Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-46
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Viðurkenningarkrafa
- Starfslok
- Atvinnuréttindi
- Kjarasamningur
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 18. mars 2025 leitar Isavia ANS ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 20. febrúar sama ár í máli nr. 848/2023: Hilmar Hreinsson gegn Isavia ANS ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að viðurkennt verði að leyfisbeiðanda hafi verið óheimilt að binda enda á störf hans hjá leyfisbeiðanda á grundvelli greinar 18.4.5 í kjarasamningi Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Isavia ohf. frá 31. maí 2011, sem síðar hefur verið framlengdur með tilgreindum breytingum á árunum 2016, 2020 og 2021.
4. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfum gagnaðila. Landsréttur taldi hins vegar kjarasamningsákvæðið ekki veita því stoð að binda enda á störf gagnaðila hjá leyfisbeiðanda þegar hann hefði náð 63 ára aldri. Í dómi Landsréttar kom fram að ekki væri unnt að leggja þá merkingu í umþrætt kjarasamningsákvæði að starfslok skyldu verða við tiltekinn aldur. Þvert á móti mælti það fyrir um að starfslok yrðu við réttindamissi flugumferðarstjóra. Ekki væri fjallað um réttindi til að starfa sem flugumferðarstjóri í kjarasamningnum en reglur um þau réttindi og takmörk þeirra hefðu aftur á móti verið í lögum nr. 60/1998 og stjórnvaldsfyrirmælum settra á grundvelli þeirra. Eftir að lögum og stjórnvaldsfyrirmælum hefði verið breytt 2017 og 2018 hefðu starfsréttindi flugumferðarstjóra ekki verið háð neinum aldurstakmörkunum. Var viðurkenningarkrafa gagnaðila því tekin til greina.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins sé fordæmisgefandi um réttarstöðu flugumferðarstjóra hjá leyfisbeiðanda. Allir flugumferðarstjórar á Íslandi, um 150 talsins, starfi hjá leyfisbeiðanda eða systur- eða móðurfélagi hans. Niðurstaða Landsréttar feli í sér óvissu um starfslokaaldur flugumferðarstjóra sem hafi hingað til miðast við 63 ár. Þá hafi niðurstaða málsins fordæmisgildi um lagalega stöðu kjarasamninga og hvort frelsi til kjarasamningsgerðar takmarkist af fyrirmælum reglugerðar. Að lokum telur leyfisbeiðandi þá niðurstöðu Landsréttar að kjarasamningsákvæðið mæli ekki fyrir um starfslok flugumferðarstjóra við 63 ára aldur bersýnilega ranga.
6. Að virtum gögnum málsins verður að telja að dómur í því kunni að hafa verulegt almennt gildi. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.