Hæstiréttur íslands
Mál nr. 148/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Varnarþing
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 7. maí 2001. |
|
Nr. 148/2001. |
Þrotabú Ásdísar Erlingsdóttur (Friðjón Örn Friðjónsson hrl.) gegn Þorsteini Erlingi Úlfarssyni (Ólafur Sigurgeirsson hrl.) |
Kærumál. Varnarþing. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Með því að Þ var ekki unnt, eins og til háttaði í málinu, á grundvelli varnarþingsreglna V. kafla laga nr. 91/1991 að fá efnisúrlausn dómstóla um kröfur sínar á hendur ÞEÚ, sem búsettur var erlendis, var úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. apríl 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2001, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar úrlausnar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Samkvæmt gögnum málsins framseldi Ásdís Erlingsdóttir 1. júní 1997 syni sínum, varnaraðila, kröfu að fjárhæð 3.784.594 krónur. Hefur sóknaraðili höfðað mál þetta gegn varnaraðila til viðurkenningar á riftun sóknaraðila á kröfuframsali þessu, en til vara krefst sóknaraðili greiðslu úr hendi varnaraðila að fjárhæð 2.613.639 krónur, ásamt dráttarvöxtum frá 14. febrúar 1995 til greiðsludags. Svo sem greinir í úrskurði héraðsdóms er sóknaraðila ekki unnt, eins og hér háttar til, á grundvelli reglna V. kafla laga nr. 91/1991 að fá efnisúrlausn dómstóla um þessar kröfur sínar á hendur varnaraðila, sem búsettur er erlendis. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, þrotabú Ásdísar Erlingsdóttur, greiði varnaraðila, Þorsteini Erlingi Úlfarssyni, 60.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2001.
I
Mál þetta, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu, birtri 16. nóvember 2000. Málið var þingfest 19. desember s.á., en tekið til úrskurðar um framkomna frávísunarkröfu, að loknum munnlegum málflutningi 9. mars 2001.
Stefnandi er þrotabú Ásdísar Erlingsdóttur, kt. 170426-3049.
Stefndi er Þorsteinn Erlingur Úlfarsson, kt. 281160-5919, RT2 Box 76-5, Nowata, Oklohoma, USA 74048.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega að staðfest verði með dómi riftun stefnanda á kröfuframsali Ásdísar Erlingsdóttur, kt. 170426-3049 dags. 1. júní 1997 til stefnda á fjárkröfu á hendur Jóni Oddssyni, kt. 050141-4549 að fjárhæð kr. 3.784.594,70, en til vara að stefndi greiði búinu kr. 2.613.639,00 með dráttarvöxtum frá 14. febrúar 1995 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda og virðisaukaskatts af málskostnaði.
Dómkröfur stefnda eru aðallega að málinu verði vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Til vara er þess krafist að stefndi verði alfarið sýknaður af kröfum stefnanda. Málskostnaðar er krafist að skaðlausu.
Í frávísunarþætti málsins krefst stefnandi þess, að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og stefnanda úrskurðaður málskostnaður úr hendi stefnda í þessum þætti málsins sérstaklega.
II
Frávísunarkrafa stefnda er á því byggð að stefndi eigi heimili og varnarþing í ríkinu Oklohoma í Bandaríkjunum, en þar hafi stefna málsins verið birt fyrir honum. Héraðsdómur Reykjavíkur eigi ekki lögsögu yfir honum og beri því með vísan til 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að vísa málinu frá dómi.
Reglur um varnarþing sé að finna í V. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, greinum 32. til og með 43. Meginreglan um varnarþing sé í 1. mgr. 32. gr. laganna, en þar segi að sækja megi mann fyrir dómi í þinghá þar sem hann eigi skráð lögheimili. Eigi maður fasta búsetu í annarri þinghá en þar sem lögheimili hans sé skráð megi einnig sækja hann í þeirri þinghá.
Í 43. gr. laga nr. 19/1991 segi að ákvæðum 34. 42. gr. verði beitt til að sækja mann sem sé búsettur er erlendis, en engin af sérreglum ákvæðanna eigi við í máli þessu.
Reglur um varnarþing séu ekki hvað síst til þess að tryggja öryggi og réttarvernd borgaranna og til þess að réttarvarsla þeirra verði sem útgjaldaminnst. Stæðist það lög að sækja aðila búsettan í Bandaríkjunum fyrir dómþingi hér á landi væri óhæfilegur ferða- og dvalarkostnaður því samfara að viðbættu vinnutapi. Stefndi yrði jafnframt því að koma sjálfur til Íslands að borga ferðakostnað fyrir foreldra sína, sem væntanlega yrðu að vitna í málinu. Og þeir hagsmunir sem deilt sé um í málinu sé ódæmd krafa á hendur skuldafrágöngubúi, sem eigi rétt fyrir veðkröfum og skiptakostnaði.
Stefnandi byggir á því að samkvæmt vottorði Hagstofu Íslands sé stefndi íslenskur ríkisborgari og þau lögskipti er mál þetta snúist um varði íslenska hagsmuni. Bein heimild til höfðunar máls þessa sé í 3. tölulið 32. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en þar segi að íslenskan ríkisborgara, sem búsettur sé erlendis en verði ekki sóttur þar, megi sækja fyrir dómi í Reykjavík ef hann á ekki skráð lögheimili í annarri þinghá.
Þá sé í 4. tölulið 32. gr. laga nr. 91/1991 efnislega gert ráð fyrir að stefna megi hér á landi erlendis búsettum manni ef málið varði fjárskyldur hans við mann búsettan hér á landi eða félag, stofnun eða samtök. Í þessu máli séu hagsmunirnir fjárhagslegir hagsmunir þrotabús sem sé íslenskur lögaðili og því sé heimilt að höfða málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á grundvelli ákvæðisins.
Loks byggir stefnandi á því að samkvæmt 43. gr. laga nr. 91/1991 verði ákvæðum 34.-42. gr. laganna beitt til að sækja mann sem búsettur sé erlendis. Ekki verði betur séð en að 35. gr. laganna eigi við í máli þessu, en samkvæmt henni sé heimilt að höfða mál til efnda á eða lausnar undan löggerningi eða vegna vanefnda eða rofa á löggerningi í þeirri þinghá þar sem átti að efna hann eftir hljóðan hans, tilætlun aðila eða réttarreglum.
III
Stefndi í máli þessu er, samkvæmt vottorði Hagstofu Íslands, íslenskur ríkisborgari með lögheimili í Bandaríkjunum og var stefna máls þessa birt fyrir honum þar.
Að meginreglu er ekki hægt að höfða mál hér á landi gegn manni eða lögpersónu, sem á heimili í öðru landi. Skiptir þá engu hvort um íslenska ríkisborgara er að ræða eða ekki. Frá þessari meginreglu eru hins vegar þrenns konar undantekningar og er til úrlausnar hvort höfðun máls þessa á hendur stefnda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur verður byggð á einhverri þeirra.
Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála má sækja íslenskan ríkisborgara, sem búsettur er erlendis en verður ekki sóttur þar, fyrir dómi í Reykjavík ef hann á ekki skráð lögheimili í annarri þinghá. Ákvæði 3. mgr. 32. gr. svara til 76. gr. laga nr. 85/1936, en í greinargerð með 76. gr. segir að greinin taki til manna, sem erlendis eiga heima, en verða ekki sóttir þar fyrir dómi vegna þess, að þarlandsdómar eiga ekki lögsögu yfir þeim, t.d. sendiherrar og starfsmenn sendisveita. Samkvæmt því kemur þessi regla í raun ekki til álita nema í tilvikum, þar sem höfða þarf mál á hendur Íslendingi, sem nýtur úrlendisréttar í dvalarríki sínu. Verður stefndi því ekki sóttur fyrir dómi í Reykjavík á grundvelli ákvæðis 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991.
Þá er heimilt samkvæmt 4. mgr. 32. gr. laga 19/1991 að höfða mál á hendur erlendis búsettum manni hér á landi ef það varðar fjárskuldbindingu hans við mann, sem búsettur er hér á landi eða félag, stofnun eða samtök sem eiga varnarþing hér. Skilyrði er að stefndi sé staddur hér á landi við birtingu stefnu. Stefna máls þessa var birt fyrir stefnda í Bandaríkjunum og verður stefndi því ekki sóttur fyrir dómi í Reykjavík á grundvelli 4. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991.
Loks er mælt fyrir um það í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991 að ákvæðum 34.-42. gr. laganna verði beitt til að sækja mann sem búsettur er erlendis, svo og félag, firma, stofnun eða samtök sem er eins ástatt um, nema annað leiði af samningi við erlent ríki. Byggir stefnandi á því að regla 35. gr. laganna eigi við um málshöfðun þessa, en samkvæmt 1. mgr. greinarinnar má sækja mál til efnda á eða lausnar undan löggerningi eða vegna vanefnda eða rofa á löggerningi í þeirri þinghá þar sem átti að efna hann eftir hljóðan hans, tilætlun aðila eða réttarreglum. Varnarþing samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 19/1991 miðast þannig við þann stað, þar sem efndir áttu að fara fram á löggerningi.
Í máli þessu er aðallega krafist staðfestingar á riftun stefnanda á framsali Ásdísar Erlingsdóttur, Mávanesi 2, Garðabæ til stefnda á kröfu á hendur Jóni Oddssyni, Ásbúð 102, Garðabæ að fjárhæð kr. 3.784.594,70, en til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 2.613.639,00. Hin sérstaka varnarþingsregla 35. gr. laga nr. 19/1991 á því ekki við um mál þetta.
Verður samkvæmt þessu að vísa málinu frá dómi.
Eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 40.000 krónur og hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Friðjón Örn Friðjónsson hrl. en af hálfu stefnda Ólafur Sigurgeirsson hrl.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi greiði stefnda 40.000 krónur í málskostnað.