Hæstiréttur íslands

Mál nr. 674/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns
  • Fordæmi


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. desember 2008.

Nr. 674/2008.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir,saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Framsal sakamanns. Fordæmi.

Staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra frá 20. nóvember 2008 um að framselja X til Póllands.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. desember 2008 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2008, þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þess að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda í héraði og fyrir Hæstarétti.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra sem staðfest var með hinum kærða úrskurði var tekin 20. nóvember 2008.

Vegna forsendna og niðurstöðu meirihluta Hæstaréttar 10. desember 2007 í máli nr. 634/2007 er fallist á að skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 sé fullnægt fyrir kröfu sóknaraðila, þar sem refsirammi brotsins sem varnaraðila er gefið að sök er hærri en eitt ár samkvæmt íslenskum lögum.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 og þykja þau hæfilega ákveðin eins og í dómsorði greinir.

 

Dómsorð:

Ákvörðun dóms- og kirkjumálamálaráðherra 20. nóvember 2008 um að framselja varnaraðila, X, til Póllands er staðfest.

Ákvörðun hins kærða úrskurðar um þóknun skipaðs verjanda varnaraðila er staðfest.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2008.

Varnaraðili, X, kt. [...], skaut máli þessu til dómsins með bréfi dags. 25. nóvember 2008.  Hann krefst þess að ákvörðun dómsmálaráðherra þann 20. nóvember 2008 um að framselja hann til Póllands verði felld úr gildi. 

Samkvæmt venjubundinni skýringu á 2. mgr. 13. gr. laga nr. 13/1984 fer ríkissaksóknari með fyrirsvar ríkisins í máli þessu.  Hann krefst þess að ákvörðun dómsmálaráðherra verði staðfest. 

Dómsmálaráðherra barst 11. september 2008 beiðni pólskra yfirvalda um framsal varnaraðila.  Beiðnin er byggð á tvennu.  Annars vegar sé varnaraðili grunaður um að hafa á tímabilinu frá maí til nóvember 2006 tekið þátt í skipulagðri glæpastarfsemi ásamt öðrum mönnum sem hafi haft þann tilgang að dreifa verulegu magni fíkniefna.  Varði sú háttsemi við 1. mgr. 258. gr. pólsku hegningarlaganna.  Hins vegar sé hann grunaður um að hafa í október og nóvember 2006 selt tilgreindum manni a.m.k. 200 g af amfetamíni.  Varði sú háttsemi við 3. mgr. 56. gr. pólsku fíkniefnalöggjafarinnar, sbr. 12. og 1. mgr. 65. gr. pólsku hegningarlaganna. 

Varnaraðila var kynnt framsalsbeiðnin hjá lögreglu 20. október sl.  Sama dag var honum með úrskurði héraðsdóms bönnuð för af landinu til 10. nóvember.  Þann dag var farbann þetta framlengt til 22. desember.  Varnaraðili freistaði þess að fara af landi brott skömmu síðar og hefur hann setið í gæsluvarðhaldi frá 24. nóvember sl. 

Þann 20. ágúst 2008 var gefin út á skrifstofu héraðssaksóknara í Rzeszów í Póllandi tilskipun um að leita skuli að varnaraðila. 

Þann sama dag var gefin út ákvörðun héraðsdóms á sama stað í Póllandi um að varnaraðili skuli sæta varðhaldi í 14 daga eftir að hann hefur verið handtekinn.  Er í ákvörðun þessari vísað til áðurgreinds eftirlýsingarbréfs. 

Varnaraðili kveðst vera saklaus, hann hafi ekki framið þau brot sem lýst er.  Hann bendir á að ekki sé að finna handtökuskipun í úrskurði dómsins.  Þá séu fullyrðingar yfirvalda ekki studdar við fullnægjandi gögn. 

Forsendur og niðurstaða

Þátttaka í skipulagðri glæpastarfsemi felur ekki í sér sérstakt brot samkvæmt íslenskum lögum.  Dugar grunur um slíka háttsemi því ekki til að heimila framsal, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984.  Því þarf ekki að fjalla um þann þátt málsins.  Hins vegar er staðfest í gögnum að varnaraðili er grunaður um sölu á 200 g af amfetamíni, sem að íslenskum lögum teldist brot gegn 2. gr., sbr. 6. og 5. gr. laga nr. 65/1974.  Getur slíkt brot varðað fangelsi allt að sex árum.  Grunur þessi er staðfestur af pólskum yfirvöldum og er ekki á valdi íslenskra dómstóla að leysa úr um sök eða sakleysi varnaraðila.  Með áðurgreindu eftirlýsingarbréfi og ákvörðun um varðhald verður að telja fullnægt skilyrði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984.  Fram eru komin nægileg og haldbær gögn og er fullnægt skilyrðum I. kafla laga nr. 13/1984.  Verður því að staðfesta ákvörðun um framsal varnaraðila. 

Þóknun verjanda verður nú ákveðin fyrir meðferð þessa máls fyrir dómi og hjá lögreglu varðandi framsal varnaraðila, en ekki fyrir störf sama verjanda við fyrirtökur vegna krafna um farbann og gæsluvarðhald.  Verður sú þóknun ákveðin á öðrum vettvangi.  Þóknun verjanda samkvæmt þessu er ákveðin 200.000 krónur með virðisaukaskatti. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun dómsmálaráðherra um að framselja varnaraðila, X, til Póllands, er staðfest. 

Þóknun verjanda, Hilmars Ingimundarsonar, 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.