Hæstiréttur íslands

Mál nr. 64/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Erfðaskrá
  • Dánarbússkipti


                                     

Föstudaginn 3. febrúar 2012.

Nr. 64/2012.

A

B

C

D og

E

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

gegn

F

(Ólafur Eiríksson hrl.)

Kærumál. Erfðaskrá. Dánarbússkipti.

Við opinber skipti dánarbús G reis ágreiningur vegna erfðaskrár F og G. Skiptastjóri beindi ágreiningnum til héraðsdóms þar sem A o.fl. kröfðust þess að viðurkennt yrði að þau fengju í sinn hlut við úthlutun úr dánarbúi G allar eigur hennar og F utan tiltekinna eigna og að úthlutun úr dánarbúi G færi ekki fram fyrr en að F látnum. Hæstiréttur vísaði til þess að fyrirmæli erfðaskrárinnar lytu ekki að skiptum á dánarbúi G, heldur kynnu einungis að koma til skoðunar að látnum langlífari arfleiðandanum. Þá ætti krafa þeirra, um að úthlutun færi ekki fram fyrr en að F látnum, sér ekki stoð í lögum. Var kröfum A o.fl. því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 18. janúar 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. janúar 2012, þar sem hafnað var kröfum sóknaraðila um að viðurkennt yrði að þau „fái í sinn hlut við úthlutun úr dánarbúi G allar eigur G og varnaraðila, hvort sem er hjúskapar- eða séreignir, utan hlutabréfa varnaraðila í H hf., ígildis þeirra hlutabréfa og persónulegra muna hans“, svo og „að úthlutun úr dánarbúi G fari ekki fram fyrr en að varnaraðila látnum.“ Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að framangreindar kröfur þeirra verði teknar til greina og þeim dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði munu varnaraðili og G hafa gengið í hjúskap á árinu 1973 og hún þá átt sex börn, þar á meðal sóknaraðila, en hann þrjú. G og varnaraðili munu ekki hafa eignast sameiginlega niðja og lést hún [...] 2004. Dánarbú hennar var tekið til opinberra skipta 11. febrúar 2005 samkvæmt kröfu sóknaraðila. Við skiptin hefur meðal annars risið ágreiningur vegna erfðaskrár, sem varnaraðili og G gerðu 28. júní 1991, og beindi skiptastjóri ágreiningnum til héraðsdóms 10. nóvember 2010, en mál þetta var þingfest af því tilefni 21. janúar 2011. Ákvæði erfðaskrárinnar, sem ágreiningurinn á rætur að rekja til, voru svohljóðandi: „Það okkar sem lengur lifir á rétt til setu í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum svo lengi sem það óskar. ... Að hinu langlífara okkar látnu skal eignum okkar ráðstafað þannig að erfingjar F skulu fá í sinn hlut öll hlutabréf hans í H hf. og persónulega muni hans en erfingjar G skulu fá í sinn hlut allar aðrar eigur okkar.“

Varnaraðili hefur ekki neytt þess réttar, sem honum var veittur með fyrrgreindu ákvæði erfðaskrárinnar, til að ljúka skiptum á dánarbúi G með því að fá leyfi til setu í óskiptu búi án þess að afla til þess samþykkis niðja hennar. Önnur framangreind fyrirmæli í erfðaskránni snúa á engan hátt að skiptum á dánarbúi G, sem nú standa yfir, heldur kynnu þau að geta komið til skoðunar við skipti að látnum langlífari arfleiðandanum. Að þessu virtu og með því að krafa sóknaraðila um „að úthlutun úr dánarbúi G fari ekki fram fyrr en að varnaraðila látnum“ á sér enga stoð í lögum verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, A, B, C, D og E, greiði í sameiningu varnaraðila, F, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. janúar 2012.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 11. febrúar 2005, var dánar­bú G, kt. [...], sem andaðist [...] 2004, tekið til opin­berra skipta. Með bréfi skiptastjóra, mótteknu 22. nóvember 2010, var ágrein­ings­efni þessa máls skotið til úrlausnar dómsins. Málið var þingfest 21. janúar 2010 og tekið til úrskurðar 24. nóvember sl. að loknum munnlegum málflutningi.

Sóknaraðilar, A, B, C, D og E [...]­börn, krefjast þess að viðurkennt verði að þau fái í sinn hlut, við úthlutun úr dánar­búi G, allar eigur hennar og varnar­aðila, hvort sem er hjú­skap­ar- eða séreignir, utan hlutabréfa varnaraðila í H hf., ígildis þeirra hluta­bréfa og per­sónu­legra muna hans.

Þau krefjast þess enn fremur að úthlutun úr dánarbúi G fari ekki fram fyrr en að varnaraðila látnum.

Þá krefjast þau málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili, F, krefst sýknu af öllum kröfum sóknaraðila og að viðurkennt verði að skipta beri dánarbúi G á grundvelli 2. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

Varnaraðili krefst málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila auk virðis­auka­skatts af málskostnaði.

Málavextir

G var móðir sóknaraðila og eiginkona varnaraðila. Þau gengu í hjóna­band 1973 en hún var þá ekkja með sex börn, hann frá­skilinn og átti þrjú börn en saman áttu þau ekki börn. G og varnaraðili gerðu með sér kaup­mála og erfðaskrá 4. ágúst 1982. Samkvæmt þeim löggerningi átti fasteign, 15% hluta­fjár í H hf., innbú og bifreið að verða séreign G, en aðrar eignir hjú­skapar­eignir. Í erfðaskrárhlutanum var gert ráð fyrir setu hins langlífara í óskiptu búi, það átti jafnframt að taka 1/3 hluta eigna hins skammlífara í arf og loks var ákvæði er jafn­aði erfða­rétt barnanna þannig að erfðahlutur þeirra allra yrði jafn eftir lát G og varnar­aðila.

Með tveimur gerningum, 28. júní 1991, breyttu G og varnaraðili fram­an­greindum löggerningi. Annars vegar var kaupmálanum breytt en þar segir: „Séreign mín, F, skal vera hlutafé mitt í H hf., nú að nafn­virði 787.500.00, auk þeirra jöfnunarhlutabréfa sem út kunna að verða gefin. G á engin hlutabréf í H hf. Kaupmáli þessi fellur niður við and­lát F ef hann andast á undan G.“

Hins vegar gerðu þau erfðaskrá sama dag sem hljóðar svo:

1. gr.  Það okkar sem lengur lifir á rétt til setu í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum svo lengi sem það óskar. 

2. gr.  Að hinu langlífara okkar látnu skal eignum okkar ráðstafað þannig að erf­ingjar F skulu fá í sinn hlut öll hlutabréf hans í H [sic] hf. og per­sónu­lega muni hans en erfingjar G skulu fá í sinn hlut allar aðrar eigur okkar. 

3. gr.  Með erfðaskrá þessari fellur úr gildi erfðaskrá okkar dagsett 4. ágúst 1982 sem staðfest var hjá notarii publici í Reykjavík 25. nóvember 1982.

G og varnaraðili breyttu kaupmálanum frá 1982 aftur, 17. apríl 1996. Samkvæmt honum urðu íbúð í Reykjavík, sumarhús í Borgar­firði og inneign á banka­bók séreignir G. Séreignir varnaraðila voru hlutabréf í tveimur félög­um, bifreið, bankareikningur og fasteignaveðbréf. Verðmæti hvorrar séreignar um sig var áþekkt eða ríflega 15 milljónir á hvorn maka. Þessu til viðbótar tók varnaraðili að sér greiðslu 2.600.000 króna skuldar sem hvíldi á heimili þeirra. Innbú þeirra var sam­eign. Þá var kveðið á um að vextir og arður af eign yrði séreign eiganda hennar. Fellt var úr gildi það ákvæði að kaup­málinn félli niður við andlát varnaraðila. Í kaup­mál­anum var tekið fram að við andlát þess skammlífara skyldi skipta búi hjónanna þó var tekið fram að lifði varn­araðili G skyldi honum heimilt að búa endur­gjalds­laust á heimili þeirra og nýta sumar­húsið, enda annaðist hann rekstur fasteignanna.

Sama dag, 17. apríl 1996, gerðu þau nýja erfðaskrá og felldu með henni úr gildi fyrri erfðaskrár. Í erfðaskránni vísa þau til þess að þau hafi með kaupmála gert allar eignir sínar, að innbúi undanskildu, að séreignum og skuli börn G erfa eignir hennar og börn varnaraðila eignir hans. Loks afsöluðu þau sér arfi hvort eftir annað, sbr. 28. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

Eins og áður segir andaðist G [...] 2004. Dánarbú hennar var, að kröfu sóknar­aðila, tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðs­dóms Reykja­víkur, 11. febrúar 2005. Eitt barna G er látið og hafa börn þess ekki látið málið til sín taka. Á skiptafundi kom upp ágreiningur um gildi skiptagern­inganna frá 1991 og 1996. Sóknaraðilar töldu móður sína ekki hafa verið andlega hæfa til að ráð­stafa eignum sínum á þann hátt sem hún gerði og því ætti að líta fram hjá þessum gern­ingum við skiptin. Þessu hafnaði varnaraðili. Þar sem skiptastjóra tókst ekki að jafna ágrein­inginn vísaði hann honum til héraðsdóms. Með úrskurði, 22. júní 2007, felldi héraðs­dómur kaup­mála og erfðaskrá frá 17. apríl 1996 úr gildi.

Kaupmálinn frá 1982, með breyt­ingu frá árinu 1991, féll úr gildi við andlát G, samkvæmt 1. gr. kaupmálans. Því stendur einungis eftir, sem gildur gern­ingur til grundvallar skiptum eftir G, sameiginleg erfðaskrá hennar og varnar­aðila, gerð 28. júní 1991.

Frekari tafir urðu á skiptunum vegna málaferla en 17. febrúar 2010 staðfesti Hæsti­réttur þá niðurstöðu héraðsdóms að fjármunir í vörslusafni varnaraðila hjá til­teknum banka væru séreign hans. Að sögn skiptastjóra var framhald skiptanna rætt á skiptafundi, 14. maí 2010. Þá hafi komið fram sú afstaða sóknaraðila, að þau ættu að fá í sinn hlut allar hjú­skap­ar­eignir bæði móður sinnar og varnaraðila að hinum lang­lífari maka látnum. Af þeim sökum ætti ekki að skipta búinu fyrr en að varnar­aðila gengnum. Afstaða varn­ar­aðila hafi hins vegar verið sú að ljúka ætti skiptum og þannig að hann fengi fyrst sinn búshluta og síðan tæki hann arf eftir konu sína samkvæmt lög­erfða­reglum. Ákveðið hafi verið að reyna sættir áður en málið væri sent héraðsdómi til úrlausnar. Fljótlega hafi þó komið í ljós að sættir næðust ekki og því væri nauðsynlegt að fá skorið úr þessum ágreiningi áður en lengra væri haldið.

Vegna málsatvika áréttar varnaraðili að eftir að héraðsdómur hafi fallist á kröfu sóknaraðila um opinber skipti á dánarbúi G hafi varnaraðili ekki óskað leyfis til setu í óskiptu búi, sbr. 1. mgr. 73. gr. skiptalaga og 3. mgr. 8. gr. erfðalaga nr. 8/1962 eins og hann hafi þó rétt til samkvæmt 1. gr. erfðaskrár hans og G frá 1991. Aðila málsins greini nú á um túlkun erfðaskrár sem hann og G gerðu með sér árið 1991, einkum túlkun 2. gr. erfðaskrárinnar þar sem segir:

Að hinu langlífara okkar látnu skal eignum okkar ráðstafað þannig að erfingjar F skulu fá í sinn hlut öll hlutabréf hans í H [sic] hf. og persónu­lega muni hans en erfingjar G skulu fá í sinn hlut allar aðrar eigur okkar.

 Sóknaraðilar skilji ákvæðið á þann veg að eftir andlát varnaraðila muni koma fjár­munir í dánarbú G sem þeir eigi rétt á. Ágreiningur sé því annars vegar um þann skilning sóknaraðila og hins vegar um hvort greiða eigi út réttindi erfingja nú þegar eða þegar 2. gr. umræddrar erfðaskrár hafi öðlast gildi.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðilar vísa til þess að krafa þeirra sé eingöngu sú að ákvæði erfða­skrár­innar verði lesin þannig að það sem í henni standi verði talið gilda. Þau vísa til þess að varnaraðili hafi krafist þess að fá, ekki einungis hlutabréf í H hf. og per­sónu­legar eigur, heldur einnig aðra muni í búinu sem hann hafi undir höndum eða hafi fram­selt til ættingja og, eða annarra þriðju manna. Afstaða hans sé í hrópandi and­stöðu við ákvæði 2. gr. erfðaskrárinnar.

Sóknaraðilar krefjast þess að viðurkenndur verði skilningur þeirra á 2. gr. umræddrar erfðaskrár. Það felist beinlínis í hljóðan orða 2. gr. að utan þeirra eigna sem getið sé sérstaklega í greininni, það er hlutabréfa í H hf. og persónulegum munum F, eigi allar aðrar eigur þeirra hjóna, G og F, að koma í hlut sókn­ar­aðila við andlát varnaraðila. Þar sé ekki gerður greinarmunur á séreignum þeirra og hjú­skapar­eignum og því skuli úthluta sóknaraðilum öllum öðrum eignum. Ekki verði talið að með orðalaginu „persónulegir munir“ sé átt við séreignir F heldur mun frekar lausafé, sem hafi sérstaka þýðingu fyrir hann.

Það renni jafnframt stoðum undir það að fara skuli með eigurnar á þann hátt sem sóknaraðilar krefjist, að varnaraðili og erfingjar hans hafi farið í sérstakt viður­kenn­ingar­mál til að fá úr því skorið að andvirði hlutabréfa hans í H hf. hafi verið séreign hans, sbr. dóm Hæstaréttar, 17. febrúar 2010, í máli nr. 16/2010. Þar hafi meðal annars komið fram að einn helsti tilgangur með erfðaskránni frá 28. júní 1991 hafi verið að gera hlutabréfin að séreign hans. Af þeim ástæðum sé augljóst að erfða­skráin sé skýr um efni og tilgang. Þar sem orðalag erfðaskrárinnar sé skýrt beri að beita þeirri meginreglu að skýra hana eftir orðanna hljóðan í samræmi við kröfu sókn­ar­aðila.

Þá sé þess krafist sjálfstætt að úthlutun úr dánarbúi G fari ekki fram fyrr en að varnaraðila látnum. Það sé í samræmi við orðalag 2. gr. erfða­skrár­innar, sbr. „[að] hinu langlífara okkar látnu“. Ekki hafi verið færð nein rök fyrir því að víkja eigi þessu ákvæði til hliðar.

Þar sem líklegt sé að eignir komi til úthlutunar við andlát varnaraðila telji sókn­ar­aðilar eðlilegt að úthlutun úr búinu fari fram eftir að 2. gr. erfða­skrár­innar hafi tekið gildi. Það sé almenn regla við búskipti að sú skylda hvíli á skipta­stjóra að hámarka virði eigna búsins. Þannig sé mælt fyrir um, í 2. mgr. 67. gr. laga um skipti á dánar­búum o.fl. nr. 20/1991, að réttindum búsins skuli ráðstafað á sem hag­kvæm­astan hátt. Þessar skyldur geti meðal annars falið í sér að fylgja eftir úti­stand­andi skil­yrtum kröfum. Sú skilyrta krafa sem hér sé uppi geti varðað töluverða hags­muni sókn­ar­aðilum til handa. Varnaraðili hafi hagnast töluvert á við­skiptum undan­farna áratugi og líklegt sé að töluverðar eignir komi inn í búið við andlát hans.

Sóknaraðilar vísa til laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991 og erfðalaga nr. 8/1962. Krafa þeirra um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili mótmælir öllum málsástæðum og lagarökum sóknaraðila. 

Í fyrsta lagi hafnar varnaraðili þeirri kröfu sóknaraðila að úthlutun úr dánarbúi G fari ekki fram fyrr en að varnaraðila látnum. Hann vísar í skýlausan rétt sinn til þess að krefjast skipta á búinu á grundvelli skipta- og erfðalaga sem og á grund­velli erfða­skrár hans og G.

Krafa sóknaraðila sé ekki studd öðrum rökum en þeim að túlka verði 2. gr. erfða­skrár varnaraðila og G þannig að úthlutun úr dánar­búi hennar skuli ekki fara fram fyrr en að varnaraðila látnum. Í 2. gr. erfðaskrár varnaraðila og G sé kveðið á um ákveðna ráðstöfun eigna að hinu langlífara látnu. Þetta ákvæði verði hins vegar að skoða með hliðsjón af 1. gr. erfðaskrárinnar þar sem hinum langlífari maka sé veittur réttur til setu í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum svo lengi sem hinn langlífari maki óski.

Réttur til setu í óskiptu búi hafi það í för með sér að frestað sé að skipta arfi milli erfingja, það er ákvörðun arfshluta og greiðslu þeirra. Sú frestun á búskiptum sé í eðli sínu bráðabirgðaráðstöfun og ávallt komi að því að setu hins langlífara í óskiptu búi ljúki, eigi síðar en við andlát þess sem leyfi hafi fengið til setu í óskiptu búi en leyfi hans kunni einnig að vera afturkallað af fjöl­mörgum ástæðum, sbr. 13. til 17. gr. erfðalaga.

Í 1. mgr. 13. gr. erfðalaga komi til að mynda fram að maki, sem sitji í óskiptu búi, geti krafist skipta hvenær sem er. Markmið þessa ákvæðis sé einkum að girða fyrir að langlífari maki, sem nýti sér rétt til setu í óskiptu búi, þurfi að vera bundinn við óskipta búið ævilangt. Langlífari maki geti sjálfur séð sér hag í að krefjast skipta, þar sem hann hljóti þá arfshlut eftir hið skammlífara og auki þá meðal annars ráð­stöf­unar­hlut sinn með dánargerningi. Hann kunni og að vilja njóta aukins frjálsræðis með eignir sínar, því óneitanlega séu nokkrar skorður reistar við meðferð hans á búseignum meðan hann sitji í óskiptu búi.

Auk þessarar skýlausu heimildar í 1. mgr. 13. gr. erfðalaga sé gert ráð fyrir því í 1. gr. erfðaskrár varnaraðila og G að langlífari maki geti slitið hinu óskipta búi þegar hann óski, en þar segi að hinn langlífari maki skuli hafa rétt til setu í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum svo lengi sem hann óskar. 

Hefði varnaraðili óskað eftir leyfi til setu í óskiptu búi eftir að skiptameðferð hófst og hefði sú ráðstöfun varað til andláts varnaraðila megi ganga út frá því að ráð­stafa hefði átt eignum G og varnaraðila í samræmi við 2. gr. erfða­skrár­innar. Sú grein hafi þó ekki gildi við þær aðstæður sem nú hafi skapast, eins og sóknaraðilar viður­kenni sjálfir í greinargerð sinni.

Varnaraðili áréttar að jafnvel þótt hann hefði óskað leyfis til setu í óskiptu búi hefði hann ávallt átt rétt til þess að krefjast skipta á því eins og áður segi. Undir slíkum kringumstæðum hefði ekki komið til skipta samkvæmt 2. gr. erfða­skrárinnar heldur samkvæmt 1. mgr. 19. gr. erfðalaga þar sem kveðið sé á um það hvernig skuli fara um skipti, fari þau fram í lifanda lífi hins langlífari maka sem fengið hafi leyfi til setu í óskiptu búi.

Með hliðsjón af 1. gr. erfðaskrár varnaraðila og G sé því ekki hægt að ganga út frá öðru en að 2. gr. erfðaskrárinnar eigi einungis við í því til­viki að varn­ar­aðili hefði óskað eftir setu í óskiptu búi og hefði sú skipan mála varað til dánardags hans. Eins og áður segi hafi varnaraðili hins vegar ekki óskað leyfis til setu í óskiptu búi, sbr. 73. gr. skiptalaga. Þá hafi varnaraðili ekki heldur óskað eftir því að greiðslu arfs verði frestað, eins og heimilt sé á grundvelli 35. gr. skiptalaga. Þvert á móti sé reyndin sú að dánarbú G hafi verið tekið til opinberra skipta.

Varnaraðili bendir á að samkvæmt 2. mgr. 67. gr. skiptalaga beri skiptastjóra einkum að gæta þess í störfum sínum að skiptum verði lokið án ástæðulauss dráttar. Í 77. gr. sömu laga sé einnig tekið fram að þegar opinberum skiptum ljúki ekki sam­kvæmt 72.-74. gr. laganna, lýstar kröfur á hendur búinu hafi eftir atvikum verið efndar og eignum þess komið í verð að öðru leyti, skuli skiptastjóri svo fljótt sem verða megi gera frum­varp til úthlutunar úr búinu.

Þá beri jafnframt að líta til þess að töluverðar takmarkanir gildi á ráð­stöf­unar­heim­ildum varnaraðila þar til dánarbúi G hafi verið skipt, sbr. 34., 107. og 108. gr. skiptalaga. Þannig sé kveðið á um það í 108. gr. skiptalaga að meðan opin­ber skipti standi yfir sé skiptastjóri einn bær um að ráðstafa þeim eignum sem komi til skipta og til að taka við þeim eða greiðslu andvirðis þeirra úr hendi þriðja manns. Heim­ildum maka séu því afar þröngar skorður settar, sbr. og 33. til 35. gr. skipta­laga.

Ekki sé með neinu móti hægt að binda varnaraðila við þessa skipan til dánar­dags. Slíkt sé hvorki í samræmi við tilgang og markmið skipta­laga né með nokkru móti hægt að leiða af erfðaskrá að það hafi verið raun­veru­legur vilji arfleiðanda. Þá fáist ekki séð að lagaheimild sé fyrir slíkri skipan í skipta­lögunum.

Með vísan í ofangreint verði því að telja skýrt að ekki sé hægt að skýra 2. gr. erfða­skrár aðila nema með hliðsjón af 1. gr. hennar þar sem kveðið sé á um rétt hins lang­lífari maka til setu í óskiptu búi, eins lengi og hann óski. Þannig sé beinlínis gert ráð fyrir því að hinn langlífari maki geti krafist skipta á búinu. Því sé ekki hægt að ganga út frá öðru en að 2. gr. erfðaskrárinnar eigi einungis við fari skipti fram eftir andlát hins langlífari maka, hafi hann setið í óskiptu búi til dánardags. Umrædd 2. gr. erfða­skrárinnar hafi því ekki áhrif á skipti dánarbúsins enda skilyrði hennar ekki fyrir hendi eins og sóknaraðilar bendi sjálfir á í greinargerð sinni.

Af þessum sökum sé hafnað þeirri kröfu sóknaraðila, að úthlutun úr dánarbúi G fari ekki fram fyrr en að varnaraðila látnum.

Varnaraðili hafnar einnig þeirri kröfu sóknaraðila að úthlutun úr dánarbúi G skuli fara eftir 2. gr. erfðaskrár varnaraðila og G. Hafi sóknaraðilar skilið ákvæðið þannig að eftir andlát varnaraðila muni koma fjármunir í dánarbú G sem þeir eigi rétt á.

Ekki sé deilt um það að sóknaraðilar hafi öðlast hlutdeild í eignum G við andlát hennar, enda séu þeir lögerfingjar hennar í skilningi erfðalaga. Sóknaraðilar eigi hins vegar ekki lögformlegt tilkall til eigna varnaraðila.

Það sé meginregla í erfðarétti að við skýringu á erfðaskrám beri að leitast við að staðreyna þann vilja arfleiðanda sem komi fram í erfðaskrá eða sannað þyki að vakað hafi fyrir arfleiðanda við gerð erfðaskrár. Í erfðaskrá varnaraðila og G sé hins vegar ekki kveðið á um það með hvaða hætti skuli haga skiptum, komi til þeirra í lif­anda lífi hins langlífari maka. Erfða­skráin kveði þannig einungis á um það hvernig haga skuli skiptum að hinu lang­lífara látnu. Arfleiðsluvilji varnaraðila og G undir slíkum kringumstæðum, þ.e.a.s. þegar skipt sé í lifanda lífi hins lang­lífari maka, sé þannig ekki staðfestur með lög­form­legum hætti í umræddri erfðaskrá.

Þar sem arfleiðsluvilji varnaraðila og G sé ekki í erfðaskrá þeirra beri að haga skiptum eins og kveðið sé á um í 1. mgr. 2. gr. erfðalaga þar sem segir að maki erfi 1/3 hluta eigna, þegar börn eru á lífi, en 2/3 hluta skuli börnin erfa að jöfnu. Þess vegna verði að ganga út frá því að varnaraðili erfi 1/3 hluta eigna G en sóknaraðilar 2/3 hluta að jöfnu.

Varnaraðili tekur fram að telja verði tilgang 2. gr. erfðaskrár hans og G hafa verið að tryggja jafnræði með lögerfingjum makanna að þeim báðum látnum, við tilteknar kringumstæður. Ekki fáist hins vegar séð að ákvæðinu hafi verið ætlað að veita sóknaraðilum óskilorðsbundið tilkall til arfs eftir varnaraðila. Sóknar­aðilar eigi þannig ekki sjálfstætt tilkall til eigna eftir andlát varnaraðila hafi dánarbú G áður verið slitið frá búi varnaraðila.

Þá fáist engan veginn séð að tilgangur ákvæðisins hafi verið að skerða rétt hins lang­lífari maka til arfs eftir skammlífari makann, enda séu takmarkanir á slíkri arf­leiðslu á grundvelli 35. gr. erfðalaga.

Í greinargerð sinni vísi sóknaraðilar til þess að sú skylda hvíli á skiptastjóra að hámarka eignir búsins, sbr. 2. mgr. 67. gr. skiptalaga. Sóknaraðilar eigi hins vegar aðeins tilkall til eigna úr dánarbúi G. Það sé því ekki undir skipta­stjóra komið, og ekki á hans valdi, að fresta úthlutun úr dánarbúi G í þeim til­gangi einum að draga eignir varnaraðila inn í dánarbú G, þegar opinber skipti séu nú þegar hafin á dánarbúi G og fyrir liggi að varnar­aðili óski ekki eftir að sitja í óskiptu búi G.

Með vísan til alls framansagðs megi sjá að réttur varnaraðila til þess að krefjast úthlutunar úr dánarbúi G sé skýr. Við slík skipti sé ljóst að ekki sé hægt að byggja á 2. gr. erfðaskrár aðila þar sem ákvæðið eigi aðeins við, við þær aðstæður að eignum G og varnaraðila sé ráðstafað þegar búi þeirra beggja sé slitið að varn­ar­aðila látnum. Því beri að skipta dánarbúi G á grund­velli 2. gr. erfðalaga.

Varnaraðili vísar til erfðalaga nr. 8/1962, einkum 1., 2., 8., 13., 19. og 35. gr. þeirra. Þá vísar hann til laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., einkum 27., 33.-35., 38., 67., 72.-74., 77. og 107.-109. gr. þeirra. Kröfu um máls­kostnað reisir hann á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Niðurstaða

Varnaraðili og síðari eiginkona hans, G, gerðu með sér, oftar en einu sinni, kaupmála og erfðaskrá þar sem þau lýstu vilja sínum til þess hvernig bæri að skipta fjármunum þeirra við skilnað eða andlát. Nú hefur einungis gildi sam­eig­in­leg erfðaskrá, sem þau gerðu 28. júní 1991. Í henni lýsa þau vilja sínum til þess hvernig skuli skipta eignum þeirra að hinu langlífara látnu, hafi það setið í óskiptu búi hins.

Fram er komið að G lést [...] 2004. Áður en fjórir mánuðir voru liðnir frá andláti hennar, 19. janúar 2005, afhentu sóknaraðilar hér­aðs­dómi beiðni um töku bús hennar til opinberra skipta og með úrskurði 11. febrúar það ár var fallist á kröfu þeirra. Það var því val sóknaraðila að koma dánarbúi móður sinnar í þann skiptafarveg sem það er í, opinber skipti. Það var einnig þeirra val að fá ógilt með dómi það séreignafyrirkomulag sem G og varnaraðili höfðu komið á með breyt­ingu kaupmála, gerðri 17. apríl 1996, og skýru arfstilkalli sóknaraðila til sér­eigna hennar samkvæmt erfðaskrá gerðri sama dag, svo og þau fyrirmæli kaupmálans að skipta skyldi búi þeirra eftir andlát hins skammlífara. Sóknaraðilar geta því ekki nú krafist þess að skiptin fari fram eins og þau hefðu aldrei krafist skiptanna og varn­ar­aðili sæti í óskiptu búi, þrátt fyrir að sá erfðagerningur, sem er í gildi, veitti þeim betri rétt sæti varnaraðili í óskiptu búi.

Þrátt fyrir að það sé á valdi stjúpniðja að heimila stjúp­foreldri setu í óskiptu búi látins maka, samkvæmt 2. mgr. 8. gr. erfðalaga nr. 8/1962, sbr. 3. gr. laga nr. 48/1989, hafi hendur stjúpniðjanna ekki áður verið bundnar með erfðaskrá, sbr. 3. mgr. 8. gr., er það aldrei á valdi stjúp­niðja að knýja stjúpforeldri til setu í óskiptu búi látins maka vilji það ekki nýta sér heimild sína samkvæmt 73. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánar­búum o.fl. og 3. mgr. 8. gr. erfðalaga og krefjast þess að fá að sitja í óskiptu búi auk þess sem sýslumaður hefur lokaorðið með útgáfu leyfisbréfs.

Þar sem sýslumaður hefur ekki veitt varnaraðila leyfi til setu í óskiptu búi hefur ekki neina þýðingu þótt varnaraðili búi í því húsnæði sem hefði, hefðu skipti á búi beggja farið fram að honum gengnum, fallið til sóknaraðila. Ekki skiptir heldur máli þótt hann hafi lyklavöld að þeim sumarbústað sem ella félli til sóknaraðila. Þótt tína megi til líkindi, í aðstæðum varnaraðila, við setu langlífari maka í óskiptu búi fá þau ekki breytt því að sýslumaður hefur ekki gefið varnaraðila leyfi til setu í óskiptu búi heldur hefur héraðsdómur þvert á móti úrskurðað að skipta skuli búi látinnar eigin­konu hans opinberum skiptum.

Samkvæmt lögum um opinber skipti á dánarbúum skulu þeir, sem eru falin verk­efni á grundvelli þeirra laga, inna öll verk sín af hendi svo fljótt sem verða má. Þrátt fyrir að það reynist oft erfitt, af mörgum ástæðum, að fylgja þessari meginreglu um hraða málsmeðferð fæst ekki séð að nokkur lagastoð sé fyrir því að draga að ljúka opinberum skiptum á búi látinnar manneskju í því skyni einu að bíða andláts einhvers, sem erfingjar hennar kynnu að eiga tilkall til arfs eftir. Því verður að hafna þeirri kröfu sóknaraðila að dregið verði að skipta dánarbúi móður þeirra, G, þar til eftir­lif­andi eiginmaður hennar, varnaraðili, er fallinn frá.

Sóknaraðilar krefjast þess einnig að viðurkennt verði að þau fái í sinn hlut, við úthlutun úr dánar­búi G, allar eigur hennar og varnar­aðila, hvort sem er hjú­skap­ar- eða séreignir, utan hlutabréfa varnaraðila í H hf., ígildis þeirra hluta­bréfa og per­sónu­legra muna hans.

Eins og áður greinir tóku sóknaraðilar þá ákvörðun, að koma búi móður sinnar í farveg opinberra skipta. Þau tóku jafnframt þá ákvörðun að fá ógilta með dómi breyt­ingu á kaupmála, dags. 17. apríl 1996, þar sem tilteknar eignir voru gerðar að séreign G og tekið fram að skipta skyldi við andlát þess skammlífara, svo og ógilta erfðaskrá sem tryggði þeim einum erfða­rétt að séreignum G. Í þeirri erfðaskrá féll varnaraðili jafnframt frá tilkalli til arfs eftir G.

Eins og áður er komið fram hefur, af þeim kaupmálum og erfðaskrám sem G og varnaraðili gerðu, einungis gildi erfðaskrá, dagsett 28. júní 1991. Ákvæði 2. gr. hennar um skiptingu eigna milli barna hvors um sig miðar við að samtímis sé skipt búi beggja, G og varnaraðila, og þarf ekki að taka fram að það verður aðeins gert að hinu langlífara gengnu. Þar sem sóknaraðilar kröfðust skipta á búi móður sinnar fyrir það tímamark er sú forsenda ákvæðisins að G og varnaraðili séu bæði fallin frá ekki lengur fyrir hendi. Því er vandséð hvernig unnt er að beita ákvæðinu eins og sóknaraðilar krefjast, sem líkist því að fara skuli með bú lifandi manns eins og væri hann látinn. Á meðan varnaraðili er á lífi og hefur ekki afsalað séreignum og hjú­skapareignum sínum til dánarbús G verður ekki tekið tillit til þeirra við skipti á búi hennar. Af þessum sökum verður að hafna þeirri kröfu sókn­ar­aðila að við úthlutun á dánarbúi G komi allar eigur hennar og varn­ar­aðila, hvort sem er hjú­skap­ar- eða séreignir, utan hlutabréfa varn­ar­aðila í H hf., ígildis þeirra hluta­bréfa og per­sónu­legra muna hans.

Í margnefndri erfðaskrá frá 28. júní 1991 eru ekki fyrirmæli um skiptingu eigna milli afkomenda þeirra við aðrar aðstæður en þær að skipti fari fram að hinu lang­lífara látnu og að það hafi á dánardægri setið í óskiptu búi. Þar sem erfðaskráin mælir ekki fyrir um skiptingu eigna við þær aðstæður sem nú hafa skapast, það er við skipti á búi hins skammlífara sérstak­lega, og tiltekinn vilji um skipti við þær aðstæður verður ekki heldur lesinn úr erfðaskránni, verður að skipta búi G samkvæmt fyrir­mælum erfðalaga nr. 8/1962.

Eins og áður er getið hafði varnaraðili afsalað sér tilkalli til arfs eftir G í erfðaskrá gerðri 17. apríl 1996 en hana fengu sóknaraðilar ógilta með dómi. Samkvæmt þeirri erfðaskrá sem hefur gildi hefur varnaraðili ekki afsalað sér tilkalli til arfs. Þar með er ekkert því til fyrirstöðu að fallist sé á þá kröfu varnaraðila að skipta skuli búi látinnar eigin­konu hans, G, samkvæmt fyrirmælum 2. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

Samkvæmt þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 1. mgr. 132. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður að dæma sóknaraðila til að greiða varnaraðila málskostnað óskipt. Þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 500.000 krónur og er virðisaukaskattur þá meðtalinn.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Dánarbúi G, kt. [...], skal skipta í samræmi við fyrir­mæli 2. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

Sóknaraðilar, A, B, C, D og E [...]börn, greiði varnaraðila, F, óskipt 500.000 krónur í málskostnað þar með talinn virðisaukaskatt.