Hæstiréttur íslands

Mál nr. 213/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Res Judicata
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Föstudaginn 6

 

Föstudaginn 6. júní 2003.

Nr. 213/2003.

Karl Pálsson

(Jón Hjaltason hrl.)

gegn

Ferðamálasjóði

(Jónatan Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Res Judicata. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

K höfðaði mál á hendur F þar sem hann krafðist þess að F yrði dæmdur til að greiða sér nánar tiltekna fjárhæð í skaðabætur og honum gert skylt að fella niður innheimtu á eftirstöðvum tveggja skuldabréfa í kjölfar dóms Hæstaréttar 6. júní 2002 í málinu nr. 16/2002. Málinu var vísað frá héraðsdómi á þeim forsendum að kröfur F hafi áður verið bornar undir dómstóla og væru vanreifaðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. maí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2003, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að fella efnisdóm á málið. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Karl Pálsson, greiði varnaraðila, Ferðamálasjóði, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2003.

I

          Málið var höfðað 2. desember sl. og tekið til úrskurðar 12. maí sl.

          Stefnandi er Karl Pálsson, Engjaseli 81, Reykjavík.

          Stefndi er Ferðamálasjóður, Borgartúni 21, Reykjavík.

          Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 4.585.969 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. desember 2002 til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefnda "hafi verið skylt að fella niður innheimtu á eftirstöðvum skuldabréfa nr. 847 og 848, kr. 4.207.907,-, 5. maí 1998 í kjölfar hæstaréttardóms í máli nr. 16/2002, auk alls málskostnaðar í því sam­bandi." Þá er krafist málskostnaðar.

          Stefndi krefst frávísunar og málskostnaðar.

II

         Málavextir eru þeir að stefnandi og bræður hans ráku á sínum tíma hótel og fleira því tengt í Vestmannaeyjum. Höfðu þeir tekið til þess lán frá stefnda. Reksturinn gekk ekki sem skyldi og voru eignir bræðranna, sem tilheyrðu rekstrinum, seldar á nauð­ungaruppboði vorið 1998 og urðu þeir gjaldþrota í kjölfarið. Þeir bræður hófu í fram­haldinu umfangsmikinn málarekstur á hendur stefnda og er þetta mál höfðað í kjöl­far dóms Hæstaréttar 6. júní 2002 í málinu nr. 16/2002.

         Stefnandi kveður að með dóminum hafi eftirstöðvar veðskuldabréfa, sem báru núm­erin 847 og 848, verið lækkaðar í 4.207.907 krónur miðað við 5. maí 1998 og hafi það verið í samræmi við yfirmatsgerð. Síðan segir orðrétt í stefnunni: "Ferða­mála­sjóður tók þegar þá stefnu meðan enn stóð uppboðið að leigja út eignirnar, er hann fékk afhentar á uppboðinu. Til þess þurfti hann að eignast lausafjármuni til­heyr­andi hótelrekstrinum, sem hann keypti strax af þrotabúi Ástþórs Rafns og aldrei fóru því út úr hótelinu. Kaupverðið mun hafa verið kr. 1.900.000,oo. Matsmenn höfðu reiknað með lausafénu í sínu mati, en yfirmatsmenn ekki að kröfu Ferða­mála­sjóðs. Hinn 1. nóvember 1998 höfðu 6 mánaða greiðslur leigu fengist hjá leigu­tak­an­um, Páli Helgasyni, kr. 1.200.000,oo og Ferðamálasjóður selt Páli Helgasyni íbúð að Heiðarvegi 3 í september 1998 fyrir kr. 1.600.000,oo. Þessar fjárhæðir, samtals kr. 4.700.000,oo hefðu þegar með ráðstöfunum þessum verið búnar að greiða upp eftir­stöðvar veðskuldabréfanna, kr. 4.207.907,oo, þegar kröfulýsingarfresti lauk í þrota­búinu, hefðu þær ekki verið felldar niður strax með hliðsjón af 57. gr. uppboðslaga og nokkurrar sanngirni."

         Stefnandi kveður stefnda hafa borið samtals 31.253.636 krónur úr býtum á upp­boð­inu með leigu og endursölu eignanna og hafi það gefið honum 947.729 krónur í sölu­hagnað. Síðan segir í stefnunni: "Þessi ótímabæra úthlutunargerð í búinu sýnir Ferða­málasjóð hirða í sinn hlut næstum tífalt meira af eignum búsins, en honum bar í krafti samþykktrar almennrar kröfu sinnar, kr. 30.464.103,oo í stað engrar kröfu, sem nú ætti að vera. Er þá þverbrotið gegn jafnréttisreglu kröfuhafa við búskiptin. En öll þessi meðferð undirstrikar sérstaklega skaðabótarétt Karls."

         Þá kveður stefnandi stefnda hafa knúið fram skiptalok á búi sínu 2. maí 2000 meðan málsókn hans og bræðra hans hafi enn staðið yfir með samþykki skiptastjóra.

         Stefnandi sundurliðar kröfu sína svo: "Söluverð þrotabús Karls Pálssonar á Bú­hamri 23, Vestamannaeyjum 50%, kr. 1.300.981,00. Dráttarvextir 2.05.2000-1.12.2002 kr. 785.988,00." Eða samtals 2.085.969 krónur og 2.500.000 krónur, sem stefn­andi kveður vera bætur fyrir "miska, lánstraustsspjöll og óbeint tjón fyrir að vera gerður gjaldþrota vegna skuldar kr. 33.688.749,oo, sem aðeins reyndist, kr. 4.207.907,oo 5. maí 1998."

          Stefndi skýrir svo frá málavöxtum að með dómi Hæstaréttar 6. júní 2002 í máli, sem stefnandi og þrír bræður hans höfðuðu gegn stefnda, hafi verið bundinn endi á lang­vinnan ágreining þessara aðila um hvort, og þá í hvaða mæli, væru efni til að færa niður eftirstöðvar tveggja skuldabréfa, sem þessir aðilar höfðu gefið út til stefnda og fengu lánsnúmerin 847 og 848 í lánabókhaldi hans. Vegna vanskila bræðranna voru eignir, sem settar voru að veði með þessum skuldabréfum, seldar á nauð­ung­ar­sölu vorið 1998 og var stefndi hæstbjóðandi í þrjár þeirra. Boð hans var samþykkt 5. maí sama ár og afsöl gefin út 26. maí. Lýstar kröfur í söluverð eignanna vegna lán­anna námu samtals 54.026.252 krónum. Upp í kröfurnar fékk stefndi úthlutað af sölu­verði eign­anna samtals 23.718.345 krónum og námu eftirstöðvar því 30.307.907 krónum.

          Í framhaldi af nauðungaruppboðinu kveðst stefndi hafa freistað þess að afla trygg­inga fyrir eftirstöðvum skuldanna hjá stefnanda og tveimur bræðra hans. Fjár­nám hjá þeim reyndust árangurslaus og í framhaldi af því voru þeir úrskurðaðir gjald­þrota í júní 1998. Fjórði bróðirinn var á þessum tíma einnig undir gjaldþrotaskiptum. Eftir­stöðvum krafna samkvæmt skuldabréfunum var lýst í bú Páls Pálssonar og stefn­anda og sömu kröfu, auk eftirstöðva annarra skuldabréfa, var lýst í bú Ástþórs Rafns Páls­sonar, samtals að fjárhæð 44.075.916 krónur. Kröfur þessar voru samþykktar á sínum tíma með fyrirvara um niðurstöðu málsins í Hæstarétti.

          Þær kröfur, sem hafðar voru uppi í framangreindu hæstaréttarmáli, og hér skipta máli, voru þær að felldar yrðu niður eða lækkaðar framangreindar eftirstöðvar skulda­bréfa nr. 847 og 848 með vísan til niðurfærsluheimildar í 57. gr. laga um nauð­ung­ar­sölu nr. 90/1991. Þá gerði stefnandi og tveir bræður hans þá dómkröfu að þeim, hverjum fyrir sig, yrðu dæmdar 2.000.000 króna í skaðabætur með vísun til bótareglu 3. mgr. 66. gr. laga nr 21/1991 um gjaldþrotaskipti.

          Niðurstaða Hæstaréttar varðandi niðurfærslu skuldabréfanna var sú að stefndi var dæmdur til að færa þær niður um 26.100.000 krónur miðað við 5. maí 1998. Eftir­stöðvar þeirra námu því miðað við þennan tíma 4.207.907 krónum. Hæstiréttur sýkn­aði stefnda af bótakröfu stefnanda og bræðra hans með þessum rökstuðningi: “Þótt stefndi hafi leitað fullnustu á verulega hærri kröfum en hér um ræðir þegar hann krafð­ist gjaldþrotaskiptanna fær það því ekki breytt að allt að einu voru skilyrði til skipt­anna. Samkvæmt því verða umræddum áfrýjendum ekki dæmdar bætur úr hendi stefnda á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1991.” Loks dæmdi Hæstiréttur hverjum bræðranna fyrir sig 400.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.

          Stefndi kveður skiptum hafa lokið í þrotabúi stefnanda 2. maí 2000 og hafi stefnda verið úthlutað úr búinu 762.878 krónum. Þessi fjárhæð hafi komið til lækk­unar á endanlegri kröfugerð stefnda í þrotabú Páls Pálssonar. Þar hafi ennfremur komið til lækkunar málskostnaðarkröfur allra bræðranna í framangreindu hæsta­rétt­ar­máli, samtals 1.600.000 krónur, á grundvelli yfirlýsinga stefnda um skuldajöfnuð á þeim kröfum við kröfur stefnda á hendur öllum bræðrunum vegna eftirstöðva fram­an­greindra skuldabréfa. Einn bræðranna, Páll Pálsson, höfðaði dómsmál í því skyni að hnekkja afstöðu skiptastjóra í þrotabúi hans til hinnar endanlegu kröfulýsingar í búið. Því máli var vísað frá héraðsdómi í október sl. og sá úrskurður staðfestur af Hæsta­rétti.

III

          Stefnandi byggir á því að honum beri skaðabætur vegna tjóns, er hann hafi orðið fyrir, er skiptastjóri í þrotabúi hans, hafi lokið skiptum samkvæmt beiðni stefnda og til þess knúinn af honum á meðan stefnandi og bræður hans ráku mál á hendur stefnda. Stefnandi kveður kröfugerð stefnda viðvíkjandi uppboðsmálum stefnanda og bræðra hans, sérstaklega að knýja skiptastjóra til að ljúka skiptum meðan á málaferlum stóð, hafa verið ótímabæra og andstæða lögum. Þá byggir stefnandi á því að það sé venja að bankastofnanir, sem kaupi eignir á nauðungaruppboðum upp í veðkröfur sínar, felli niður eftirstöðvarnar og byggist það á því að uppboðsbeiðandi eigi ekki að hagnast á upp­boðinu.

          Stefnandi vísar máli sínu til stuðnings til 3. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrotaskipti, 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. 

          Stefndi byggir frávísunarkröfuna á því að með dómi Hæstaréttar 6. júní 2002 hafi verið dæmt um þær kröfur, sem stefnandi hafi uppi í þessu máli. Hæsta­rétt­ar­dóm­ur­inn hafi verið endanlegur og bindandi fyrir aðila málsins, bæði hvað varðar nið­ur­færslu­rétt vegna skuldabréfanna og eins varðandi skaðabótakröfuna. Með vísun til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála beri að vísa kröfum stefnanda frá dómi. Breyti engu um það þótt krafa stefnanda nú sé færð í annan búning þar eð grundvöllur hennar sé sá sami og fyrr.

          Einnig byggir stefndi á því að kröfugerð og annar málatilbúnaður stefnanda sé óskýr og svo takmarkaður að ekki sé hægt að leggja efnisdóm á málið, sbr. d- og e- liði 1. mgr. 80. gr. einkamálalaganna.

IV

          Eins og fram er komið gekk dómur í Hæstarétti 6. júní 2002 í máli, sem stefnandi og bræður hans höfðuðu á hendur stefnda í því skyni að fá færðar niður eftirstöðvar fram­angreindra skuldabréfa og eins til heimtu skaðabóta. Með dómi Hæstaréttar voru eftirstöðvarnar færðar niður í tiltekna fjárhæð og einnig var stefndi sýknaður af skaða­bótakröfu stefnanda og tveggja bræðra hans. Þessar kröfur verða því ekki bornar aftur undir dómstóla, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála, og er þeim vísað frá dómi.

          Hluti af skaðabótakröfu stefnanda er tiltekinn helmingur af söluverði þrotabús hans eins og rakið var. Frekari útlistun á þessum hluta kröfu stefnanda er ekki að finna í stefnunni. Málatilbúnaður hans er því vanreifaður að þessu leyti, sbr. e-lið 80. gr. einkamálalaganna, og ber þegar af þeirri ástæðu að vísa honum frá dómi. 

          Stefnandi verður úrskurðaður til að greiða stefnda 100.000 krónur í málskostnað.

          Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

          Málinu er vísað frá dómi og skal stefnandi, Karl Pálsson, greiða stefnda, Ferða­mála­sjóði, 100.000 krónur í málskostnað.