Hæstiréttur íslands

Mál nr. 277/2002


Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Stjórnsýsla
  • Þjónustugjald


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. desember 2002.

Nr. 277/2002.

Tækja-Tækni ehf.

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Skaðabótamál. Stjórnsýsla. Þjónustugjald.

T ehf. krafði Í um skaðabætur vegna kostnaðar sem það taldi sig hafa orðið fyrir vegna vinnu við að fá endurgreidda kröfu vegna ætlaðrar ólögmætrar gjaldtöku. Ekki lá fyrir að T ehf. hefði þurft að fá aðkeypta vinnu vegna þessara samskipta. Talið var að af framlögðum gögnum yrði ekki annað ráðið en að gagnaöflun T ehf. og bréfaskriftir hefðu verið eins og hver annar venjubundinn þáttur í starfsemin þess. Fyrirtæki sem þetta þyrfti jafnan að eiga samskipti við stjórnvöld, þ. á m. til þess að fá leiðréttingar sinna mála. Varð T ehf. því ekki talið hafa sýnt fram á að hafa orðið fyrir tjóni í skilningi skaðabótaréttar og ekki leitt líkur að því að gjaldtakan hefði haft einhver sérstök áhrif á atvinnurekstur þess. Var Í því sýknað af kröfum T ehf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Haraldur Henrysson.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 14. júní 2002. Hann krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 1.409.963 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. desember 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, en til vara aðra og lægri fjárhæð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn falla niður.

Með bréfi 23. febrúar 2000 gaf ríkistollstjóri með samþykki tollstjórans í Kópavogi áfrýjanda leyfi til SMT-tollafgreiðslu vegna innflutnings á vörum samkvæmt reglugerð nr. 722/1997 þar um. Reglugerðin var gefin út samkvæmt heimild í 14. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 6. gr. laga nr. 69/1996. Í leyfinu er sagt að tollkerfið sé staðsett hjá Skýrr hf., en í umsjá ríkistollstjóra. Þar er til þess vísað að Skýrr hf. annist tengingu áfrýjanda við Tollalínu, þ.e. upplýsingalínu tollstjóra. Í 8. mgr. 14. gr. tollalaga er ráðherra heimilað að setja með reglugerð fyrirmæli um gjaldtöku vegna þessarar tollmeðferðar. Reglugerð nr. 722/1997 hafði þó engin slík fyrirmæli að geyma.

Skýrr hf. krafði áfrýjanda þóknunar, sem nam 25.000 króna fasts grunngjalds fyrir tenginguna og 2.400 króna gjalds á mánuði fyrir aðgang að Tollalínu ríkistollstjóra. Áfrýjandi gerði strax athugasemdir við gjaldtöku þessa en taldi sig nauðbeygðan til að greiða kröfu félagsins með fyrirvara um réttmæti hennar. Hann hóf síðan baráttu fyrir því að fá þennan kostnað endurgreiddan sem lyktaði með endurgreiðslu Skýrr hf., svo sem nánar greinir í héraðsdómi. Ekki er í málinu deilt um fjárhæð þessarar endurgreiðslu. Hins vegar krefst áfrýjandi skaðabóta af stefnda vegna þess kostnaðar sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna vinnu við að fá fjárhæðina endurgreidda. Gerir hann stefnda reikning fyrir vinnu forstjóra áfrýjanda við að sanna að taka tengigjalds og mánaðargjalds vegna Tollalínu hafi ekki átt við rök að styðjast. Nemur reikningurinn stefnufjárhæðinni. Þar er sagt að vinnan hafi falist í gagnaöflun, lestri, upplýsingaöflun hjá sérfræðingum, bréfaskriftum, símtölum, fundarsetum o.fl. Hvorki tímaskýrslur né önnur gögn fylgja reikningi þessum.

Samkvæmt framansögðu krefst áfrýjandi greiðslu skaðabóta vegna kostnaðar við að fá endurgreidda kröfu vegna ætlaðrar ólögmætrar gjaldtöku. Ekki liggur fyrir að hann hafi vegna þessa þurft að fá aðkeypta vinnu. Af framlögðum gögnum verður ekki annað ráðið en að gagnaöflun hans og bréfaskriftir hafi verið eins og hver annar þáttur í starfsemi hans. Fyrirtæki sem þetta þurfa jafnan að eiga samskipti við stjórnvöld, þar á meðal til þess að fá leiðréttingar sinna mála. Áfrýjandi verður því ekki talinn hafa sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni í skilningi skaðabótaréttar og ekki leitt líkur að því að gjaldtakan hafi haft einhver sérstök áhrif á atvinnurekstur hans. Verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.

Samkvæmt þessari niðurstöðu er rétt að áfrýjandi greiði stefnda málskostnað, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Tækja-Tækni ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2002.

I

Málið er höfðað 4. september sl. og dómtekið 1. mars sl.

Stefnandi er Tækja-Tækni ehf., Smiðjuvegi 44, Kópavogi.

Stefndi er íslenska ríkið og er fjármálaráðherra stefnt fyrir þess hönd.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 1.409.963 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. desember 2000 til 1 júlí 2001 en samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verð­trygg­ingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn falla niður.

II

Stefnandi kveður málavexti vera þá að með lögum nr. 69/1996, sem hafi verið breyt­ingalög við tollalög nr. 55/1987, hafi átt að koma á tölvuvæddri tollafgreiðslu inn­flutningsfyrirtækja fyrir 1. janúar 1999. Þessi frestur hafi síðan verið framlengdur til 1. janúar 2001 í samræmi við ákvæði laga nr. 109/1999.

Með 6. gr. laga nr. 69/1996 var 14. gr. tollalaga breytt á þann veg að innflutn­ings­fyrir­tækjum var gert skylt að taka upp svokallaða SMT tollafgreiðslu, en skamm­stöfun þessi stendur fyrir orðin skjalasending milli tölva. Jafnframt var ráðherra með lög­unum veitt heimild til að setja í reglugerð nánari ákvæði um SMT tollafgreiðslu, m.a. um greiðslu kostnaðar vegna gagnaflutnings og gjaldtöku vegna afgreiðslunnar. Fjár­málaráðherra setti þessa reglugerð, nr. 722, 22. desember 1997. Í henni hafi engin ákvæði verið um greiðslu kostnaðar af SMT tollafgreiðslu, sem fella hafi átt á innflytjendur.

Stefnandi kveðst hafa sótt um leyfi til SMT tollafgreiðslu í ágúst 1999 og hafi ríkis­tollstjóri veitt honum heimild til hennar í febrúar árið 2000. Í heimildarbréfi ríkis­toll­stjóra komi fram að Skýrr hf. annist tengingu stefnanda við svokallaða tollalínu. Af hálfu stefnanda hafi komið fram strax að hann sætti sig ekki við neins konar gjaldtöku af hálfu Skýrr hf. eða annarra aðila vegna skyldu fyrirtækis hans til að taka upp SMT toll­af­greiðslu.

Skýrr hf. innheimti gjöld af stefnanda vegna þessarar þjónustu og samkvæmt gögnum máls­ins var um að ræða stofnkostnað og svo gjald vegna tollalínu. Stefnandi kveðst þegar hafa hafið baráttu fyrir því að fá þessi gjöld felld niður og síðan endurgreidd. Í stefn­unni er gerð grein fyrir samskiptum hans við Skýrr hf. og ríkistollstjóra á árinu 2000 sem lyktaði með því að 31. október það ár endurgreiddi Skýrr hf. honum allt sem hann hafði greitt, samtals 51.584 krónur, þ.e. reikninga Skýrr hf. ásamt vöxtum.

Í nóvember 2000 krafðist stefnandi þess að ríkistollstjóri héldi honum skaðlausum vegna þeirrar vinnu sem framkvæmdastjóri hans og aðrir starfsmenn höfðu lagt fram til að fá hrundið gjaldtöku Skýrr hf. Kveðst stefnandi hafa sent ríkistollstjóra reikning þar sem fram hafi komið að í þetta verkefni hafi farið 75 klukkustundir og 50 mínútur, sem verð­lagðar hafi verið á 15.000 krónur klukkustundin auk virðisaukaskatts. Reikn­ing­ur­inn hafi því verið samtals að fjárhæð 1.409.963 krónur sem er stefnufjárhæð máls­ins. Stefnandi kveðst hafa skilað ríkissjóði virðisaukaskatti af þessari vinnu svo sem honum hafi borið.

Af hálfu stefnda eru ekki gerðar sérstakar athugasemdir við framangreinda mála­vaxta­lýsingu en bent á að stefnanda hafi ekki borið skylda til þess að taka upp SMT toll­afgreiðslu á árinu 2000. Honum hafi hins vegar verið það heimilt frá haustinu 1999 en ekki skylt fyrr en frá og með 1. janúar 2001, sbr. lög nr. 109/1999 um breyt­ingu á tollalögum. Af þessu leiði að stefnandi hefði getað fengið hefðbundna toll­af­greiðslu á pappírsformi á árinu 2000. Kveður stefndi málsókn stefnanda því byggja á rangri forsendu um að honum hafi verið nauðugur kostur að tengjast SMT toll­af­greiðslu­kerfinu.

Í máli þessu sækir stefnandi stefnda um greiðslu framangreindrar fjárhæðar en stefndi hefur alfarið hafnað greiðsluskyldu.

III

Stefnandi byggir kröfu sína á því að tjón, sem einstaklingar og/eða lögaðilar kunni að verða fyrir vegna ólögmætra athafna handhafa ríkisvaldsins séu á ábyrgð stefnda án þess að tjónþoli þurfi að sanna að um ólögmæta eða saknæma háttsemi í skiln­ingi almennu skaðabótareglunnar sé að ræða af hálfu starfsmanna stefnda.

Stefnandi bendir á að ríkistollstjóri hafi eftir nærri hálfs árs baráttu stefnanda fall­ist á að gjaldtaka Skýrr hf., sem ríkistollstjóri hafði ráðið sér til aðstoðar við að koma á lagg­irnar framangreindri þjónustu, ætti sér ekki stoð í lögum, þ.e. hvorki í tollalögum né reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Í framhaldi af því hafi Skýrr hf. endurgreitt stefn­anda framangreind gjöld að tilhlutan ríkistollstjóra. Barátta forsvarsmanna stefn­anda fyrir því að fá hin ólögmætu gjöld felld niður hafi kallað á sérstaka og um­fangs­mikla vinnu starfsmanna stefnanda auk þess sem leitað hafi verið ráðgjafar hjá sér­fræð­ingum um réttarstöðu vegna gjaldtökunnar. Þessi vinna starfsmanna stefnanda hafi skert vinnuframlag þeirra í þágu stefnanda og er þar sérstaklega bent á vinnu­fram­lag framkvæmdastjórans.

Verði ekki fallist á að stefndi beri hlutlæga skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda er á því byggt að stefndi beri ábyrgð á því að starfsmenn ríkistollstjóra hafi með ólög­mæt­um og saknæmum hætti valdið stefnanda tjóni, þegar þeir með einhvers konar samn­ingi við Skýrr hf. hafi veitt félaginu heimild til að innheimta gjöld hjá stefnanda án þess að fyrir hendi væri heimild til slíkrar innheimtu.

Af hálfu stefnda er í fyrsta lagi á því byggt að engin lagaákvæði hafi að geyma al­menna reglu um hlutlæga bótaábyrgð hans vegna vinnu við ýmiss konar erindi, um­sóknir eða kærur til stjórnvalda. Hins vegar séu til sérreglur í ákveðnum lögum en af þeim verði ekki dregnar ályktanir um tilvist almennrar reglu heldur þvert á móti. Megin­reglan sé sú að einstaklingar og lögaðilar beri sjálfir kostnað vegna erinda eða kæra til stjórnvalda, hvort sem er vegna fyrirhafnar viðkomandi eða sérfræðiaðstoðar sem aflað er.

Í öðru lagi er á því byggt að stefndi hafi ekki valdið stefnanda tjóni með ólög­mætri eða saknæmri háttsemi og eigi því bótakrafa stefnanda sér ekki stoð í al­mennu skaðabótareglunni. Bæði einstaklingar og lögaðilar eigi í margháttuðum sam­skiptum við stefnda án þess að eiga kröfu um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna þeirrar vinnu. Bendir stefndi sérstaklega á að samskipti innflutningsfyrirtækja, eins og stefnandi er, við tollyfirvöld, séu mjög mikil og þar sé um að ræða eðlilegan og oft stóran þátt í starf­semi fyrirtækjanna.

Stefndi mótmælir skaðabótakröfu stefnanda og telur ætlað tjón hans ósannað. Bendir stefndi á að af gögnum málsins verði ekki séð að af hálfu stefnanda hafi verið lagt í umfangsmikla vinnu vegna hinnar umdeildu gjaldtöku. Ekkert réttarsamband sé á milli aðila málsins, sem geri stefnanda kleift að krefja stefnda um andvirði reikn­ings, sem sé einhliða saminn af honum og styðjist ekki við gjaldskrá, reikninga fyrir út­lögð­um kostnaði eða aðrar heimildir.

Loks byggir stefndi á því að ef um sé að ræða ólögmæta gjaldtöku af ein­stakl­ingum eða lögaðilum eigi þeir eingöngu kröfu til endurgreiðslu ofgreiddra fjárhæða en hin ólögmæta gjaldtaka geti ekki stofnað bótaskyldu umfram það sem leiðrétt verði með endurgreiðslunni. Í þessu máli hafi ríkistollstjóri á engan hátt stuðlað að ólög­mætri gjaldtöku eða tjóni stefnanda og bresti því algjörlega stoð fyrir kröfum hans.

IV

Ríkistollstjóri gaf stefnanda leyfi til SMT-tollafgreiðslu vegna innflutnings á vörum samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 722/1997 23. febrúar 2000. Í leyfinu er vísað til þess að Skýrr hf. annist tengingu stefnanda við Tollalínu, upplýsingalínu tollstjóra. Hvorki í leyfinu né í nefndri reglugerð er heimild til að innheimta gjöld þau, sem stefnandi greiddi Skýrr hf. að kröfu félagsins og það endurgreiddi síðan stefnanda með vöxtum eins og rakið var.

 Dómurinn lítur svo á, með hliðsjón af framansögðu, að í endurgreiðslunni hafi falist viðurkenning á því að gjöldin hafi verið innheimt án þess að heimild væri fyrir þeim. Slíkt atferli getur, auk endurgreiðslu, leitt til bótaskyldu þess, sem ábyrgð ber á því samkvæmt almennum reglum. Í þessu máli krefur stefnandi stefnda um bætur vegna vinnu starfsmanna sinna. Hefur hann lagt fram reikning fyrir vinnu þeirra við "að fá hrundið ólögmætri gjaldtöku stefnda með atbeina Skýrr hf.", eins og segir í stefnunni. Kröfu sinni til stuðnings hefur stefnandi lagt fram 9 bréf, sem hann ritaði Skýrr hf. og ríkistollstjóra vegna endurgreiðslukröfunnar. Ekkert þessara bréfa er ítarlegt eða margbrotið og getur varla hafa útheimt mikla vinnu starfsmanna stefnanda, eins og haldið er fram í stefnu. Þar er því líka haldið fram að leitað hafi verið ráðgjafar sérfræðinga vegna þessa en þess sér engan stað í gögnum málsins.

Af framangreindum gögnum verður ekki annað ráðið en að bréfaskriftirnar hafi verið eins og hver annar venjubundinn þáttur í starfsemi stefnanda, sem, vegna starfsemi sinnar, má alltaf búast við því að þurfa að eiga samskipti við yfirvöld, meðal annars til að fá leiðréttingu sinna mála, eins og í þessu tilfelli. Þá er og á það að líta, að ekki verður annað séð en stefnandi hafi frá upphafi verið viss um ólögmæti gjaldtökunnar. Honum bar því, samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins, að takmarka tjón sitt eftir föngum. Ef marka má kröfugerð hans gerði hann það ekki heldur eyddi tíma starfsmanna sinna í vinnu við að fá leiðréttingu mála sinna í stað þess að ráða sér lögmann til að reka mál á hendur stefnda eða öðrum, er ábyrgð kynnu að hafa borið. Á þessu vali sínu verður stefnandi sjálfur að bera ábyrgð.

Samkvæmt framansögðu er stefndi sýknaður en málskostnaður þykir mega falla niður.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnanda, Tækja-Tækni ehf., en málskostnaður skal falla niður.