Hæstiréttur íslands

Mál nr. 331/2006


Lykilorð

  • Náttúruvernd
  • Umferðarlög


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. mars 2007.

Nr. 331/2006.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Náttúruvernd. Umferðarlög.

X var gefið að sök að hafa brotið gegn tilteknum ákvæðum náttúruverndarlaga og reglugerðar um akstur í óbyggðum með því að hafa ekið ökutæki utan vegar á Skeiðarársandi og valdið þar skemmdum. Í málinu var deilt um hvort sú leið sem X ók umrætt sinn teldist vegur í skilningi laganna. Í dómi Hæstaréttar var litið til þess að umrædd leið hefði lengi verið kunnur slóði og ekin á árum áður til selveiða og til að safna saman rekaviði. Þá lá fyrir að X og félagar hans hefðu um áratuga skeið farið þessa leið vegna leitar að gulli í flaki hollensks Indíafars sem talið er grafið í sandinum, og meðal annars notið liðsinnis Orkustofnunar við þá leit. Loks var litið til þess að slóðinn er merktur inn á kort sem var unnið og gefið út af Kortagerðarstofnun bandaríska varnarmálaráðuneytisins og Landmælingum Íslands árið 1988, og almenningur getur nálgast. Samkvæmt framangreindu taldist umræddur slóði vegur í skilningi náttúruverndarlaga í refsimáli þessu, enda yrði að skýra allan skynsamlegan vafa um það atriði ákærða í hag. Var X því sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins í málinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.  

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 31. maí 2006, að fengnu áfrýjunarleyfi, í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að sakfelling ákærða verði staðfest en refsing þyngd.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.  

Ekki er fallist á kröfu ákæruvaldsins um frávísun málsins en ákærði fékk leyfi Hæstaréttar til að áfrýja héraðsdómi 29. maí 2006.

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar nánar greinir er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn tilteknum ákvæðum laga um náttúruvernd nr. 44/1999 og reglugerð nr. 619/1998 um akstur í óbyggðum með því að hafa í byrjun júní 2004 ekið ökutækinu [...] utan vegar á Skeiðarársandi, nánar tiltekið um 6,7 kílómetra leið í austurátt frá skipbrotsmannaskýli við Ytri-Mela, sem er á sandinum milli Skeiðarár og Sandgígjukvíslar, og valdið skemmdum. Ágreiningur aðila stendur einkum um hvort leið sú sem ákærði ók umrætt sinn teljist vegur í skilningi 1. og 3. mgr. 17. gr. laga nr. 44/1999 en samkvæmt ákvæðinu er bannað að aka vélknúnum ökutækjum utan vega, að viðlagðri refsiábyrgð samkvæmt 76. gr. laganna. Í athugasemdum við 17. gr. í frumvarpi til náttúruverndarlaga var um hugtakið „vegur“ vísað til 2. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 en þar er vegur skilgreindur sem „vegur, gata, götuslóði, stígur, húsasund, brú, torg, bifreiðastæði eða þess háttar, sem notað er til almennrar umferðar.“ Fyrir liggur að leið sú sem ákærði ók umrætt sinn hefur lengi verið kunnur slóði. Eigandi landsvæðisins bar fyrir dómi að leiðin hafi verið ekin á árum áður meðal annars á vorin til selveiða og til að safna saman rekaviði. Aðspurð kvaðst hún síðast hafa farið þessa leið á ökutækjum árið 1987 eða 1988 en eiginmaður sinn hefði líklega farið síðar á reka. Auk þess hafi landeigendur ekið eftir slóðanum á fjórhjólum, síðast á umliðnu sumri. Þá liggur fyrir að ákærði og félagar hans hafa um áratuga skeið farið þessa leið út að kofa við svonefndan Rauðamel vegna leitar að gulli í flaki hollenska Indíafarsins Het Vaapen van Amsterdam, sem talið er grafið í sandinum, og meðal annars notið liðsinnis Orkustofnunar við þá leit. Slóðinn er merktur inn á kort sem var unnið og gefið út af Kortagerðarstofnun bandaríska varnarmálaráðuneytisins og Landmælingum Íslands árið 1988, en fram kom í málflutningi fyrir Hæstarétti að almenningur getur nálgast kortið hjá Landmælingum. Samkvæmt framangreindu verður umræddur slóði, sem ákærða er gefið að sök að hafa ekið, talinn vegur í skilningi 17. gr. laga nr. 44/1999 í refsimáli þessu, enda verður að skýra allan skynsamlegan vafa um það atriði ákærða í hag. Breytir engu í því sambandi þótt hlutar vegarslóðans kunni að vera undir vatni vegna sérstakra aðstæðna á sandinum, en fyrir liggur að hann er fær að minnsta kosti sumum ökutækjum. Verður ákærði þegar af þessari ástæðu sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins.

Eftir þessum úrslitum málsins verður allur sakarkostnaður lagður á ríkissjóð. Niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð málsvarnarlauna verjanda ákærða verður staðfest. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti verða ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

       Ákærði, X, skal vera sýkn af kröfu ákæruvalds.

Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði sem ákveðin voru í héraðsdómi, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 30. desember 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 25. nóvember sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 17. mars 2005, á hendur X [kennitala] [heimilisfang] „fyrir brot gegn lögum um náttúruvernd, með því að hafa í byrjun júní 2004 ekið ökutækinu [...], utan vegar á Skeiðarársandi, nánar tiltekið um 6,7 km leið í austurátt miðað við skipbrotsmannaskýli við Ytri-Mela, sem er um 20 km suður af þjóðvegi nr. 1 milli Skeiðarár og Sandgígjukvíslar. Akstur ákærða olli skemmdum á votlendi einkum á 200 m kafla sem hefur hnit N63°47’23,8” og W17°10’55,1.

Þessi háttsemi ákærða þykir varða við 1., sbr. 3. mgr. 17. gr., sbr. 76. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999 og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 619/1998 um akstur í óbyggðum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Af hálfu ákærða er krafist sýknu og að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda.

II.

Málavextir

Með bréfi dags. 19. júní 2004 til lögreglustjórans í Austur-Skaftafellssýslu kærði A, þjóðgarðsvörður í Skaftafelli, akstur utan vega á Skeiðarársandi, nánar tiltekið fyrir austan sæluhúsið á Ytri-Melum, um 20 km fyrir sunnan þjóðveg nr. 1 á Skeiðarársandi, milli Skeiðarár og Sandgígjukvíslar. Í kærunni segir að um sé að ræða spjöll á gróðri vegna aksturs á stóru ökutæki á sex hjólum, skráningarnúmer [...], af gerðinni Volvo, svo og vegna vélhjóls. Tekið er fram að ekkert vélhjól hafi sést við sæluhúsið við Ytri-Mela. Ekið hafi verið yfir mjög viðkvæmt gróðurlendi og búsvæði fugla, sem sé einstakt á Íslandi. Í kærunni segir jafnframt að vegslóði liggi frá þjóðvegi nr. 1 að sæluhúsi Slysavarnarfélagsins Kára á Skeiðarársandi við Ytri-Mela. Vegslóðinn liggi síðan skammt fyrir austan sæluhúsið og annar áleiðis að fjöru. Einnig segir að ökutæki [...] hafi búið til nýjan slóða þvert gegnum gróðurlendið og séu för eftir ökutækið mjög greinileg. Með kærunni fylgdu ljósmyndir af vettvangi. Loks segir í kærunni að B fuglafræðingur hafi tilkynnt þjóðgarðsverði um atvikið, en hann vinni að fuglarannsóknum á Skeiðarársandi. Telji hann að landspjöllin hafi verið unnin á tímabilinu frá 10. til 18. júní 2004, en hann hafi verið á sandinum frá byrjun júní til 10. júní og komið síðan aftur á sandinn 18. júní.

Frumskýrsla lögreglu er dags. 28. júní 2004. Þar segir að haft hafi verið samband við ákærða og hann sagst vera fyrirsvarsmaður C ehf., en það fyrirtæki sé skráður eigandi ökutækisins [...]. Ákærða var kynnt að fram væri komin ofangreind kæra. Viðurkenndi ákærði hafa notað fyrrgreint ökutæki á sandinum við leit skipi, sem talið væri grafið í sandinum. Sagðist hann vera þarna með fullu leyfi landeiganda. Hann kannaðist við að ökutækinu hefði verið ekið þarna um og sagðist telja sig í fullum rétti til þess þar sem hann hefði leyfi landeiganda til að starfa þarna. Ákærði var spurður hvort hann hygðist gera einhverjar ráðstafanir til að bæta fyrir þau spjöll, sem þegar hefðu orðið og sagðist hann ekki hafa það í hyggju. Skeiðarársandur myndi jafna sig sjálfur hér eftir sem hingað til. Haft var samband við landeiganda, D, og staðfesti hún að ákærði væri þarna við störf með hennar leyfi. Hún sagði að ákærði og faðir hans hefðu lengi haft leyfi til að leita að skipi, sem talið væri grafið í sandinum og að þeir hefðu unnið að verkefninu í áratugi. Sagðist hún ekki vita til annars en að ákærði hefði ávallt gengið vel um svæðið.

Hinn 29. júlí 2004 fór lögregla á vettvang og rannsakaði ætluð ummerki á sandinum. Fór lögreglumaðurinn, E, í samfloti með þjóðgarðsverðinum á bifreið niður á Skeiðarársand að skipbrotsmannaskýli á Ytri-Melum. Í skýrslunni, sem dagsett er sama dag, segir að beygt sá til suðurs af hringvegi á vegamótum, sem séu í hnitum N 63°56’23,9” og W 17°15’42,0”. Ekið hafi verið eftir slóða, sem liggi að fyrrgreindu skýli og bifreiðin skilin þar eftir. Hnit þess staðar, sem skipbrotsmannaskýlið standi á sé N 63°47’50,9” og W 17°16’46,8. Frá skipbrotsmannaskýlinu hafi verið gengið í austur uns komið hafi verið að húskofum í grennd við leitarsvæðið þar sem skipsins sé leitað. Hnit þess staðar séu 63°47’23,8” og W 17°09’ 21,9”. Við skipbrotsmannaskýlið virðist vera nokkurs konar vinnubúðir þeirra, sem vinni að leitinni. Þar hafi staðið bifreiðin [...], sem sé sex hjóla bifreið á stórum hjólum á þremur drifásum. Gengið hafi verið frá skipbrotsmannaskýlinu beint í austur og að húskofunum við leitarsvæðið og förin eftir ætlaðan akstur utan vega rakin á leiðinni til baka.

Aðstæðum á sandinum er lýst í skýrslunni. Þar segir að austan Ytri-Mela sé mikið undirlendi. Um allt renni vatn áleiðis til sjávar og séu þarna miklar bleytur og votlendi. Vatn renni í grunnum farvegum, frá 5 og upp í 50 cm djúpum og séu farvegirnir oft nokkuð breiðir. Inn á milli komi grónar eyrar og sé oft og tíðum blautt á þessum eyrum þannig að gróður sé viðkvæmur. Misjafnt sé eftir eyrum á sandinum hvort blautt sé í jarðveginum eða ekki og fari mikið eftir því hversu viðkvæmur gróðurinn sé. Sums staðar inn á milli séu sandeyrar þar sem lítinn sem engan gróður sé að finna. Fari þetta eitthvað eftir því hversu mikil úrkoma hafi verið þar sem einhverjar þessara eyra fari á kaf í vatn þegar mikið hafi rignt. Tekið er fram að mikið hafi rignt áður en farið var í vettvangsferðina og sömuleiðis daginn sem vettvangsferðin stóð yfir og að mati kæranda hafi óvenju mikið vatn verið á þessum slóðum umræddan dag.

Í skýrslunni segir að frá húskofunum, sem getið sé um hér að ofan, hafi legið för til vesturs, sem greinilega hafi verið eftir þrenns konar ökutæki, þ.e. bifhjól, fjórhjól og bifreið. Á um 200 m löngum kafla hafi förin verið í mjúkum og blautum jarðvegi, þöktum mosa. Á þessum kafla megi ráða af ummerkjum að gömul gata hafi verið þarna áður og nú hafi verið farið að nota hana á ný. Sums staðar hafi verið ekið út úr götunni og ný hjólför myndast við það utan við hana. Hjólför eftir bifhjól hafi verið einna mest áberandi, en för eftir bifhjólið hafi gert skarð í yfirborð mosans. För eftir bifreiðina og fjórhjólið hafi fremur verið með þeim hætti að mosinn hafði troðist niður án þess að skarð kæmi í hann. Teknar voru myndir af þessum ummerkjum, sem eru meðal gagna málsins. Nokkru vestar á sandinum hafi verið að finna annan stað þar sem myndast höfðu álíka áberandi för í votlendinu. Hafi þarna einnig verið um að ræða 200 m langan kafla og förin með svipuðum hætti og fyrr hafi verið lýst. Hnit þess staðar sé N 63°47’ 23,8” og W 17°10’55,1”. Einnig voru teknar myndir af þessum ummerkjum og eru þær meðal gagna málsins.

Í skýrslunni segir síðan að á öðrum köflum leiðarinnar hafi ekki verið um eins afgerandi skemmdir að ræða og áður sé lýst, en víða hafi mátt sjá í föstum jarðvegi för eftir ökutæki þótt ekki þætti ástæða til að ljósmynda þau. Hjólför, sem fundust á leiðinni og voru á föstu undirlagi voru ljósmynduð og mæld og hafi mælingar á þeim passað við mælingar, sem gerðar hafi verið á hjólbörðum [...] og hjólabili hennar, auk þess sem munstur hafi verið samsvarandi. Ekki hafi verið áberandi för á fleiri stöðum en þessum, en ljóst sé að á milli skipbrotsmannaskýlisins og húskofanna við leitarsvæðið, sem sé 6,7 km í beinni loftlínu, hafi að meira eða minna leyti verið ekið utan slóða eða þá að eknir hafi verið gamlir slóðar, sem hafi að mestu eða að fullu verið grónir.

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu 12. ágúst 2004. Ákærði kvaðst hafa stundað rannsóknir og leit að fornminjum á Skeiðarársandi í áratugi með leyfi landeiganda og ráðherraleyfi frá 1961. Sagðist hann hafi ekið bifreiðinni OX 655 um leitarsvæðið, sem sé hólfað niður og stikað eftir ákveðnu kerfi frá 1961, en á árinu 1984 hafi leitarsvæðið verið sett inn á hnitakerfið með aðstoð Orkustofnunar. Hafi þá verið settar niður nýjar stikur, sérstaklega útbúnar fyrir aðstæður á Skeiðarársandi.

Ákærða voru sýndar ljósmyndir af vettvangi. Kvaðst hann kannast við förin eftir [...], en bifreiðin sé sérstaklega útbúin með þessa skipsleit á Skeiðarársandi í huga, þ.e. til þess að komast um svæðið og valda sem minnstum spjöllum. Fullyrti ákærði með vísan til áralangrar reynslu sinnar af sandinum að förin eftir bifreiðina yrðu horfin eftir 3 ár. Hann sagði að þar sem myndirnar væru teknar hefði hann verið að leita að landmælingarstikum. Aðspurður sagði hann að för eftir mótorhjól væru ekki á hans ábyrgð eða samstarfsmanna hans, en sagðist hafa orðið var við menn á alls konar farartækjum á sandinum, m.a. á mótorhjólum og væri umferð fólks á sandinum töluverð. Ákærði lét þess getið að svæði þar sem getið sé um húskofa á mynd nr. 1 sé kallað Rauðimelur. Þar hafi verið búðir leitarmanna árið 1984 og séu kofarnir notaðir enn þegar leitað sé á þessu svæði. Kofunum hafi verið komið fyrir þarna á sínum tíma með vitund og vilja hreppsnefndar og landeiganda.

Dómari gekk á vettvang ásamt sækjanda, ákærða og verjanda hans, A, þjóðgarðsverði, D, landeiganda og E, lögreglumanni. Ekið var á bifreið að skipbrotsmannaskýli við Ytri-Mela og gengið þaðan í austurátt 6,7 km leið að kofum á svokölluðum Rauðamel og til baka, þ.e. þá leið, sem ákærða er gefið að sök að hafa ekið utan vega í ákæru málsins.

Ákærði kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Hann viðurkenndi að hafa ekið þá leið, sem um getur í ákæru málsins á ökutækinu [...], en mótmælti að um akstur utan vega hefði verið að ræða. Hann teldi því ekki að háttsemi sín færi í bága við lög. Hann sagðist hafa ekið eftir gömlum slóða, sem þarna væri. Sagðist ákærði hafa haldið við stikum á þessari leið með aðstoð hjálparsveita. Þá sagði ákærði að slóðinn væri merktur inn á kort, m.a. væri hann sýndur á korti fyrir utan skálann á Kirkjubæjarklaustri og sagðist ákærði ekki muna betur en að sams konar kort væri í Skaftafelli. Aðspurður sagði ákærði að ástæðan fyrir veru hans á Skeiðarársandi í byrjun júní 2004 væri leitin að gullskipinu svokallaða, sem lengi hefði staðið yfir. Í umrætt sinn hefði hann verið að setja mælistikur, sem settar hefðu verið niður á sandinum 1972, inn á GPS-staðsetningartæki. Um væri að ræða járnstikur, merktar með tölunni 50, sem þýddi að þær væru 1 km inni í landi. Þessar stikur væru að týnast, sem væri slæmt fyrir leitina að gullskipinu. Aðspurður sagði hann að Gullleitarfélagið sjálft hefði sett þessar stikur niður á sínum tíma, þ.e. sá hópur sem leitað hefði að skipinu frá 1960. Hann sagði að upphaflega hefði F og félagar fengið heimild ráðherra til að leita að gullskipinu árið 1960, sbr. dskj. nr. 9, en jafnframt hefðu þeir verið með leyfi landeiganda til þess. Um 10 árum síðar hefði faðir ákærða og síðar ákærði sjálfur bæst við leitarhópinn. Ákærði sagði að hann og faðir hans hefðu rekið fyrirtækið G, sem sérhæfði sig í björgun skipa. Sagðist ákærði vera búinn að leita að skipinu frá árinu 1971. Ákærði sagðist hafa haldið leitinni áfram eftir að faðir hans lést. Þá sagði hann að margir fleiri stæðu að þessari leit. Ákærði sagði að hann og faðir hans hefðu eytt miklum fjármunum í leitina, og til skamms tíma öllum sínum sumarfríum. Í gegnum tíðina hefði það verið markmið hjá leitarhópnum að ganga vel um leitarsvæðið, enda væri þeim manna best kunnugt um þær miklu breytingar, sem orðið hefði á sandinum undanfarin ár, þ.e. hversu mikið hann hefði gróið upp. Skipið, sem leitað væri að væri hollenskt og hefði strandað þarna árið 1667 og grafist í sandinn með tímanum. Ákærði lýsti því hvernig staðið væri að leitinni og hvaða tækjum væri beitt við leitina. Farið væri með mælitæki yfir leitarsvæðið eftir ákveðnu kerfi, þ.e. í austur/vestur með 20 metra millibili. Notaðir hefðu verið viðnámsmælar, segulmælar og gervitunglamyndir og við leitina hefði verið notast við kafbátaleitarvélar, svifnökkva og mótordreka (fis), auk fyrrgreindrar bifreiðar. Þá sagði hann að Landmælingar Íslands, Orkustofnun og Vegagerðin hefðu komið að þessum rannsóknum með Gullleitarfélaginu og hefðu þessar stofnanir nýtt sér mælingar á sandinum í sinni starfsemi.

Ákærði sagði að ökutækið [...] væri af gerðinni Volvo Lapplander CO 606. Ekki væri um að ræða hefðbundinn Lapplander, heldur stærri útgáfu, sem framleidd hefði verið sérstaklega fyrir slökkvilið og sænska herinn. Alli ónauðsynlegir hlutir hefðu verið rifnir úr ökutækinu til að létta það og einnig hefði vélin verið tekin úr og sett upp á bifreiðina að aftanverðu. Þá væri bifreiðin á sérstaklega stórum dekkjum og í þeim væri mikið flot. Hann sagðist vera búinn að eiga þessa bifreið í 4 eða 5 ár. Hann sagði að breytingarnar á bifreiðinni hefðu kostað um 8 milljónir króna, en hún væri ekki notuð annars staðar en þarna á sandinum. Hann sagði að um 50 milljónir lægju í tækjakosti, sem notaður væri við leitina, og að mestu leyti væri um að ræða tæki, sem væru sérhæfð fyrir leitina og nýttust ekki í öðrum rekstri.

Aðspurður um samskiptin við landeigendur sagði ákærði að hann hefði alltaf litið svo á að H, faðir D, hefði sjálfur verið þátttakandi í verkefninu. Hann sagðist hafa átt mikil samskipti við H varðandi farveg Skeiðarár og breytingar á honum og hefði H oftsinnis farið með honum niður á sandinn í tengslum við þetta.

Aðspurður sagði ákærði að slóðinn á milli Ytri-Mels og Rauðamels væri ævaforn og lægi mun lengra í austur en að Rauðmel. Helmingur slóðans væri undir Skeiðará í dag. H hefði sagt honum að þessi slóði hefði verið farinn þegar farið var á selveiðar. Þessi slóði hefði verið farinn í stað þess að fara fram í fjöru til að fæla selinn ekki burtu. Einnig hefði slóðinn verið farinn til að safna rekavið í fjörunni. Ákærði sagði að hann og hans menn hefðu alltaf farið slóðann þótt bifreiðin gæti ekið aðra og styttri leið. Það væri öryggisatriði, t.d. í þoku, að hafa vel sjáanlegan slóða.

Ákærði sagðist hafa talið sig vera í fullu leyfi til að stunda umræddar rannsóknir á sandinum og vísaði til leyfis Ólafs Thors frá 1960 og leyfis landeiganda. Í skjóli þess væri honum heimilt að aka hvarvetna um sandinn í leit að gullskipinu svokallaða.

Aðspurður um svokallað Gullleitarfélag sagði ákærði að sá félagsskapur hefði tekið á sig alls kyns myndir. Í fyrstu hefði verið um óformlegan félagsskap að ræða, þ.e. nokkrir menn sem tóku sig saman um að leita að skipinu. Síðar hefði verið stofnað formlegt félag um leitina og á tímabili hefði leitin verið kostuð af fyrirtæki hans og föður hans, G. Ákærði sagði að eftir lát föður hans hefði hann sjálfur keypt tækjakost og annað, sem viðvíkur leitinni af fyrirtækinu. Hann sagði að F, sem nú væri látinn og leyfi Ólafs Thors væri gefið út til, væri upphafsmaður þessa félagsskapar og hefði verið litið svo á að hann hefði framselt leyfið umræddum félagsskap.

E, lögreglumaður, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu sem vitni. Hann sagðist hafa annast rannsókn málsins. Hann staðfesti skýrslur dags. 28. júní og 29. júlí 2004. Þá staðfesti hann að hafa tekið ljósmyndir í ljósmyndamöppu lögreglu í vettvangsferð, sem farin var 29. júlí 2004. Hann sagði að mun meira vatn hefði verið á sandinum í vettvangsferðinni 2004 samanborið við vettvangsferð dómsins 3. nóvember sl. Hann sagði að þá hefðu enn verið sjáanlegar skemmdir á þessari leið skammt frá kofunum á svokölluðum Rauðamel. Aðrar skemmdir, sem getið væri um í skýrslunni frá 29. júlí 2004, þ.e. nær skipbrotsmannaskýlinu á Ytri-Melum, hefðu hins vegar ekki verið sjáanlegar í vettvangsferð dómsins. Hann staðfesti að förin eftir bifreiðina hefðu frekar verið þess eðlis að gróður hefði troðist niður eftir hjólabarðana, en að skarð hefði ekki komið í gróðurþekjuna. Hann sagði að hann hefði gert skýran greinarmun á förum eftir bifreið ákærða og öðrum förum sem voru þarna og virtust vera eftir fjórhjól og vélhjól. Á myndum nr. 9, 11 og 12 sæist t.d. greinilega að gróður hefði troðist niður eftir bifreiðina og jarðvegurinn þjappast saman. Hann sagðist hafa mælt bilið á milli hjólfaranna og borið saman við hjólabil bifreiðarinnar og hefðu bilin verið samsvarandi. Þá hefðu þeir borið saman munstur í jarðvegi og munstur á dekkjum bifreiðarinnar og hefði sömuleiðis verið um samsvarandi munstur að ræða. Hann sagði að mælt hefði verið á fleiri en einum stað. Aðspurður sagði hann að ekki hefði reynt að hafa uppi á þeim, sem hefðu farið þarna um á fjórhóli og vélhjóli.

A, þjóðgarðsvörður og landslagsarkitekt, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu sem vitni. Hann sagðist hafa hafið gegnt stöðu þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli frá 1999 og hafa víðtæka reynslu af náttúrverndarstörfum. Hann sagði að B fuglafræðingur hefði komið að máli við sig í júní 2004 og sýnt sér myndir, sem fylgdu kærunni. Hann hefði haft samband við yfirmann sinn hjá Umhverfisstofnun og í samráði við hann hefði hann kært umræddan akstur utan vega til sýslumannsins á Höfn. Hann staðfesti að hafa farið á vettvang með E lögreglumanni í lok júlí 2004. Þeir hefðu farið víða um sandinn til að finna ummerkin því þeir hefðu átt erfitt með að finna einhvern slóða að kofunum á Rauðamel. Venjulega stefndu menn frá skýlunum á Ytri-Mel beint á Ingólfshöfða til að fara rétta leið, en í umrætt sinn hefði verið vont skyggni og þeir því átt erfitt með finna þessa leið. Hann sagðist hafa farið nokkuð um sandinn á hestum, bæði í smalamennskum og hestaferðum. Hann sagði að sandurinn væri ekki innan þjóðgarðs og væri því ekki í hans umsjón sem þjóðgarðsvarðar. Hann sagði að greinilegt væri að slóði lægi frá skipbrotsmannaskýlinu í austur að næsta ál. Einnig sagðist hann hafa heyrt landeiganda tala um að þarna hefði verið keyrt á milli, þ.e. frá skipbrotsmannaskýlinu að kofunum á Rauðamel. Erfitt væri að keyra í fjörunni vegna þess hversu laus sandurinn væri. Hann sagði að sér væri ekki kunnugt um að umrædd leið, þ.e. frá skipbrotsmannaskýlinu að kofunum á Rauðamel, væri merkt inn á kort og sagðist ekki hafa séð hana á korti. Hann sagðist vita til þess að landeigandi væri meðvitaður um svæðið sem mikilvægu út frá náttúruverndar-sjónarmiðum og að landeigandi hefði því reynt að draga úr umferð niður á sandinn eins og mögulegt væri. Hann sagði að Skeiðarársandur væri mjög áhugaverður út frá staðháttum, en þarna flæmdust um stórar jökulár og í þær kæmu stór jökulhlaup. Allt mótaði þetta svæðið. Einnig væri þarna áhugavert gróðurfar og fuglalíf. Þarna væri stærsta skúmsvarp á norðurhveli jarðar, þ.e. á Skeiðarársandi og Breiðamerkursandi, og einnig væru þarna fleiri sjaldgæfar fuglategundir. Hann sagði að Öræfingar reyndu að draga úr umferð fólks niður á sandinn og væri það gert að undirlagi landeiganda og einnig vegna þess hversu hættulegt væri að fara þarna um.

Hann staðfesti að farnar hefðu verið skipulagðar hestaferðir um sandinn og meindýraeyðir hefði farið á fjórhjóli frá skipbrotsmannaskýli og út á sandinn til að vinna mink með leyfi landeiganda. Þá sagðist hann vita til þess að landeigandi ætti fjórhjól og að hann færi á því niður á sandinn. Einnig sagðist hann vita til þess að bændur hefðu notað bíltæki á efsta hluta sandsins við smalamennskur í ár. Aðspurður sagði hann að erfitt hefði verið að sjá ummerki eftir farartæki ákærða í vettvangsferð dómsins 3. nóvember sl. og greinilegt væri að sandurinn og gróður þarna hefði jafnað sig vel. Nú væri aðeins hægt að greina ummerki eftir umræddan akstur næst kofunum á Rauðamel og greinilegust væru mjó för, sem væntanlega væru eftir vélhjól og fjórhjól. Hann sagði hins vegar ljóst að náttúruspjöll hefðu verið unnin þarna á sínum tíma.

D, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Hún sagðist vera eigandi landssvæðis þess, sem um ræðir í málinu og sagði að það tilheyrði jörð sinni Skaftafelli II. Ekki væri um ræktarland að ræða. Aðspurð sagðist hún hafa búið í Skaftafelli frá fæðingu. Fyrir mörgum árum hefði verið sett hlið á slóðann niður á sandinn og girðingar út frá því til að takmarka umferð þangað niður eftir. Hún sagði að ákærði og faðir hans hefðu verið þarna á sandinum við leit að gullskipinu með leyfi landeiganda í mörg ár. Fullt samkomulag hefði verið á milli landeiganda og ákærða um þessa leit og sagðist hún líta svo á að engin takmörk væru á því hvar ákærði mætti aka á sandinum. Hún sagði að landeigendur treystu ákærða og hans mönnum til þess að fara um sandinn enda hefðu þeir ekki staðið ákærða eða menn hans að því að valda skemmdum á svæðinu. Hún sagðist vita hvaða tæki ákærði notaði á sandinum og vita að þau valdi ekki skemmdum. Hún sagðist kalla leiðina, sem ákærði ók í umrætt sinn og gengin var í gær, slóða en ekki veg. Hún sagðist hafa farið þessa leið margsinnis með föður sínum og öðrum Skaftfellingum til að safna reka og hefði þá verið ekið þarna austur um á þremur dráttarvélum á hverju vori. Einnig hefði þessi leið verið ekin á dráttarvélum þegar farið var til selveiða og allt austur í ós Skeiðarár, einnig á hverju vori. Selveiðar hafi lagst af um 1972. Hún sagðist síðast hafa farið þessa leið á ökutæki 1987 eða 1988 til að safna reka. Nokkru síðar hafi verið hætt að nýta rekann, aðallega vegna tímaskorts. Hún sagði að þau hjón færu talsvert niður á sandinn í seinni tíð og þá færu þau á bíl að slysvarnarskýli og áfram þaðan á bíl og beint fram í fjöru. Hún sagðist ekki vera hrifin af því að slóðinn frá þjóðvegi 1 og niður að skipbrotsmannaskýlinu væri merktur inn á kort. Hún sagði að það væri ábyrgðarhluti að leyfa hverjum sem væri að fara þarna niður eftir og komið hefði fyrir að fólk hefði fest ökutæki sín á sandinum. Hún sagði að erfitt væri að girða sandinn af vegna stærðar hans en landeigendur hefðu áhuga á því að setja aftur upp hlið á slóðann, sem lægi frá þjóðvegi 1 og niður á sandinn. Undir vitnið var borið kort á dskj. nr. 6. Hún sagðist telja að slóð, sem merkt væri með brotinni línu frá punkti rétt neðan við þar sem stæði “Hofshreppur” á kortinu og austur úr gæti vel verið leiðin, sem ákærði hefur viðurkennt að hafa ekið. Hún sagði að þeir sem færu niður á sandinn með leyfi landeiganda væru þeir, sem stunduðu rannsóknir á sandinum og þeir, sem smöluðu sandinn eða hefðu önnur erindi niður á sandinn í tengslum við búskap.

A, kom aftur fyrir dóminn og gaf frekari skýrslu. Undir hann var borið kort á dskj. nr. 6. Hann sagði að þessi kort væru kölluð NATO-kort og hefðu verið unnin uppúr 1970 og þau nýjustu um 1990. Þessi kort væru unninn út frá loftmyndum, sem herinn tók af landinu, og sýndu allt, sem væri sýnilegt á slíkum myndum. Þessi kort hefðu ekki verið gefin út til almennings svo honum væri kunnugt um. Gömlu Íslandskortin, sem gerð voru af dönsku landmælingunum á árunum 1903 og 1904 væru kölluð herforingjaráðskort, en þau væru mjög nákvæm og sýndu mun á gróðri, t.d. mun á gróðurhulu og sandi. Eftir að Landmælingar ríkisins, nú Íslands, tóku til starfa 1956 hafi þær gefið út kort sem voru í kvarðanum 1/100.000 og 1/250.000. Ferðakort, sem væru til sölu í verslunum, væru gerð af Landmælingum ríkisins og Máli og menningu. Kort Máls og menningar væru bestu ferðakortin, en þau hefðu verið gagnrýnd að því leyti að á þau hefðu verið færðir inn slóðar, sem bændur og landeigendur vildu ekki hafa á kortum. Bestu kortin væru þau, sem gerð væru eftir loftmyndum, síðan væri farið á staðinn og mælt með GPS tæki og loks væri rætt við landeigendur og aðra hlutaðeigandi aðila um hvort setja mætti viðkomandi slóða inn á kortið. Ef landeigandi vildi ekki hafa umferð um sitt land væri ekki settur inn neinn slóði. Þegar Mál og menning hefði verið að gera sín kort kvaðst vitnið hafa ýtt undir að sérkort yrði gert af þessu svæði frá Laka inn að Jökulsárlóni. Þá hefðu komið tilmæli frá landeiganda um að ekki yrði settur inn slóði frá þjóðvegi 1 niður að skipbrotsmannaskýli á Skeiðarársandi. Slóðinn hefði því ekki verið settur inn á kortið, þótt kortagerðarmaðurinn hefði séð slóðann og vitað af honum.

Vitnið taldi að þau kort, sem seld væru nú á ferðamannastöðum, væru ekki með merktan slóða niður á sandinn eða annars staðar á sandinum. Hins vegar gæti vel verið að hann væri merktur inn á eldri kort. Hann sagðist hins vegar ekki hafa séð hann inn á kortum Landmælinga Íslands, sem væru 1/100.000. Þá sagðist hann ekki hafa séð að umræddur slóði væri merktur inn á gömlu herforingjaráðskortin. Vitnið sagði að framlagt svokallað Nato-kort væri eina kortið, sem hann hefði séð umræddan vegslóða merktan inn á, þ.e. frá skipbrotsmannaskýli austur að Rauðamel.

Eftir framangreindar skýrslutökur var aðalmeðferð málsins frestað til frekari gagnaöflunar að ósk beggja málsaðila. Eftir framlagningu frekari gagna kom ákærði aftur fyrir dóminn og gaf skýrslu.

Aðspurður kvaðst ákærði hafa ekið slóðann, sem sýndur væri á svokölluðu Nato-korti á dskj. nr. 6. Hann segir að leitarsvæðið væri Skaftafellsfjara, þ.e. sá hluti Skeiðarársands, sem sé innan landamerkja Skaftafells, á milli Núpsstaða og Svínafells. Hann staðfesti það, sem fram kæmi í lögregluskýrslu frá 12. ágúst 2004 að hann hefði ekið [...] um leitarsvæðið, sem sé hólfað niður og stikað samkvæmt sérstöku kerfi frá árinu 1961. Hann sagði að árið 1984 hefði leitarsvæðið hins vegar verið sett inn á hnitakerfi með aðstoð Orkustofnunar. Ákærði tók fram að umræddur slóði, sem fram kæmi í á korti á dskj. nr. 6, væri innan leitarsvæðisins. Hann sagði að ekki væri rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu dags. 28. júní 2004 að aka hefði átt með mælitæki eftir sandinum, heldur hefði ætlunin verið að fljúga með mælitækið. Aðspurður sagðist ákærði hafa verið á sandinum í júní 2004 í þeim tilgangi að fjarlægja ýmislegt lauslegt drasl við skýlin á Rauðamel. Ekki væri um aðra leið að ræða að þessum skýlum en eftir umræddum slóða og kveðst ákærði hafa ekið eftir honum. Einnig hefðu verið settir inn GPS-punktar í leiðinni. Ákærði óskaði ekki eftir að tjá sig sérstaklega um framlögð gögn á dskj. nr. 10-18.

III.

Niðurstaða.

Ákærði hefur viðurkennt að hafa ekið ökutækinu [...] í byrjun júní 2005 þá leið á Skeiðarársandi, sem tilgreind er í ákæru málsins. Ákærði mótmælir því hins vegar að háttsemi hans teljist refsiverð enda hafi umræddur akstur ekki verið utan vega í skilningi laga. Kveðst ákærði hafa ekið eftir slóða, sem liggi frá Ytri-Melum að kofum, sem standi á svokölluðum Rauðamel.

Óumdeilt er að leið sú, er ákærði ók í umrætt sinn, er á eignarlandi, sem tilheyrir jörðinni Skaftafelli II. Ljóst þykir að ákvæðum laga nr. 44/1999 um náttúrvernd er ætlað að gilda jafnt um eignarlönd, sem þjóðlendur, sbr. 1. mgr. 2. gr. og ákvæði III. kafla laganna um almannarétt, umgengni og útivist.

Í 17. gr. náttúrverndarlaganna segir að bannað sé að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó sé heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum, svo og á snjó utan vega utan þéttbýlis svo fremi sem jörð sé snævi þaki og frosin. Ljóst er að framangreint heimildarákvæði á ekki við í máli því sem hér um ræðir. Kemur þá til skoðunar hvort leið sú, sem ákærði ók í umrætt sinn, sé vegur í skilningi náttúrverndarlaganna. Í greinargerð með 17. gr. laganna er um skilgreiningu á vegi skírskotað til ákvæða umferðarlaga nr. 50/1987, en í umferðarlögunum sé vegur skilgreindur sem vegur, gata, götuslóði, stígur, húsasund, brú, torg, bifreiðastæði eða þess háttar, sem notað sé til almennrar umferðar. Engin skilgreining er á hugtakinu vegur í reglugerð nr. 619/1998 um akstur í óbyggðum, sem í gildi var þegar akstur ákærða átti sér stað, sbr. 78. gr. náttúrverndarlaga.

Fram kom í skýrslu D, sem er búið hefur í Skaftafelli frá fæðingu og er nú annar eigenda Skaftafells II, að Skaftfellingar hefðu farið þá leið, sem ákærði hefur viðurkennt að hafa ekið, á hverju vori til að safna reka í fjörunni, svo og til selveiða. Hefði umrædd leið þá verið ekin á dráttarvélum. Hún sagði að selveiðar hefðu lagst af um 1972 og sjálf hefði hún síðast farið þessa leið á ökutæki 1987 eða 1988 til að safna rekavið. Nokkru síðar hefði verið hætt að nýta rekann vegna tímaskorts. Hún sagði að þeir, sem færu niður á sandinn með leyfi landeigenda væru eingöngu þeir, sem stunduðu rannsóknir á sandinum og þeir, sem smöluðu sandinn eða ættu þangað annað erindi tengt búskap. Öðrum bannaði hún að fara niður á sandinn. Hún sagðist hins vegar vita til þess að fólk færi niður á sandinn án hennar leyfis, en það væri í hennar óþökk og hefðu landeigendur reynt að sporna við umferð niður á sandinn með ýmsum hætti. Einnig kom fram í skýrslu A, þjóðgarðsvarðar, sem búið hefur í Öræfum síðastliðin 7 ár, að landeigendur hefðu spornað við umferð almennings niður á sandinn og m.a. óskað eftir að slóðinn niður á sandinn yrði ekki merktur inn á kort. Ákærði hefur borið að hann og menn á hans vegum hafi ekið þessa leið í gegnum tíðina við leit að svokölluðu gullskipi, sem sagnir herma að liggi grafið í sandinum. Í ljósi ofangreinds þykir sýnt að notkun umrædds slóða eða leiðar hefur verið mjög takmörkuð í gegnum tíðina og að leiðin hafi nánast eingöngu verið ekin af landeigendum og eigendum fjörunnar á meðan hlunnindi í fjörunni voru nýtt, svo og af ákærða og mönnum á hans vegum vegna fyrrnefndrar leitar.

Dómari fór á vettvang og kynnti sér aðstæður. Á vettvangi var aðeins hægt að greina vegslóða skamman spöl frá skipbrotsmannaskýli á Ytri-Melum að næsta ál á sandinum, svo og á stuttum kafla næst kofunum á Rauðamel, en þar er landið gróið og jarðvegur mjúkur og blautur. Þar á milli var ekki hægt að greina með skýrum hætti að lægi vegslóði, enda flýtur vatn í álum eftir sandinum og er yfirborð hans stöðugum breytingum undirorpið. Með vísan til þessa og framburðar vitnanna, D og A um mjög takmarkaða umferð fólks um sandinn, verður ekki talið að leið sú, er ákærði ók í umrætt sinn sé vegur í skilningi umferðarlaga nr. 50/1987, þ.e. vegur eða vegslóði, sem ætlaður sé til almennrar umferðar. Þykir þá engu skipta þó að umrædd leið sé merkt inn á svokölluð NATO-kort, en komið hefur fram að það var ekki gert með leyfi landeiganda. Verður því að telja að ákærði hafi ekið utan vega í greint sinn, svo sem greinir í ákæru.

Kemur þá til skoðunar hvort undanþáguákvæði 2. mgr. 17. gr. náttúrverndarlaganna, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 619/1998, kunni að eiga við í máli þessu, en ákærði heldur því fram að hann hafi í greint sinn verið við rannsóknir og fornminjaleit á sandinum með leyfi ráðherra og landeigenda. Ákærði hefur lagt fram á dskj. nr. 9 leyfi útgefið 27. september 1960 af Ólafi Thors, þáverandi forsætisráðherra til F [heimilisfang]. Er F þar veitt heimild til að leita að skipsflakinu “Het Wapen”, sem talið sé að hafi strandað við Skeiðarársand í september 1667. Kveður ákærði F þennan hafa verið upphafsmann félags þess, sem staðið hafi að leitinni allar götur síðan, en hann sé nú látinn. Leitin, sem hafi verið í höndum bæði formlegs og óformlegs félagsskapar frá 1960, hafi ætíð farið fram í skjóli þessa sama leyfis.

Umrætt leyfi er gefið út til F persónulega og ber ekki með sér að honum hafi verið heimilt að framselja það til annars aðila, enda liggja engin gögn fyrir um að það hafi verið gert. Er því ekki unnt að líta svo á að ákærði geti byggt umræddar rannsóknir sínar og fornminjaleit á sandinum á framangreindu leyfi.

Samkvæmt 9. gr. þjóðminjalaga nr. 107/2001 er ljóst að skipsflak það, sem ákærði leitar að á Skeiðarársandi og er frá 1667 telst til fornleifa. Í 10. gr. laganna segir að fornleifum megi enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins. Þá segir í 1. mgr. 15. gr. laganna að Fornleifavernd ríkisins annist eftirlit með rannsóknum á fornleifum í landinu, en í 2. mgr. sömu greinar segir að með fornleifarannsókn sé átt við hvers kyns jarðrask, sem fram fer í vísindalegum tilgangi og með það að markmiði að rannsaka jarðfastar fornleifar, sem þegar er vitað um eða líklegt er að finnast muni, eða að ganga úr skugga um hvort um þess háttar fornleifar sé að ræða á rannsóknarsvæðinu. Jafnframt er gert ráð fyrir að sótt sé um leyfi til rannsókna af þessu tagi hjá Fornleifavernd ríkisins, sbr. 4. mgr. 15. gr. áðurgreindra laga. Loks segir í 16. gr. laganna að óheimil sé notkun málmleitartækja eða annars tækjabúnaðar við leit að forngripum í jörðu nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar.

Ákærði hefur hvorki staðhæft að hafa haft leyfi frá Fornleifavernd ríkisins til fornleifarannsókna á Skeiðarársandi né að hafa verið við rannsóknir á sandinum í greint sinn á vegum og á ábyrgð Landmælinga Íslands eða annars aðila, sem til þess hafði leyfi. Jafnframt hefur ekkert komið fram um það í málinu að haft hafi verið samráð við Náttúrvernd ríkisins um leiðaval og val á tækjabúnað eða að tilkynnt hafi verið fyrirfram um akstur til viðkomandi sýslumanns, eins og áskilið var í 3. gr. reglugerðar nr. 619/1998 um akstur í óbyggðum.

Að öllu þessu virtu þykir í ljós leitt að undanþáguákvæði 2. mgr. 17. gr. náttúrverndarlaga nr. 44/1999, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 619/1998 um akstur í óbyggðum á ekki við í máli þessu.

Með hliðsjón af framangreindu þykir ljóst að akstur ákærða utan vega í greint sinn var ólögmætur, en samkvæmt ákvæði 17. gr. náttúruverndarlaga er það ekki skilyrði fyrir refsinæmi verknaðarins að spjöll hafi orðið á náttúru landsins, sbr. og athugasemdir í greinargerð með frumvarpi til laganna. Af framlögðum myndum og ummerkjum, sem mátti greina á einum stað á vettvangi þykir þó ljóst að nokkur spjöll hafi hlotist á sandinum af akstri ákærða þó tímabundin kunni að vera. Með vísan til alls ofangreinds þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá, sem greinir í ákæru og er verknaður hans þar rétt heimfærður til refsiákvæða.

Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað svo kunnugt sé.

Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði hefur játað verknað sinn frá upphafi þótt hann hafi mótmælt því að um ólögmætt atferli væri að ræða. Jafnframt er litið til þess að brot ákærða olli ekki miklum eða varanlegum spjöllum á náttúrunni. Í ljósi þessa þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 50.000 krónur í sekt, sem greiða ber í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, ella sæti ákærði fangelsi í 4 daga.

Ákærði greiði sakarkostnað að fjárhæð 677.944 krónur í ríkissjóð, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Rúnu S. Geirsdóttur hdl., að fjárhæð 657.360 krónur og er þ.m.t. virðisaukaskattur.

Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri. Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

Dómsorð:

Ákærði, X, greiði 50.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 4 daga.

             Ákærði greiði sakarkostnað að fjárhæð 677.944 krónur, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Rúnu S. Geirsdóttur hdl., að fjárhæð 657.360 krónur.