Hæstiréttur íslands

Mál nr. 636/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögbann


                                     

Mánudaginn 15. október 2012.

Nr. 636/2012.

Hagsmunasamtök heimilanna og

talsmaður neytenda

(Þórður Heimir Sveinsson hdl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

Kærumál. Lögbann

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu H og T um að lagt yrði lögbann við nánar tilgreindum athöfnum L. Talið var að H og T væru bærir til að bera upp kröfu um lögbann hér á landi til að vernda heildarhagsmuni neytenda eftir ákvæðum laga nr. 141/2001. Hins vegar þótti 1. töluliður 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 standa því í vegi að lögbann gæti náð fram að ganga. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 27. september 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 1. júní sama ár um að taka ekki til greina kröfu sóknaraðila um lögbann við nánar tilgreindum athöfnum varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að sýslumanni verði gert að leggja lögbann við þessum athöfnum varnaraðila. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með auglýsingu nr. 1320/2011, sem innanríkisráðherra gaf út 14. desember 2011 með stoð í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 141/2001 um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda, var sóknaraðilum meðal annarra veittur réttur til að leita lögbanns eða höfða dómsmál í samræmi við heimildir, sem greinir í lögunum. Á þeim grundvelli kröfðust sóknaraðilar 9. maí 2012 að sýslumaðurinn í Reykjavík legði lögbann við því að varnaraðili „sendi út og innheimti greiðsluseðla sem tilkomnir eru vegna skuldabréfa í íslenskum krónum sem áður voru gengistryggð við erlenda mynt og eru tryggð með veði í fasteign eða lausafé og veitt hafa verið neytendum, sem gerðarþoli hefur þegar viðurkennt að séu ólögmæt lán með endurútreikningi til neytenda sem framkvæmdur hefur verið á tímabilinu eftir dóm Hæstaréttar nr. 471/2010 þann 16. september 2010 og fyrir dóm Hæstaréttar nr. 600/2011 sem upp var kveðinn 15. febrúar 2012. Lögbanni verði ekki aflétt fyrr en nýir og lögmætir endurútreikningar verða sendir út.“ Sýslumaður hafnaði þessari beiðni sem áður segir með ákvörðun 1. júní 2012. Sóknaraðilar kröfðust 8. júní 2012 úrlausnar héraðsdóms um þessa ákvörðun og var mál þetta þingfest af því tilefni 22. sama mánaðar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 141/2001 geta stjórnvöld eða samtök, sem um ræðir í 2. og 3. gr. laganna, leitað lögbanns eða höfðað dómsmál samkvæmt 4. gr. þeirra til að vernda hagsmuni neytenda þótt hvorki þau sjálf né félagsmenn í samtökunum hafi orðið fyrir röskun réttinda, enda snúi beiðni um aðgerðir að því að stöðva eða koma á annan hátt í veg fyrir háttsemi, sem hefur afleiðingar hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu og þykir stríða gegn nánar tilteknum tilskipunum sem þar gilda, eins og þær hafa verið leiddar inn í íslensk lög. Í 1. mgr. 3. gr. laganna er mælt fyrir um að ráðherra geti fyrir yfirvöldum eða dómstólum hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu leitað lögbanns eða höfðað dómsmál samkvæmt 4. gr. til að vernda heildarhagsmuni íslenskra neytenda, enda hafi afleiðinga athafnar gætt hér á landi. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. getur ráðherra útnefnt önnur stjórnvöld og íslensk félagasamtök, sem gæta hagsmuna neytenda á ákveðnu sviði, til að njóta heimildar til að grípa til aðgerða eins og um ræðir í 1. mgr. sömu lagagreinar. Í 1. mgr. 4. gr. sömu laga segir loks að stjórnvöld eða samtök, sem njóta réttar samkvæmt 2. og 3. gr., geti leitað lögbanns hér á landi við athöfn, sem ákvæði 1. gr. laganna geta tekið til, og gildi þá almennar reglur um lögbannsbeiðni, meðferð hennar, lögbannið sjálft, áhrif þess og höfðun máls til að fá það staðfest. Að þessu virtu, sbr. og áðurnefnda auglýsingu nr. 1320/2011, getur ekki orkað tvímælis að sóknaraðilar séu bærir til að bera upp hér á landi kröfu um lögbann til að vernda heildarhagsmuni neytenda eftir ákvæðum laga nr. 141/2001. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður á hinn bóginn að staðfesta þá niðurstöðu héraðsdóms að ákvæði 1. töluliðar 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 standi því í vegi að lögbann geti náð fram að ganga samkvæmt þeirri kröfu sóknaraðila, sem málið tekur til. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Hagsmunasamtök heimilanna og talsmaður neytenda, greiði í sameiningu varnaraðila, Landsbankanum hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2012.

I

Mál þetta var þingfest 22. júní sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 6. september sl. Sóknaraðilar eru Hagsmunasamtök heimilanna, Frakkastíg 27, og embætti talsmanns neytenda, Höfðatorgi, Borgartúni 21, en varnaraðili er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, allir í Reykjavík.

Dómkröfur sóknaraðila eru svohljóðandi:

   „1. Að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 1. júní 2012 að synja um lögbann í lögbannsmálinu nr. L-14/2012.

   2. Að lagt verði fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við að varnaraðili sendi út og innheimti greiðsluseðla sem tilkomnir eru vegna skuldabréfa í íslenskum krónum sem áður voru gengistryggð við erlenda mynt og eru tryggð með veði í fasteign eða lausafé og veitt hafa verið neytendum, sem varnaraðili hefur þegar viðurkennt að séu ólögmæt lán með endurútreikningi skv. lögum nr. 151/2010 til neytenda sem framkvæmdur hefur verið á tímabilinu eftir dóm Hæstaréttar nr. 471/2010 þann 16. september 2010 og fyrir dóm Hæstaréttar nr. 600/2011 sem upp var kveðinn 15. febrúar 2012. Lögbanni verði ekki aflétt fyrr en nýir og lögmætir endurútreikningar verða sendir út.“

Þá krefjast sóknaraðilar kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt ákvörðun dómsins, auk virðisaukaskatts.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 1. júní 2012 um að synja beiðni sóknaraðila um lögbann. Einnig krefst hann málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila.

II

Í kjölfar dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010, sem kveðnir voru upp 16. júní 2010, þar sem rétturinn sló því föstu að ólögmætt væri að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, og síðar setningar laga nr. 151/2010, um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu o.fl., mun varnaraðili hafa endurreiknað lán viðskiptavina sinna og sent þeim greiðsluseðla sem miðuðust við hinar breyttu forsendur. Með dómi Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í málinu nr. 600/2011, þar sem ágreiningur aðila laut að kröfu lánveitanda á hendur lántaka samkvæmt endurútreikningi á láni á grundvelli laga nr. 151/2010, telja aðilar að veruleg óvissa hafi skapast um framkvæmd þeirra útreikninga sem áður höfðu farið fram. Telja sóknaraðilar að útreikningur varnaraðila á lánum þeirra viðskiptavina sem eins háttar til um sé að líkindum rangur og í öllum tilvikum umdeildur. Fjárhæð afborgana á greiðsluseðlum sé of há.

Með fréttatilkynningum 2. mars og 3. apríl 2012 lýsti varnaraðila því yfir að hann hygðist áfram senda út greiðsluseðla vegna lána og lánasamninga sem hugsanlega féllu undir dóm Hæstaréttar í málinu nr. 600/2011. Í fyrri fréttatilkynningunni sagði m.a.: „Greiðendur eru hvattir til að inna greiðslur af hendi á réttum tíma. Styðst sú afstaða bankans meðal annars við það sem fram kemur í dómi Hæstaréttar um mikilvægi þess að standa í skilum. Landsbankinn mun hins vegar bíða með lögfræðiinnheimtu (fullnustugerðir) vegna viðkomandi lána þar til niðurstaða bankans um stöðu lánanna liggur fyrir. Ef niðurstaðan verður sú að lán verði endurreiknað eftir greiðslu mun innheimta til framtíðar að sjálfsögðu taka mið af leiðréttum eftirstöðvum. Hugsanlegar ofgreiðslur verða þannig leiðréttar.“

Í tilefni af ofangreindri fréttatilkynningu fóru sóknaraðilar þess á leit við sýslumanninn í Reykjavík 26. mars sl. að hann legði lögbann við því að varnaraðili sendi út og innheimti greiðsluseðla vegna veðskuldabréfa eða skuldabréfa sem voru eða höfðu verið gengistryggð í erlendri mynt. Sýslumaður hafnaði þeirri kröfu með þeim rökum að hún þætti of víðtæk og óákveðin til að hægt væri að taka hana til greina. Með nýrri lögbannsbeiðni 9. maí 2012 kröfðust sóknaraðilar enn lögbanns við útsendingu greiðsluseðla og innheimtu þeirra af hálfu varnaraðila, og var krafa þeirra orðuð með sama hætti og nú fyrir dóminum, sbr. 2. lið kröfugerðar sóknaraðila hér að framan. Sýslumaður hafnaði kröfunni á þeim forsendum að ekki væru skilyrði til að leggja á lögbann, hvorki samkvæmt lögum nr. 141/2001 né samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990. Með bréfi 8. júní sl. fóru sóknaraðilar þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur að felld yrði úr gildi framangreind ákvörðun sýslumanns um að synja lögbannsbeiðni þeirra.

III

Sóknaraðilar taka í upphafi fram að lögbannskrafa þeirra sé eingöngu bundin við þau lán í íslenskum krónum sem hafi verið gengistryggð í erlendum myntum, en séu nú í íslenskum krónum, og varnaraðili hafi endurreiknað samkvæmt lögum nr. 151/2010 og þar með viðurkennt að hafi verið ólögmæt samkvæmt dómum Hæstaréttar í málum nr. 153/2010 frá 16. júní 2010 og nr. 471/2010 frá 16. september sama ár. Samkvæmt dómi Hæstaréttar í málinu nr. 600/2011 frá 15. febrúar 2012 hafi niðurstaðan orðið sú að útreikningur lána samkvæmt lögum nr. 151/2010 stæðist ekki þar sem ekki hafi verið heimilt að reikna vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, aftur í tímann á þegar greiddar afborganir lántakenda. Lögum þessum hafi ekki verið breytt og því sé ekki hægt að innheimta greiðslur samkvæmt þeim. Falli hér undir öll lán sem hafi verið endurútreiknuð af varnaraðila fyrir 15. febrúar 2012, hafi verið greitt af þeim og þau ekki verið reiknuð út að nýju í samræmi við dóm Hæstaréttar frá 15. febrúar sl. Jafnframt telja sóknaraðilar að varnaraðila sé óheimilt að reikna vaxtavexti af höfuðstól lánanna frá upphafsdegi þeirra samkvæmt lögum nr. 151/2010.

   Sóknaraðilar taka einnig fram að aðild þeirra að máli þessu byggist á lögum nr. 141/2001, um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda, sbr. auglýsingu nr. 1320/2011, um tilnefningu stjórnvalda og samtaka sem rétt hafa til lögbannsaðgerða í þágu heildarhagsmuna neytenda, sbr. 1. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, en íslensk stjórnvöld hafi samkvæmt áðurnefndri auglýsingu m.a. veitt báðum sóknaraðilum heimild til slíkra aðgerða. Á grundvelli þessa telja sóknaraðilar sig bæra til þess að gæta hagsmuna allra einstaklinga sem tekið hafi gengistryggð erlend lán sem falli undir lögbannskröfuna, og bregðast við meintum brotum gegn hagsmunum neytenda.

Að öðru leyti byggjast kröfur sóknaraðila einkum á því að sú háttsemi varnaraðila að senda út greiðsluseðla og innheimta afborganir af gengistryggðum lánum á sama tíma og mikil óvissa ríki um útreikning þeirra, sé til þess fallin að rýra hag neytenda og valda þeim velferðarmissi, um leið og hætt sé við að réttindi þeirra fari forgörðum þar sem óljóst sé hvort, hvenær og hvernig lántakendur geti fengið leiðréttingu sinna mála þegar réttur útreikningur liggi fyrir. Sumir lántakenda kunni að vera búnir að gera upp lán sín, en fái áfram senda greiðsluseðla, á sama tíma og greiðslubyrði annarra kunni að vera mun lægri en greiðsluseðlarnir gefi til kynna. Byggt er á því að það eigi að vera sjálfsögð réttindi neytenda og lögvarðir hagsmunir þeirra að greiða rétta fjárhæð af lánum sínum. Í ljósi þessa telja sóknaraðilar, og vísa í því efni til 1. gr. laga nr. 141/2001, að nauðsynlegt sé að vernda heildarhagsmuni neytenda sem hafi orðið og munu að óbreyttu verða fyrir röskun réttinda. Nauðsynlegt sé einnig að stöðva slíka háttsemi, enda hafi hún afleiðingar hér á landi og stríði gegn eftirtöldum tilskipunum, eins og þær hafi verið leiddar í íslensk lög, sbr. 1., 3. og 7. tl. 1. gr. laga nr. 141/2001:

Tilskipun  Evrópuþingsins og ráðsins 2005/29/EB frá 11. maí 2005, um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum, sbr. 5. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, sbr. og lög nr. 50/2008 og reglugerð nr. 160/2009, um viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir.

Tilskipun ráðsins 87/102/EB frá 22. desember 1986, um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán, eins og henni var síðast breytt með tilskipun 98/7/EB, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, með síðari breytingum.

Tilskipun ráðsins 93/13/EB frá 5. apríl 1993, um óréttmæta skilmála í neytendasamningum, sbr. a-d liði 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. lög nr. 14/1995.

Eins og áður segir byggja sóknaraðilar á því að það sé lögvarinn réttur neytenda að fá í hendur rétta greiðsluseðla. Því til stuðnings vísa þeir til 14. gr. laga um neytendalán nr. 121/1994, sbr. og 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, en samkvæmt 2. mgr. 14. gr. fyrrnefndra laga sé lánveitanda eigi heimilt að krefjast frekari lántökukostnaðar en tilgreindur sé í samningi samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, þ.e. „heildarlántökukostnað  í krónum, reiknaðan út skv. 7. gr.“, eins og þar segi. Í 1. mgr. 7. gr. sömu laga segi síðan að heildarlántökukostnaður feli í sér allan kostnað af láninu, þar með talda vexti og önnur gjöld sem neytandi skuli greiða af því, með þeim undantekningum sem greini í 3. mgr. Samkvæmt því telja sóknaraðila að hinir nýju vextir, sem á endurútreiknuð gengistryggð lán hafi fallið samkvæmt lögum nr. 151/2010, auk vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001, séu á skjön við ákvæði laga nr. 121/1994, sbr. og dóma Hæstaréttar nr. 471/2010 og 600/2011. Af þeim sökum sé neytendum nauðsyn að bregðast við samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 og lögum nr. 141/2001.

Í annan stað byggjast kröfur sóknaraðila á því að endurútreikningur varnaraðila á grundvelli laga nr. 151/2010, vegna gengistryggðra lána eða lána sem hafa verið gengistryggð og breytt í íslensk lán, sé ólögmætur, þar sem notast sé við svokallaða vaxtavexti samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001 í vaxtaútreikningi. Með því móti leggist vextir við höfuðstól á 12 mánaða fresti frá útborgunardegi lánsins, og síðan ár eftir ár, hvort sem greitt hafi verið af veðskuldabréfinu eða ekki. Með gagnályktun frá 1. mgr. 12. gr. áðurnefndra laga telja sóknaraðilar að óheimilt sé að reikna vaxtavexti með þeim hætti, og samrýmist það heldur ekki dómi Hæstaréttar í málinu nr. 600/2011. Þá telja sóknaraðilar að óheimilt sé að reikna vaxtavexti samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, á greiðslur sem ekki voru eða hafa verið greiddar, sérstaklega frá bankahruni á haustdögum 2008 til dagsins í dag, og benda í því efni á eftirfarandi atriði:

a)      Ákvæði veðskuldabréfa gefi ekki til kynna að slíkur vaxtaútreikningur sé heimill. Hægur vandi hefði verið fyrir varnaraðila að setja slíkt ákvæði í veðskuldabréfið, hafi það verið ætlun hans að áskilja sér slíka vexti.

b)      Í mörgum málum frá bankahruni hafi neytendur gert skilmálabreytingar á veðskuldabréfum, m.a. um frestun greiðslna, og því orki tvímælis eftir á og við endurútreikning lánanna að varnaraðili eða önnur fjármálafyrirtæki krefjist þess            að lántakendur og heimilin skuli nú greiða vaxtavexti á greiðslur sem þannig hátti til um.

c)      Ekki sé hægt að ráða það af lögum nr. 151/2010 að heimilt sé að reikna vaxtavexti aftur í tímann og bæta þeim við höfuðstól lána frá útborgunardegi lána. Bent er einnig á að samkvæmt meginreglum laga sé ekki heimilt að leggja íþyngjandi byrðar á aðila, nema með skýrum hætti og að fullnægðum tilteknum skilyrðum,             sem ekki þyki uppfyllt með lögum nr. 151/2010.  

d)      Loks telja sóknaraðilar að við þær aðstæður sem hér voru í kjölfar bankahrunsins, þar sem lántakendur hafi ekki vitað hvort þeir ættu að greiða afborganir gengisbundinna lána eða ekki, sé með öllu óeðlilegt af hálfu varnaraðila og annarra fjármálafyrirtækja að krefjast vaxtavaxta aftur í tímann. Megi í því sambandi m.a. vísa til 7. gr. laga nr. 38/2001 með lögjöfnun. 

Að dómi sóknaraðila fara ofantalin atriði í bága við áður tilvitnað ákvæði 2. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994, sbr. tilskipun 87/102/EB og 3. tl. 1. gr. laga nr. 141/2001, og verða þar af leiðandi einnig að teljast ósanngjarn einhliða saminn samningsskilmáli í skilningi 36. gr. a-d laga nr. 7/1936, sbr. tilskipun 93/13/EB og 7. tl. 1. gr. laga nr. 141/2001. Hafi sá skilningur verið staðfestur í nokkrum málum Evrópudómstólsins.

Sóknaraðilar taka einnig fram að lántakendur hafi lítið haft um það að segja hvernig varnaraðili hafi hagað sínum endurútreikningi, og séu þeir því nauðbeygðir til þess að sætta sig við niðurstöðu varnaraðila. Til þess að meta hvort athöfn varnaraðila, með útsendingu nefndra greiðsluseðla, sé ólögmæt athöfn sem skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990 taki til, sbr. og 1., 3. og 7. tl. 1. gr. laga nr. 141/2001, telja þeir að beita þurfi lögum nr. 121/1994, um neytendalán, sbr. m.a. 3. tl. 1. mgr. 6. gr. og 14. gr. laganna, sbr. og 2. málslið 2. gr. laga nr. 38/2001 og 36. gr. a-d laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með síðari breytinum, ásamt ólögfestum reglum fjármunaréttar um ógildingu samninga.

Sóknaraðilar byggja jafnframt á því að öllum skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sé fullnægt í máli þessu. Því standi ekkert því í vegi að fallist verði á kröfu þeirra um lögbann. Einnig komi skýrt fram í 1. gr. laga nr. 141/2001 að beiðni um aðgerðir samkvæmt lögunum miði að því að stöðva eða koma í veg fyrir háttsemi sem afleiðingar hafi hér á landi. Í síðarnefnda ákvæðinu felist jafnframt að aðgerðir samkvæmt lögunum snúi að því að vernda heildarhagsmuni neytenda, og því sé ekki þörf á að sýna fram á að einhver ákveðin réttindi fari forgörðum. Slíkt væri raunar óframkvæmanlegt þar sem um sé að ræða hagsmuni ótilgreindra neytenda sem verði eða geta orðið fyrir tjóni vegna háttsemi sem stríði gegn þeim tilskipunum sem lögfestar hafi verið í 1.–12. tl. 1. gr. laga nr. 141/2001. Sóknaraðilar hafi sýnt fram á að innheimta varnaraðila á greiðsluseðlum, sem krafist sé að lagt verði lögbann við, brjóti í bága við þrjár þessara tilskipana, þ.e. samkvæmt 1., 3. og 7. tl. 1. gr. laganna.  

Í ljósi alls framanritaðs byggja sóknaraðilar á því að athöfn varnaraðila, með útsendingu og innheimtu nefndra greiðsluseðla, sé ólögmæt og beri af þeim sökum að leggja lögbann við henni.

IV

Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðilar geti reist aðild sína að lögbannsmáli þessu á lögum nr. 141/2001, um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda, þar sem lögin mæli aðeins fyrir um að aðildarríki að EES-samningnum eða samtök, sérstaklega tilnefnd af þeim, geti farið fram á lögbann eða farið í dómsmál hér á landi til verndar heildarhagsmunum neytenda þessa aðildarríkis. Að sama skapi geti íslenska ríkið eða samtök, sérstaklega tilnefnd af ráðherra til þess, sbr. auglýsing nr. 1320/2011, krafist lögbanns eða höfðað dómsmál í öðru aðildarríki EES-samningsins til verndar heildarhagsmunum íslenskra neytenda. Lögin geri hins vegar ekki ráð fyrir því að íslensk félagasamtök geti byggt aðildarhæfi sitt á lögunum innanlands, enda séu fyrir hendi lög nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sem gildi um þau tilvik. Lög nr. 141/2001 hafi verið sett til þess að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 98/27/EB frá 19. maí 1998, en megintilgangur þeirrar tilskipunar, og um leið umræddra laga, hafi verið að „koma í veg fyrir ólögmætar athafnir þegar viðskipti eru stunduð yfir landamæri“, eins og segi í greinargerð með frumvarpi til laganna. Þá segi þar einnig að tilgangur tilskipunar 98/27/EB sé ekki að samræma réttarúrræði eða réttarfar aðildarríkjanna, heldur að auðvelda hlutaðeigandi yfirvöldum í öðrum aðildarríkjum að krefjast dómsúrskurðar eða lögbanns gegn ólögmætum athöfnum í því ríki þar sem varnarþing fremjanda brotsins er. Þar sem varnaraðili sé íslenskt fjármálafyrirtæki, sem eingöngu stundi starfsemi á Íslandi, en sóknaraðilar báðir íslenskir, telur varnaraðili að hafna beri kröfum sóknaraðila um lögbann á grundvelli laga nr. 141/2001, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Varnaraðili mótmælir því einnig að sóknaraðilar geti byggt aðild sína að lögbannsmáli þessu á ákvæðum laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., enda hafi sóknaraðilar hvorki sýnt fram á að þeir hafi lögvarða hagsmuni af málinu samkvæmt 24. gr. þeirra laga, né að þeir séu bærir til þess að koma fram fyrir þá aðila sem kunni að eiga hagsmuna að gæta í lögbannsmálinu. Að því er síðara atriðið varðar bendir varnaraðili á að annar sóknaraðila, Hagsmunasamtök heimilanna, hafi hvorki umboð allra lántakenda og neytenda sem tekið hafi gengistryggð lán, né eigi slíkt umboð sér stoð í lögum. Samtök þessi séu samtök ótilgreindra aðila um tiltekna hagsmuni sem samræmist ekki nauðsynlega hagsmunum allra þeirra lántaka varnaraðila sem lögbannsbeiðnin nái til. Aðild að samtökunum sé auk þess frjáls. Í öllu falli telur varnaraðili að þessi sóknaraðili geti ekki komið fram í lögbannsmáli fyrir hönd annarra lántakenda og neytenda en þeirra sem eigi aðild að samtökunum og geti því ekki upp á sitt eindæmi tekið að sér hagsmunagæslu fyrir aðra en félagsmenn sína. Hagsmunasamtök heimilanna hafi hvorki í lögbannsbeiðni né greinargerð í héraði sýnt fram á að allir þeir aðilar sem tekið hafi lán hjá varnaraðila og lögbannsbeiðnin nái til, eigi aðild að samtökunum. Sé því um umboðsskort og aðildarskort að ræða af hálfu Hagsmunasamtaka heimilanna.

Að því er varðar hinn sóknaraðilann, talsmann neytenda, tekur varnaraðili fram að hann hafi vissulega heimild til þess að bregðast við ætluðum brotum gegn neytendum, sbr. b. lið 2. mgr. 6. gr. laga nr. 62/2005. Í þeirri heimild felist þó aðeins að talsmaður neytenda hafi samskipti við stjórnvöld og lögaðila um neytendamál og riti skýrslur um þau mál, en hafi ekki þar með sjálfstæða heimild til að standa að lögbanni gegn fjármálafyrirtækjum, enda hafi hann ekki lögvarða hagsmuni af slíku lögbanni.

Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið varnaraðila um aðildarskort, byggist krafa hans á því að grundvöllur fyrir lögbannsbeiðni sóknaraðila sé of óljós. Þannig sé krafa um lögbann við útsendingu greiðsluseðla vegna ótilgreindra lána mun víðtækari en þær tilskipanir sem sóknaraðilar vísi til í greinargerð sinni og innleiðing þeirra í íslenskan rétt gefi kost á. Ekki séu tilgreind þau lán sem um ræði, heldur látið nægja að vísa til allra lána sem falli undir lýsingu sóknaraðila og veitt hafi verið neytendum á ákveðnu tímabili. Þótt varnaraðili telji ljóst að einhver lánanna kunni að þarfnast endurútreiknings í ljósi dóms Hæstaréttar í máli nr. 600/2011, fari því fjarri að það eigi við um öll þau lán sem lýsingin taki til. Því telur varnaraðili óljóst með hvaða hætti hann eigi að bregðast við, og þá gagnvart hvaða lánum, fari svo ólíklega að lögbann verði lagt á með þeim hætti sem sóknaraðilar krefjist.

Auk ofanritaðs telur varnaraðili að skilyrðum fyrir beitingu laga nr. 141/2001 sé öðrum þræði ekki fullnægt, þar sem ekki verði ráðið hvaða ákvæði íslenskra laga varnaraðili er sakaður um að brjóta með útsendingu greiðsluseðla. Ekki verði heldur séð hvaða ákvæði tilskipana samkvæmt 1., 3. og 7. tl. 1. gr. laganna varnaraðili eigi að hafa brotið. Hins vegar hafnar varnaraðili með öllu röksemdafærslu og staðhæfingum sóknaraðila um meint brot hans á áður tilvitnuðum lögum og tilskipunum, og telur ýmist að málsástæður sóknaraðila séu beinlínis rangar eða ekki studdar neinum gögnum.

Varnaraðili byggir einnig á því að lögbannskrafa sóknaraðila uppfylli ekki skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Vísar hann þá sérstaklega til þess að samkvæmt 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laganna verði lögbann ekki lagt við athöfn, ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna sóknaraðila tryggi þá nægilega. Telur varnaraðili að réttarreglur um skaðabætur tryggi að fullu mögulega hagsmuni neytenda og að engin ástæða sé til að óttast um greiðslugetu varnaraðila þar sem eiginfjárhlutfall hans sé langt yfir þeim mörkum sem áskilið sé. Þá mótmælir varnaraðili því að útsending greiðsluseðla brjóti gegn lögvörðum rétti sóknaraðila eða lántaka, enda hafi útsending greiðsluseðla ekkert að gera með skyldu lántakenda til að greiða af lánum sínum. Lántakendum beri að greiða af lánum sínum, án tillits til þess hvort þeir fái greiðsluseðla í hendur eða ekki, og hvíli engin lagaskylda á varnaraðila að senda greiðsluseðla til skuldara sinna. Útreikningar, sem greiðsluseðlarnir byggist á, séu hins vegar í samræmi við lög nr. 38/2001, sbr. og lög nr. 151/2010. Loks byggir varnaraðili á því að ekki sé heldur uppfyllt það skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 að réttindi sóknaraðila muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði þeir knúnir til að bíða dóms um þau. Í því sambandi bendir varnaraðili á að ekki liggi enn fyrir með fullnægjandi hætti hvaða lán teljist innihalda ólögmæta gengistryggingu, og þurfi því fleiri dóma til að eyða þeirri óvissu. Varnaraðili hafi hins vegar lýst því yfir að verði niðurstaða dómstóla sú að endurreikna beri lán eftir greiðslu muni innheimta til framtíðar taka mið af leiðréttum eftirstöðvum, um leið og hugsanlegar ofgreiðslur verði leiðréttar. Fullyrðir varnaraðili að engin ástæða sé til að óttast að slíkur endurútreikningur muni leiða til gjaldþrots hans, jafnvel þótt nýjum útreikningi yrði beitt á allt það lánasafn sem lögbannsbeiðnin beinist að.

Í ljósi framanritaðs telur varnaraðili að staðfesta beri ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 1. júní sl. um að hafna lögbannsbeiðni sóknaraðila.

Um lagarök vísar varnaraðili til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, laga nr. 141/2001, um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda, og laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Málskostnaðarkrafa hans styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

V

Af málatilbúnaði sóknaraðila verður helst ráðið að þeir reisi aðild sína að lögbannskröfunni aðallega á 1. gr. laga nr. 141/2001, um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda, en til vara á 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Með fyrrnefndu lögunum var stjórnvöldum eða samtökum, sem þar voru nánar skilgreind í 2. og 3. gr., veitt heimild til að leita lögbanns eða höfða dómsmál „til að vernda hagsmuni neytenda þótt hvorki þau sjálf né félagsmenn í samtökunum hafi orðið fyrir röskun réttinda, enda snúi beiðni um aðgerðirnar að því að stöðva eða koma á annan hátt í veg fyrir háttsemi sem hefur afleiðingar hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu og þykir stríða gegn eftirtöldum tilskipunum sem þar gilda, eins og þær hafa verið leiddar inn í íslensk lög …“, eins og segir í 1. gr. laganna. Þar eru síðan í 12 liðum taldar upp þær tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins, sem ákvæðinu er ætlað að ná til. Sóknaraðilar byggja á því að sú háttsemi varnaraðila að senda út greiðsluseðla og innheimta afborganir af þeim lánum sem lögbannsbeiðni þeirra tekur til, stríði gegn þremur tilskipunum, sem þar eru taldar upp í 1., 3. og 7. tl.

Í almennum athugsemdum við frumvarp til áðurnefndra laga segir m.a. eftirfarandi um tilgang frumvarpsins: „Í tilskipun 98/27/EB er lagt til grundvallar að í öllum aðildarríkjum á EES-svæðinu séu til réttarúrræði til þess að stöðva ólögmæta markaðsfærslu (viðskiptahætti) sem eru í andstöðu við þær […] tilskipanir á sviði neytendaverndar sem taldar voru upp í viðauka tilskipunarinnar þegar hún var upphaflega birt. […] Tilgangur tilskipunar 98/27/EB er ekki að samræma réttarúrræði eða réttarfar aðildarríkjanna heldur að auðvelda hlutaðeigandi yfirvöldum í öðrum aðildarríkjum að krefjast dómsúrskurðar eða lögbanns gegn ólögmætum athöfnum í því ríki þar sem varnarþing fremjanda brotsins er. Heimild þessara aðila samkvæmt frumvarpi þessu nær þó ekki til hvers kyns athafna heldur aðeins þeirra sem kunna að brjóta gegn þeim lögum sem hlutaðeigandi ríki hafa sett vegna lögleiðingar á þeim tilskipunum sem taldar eru upp í viðauka 98/27/EB, sbr. 1. gr. frumvarpsins. […] Í tilskipun 98/27/EB er ekki að finna ákvæði sem víkja að mati á því hvort leggja skuli lögbann við athöfn sem talin er andstæð ákvæðum tilskipunarinnar. Veltur það því á almennum reglum í hverju tilviki fyrir sig. Aðildarríkjum er líka heimilt að setja reglur um að samráð skuli haft við innlend eftirlitsstjórnvöld í því landi sem fyrirtækið (fremjandi brots) á varnarþing og veita því stjórnvaldi möguleika á því að hefja málssókn í staðgöngu hins erlenda stjórnvalds… […] Eins og áður hefur komið er megintilgangur tilskipunar 98/27/EB og þessa frumvarps að koma í veg fyrir ólögmætar athafnir þegar viðskipti eru stunduð yfir landamæri.“

Í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins er síðan fjallað um gildissvið þess og segir þar m.a. svo: „Ákvæði þessa frumvarps eiga við þegar íslensk fyrirtæki eða viðskiptaaðilar framkvæma athafnir sem brjóta gegn áðurnefndum lagaákvæðum ef afleiðingar brotsins koma fram í öðru EES-ríki enda meginmarkmið þessa frumvarps að styrkja framkvæmd laga þegar um er að ræða viðskipti yfir landamæri á Evrópska efnahagssvæðinu.“

Í máli þessu liggur fyrir að sóknaraðilar eru báðir íslenskir aðilar sem njóta heimildar til aðgerða á grundvelli laga nr. 141/2001, sbr. auglýsingu nr. 1320/2011. Varnaraðili er einnig íslenskur aðili, fjármálafyrirtæki með starfsemi hér á landi, og lýtur lögbannskrafan að þeirri starfsemi. Í því ljósi verður ekki séð að sóknaraðilar geti reist lögbannskröfu sína á lögum nr. 141/2001, enda samrýmist það ekki tilgangi þeirra laga eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að ofan. Samkvæmt því og með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. og 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. og 1. mgr. 91. gr. laga um aðför nr. 90/1989, verður kröfum sóknaraðila hafnað, að því leyti sem þær byggjast á lögum nr. 141/2001. Kemur þá til skoðunar hvort uppfyllt séu skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., til þess að verða við kröfum sóknaraðila.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 má leggja lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar, „ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það, og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum, verði hann knúinn til að bíða dóms um þau“, eins og þar segir.  Samkvæmt 1. tl. 3. mgr. sömu greinar verður lögbann þó ekki lagt við athöfn ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega.

Sóknaraðilar halda því fram að í máli þessu sé ekki þörf á að sýna fram á að einhver ákveðin réttindi þeirra kunni að fara forgörðum, verði lögbann ekki lagt við aðgerðum varnaraðila, enda sé lögbanninu ætlað að vernda heildarhagsmuni ótilgreindra neytenda. Vísa þeir í því sambandi til 1. gr. áðurnefndra laga nr. 141/2001. Þar sem dómurinn hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að krafa sóknaraðila verði ekki reist á þeim lögum eiga þessi rök ekki hér við. Fyrir vikið hafa sóknaraðilar hvorki sýnt fram á að þeir eigi þann lögvarða rétt sem lögbanninu er ætlað að tryggja, né að þeir séu til þess bærir að gæta hagsmuna ótilgreindra neytenda í málinu.

Lögbann er í eðli sínu neyðarráðstöfun sem ekki verður beitt nema fyrir liggi að almenn úrræði komi ekki að nægu haldi, enda sé þá fullnægt öðrum skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990. Fullyrðing sóknaraðila um að hætt sé við að réttindi neytenda fari forgörðum, þar sem óljóst sé hvort, hvenær og hvernig lántakendur fái leiðréttingu sinna mála þegar réttur útreikningur liggur fyrir á lánum þeirra, er ekki studd neinum gögnum. Á hinn bóginn liggja fyrir yfirlýsingar varnaraðila um að verði niðurstaða dómstóla sú að endurreikna beri lán eftir greiðslu muni innheimta lánanna til framtíðar taka mið af leiðréttum eftirstöðvum og hugsanlegar ofgreiðslur þannig leiðréttar. Að áliti dómsins felst í þessum yfirlýsingum næg trygging fyrir því að hagsmunir lántakenda verði ekki fyrir borð bornir, enda eru engar vísbendingar um að ástæða sé til að óttast um greiðslugetu varnaraðila. Með sömu rökum þykir ljóst að réttarreglur um skaðabætur tryggi nægilega hagsmuni lántakenda, sbr. 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.

Með vísan til ofanritaðs er það niðurstaða dómsins að ekki séu skilyrði til að fallast á kröfur sóknaraðila í máli þessu, hvorki samkvæmt 1. gr. laga nr. 141/2001 né 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Verður því staðfest ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 1. júní sl. um að synja beiðni sóknaraðila um lögbann.

Með hliðsjón af úrslitum málsins og vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., og 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989, um aðför, verður sóknaraðilum sameiginlega gert að greiða varnaraðila málskostnað. Þykir hann hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Staðfest er ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 1. júní 2012, í lögbannsmálinu nr. L-14/2012, um að synja beiðni sóknaraðila, Hagsmunasamtaka heimilanna og talsmanns neytenda, um lögbann.

Sóknaraðilar greiði óskipt varnaraðila, Landsbankanum hf., 500.000 krónur í málskostnað.