með saknæmum og ólögmætum hætti enda sé tjónið sennilega afleiðing af hegðun hans og raski hagsmunum, sem verndaðir séu með skaðabótareglum. Að mati stefnanda séu öll hugtaksatriði skilgreiningarinnar uppfyllt vegna þeirrar háttsemi stefndu að hafa aðsetur sitt, ásamt fjölskyldu sinni, í fasteigninni án heimildar frá stefnanda og neita að rýma fasteignina þrátt fyrir tilmæli stefnanda þar að lútandi.
Að mati stefnanda verði að telja þá háttsemi saknæma og ólögmæta að dveljast í fasteign í eigu þriðja aðila, án heimildar frá þeim aðila, í tæplega 12 mánuði. Stefnandi telji einsýnt að stefndu hafi verið að fullu meðvituð um eignarhald stefnanda að fasteigninni strax í kjölfar nauðungarsölu eignarinnar 27. febrúar 2012. Þá hafi stefndu verið sent sérstakt skeyti 5. júní 2012 þar sem skorað hafi verið á þau að rýma eignina. Að þessu gættu sé það mat stefnanda að stefndu hafi ekki getað dulist að fasteignin, sem þau dvöldu í á tímabilinu 23. apríl 2012 til 8. apríl 2013, hafi verið í eigu aðila sem heimilaði ekki endurgjaldslaus not þeirra af fasteigninni.
Framangreind háttsemi stefndu hafi haft þær afleiðingar í för með sér að frá því boð stefnanda í eignina var samþykkt 23. apríl 2012 og fram til þess að eignin var rýmd 8. apríl 2013, hafi stefnandi enga möguleika haft til hagnýtingar eða ráðstöfunar fasteignarinnar, sem stefnandi var þó lögmætur eigandi að. Það liggi því í augum uppi að orsakatengsl séu milli háttsemi stefndu og afleiðinganna sem fylgt hafi í kjölfarið. Vegna þessarar háttsemi stefndu hafi stefnandi orðið fyrir tjóni vegna afnotataps stefnanda af eigninni á þeim tíma sem eignarhald stefnanda var.
Um sjónarmið varðandi fjárhæð tjóns stefnanda vegna háttsemi stefndu vísar stefnandi til fyrri umfjöllunar um hæfilega mánaðarlega greiðslu fyrir leigu á fasteigninni. Að mati stefnanda sé hóflegt mánaðarverð leigu góður mælikvarði á fjártjón stefnanda, enda hafi stefnandi ekki getað leigt út fasteignina til skilvísra greiðanda á tímabilinu vegna aðgerða, og einkum aðgerðarleysis, stefndu. Verði ekki fallist á þessi sjónarmið stefnanda um fjárhæð tjónsins er í varakröfu stefnanda krafist skaðabóta að álitum. Telur stefnandi að það fáist vart staðist að stefndu komist upp með háttsemi sína bótalaust. Að öllu þessu virtu og einnig það sem fyrr greinir telji stefnandi sig eiga rétt á skaðabótum úr hendi stefndu.
Með bréfi 4. júlí 2013 hafi stefndu verið krafin um greiðslu heildarskuldarinnar. Dráttarvaxta á stefnukröfuna sé því krafist frá 4. ágúst 2013, þ.e. einum mánuði eftir að stefnandi krafði stefnda um greiðslu fjárkröfunnar með fyrrgreindu bréfi, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi einkum til almennra reglna kröfuréttar og meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar segir hann meðal annars fá stoð í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Jafnframt er vísað til sakarreglu skaðabótaréttarins, húsaleigulaga nr. 36/1994, sbr. einkum 1. gr. og 10. gr. laganna, laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, einkum 45. gr. laganna, og 69. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.
III
Af hálfu stefndu hefur ekki verið sótt þing í málinu og var þeim þó löglega birt stefna. Ber því skv. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að dæma málið eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem er samrýmanlegt framkomnum gögnum, nema gallar séu á málinu sem varða frávísun þess án kröfu.
Svo sem fyrr segir reisir stefnandi aðalkröfu sína, um að stefndu verði dæmd til að greiða honum 1.720.000 krónur ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum, á því að stefndu og stefnandi hafi gert með sér samning um afnot stefndu af eigninni gegn greiðslu leigu. Grundvallast málatilbúnaður stefnanda að þessu leyti fyrst og fremst á tölvupósti stefnda Snorra til stefnanda 17. október 2012. Í póstinum segir meðal annars svo: ,,Já ég vil skrifa undir leigusamning þessi er samt frekar hár en látum það liggja á milli hluta“. Var þessi póstur stefnda svar við tölvupósti frá stefnanda sama dag þar sem lagt var til að „... gerður verði tímabundinn leigusamningur um eignina, t.d. til 15. janúar. Leigufjáræðin yrði 150 þ. á mánuði+rafmagn og hiti. Láttu mig vita hvort þetta geti gengið eftir. Ganga þarf frá þessu fyrir 26. okt. nk.“
Fram hjá því verður ekki litið að í tölvupósti sem stefndi Snorri sendi stefnanda sex dögum eftir að hann sendi fyrrgreindan svarpóst, eða 23. október 2013, setti stefndi fram sjónarmið og kröfur um að hann vildi láta gera ákveðnar breytingar, sbr. eftirfarandi: ,,Ég vill að það verði gerðar ákveðnar breytingar á samnignum. t.d Lögmannsstofan mín verður leigjandi enda er hun þar til húsa Svo er það Líka forsenda fyrir undirritun að Karl Óttar eða Hrafn hafi samband samband við mig varðandi uppgjör sem samið var um í tengslum við uppgjör hjá fyrrum eiganda (sem ekki staðist að neinu leyti) Einnig væri gott að fá afrit af samningnum til yfirlestrar áður en ég mæti til undirskriftar.“
Samkvæmt ofansögðu kom til tals milli aðila að stefndu tækju umrædda fasteign á leigu af stefnanda. Þá virðist ljóst að samningaviðræður aðila hafi verið langt komnar. Hins vegar verður ekki á það fallist með stefnanda, að öllu framangreindu virtu, að tölvupóstur stefnda Snorra til stefnanda 17. október 2012 sé til stuðnings þeim málatilbúnaði stefnanda að fullgildur leigusamningur hafi komist á milli aðila. Aðalkrafa stefnanda og málatilbúnaður hans hvað þá kröfu varðar samræmist því ekki framlögðum gögnum. Kröfunni verður því vísað frá dómi ex officio.
Varakrafa stefnanda, um að stefndu greiði honum skaðabætur ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum, byggist á framlögðu yfirliti frá Fasteignaskrá Íslands um stærð umræddrar fasteignar og fullyrðingu stefnanda um að eðlileg fjárhæð leigu fyrir afnot stefnanda af eigninni sé 1.210 krónur fyrir hvern fermetra hennar. Ekki verður séð að gögn málsins beri nefnda fjárhæð með sér. Haldbær gögn liggja því ekki fyrir til stuðnings varakröfu stefnanda að þessu leyti. Þá er krafa stefnanda um greiðslu skaðabóta að álitum sama marki brennd. Varakrafa stefnanda er því vanreifuð og þykir því sú leið ein fær að vísa þeirri kröfu einnig frá dómi af sjálfsdáðum.
Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.
ÚRSKURÐARORÐ:
Máli þessu er vísað frá dómi ex officio.