Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-326
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabætur
- Matsgerð
- Orsakatengsl
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 17. desember 2021 leitar Geymsla Eitt ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 19. nóvember sama ár í máli nr. 488/2020: A gegn Geymslu Eitt ehf. og gagnsök á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um skaðabætur úr hendi leyfisbeiðanda vegna líkamstjóns sem hún kvaðst hafa orðið fyrir árið 2015 er hún steig ofan í grjótsvelg og féll til jarðar fyrir utan geymsluhúsnæði sem leyfisbeiðandi leigir út. Byggir hún á því að leyfisbeiðandi beri bótaábyrgð á tjóninu á grundvelli sakarreglu skaðabótaréttar.
4. Í héraðsdómi var fallist á að leyfisbeiðandi hefði sýnt af sér sök með frágangi umrædds grjótsvelgs en hann sýknaður af kröfunni þar sem orsakatengsl voru talin ósönnuð. Í dómi Landsréttar var talið að meta bæri frágang grjótsvelgsins og athafnaleysi um úrbætur leyfisbeiðanda til sakar. Við mat á orsakatengslum milli slyssins og tjóns gagnaðila kom meðal annars fram að leyfisbeiðandi hefði ekki óskað yfirmats eða á annan hátt leitast við að hnekkja matsgerð dómkvaddra manna sem lá fyrir í málinu og krafa gagnaðila byggði á. Var hann ekki talinn hafa sýnt fram á að slíkir annmarkar væru á matsgerðinni að líta bæri fram hjá henni. Var því fallist á kröfu gagnaðila.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi um stöðu eigenda og umráðamanna fasteigna auk þess sem niðurstaða Landsréttar leiði til almennrar réttaróvissu um sönnunargildi matsgerða. Þá telur hann að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant. Þannig sé meðal annars ekki vikið að sönnunarmati um tjónsatvikið. Loks telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að Landsréttur hafi ranglega metið þýðingu matsgerðar í málinu.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.