Hæstiréttur íslands
Mál nr. 629/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Samaðild
- Kröfugerð
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 14. desember 2011. |
|
Nr. 629/2011.
|
Daníel Thor Skals Pedersen (sjálfur) gegn SP Fjármögnun hf. (Helgi Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Samaðild. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
D kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hans á hendur S hf. var vísað frá dómi á grundvelli 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dómi Hæstaréttar sagði að D byggði mál sitt á 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010, en þar væri berum orðum kveðið á um „sjálfstæðan rétt“ skuldara gagnvart kröfuhafa. Af þessu leiddi að réttindi sem D kynni að eiga á hendur S hf. samkvæmt nefndu ákvæði laga nr. 38/2001 teldust ekki óskipt með rétti annarra skuldara í skilningi 18. gr. laga nr. 91/1991. Á hinn bóginn féllst Hæstiréttur á það með S hf. að stefna fullnægði ekki þeim kröfum sem gerðar væru í d. og e. liðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 17. nóvember 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Atvikum málsins er lýst í hinum kærða úrskurði. Svo sem þar greinir varðar mál þetta kröfu um endurgreiðslu fjár vegna tveggja gengistryggðra lánssamninga sem tengjast bifreiðakaupum sóknaraðila í febrúar og maí 2008. Sóknaraðili seldi báðar bifreiðarnar síðar sama ár og voru lánssamningarnir þá yfirteknir af kaupendum þeirra. Þar sem skuldaraskipti urðu á samningunum reynir á 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010. Sóknaraðili byggir mál sitt á þessu ákvæði, en í því er berum orðum kveðið á um „sjálfstæðan rétt“ skuldara gagnvart kröfuhafa vegna breytinga á höfuðstól gengistryggðra lána í tilvikum þar sem skuldaraskipti hafa orðið á lánssamningum. Af þessu leiðir að réttindi sem sóknaraðili kann að eiga samkvæmt nefndu ákvæði laga nr. 38/2001 teljast ekki óskipt með rétti annarra skuldara í skilningi 18. gr. laga nr. 91/1991. Verður því ekki fallist á kröfu varnaraðila um frávísun málsins á þessum grundvelli.
Í kröfum sóknaraðila um vexti og dráttarvexti er hundraðshluti vaxta ekki tilgreindur. Við þessa kröfugerð er heldur ekki fullnægt skilyrðum 11. gr. laga nr. 38/2001 og verður því þessum þætti kröfugerðarinnar vísað frá héraðsdómi, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 19. febrúar 2010 í máli nr. 58/2010. Kröfu um frávísun byggir varnaraðili einnig á því að dómkröfur sóknaraðila séu vanreifaðar og óljósar auk þess sem málsatvikalýsing í stefnu sé vanreifuð. Í stefnu eru málavextir lítt reifaðir. Þannig er ekki gerð grein fyrir þeim lánssamningum sem málið varða og heldur ekki þeim afborgunum sem sóknaraðili telur að gefi tilefni til endurgreiðslu úr hendi varnaraðila. Þá skortir á að sóknaraðili geri grein fyrir grundvelli krafna sinna og hann skýrir ekki í stefnunni útreikning á þeim. Verður því fallist á með varnaraðila að stefnan fullnægi ekki þeim kröfum sem gerðar eru í d. og e. liðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest og sóknaraðila gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Daníel Thor Skals Pedersen, greiði varnaraðila, SP Fjármögnun hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2011.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 2. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Daníel Thor Skals Pedersen, Klukkurima 12, Reykjavík á hendur SP-fjármögnun hf., Sigtúni 42, Reykjavík, með stefnu birtri 27. júní 2011.
Stefnandi krefst þess aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.840.284 kr. auk dráttarvaxta skv. vaxtalögum nr. 38/2001 frá 29. mars 2011 til greiðsludags og 166.467 kr. auk dráttarvaxta frá 31. mars til greiðsludags.
Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.840.284 kr. auk almennra vaxta skv. vaxtalögum nr. 38/2001 frá 29. mars 2011 til greiðsludags og 166.467 kr. auk almennra vaxta frá 31. mars til greiðsludags.
Til þrautavara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé skylt að taka að fullu tillit til höfuðstólshækkunar auk ofgreiddra afborgana við endurútreikning gengistryggðra fjármögnunarsamninga sem stefnandi hefur verið aðili að.
Í öllum tilvikum krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi og til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Í þessum þætti málsins er krafa stefnda um frávísun málsins tekin til úrskurðar. Stefnandi hafnar frávísunarkröfu stefnda og krefst málskostnaðar í þessum þætti málsins.
Ágreiningsefni
Stefnandi kveðst byggja kröfugerð sína á því að hann hafi á árinu 2008 verið aðili að tveimur gengistryggðum fjármögnunarsamningum sem stefnda beri að endurreikna í samræmi við 7. mgr. 18. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Stefnandi hafi fengið frá stefnda endurútreikninga þar sem aðeins sé tekið mið af ofgreiðslu afborgana en ekki höfuðstólshækkun. Umræddir samningar séu vegna fjármögnunar bifreiða með númerin GLS14 (samningur SBB 098401) og UE137 (samningur SBB 100082).
Málsástæður og lagarök stefnanda fyrir dómkröfum sínum
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á því að skv. 7. mgr. 18. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 sé stefnda, við endurreikning gengistryggðra lánasamninga sem hafa verið yfirteknir, skylt að taka tillit til bæði þróunar höfuðstóls og afborgana. Þannig eigi lögum samkvæmt hver samningsaðili lánssamnings sjálfstæðan rétt til endurgreiðslu höfuðstólshækkunar, að teknu tilliti til ofgreiðslu eða vangreiðslu afborgana, fyrir það tímabil sem viðkomandi var aðili að samningnum.
Stefnandi kveðst hafa sent stefnda í tölvupósti 27. maí 2011 rökstudda beiðni um leiðréttingu endurútreikninga auk beiðni um rökstuðning fyrir synjun hinnar fyrrnefndu beiðni yrði henni synjað. Eftir að hafa ítrekað leitað eftir svari við þeim tölvupósti barst stefnanda, hinn 24. júní 2011, bréf frá Helga Sigurðssyni hrl., dagsett 20. júní 2011. Í því bréfi hafi beiðni stefnanda um leiðréttingu verið synjað og vísað til 5. mgr. 18. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 þar sem fram komi að endurgreiða skuli skuldara það sem ranglega var af honum haft. Stefnandi telur þá grein ekki eiga við, þar sem hún snúi að lánasamningum sem ekki hafi verið yfirteknir og því unnt að leiðrétta höfuðstól skuldara og endurgreiða það sem ranglega var af honum haft. Um yfirtekna samninga gildi 7. mgr. sömu greinar en þar komi fram að hver skuldari eigi sjálfstæðan rétt til endurgreiðslu höfuðstólshækkunar að teknu tilliti til ofgreiddra eða vangreiddra afborgana.
Stefnandi kveður að við þingfestingu muni hann leggja fram afrit af gögnum tengdum öðrum fjármögnunarsamningum. Af þeim gögnum megi sjá að stefndi beiti mismunandi aðferðum við endurútreikning sambærilegra samninga. Einnig megi sjá af þeim gögnum, að í vissum tilfellum endurgreiði stefndi fyrri skuldara samnings ekki höfuðstólshækkun en lækki heldur ekki höfuðstólinn hjá síðari skuldara samnings og eignist þannig á hendur síðari skuldara kröfu hvers verðmæti helst óleiðrétt þrátt fyrir hækkun sem leiddi af ólögmætri gengistryggingu.
Stefnandi telur að með því að setja fram fasta reglu um hvernig endurútreikningi skuli háttað hafi löggjafinn gætt jafnræðis. Ef ákvörðunarvald um hvaða reiknireglu skyldi beitt hefði verið sett í hendur fjármögnunarfyrirtækja og ylti á mati þeirra á verðmæti þess sem fjármagnað var með lánasamningum telur stefnandi að vegið hefði verið að jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Stefnandi telur því löggjafann hafa gætt jafnræðis við setningu laga nr. 151/2010, en stefnda ekki hafa fylgt þeirri reglu sem sett var með lögunum.
Stærri þáttur aðalkröfu og varakröfu eru vaxtareiknaðir til 29. mars 2011 en það er sá dagur sem gert sé ráð fyrir í lögum nr. 151/2010 að stefndi skyldi hið síðasta hafa greitt kröfur vegna endurútreiknings gengistryggðra lána. Telur stefnandi að þetta sé lögákveðinn gjalddagi krafna vegna endurútreiknings gengistryggðra lána. Munur aðalkröfu og varakröfu felst aðeins í því hvort krafist er dráttarvaxta eða almennra óverðtryggðra vaxta Seðlabanka Íslands frá 29. mars 2011 til greiðsludags. Þessi hluti krafnanna er vegna höfuðstólshækkunar fjármögnunarsamninga.
Minni þáttur aðalkröfu og varakröfu byggir á tölum sem stefnandi fékk sendar frá stefnda. Þær tölur voru þegar vaxtareiknaðar til 31. mars 2011 og krefst því stefnandi vaxta frá þeim degi til greiðsludags hvað þær upphæðir varðar, dráttarvaxta í aðalkröfu og almennra óverðtryggðra vaxta Seðlabanka Íslands í varakröfu. Þessi hluti krafnanna er vegna ofgreiðslu afborgana fjármögnunarsamninga.
Þrautavarakrafa stefnanda er krafa um viðurkenningu þess að stefnda sé skylt að taka mið af höfuðstólshækkun við endurútreikning gengistryggðra fjármögnunarsamninga
Málsástæður og lagarök stefndu um frávísun
Stefndi kveður að mál þetta varði ekki aðeins lögskipti stefnanda og stefnda heldur einnig þriðja manns, sem eigi ekki aðild að málinu. Stefndi kveðst byggja á því að ekki verði leyst úr ágreiningi málsins, án þess að grein sé gerð fyrir lögskipun að baki eignarhaldi stefnanda frá upphafi. Sé á því byggt að samaðild sé í málinu sóknarmegin og það verði að gefa öllum þeim sem farið hafa með eignarhald á umræddri bifreið kost á aðild málsins.
Stefndi bendir á að ákvæði laga nr. 151/2010 geri ráð fyrir að sérhver aðili ólögmæts samnings, sem orðið hafi fyrir tjóni, eigi rétt á leiðréttingu. Ef ágreiningur rísi um rétt til endurgreiðslu þá beri að geymslugreiða. Ekki verði ráðið af gögnum málsins hver afstaða annarra aðila sé sem hagsmuna hafa að gæta.
Stefndi kveðst byggja aðalkröfu sína um frávísun málsins á því að málið sé vanreifað af hálfu stefnanda.
Stefndi telur að dómkröfur stefnanda séu vanreifaðar og óljósar þannig að í bága fari við ákvæði 80. gr. laga 91/1991. Í e-lið 80. gr. eml. segir: „málsástæður sem stefnandi byggir málssókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, ......“.” Stefndi kveður stefnuna ekki hafa að geyma lýsingu á grundvelli kröfufjárhæðarinnar né sundurliðun hennar. Þá sé krafið um greiðslu tiltekinnar upphæðar í tvennu lagi, án frekari skýringa. Í málinu sé lagt fram sem sönnunargagn, skjal útbúið af stefnanda, sem beri heitið „Höfuðstólshækkanir“. Sé þar gerð grein fyrir sundurliðun kröfunnar. Stefndi vísar til þess að samkvæmt lögum um meðferð einkamála eigi stefnan ein og sér, að nægja til að gefa viðeigandi mynd af málinu og slík sundurliðun sem grundvöllur málsins byggir á þurfi því að koma fram í stefnunni sjálfri. Á það skorti verulega í þessu máli. Þá sé vaxtakrafan einnig vanreifuð og án tilvísunar til ákveðinna greina vaxtalaga.
Stefndi bendir einnig á að málsatvikalýsing í stefnu sé vanreifuð, þannig að ómögulegt sé fyrir stefnda að taka afstöðu til hennar, málsástæðna og lagaraka. Í stefnu sé vísað til þess að stefnandi hafi verið aðili að tveimur fjármögnunarsamningum á árinu 2008, án þess að frekari grein sé gerð fyrir þeim að öðru leyti í stefnu. Dómkröfur þessa máls eigi rót að rekja til tveggja fjármögnunarsamninga stefnanda um kaup og sölu á bifreiðum. Samningarnir varða réttarstöðu þriðja aðila sem ekki á aðild að málinu og af gögnum málsins verði ekki ráðið að hann hafi verið upplýstur um það né gefin kostur á að gæta hagsmuna sinna.
Þá byggir stefnandi á málsástæðum sem vísa til gagna sem á að leggja fram við þingfestingu, án þess að nokkur tilgreining komi fram um það hver þessi gögn eru. Þá sé í stefnu vísað til þess, að stefndi beiti mismunandi aðferðum við endurútreikning sambærilegra samninga, án þess að með nokkru móti sé reynt að rökstyðja í hverju sá mismunur er fólgin. Auk þess sé vísað til gagna um það, að stefndi endurgreiði fyrri skuldara ekki höfuðstólslækkun en lækki heldur ekki höfuðstólinn hjá síðari skuldara, án þess að tiltekið sé hvaða mál þetta nákvæmlega eru, eða hvaða gögn sem lögð eru fram eigi að sýna þetta og hvernig þau rökstyðji kröfu stefnanda.
Þá byggir stefndi frávísunarkröfu sína á því, að hann geti ekki tekið til varna um einstakar málsástæður sem boðaðar séu í stefnu, nema því aðeins að lýsing á málsástæðum sé með þeim hætti, að stefndi geti gert sér grein fyrir hvaða gögn það eru sem benda til mismunandi aðferða hans við útreikninga og með hvaða hætti þau eigi að leiða til þess að taka beri kröfu stefnanda til greina.
Þá vísar stefndi til þess að þrautavarakrafa stefnanda sé með þeim hætti að útilokað sé að taka hana til greina. Í raun sé um að ræða málsástæðu sem krafa verður byggð á. Þrautavarakrafan er ekki afmörkuð á neinn hátt og hefur enga þýðingu um þann ágreining sem er á milli stefnanda og stefnda, heldur felur í sér beiðni um einhvers konar lögfræðiálit dómsins sem er í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. eml. Loks sé enginn rökstuðningur í stefnu um það hvort og þá hvert tjón stefnanda sé af viðskiptunum.
Stefndi kveðst byggja á því að nefndir annmarkar séu svo miklir að ekki verði úr þeim bætt af hálfu stefnanda undir rekstri málsins, enda engir fyrirvarar gerðir þar að lútandi af hálfu stefnanda svo sem um dómkvaðningu matsmanna eða gagnaöflun.
Stefndi vísar til þess að þegar málatilbúnaður stefnanda sé metinn í heild þá uppfylli hann ekki réttarfarskröfur um skýrleika sem nauðsynlegur er til að hægt sé að taka til varna og leggja dóm á málið. Er á því byggt að málatilbúnaður stefnanda uppfylli ekki skilyrði laga um meðferð einkamála, einkum 80. gr. um skýra kröfugerð og málatilbúnað, auk þess sem hann fari gegn almennum reglum einkamálaréttarfars.
Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísun
Stefnandi hafnar þeim málsástæðum sem stefndi byggir frávísuna sína á. Kröfuna kveðst hann byggja á skýru orðalagi 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 með síðari breytingum og hafnar því að aðrir samningsaðilar þurfi að vera aðilar að málinu. Hann telur atvik málsins skýr og að í gögnum málsins liggi fyrir samningar þeir sem hann byggir á. Hann mótmælir því að kröfugerðin sé óskýr og telur að varðandi það hvort málatilbúnaður sé í ósamræmi við 80. gr. laga um meðferð einkamála verði að líta til þess hvort unnt hafi verið að taka til varnar í málinu. Hann hafi lagt útreikninga kröfugerðarinnar fram með stefnunni og hafi talið það nægilegt. Þá telur stefnandi að hann þurfi ekki að sanna tjónið, þess sé ekki krafist, sbr. 7. mgr. 18. gr. nefndra laga. Þá telur hann að þrautavarakrafan sé ágreiningur málsins í hnotskurn.
Niðurstaða
Í málinu krefst stefnandi endurgreiðslu vegna ólögmætrar gengistryggingar og byggir kröfu sína á 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010.
Samkvæmt 5. mgr. 18. gr. nefndra laga ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur ranglega haft af skuldara vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar. Samkvæmt 6. mgr. 18. gr. sömu laga ber lánveitanda að endurgreiða skuldara innan 30 daga frá kröfu um endurgreiðslu, hafi skuldari ofgreitt af láninu. Í 7. mgr. 18. gr. sömu laga segir að hafi einu sinni eða oftar, orðið aðila- eða skuldaraskipti að lánssamningi þar sem um sé að ræða ólögmæta vexti og/eða verðtryggingu skuli þá hver skuldari eiga sjálfstæðan rétt gagnvart kröfuhafa til leiðréttingar á greiðslum þeim sem þeir inntu af hendi vegna lánsins, svo og rétt eða skyldu til leiðréttingar vegna breytinga á höfuðstól lánsins vegna áhrifa gengistryggingar. Réttindi og skyldur sérhvers aðila skulu miðast við þann tíma sem viðkomandi var skuldari lánssamnings.
Ágreiningslaust er að stefnandi var aðili að tveimur gengistryggðum samningum á tímabilinu 28. febrúar 2008 til 24. október 2008. Samningarnir voru annars vegar gerði 21. febrúar 2008 og hins vegar 28. febrúar sama ár. Annar vegna kaupa á bifreiðinni GL-S14 og hin vegna bifreiðarinnar UE-134. Báðir þessir samningar voru yfirteknir þegar bifreiðarnar voru seldar, annars vegar af May Flor Perez Cajes hinn 9. júní 2008 og hins vegar af Valdimar Núma Hjaltasyni hinn 24. október 2008. Því liggur fyrir að skuldaraskipti urðu á samningum þessum. Því á 7. mgr. 18. gr. laga 38/2001 með síðari breytingu hér við.
Eins og atvikum málsins er háttað verður að líta svo á að verði krafa stefnanda tekin til greina muni það hafa áhrif á uppgjör stefnda við þá aðila er hann samþykkti að tækju við samningsskyldunum, þ.e. nefnd May Flor og Valdimar Núma. Þeim hefur ekki verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna í málinu og ber þegar af þeirri ástæðu samanber 2. mgr. 18. gr. laga um meðferð einkamála að vísa málinu frá dómi.
Með vísan til 2. tl. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað svo sem fram kemur í úrskurðarorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Málinu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Daníel Thor Skals Pedersen greiði stefnda SP-fjármögnun hf. 100.000 kr. í málskostnað.